Leiðtogastjórnmál

Leiðtogastjórnmál og leiðtogadýrkun hafa verið að mörgu leiti einkennandi fyrir íslensk stjórnmál allt frá 1918. Slík er ákefðin að nánast engu skiptir þó allt annað í samfélaginu fari til fjandans, leiðtogaumræðan og "íþróttaleg" umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Ef eitthvað er þá eru það þessir svokölluðu "leiðtogar" sem hafa gert hvað mest ógagn í íslenskum stjórnmálum. Kom þetta bersýnilega í ljós á ný yfirstöðnum landsfundum allra fjórflokkana sem og á algeru gjaldþroti stjórnskipunar landsins í kjölfar bankahrunsins í október og brottvikningu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar af almenningi í janúar síðastliðnum.

Það hefur verið athyglisvert að taka þátt í starfi Borgarhreyfingarinnar og sjá með berum augum hvernig leiðtogadýrkun ræður för hjá öllum hinum flokkunum. Þessu leiðtoga þvaðri er svo haldið á lofti af fjölmiðlum sem virðast einfaldlega illa færir um að ræða um stjórnmál sem e.k. lýðræðislega aðferð almennings við að ráða málum sínum sjálf.

Borgarahreyfinguni barst í síðustu viku skeyti frá kosningasjónvarpi RÚV þar sem hreyfingin var beðin að tilnefna þáttakendur í útsendingum RÚV vegna kosninganna. Í skeytinu sem er um tuttugu línur af texta kemur orðið leiðtogi fyrir átta sinnum. Það var í kjölfar þessa sem Borgarahreyfingin endanlega tók af skarið s.l. laugardag og gaf út eftirfarandi yfirlýsingu gegn "leiðtoga" stjórnmálum.

 

Fréttatilkynning

Borgarahreyfingin hafnar leiðtogadýrkun

Nýlega efld stjórn Borgarahreyfingarinnar hefur tekið til starfa og í kjölfarið sent frá sér eftirfarandi tilkynningu.

Borgarahreyfingin hafnar leiðtogastjórnmálum eins og þau hafa birtst hér á landi hvort sem um er að ræða undanfarna mánuði eða áratugi. Þess vegna hefur Borgarahreyfingin ákveðið að skipta ekki með sér verkum skv. hefðbundnum aðferðum í hlutverk formanns, varaformanns og ritara og nota ekki þá titla í starfi sínu.

Um yfirstandandi helgi eru haldnir landsfundir tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. Almenningur þarf að sæta því að horfa upp á nánast stanslausa umfjöllun á starfsemi þessara flokka í öllum fjölmiðlum þar sem fyrirferð flokksleiðtoga og leiðtogakjörs varpar stórum skugga á þá málefnalega umræðu sem annars ætti að vera í landinu.

Landsfundir sem þessir og sú skefjalausa leiðtogadýrkun sem þeir upphefja er lýðræðinu ekki til framdráttar. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing bendir á að það er einmitt leiðtogadýrkun af þessu tagi sem leiddi til þeirrar ömurlegu niðurstöðu að Alþingi varð óstarfhæft. Ríkisstjórn landsins hrökklaðist svo frá þegar vanhæfni þeirra "leiðtoga" sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu á að skipa kom berlega í ljós.

Stjórn Borgarahreyfingarinnar mun koma fram sem heild og meta það í hverju tilviki hver kemur fram sem talsmaður hennar, eftir því hvert tilefnið er. Þess vegna mun Borgarahreyfingin sýna mörg andlit í aðdraganda kosninganna. Í því skyni hefur Borgarhreyfingin skipað sér talsmenn sem munu skipta með sér hinu s.k. "leiðtoga" hlutverki sem gamaldags stjórnmál og fjölmiðlaumfjöllun kallar svo sterkt eftir.

Nánari upplýsingar veitir:

Jóhann Kristjánsson, Kosningastjóri

Símar: 5111944 og/eða 897 7099

Reykjavík, 28. mars 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband