Stjórnlagaþingið

Eins og fram kom í færslunni hér á undan mætti höfundur á fund Sérnefndar um stjórnarskrármál  á miðvikudaginn. Neðangreint eru athugasemdir við frumvarpið sem settar voru fram á fundinum. Þess má geta að neðangreindar tillögur og athugasemdir eru einnig hluti af stefnu Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing eða XO.is

 

Athugasemdir við

Frumvarp til stjórnskipunarlaga

um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

1. grein.

1. málsgrein hljóði svo:  Allar náttúruauðlindir eru þjóðareign. Þ.e. ákvæði um náttúruauðlindir háðar einkaeignarrétti falli út.  Rökin eru að íslensk ákvæði og íslenskar hugmyndir um einkaeignarétt á auðlindum, hvort sem um er að ræða ár, vötn, land, fiskimið o.s.frv. ganga mjög langt og miklu mun lengra en þekkist víðast hvar í öðrum löndum þar sem mjög víða falla allar náttúruauðlindir undir þjóðareign en eru með e.k. langtíma nýtingarrétti fyrir notanda, t.d. bónda.

3. grein.

1. málsgrein breytist þannig að í stað kröfu 15 af hundraði kjósenda um þjóðaratkvæðagreiðslu verði miðað við 7 af hundraði.  Rökin eru að 15 af hundraði er mjög stór hópur fólks, sennilega á bilinu 25.000 til 30.000 og mjög erfitt að ná saman slíkum fjölda í praxís þótt menn geti gefið sér að slíkur fjöldi væri á sama máli.  Lægri tala myndi ýta undir aðhald að valdinu og einnig gefa þjóðinni meiri möguleika á beinu lýðræði.

4.grein.

1. málsgrein breytist þannig að út falli:

Stjórnlagaþing skal skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu fulltrúa á þingið og skipulag þingsins skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum alþingiskosningum vorið 2009.

Einnig fellur út:

Þingið skal ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011.

Einnig fellur út:

Skal þá 2/3 hluta fulltrúa á stjórnlagaþingi til að samþykkja fumvarpið....

Það er grundvallaratriði við ritun stjórnarskrár að tilstuðan stjórnlagaþings að val á þingið sé lýðræðislegt og endurspegli vilja almennings.  Þessi grein frumvarpsins er meingölluð þar sem fjöldi fulltrúa er eins og dregin upp úr hatti og valið á þeim mun setja í gang kosningasirkus sem gerir út af við alla þá sem ekki hafa aðgang að kosningamaskínum stjórnmálaflokkana, digrum sjóðum, eða eru þekktar fjölmiðlafígúrur.  Samkvæmt frumvarpi til laga í fylgiskjali með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hver frambjóðandi til stjórnlagaþings þurfi a.m.k. 50 meðmælendur sem þurfa tvo votta hver með meðmælum sínum. Það er augljóst að hinn venjulegi Jón Jónsson með fjölskyldu fer ekki út að loknum vinnudegi til að afla slíkra undirskrifta heldur munu aðilar með aðgengi að flokksmaskínum, félagasamtökum eða peningum hafa yfirburðaraðstöðu til að bjóða fram. Við sjáum fram á að gamlir afskifaðir þingmenn, sendiherrar á eftirlaunum, auðmenn og fjölmiðafígúrur muni taka yfir stjórnlagaþingið og á endanum jafnvel búa til verri stjórnarskrá en við búum við í dag. Þetta atriði þarf að fara út og það þarf að fjalla betur um val á stjórnlagaþingið.

Starfstími til tveggja ára allt of langur. Stjórnlagaþing getur hæglega nýtt sér alla þá vinnu sem stjórnarskrárnefnd hefur þegar lagt fram, fengið aðstoð sérfræðinga og lokið ritun stjórnarskrár á fjórum til sex mánuðum í fullu starfi.

Hvað varðar 2/3 hluta samþykki þá á Alþingi að sjálfsögðu að vera umsagnaraðili, en umsagnaraðili eingöngu. Það gengur augljóslega ekki að sitjandi þing (meirihluti þess) segi stjórnarskrárnefnd fyrir verkum. Hér hafa verið höfð endaskipt á hlutverkum og greinilegt að flutningsmenn frumarpsins vilja að þetta verði stjórnlagaþing stjórnmálaflokkana, og þá væntanlega þess meirihluta sem situr þá, en ekki stjórnlagaþing sem semur nýja stjórnarskrá á eðlilegum forsendum með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi.

 

Fylgiskjal, Frumvarp til laga um stjórnlagaþing (drög).

Samtök um lýðræði og almannahag  telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við. Til vara leggja Samtök um lýðræði og almannahag til eftirfarandi:

I. Kafli, 2. grein falli út.

Kaflar II, III, og IV falli allir út.

 

Tillögur Samtaka um lýðræði og almannahag  varðandi val á stjórnlagaþing eru:

Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis.  Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.

Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum.  Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.

Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum.  Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á 4-6 mánuðum, drögin send til umsagnar hjá Alþingi, hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og hjá tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.

Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.

 

Samtök um lýðræði og almannahag, 19. mars, 2009.

Þór Saari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband