Gengistryggð lán, er til lausn? Uppfærð útgáfa.

Í framhaldi af dómum Hæstaréttar þann 16. júní s.l. sem dæmdi gengistryggingu lána ólögmæta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um þá gjaldmiðla sem raunverulega skiptu um hendur og m.t.t. þeirra "tilmæla" sem frmkvæmdavaldið hefur gefið út, er brýnt að sú staða sem komin er upp leiði ekki til einhvers konar allsherjar upplausnar fjármálageirans og fjármála almennings með tilheyrandi flóði málshöfðana sem myndi kæfa dómstólana um árabil.

Því miður hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að ekkert meira verði aðhafst og eini ráðherrann sem virðist hafa einhverjar áætlanir í takinu er Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra sem vill velta öllum vandanum yfir á almenning, eina ferðina enn.

Augljóslega er ekki til nein ein og einföld lausn á þessari flækju sem þýðir í raun nýja gullöld fyrir lögfræðinga. Það er hins vegar skylda okkar að reyna að finna einhverja lausn og því einfaldari því betri, þar sem áframhald að óbreyttu þýðir ansi hreint mikla uppstokkun á öllu fjármálakerfinu hér á landi. Í fljótu bragði séð, og samkvæmt flestum lögspekingum sem hafa tjáð sig, þá eru þessir dómar mjög skýrir og í raun ekki auð-flækjanlegir. Fjármálafyrirtækjum ber að endurreikna höfuðstól og afborganir gengistryggðra lána m.v. upprunalegan höfuðstól og samningsvexti og ber að endurgreiða ofgreiðslur ef einhverjar eru. Lögspekingar virðast einnig nokkuð sammála um að þær endurgreiðslur eigi að bera s.k. "lægstu vexti Seðlabanka Íslands" samkvæmt 18. grein vaxtlaganna. Einnig virðist nokkuð öruggt að gengistryggð íbúðalán falli undir þessa dóma (samanber upplýsingar frá Landsbankankanum fyrr í dag) sem og fjölmörg lán til fyrirtækja.

Það er því vandi á höndum þar sem ekki er líklegt að fjármögnunarfyrirtækin og bankarnir (sumir alla vega) standi slíkt af sér nema með auknu eiginfjárframlagi frá eigendum en verði að öðrum kosti gjaldþrota. Það þýðir að mikil vandkvæði verða við innheimtu ofgreiddra afborgana og líklegt að margir sem eru með ofangreind lán fái ofgreiðslur sínar ekki endurgreiddar og endi sem e.k. kröfuhafar í fjármálafyrirtækin. Þótt ekki sé rétt að blanda verðtryggingunni saman við þetta mál þá eru engu að síður áfram óleyst mál þeirra fjölmörgu sem tóku verðtryggð lán og búa við samskonar forsendubrest vegna verðbólgu (sem var af völdum gengishrunsins) og þeir sem eru með gengistryggð lán.

Ef menn gefa sér að óbreytt ástand og sú óvissa sem því fylgir vegna endalausra biðleikja dómstóla og lögfræðinga langt inn í framtíðina sé óæskileg þá er leit að leið út úr þessum vanda nauðsynleg, þó flókin virðist.

Vegna þess hversu skýrir dómar Hæstaréttar virðast vera má hugsa sér að ríkisstjórnin móti ákveðna stefnu fyrir allan fjármálageirann um lausn á þessu máli og taki þar með allan almenning með í þá vegferð, með hagsmuni allra hlutaðeigandi að leiðarljósi.

Í fyrsta lagi þurfa stjórnvöld að lýsa því yfir að niðurstaða Hæstaréttar frá 16. júní gildi um öll samsvarandi lán til íbúðakaupa og til fyrirtækja og að öllum fjármálafyrirtækjum beri að endurreikna upphæðir og afborganir samkvæmt því og m.v. samningsvexti. Fjármálafyrirtækjum beri að endurgreiða ofteknar greiðslur með viðhlítandi vöxtum (sbr. 18. grein vaxtalaganna) eða láta þær koma til lækkunar höfuðstóls lánsins. Allir samningar sem þetta tekur til verða í staðinn teknir upp á ný frá og með 16. júní 2010 og samið um sanngjörn kjör á því sem eftir stendur, miðað við einhvers konar eðlilega samningsstöðu þar sem fyllsta jafnræðis er gætt milli beggja samningsaðila. Hér mætti koma til gerðardómur sem leggði línurnar fyrir þá vinnu.

Sú niðurfærsla skulda sem lánþegar gengistryggðu lánanna fá, þýðir að margir hverjir hafa fengið ofreiknaðar vaxtabætur sem þarf að endurgreiða og að þörfin fyrir vaxtabótagreiðslur úr ríkissjóði minnkar einnig í kjölfarið. Þá peninga mætti nota til að auka vaxtabótagreiðslur til þeirra sem eru með vertryggð íbúðalán þannig að staða manna yrði að einhverju leiti jöfnuð. Allt er þetta að vísu útreikningum háð en jafna mætti leikinn enn frekar með því að niðurfæra verðbótaþátt verðtryggðu lánanna aftur til janúar 2008 og láta verðbótaþáttinn svo framreiknast þaðan að hámarki m.v. verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Framangreind lausn er ekki einföld en eins og staðan er og eftir því sem meira er um hana hugsað virðist þessi lausn e.t.v. vera sú einfaldasta sem til er í stöðunni, m.v. að æskilegt sé að einhvers konar sanngirni sé gætt og að skjót niðustaða sé æskileg. Fjármálakerfið yrði fyrir áfalli og myndi minnka (það er hvort sem er um 35 til 40% of stórt fyrir hagkerfið) en áfallið myndi ekki ríða því að fullu þar sem fjármálafyrrtækin fengju áfram sanngjarnar framtíðartekjur af fyrrum gengistryggðum lánum. Lántakendur fengju uppreisn æru og virkilega sanngjarna niðurstöðu mála sem að einhverju leiti dreifist á alla og hefðu einnig strax meira fé á milli handanna sem myndi leiða til fljótvirkrar örvunar fyrir efnahagslífið og blása lífi í steindauðann fasteignamarkað. Áhrifin á ríkissjóð eru óljós en virðast í fljótu bragði ekki vera umtalsverð og jafnvel engin.

Hugmyndir þessar virðast nokkuð afgerandi og jafnvel róttækar en við skulum ekki gleyma því að m.v. dóma Hæstaréttar erum við enn í miðju bankahruni og afgerandi og róttækra aðgerða er þörf og róttæk skynsemi í efnahagsmálum á Íslandi er löngu tímabær. Að öðrum kosti mun þjóðarbúið hökta áfram á hálf-stoppi um langa framtíð með áframhaldandi óvissu, upphlaupum, og óstöðugleika á öllum sviðum.

Þór Saari

Höfundur er hagfræðingur og þingmaður Hreyfingarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

"róttæk skynsemi í efnahagsmálum á Íslandi er löngu tímabær." Sannari orð hafa ekki verið töluð lengi.

Margrét Sigurðardóttir, 7.7.2010 kl. 23:20

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Nákvæmlega. Það hefur ekki staðið á lántakendum að reyna að semja við lánveitendur en án árangurs.

Þegar þessir höfðingjar er búnir að missa niður um sig hlaupa þeir til mömmu vælandi um að hvers ósanngjarnt það sé að þeir eigi að taka á sig tapið.

Vá hvað ég hef litla samúð með þeim

Sigurður Sigurðsson, 7.7.2010 kl. 23:32

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Getur ríkisstjórn ekki einfaldlega "tryggt allar innistæður" lántakanda, eins og Geir Haarde gerði 2008 fyrir innistæðueigendur í bönkum?

Það virðist sem að ákvarðanir ríkisins séu í fullkomnu samræmi við það sem maður les út úr Prins Machiavelli. Ákvarðanir eru teknar með þeim sem eru sterkari, annars eru stjórnvöld í hættu. Það er nefnilega miklu auðveldara að taka stöðu með þeim sterku en þeim veiku.

Fyrsta skrefið í þessari baráttu allri er að sýna að lántakendur eru sterki aðilinn og fjármögnunarfyrirtækin sá veiki, að hagkerfið getur ekki gengið upp án virkrar þátttöku lántakenda, sem eiga núna að hætta greiðslum til að sýna hver hefur valdið. En þá verður að styðja við bakið á þeim sem standa verst og reynt verður að knýja í duftið.

Hrannar Baldursson, 8.7.2010 kl. 04:52

4 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Á meðan bankakerfið hefur burði  til að afskrifa tugi jafnvel hundruð milljarða af skuldum fyrirtækja eins og Haga, Samskipa, Teymis og Exista auk fjölda annara fyrirtækja útrásarvíkinganna, án þess að það komi fram sviti á bankamálaráðherranum, finnst mér alveg til háborinnar skammar að hann og hans lið í Seðlabankanum leyfi sér að hóta Hæstarétti með enn einni dómsdagsspánni, fari þeir ekki að vilja ráðherrans.  Það ætti að loka þessa menn inni í hljóðeinangruðu rými þar til dómsvaldið er búið að kveð upp sína dóma.  Mér er stórlega til efs að nokkurt ríki sem telji sig til þróaðra ríkja með mannréttindi í hávegum líði svona framkomu framkvæmdavalds.

Ekki nóg með að skuldir fyrirtækjanna séu afskrifaðar, heldur er þeim beinlínis komið í hendur fyrri eigenda eins og það dugi ekki að þeir hafi komið þjóðinni á hausinn einu sinni. 
Betu má ef duga skal.

Kjartan Sigurgeirsson, 8.7.2010 kl. 21:53

5 Smámynd: Hafþór Baldvinsson

Smáathugasemd Þór. "Ef menn gefa sér að óbreytt ástand og sú óvissa sem því fylgir vegna endalausra biðleikja dómstóla og lögfræðinga langt inn í framtíðina sé óæskileg þá er leit að leið út úr þessum vanda nauðsynleg, þó flókin virðist."

Síðan kemurðu með eina hugmyndina að lausn málsins þ.e. að láta stjórnvöld (sem þú treystir ekki) leysa málið.

Stjórnvöld geta aldrei tekið af mönnum né fyrirtækjum réttinn til að höfða dómsmál. Þannig að eitthvað er trú þín á almættið (lesist stjórnvöld) orðin mikil.

Er ekki nóg komið af loddaraskap? Stjórnvöld geta ekki skipað fyrirtækjum eða lánþegum að þau skuli reikna lán á einhvern tiltekinn hátt. Samningar um lán gilda hvað sem stjórnvöld vilja eða gefa út yfirlýsingar um. Enda eru yfirlýsingar stjórnvalda einskis virði fyrir Hæstarétti.

Ef eitthvað ætti að gera af viti þá er það að taka saman alla lánaflokka með gengistryggingu, afmarka þá eftir efni og innihaldi og síðan komið á samningaferli milli Samtaka fjármálafyrirtækja annars vegar og hins vegar Talsmanns neytenda og Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem farið verði í að finna flöt sem allir gæti sætt sig við. Jafnframt yrði að koma yfirlýsing frá Samökum fjármálafyrirtækja að það yrðu engir eftirmálar þ.e. málaferli vegna þessarar nálgunar. Þetta tæki tíma en hann þarf ekki að vera svo langur eða í mesta lagi 3 mánuðir.

En það sem ætti að gera af viti er víst afskaplega sjaldan gert, því miður.

Hafþór Baldvinsson, 8.7.2010 kl. 23:23

6 identicon

ja mamamamamamamamamama

viera (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband