Persónukjörið sem hvarf

  Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu til fjölmiðla í dag.

Yfirlýsing vegna persónukjörs

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing  átelur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna harðlega fyrir að ætla að ganga á bak orða sinna um persónukjör í komandi alþingiskosningum.

Boðað undanhald ríkisstjórnarinnar í málinu byggir á einni ósannfærandi álitsgerð um að 2/3 hluta atkvæða þurfi til að samþykkja frumvarpið um persónukjör. Það bendir til þess að hugur fylgi ekki máli. Frumvarpið um persónukjör felur í sér eitt varfærnislegt en mikilvægt skref í átt til aukinna áhrifa almennra kjósenda á Íslandi. Auknu lýðræði. Rök sem tínd hafa verið til gegn frumvarpinu - fyrst af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en síðan af þingmönnum stjórnarflokkanna eftir að þeir höfðu sjálfir tryggt sér örugg þingsæti í lokuðum prófkjörum - eiga það sameiginlegt að vera veikburða. Íslensk stjórnvöld brugðust þjóðinni og í kjölfar efnahagshruns er brýnt að verða við kröfunni um aukin áhrif kjósenda.

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing  krefst þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og Framsóknarflokkurinn, efni sín heit við kjósendur, standi við orð sín og afgreiði frumvarpið um persónukjör með einföldum meirihluta á Alþingi eins og lög gera ráð fyrir. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing  mun láta almennum kjósendum eftir að raða frambjóðendum á sínum framboðslistum 25. apríl. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni taki höndum saman við Sjálfstæðisflokkinn og svíki þar með kjósendur um þann valkost sem persónukjör er.

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing.

27. mars 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Þór, held því miður að lögfræðingastóði Íhaldsins hafi tekist að grafa upp lagagrein um að tvo þriðju þurfi til að samþykkja frumvarpið og það sé ástæða þess að stjórnarsinnar "gengu á bak orða sinna" Í mínum huga skiptir mestu að fumvarp um Stjórnlagaþing ná í gegn.  Á stjórnlagaþingi verður stjórnarskrá og kosningareglur endurskoðað og þá munu sjálfkjörnir þingmenn heyra sögunni til, ráðherraræðið sömuleiðis og svo margt annað sem hefur náð á umliðnum árum  að skrumskæla það sem kallað er lýðræði en er í raun flokksræði.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.3.2009 kl. 22:33

2 identicon

Ég er ekki viss um hvort að ég hafi rétt fyrir mér, en mér sýnist þær hugmyndir sem núverandi stjórn um Stjórnlagaþingver á þann veg að þá fara kosningamaskínur flokkana af stað og smala sínum mönnum á það þing og þá fáum við stjórnarskrá sem gætir hagsmuna flokkana ekki fólksins.

Er þetta ekki rétt tilfinning Þór?

Mér hugnast mun betur sú aðferðafræði sem Borgarhreyfingin hefur um val á þetta  Stjórnlagaþing

Mr;Magoo (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 01:22

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Dilemma Íslensks stjórnskipulags í hnotskurn.  Það að láta þá um úrskurðinn, sem skaða eða hag geta haft af honum er eins og að láta dómara dæma í eigin glæp. 

Jón Steinar Ragnarsson, 28.3.2009 kl. 08:17

4 identicon

Þetta kemur nú ekki mikið á óvart.  Þarf ekki nema að lesa kosningalögin til að sjá það að þau eru smíðuð í kringum gömlu flokkana.  Framlag úr ríkissjóð og 5% lágmarkið og önnur skylirði sem vernda þessa flokka.

Hver vill ekki jafnt vægi atkvæða?  Gömlu flokkarnir.

Hverjir vilja sytja einir að framlögum úr ríkissjóði í krafti þess að trúverðugleiki og óþarfa tortryggni skapist ekki um fjármál flokkana og tenging þeirra við einstök fyrirtæki?  Gömlu flokkarnir.

Hverjir þurfa að ná sér í jafn marga meðmælendur þegar bjóða á fram?  ALLIR.

Hverjir eru búnir að reka flokkana eins og léleg fyrirtæki, með bullandi tapi?  Gömlu flokkarnir!

Það sem viðgengst hér á þessu fámenna landi er ekki lýðræði, ekki jafnræði, heldur flokksræði gömlu súru, spilltu flokkanna!!

Ég ætla að kjósa Borgarahreyfinguna.

Kveðja Benni.

Benedikt Kaster (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 11:32

5 identicon

Svona vill Borgarahreyfingin að kjósendur framboðsins fái að gera (hin framboðin treysta ekki kjósendum):

“Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.

Sé listi óraðaður setur kjósandi tölustafinn 1 í ferninginn fyrir framan það nafn sem hann vill að sé í efsta sæti listans, töluna 2 í ferninginn fyrir framan það nafn sem hann vill að sé í næstefsta sæti listans, töluna 3 í ferninginn fyrir framan það nafn sem hann vill að hljóti það þriðja o.s.frv., og setur kjósandi tölur við nöfn eins margra af frambjóðendum listans og hann sjálfur vill. Nýti kjósandi ekki að fullu tölustafina 1, 2, 3 o.s.frv. eða sleppi einhverjum þeirra við tölusetningu frambjóðenda telst hann ekki taka afstöðu til þess hver skipi viðkomandi sæti. Riti kjósandi sama tölustafinn tvívegis eða oftar telst hann ekki heldur taka afstöðu til sætis með því númeri.

Merki kjósandi einungis við listabókstaf en færi engar tölur framan við nöfn frambjóðenda listans telst hann ekki taka afstöðu til þess í hvaða röð þeir skipa sæti listans”

http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0622.pdf

Rómverji (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband