Fjármál stjórnmálaflokka eftir hrun

Í dag fór fram umræða um fjármál stjórnmálafloka og kom í ljós að Alþingi ætlar með stuðningi allra þingmanna nema Hreyfingarinnar að festa enn frekar í sessi það fyrirkomulag sem var í fjármálum stjórnmálaflokka fyrir hrunið og sem skýrsla Rannsókanrnefndar Alþingis varaði sérstaklega við.

Það var einu orði sagt ömurlegt að fylgjast með viðhorfi Alþingismanna til grunvallar siðferðisspurninga og þeir féllu allir á prófinu. Það Alþingi (þ.e. þeir þingmenn) sem nú situr mun ekki takast á við þá endurreisn sem þarf hér á landi heldur eingöngu hugsa fyrst og fremst um sjálft sig.

Oj bara!

Hvað um það, hér eru tenglar á umræðuna sem var í meira lagi furðuleg. Hún skiptist í tvennt, fyrir hádegið og eftir hádegið.

Eins var ég með fyrirspurn til menntamálaráðherra í s.k. óundirbúnum fyrirspurnartíma í morgun um fjölmiðla og RÚV, sjá hér.


Ríkisstjórnin og stjórnskipulegt kennitöluflakk

Þá er leikritið byrjað að nýju. Þingfundir lokalotu sumarþingsins hófust í dag og standa í tvær vikur til 15. september. Störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra var á dagskrá. Umræða í um tvo tíma og í þremur umferðum þar sem ég talaði tvisvar vegna fjarveru Birgittu. Mitt álit á ráðherraskiptunum var á þá leið að um stjórnskipulegt kennitöluflakk væri að ræða þar sem skipt væri um kenntölu á ráðherraembættum, skuldirnar skildar eftir á gömlu kennitölunni og sú nýja ætti að gefa einhvers konar von um nýtt upphaf.

Hvað um það.

Hér eru linkarnir á ræðuna sem er tvískipt. Eins set ég inn link á ræðu Margrétar og á ræðu Guðmundar Steingrímssonar sem hitti beint í mark. Þar fyrir neðan er svo ræðan í heild sinni en ég vék aðeins af leið í talaða málinu.

Ræðan mín, fyrri hluti,  seinni hluti. Ræða Margrétar og ræða Guðmundar.

Ræðan skrifuð:

Ræða vegna munnlegrar skýrslu forsætisráðherra 2. september 2010.

Virðulegur forseti.

Við ræðum hér skýrslu hæstvirts forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Frá því að þinghaldi lauk hér í júní síðastliðnum hafa margir atburðir gerst sem gáfu ríkisstjórninni tækifæri til að stíga fram úr því skuggahorni sem hún hefur haldið sig í þegar almannahagsmunir eru annars vegar. Því  miður hefur ríkisstjórnin þó kosið í staðinn að standa áfram vörð um hagsmuni fjármagnseigenda í stað hagsmuna almennings í flestum málum.

Til að reyna að fegra þetta afleita framferði er nú gripið til flókins ráðherrkapals til að halda friðinn á stjórnarheimilinu. Ný tilkynntar breytingar á ríkisstjórninni munu þó ekki breyta neinu og eru í raun ekkert annað en stjórnskipunarleg útfærsla á kennitöluflakki, aðferð sem alþekkt er í viðskiptalífinu. Skipt er um kennitölur á ráðherraembættum og skuldirnar skildar eftir á gömlu kennitölunni sem almenningur þarf svo að greiða, samanber afglöp fyrrverandi efnnahags- og viðskiptaráðherra vegna myntkörfulánanna, og nýrri kennitölu er svo flaggað sem einhvers konar nýju upphafi.

Með þessu er ég þó ekki að lasta hina nýju ráðherra sem ég óska til hamingju með upphefðina. Þeir eru í einhverjum skilningi réttir menn á réttum stað. Þeir munu þó því miður fljótt gleyma því að þeir eru bara áfram peð í valdatafli stjórnmálaflokka hverra eðli og tilgangur er að viðhalda sjálfum sér umfram allt annað. Í því samhengi er ráðherratitill því lítið annað en hégómi einn.

Í janúar 2009 mættu þúsundir íslendinga hér fyrir utan Alþingishúsið í hádegishlé sínu til að mótmæla sitjandi ríkisstjórn hverra sumir ráðherrar og stjórnarþingmenn eru hér enn. Krafan var meðal annars víðtækar lýðræðisumbætur vegna þess að fólkið var búið að fá nóg af þingmönnum sem misfóru með það framselda vald sem þeim var treyst fyrir. Fólkið hafði sigur að lokum þegar eftir sex sólahringa ríkisstjórnin hrökklaðist frá, stofnuð var minnihlutastjórn og boðað til þingkosninga.

Í þeim kosningum voru loforð um lýðræðisumbætur mjög algeng og hátt á blaði hjá öllum stjórnmálaflokkum og var framboð Borgarhreyfingarinnar, síðar Hreyfingarinnar með það markmið sem kjarnann í sinni stefnuskrá. Því miður hefur orðið lítið um efndir síðan ný ríkisstjórn tók við. Þótt lög hafi verið samþykkt um stjórnlagaþing og með því fyrirheit um nýja, betri og lýðræðislegri stjórnarskrá, þá hefur tregða Alþingis og þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni ekki leitt til samþykkis frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslur sem fyrst Borgarahreyfingin og síðar Hreyfingin hafa lagt fram tvisvar. Frumvörp hæstvirts forsætisráðherra sjálfs um persónukjör hafa heldur ekki náð fram að ganga vegna andstöðu innan eigin þingflokka. Þar er á ferð sama sagan og endranær, það að þingmenn hugsi fyrst um sjálfa sig og sín sæti, svo flokkinn og svo kannski almenning. Frumvarp Hreyfingarinnar um fjölgun í sveitastjórnum náði heldur ekki fram að ganga en í meðferð þess í þinginu kom hins vegar skýrt fram að skoðun fjölda þingmanna á lýðræði er hreint út sagt alveg stór furðuleg.

Stórkostlegust eru þó ummæli hæstvirts fjármálaráðherra í sex greina bálki sem hann birti nýlega, um að lög um þjóðaratkvæðagreiðslur hefðu tekið gildi og kalli búsáhaldabyltingarinnar um lýðræðisumbætur hefði verið svarað. Þetta er einfaldlega ekki satt og þar má sá hæstvirtur ráðherra hafa skömm fyrir að vera ekki búinn að biðjast afsökunar og leiðrétta mál sitt.

Vissulega er vonarglæta fólgin í lögum um stjórnlagaþing og því ferli sem drög að nýrri stjórnarskrá þurfa að fara í gegnum. Það er mikil von bundin við stjórnlaganefndina, við þjóðfundinn og við stjórnlagaþingið sjálft þótt vissulega hafi blossað upp gagnrýnisraddir á þá þætti sem Hreyfingin benti á strax í upphafi að mættu fara betur. Sérstaklega er varhugaverð sú staða sem getur komið upp ef niðurstaða stjórnlagaþingsins er ekki borin undir álit þjóðarinnar áður en Alþingi fær niðurstöðuna til meðferðar. Ég hef nefnilega heyrt það á sumum þingmönnum að þeir geta varla beðið með að fá að krukka í niðurstöðu stjórnlagaþingsins, og við vitum hvað það þýðir. Því er það einboðið og algerlega nauðsynlegt að útkoma stjórnlagaþingsins fari í dóm þjóðarinnar fyrst. Fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu grein fyrir grein eða samhangandi greinar, svo Alþingi sé ljós vilji þjóðarinnar áður en þingmenn og þau hagsmunaöfl sem stjórna sumum þeirra ná að læsa í hana tönnunum.  Að öðrum kosti mun það samráð og sú samræða sem þarf að eiga sér stað milli þings og þjóðar ekki vera nema hjóm eitt.

Á því þingi sem nú sér fyrir endan á eftir um tvær vikur hafa verið lögð fram mörg mál. Því miður hafa fjölmörg merkileg mál ekki fengið þann framgang sem þau eiga skilið en þess í stað hafa ýmis afleit mál ríkisstjórnarinnar náð fram. Mál sem ganga fyrst og fremst út á það að forsætisráðherra hæstvirtur geti hakað við hundrað mála listann sinn. Hér hefur ríkisstjórnin sóað tíma þingsins og þingið beygt sig í duftið.

Hér má nefna lög um dómstóla og skipan dómara sem eru blekking ein. Lög um umhverfis- og auðlindaskatt frá síðust fjárlagagerð sem fjármálaráðherra barðist fyrir en eru ekkert annað en neysluskattur á almennning. Þar er Ísland er sennilega fyrsta landið í heiminum til að skilgreina auðlindaskatta með þessum fráleita hætti. Lög um siðareglur stjórnarráðsins hvers frumvarp var samið fyrir embættismenn, um embættismenn og af embættismönnum, þeim sömu siðvitu og grandvöru mönnum og stuðluðu að hruninu með aðgerðum sínum. Hér og má og nefna frumvarp um Stjórrnaráð Íslands sem Allsherjarnefnd afgreiddi nýlega en það frumvarp gerir ekki ráð fyrir neinni hagræðingu, neinni endurskipulagningu á vinnu, né neinum sparnaði og varð á endanum ekki nema háft frumvarp vegna andstöðu Vinstri-Grænna við atvinnuvegaráðuneytið.

Alvarlegast hér er þó frumvarp fjórflokksins um fjármál stjórnmálaflokka sem er ný afgreitt úr Allsherjarnefnd. Í því frumvarpi er ennþá gert ráð fyrir nafnlausum framlögum til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem og fjárframlögum frá fyrirtækjum.

Skýrsla rannsókanarnefndar Alþingis sem virðulegur forseti lofaði svo mjög, segir orðrétt um samspil peninga og stjórnmála, með leyfi forseta: "Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna." "Leita þarf leiða til að draga skýrari mörk milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunisins."

Þrátt fyrir þessa ákveðnu niðurstöðu í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar og þrátt fyrir áköf andmæli fulltrúa Hreyfingarinnar í Allsherjarnefnd fékk þetta mikilvæga mál enga efnislega umfjöllun í nefndinni og því var hafnað að fá að fá gesti á fund nefndarinnar. Því var líka hafnað að bíða niðurstöðu þingmannanefndarinnar um málið. Fjórflokkurinn, gæslufélag sinna eigin pólitísku hagsmuna hefur einfaldlega hafnað því að skýrsla Rannsóknarnefndarinnar hafi eitthvað vægi þegar kemur að peningum til þeirra eigin flokka. Peningaþörf flokkana og þar með þingmanna flokkana, skiptir meira máli en gagnsæi og lýðræði. Menn gera hvað sem er til að geta verið áfram í pólitík og ef flokkurinn skuldar, eins og til dæmis Framsókanarflokkurinn vel á annað hundrað milljónir, þá er það það eitt sem skiptir máli.

Ef þetta frumvarp verður afgreitt óbreytt sem lög þá mun áfram vera til staðar sama umhverfi og sama samspil peninga, viðskiptalífs, leyndar og stjórnmála og var fyrir Hrunið og sem var sú eitraða blanda spillingar  sem átti svo stóran þátt í því, og þá má Alþingi hafa skömm fyrir. Í kjölfarið munu svo þeir þingmenn sem hrökkluðust út af þingi vegna vafasamra fjármálatengsla, þau Illugi Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skríða aftur hér inn á þing eins og ekkert hafi í skorist og bræðralag fjórflokksins mun taka á móti þeim. Aðrir lagsbræður þeirra, þeir algerlega forhertu sem engu skeyta munu einnig sitja hér glaðhlakkalegir áfram. Það má þó háttvirtur fyrrverandi þingmaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir eiga að hún hafði bæði siðvit til að hverfa af þingi og kjark til að loka á eftir sér. Hafi hún þökk fyrir það.

Skuldavandi heimilanna er enn aðal vandamálið í íslensku samfélagi og þar hefur ríkisstjórnin því miður brugðist illa enn eina ferðina. Gengistrygging lána hefur verið að hluta til dæmd ólögleg og sandi kastað inn í gangverk þeirrar fjármálamaskínu fjármagnseigenda sem ríkisstjórninni er svo umhugað um. Það má þó ríkisstjórnin eiga að hún var ekki lengi að vakna og ganga erinda fjármálafyrirtækjanna hjartkæru, og hafa ráðherrar hennar meira að segja linnulítið reynt að hafa áhrif á Hæstarétt Íslands og dómsúrskurði hans með málflutiningi sínum.

Komið hefur í ljós að innan stjórnsýlsunnar voru til a.m.k. þrjú lögfræðiálit síðan á vormánuðum 2009 sem öll voru á sama veg, þ.e. að gengistrygging lána væri ólögleg. Samt ákváðu stjórnsýslan og ráðherra efnahagsmála að gera ekkert í málinu og þaga það frekar í hel með villandi málflutningi, hálf-sannleik og undanslætti. Í því efni var þessi þingsalur ekki einu sinni vettvangur sannleikans. Þrátt fyrir að þúsundir manna og kvenna væru með gengistryggð lán og að vitað væri að fjármálafyrirtæki gengu fram af mikilli hörku með aðfarar- og gjaldþrotabeiðnum, gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi fólks væri að missa heimili sín og landflótti vegna fjárhagsvandræða væri staðreynd, gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að slík óvissa myndi draga verulega á langinn lausn á skuldavanda fjölda fólks, gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að framhald á óbreyttu ástandi gæti leitt til nánast óleysanlegrar flækju og kostað ríkissjóð stórfé, gerðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert.

Þá hafa fundir efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með hlutaðeigandi ráðherrum og stofnunum einfaldlega staðfest það, að það hvarflar ekki að þeim, hvorki ráðherrunum né stofnunum hverjir hagsmunir almennings gætu verið í þessum málum, hvað þá heldur að það þurfi að gæta þeirra.

Þetta aðgerðarleysi, hverra afleiðingar hafa meðal annars leitt til hörmunga sem aldrei verða afturkallaðar, er algerlega ófyrirgefanlegt. Svona ráðslag og svona stjórnsýslu verður einfaldlega að uppræta og það er á ábyrgð Alþingis að gera það.

Það mál sem enn stendur eftir sem eitt brýnasta úrlausnarefni í efnahagsmálunum er verðtryggingin. Verðtryggingin, sem gefur fjármagnseigendum bæði belti og axlabönd hefur farið ver með íslensk heimili en nokkuð annað. Nú í annað skipti á rúmum tuttugu árum eru þúsundir fjölskyldna komnar í alvarleg fjárhagsvandræði vegna þess að efnahagsstjórnin fór úr böndunum. Flokkspólitískur Seðlabanki og flokkspólitísk stjórnsýsla spilaði með og samfélagið allt er í sárum. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna þess að verð á tómatsósu hækkar er fáránlegt. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna þess að veðurstofa Bandaríkjanna spáir mörgum fellibyljum í haust er fáránlegt. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna skógarelda í Rússlandi er fáranlegt.

Tenging skulda við neysluverðsvísitölu með þeim hætti sem gert er hér á landi er einsdæmi í heiminum. Vísitala neysluverðs mælir hækkun á matvöru og neysluvarningi og annan kostnað af því að vera til og ætti því, ef einhver rökleg hugsun væri að baki, að sjálfsögðu að hafa áhrif til hækkunar launa ef eitthvað er. En hér eins og í svo mörgu öðru hefur Alþingi tekist að snúa hlutunum á haus, algerlega á haus. Og vegna sérhagsmunagæslu þingmanna er ómögulegt að bregða af leið og breyta þessu. Verðtryggingin er enn einn dapurlegur vitnisburður um hvernig sérhagsmunir, og hér á ég við peningalega hagsmuni, hafa náð undirtökum í efnahgsaðgerð sem upphaflega var hugsuð til hagsbóta fyrir almenning en var snúið upp í andhverfu sína af bröskurum með ítök í stjórnmálaflokkum. Kvótakerfið og framsal aflaheimilda er annað dæmi um slíkt. Það væri lengi hægt upp að telja, en þessu fyrirkomulagi sér því miður ekki fyrir endann á.

Þessi ríkisstjórn sem nú situr mun ekki hafa þann kjark og þá yfirsýn sem þarf til endurreisnar Íslands undir þeirri forystu sem hún býr við. Þeir þingflokkar og Alþingismenn sem styðja ríkisstjórnina eru hins vegar eina von almennings um að á Íslandi verði í framtíðinni búsældarlegt, réttlátt og sanngjarnt samfélag. Lýðræði þar sem frelsi, jafnrétti og bræðralag verður í heiðri haft.

Til þess að slíkt gerist þarf hins vegar blöndu af skynsemi og róttækni en þau orð, róttæk skynsemi, eru einmitt kjörorð Hreyfingarinnar. Því miður býr forysta þessarar ríksstjórnar ekki svo vel.

Ég hlýt því að ljúka orðum mínum á því að hvetja þingmenn og ráðherra til að glepjast ekki af hégómanum sem fylgir völdum og sljóvgast, heldur að standa fastir á því að stokka enn frekar upp í ríkisstjórninni, taki inn fleiri flokka, þó ekki Sjálfstæðisflokkinn, og gefa æðsta forystufólkinu, parinu sem verið hefur á þingi í samfellt sextíu ár, frí frá störfum.

Það og það eitt er mikilvægast af öllu.

Góðar stundir.


Fjórflokkurinn og Hrunið

Meðfylgjandi er linkur á yfirlýsingu okkar um fjármál Fjórflokksins.
mbl.is Gagnrýna afgreiðslu allsherjarnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðis"umbætur" og sannleiksást Steingríms Joð.

Það eru orðin alveg makalaus ósannindin sem vella upp úr Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og formanni VG. Í miklum greinabálkum sem birst hafa á Smugunni og víðar fer hann mikinn og hælir sjálfum sér á hvert reipi. Verra er að fjölmiðlar birta þennan þvætting mótbárulaust.

Staðhæfingar hans um að samþykkt hafi verið lög á Alþingi sem tryggi faglegar ráðningar hæstaréttar- og héraðsdómara eru t.d. ósannar. Lögin sem samþykkt voru, þvert á ákafa gagnrýni Hreyfingarinnar gera einmitt ennþá ráð fyrir að dómsmálaráðherrra geti áfram náð fram sínum vilja við dómararáðningar þvert gegn vilja fagnefndarinnar. Ráðherrann þarf bara að hafa meirihluta þingsins með sér í málinu, þann meirihluta sem hefur þegar skipað þennan sama ráðherra í embætti. Hér er í raun að vissu marki verið að gera illt verra því það verður enn auðveldara að fela fjórflokkaráðningarnar í dómskerfinu.

Eftirlaunaforréttindin sem hann samþykkti svo greiðlega handa m.a. sjálfum sér hér um árið voru ekki afnumin nema að hálfu leiti og ekki afturvirkt þannig að sá hluti þeirra stendur enn og það var fyrir harðfylgi Valgerðar Bjarnadóttur en ekki VG sem þeim ósóma var þó eitthvað breytt.

Það sem rak mig þó af stað til að skrifa þennan pistil voru ekki hefðbundnar hálf-sannleiks staðhæfingar hans, enda orðinn vanur þeim, heldur ósannindin um lýðræðisumbætur þar sem hann er heldur betur ósvífinn og segir orðrétt:  "Kallinu um aukið lýðræði hefur verið svarað. Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur voru samþykkt og í haust verður kosið til stjórnlagaþings sem hefur það hlutverk að endurskoða stjórnarskránna frá grunni."

Hvorki meira né minna. Lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hann vísar til eru ekki um þjóðaratkvæðagreiðslur heldur um framkvæmd þeirra, þ.e. tæknilega útfærslu á slíkri atkvæðagreiðslu sem yrði samþykkt af meirihluta Alþingis, sem eðli málsins samkvæmt hefði enga, nákvæmlega enga ástæðu til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt eða neitt enda ræður meirhlutinn. Enda var nafni frumvarpsins breytt í meðferð Allsherjarnefndar í "Frumvarp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna." Í samningaviðræðum um þingmál við lok vorþingsins kom oft fram hjá SJS að hann (og Jóhanna líka) er mótfallin því að þjóðin fái að segja álit sitt á þeim drögum að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaþingið mun skila af sér áður en Alþingi fær þau til meðferðar. Algerlega mótfallin því. Hvers vegna gat hann ekki svarað en hann vill greinilega að sá meirihluti sem nú situr á þingi geti hrært fram og til baka í því sem stjórnlagaþingið sendir frá sér, án þess að almenningur hafi tækifæri til að segja álit sitt á því fyrst. Hann er einnig mótfallinn því að almenningur fái að greiða nýrri stjórnarskrá atkvæði grein fyrir grein, eða samhangandi greinum þar sem við á. Heldur skal almenningur, alveg eins og þegar Danakóngur tróð inn á okkur sinni stjórnarskrá, segja já við öllu plagginu, eða því verður hent. Þess utan að frumvörp um persónukjör hafa ekki náð fram að ganga einmitt vegna andstöðu hans sjálfs.

Og svo segir svo formaður VG að búið sé að svara kallinu um aukið lýðræði. Það sem blasir hins vegar við er að formaður VG er orðinn svo illa haldinn af "Hubris" heilkenninu að hann gerir ekki lengur greinarmun á réttu eða röngu og segir einfaldlega það sem honum persónulega hentar hverju sinni.

Þegar haft er í huga að sólin var varla sest fyrsta daginn eftir upphaf minnihlutastjórnar Samfó, VG og Framsóknarflokks þega SJS og Jóhanna byrjuðu að fara á bak við Framsóknarflokkinn með ICESAVE málið. Þegar haft er í huga hvernig kjósendur voru skipulega blekktir í aðdraganda kosninganna með sama ICESAVE mál og allan hálfsannleikann sem hefur fylgt með því og í kjölfarið á því. Þegar haft er í huga hvernig leyndarhyggja stjórnsýslunnar undir forystu þeirra hefur reynt að þaga í hel upplýsingar um myntkörfulánin hvers sannleikur hefði bjargað þúsundum frá ómældum erfiðleikum og örvinglan. Og þegar haft er í huga spuninn og óheilinding varðandi Magma málið. Þá er ekki nema eðlilegt að álykta (þótt aðeins fátt eitt hafi verið talið) að það hafi í raun aldrei verið skipt um stjórnvöld hér eftir kosningarnar að Jóhanna og Steingrímur séu bara önnur nöfn á Geir Haarde og Árna Math.

Það var oft sagt um Geir Haarde að þolinmæði hans í skugganum af Davíð öll þessi ár væri vísbending um eitthvað allt annað en hæfan eftirmann og leiðtoga. Það sama má svo sannarlega segja um Steingrím J. Öll þessi ár hans í skugga Davíðs og svo Geirs eru sannarlega ekki vísbending um hæfan eftirmann eða leiðtoga heldur mann sem fyrst og fremst vill að sinn tími sé kominn og fyrir hverjum allt annað en það verður aukaatriði.

Þótt Hubris heilkennið hafi einkennt margan íslenskan ráðherrann gegnum tíðina held ég að SJS sé sá sem það hefur farið verst með. Það illa að ég er kominn á þá skoðun að vera hans á ráðherrastóli sé verulegt áhyggjuefni. Vandræðin í ríkisstjórnarsamstarfinu stafa ekki af einhverjum fjórum eða fimm VG liðum heldur eru alfarið vegna ofríkis og oflætis Steingríms. Losi þau sig við hann lagast margt.

Nánari upplýsingar um Hubris syndrome er að finna í bókunum  og "The Hubris Syndrome: Bush, Blair and the Intoxication of Power" og "In Sickness and in Power, Illnesses in heads of government during the last 100 years." Höfundur er David Owen (nú Owen lávarður) ráðherra og þingmaður til margra ára í Bretlandi. Önnur þörf lesning á hættum hálf-sannleikans er í kverinu "On Bullshit" eftir bandaríska heimspekinginn Harry G. Frankfurt.


Fasteignasala í alkuli

Nánast botnfrosinn fasteignamarkaður hefur verið ein af afleiðingum Hrunsins haustið 2008. Kulið stafar að megninu til af tvennu. Annars vegar hefur fjöldi fólks fests inni með fasteignir hverra verð eru komin langt undir skuldsetningu þeirra og hins vegar virkar sú gríðarlega óvissa sem blasir við um þróun fasteignaverðs sem hemill á fasteignamarkaðinn. Sú óvissa stafar af miklu offramboði ný byggðra fasteigna og þeirri framvindu sem verður á síðari hluta ársins þegar loforð ríkisstjórnarinnar til AGS um að hefja að nýju uppboð á íbúðarhúsnæði tekur gildi.

Ein af meginstoðum endurreisnar efnahagslífsins er að líf færist að nýju í fasteignamarkaðinn og með tímanum í byggingageirann í framhaldinu. Því er brýnt að hugsaðar séu upp aðferðir sem hugsanlega gætu komið fasteignamarkaðnum í gang að nýju.

Að meginefni hefur sala fasteigna gengið út á það að kaupandi fasteignar greiðir eignina út í hönd eða nánast, með aðstoð banka eða fjármálafyrirtækis. Þetta fyrirkomulag er frábrugðið því sem áður var fyrir all mörgum árum, þegar útborgun í fasteign gat náð yfir eitt ár sem var algengt, og jafnvel til þriggja ára.

Eins og málum er háttað í dag þarf kaupandinn hins vegar að jafnaði að standa skil á öllum greiðslum við eða fljótlega eftir undirskrift samnings og yfirleitt innan hálfs- til eins árs. Slíkt kallar á auknar lántökur og frammi fyrir því óvissuástandi sem nú ríkir um þróun fasteignaverðs er ekki nema eðlilegt að fólka haldi að sér höndum. Það er ekki sérlega skynsamlegt að skuldsetja sig mikið til að kaupa fasteign sem síðan er líklegt að muni lækka umtalsvert á næstu 12 mánuðum en samkvæmt sumum spám er talið að enn sé innistæða fyrir um 25% til 30% lækkun á fasteignaverði. Þó fasteignaverð sem önnur verð séu það sem er í hagfræðinni kallað "treg-breytanleg niður á við" þá virðist blasa við að slík lækkun er í pípunum og það fyrr en síðar. Vandinn er hins vegar sá að enginn veitt með vissu hversu lágt fasteignaverð mun fara.

Í viðskiptum er óvissan yfirleitt helsti óvinurinn og áhættugreining og áhættustýring er oft á tíðum stór hluti af starfsemi sumra fyrirtækja. Með skilvirkri áhættustýringu tekst að gera óvissuna bærilega og jafnvel útreiknanlega og gerir það mönnum kleift að eiga í viðkiptum sem annars myndu ekki eiga sér stað.

Auðséð er að til að koma lífi í fasteignamarkaðinn þarf minnka þá óvissu sem blasir við kaupendum fasteigna í dag. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt að öll áhættan lendi öðru megin, kaupandinn sitji hugsanlega uppi með yfirveðsetta eign og seljandinn sleppi með sitt á hreinu ef fasteignaverð lækkar. Leiðin út er því að dreifa áhættunni.

Þetta má gera með því að lengja í s.k. útborgunartíma fyrir fasteignina og tengja síðari greiðslur þróun fasteignaverðs. Sem dæmi má gefa sér að kaupandi fasteignar greiði 75% kaupverðs út en sá fjórðungur sem eftir stendur verði greiddur að ári liðnu (eða síðar) og að sú greiðsla og þá heildarverð eigarinnar, taki mið af þróun fasteignaverðs til þess tíma. Ef áður nefnd eign er seld á 40 milljónir og fasteignaverð lækkar um 20% fram að síðustu greiðslu, þá er endanlegt verð eignarinnar 32 milljónir og það verð sem kaupandinn greiðir og lokagreiðslan hans verður 2 milljónir.

Áhættudreifingin er fólgin í þvi að kaupandinn situr ekki upp með yfirveðsetta eign vegna of hárra lána og seljandinn getur verið nokkuð öruggur með að kaupandinn standi í skilum. Hvorugur aðilinn er þáttakandi í "braski" með fasteignaverð heldur eru viðskiptin sanngjörn auk þess að hafa eflandi áhrif á fasteignamarkaðnn til lengri tíma litið.

Þessi lausn er einföld og í raun er allt sem þarf, breytt hugarfar fasteignasala og viðurkenning á því að fasteignaverð mun lækka enn meir. Slíkt mun á endanum laða að fleiri kaupendur, blása lífi í fasteignamarkað sem stendur frammi fyrir gríðarlegri óvissu og leggja drög að hraðari uppbyggingu efnahagslífsins.

Gengistryggð lán, er til lausn? Uppfærð útgáfa.

Í framhaldi af dómum Hæstaréttar þann 16. júní s.l. sem dæmdi gengistryggingu lána ólögmæta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um þá gjaldmiðla sem raunverulega skiptu um hendur og m.t.t. þeirra "tilmæla" sem frmkvæmdavaldið hefur gefið út, er brýnt að sú staða sem komin er upp leiði ekki til einhvers konar allsherjar upplausnar fjármálageirans og fjármála almennings með tilheyrandi flóði málshöfðana sem myndi kæfa dómstólana um árabil.

Því miður hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að ekkert meira verði aðhafst og eini ráðherrann sem virðist hafa einhverjar áætlanir í takinu er Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra sem vill velta öllum vandanum yfir á almenning, eina ferðina enn.

Augljóslega er ekki til nein ein og einföld lausn á þessari flækju sem þýðir í raun nýja gullöld fyrir lögfræðinga. Það er hins vegar skylda okkar að reyna að finna einhverja lausn og því einfaldari því betri, þar sem áframhald að óbreyttu þýðir ansi hreint mikla uppstokkun á öllu fjármálakerfinu hér á landi. Í fljótu bragði séð, og samkvæmt flestum lögspekingum sem hafa tjáð sig, þá eru þessir dómar mjög skýrir og í raun ekki auð-flækjanlegir. Fjármálafyrirtækjum ber að endurreikna höfuðstól og afborganir gengistryggðra lána m.v. upprunalegan höfuðstól og samningsvexti og ber að endurgreiða ofgreiðslur ef einhverjar eru. Lögspekingar virðast einnig nokkuð sammála um að þær endurgreiðslur eigi að bera s.k. "lægstu vexti Seðlabanka Íslands" samkvæmt 18. grein vaxtlaganna. Einnig virðist nokkuð öruggt að gengistryggð íbúðalán falli undir þessa dóma (samanber upplýsingar frá Landsbankankanum fyrr í dag) sem og fjölmörg lán til fyrirtækja.

Það er því vandi á höndum þar sem ekki er líklegt að fjármögnunarfyrirtækin og bankarnir (sumir alla vega) standi slíkt af sér nema með auknu eiginfjárframlagi frá eigendum en verði að öðrum kosti gjaldþrota. Það þýðir að mikil vandkvæði verða við innheimtu ofgreiddra afborgana og líklegt að margir sem eru með ofangreind lán fái ofgreiðslur sínar ekki endurgreiddar og endi sem e.k. kröfuhafar í fjármálafyrirtækin. Þótt ekki sé rétt að blanda verðtryggingunni saman við þetta mál þá eru engu að síður áfram óleyst mál þeirra fjölmörgu sem tóku verðtryggð lán og búa við samskonar forsendubrest vegna verðbólgu (sem var af völdum gengishrunsins) og þeir sem eru með gengistryggð lán.

Ef menn gefa sér að óbreytt ástand og sú óvissa sem því fylgir vegna endalausra biðleikja dómstóla og lögfræðinga langt inn í framtíðina sé óæskileg þá er leit að leið út úr þessum vanda nauðsynleg, þó flókin virðist.

Vegna þess hversu skýrir dómar Hæstaréttar virðast vera má hugsa sér að ríkisstjórnin móti ákveðna stefnu fyrir allan fjármálageirann um lausn á þessu máli og taki þar með allan almenning með í þá vegferð, með hagsmuni allra hlutaðeigandi að leiðarljósi.

Í fyrsta lagi þurfa stjórnvöld að lýsa því yfir að niðurstaða Hæstaréttar frá 16. júní gildi um öll samsvarandi lán til íbúðakaupa og til fyrirtækja og að öllum fjármálafyrirtækjum beri að endurreikna upphæðir og afborganir samkvæmt því og m.v. samningsvexti. Fjármálafyrirtækjum beri að endurgreiða ofteknar greiðslur með viðhlítandi vöxtum (sbr. 18. grein vaxtalaganna) eða láta þær koma til lækkunar höfuðstóls lánsins. Allir samningar sem þetta tekur til verða í staðinn teknir upp á ný frá og með 16. júní 2010 og samið um sanngjörn kjör á því sem eftir stendur, miðað við einhvers konar eðlilega samningsstöðu þar sem fyllsta jafnræðis er gætt milli beggja samningsaðila. Hér mætti koma til gerðardómur sem leggði línurnar fyrir þá vinnu.

Sú niðurfærsla skulda sem lánþegar gengistryggðu lánanna fá, þýðir að margir hverjir hafa fengið ofreiknaðar vaxtabætur sem þarf að endurgreiða og að þörfin fyrir vaxtabótagreiðslur úr ríkissjóði minnkar einnig í kjölfarið. Þá peninga mætti nota til að auka vaxtabótagreiðslur til þeirra sem eru með vertryggð íbúðalán þannig að staða manna yrði að einhverju leiti jöfnuð. Allt er þetta að vísu útreikningum háð en jafna mætti leikinn enn frekar með því að niðurfæra verðbótaþátt verðtryggðu lánanna aftur til janúar 2008 og láta verðbótaþáttinn svo framreiknast þaðan að hámarki m.v. verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Framangreind lausn er ekki einföld en eins og staðan er og eftir því sem meira er um hana hugsað virðist þessi lausn e.t.v. vera sú einfaldasta sem til er í stöðunni, m.v. að æskilegt sé að einhvers konar sanngirni sé gætt og að skjót niðustaða sé æskileg. Fjármálakerfið yrði fyrir áfalli og myndi minnka (það er hvort sem er um 35 til 40% of stórt fyrir hagkerfið) en áfallið myndi ekki ríða því að fullu þar sem fjármálafyrrtækin fengju áfram sanngjarnar framtíðartekjur af fyrrum gengistryggðum lánum. Lántakendur fengju uppreisn æru og virkilega sanngjarna niðurstöðu mála sem að einhverju leiti dreifist á alla og hefðu einnig strax meira fé á milli handanna sem myndi leiða til fljótvirkrar örvunar fyrir efnahagslífið og blása lífi í steindauðann fasteignamarkað. Áhrifin á ríkissjóð eru óljós en virðast í fljótu bragði ekki vera umtalsverð og jafnvel engin.

Hugmyndir þessar virðast nokkuð afgerandi og jafnvel róttækar en við skulum ekki gleyma því að m.v. dóma Hæstaréttar erum við enn í miðju bankahruni og afgerandi og róttækra aðgerða er þörf og róttæk skynsemi í efnahagsmálum á Íslandi er löngu tímabær. Að öðrum kosti mun þjóðarbúið hökta áfram á hálf-stoppi um langa framtíð með áframhaldandi óvissu, upphlaupum, og óstöðugleika á öllum sviðum.

Þór Saari

Höfundur er hagfræðingur og þingmaður Hreyfingarinnar


Tilmæli um "Tilmæli" Seðlabanka, Fjármálaeftirlits og ríkisstjórnar Íslands

Hugleysi ríkisstjórnarinnar (í þessu tilfelli með Steingrím J. í broddi fylkingar) og embættismanna kerfisins er orðið slíkt að þeir þora ekki lengur að tala íslensku og hafa nú gefið út fyrirmæli sem heita tilmæli. Það tók rúma viku af samkrulli og leynimakki ríkisstjórnarinnar, fjármálafyrirtækja og þeirra embættismanna sem settu Ísland á hausinn árið 2008 (já þeirra í Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og Viðskiptaráðuneytinu), að komast að niðurstöðu um hvernig mætti áfram láta almenning halda uppi fjármálafyrirtækjum landsins. Nú skal sjálfur Hæstiréttur hunsaður og dómur hans um ólögmætar gengistryggingar sniðgenginn með slíkum yfirgangi að réttarríkið hefur verið vanað.

Þótt menn þori ekki að nefna það þá er hér í raun um einhvers konar valdarán að ræða, þar sem framkvæmdavaldið undir forystu ríkisstjórnarinnar og með dyggum stuðningi embættismanna fyrrgreindra stofnana (sem nú eftir afglöp fyrri ára þurfa að koma sér í mjúkinn hjá stjórnvöldum), hefur afnumið niðurstöðu máls sem farið hefur lögbundna leið gegnum dómskerfið og alla leið í Hæstarétt. Þetta er niðurstaða mín eftir að hafa setið sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar í morgun þar sem fulltrúar alræðisins þeir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, Arnór Sighvatsson aðstoðar-seðlabankastjóri, Gunnar Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Ragnar Hafliðason aðstoðarforstjóri þess mættu á fundinn ásamt herskara lögfræðinga. Á fundinn komu einnig fulltrúi AGS Franek Roswadowski og fulltrúar Hagsmunasamtaka Heimilanna þau Friðrik Ó. Friðriksson, Andrea Ólafsdóttir og Marinó G. Njálsson og Talsmaður neytenda Tryggvi Gíslason. Áður hafði ég setið fundi með þessum mönnum um dómana sjálfa þann 21. júní, með fulltrúum fjármálafyrirtækja þann 23. júní og með sömu embættismönnum og einnig forsætis- og fjármálaráðherra þann 24. júní.

Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar þá tókst þessari hersveit embættismannakerfisins ekki að rökstyðja, hvorki lagalega né á efnahagslegum forsendum að hin s.k. "Tilmæli" þeirra um að fjármálafyrirtæki megi rukka ólögmæta vexti væru á einhvern hátt rökrétt, nema þá út frá því að "Tilmælin" væru einhvern vegin holl fyrir fjármálafyrirtækin. Ekki fengust þeir heldur til að nefna nöfn þeirra lögfræðinga sem þeir byggja álit sitt á og er hér með lýst eftir þeim. Í raun stóð ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra og var átakanlegt að sjá þessa annars ágætu menn, sem ég þekki suma af ágætis samstarfi, vera komna í þessa vonlausu stöðu en samt verja hið óverjanlega. Það stjórnkerfi er alvarlega sjúkt sem getur sett svona ferli af stað og þeir sem stjórna, í þessu tilfelli SJS og JS ásamt AGS geta ekki annað en verið annað tveggja, tiltölulega skeytingarlaus um almannahag að eðlisfari eða þá algerlega hornmáluð vegna eigin valdaþrár sem er svo nærð af ægivaldi samherjans AGS. (Sjá einnig grein Írisar Erlingsdóttur á Huffington Post "Is Iceland a Totalitarian State").

Það að tvær mikilvægustu stofnanir efnahagslífsins skuli gefa út "Tilmæli" sem eiga að skikka skuldugt fólk til að halda áfram að borga af lánum sem dæmd hafa verið ólögleg, til fyrirtækja sem munu að öllum líkindum fara á hausinn svo fólkið fær aldrei peningana til baka, er með slíkum ólíkindum að engu tali tekur. Hvernig voga þeir sér að gefa fjármálafyrirtækjum slíkt skotleyfi á almenning. Slík framkoma viðgengst erlendis en aðeins hjá mafíum og öðrum slíkum glæpaklíkum, og svo nú hjá íslenskum stjórnvöldum.

Það er greinilegt að fjármálakerfið er í raun á síðasta snúning og við blasir sennilega annað bankahrun, þar sem algert aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar við að reyna að finna skynsamlega lausn ræður ríkjum. Hér mun hægja á og óvissa og stopp ráða ríkjum næstu mánuði, alveg eins og frá október 2008 til 20. janúar 2009 þegar almenningur hóf mótmæli við Alþingishúsið og hætti ekki fyrr en ríkisstjórnin var farin frá sex dögum síðar. Íslenskt efnahagslíf og íslenskur almenningur þolir ekki annað slíkt tímabil.

Fjármálakerfið er of stórt, um nær 40% m.v. umsvifin í hagkerfinu, og of laskað til að bera sig lengur á sömu forsendum og virðist mér og fleirum, að yfirlýsingar ráðherra um ríkistryggðar innstæður í bönkum séu einnig í raun marklausar. Ríkissjóður (þ.e. fjármálaráðherra) á einfaldlega ekki lengur til þá fjármuni sem þarf til að tryggja innstæður í bönkum og getur ekki fengið þá lánaða neins staðar annars staðar heldur. Það er einboðið að fá það upp á yfirborðið frá sjálfum fjármálaráðherra hvernig hann ætlar sér að standa við það að tryggja allar innstæður með nánast gjaldþrota og rúinn trausti ríkissjóð.

Það er verið að eyðileggja íslenskt samfélag samkvæmt fyrirmælum frá AGS og með dyggum stuðningi ríkisstjórnarinnar og embættismannakerfisins. Þetta er ekkert nýtt og hefur gerst víða um heim þar sem AGS hefur komið inn og mætt vanhæfu og siðferðilega gjaldþrota embættismannakerfi og stjórnkerfi. Þó oft hafi ég sjálfur gagnrýnt íslenska stjórnsýslu sem og stjórnkerfið í heild hef ég ekki fyrr en nú gert mér almennilega grein fyrir algeru máttleysi þess. Máttleysi sem stafar af þeirri úrkynjun sem spillt fjórflokkakerfi til margra áratuga hefur leitt yfir þjóðina (sem á þó einnig sína sök því hún gat víst kosið annað). Þjóðarskútan er að sökkva og það eina sem embættismenn og ráðherrar bjóða upp á eru teskeiðar til að ausa með og heimta svo að hljómsveitin spili áfram.

Verið er að slátra velfeðrarkerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngukerfinu vegna kröfu AGS um niðurskurð í ríkisfjármálum. Auðlindirnar verða svo seldar upp í skuldirnar eins og segir í samstarfsyfirlýsingu AGS og ríkisstjórnarinnar sem er undirskrifuð af Steingrími J. ". . .  moving of energy resources in to tradeable sectors. . . " Allt tal VG um auðlindir í þjóðareigu er því marklaust, algerlega marklaust og stefna VG og Samfylkingar er að orku auðlindirnar skuli færðar í einkaeigu. Vatnið er svo næst, eða hvers vegna halda menn að það taki svona lnagan tíma að semja frumvarp um ný vatnalög í iðnaðarráðuneytinu. Það er einfaldlega vegna þess að verið er að takast á um eignarhaldið og að kröfu AGS verður vatnið einkvætt.

Í tilefni þess að "Tilmæli" eru orðin vinsæl og m.t.t. ofantalinna atriða sem og m.v. þær upplýsingar sem ég hef frá störfum mínum sem þingmaður og sem hagfræðingur þá mæli ég sjálfur til um eftirfarandi:

Tilmæli mín til skuldara allra gengistryggðra lána eru að borga ekki krónu meir af þeim en segir í upprunalegri greiðsluáætlun og að snúa sér til Hagsmunasamtaka heimilanna um nánari útfærslu á því. Ef um miklar ofgreiðslur er að ræða þá að hætta alveg að borga þar til ofgreiðslurnar hafa verið nákvæmlega reiknaðar út og endurgreiddar með vöxtum samkvæmt 18. gr. vaxtalaga eða höfuðstóll lækkaður á sömu forsendum. 

Tilmæli mín til alls almennings eru að krefjast breytinga á ríkistjórninni þar sem skipstjóri og stýrimenn þjóðarskútunnar eru komin á aldur, þrotin kröftum og hugrekki og algerlega úrræðalaus.

Hvað varðar innstæður í bönkum þá eru komnar upp miklar efasemdir um getu ríkisins til að standa undir loforðum SJS um að þær séu tryggðar.

Tilmæli mín varðandi sparifé fólks eru því að menn hafi vara á sér og reyni að finna fjármálastofnun sem stendur utan við þá firringu sem enn er í gangi í mestum hluta fjármálakerfisins. Hér er ekki um auðugan garð að gresja en þó má benda á að Hreyfingin skiptir við Sparisjóð Strandamanna og einnig hefur Sparisjóður Þingeyinga staðið utan við vitleysuna.

Tilmæli mín til ríkisstjórnarinnar og Alþingismanna eru að leitað verði allra leiða til að ráða fram úr þessum vanda með hagsmuni almennings að leiðarljósi og skoðaðar verði t.d. þær hugmyndir sem ég setti fram í síðustu bloggfærslu minni þann 28. júní síðastliðinn.

Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er Hrunið enn ekki yfirstaðið. Stjórnmálin eru að molna í sundur, fjármálakerfið mun kikna, vegið er alvarlega að Hæstarétti og þar með réttarríkinu og síðast kemur væntanlega akademían þar sem skjóli fílabeinsturnsins verður svipt brott og allir gervi-fræðimennirnir og gervi-háskólarnir fá pokann sinn.

Tilmæli mín vegna alls þess sem framundan er, eru að menn haldi ró sinni og athygli og gefist aldrei upp á því að berjast fyrir réttlátri og sanngjarnri niðurstöðu mála. Það eru enn tvö erfið ár framundan þar sem endurreisn efnahagslífsins er ekki nema einn hluti af stóru endurreisninni. Til að sú endurreisn megi verða þarf samtakamátt og fjölda. Annars tekst hún ekki.

 


Gengistryggð lán, er til lausn?

Í framhaldi af dómum Hæstaréttar þann 16. júní s.l. sem dæmdi gengistryggingu lána ólögmæta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um þá gjaldmiðla sem raunverulega skiptu um hendur, er brýnt að sú staða sem komin er upp leiði ekki til einhvers konar allsherjar upplausnar fjármálageirans og fjármála almennings með tilheyrandi flóði málshöfðana sem myndi kæfa dómstólana um árabil.

Því miður hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að ekkert verði aðhafst og eini ráðherrann sem virðist hafa einvherjar áætlanir í takinu er Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra sem vill velta öllum vandanum yfir á almenning, eina ferðina enn.

Augljóslega er ekki til nein ein og einföld lausn á þessari flækju sem þýðir í raun nýja gullöld fyrir lögfræðinga. Það er hins vegar skylda okkar að reyna að finna lausn og því einfaldari því betri, þar sem áframhald að óbreyttu þýðir ansi hreint mikla uppstokkun á öllu fjármálakerfinu hér á landi. Í fljótu bragði séð, og samkvæmt flestum lögspekingum sem hafa tjáð sig, þá eru þessir dómar mjög skýrir og í raun ekki auð-flækjanlegir. Fjármálafyrirtækjum ber að endurreikna höfuðstól og afborganir gengistryggðra lána m.v. upprunalegan höfuðstól og samningsvexti og ber að endurgreiða ofgreiðslur ef einhverjar eru. Lögspekingar virðast einnig nokkuð sammála um að þær ofgreiðslur eigi að bera s.k. "lægstu vexti Seðlabanka Íslands" samkvæmt 18. grein vaxtlaganna. Einnig virðist nokkuð öruggt að öll gengistryggð íbúðalán falli undir þessa dóma sem og fjölmörg lán til fyrirtækja.

Það er því vandi á höndum þar sem ekki er líklegt að fjármögnunarfyrirtækin og bankarnir (sumir alla vega) standi slíkt af sér nema með auknu eiginfjárframlagi frá eigendum en verði að öðrum kosti gjaldþrota. Það þýðir að vandkvæði verða við innheimtu ofgreiddra afborgana og líklegt að margir sem eru með ofangreind lán fái ofgreiðslur sínar ekki endurgreiddar og endi sem e.k. kröfuhafar í fjármálafyrirtækin. Þótt ekki sé rétt að blanda því saman við þetta mál þá eru engu að síður áfram óleyst mál þeirra fjölmörgu sem tóku verðtryggð lán og búa við samskonar forsendubrest vegna verðbólgu (af völdum gengishrunsins) og þeir sem eru með gengistryggð lán.

Ef menn gefa sér að óbreytt ástand og sú óvissa sem því fylgir vegna endalausra biðleikja dómstóla og lögfræðinga langt inn í framtíðina sé óæskileg þá er leit að leið út úr þessum vanda nauðsynleg, þó flókin virðist.

Vegna þess hversu skýrir dómar Hæstaréttar virðast vera má hugsa sér að ríkisstjórnin móti ákveðna stefnu fyrir fjármálageirann um lausn á þessu máli og taki þar með allan almenning með í þá vegferð, með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Í fyrsta lagi þurfa stjórnvöld að lýsa því yfir að niðurstaða Hæstaréttar frá 16. júní gildi um öll samsvarandi lán til íbúðakaupa og til fyrirtækja og að öllum fjármálafyrirtækjum beri að endurreikna upphæðir og afborganir samkvæmt því. Endurgreiða beri ofteknar greiðslur með viðhlítandi vöxtum eða láta þær koma til lækkunar höfuðstóls. Allir samningar sem þetta tekur til verða í staðinn teknir upp frá og með 16. júní 2010 og samið um sanngjörn kjör á því sem eftir stendur, miðað við einhvers konar eðlilega samningsstöðu þar sem fyllsta jafnræðis er gætt milli beggja samningsaðila. Hér mætti koma til gerðardómur sem leggði línurnar fyrir þá vinnu.

Sú niðurfærsla skulda sem lánþegar gengistryggðu lánanna fá þýðir að margir hverjir hafa fengið ofreiknaðar vaxtabætur sem þarf að endurgreiða og að þörfin fyrir vaxtabótagreiðslur úr ríkissjóði minnkar einnig í kjölfarið. Þá peninga mætti svo nota til að auka vaxtabótagreiðslur til þeirra sem eru með vertryggð lán þannig að staða manna yrði að einhverju leiti jöfnuð. Allt er þetta að vísu útreikningum háð en jafna mætti leikinn enn frekar ef þörf er með því að niðurfæra verðbótaþátt verðtryggðu lánanna aftur til janúar 2008 og láta verðbótaþáttinn framreiknast að hámarki m.v. verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Framangreind lausn er ekki einföld en eins og staðan er og eftir því sem henni er velt meira upp virðist þessi lausn e.t.v. vera sú einfaldasta sem til er í stöðunni, m.v. að æskilegt sé að einhvers konar sanngirni sé gætt. Fjármálakerfið yrði fyrir áfalli og myndi minnka (er hvort eð er um 35 til 40% of stórt fyrir hagkerfið) en áfallið myndi ekki ríða því að fullu þar sem fjármálafyrrtækin fengju áfram sanngjarnar framtíðartekjur af gengistryggðum lánum. Lántakendur fengju uppreisn æru og virkilega sanngjarna niðurstöðu mála sem að einhverju leiti dreifist á alla og hefðu einnig strax meira fé á milli handanna sem myndi leiða til fljótvirkrar örvunar fyrir efnahagslífið. Áhrifin á ríkissjóð eru óljós en virðast í fljótu bragði ekki vera umtalsverð og jafnvel engin.

Hugmyndir þessar virðast nokkuð afgerandi og jafnvel róttækar en við skulum ekki gleyma því að m.v. dóma Hæstaréttar erum við enn í miðju bankahruni og afgerandi og róttækra aðgerða er þörf. Annars mun þjóðarbúið hökta áfram á hálf-stoppi um langa framtíð með áframhaldandi óvissu, upphlaupum, og óstöðugleika á öllum sviðum.

Þór Saari

Höfundur er hagfræðingur

og þingmaður Hreyfingarinnar

 


Stjórnlagaþing sem virkar ekki

Í gær hófst 2. umræða um Stjórnlagaþingið sem nú er orðið að stjórnlagaþingi ríkisstjórnarflokkana vegna æðibunugangs og þrjósku. Það er hægt að ná saman á þingi með þetta mál, að vísu utan Sjálfstæðisflokksins sem vill að því er virðist einhvers konar konungsveldi, og það má ekki gerast að þetta frumvarp verði að lögum óbreytt.

Hér er ræðan mín:

Ég hvet ykkur líka til að horfa á ræður Margrétar, Þráins og Birgittu sem las stjórnarskrána.

 


Vandi heimilana enn óleystur

Umræða utan dagskrár í dag um vanda heimilana. Það kom skýrt í ljós að þingmenn ríkisstjórnarflokkana nema Lilja Móses. eru alveg úti að aka hvað varðar stöðu almennings í landinu. Sjálfur gagnrýndi ég ríkisstjórnina af minni alkunnu hógværð.

Sjá hér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband