Þinghúsbréf 5

Enn einn einkennilegur dagur hér á hinu háa Alþingi.  Þetta er skrifað eftir kvöldfund sem lauk ekki fyrr en um 23:30 og það með miklum harmkvælum.  Dagurinn hófst með fundi í Fjárlaganefnd kl. 8:30 og þar með missti ég af fundi í Efnahags- og skattanefnd sem var haldinn á sama tíma.  Það er svona að vera bara fjögur í flokki þá geta nefndarfundir skarast þegar dagskrá þingsins byrjar að riðlast eins og hún er farin að gera út af ESB málinu.

Hvað um það, eftir áhugaverða kynningu á framtíðarhorfum þjóðarbúskaparins af hálfu Fjármálaráðuneytisins var haldið yfir í þinghúsið þar sem mál málanna, tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður að ESB var á dagskrá.  Rétt áður fréttum við af nokkurs konar upphlaupi sem hafðir orðið á fundi Efnahags- og skattanefndar þar sem allt í einu var krafist trúnaðar af þingmönnum, þ.e. þess að þeir upplýstu ekki almenning um fundinn.  Tryggvi Þór Herbertsson sætti sig ekki við slíka leynd og gekk út af fundi.  Hrós til hans.  Svona lagað er mjög vafasamt svo ekki sé meira sagt og að nefndarfundir Alþingis skuli geta verið leynilegir er að mínu mati algerlega ótækt.  Það hlýtur að vera prinsipp mál að öll störf Alþingis séu uppi á borðinu nema í algerum undantekningartilvikum þegar sannanlega er um öryggi ríkisins að ræða.

Jæja svo hófst ESB umræðan og eins og okkur grunaði þá fór hún strax í gömlu fjórflokka hjólförin.  Þráinn tjáði sig fyrir hönd Borgarhreyfingarinnar:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T121700&horfa=1

og átti svo í samskiptum við Pétur H. Blöndal sem varð fyrir vonbrigðum með Borgarahreyfinguna.  Þeir áttu alveg óborganlegt samtal, sjá hér sem byrjar með s.k. "andsvari" PHB:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122223&horfa=1

hér svarar Þráinn

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122429&horfa=1

og Pétur aftur

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122601&horfa=1

og svo Þráinn

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122728&horfa=1

Að loknu þessi innslagi okkar var rætt afturábak og áfram um ESB aðild fram að kvöldmat en þá var tekið inn í dagskrána hið há leynilega mál um hækkun á sköttum á bensíni, sígarettum og sprútti.  Mál sem hafði verið kynnt fyrr um daginn sem trúnaðarmál svo alþýðan færi nú ekki að ná sér í sígarettupakka eða fullan bensíntank á gamla verðinu.  Það átti að keyra málið í gegna á mettíma og gumuðu flutnings- og stuðningsmenn af því að ætla að reyna að slá 80 mínútna met sem var skemmsti tími sem farið hefur í að gera mál að lögum.  Skattahækkanir þessar eiga að ná inn tæplega 2.700 milljónum í ríkiskassan á þessu ári.

Þegar nokkrir þingmanna höfðu rýnt í framkomið frumvarp og þá sérstaklega þá klausu sem sagði að þessar hækkanir myndu valda 0.5% hækkun á vísitölu neysluverðs þá fórum við að reikna.  Þetta þýddi hækkun á húsnæðisskuldum heimilana um 8.000 miljónir á einu bretti sem er einfaldlega alveg ferlega ömurlega óréttlátt.  En bíðum við, vegna verðtryggingarákvæða þýddi þetta líka að því að talið var um 5.000 milljóna hækkun á persónuafslættinum sem er tap fyrir ríkissjóð, um 400 milljóna hækkun á bótum úr almannatryggingakerfinu og um 1.500 milljóna hækkun á verðtryggðum skuldum ríkissjóðs sjálfs og þá er nú ekki mikið eftir af skatttekjunum.

Boðaður var nefndarfundur í Efnahags- og skattanefnd og yfir pizzum ræddum við við fulltrúa ASÍ, SA  og Fjármálaráðuneytis.  Meirihluti nefndarinnar sendi málið aftur inn í þingið til s.k. annarar umræðu en þegar átti að vísa því til þriðju umræðu var farið fram á annan nefndarfund og fulltrúi Fjármálaráðuneytisns ræstur út (kl. 21:30) til að koma fyrir nefndina og reyna að skýra þessa óáran.  Fljótlega kom í ljós að í gagnrýninni hafði verið ofreiknað um eitt núll og hækkunin á persónuafslættinum myndi kosta ríkissjóð tæplega 500 milljónir, ekki 5.000. En hvað um það, öll þessi fyrirhöfn og 8.000 milljóna aukakostnaður fyrir heimilin fyrir u.þ.b. 600 milljóna auknar tekjur fyrir ríkissjóð á þessu ári.

Allt starf og dagskrá þingsins riðlaðist en að loknu miklu þvargi náði meirihlutinn að koma þessu í gegn.Ekki veit ég hvort 8.000 milljóna skuldaaukning heimilana sé í stefnuskrá VG eða hvort hún hafi verið áveðin á landsfundinum en greinilegt var að sum þeirra greiddu þessu atkvæði þvert um geð og Lilja Mósesdóttir sat hjá við nokkrar atkvæðagreiðslur.  Tóní Blair hefði hins vegar verið stoltur af sósíaldemókrötunum í Samfylkingunni sem kokgleyptu frumvarpið.

Sem sagt undarlegur dagur og enn undarlegra kvöld.  Hér þarf virkilega að taka til hendinni hvað varðar vinnubrögð.

Innlegg mitt í umræðuna má svo sjá hér:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T185802&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T205215&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T211733&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T232148&horfa=1

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Kæri Þór ekki falla í sandkassaleik Sjálfstæðis og Framsóknar. Og allra síst forðist orðhengilshátt og útúrsnúninga varðandi ESB umsókn. Við verðum að komast því hvað þarna er raunverulega í boði og afhverju 27 ríki sitja þar sem fastast á sama tíma og við erum skilin nær ein eftir í EFTA. - Þorum við að vera menn eða erum við mýs? - þorum við að vera þjóð meðal þjóða og sitja til borðs með alvöru leikendum og láta til okkar taka um hagsmuni okkar og málefni heimsins og Evrópu, verja stöðu okkar og sækja rétt okkar? - eða ætlum við bara að hýrast á hliðarlínunni áfram og taka við tilskipunum í pósti þar til einhver þeirra, sem við vissum ekkert um, hittir okkur svo illa að best verður að loka búllunni?

Helgi Jóhann Hauksson, 29.5.2009 kl. 03:20

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Trúnaðarmál?? Til að fólk fyllti ekki tankana af bensíni, skápana af búsi og hillurnar af sígó? Really?

Jahérna! Það væri nú þokkalegur andskoti ef fólki hefði nú tekist að kaupa þessar munaðarvörur í eitt síðasta skipti á þessu líka fína verði sem það var! 

Ekki öfunda ég þig Þór minn, að vinna á þessum vinnustað ;)

Heiða B. Heiðars, 29.5.2009 kl. 07:32

3 identicon

Trúnaður eða trúðnaður ætli vanhæfa ríkistjórnin hin Síðari hafi ekki verið HRÆDD VIÐ FÓLKIÐ hvað ef við hefðum staðið fyrir utan og haft hátt (kænski betra að við flytjum úr landi).

vonandi er einhver þarna sem vill halda fólkinu í landinu og lætur vita um svona lagað til að halda landinu í byggð

Tryggvi (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 09:39

4 identicon

Ekki gleyma auknum vaxtabótum vegna hækkandi húsnæðislána og verðtryggingu samninga vegagerðarinnar við verktaka

black swan (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 10:07

5 identicon

Takk fyrir þessi þingblogg, það er áhugavert að lesa um hvernig þetta gengur fyrir sig á hinu háa Alþingi

Adam Hoffritz (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 10:57

6 identicon

Sæll Þór

Ég hygg að enginn efist um að það þarf að grípa til erfiðra og sársaukafullra aðgerða í ríkisfjármálum á næstu misserum.

Það að ríkisstjórnin með "heilögu" Jóhönnu í fararbroddi skuli/vilji hins vegar ekki sjá óréttlætið í því að slíkar aðgerðir leggist jafnframt með beinum hætti á skuldbindingar almennings í gegnum verðtrygginguna er með ólíkindum. Þau rök Jóhönnu að ESB sé eina leiðin út úr verðtryggingu eru ennfremur vægast sagt aum að mínu mati. 

Ég skora á þig / ykkur í stjórnarandstöðu til að leggja þegar fram frumvarp sem yrði e-h efnislega á þá leið slíkar skattahækkanir skuli ekki í e-h tiltekinn tíma teljist með við útreikning á vísitölunni.

Mér þætti gaman að sjá núverandi meirihluta fella slíka tillögu með beinum hætti og taka þannig beina afstöðu með fjármagnseigendum á kostnað almennings.

Þórarinn (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:02

7 identicon

Takk kærlega fyrir þetta blogg gott að heyra hvernig hlutirnir fara fram þarna. Tek undir með Þórarni, þetta væri gott að sjá í eitt skipti fyrir öll. Ég er komin með ógeð af hræsninni og verðtryggingunni.

Hanna F. (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:31

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Tek undir að Borgarahreyfingin eigi að einbeita sér að því að fá stjórnvöld til að skera á afleiður skattahækkananna, þ.e. áhrif þeirra inn í vísitöluna. Hækkun á áfengi, tóbaki og ýmsu öðru slíku er auðvitað óhjákvæmileg og í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (þ.e. ríkisstjórna þeirra sl. 20 ár). Hátt bensínverð stafar síðan síst af öllu af okri ríkisins, heldur okri olíuframleiðsluríkja og olíufélaga. Þessi hækkun veltuskatta var sjálfsögð og óhjákvæmileg sem einna fyrsti kostur. Stjórnvöld þurfa og munu fylgja þessu eftir með öðrum hækkunum - því þær eru betri en niðurskurður á velferðarkerfinu. Næst vil ég sjá stóreignaskatt, hátekjuskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts, hækkun virðisaukaskatts á lúxusvörur og síðast en ekki síst: Kyrrsetningu og þjóðnýtingu á eignum útrásar"snillinganna" upp í tjón þeirra. Allt er þetta betra og skárra en að fara að rukka sjúkt og slasað fólk eða henda því út af heilbrigðisstofnunum ella. 

Mín vegna mætti áfengisflaskan fara í 10 þúsund krónur og sígarettupakkinn í 2 þúsund krónur. Ég nota hið fyrrnefnda ekki og hið síðarnefnda mun ég vonandi hætta að nota sem allra fyrst!

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.5.2009 kl. 11:34

9 identicon

Kærar þakkir fyrir þetta blogg.  Það er gott að geta fylgst með þessu.  Mun halda áfram að lesa bloggið þitt.

Bestu þakkir,

Berglind (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:47

10 identicon

Það er komin tími til þess að þessi þjóð rísi upp og neiti að borga af verðtryggðu lánum sínum.

Hættum að borga, já hættum að taka þátt í þessari vitleysu.

Afhverju erum við að kasta peningum niður í botnlaust hýt???

Rísum upp öll saman og neitum að taka þátt í þessu. Það er eina vitið og mun skárri kostur en einhver blóðug borgarastyrjöld.

Ég er hætt að taka þátt í þessu.

Björg F (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 12:17

11 identicon

Sæll. 

Veit einhver hversu margir sem vinna hjá ríkinu hafa laun sem eru langt yfir launum forsætisráðherra?  Hefur komið fyrirspurn um það?

Líklega eru það fleiri hundruð manns, og með því að lækka þau laun strax mætti ná inn vænum skilding.  Það gengur ekki að ráðast svona harkalega á heimili með lágar og meðaltekjur. 

Mbkv.

AM (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 15:46

12 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég þakka fyrir þessi blogg þau opna augu okkar fyrir því hve vinnan er mikil, stundum óþarflega mikil.

Ég vil andstætt Helga Jóhanni hér að ofan leggja að ykkur þingmönnum Borgarahreyfingarinnar að þrýsta á að þessi fjandanns Evrópusambandsumræða hætti að tefja aðra nauðsynlega vinnu, þessi vanhæfa ríkisstjórn síðari er að haga sér eins og fífl. Enn ég tek undir með Helga passiði ykkur á því að falla ekki í þennan sandkassaleik fjórflokkanna og ekki gera einn eða annan þessara flokka að "óvinum" ykkar, haldið áfram að vera á þingi á þeim forsendum sem þið fóruð inn á Alþingi á.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 29.5.2009 kl. 18:06

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Virkilega gaman að sjá til Þráins í ræðupúltinu, þó að vissulega hljóti það að teljast "vonbrigði" að aðdáun Péturs á Borgarahreyfingunni hafi ekki verið langvinnari. Við ættum þó að fagna þessum tímamótum sérstaklega, ég held nefnilega að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem að Sjallarnir ræða hreyfinguna beint opinberlega - þeir hafa hingað til að virðist kosið algerlega að hunsa hana.

Það er hrein snilld Þór að geta kíkt hér inn og séð svona netta dagbók.

Baldvin Jónsson, 29.5.2009 kl. 18:46

14 identicon

Er ekki kominn tími til að endurskoða verðtrygginguna - þarf verðtrygging á láninu mínu að hækka ef áfengi og tókbak hækkar? Er eitthver sanngirni í að þá verða þeir ,,feitari" sem lána á verðtryggðum kjörum?  Þessu þarf að breyta og það strax!!

Hvar er skjaldborgin sem átti að setja yfir heimilin?  Ég hreinlega auglýsi eftir henni.

Við sem erum venjulegir borgarar í þessu landi - við fáum bara hækkanir á nauðsynjum, skattahækkanir - hækkanir á lánunum okkar og svo auðvitað ekki má gleyma að steinkumbaldanir okkar eru að lækka og það fjandi mikið!!!!!

Er ekki kominn tími til að taka til hendinni og gera eitthvað af því sem stjórnarmenn lofuðu!

inga (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 22:27

15 identicon

Þú segir hér í ofangreindu Þinghúsbréfi þínu: "En bíðum við, vegna verðtryggingarákvæða þýddi þetta líka að því að talið var um 5.000 milljóna hækkun á persónuafslættinum sem er tap fyrir ríkissjóð, um 400 milljóna hækkun á bótum úr almannatryggingakerfinu og um 1.500 milljóna hækkun á verðtryggðum skuldum ríkissjóðs sjálfs og þá er nú ekki mikið eftir af skatttekjunum."

Eigum við sem sagt von á hækkun úr almannatryggingakerfinu og lækkun á persónuafslætti, eða ertu að vitna í aðgerðir sem að þegar hafa verið framkvæmdar og þær tekjur sem að komu þá, hafi nú þegar verið tekið af okkur?

Þú er þegar farinn að hugsa og setja fram hlutina eins og fordankaður pólitískur. Þetta var ekki lengi að gerast.

P.S. Ég vil fá svar á mannamáli.

Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 22:39

16 identicon

.....og hækkun á persónuafslætti......  átti þetta að vera.

Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 22:42

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Er þetta ekki bara svona „skemmtilegur leikur“ í þeim tilgangi að treysta skjaldborgina sem ljóst og leynt er verið að slá utan um fjármálastofnanirnar í landinu. A.m.k. sýnist mér að það séu þær sem græða fyrst og síðast á þessum hækkunum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.5.2009 kl. 22:51

18 Smámynd: Hanna Birna Jóhannsdóttir

Ég óska þér til hamingju með starfið, "en spyr?  ætlar þú að vinna starfið sem einn andmælandi þingheims? Hvað hyggist þið gjöra til að breyta því ástandi sem nú ríkir? Getur verið að ykkar rödd heyrist lítið " kannski alls ekki,, Ég veit að erfið ganga er framundan hjá ykkur, eins og þingmenn Frjálslynda flokksins  hafa gengið  s.l. 10 ár en þeir náðu samt að leggja grunn að bætu samfélagi. Vonandi standið þið vörð um þá stefnu og hættið að vorkenna ykkur sjálfum.

Hanna Birna Jóhannsdóttir, 29.5.2009 kl. 23:19

19 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta með að hækka eða auka gjöld á vín, tóbak og bensín o.þ.h minnir allt á árin í hringum 1980.   Aðgerðirnar náttúrulega, býst eg við, skila fljótlega einhverju aukalega í kassann, þ.e.a.s.  slík inngrip eru skilvirk.

En um heildaráhif til lengri tíma litið skal ég ekki segja.

Aðgerðir af þessum toga voru líka þá umdeildar vegna afleiddra áhrifa.  Mig minnir að vín hafi einfaldlega verið tekið úr vísitölunni 1979 til að forðast slík áhrif.  Minnir að eitthvaðsvoleiðis trikk hafi verið í gangi í þá daga.

En þetta dæmi hjá Pétri Blöndal um að ganga í Bandaríkin er svona álíka popp og þegar hann sagði að Sjálfstæðisfokkurinn gæti ekki stutt aðild að ESB vegna þess að hann héti Sjálfstæðisflokkurinn.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.5.2009 kl. 00:56

20 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mikið líst mér vel á málflutning ykkar Þráins á þinginu í gær, takk fyrir að setja umræðuna á bloggið þitt.  Ég sjálf var upptekin í vinnu í kvöld og missti ég af fréttum og bloggi þess vegna.  Takk fyrir mig. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.5.2009 kl. 03:23

21 Smámynd: Soffía

Það þarf skiljanlega að ná fleiri krónum inn í rikiskassann en eins og margir hér fyrir ofan benda á þá eru afleiddu áhrifin mjög slæm!

Takk fyrir að upplýsa menn með bloggi þínu um vinnuna sem fer fram innan veggja alþingis. 

Soffía, 30.5.2009 kl. 09:18

22 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég ákvað að láta mig hafa það að hlusta á þetta óborganlega samtal þeirra Þráins og Péturs og má vart á milli sjá hvor vekur meiri hlátur. Það verður þó að segjast að þeir gra það ekki af sömu ástæðu. Það er útlit fyrir að Pétur hafi ekki gert það alveg upp við sig hvaða mikilvæga máli hann ætlaði að koma á framfæri við þingheim. Enda ljóst að Þráinn er í svolitlum vandræðum með það hvað hann á að leyfa sér að ganga langt í að benda honum á hvað hvað hann er kjánalegur af þessum sökum svo og málflutningur hans.

Hins vegar fannst mér það hámarkið þegar þingforsetinn setti ofan í við Þráinn fyrir að ávaprið þegar hann sagðir: „Hvað segirðu Pétur minn?“ Þingforsetinn benti honum á að hann mætti ekki ávarpa þingmann með þessum hætti!? Af hverju í ósköpunum ekki?? spyr ég nú bara. Það má reka málþóf, vera með aðdróttanir og hvað eina en ekki skeyta minn eða mín fyrir aftan eiginnöfn þingmanna? eða var það það að hann mátti ekki ávarpa hann með skírnarnafni?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.5.2009 kl. 21:15

23 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir þessa færslu.

Billi bilaði, 31.5.2009 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband