Alex Jurshevski og þingmenn Íslands

Alex Jurshevski, skeleggi Kandamaðurinn sem hræddi líftóruna úr Samfylkingunni og helftinni af Vinstri Grænum í Silfri Egils á sunnudaginn mætti fyrir tveim nefndum Alþingis í gær, en hann hefur verið hér á landi í nokkra daga að kynna sig og fyrirtæki sitt.

Þetta var nefndardagur sem lengi verður í minnum hafður.  Þessa vikuna eru nefndardagar á dagskrá miðvikudag, fimmtudag og föstudag og gert ráð fyrir með sæmilegum fyrirvara hvenær hvaða nefndir eiga að funda.  Ekki vantaði það að Kanadamaðurinn væri boðaður á skipulögðum nefndartímum en skyndilega voru allir fulltrúar VG í fjárlaganefnd og allir fulltrúar Samfylkingar nema formaður nefndarinnar, Guðbjartur Hannesson, orðnir bókaðir á fundi annars staðar.  Fundurinn var "valkvæður" sagði formaðurinn, eitthvað sem fyrirfinnst ekki í þingsköpum Alþingis, en sýnir til hvaða ráða menn eru tilbúnir að grípa til að losna við eitthvað sem er ekki í samræmi við AGS trúarjátninguna. Fundurinn í efnahags- og skattanefnd var einnig frekar þunnskipaður stjórnarliðum.

Það má vafalauast segja sitt hvað um títt nefndan Kanadamann eins og aðra dauðlega menn og skrímsladeild Samfylkingarinnar hefur verið ötul við það.  Fékk meira að segja viðskiptaráðherra í liðið sem úthlutaði manninum meiri auri en hann sjálfur fékk frá skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins þegar hann vogaði sér að gagnrýna brothætt bankakerfi um mitt ár 2008.  Skjótt skipast veður í lofti er stundum sagt. Gylfi Magnússon orðinn að Þorgerði Katrínu á nánast augabragði.

Kanadamaðurinn er hins vegar að selja þjónustu og hefur aldrei farið dult með það. Þjónustu sem byggir á sérfræðiþekkingu í skuldastýringu ríkissjóða sem íslenskt stjórnsýsla býr ekki yfir nema að litlu leiti. Sú þekking sem hann miðlaði til nefndanna hvað umgjörð skuldastýringar varðar, er almennt í anda þess sem kallast "best practices" hjá OECD (Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunni) og er stefna sem aðildarríkin hafa meira og minna náð saman um eftir margra ára samstarf og samvinnu, nema Ísland að sjálfsögðu.

Ísland sagði sig úr samstarfinu árið 2007, lagði niður Lánasýslu ríkisins og flutti skuldastýringu ríkissjóðs til Seðlabankans á þeim forsendum að við skulduðum ekki neitt og myndum sennilega ekki gera framar.  "Við færum okkur nær skipulagi í nágrannalöndum" sagði þáverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen. "Eins og í Danmörku" sagði hann en "gleymdi" að geta þess að Danmörk er einmitt dæmið sem er notað um hvernig skuldastýring á EKKI að vera.  Seðlabanki Íslands tapaði síðan nær 400 milljörðum króna.

Hafandi unnið sjálfur í Lánasýslu ríkisins og síðar sem ráðgjafi hjá OECD hef ég sem þingmaður talað fyrir betra fyrirkomulagi á skuldastýringu ríkissjóðs Íslands enda er "best practices" við skuldastýringu eitt af þeim grundvallaratriðum (ásamt háu lánshæfismati) sem erlendir fjárfestar líta til þegar þeir eru að fara að lána ríkisstjórnum fé.  Þótt leitt sé frá að segja þá er ekki líklegt að Íslandi bjóðist viðunandi lánskjör (ef þeir þá fá lán) á erlendum mörkuðum ef skuldastýring ríkissjóðs er ekki í bestu mögulegu umgjörð. Í því samhengi skiptir meira að segja Icesave litlu máli.  Þess vegna er mikilvægt að hlýtt sé á erlenda sérfræðinga og það verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir geti skilið á milli söluræðu og innihalds, því allir (eða flestir alla vega) sem koma fyrir þingnefndir eru í rauninni, í einhverri merkingu að selja eitthvað.

Hvað um það. Vegna þess að Kanadamaðurinn hafði einnig skoðanir á AGS og þeim lánum sem íslensk stjórnvöld vilja fá þar, skoðanir sem ekki eru í samræmi við "ríkjandi viðhorf" í stjórnsýslu og stjórnkerfi, en hann telur eins og margir aðrir að þau muni bara gera slæma stöðu enn verri. Þá vildu þingmenn meirihlutans ekki hitta manninn og sá undir iljarnar á þeim í bæði fjárlaganefnd (nema formanninum) og einnig í efnahags- og skattanefnd þar sem Lilja Mósesdóttir (VG) og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Samfó) voru þau einu stjórnarmegin sem sátu allan fundinn.

Fundirnir voru á margan hátt upplýsandi og hefðu gagnast öllum þingmönnum vel þótt söluræðan sjálf færi stundum fram úr hófi. Kanadamaðurinn benti á marga gagnlega þætti sem þarf að gaumgæfa en því miður komst það ekki til skila til þeirra sem mestu ábyrgðina bera. Hann talaði líka oft eins og hann væri að tala niður til barna og um íslendinga eins og þeir vissu hreint ekkert hvernig staðan raunverulega væri. Þetta er hins vegar talandi sem ég sjálfur hef talsvert orðið vitni að hjá embættis- og ráðamönnum erlendis og ætti að vekja fólk til alvarlegrar umhugsunar um hvers vegna talað er um og til Íslands með þessum hætti. Hann vildi líka "selja bílinn" líkt og allir bílasalar, en það verður að hafa í huga að þó menn séu bílasalar er ekki þar með sagt að þeir búi ekki yfir mikilvægri þekkingu um bíla almennt sem og um sérstakar tegundir.

Það væri gagnlegt og fullorðið ef þingmönnum bæri gæfa til að vinna betur saman og líta á lausn verkefnanna framundan sem flókin og erfið verkefni sem krefjast hugsanlega margháttaðra lausna, frekar en að lúta algerlega framkvæmdavaldinu og tilskipunum þess, og fylgja þeim sem trúarbrögðum sem má ekki hrófla við. Miðað við reynslu mína af þessu þingi er hins vegar ekki líklegt að þingmönnum þess takist það, alla vega ekki hvað efnahagsmálin varðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Já, Þór, það er aumlegt ástandið á stjórnmálamönnum og stjórnarliðum sem haga sér eins og þú lýsir því.

Mér sýnist það vera að koma sífellt betur í ljós að evrópska "alþjóðasamfélagið" hafi hér tögl og hagldir í gegnum auðsveipna taglhnýtinga sína í ríkisstjórninni, stjórnarliði og Seðlabankanum, sem ekki þora að fara eftir því sem heilbrigð skynsemi ætti að segja þeim að gera og ekki gera í þágu íslensks þjóðarhags til lengri tíma litið. Hávaxtastefna Seðlabankans er eitt augljósasta dæmið um það, sem fer þvert á hagsmuni íslensks efnahagslífs. Sú stefna hefur hins vegar ómótmælanlega fært erlendum (og öðrum) innistæðueigendum hérlendis ómældar tekjur, sem þjónar hagsmunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins meðal annars.

Hvað heldur þú Þór að valdi þessari undanlátssemi stjórnarliðsins við erlenda hagsmuni? Það þarf almenningur að fá skýr svör við, sérstaklega þegar dregur að næstu þingkosningum.

Kristinn Snævar Jónsson, 18.3.2010 kl. 16:55

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég má til að hrósa þér fyrir þessi málefnalegu skrif um leið og ég harma það hve einstefnulegir flestir þingmenn stjórnarliðisins eru í hugsun Sennilega stafar hún af hagsmunablindu eða einhverju álíka alvarlegu meini.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.3.2010 kl. 17:13

3 identicon

Þessi AUMA og stórhættulega ríkisstjórn verður bara að fara frá - VERKSTJÓRN Lady GaGa er svo slæm að það hálfa væri nóg - spunameistarar & skrímsladeild Samspillingarinnar eru ótrúlegir og það er í mínum huga búið að vera ljóst í langan tíma að okkar samfélagi verður ekki bjargað nema til komi "ný & hæfari ríkisstjórn" - nú er mál að linni - burt með þessa amatöra!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 19:05

4 identicon

Sorglegt að lesa um afstöðu stjórnarliða til manna og málefna. Eins og þau séu búin að ákveða fyrirfram hvað höfðar til þeirra og hvað ekki. Held að það færi betur ef þau væru opnari fyrir mismunandi leiðum. Þá geta þau á endanum verið fullviss um að fara réttu leiðina.

Þetta minnir samt óneitanlega mikið á þjóðaratkvæðagreiðsluna. Samfó tekur ekki þátt í neinu nema það sé ÞEIRRA.

Eva Sól (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 20:42

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Mjög áhugaverð og góð grein. Getur verið að þessi hrokafulla framganga þingmanna stafi af vanmáttarkennd?

Sigurður Þorsteinsson, 18.3.2010 kl. 23:13

6 Smámynd: Guðmundur Karl Snæbjörnsson

Þakka þér pistilinn Þór, mjög áhugavert og upplýsandi eins og oft áður hjá þér. Ekki þó svo efnislega á því sem Alex hafði fram að færa heldur öllu heldur eiginleika þinna í starfi þínu í þinginu sem endurspeglast í lýsingu þinni, sem bendir til sveigjanleika og umburðarlyndis gagnvart persónum og skoðunum annarra. Þarna var þó um að ræða kynningu fyrirtækis sem sérhæfir sig í skuldastýringu ríkissjóða og því nöturlegt að heyra að meirihluti stjórnaliða hafi sniðgengið kynningu þessa.

Það á að vera alger lágmarkskrafa þjóðarinnar að kjörnir þingmenn þess sýni lágmarks virðingu og vilja til að hlusta á sérþekkingu þegar hún býðst, en láti ekki stjórnast af einstrengingslegum sérhagsmunum sinnar hjarðar. Við þurfum aðra tegund og meiri þroska hjá fólki sem við veljum til þingstarfa. Takk fyrir fordæmið Þór.

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 19.3.2010 kl. 12:16

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Góður pistill og gagnlegur. Fjölmiðlar hafa ekki tekið nægjanlega efnislega á því sem maðurinn hafði að segja. Ef það að hann hafi séð fyrir sér góð verkefni framundan í spá sinni um hrunið og að hann komi hingað í þeim tilgangi að sækja verkefni, er dauðasynd, þá lengist listi grunaðra ört.

Málefnanleg umræða í fjölmiðlum væri sú að sækja álit fyrrum viðskiptavina hans eins og Nýsjálendinga og kanna hver hugur þeirra er til mannsins og hans verka. Þar kæmi gagnlegur vinkill inn í mat á hans afrekum.

Persónunrægingar spunameistara hefur lítið vægi.

Haraldur Baldursson, 19.3.2010 kl. 15:54

8 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

   

Þetta er góð og gagnleg frásögn af vanhæfni Icesave-stjórnarinnar. Enn einu sinni kemur í ljós að ríkisstjórnin er ekki að gæta hagsmuna almennings í landinu, heldur dulinna hagsmuna. Hverjir þessir duldu hagsmunir eru, get ég ekki svarað enda væru þeir þá ekki duldir.

 

Alex Jurshevski hefur komið hreint fram og boðið fram þekkingu sína, reynslu, sambönd og vinnuframlag. Ég er raunar viss um, að hann gæti farið langleiðina með að leysa þann efnahagsvanda sem við erum að glíma við. Hann gæti til dæmis líklega snúið afstöðu AGS, sem lýtur stjórn Bandaríkjamanna og má benda á að það voru þeir sem fengu fram endurskoðun sjóðsins, eins og kom fram í leyniskjali sendiráðsins. Mér er kunnugt um, að hans fyrsta verk í starfi fyrir Ísland væri að heimsækja AGS.

 

Varla er nokkur venjulegur maður svo þunnur, að hann haldi að erlendir menn sem hafa fullt af verkefnum komi hingað til lands og leggi á sig skriftir, viðtöl og fundi, án þess að vera tilbúnir að taka að sér launaða vinnu. Slíkir menn eru samt til, en flestir eru eðlilega tilbúnir að þyggja laun fyrir. Svo er spurning hvort Íslendingar hafa geð til að þyggja ólaunað vinnuframlag erlendra sérfræðinga, á meðan hér er allt fullt af innlendum heimskingjum á ríkisjötunni, sem nefna sig sérfræðinga.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 19.3.2010 kl. 17:30

9 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Fínn pistill, Þór, það er alltaf áhugavert þegar gardínurnar eru dregnar frá gluggunum svo glittir í störfin sem fram fara á Alþingi utan sjónmáls almennings. Og þú hittir svo sannarlega naglann á höfuðið þegar þú segir að Alex Jurshevski hafi skelft líftóruna úr stjórnarliðinu.

Að hugsa sér að fullorðið fólk skuli láta ótta sinn við veruleikann hrekja sig til að vanvirða stofnanir Alþingis. Jurshevski sagði það sem ekki hefur mátt segja upphátt í áheyrn þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að við þurfum að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og lækka skuldir þjóðarbúsins. Hvert mannsbarn sem fætt er fyrir tíma kreditkorta áttar sig á að lántaka er skuld sem þarf að borga. Í orðræðunni undanfarna mánuði hefur verið látið eins og AGS lánin væru líflína sem bæri engar skuldbindingar í sér. 

Það var því bara dálítið hressandi að hlust á Kanadamanninn kallar hlutina sínum réttu nöfnum; öflug atvinnustarfsemi er líflínan sem við þurfum á að halda og sama hvernig  stjórnarliðar láta þá verður lán aldrei annað en skuld.

Ragnhildur Kolka, 19.3.2010 kl. 22:13

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lánleysi þessarar þjóðar er nú helst heimska hennar sjálfrar. Í aldarfjórðung hefur einhverjum vírustengdum tölvunördum í Hafró tekist að hindra þjóðina í því að bjarga sér á stærstu auðlind þjóðarinnar.

Eða er þá fiskurinn í sjónum bara ætlaður til efnis í Spaugstofuna?

Alþingismenn hafa þær skyldur helstar í dag að losa handjárnin af vinnufúsum höndum. Það hefur fram til þessa reynst þessari þjóð haldlítið til næringar að hlusta á erindi uppskrúfaðra sérfræðinga sem hafa klippt sig frá raunveruleikanum af upphöfnum vísindarembingi. 

Árni Gunnarsson, 19.3.2010 kl. 23:12

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

"Í draumi zérhverz mannz er fall hannz falið"...

Verra er að martröðin zitur uppi með okkur hin, til upplifunnar.

Steingrímur Helgason, 24.3.2010 kl. 01:10

12 Smámynd: Haraldur Baldursson

Það er gríðarlega gaman að skoða hlutina í samhengi.
1. Egill Fær Alex Jurshevski í heimsókn :
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472556/2010/03/14/3/

2. Allir stjórnarliðar ráðast á persónu Alex, og sleppa síðan að mæta á fund með honum :
http://thorsaari.blog.is/blog/thorsaari/entry/1031722/ [FÆRSLAN HÉRNA]

3. Jón Daníelsson kemur í Silfrið og styður í grundvallaratriðum það sem sagt var vikunni áður
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472557/2010/03/21/3/

4. Verður þá nú ráðist á persónu Jóns Daníelssonar ? Hvað gerir spunaverksmiðjan nú ?

5. Recovery partners lýsa sinni afstöðu, fólki til glöggvunar :
http://silfuregils.eyjan.is/2010/03/23/athugasemd-fra-recovery-partners/

Haraldur Baldursson, 24.3.2010 kl. 09:19

13 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Haraldur, athyglisverð atburðarás sem þú dregur upp. Má ég þó lengja söguna nokkuð með að vísa á eigin bloggsíðu, þar sem Alex gefur slóð á ýtarlegri umræðu frá Recovery Partners, en finna má á Eyjunni.

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/1033716/

Loftur Altice Þorsteinsson, 24.3.2010 kl. 10:07

14 Smámynd: Gunnlaugur Gunnlaugsson.

Góð grein hjá þér Þór haltu áfram á þessari braut ekki veitir okkur af það þarf að koma heimilinum til hjálpar með niðurfellingu

á höfuðstól lána og koma atvinnulífinu á stað.? Vonandi getur þú og þinn flokkur haft áhrif ekkert er að gerast hjá hinum flokkunum nema Framsókn er með tillögur núna, er ekki búinn að kinna mér  þær nægilega.

Gunnlaugur Gunnlaugsson., 25.3.2010 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband