8.6.2010 | 23:50
Leikritið Alþingi heldur áfram.......
Í dagskrárliðnum Störf þingsins fjallaði ég aðeins um það leikrit sem mér finnst vera í gangi á þingi og að handritið hafi endað þann 20. janúar 2009 (sagði óvart 2008) með upphafi Búsáhaldabyltingarinnar. Fékk bágt fyrir frá forseta Alþingis fyrir að ávarpa þingsal beint, þ.e. fyrir að taka ekki þátt í leikritinu.
Læt einnig fylgja með athugasemd um afgreiðslu fjárlaga hrunárið 2008 en Alþingi virðist ekki ætla að leita skýringa hjá Seðlabankanum vegna afskrifta upp á 192 milljarða fyrir það ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2010 | 11:35
Kosningaósigur VG og Samfó og lýðræðismálin
27.5.2010 | 22:54
Valkostir á Álftanesinu
ÚFF! Er það fyrsta sem kemur frá mér um valkosti okkar á Álftanesinu í sveitarstjórnarkosningum.
Í framboði eru fimm listar og ekkert nýtt. Af þessum fimm eru fjögur framboð sem vilja leggja sveitarfélagið niður og það fimmta er það sem kom því á hausinn, en hefur jafnframt taugar til sameiningar við Reykjavík. Tvö framboðanna eru klofningsframboð Sjálfstæðisflokksins og þrjú þeirra eru klofningsframboð Álftaneshreyfingarinnar sem sundraðist á kjörtímabilinu og heita sem nú sínum fyrri nöfnum, þ.e. Framsóknarflokkur, Samfylking, og Álftaneshreyfingin.
Í kjölfar greiðslufalls Álftaness voru stofnuð þróttmikil íbúasamtök. Samtök Álftnesinga sem höfðu fengið sig fullsadda af sveitastjórnendum sem hafa deilt innbyrðis og á persónulegum nótum allt of lengi. Því miður auðnaðist þessum samtökum ekki aðsetja saman lista sem valkost við nátttröll gamla fjórflokksins (jú Álftaneshreyfingin er að lunganu til VG liðar) og því sitjum við upp með fimm útgáfur af fjórflokknum. En þegar íbúarnir sjálfir hafa sig ekki í það að knýja á um þær breytingar sem þarf þá fer sem fer og fjórflokkurinn verður áfram við völd, á fimm hjólum.
Sagan kennir okkur að öll samfélög manna leggjast af með tímanum. Oftast vegna einhvers konar innri úrkynjunnar og/eða spillingar og hafandi horft á sveitastjórnirnar hér undanfarin ár, þá fylgir Álftanes hinni óumflýjanlegu þróun. Það er dapurleg niðurstaða því sveitarfélagið hefur alla burði til að standa undir sér sjálft svo fremi sem skuldastaða þess sé færð niður í sjáfbært horf. Slík niðurfærsla er einmitt aðgerð sem verið er að framkvæma á hundruðum fyrirtækja á kostnað skattgreiðenda og það er fremur hlálegt að verða vitni að því að sú samfélagsþjónusta sem sveitarfélag er, skuli í hugum margra ekki vera þess virði að bjarga. Hlaupið er upp til handa og fóta og samfélagið lagt af í nafni hagræðingar sem, ef vit á að vera í, verður ekki að veruleika nema í stóra samhenginu með sameiningu fleiri sveitarfélaga á svæðinu.
Sameining við Garðabæ yrði hins vegar endalok og aðeins spursmál hvenær skólanum yrði lokað, öllu óbyggðu landi útdeilt til innvígðra og sérstaða náttúrunnar malbikuð eða golfvölluð. Þar hræða sporin og meðferð Garðbæinga á Garðahrauninu blasir við okkur dag hvern, enda var fallegt hraunið sprengt sundur, lynginu mokað í burt og malbikaðar göturnar svo nefndar Hraunprýði og Lyngprýði.
Við þessi fáu sem teljum tilverurétt Álftaness sem sjálfstæðs sveitarfélags þess virði að verja höfum því ekki um marga kosti að velja í komandi kosningum. Álftaneshreyfingin er eina framboðið sem vill ekki flýta sér í sameiningu og telur réttara að sameinast Reykjavík ef hægt er. Það má færa góð rök fyrir því að sem hluti af Reykjavík yrði mun auðveldara að varðveita sjálfstæðið vegna fjarlægðar. Einnig má gera ráð fyrir að Reykjavík hefði meiri skilning á þeirri sérstöðu Álftaness að vera n.k. sveit í borg og því hugsanlega áhugavert fyrir Reykjavík m.t.t. útivistar.
Það er því kannski rétt að enda þessar hugleiðingar á upphafinu. ÚFF!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.5.2010 | 12:12
Gagnver handa Björgólfi Thor í boði skattgreiðenda
Síðasta umræðan um gagnver til handa vildarvinum Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks, Björgólfi Thor Björgólfssyni og fleirum var á Alþingi í gærkvöldi. Það var með ólíkindum að hlusta á formann iðnaðarnefndar, Samfylkingarmanninn Skúla Helgason, verja þess ákvörðun sem tekin er í kjölfarið af því að títt nefndur Björgólfur veitti milljónum til einstakra þingmanna og milljónatugum til stjórnmálaflokka sem eigandi Landsbankans fyrir hrun. Sumir þingmanna sem munu samþykkja þetta frumvarp eru þiggjendur þessara peninga.
Ég og Birgitta vorum með ræður gegn þessu en fámennt var í þingsal. Hvað um það, Samfylkingin ræður og VG dinglar með eins og ilmspjaldið sem hangir í baksýnisspeglinum. Lifi lýðræðið og heilindin.
Hér eru ræðurnar okkar.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100518T231742&horfa=1
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100518T233019&horfa=1
Málið kemur svo til endanlegrar atkvæðagreiðslu þegar þing kemur saman á ný þann 31. maí, fylgist vel með hverjir styðja málið því samþykkt þessa frumvarps mun festa Ísland endanlega í sessi sem bananalýðveldi.
18.4.2010 | 00:14
Hrunið, afsagnir og meðvirkni.
Þegar þetta er skrifað hafa þrír þingmenn sem tengdust Hruninu "tekið sér frí". Þar sem afsagnir stjórnmálamanna á Íslandi hafa ekki beinlínis verið daglegt brauð þrátt fyrir ýmsar mjög ámælisverðar athafnir þá má e.t.v. líta á það þannig að viðkomandi þingmenn viti einfaldlega ekki hvað þeir eru að gera (frekar en oft áður myndi einhver segja). Þess vegna telja þeir sig geta bara tekið sér frí og halda að það sé að axla ábyrgð. Það var Björgvin G. Sigurðsson sem reið á vaðið með þessa nýsköpun í nálgun á pólitískri ábyrgð og eins og með marga aðra nýsköpun á Íslandi, s.s. laxeldi og loðdýrarækt þá voru aðrir ekki lengi að stökkva á vagnin.
Nú eru Þorgerður Katrín og Illugi líka komin í "frí" og ef fer sem horfir þá vænkast brátt hagur Klöru á Kanarí. Níu til viðbótar þarf til að Alþingi geti svo mikið sem byrjað á að endurheimta æru sína. Það er e.t.v. ráð að niðurgreiða fyrir þá farið svo hægt sé að vinna í friði í þinginu þar sem penir sendiherratitlar eru nefnilega ekki við hæfi við þessar aðstæður. Niðurgreiðslur er aðferð sem t.d. borgaryfirvöld í Hamborg hafa notað til margar áratuga en þar á bæ var stofnuð s.k. rónabúlla niður við einhvern drungalegasta hluta hafnarinnar og bjórinn þar niðurgreiddur umtalsvert af borgaryfirvöldum. Þetta hefur gert það að verkum að rónarnir, óæskilegar persónur á almannafæri að mati Hamborgara, halda allir til á einum og sama staðnum, all fjarri hinum og úr augsýn.
Ef Alþingi á einhvern tíma að verða að trúverðugri stofnun og ef íslensk stjórnmál eiga einhvern tíman að geta starfað í anda alvöru lýðræðis, þá verða þeir sem tengjast þessu Hruni og sitja á Alþingi að víkja. Þau mega kalla það frí ef þau vilja. Vonandi hafa þau þó þá skynsemi til að bera að vera í "fríi" fram að næstu kosningum og leggja þá verk sín hendur kjósenda.
Ég fagna því að þetta þríeyki hafi vikið af þingi vegna þess að það er gott fyrir stjórnmálin og gott fyrir þingið, en ekki vegna þess að þau eru það sem kallað er "pólitískir andstæðingar" í barnalegu lingói þingsins, enda eigum við í Hreyfingunni enga andstæðinga á þingi. Þau eru eins og aðrir þingmenn með margt til síns ágætis, færir þingmenn og ágætis fólk sem vegna aðstæðna, vegna sinna eigin gjörða og vegna gjörða annarra, fóru langt út fyrir allt velsæmi í pólitísku siðferði. Þau eru "menn meiri" eftir ákvörðun sína.
Í umræðum um störf þingsins á föstudaginn gerði ég "frí" Björgvins G. að umræðuefni sem má sjá hér. Það var athyglisvert að þrátt fyrir þann fordæmalausa atburð sem afsögnin/fríið er var þá þorði enginn annar þingmaður svo mikið sem að minnast á málið einu orði. Það eitt segir meira en margt annað um hugarfar þingmanna og meðvirknina sem er til staðar meðal þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.4.2010 | 20:41
Hrunið og þingmenn
Hreyfingin sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag.
Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar
Frá útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur krafa almennings um afsögn tiltekinna þingmanna orðið háværari með degi hverjum. Um er að ræða sitjandi þingmenn og ráðherra sem voru ráðherrar í ríkisstjórn haustið 2008 og bera ábyrgð beint eða óbeint á hruninu með aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu. Einnig eru uppi kröfur um afsögn þingmanna sem náin tengsl höfðu við ýmis fjármálafyrirtæki og ráðamenn í aðdraganda hrunsins sem og þingmenn sem þáðu umtalsverð fjárframlög frá hinum föllnum bönkum. Hér er um að ræða:
Bjarna Benediktsson, alþingismann,
Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra,
Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Guðlaug Þór Þórðarson, þáverandi heilbrigðisráðherra,
Illuga Gunnarsson, alþingismann,
Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra,
Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra,
Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, alþingismann,
Tryggva Þór Herbertsson, alþingismann og fyrrverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra,
Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra,
Þórunni Sveinbjarnardóttur, þáverandi umhverfisráðherra og
Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra og staðgengill utanríkisráðherra.
Með hliðsjón af þeim áfellisdómi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis felur í sér taka þingmenn Hreyfingarinnar heils hugar undir umræddar kröfur og skora á þá þingmenn sem um ræðir að segja af sér tafarlaust.
Eins ættu þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu þingflokksfundi dagana 11. og 18. febrúar 2008 þar sem fram komu upplýsingar um stöðu mála í efnahagslífinu að íhuga stöðu sína, en fundargerðir frá þeim fundum eru á fylgiskjali 10 í gögnum frá Björgvin G. Sigurðsyni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hafi samsvarandi upplýsingar komið fram á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins ber þeim þingmönnum sem þá sátu einnig að íhuga stöðu sína.
Virðingarfyllst, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.4.2010 | 23:53
Meira um Hrunið, ræða og Kastljós
Umfjöllun um Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hét áfram í dag í þinginu. Það var dapurlega fátt um að þingmenn ræddu þá meginmeinsemd dagsins sem er að á Alþingi er talsverður fjöldi þingmanna sem samkvæmt öllum eðlilegum siðferðisviðmiðum ætti að segja af sé og hætta á þingi vegna tengsla sinna við Hrunið.
Ég hef alltaf haft efasemdir um að Alþingi gæti tekið á þeim málum Hrunsins sem snúa að þinginu sjálfu og þingmönnum. Þess vegna lagði Hreyfingin það til að þegar skýrslan kæmi út yrði skipuð nefnda valinkunnra manna utan þingsins sem fjölluðu um þau siðferðilegu og lagalegu álitmál sem vörðuðu þingmenn og Alþingi sjálft. Þeirri tillögu var alfarið hafnað af öllum fjórflokknum. "Við erum Alþingi og við verðum að taka á málinu sjálf" var viðkvæðið. Miðað við umfjöllunina í þinginu í dag og í gær virðist það tækifæri vera að renna mönnum úr greipum.
Hreyfingin gerði í dag enn eina tilraun til að leiða þinginu fyrir sjónir að það sem skiptir miklu máli er að þingmenn sjálfir axli ábyrgð með sjánlegum og afgerandi hætti vegna þeirra tengsla sem þeir hafa haft við hrunið og hrunverja. Margrét hélt frábæra ræðu í þinginu í dag, einu ræðuna sem í raun fjallaði um kjarna málsins.
Sjálfur var ég í Kastljósinu og upplifði þar sömu tilfinningu og á þinginu, þ.e. afneitun stjórnmálamanna á eigin ábyrgð á Hruninu. Enginn formanna fjórflokksins talaði um siðferðilega ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem með einum eða öðrum hætti tengdust Hruninu, ekki frekar en þegar þeir töluðu í þinginu á mánudaginn. Ég er hræddur um að það muni aldrei gróa um heilt í íslensku samfélagi ef stjórmálamennirnir og stjórnmálaflokkarnir taka ekki á sig rögg og endurmeti frá grunni hvernig siðvit eigi að vera viðmiðið í stjórnmálum.
14.4.2010 | 00:41
Hrunið og siðferðileg ábyrgð
Ræddum hrunskýrsluna í þinginu í dag. Andrúmsloftið var þrungið spennu og þingmenn vönduðu sig í orðavali og hógværð þó margir hverji misstu sig fljótt í hjólförin í andsvörum.
Ég var með ræðu og tók þann pól í hæðina að ræða um siðferðilega ábyrgð þingmanna og ráðherra út frá aðkomu þeirra að hruninu. Formlega og lagalega ábyrgðin er tæknilegs eðlis og nær ekki nema yfir lítinn hluta ábyrgðarinnar. Það er hins vegar siðferðilega ábyrgðin sem verður að ræðast og menn verða að taka afleiðingum gerða sinna eða aðgerðarleysis og segja af sér þingmennsku ef nokkrun tíma á að vera hægt að endurreisa siðað samfélag á íslandi.
Hér er upptaka af ræðunni í dag, og hún fylgir skrifuð hér fyrir neðan.
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.
Ræða flutt 13. apríl 2010.
Virðulegur forseti.
Við ræðum hér skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Því miður er það svo að flestar mínar efasemdir um getu Alþingis sem stofnunar til að taka á málum eftir þetta hrun virðast vera að rætast.
Samkvæmt þeim ræðum sem hér voru fluttar í gær af formönnum flokkana og af forsætisráðherra sjálfum er það að renna upp fyrir mér og alþjóð að úrvinnsla þingsins á efni þessarar skýrslu verður mjög hugsanlega í skötulíki.
Eins og virðulegum forseta og háttvirtum þingmönnum er kunnugt um þá gerði Hreyfingin strax alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisnefndar til laga um skipan þingmannanefndar sem ætti að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Fyrir þeim athugasemdum voru færð góð og gild rök. Viðbrögð þingmanna og þá sérstaklega fulltrúa þeirra þingflokka sem sæti eiga í forsætisnefnd voru hins vegar með þeim hætti að efast mátti frá upphafi að raunverulegur vilji stæði að baki því að aðkoma ráðherra og þingmanna að hruninu yrði skoðuð ofan í kjölin. Óþarfi er að endurtaka þá umræðu hér en hún liggur fyrir í gögnum þingsins.
Meginintakið í gagnrýni Hreyfingarinnar var sá veruleiki að það yrði mjög erfitt fyrir einstaka þingmenn að gagnrýna samflokksmenn sína hvort sem væri í þingmannanefndinni eða í þingsal við umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það kom skýrt fram í ræðum formanna í gær að ekki verður gerð krafa um siðferðilega ábyrgð þingmanna og/eða ráðherra þeirra flokka sem beinan þátt áttu í hruninu með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.
Virðulegur forseti.
Nú hefur hrunið verið formgert af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis og það kemur skýrt fram í skýrslu nefndarinnar að stærstur hluti þess orðsróms og þeirra frétta sem voru fluttar af aðkomu ráðherra og þingmanna fyrir hrunið voru réttar.
Nú er því tíminn til að gera upp.
Þingmannanefnd Alþingis hverrar starfsvið er skilgreint mjög þröngt mun ekki taka nema á örlitlum hluta þess sem við blasir.
Það er því þingsins sjálfs og þeirra þingmanna sem hér sitja að gera þá þætti hrunsins sem að þinginu sjálfu snúa.
Það er nöturleg niðurstaða að af þeim yfir 140 sem rannsóknarnefndin kallaði til skýrslutöku er enginn, ekki einn einasti, sem telur sig bera nokkra ábyrgð á því sem gerðist.
Ekkert, ég endurtek ekkert, gefur skýrari mynd af því samfélagi sem við íslendingar höfum búið okkur til heldur en þessi nöturlega staðreynd.
Burtséð frá afneitun allra þeirra bankamanna sem með algeru siðleysi sínu rændu þjóðina, við því var að búast, þá er það hins vegar afstaða embættismannana og stjórnmálamannana sem hafa hoppað upp í sama afneitunarvagninn sem hvað gleggst sýnir hroka þeirra og fyrirlitngu á almenningi og þeim eðlilegu siðferðisviðmiðum sem almennt ættu að vera til staðar.
Virðulegur forseti.
Það kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að hluti af ásæðu þess að hér varð algert hrun er vegna þeirra óeðlilegu tengsla viðskiptalífs og stjórnmálamanna sem voru til staðar og vegna þess mórals í íslenskum stjórnmálum að það bæri að raða flokksgæðingum á jötuna í embættismannakerfinu.
Hvert einasta ráðuneyti og hver einasta stofnun ríkisins var og er gegnsýrð af flokksgæðingum sem eru ráðnir til að tryggja stjórnmálamönnum enn meiri völd. Hið alræmda Fjármálaeftirlit var skýrt dæmi um slíkt en þegar það var sett á laggirnar og því skipuð þess fyrsta stjórn, af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins, þá var það gert að skilyrði fyrir stjórnarsetu að stjórnarmenn væru sammála því ráðslagi að sonur þáverandi félagsmálaráðherra Páls Péturssonar yrði ráðinn sem forstjóri. Eins og glöggt kemur í ljós í skýrslu rannsóknarnefndarinnar þá hefur fjármálaeftirlitið frá stofnun þess aldrei valdið hlutverki sínu.
Fleiri dæmi má taka en of langt er að telja þau öll upp en sjálfur hef ég lent í þeirri stöðu að vera skipað af yfirmanni í fjármálaráðuneytinu að segja einni af fastanefndum Alþingis ósatt, skipun sem var meira að segja gefin í áheyrn annara í ráðuneytinu. Afleiðingarnar urðu svo þær að við skiplagsbreytingar" missti ég starfið, enda sagði ég þingnefndinni sannleikann.
Ótalin eru þau dæmi þar sem starfsmenn eða embættismenn hafa sagt af sér eða sagt sig frá ákveðnum verkefnum en neitað að upplýsa almenning hvers vegna, vegna einhvers misskilins trúnaðar við, eða hótana frá, sínum yfirboðurum.
Er það svona stjórnsýsla sem á að bjóða upp á áfram eða verða gerðar raunverulegar breytingar.
Virðulegur forseti.
Hvað fjármálatengslin varðar þá er augljóst að einstakir stjórnmálamenn hafa þegið stórfé af þeim bankamönnum sem bera höfuðábyrgð á hruninu og sumir stjórnmálaflokkar hafa fengið tugi milljóna í fjárframlög frá þeim. Nú er það augljóst að fyrirtæki sem slíkt getur ekki aðhyllst hugmyndafræði eða haft stjórnmálstefnu heldur er tilgangur með framlögum þess til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna að kaupa sér aðgang og gott veður. Þessu hafa íslenskir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hins vegar ætíð afneitað eins og andskotinn ömmu sinni.
Þorvaldur Gylfason prófessor við Háskóla Íslands segir hins vegar tíma til kominn að kalla þessi fjárframlög það sem þau raunverulega eru, þ.e. mútur. Það er ansi stórt orð og ekki get ég staðhæft sjálfur að einstaka þingmenn séu mútuþægir. Fyrirkomulagið hefur hins vegar boðið upp á slíkt hugarflug í sambandi við tengsl viðskiptalífs og stjórnmála og grunsemdir eru uppi um að stjórnmálamenn hafi látið hagsmuni almennings sitja hjá garði vegna hagsmuna annarra. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar styður mjög vel við þá hugsun, því eftir allt þá varð hér hrun þar sem hvorki stjórnkerfið, stjórnsýslan né stjórnmálamennirnir gættu hagsmuna almennings. Hvað stjórnmálamennina varðar ber þó að undanskilja Vinstri Hreyfinguna Grænt framboð sem ötullega gagnrýndi flest alla þá ætti sem hér öllu hruninu.
Virðulegur forseti.
Sú formlega umgerð sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar setur hrunið og aðkomu alþingismanna og ráðherra að því í, hlýtur að gera þá kröfu til Alþingis að það sem stofnun sýni að það hafi burði til að axla þá ábyrgð sem til þarf. Hér er átt við forseta Alþingis, alla alþingismenn og formenn þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi sem og stjórnmálaflokkana sjálfa sem helstu stofnana lýðræðisins í landinu. Það er einföld og skýlaus krafa að þessir aðilar axli sína ábyrgð eins og hún blasir við í dag. Hér gildir einu hvort um er að ræða ábyrgð vegna fyrri aðgerða eða aðgerðarleysis eða ábyrgð vegna núverandi tengsla við þá þætti hrunsins sem bersýnislegir eru.
Ábyrgð stjórnmálaflokkana og stjórnmálamanna þeirra er að sjálfsögðu mismikil og ekki formleg eða lagaleg nema í kannski fáum tilvikum. Það er hins vegar þung siðferðileg ábyrgð sem hvílir á mörgum stjórnmálamönnum, siðferðileg ábyrgð sem þeir með aðgerðum eða aðgerðarleysi bera, og verða að axla.
Það verður að teljast mjög ólíklegt að þeir ráðherrar sem sitja í núverandi ríkisstjórn og voru einnig í hrunstjórninni, hæstvirtir ráðherrar Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján Möller og Össur Skarphéðinsson hafi ekki vitað hvert stefndi en Jóhanna Sigurðardóttir var m.a. í svo kölluðum súper-ráðherrahópi sem kom fyrst að umfjöllun um öll stærri mál. Hvort sem þau vissu nákvæmlega málavexti eða ekki þá hljóta þau, sem ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem var hér við völd í aðdraganda hrunsins að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi aðkoma þeirra að stjórn landsins og seta á þingi sé trúverðug og hvort ekki sé fyllilega réttmætt að krefjast afsagnar þeirra.
Það verður einnig að teljast mjög ólíklegt að margir aðrir ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi heldur ekki vitað hvert stefndi. Hér er um að ræða háttvirta núverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins Einar K. Guðfinnsson, Guðlaug Þór Þórðarson og Þorgerði Katínu Gunarsdóttur og svo Björgvin G. Sigurðsson og Þórunni Sveinbjarnardóttir þingmenn Samfylkingarinnar sem öll voru ráðherrar á þeim tíma. Það verður þó að virða háttvirtum þingmanni Björgvin G. Sigurðsyni það til tekna að hann sýndi gott fordæmi og sagði af sér ráðherraembætti á þeim tíma. Þau sem ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem var hér við völd í aðdraganda hrunsins hljóta einnig að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi seta þeirra á þingi sé trúverðug og hvort ekki sé fyllilega réttmætt að krefjast afsagnar þeirra. Spuna-afsögn Björgvins G. Sigurðssonar sem þingflokksformanns telst þar ekki með.
Ótaldir eru þeir núverandi þingmenn sem voru innstu kopparnir í búrinu og hafa með nánum tengslum sínum við ýmis fjármálafyrirtæki og ráðamenn í aðdraganda hrunsins einnig fengið stöðu sem setja má spurningamerki við. Hér er um að ræða háttvirta þingmenn Bjarna Benediktsson, Illuga Gunarsson og Tryggva Þór Herbertsson en þeir hljóta einnig að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi seta þeirra á þingi sé trúverðug.
Eins hlýtur það að vera réttmæt krafa að þeir þingmenn sem þáðu fúlgur fjár frá fjárglæframönnunum endurskoði setu sína á þingi. Gildir einu hvort um er að ræða bein fjárframlög eða lán til hlutabréfakaupa.
Hér ber að sjálfsögðu hæst lánveitingar Kaupþings til fjölskyldufyrirtækis varaformanns Sjálfstæðisflokksins háttvirts þingmanns Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur upp á nærri 1,7 milljarða króna, þ.e. eitt þúsund og sjö hundruð milljónir. Einnig eru stórar upphæðir lánaðar til formanns Sjálfstæðisflokksins háttvirts þingmanns Bjarna Benediktssonar og til háttvirts þingmanns Ólafar Nordal. Ótrúlegar lánveitingar til ýmissa fyrrverandi þingmanna Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem koma fram í töflu 8.11.2 kalla svo á gagngera endurskoðun af hálfu þessara flokka á hvort afstaða þeirra til margra mála hafi á þeim tíma verið lituð af þeim lánveitingum og hvernig flokkarnir munu í framtíðinni umgangast peninga.
Há bein fjárframlög til einstakra þingmanna kallar einnig á að þeir endurskoði aðkomu sína að setu á Alþingi. Hér verður tæpt á þeim þingmönnum og ráðherra sem fengu framlög frá Kaupþingi og Landsbankanum og enn sitja sem fastast, en framlög frá Glitni til einstakra þingmanna fengust ekki. Röðin er hér eftir upphæðum:
| Kaupþing | Landsbanki | Alls |
Steinunn Valdís Óskarsdóttir |
| 3.500.000 | 3.500.000 |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir | 1.500.000 | 1.500.000 | 3.000.000 |
Guðlaugur Þór Þórðarson | 1.000.000 | 1.500.000 | 2.500.000 |
Kristján Möller | 1.000.000 | 500.000 | 1.500.000 |
Össur Skarphéðinsson |
| 1.500.000 | 1.500.000 |
Björgvin G. Sigurðsson | 100.000 | 1.000.000 | 1.100.000 |
Guðbjartur Hannesson |
| 1.000.000 | 1.000.000 |
Helgi Hjörvar | 400.000 | 400.000 | 800.000 |
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir | 250.000 | 300.000 | 550.000 |
Ragnheiður Elín Árnadóttir | 250.000 | 300.000 | 550.000 |
Árni Páll Árnason |
| 300.000 | 300.000 |
Jóhanna Sigurðardóttir |
| 200.000 | 200.000 |
Katrín Júlíusdóttir |
| 200.000 | 200.000 |
Þó í sumum tilfellum sé ekki um háar fjárhæðir að ræða og ekki hægt að halda því fram að framlög þessi hafi keypt þingmenn þá leikur engin vafi á því að háar upphæðir hafa áhrif á almenna afstöðu manna til gefandans, þó ekki sé annað. Þannig er einfaldlega mannlegt eðli.
Ótaldar eru svo tugmilljónirnar til flokkana sjálfra og undirfélaga þeirra um allt land sem ekki hefur gefist tími til að skoða nánar en athygi vekur í því samhengi að fyrir liggur að semja frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka þar sem enn er galopið á framlög frá fyrirtækjum, hvort sem er til stjórnmálaflokka eða einstaklinga.
Virðulegi forseti.
Hér hefur margt verið sagt og mörg þung orð látin falla. Þetta er hins vegar mest allt nákvæmlega skjalfesti í þessu stórkostlega plaggi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþinigis er.
Hér hafa og mörg nöfn verið nefnd og spurningarmerki sett við það hvort forsvaranlegt sé fyrir þau að sitja áfram á þingi.
Leiða má líkur að því að Alþingi íslendinga muni aldrei endurheimta trúverðugleika sinn ef þeir þingmenn sem hér sitja nú, taka ekki af skarið og seti fordæmi hvað viðvíkur siðferðilegri ábyrgð. Það fordæmi hlýtur m.a. að felast í því að viðurkenna þá siðferðilegu ábyrgð og að axla hana, ekki með orðskrúði og marklausum frösum heldur með afgerandi sjáanlegum hætti sem leiðir til þess að á Íslandi kemst á siðferðisvitund í stjórnmálum.
Ég vil svo ljúka máli mínu á því að mótmæla með hvaða hætti Alþingi hefur ákveðið að fjalla um þetta mikilvægasta mál lýðveldissögunnar en það er þinignu og forystu þess til vansa. Þingmönnum hefur ekki verið gefinn nægilegur tími til að kynna sér skýrslu rannsóknarnefndarinnar og ekki hefur gefist nándar nærri nægilegur tími til að gaumgæfa alla mikilvægustu þætti málsins og það er fráleitt að ætla sér að afgreiða málið með svo yfirborðskenndum hætti sem forysta þingsins ætlar að gert verði.
Þó ekki séu líkur á að núverandi þing hafi burði til að koma á betri vinnubrögðum þá vonandi munu þingmenn framtíðarinnar átta sig á því að á Alþingi íslendinga verður að gera hlutina betur en gert hefur verið hingað til.
12.4.2010 | 23:32
Hrunskýrslan
Skýrslan mikla kom loks í dagsljósið í morgun. Vönduð og vel gerð og mjög ítarleg. Það var þungbær stund að hlusta á þremenninga rannsóknarnefndarinnar fara yfir skýrsluna með forsætisnefnd og formönnum þingflokkana og fyrsta tilfinning manns var hvernig þetta fólk sem stjórnaði hér vogaði sér að láta þetta gerast. Eftir því sem leið á daginn og sérstaklega eftir ræður formannana á þingfundinum klukkan þrjú þar sem spuna-afsögn Björgvins G. Sigurðssonar sem þingflokksformanns varð aðhlátursefni, seig á mig þrúgandi efi sem smám saman er að verða að sannfæringu. Sannfæringu um að Alþingi muni verða ófært að taka almennilega á málinu. Á þingi eru fjölmargir sem tengjast hruninu beint sem gerendur og bera mikla ábyrgð. Þingmenn úr þremur flokkum. Það var hins vegar ekki að heyra á formönnum neins þríflokkana sem málið tilheyrir beint að þeir muni krefjast hreinsunar innan sinna flokka og það vottaði ekki fyrir afsagnar-örðu í máli neins þeirra.
Því var ræða Birgittu sem ferskur andblær. Hún eins og önnur í Hreyfingunni er þess fullviss að hér verður aldrei nein endurreisn og það mun aldrei gróa um heilt ef þeir þingmenn og ráðherrar sem nú sitja og eiga beina aðkomu að hruninu reyna að sitja áfram. Það er einfaldlega skýlaus krafa að sú siðferðilega ábyrgð sem þeir bera leiði til afsagnar þeirra. Við listuðum upp nokkur nafnana í dag og erum að vinna úr honum frekar fyrir ræður morgundagsins. Það verður okkar krafa og hlýtur að teljast fyllilega réttmæt krafa almennings að nú verði hreinsað til á Alþingi íslendinga og að sett verði siðferðisviðmið fyrir þingmenn og ráðherra í fyrsta skipti í lýðveldissögunni. Ef þetta þing sem nú situr gugnar á því má allt eins afskrifa Alþingi sem stofnun og löggjafarvald til frambúðar.
Hér er svo ræða Birgittu.
18.3.2010 | 16:00
Alex Jurshevski og þingmenn Íslands
Alex Jurshevski, skeleggi Kandamaðurinn sem hræddi líftóruna úr Samfylkingunni og helftinni af Vinstri Grænum í Silfri Egils á sunnudaginn mætti fyrir tveim nefndum Alþingis í gær, en hann hefur verið hér á landi í nokkra daga að kynna sig og fyrirtæki sitt.
Þetta var nefndardagur sem lengi verður í minnum hafður. Þessa vikuna eru nefndardagar á dagskrá miðvikudag, fimmtudag og föstudag og gert ráð fyrir með sæmilegum fyrirvara hvenær hvaða nefndir eiga að funda. Ekki vantaði það að Kanadamaðurinn væri boðaður á skipulögðum nefndartímum en skyndilega voru allir fulltrúar VG í fjárlaganefnd og allir fulltrúar Samfylkingar nema formaður nefndarinnar, Guðbjartur Hannesson, orðnir bókaðir á fundi annars staðar. Fundurinn var "valkvæður" sagði formaðurinn, eitthvað sem fyrirfinnst ekki í þingsköpum Alþingis, en sýnir til hvaða ráða menn eru tilbúnir að grípa til að losna við eitthvað sem er ekki í samræmi við AGS trúarjátninguna. Fundurinn í efnahags- og skattanefnd var einnig frekar þunnskipaður stjórnarliðum.
Það má vafalauast segja sitt hvað um títt nefndan Kanadamann eins og aðra dauðlega menn og skrímsladeild Samfylkingarinnar hefur verið ötul við það. Fékk meira að segja viðskiptaráðherra í liðið sem úthlutaði manninum meiri auri en hann sjálfur fékk frá skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins þegar hann vogaði sér að gagnrýna brothætt bankakerfi um mitt ár 2008. Skjótt skipast veður í lofti er stundum sagt. Gylfi Magnússon orðinn að Þorgerði Katrínu á nánast augabragði.
Kanadamaðurinn er hins vegar að selja þjónustu og hefur aldrei farið dult með það. Þjónustu sem byggir á sérfræðiþekkingu í skuldastýringu ríkissjóða sem íslenskt stjórnsýsla býr ekki yfir nema að litlu leiti. Sú þekking sem hann miðlaði til nefndanna hvað umgjörð skuldastýringar varðar, er almennt í anda þess sem kallast "best practices" hjá OECD (Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunni) og er stefna sem aðildarríkin hafa meira og minna náð saman um eftir margra ára samstarf og samvinnu, nema Ísland að sjálfsögðu.
Ísland sagði sig úr samstarfinu árið 2007, lagði niður Lánasýslu ríkisins og flutti skuldastýringu ríkissjóðs til Seðlabankans á þeim forsendum að við skulduðum ekki neitt og myndum sennilega ekki gera framar. "Við færum okkur nær skipulagi í nágrannalöndum" sagði þáverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen. "Eins og í Danmörku" sagði hann en "gleymdi" að geta þess að Danmörk er einmitt dæmið sem er notað um hvernig skuldastýring á EKKI að vera. Seðlabanki Íslands tapaði síðan nær 400 milljörðum króna.
Hafandi unnið sjálfur í Lánasýslu ríkisins og síðar sem ráðgjafi hjá OECD hef ég sem þingmaður talað fyrir betra fyrirkomulagi á skuldastýringu ríkissjóðs Íslands enda er "best practices" við skuldastýringu eitt af þeim grundvallaratriðum (ásamt háu lánshæfismati) sem erlendir fjárfestar líta til þegar þeir eru að fara að lána ríkisstjórnum fé. Þótt leitt sé frá að segja þá er ekki líklegt að Íslandi bjóðist viðunandi lánskjör (ef þeir þá fá lán) á erlendum mörkuðum ef skuldastýring ríkissjóðs er ekki í bestu mögulegu umgjörð. Í því samhengi skiptir meira að segja Icesave litlu máli. Þess vegna er mikilvægt að hlýtt sé á erlenda sérfræðinga og það verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir geti skilið á milli söluræðu og innihalds, því allir (eða flestir alla vega) sem koma fyrir þingnefndir eru í rauninni, í einhverri merkingu að selja eitthvað.
Hvað um það. Vegna þess að Kanadamaðurinn hafði einnig skoðanir á AGS og þeim lánum sem íslensk stjórnvöld vilja fá þar, skoðanir sem ekki eru í samræmi við "ríkjandi viðhorf" í stjórnsýslu og stjórnkerfi, en hann telur eins og margir aðrir að þau muni bara gera slæma stöðu enn verri. Þá vildu þingmenn meirihlutans ekki hitta manninn og sá undir iljarnar á þeim í bæði fjárlaganefnd (nema formanninum) og einnig í efnahags- og skattanefnd þar sem Lilja Mósesdóttir (VG) og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Samfó) voru þau einu stjórnarmegin sem sátu allan fundinn.
Fundirnir voru á margan hátt upplýsandi og hefðu gagnast öllum þingmönnum vel þótt söluræðan sjálf færi stundum fram úr hófi. Kanadamaðurinn benti á marga gagnlega þætti sem þarf að gaumgæfa en því miður komst það ekki til skila til þeirra sem mestu ábyrgðina bera. Hann talaði líka oft eins og hann væri að tala niður til barna og um íslendinga eins og þeir vissu hreint ekkert hvernig staðan raunverulega væri. Þetta er hins vegar talandi sem ég sjálfur hef talsvert orðið vitni að hjá embættis- og ráðamönnum erlendis og ætti að vekja fólk til alvarlegrar umhugsunar um hvers vegna talað er um og til Íslands með þessum hætti. Hann vildi líka "selja bílinn" líkt og allir bílasalar, en það verður að hafa í huga að þó menn séu bílasalar er ekki þar með sagt að þeir búi ekki yfir mikilvægri þekkingu um bíla almennt sem og um sérstakar tegundir.
Það væri gagnlegt og fullorðið ef þingmönnum bæri gæfa til að vinna betur saman og líta á lausn verkefnanna framundan sem flókin og erfið verkefni sem krefjast hugsanlega margháttaðra lausna, frekar en að lúta algerlega framkvæmdavaldinu og tilskipunum þess, og fylgja þeim sem trúarbrögðum sem má ekki hrófla við. Miðað við reynslu mína af þessu þingi er hins vegar ekki líklegt að þingmönnum þess takist það, alla vega ekki hvað efnahagsmálin varðar.