Valkostir á Álftanesinu

ÚFF! Er það fyrsta sem kemur frá mér um valkosti okkar á Álftanesinu í sveitarstjórnarkosningum.

Í framboði eru fimm listar og ekkert nýtt. Af þessum fimm eru fjögur framboð sem vilja leggja sveitarfélagið niður og það fimmta er það sem kom því á hausinn, en hefur jafnframt taugar til sameiningar við Reykjavík. Tvö framboðanna eru klofningsframboð Sjálfstæðisflokksins og þrjú þeirra eru klofningsframboð Álftaneshreyfingarinnar sem sundraðist á kjörtímabilinu og heita sem nú sínum fyrri nöfnum, þ.e. Framsóknarflokkur, Samfylking, og Álftaneshreyfingin.

Í kjölfar greiðslufalls Álftaness voru stofnuð þróttmikil íbúasamtök. Samtök Álftnesinga sem höfðu fengið sig fullsadda af sveitastjórnendum sem hafa deilt innbyrðis og á persónulegum nótum allt of lengi. Því miður auðnaðist þessum samtökum ekki aðsetja saman lista sem valkost við nátttröll gamla fjórflokksins (jú Álftaneshreyfingin er að lunganu til VG liðar) og því sitjum við upp með fimm útgáfur af fjórflokknum. En þegar íbúarnir sjálfir hafa sig ekki í það að knýja á um þær breytingar sem þarf þá fer sem fer og fjórflokkurinn verður áfram við völd, á fimm hjólum.

Sagan kennir okkur að öll samfélög manna leggjast af með tímanum. Oftast vegna einhvers konar innri úrkynjunnar og/eða spillingar og hafandi horft á sveitastjórnirnar hér undanfarin ár, þá fylgir Álftanes hinni óumflýjanlegu þróun. Það er dapurleg niðurstaða því sveitarfélagið hefur alla burði til að standa undir sér sjálft svo fremi sem skuldastaða þess sé færð niður í sjáfbært horf. Slík niðurfærsla er einmitt aðgerð sem verið er að framkvæma á hundruðum fyrirtækja á kostnað skattgreiðenda og það er fremur hlálegt að verða vitni að því að sú samfélagsþjónusta sem sveitarfélag er, skuli í hugum margra ekki vera þess virði að bjarga. Hlaupið er upp til handa og fóta og samfélagið lagt af í nafni hagræðingar sem, ef vit á að vera í, verður ekki að veruleika nema í stóra samhenginu með sameiningu fleiri sveitarfélaga á svæðinu.

Sameining við Garðabæ yrði hins vegar endalok og aðeins spursmál hvenær skólanum yrði lokað, öllu óbyggðu landi útdeilt til innvígðra og sérstaða náttúrunnar malbikuð eða golfvölluð. Þar hræða sporin og meðferð Garðbæinga á Garðahrauninu blasir við okkur dag hvern, enda var fallegt hraunið sprengt sundur, lynginu mokað í burt og malbikaðar göturnar svo nefndar Hraunprýði og Lyngprýði.

Við þessi fáu sem teljum tilverurétt Álftaness sem sjálfstæðs sveitarfélags þess virði að verja höfum því ekki um marga kosti að velja í komandi kosningum. Álftaneshreyfingin er eina framboðið sem vill ekki flýta sér í sameiningu og telur réttara að sameinast Reykjavík ef hægt er. Það má færa góð rök fyrir því að sem hluti af Reykjavík yrði mun auðveldara að varðveita sjálfstæðið vegna fjarlægðar. Einnig má gera ráð fyrir að Reykjavík hefði meiri skilning á þeirri sérstöðu Álftaness að vera n.k. sveit í borg og því hugsanlega áhugavert fyrir Reykjavík m.t.t. útivistar.

Það er því kannski rétt að enda þessar hugleiðingar á upphafinu. ÚFF!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Gíslason

Sæll

Skemmtilegur pistill með lýsingum á framboðunum.  En ég verð að segja að mér finnst undarleg lýsing þín á meintum örlögum okkar ef við myndum sameinast Garðabæ og raunar djúpt ósammála þér þar.  Garðbær er skuldlítið samfélag sem þýðir það að þeir sem þar ráða fara vel með almanna fé. Þar hefur sami meirihluti ráðið lengi sem þýðir að meirihluti kjósenda treystir þeim til að fara vel með almannafé, sem þeir hafa gert.  Ég get ekki ímyndað mér að stjórnendur sem fara almennt vel með almannafé færu að leggja niður skóla og annað á Álftanesi enda búið að byggja þessar byggingar og hagkvæmast að nýta áfram þessa fjárfestingu.  Álftnesingar gætu lært margt af Garðbæingum og það væri örugglega fengur að sameinast þeim og losna við að skálmöld í bæjarstjórn Álftaness komi óorði á þetta góða samfélag sem hér er.  Með því að sameinast Garðabæ þá ættum við að vera nokkuð trygg að það komi aldrei aftur ógæfa yfir samfélagið eins og var á síðasta kjörtímabili.

 kveðja  Gísli Gíslason, Hákotsvör 5.

Gísli Gíslason, 28.5.2010 kl. 13:45

2 Smámynd: Þór Saari

Það verður með sameiningu við Garðabæ eins og með aðrar sameingingar um allt land að um leið og fækkar í skólum yfirtökusveitarfélagsins, í þessu tilvik Garðabæjar, þá leitast menn við að fylla þær byggingar með nemendum annars staðar frá. Álftnesingar munu ekkert hafa um það að segja, skólanum verður bar lokað og þar með er kjarni samfélagsins farinn. Það er nefnilega hin hliðin á því sem þú kallar að "fara vel með almannafé" að skera niður þjónustu við bæjarbúa. Skólahúsnæði er ekki fjárfesting í hefðbundnum skilningi orðsins enda skilar það engum tekjum.

Skálmöldin á Álftanesinu er hins vegar annað mál og dapurlegt að sjá hve fáir sveitarstjórnarmenn vilja viðurkenna ábyrgð sína og hundskast í burtu. Það var hins vegar Álftnesinga sjálfra að koma fram með nýtt framboð almennra íbúa en það tókst þeim ekki. Því mun sveitarfélagið óumflýjanlega líða undir lok innan einhverra ára, færri ára ef það sameinast Garðabæ en sennilega halda að miklu leiti áfram sem sjálfstæð eining ef það sameinast Reykjavík.

Þór Saari, 29.5.2010 kl. 10:42

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Ég held að þetta sé ekkert annað en fantasía hjá þér að í framtíðinni þegar samfélagið hér eldist þá muni Garðbæingar loka skólanum hér en Reykjavík myndi ekki gera slíkt. .  Samfélag sem eldist, endurnýjar sig og aftur kemur ungt fólk með börn.  Því hef ég alls enga trú á því að skólanum hér verði nokkurn tímann lokað, óháð því hvort Álftanes verði hluti af Garðabæ eða Reykjavík.  Munurinn á Reykjavík og Garðabæ er að Garðbæingar hafa rekið sitt sveitarfélag mjög vel.  Það er eftirsóknarvert fyrir Álftnesinga að vera hluti af slíkri skipulagsheild.

Gísli Gíslason, 30.5.2010 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband