Lýðræðis"umbætur" og sannleiksást Steingríms Joð.

Það eru orðin alveg makalaus ósannindin sem vella upp úr Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og formanni VG. Í miklum greinabálkum sem birst hafa á Smugunni og víðar fer hann mikinn og hælir sjálfum sér á hvert reipi. Verra er að fjölmiðlar birta þennan þvætting mótbárulaust.

Staðhæfingar hans um að samþykkt hafi verið lög á Alþingi sem tryggi faglegar ráðningar hæstaréttar- og héraðsdómara eru t.d. ósannar. Lögin sem samþykkt voru, þvert á ákafa gagnrýni Hreyfingarinnar gera einmitt ennþá ráð fyrir að dómsmálaráðherrra geti áfram náð fram sínum vilja við dómararáðningar þvert gegn vilja fagnefndarinnar. Ráðherrann þarf bara að hafa meirihluta þingsins með sér í málinu, þann meirihluta sem hefur þegar skipað þennan sama ráðherra í embætti. Hér er í raun að vissu marki verið að gera illt verra því það verður enn auðveldara að fela fjórflokkaráðningarnar í dómskerfinu.

Eftirlaunaforréttindin sem hann samþykkti svo greiðlega handa m.a. sjálfum sér hér um árið voru ekki afnumin nema að hálfu leiti og ekki afturvirkt þannig að sá hluti þeirra stendur enn og það var fyrir harðfylgi Valgerðar Bjarnadóttur en ekki VG sem þeim ósóma var þó eitthvað breytt.

Það sem rak mig þó af stað til að skrifa þennan pistil voru ekki hefðbundnar hálf-sannleiks staðhæfingar hans, enda orðinn vanur þeim, heldur ósannindin um lýðræðisumbætur þar sem hann er heldur betur ósvífinn og segir orðrétt:  "Kallinu um aukið lýðræði hefur verið svarað. Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur voru samþykkt og í haust verður kosið til stjórnlagaþings sem hefur það hlutverk að endurskoða stjórnarskránna frá grunni."

Hvorki meira né minna. Lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hann vísar til eru ekki um þjóðaratkvæðagreiðslur heldur um framkvæmd þeirra, þ.e. tæknilega útfærslu á slíkri atkvæðagreiðslu sem yrði samþykkt af meirihluta Alþingis, sem eðli málsins samkvæmt hefði enga, nákvæmlega enga ástæðu til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt eða neitt enda ræður meirhlutinn. Enda var nafni frumvarpsins breytt í meðferð Allsherjarnefndar í "Frumvarp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna." Í samningaviðræðum um þingmál við lok vorþingsins kom oft fram hjá SJS að hann (og Jóhanna líka) er mótfallin því að þjóðin fái að segja álit sitt á þeim drögum að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaþingið mun skila af sér áður en Alþingi fær þau til meðferðar. Algerlega mótfallin því. Hvers vegna gat hann ekki svarað en hann vill greinilega að sá meirihluti sem nú situr á þingi geti hrært fram og til baka í því sem stjórnlagaþingið sendir frá sér, án þess að almenningur hafi tækifæri til að segja álit sitt á því fyrst. Hann er einnig mótfallinn því að almenningur fái að greiða nýrri stjórnarskrá atkvæði grein fyrir grein, eða samhangandi greinum þar sem við á. Heldur skal almenningur, alveg eins og þegar Danakóngur tróð inn á okkur sinni stjórnarskrá, segja já við öllu plagginu, eða því verður hent. Þess utan að frumvörp um persónukjör hafa ekki náð fram að ganga einmitt vegna andstöðu hans sjálfs.

Og svo segir svo formaður VG að búið sé að svara kallinu um aukið lýðræði. Það sem blasir hins vegar við er að formaður VG er orðinn svo illa haldinn af "Hubris" heilkenninu að hann gerir ekki lengur greinarmun á réttu eða röngu og segir einfaldlega það sem honum persónulega hentar hverju sinni.

Þegar haft er í huga að sólin var varla sest fyrsta daginn eftir upphaf minnihlutastjórnar Samfó, VG og Framsóknarflokks þega SJS og Jóhanna byrjuðu að fara á bak við Framsóknarflokkinn með ICESAVE málið. Þegar haft er í huga hvernig kjósendur voru skipulega blekktir í aðdraganda kosninganna með sama ICESAVE mál og allan hálfsannleikann sem hefur fylgt með því og í kjölfarið á því. Þegar haft er í huga hvernig leyndarhyggja stjórnsýslunnar undir forystu þeirra hefur reynt að þaga í hel upplýsingar um myntkörfulánin hvers sannleikur hefði bjargað þúsundum frá ómældum erfiðleikum og örvinglan. Og þegar haft er í huga spuninn og óheilinding varðandi Magma málið. Þá er ekki nema eðlilegt að álykta (þótt aðeins fátt eitt hafi verið talið) að það hafi í raun aldrei verið skipt um stjórnvöld hér eftir kosningarnar að Jóhanna og Steingrímur séu bara önnur nöfn á Geir Haarde og Árna Math.

Það var oft sagt um Geir Haarde að þolinmæði hans í skugganum af Davíð öll þessi ár væri vísbending um eitthvað allt annað en hæfan eftirmann og leiðtoga. Það sama má svo sannarlega segja um Steingrím J. Öll þessi ár hans í skugga Davíðs og svo Geirs eru sannarlega ekki vísbending um hæfan eftirmann eða leiðtoga heldur mann sem fyrst og fremst vill að sinn tími sé kominn og fyrir hverjum allt annað en það verður aukaatriði.

Þótt Hubris heilkennið hafi einkennt margan íslenskan ráðherrann gegnum tíðina held ég að SJS sé sá sem það hefur farið verst með. Það illa að ég er kominn á þá skoðun að vera hans á ráðherrastóli sé verulegt áhyggjuefni. Vandræðin í ríkisstjórnarsamstarfinu stafa ekki af einhverjum fjórum eða fimm VG liðum heldur eru alfarið vegna ofríkis og oflætis Steingríms. Losi þau sig við hann lagast margt.

Nánari upplýsingar um Hubris syndrome er að finna í bókunum  og "The Hubris Syndrome: Bush, Blair and the Intoxication of Power" og "In Sickness and in Power, Illnesses in heads of government during the last 100 years." Höfundur er David Owen (nú Owen lávarður) ráðherra og þingmaður til margra ára í Bretlandi. Önnur þörf lesning á hættum hálf-sannleikans er í kverinu "On Bullshit" eftir bandaríska heimspekinginn Harry G. Frankfurt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo 100% rétt hjá þér Þór. 

Og sýnir fram á, eina ferðina enn, mikilvægi þess að aðskilja Framkvæmdavaldið frá Løggjafanum. Svo Løggjafavaldið geti haldið úti virku aðhaldi á Ráðherra sem misnota aðstøðu sína svona og ljúga trekk í  trekk að þjóðinni.

Annars ef að svona stór hluti þjóðarinnar heldur áfram að trúa áróðrinum sem vellur frá þeim skøtuhjúum, og velur þeirra flokka aftur í næstu kosningum.  Þá svei mér þá, á þessi blinda þjóð ekkert betra skilið.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 16:19

2 identicon

Góð lýsing Þór.

Eiginlega er það stórmerkilegt og rannsóknarefni hvað SJS hefur umpólast eftir að hann komst í ráðherrastól. Ef einhver hefði sagt mér að hann ætti eftir að ljúga svona að þjóðinni og koma eins ómerkilega fram, eins og hann hefur berað sig að, þá hefði ég sagt viðkomandi að leita sér hjálpar...

Eða Jóhanna - sjálf "verndari lítilmagnans"- eins og hún sjálf hefur lýst yfir til dæmis ... er hún það ??

Það er leitun að ráðherrum sem hafa gefið þjóðinni á jafn sterkann hátt í skyn hvað þeim er nákvæmlega sama um afdrif og velferð fólksins eins og sjá má af framkomu ráðherra núverandi ríkisstjórnar fram að þessu. Það fer ansi lítið fyrir mannúðinni hjá þeim finnst mér.

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2010 kl. 00:39

3 Smámynd: Jón Þór Helgason

Sæll Þór,

 ég er sammála þér í því sem þú segir í þessari færslu. En snúum okkur núna að líðræðisást þinni;

Hvernig ætlar þú sem þingmaður að fallast á þeim tíma sem Ísland er í viðræðum í ESB eigum við að taka upp allt regluverk þess sömu stofnuar svo að þegar til þjóðaratkvæðaagreiðslu kemur mun ekkert vera eftir en að íta á Enter?

Er það lýðræði?  Ertu þarna ekki farinn að blanda inní þínum skoðunum á að ESB sé gott fyrir Ísland, óháð lýðræði?

Jón Þór Helgason, 30.8.2010 kl. 23:47

4 Smámynd: Þór Saari

Sæll Jón Þór.

Ég hef einmitt hvatt til að þetta mál verði aftur tekið fyrir í þinginu. Sjálfur hef ég ekki ákveðið mig varðandi ESB.

Þór Saari, 31.8.2010 kl. 21:43

5 Smámynd: Jón Þór Helgason

Sæll Þór,

takk fyrir svarið. ég persónulega hef ekki trú á að við náum að ganga í ESB. ég héld að áhugi okkar minnki þegar ástandið í Evrópu versnar frekar.  Mér finnst hinsvegar súrt að það sé verið að breyta lögum til að þóknast ESB í samningaferlinu.

 Þú sem hagfræðingur hlýtur að sjá hversu tilgangslaust er að ganga í ESB þegar miklar líkur eru á að bankakerfi ESB hrynji eins og hér.  Bankar með 10% eigið fé þola ekki 20% lækkun fasteignaverðs.

 kv.

Jón Þór

Jón Þór Helgason, 31.8.2010 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband