Þinghúsbréf 2

Síðustu tveir dagar hafa verið viðburðarríkir og ánægjulegir.  Gærdagurinn fór allur í e.k. þingmannaskóla þar sem okkur voru kynntar starfsreglur og hefðir þingsins ásamt þeirri þjónustu og starfsaðstöðu sem er til staðar á svæðinu og það kemur á óvart hvað starfsfólk Alþingis skiptir miklu máli fyrir starf þingsins.  Þetta er fólkið sem vinnur bak við tjöldin, oft langt fram á kvöld og undir miklu álagi við að sjá til þess að þinghaldið sjálft gangi snurðulaust fyrir sig.  Við berum sennilega ábyrgð á einhverjum svefnlitlum nóttum fyrr á árinu.  Þetta er hluti Alþingis sem við sem erum nýkomin inn af götunni vissum í raun ekki um nema að litlu leiti en höfum haft ánægjuleg kynni af.  Við Borgarahreyfingarfólkið erum ennþá hálf týnd í öllum þessum reglum og hefðum, skráðum sem óskráðum og fyrir okkur sem höfum enga "mentora" á þingi er starfsfólkið ómetanleg aðstoð.

Það voru gleðifréttir að forneskjulegum reglum um klæðaburð hefur verið breytt og að þingmönnum sé treystandi til þess sjálfum að klæða sig.  Nýju þingmennirnir eru 27, aldrei verið fleiri og greinilegt að ferskir vindar munu blása um þingsalina.  Framsóknarmennirnir bera sig vel fyrir utan fremur hallærisleg viðbrögð við flutningi milli þingherbergja, en svo virðist sem ákveðnir flokkar telji sig hreinlega eiga hluta Alþingis.  Slímsetur við völd fara greinilega ekki vel með fólk.  Sjálfstæðismennirnir eru hins vegar fáleitari nema þeir nýju, hrun þeirra úr valdastólum er mikið og fyrir okkur er það sérstakelga sætur biti að fá skrifstofur brottfallinna þingamanna Sjálfstæðiflokkssins á fimmtu hæðinni í s.k. "Skandalhúsi" við Austurstæti 8-10.

Dagurinn í dag átti að fara í þinghópsfund og svo fund með fulltrúum frá Hagsmunasamtökum heimilana en leystist upp í endalausa símafundi, hlaup og viðræður.  Ríkisstjórnar plaggið frá í gær um Þingsályktunartillöguna var tímabundið trúnaðarmál meðan verið var að ræða við stjórnarandstöðuna um afstöðuna til þess og síminn stoppaði ekki frá fjölmiðlamönnum sem voru að leita að leka.  Þetta var nú ekki beinlínis sú pólitík sem við sóttumst eftir en þar sem einungis var um vinnuplagg að ræða var þetta ekki stórmál.  Sjálfur fór ég á fund Össurar til að ræða innihaldið og afstöðu Borgarahreyfingarinnar til þess og fór vel á með okkur um þetta mál.  Skilyrði okkar eru öll í anda aukins lýðræðis og gegnsæis og ekki annað að merkja en að ríkisstjórnin sé samstíga okkur í þeim efnum.  Allt fjölmiðlafárið í kringum leyndina tók svo enda um leið og Össur hafði lokið viðræðunum og plaggið var birt.

Hagsmunasamtök heimilana komu máli sínu vel til skila og það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hversu vönduð vinnubrögð þau sýna og hve málefnalegur og æsingalaus þeirra málflutningur er.  Niðurstaðan er kannski sú sem við höfðum grun um, þ.e. að "aðgerðir" ríkisstjórnarinnar munu ekki gagnast skuldsettum heimilum landins nema að mjög litlu leiti.  Niðurstaða okkar var að við vorum í raun furðu lostin að ríkisstjórninni, eða yfir höfuð nokkrum, skyldi detta þetta allt saman í hug, því ekki er mikið gagn af því.  Ef eitthvað er þá erum við enn sannfærðari en áður að það verður að koma til almenn niðurfærsla á höfuðstól húsnæðisskulda.

Hluti dagsins fór svo í að skipuleggja hvaða nefndir við ættum að leggja áherslu á að komast í með hliðsjón af stefnuskránni.  Fastanefndirnar eru tólf og við ekki nema fjögur þannig að eitthvað gengur víst af.  Við höfum verið í viðræðum við stjórnarflokkana um nefndarkosninguna sem fór illa í Illuga, en hvorki hann né Sigmundur höfðu samband við okkur hvort eð er þannig að við reiknuðum ekki með neinum áhuga þeim megin.

Morgundagurinn verður svo áhugaverður, sparidagur með prjáli, húrrahrópum og fínimennum, dregið um sæti og kosning í nefndirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það þarf að hamra á tafarlausum lausnum fyrir heimilin í landinu, sem eru mörg hver að fara á hausinn.  Svo óska ég ykkur þingmönnum Borgarahreyfinarinnar góðs gengis á Alþingi okkar Íslendinga.  Ég hlakka til að fylgjast með ykkur, vinna fyrir okkur hin. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.5.2009 kl. 00:46

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Þór.

Ég óska þér til hamingju með kjör sem þingmaður.

Ég hvet þig til þess að rýna vel í gegnum það atriði að láta ekki annan stjórnarflokkinn teyma sitt eigið flokksstefnumál aðild að Evrópusambandinu,  einhvern veginn gegnum Alþingi án þess svo mikið að þjóðin hafi verið spurð um vilja í því efni, hvað þá að málið hafi verið kynnt þjóðinni í formi samningsmarkmiða, af hálfu þess stjórnmálaflokks.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.5.2009 kl. 00:51

3 identicon

Áfram, þið!

gbk (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 01:04

4 identicon

Styð þig Þór, ert málefnalegur og klár, þótt ég hafi ekki kosið þig, líst vel á að þingmenn fylgi sinni samfæringu, óháð flokkshagsmunum, enda þetta mál þannig vaxið, að allir þurfa að huga að bættum hagsmunum þjóðarinnar, áfram borgarahreyfing. !!!!!!

Guðmundur Baldursson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 01:12

5 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Ég skora á þig, Þór Saari, að sniðganga messugönguna á morgun og sækja fyrirlestur hjá Siðmennt á Hótel Borg. Að minnsta kosti sleppa messugöngunni. Aðskilnaðurinn milli ríkis og kirkju eru aðeins þessir nokkru metrar sem liggja frá Dómkirkjunni að Alþingishúsinu.

Kristján Hrannar Pálsson, 15.5.2009 kl. 01:21

6 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Hagsmunasamtök heimilanna er hér að finna: http://www.heimilin.is

Þórður Björn Sigurðsson, 15.5.2009 kl. 01:21

7 identicon

Smáræðis og nöldursleg ábending varðandi rithátt. Leiti er í landslagi, þ.e. þegar eitthvað ber í milli þannig að maður sjái ekki milli staða. Að öðru leyti og að hinu leytinu er skrifað með -y-

Að öðru leyti finnst mér Borgarahreyfingin uppfylla væntingar, prúðmannleg framkoma, málefnaleg afstaða til fólks og þjóðmála, kreddur og kennisetningar víðsfjarri. Þetta er það sem gömlu flokkana hefur vantað, einkum afturhaldsflokkana Sjálfstæðis- og framsóknarflokk, (sem ég skrifa aldrei með stórum staf, því að mínu mati er það ekki stjórnmálaflokkur heldur hagsmunaklíka af verstu tegund).

Bangsímon (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 05:19

8 identicon

Orðað fullkomlega hér það sem mig langaði að segja: http://www.baldurmcqueen.com/2009/2289-sjaldseeur-saari

ASE (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 09:31

9 identicon

Hvaðan fær "skandalhúsið" nafnið sitt?

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 09:47

10 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Mér skilst að Þór, Birgitta og Margrét muni vera á Austurvelli meðan messað verður eða jafnvel að hlýða á Jóhann í siðmennt á Borginni á meðan.

Til hamingju með daginn Þór...það blása ferskir vindar með ykkur í þinghópnum og ég er stolt af því að mitt fólk taki nú sæti á alþingi íslendinga og veit að þið munuð gera vel.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.5.2009 kl. 10:29

11 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þið eruð að standa ykkur mjög vel. Takk fyrir það og bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 15.5.2009 kl. 10:36

12 Smámynd: Gústaf Níelsson

Er ekki óþarfi að hoppa í faðm ríkisstjórnarflokkanna á þingi, þótt stjórnarandstaðan nenni ekki að sitja á hljóðskrafi við ykkur? Eruð þið nokkuð móðgunargjörn? Það verður fróðlegt að sjá undir hvaða flaggi þið munið sigla í þinginu næstu mánuðina.

Gústaf Níelsson, 15.5.2009 kl. 18:00

13 identicon

Komið þið sæl; Þór - líka, sem þið önnur, hver geyma hans síðu og brúka !

Þór !

Þú; sem samþingmenn þínir, í ''Borgara hreyfingunni'', hafið valdið okkur föðurlands vinum öllum, hinum mestu vonbrigðum.

Það eitt; að hlaupa í snörur krata landráða hyskisins, með velþóknun Kommúnista, sem og það; að fara fremst, í fylkingu ESB fylgjara sýnir - hversu lítilla sanda / lítilla sæva, þið eruð, að upplagi öllu.

Vinsamlegast; gakk þú, út úr þessu svika mynstri - sem þið önnur ykkar, hver látið hafa flækjast, í vefjum vinstra hyskisins.

Eða; voruð þið ekki í framboði - í þágu fólksins í landinu, og sakir þeirra NAUÐSYNJA hverra leiðréttinga allra bíða, og á landi og fólki og fénaði brenna, Þór Saari ?

Með; afar þunglegum kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 18:13

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Siðmenning hvað? það eru bara börn sem hafa svona hugmyndir um siðmenningu. Langar að minna á að mannskepnan er grimmasta dýrið á jörðinni en það er ekki kennt í háskólunum því grimmu dýrin stjórna háskólunum. úff..

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.5.2009 kl. 21:11

15 Smámynd: Kristinn Svanur Jónsson

Sæll Þór,

Ég kann að meta þá innsýn sem þið í borgarahreyfingunni hafið fært almenningi varðandi þingstörf, venjur og hefðir. Það má líklega segja að þetta sé flókið apparat, en að sama skapi verður að líta til þess að Alþingi hefur í marga hnúta að líta og það að vera þingmaður er ekki létt starf. Þingmenn hafa margar skyldur sem almenningur gerir sér ekki grein fyrir, nefndarstörf varðandi ýmis málefni og svo framvegis. Það er ekki auðvelt að vera þingmaður og mig grunar að það sem koma mun út úr starfi ykkar í borgarahreyfingunni sé sú staðreynd að fólk á þingi er að vinna á fullu fyrir hag þjóðarinnar... ef ekki þá væri ég til í að fá að heyra um það...

Ég tel að það sé í lagi að menn ræði tildæmis herbergjaskipan þingflokka á fundum. Þetta er spjall milli manna eins og á öðrum vinnustöðum og það hlýtur að vera betra að ræða það heldur en að bæla það. Svo lengi sem það komi ekki niður á öðrum þingstörfum.

með bestu kveðju.

Kristinn Svanur Jónsson, 16.5.2009 kl. 00:11

16 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

ESB - málið:

Ég held, að það væri best, að Borgarahreyfingin og Framsóknarflokkurinn, kæmu sér saman um gagntilboð; það að Alþingi sjálft tæki að sér ESB málið, þ.e. Alþingi skipaði samninganefnd. Þá væri ekki málið, á yfirumsjón einungis eins stjórnmálaflokks - ásamt þeirri tortryggni úti í samfélaginu sem óhjákvæmilega myndi skapast út af slíku fyrirkomulagi. Eins og forseti Íslands benti á, í ávarpi sínu við skipan sumarþings, þá er mikilvægt að kljúfa ekki þjóðina akkúrat núna.

Þingflokkar Alþingis, myndu þá skipa samninganefndina í Sameiningu, væntanlega í samræmi við þingstyrk, og hún myndi senda skýrslu um gang samninga reglulega til utanríkisnefndar Alþingis. Einhvert samningsþóf, myndi að sjálfsögðu skapast, á meðan að sá þingmeirihluti er myndast gæti um málið, væri að semja sín á milli, um helstu áherslur samninganefndar; en eftir að þeirri lotu væri lokið - gæti málið verið frá, í bili; enda munu samingaviðræður taka nokkurn tíma.

Ég held, að þessi lausn, ætti að geta höfðað til Borgarahreyfingarinnar, því hún er lýðræðislegri en að hafa málið, einungis á könnu eins stjórnmálaflokks...þrátt fyrir loforð þess flokks um víðtækt samráð. Punkturinn, í því, er sá, að ef málið er í yfirumsjón Utanríkisráðuneytis, með núverandi ríkisstjórnarmeirihluta, væri það alltaf og ætíð Samfylking, sem tæki loka-ákvörðun, varðandi hvert atriði fyrir sig í samingaferlinu gagnvart ESB.

Ég held, að það sé fullkomlega augljóst, algerlega burtséð frá því hversu einlæg Samfylking er í því að ætla að viðhafa víðtækt samráð, að hætta er meiri í því fyrirkomulagi samningamála, sem Samfylking leggur til, að alda tortryggni og ósættis um málið myndist úti í þjóðfélaginu.

HÖFUM BREIÐARI FYLKINGU UM MÁLIÐ. MNNKUM HÆTTU Á VÍÐTÆKUM KLOFNINGI ÞJÓÐARINNAR UM MÁLIÐ, SEM VIÐ MEGUM ALLS EKKI VIÐ, ÞEGAR SVO MIKILVÆGT ER AÐ BEINA KRÖFTUM OKKAR AÐ BARÁTTUNNI VIÐ KREPPUNA!!!

HAFIÐ EINNIG Í HUGA, að Borgarahreyfingin, hefur samleið með Framsóknarflokknum, í efnahagsmálum, sbr. báðir flokkar, vilja almenna eftirgjöf skulda, að einhverju leiti. Telja slíkt, vera skynsama aðgerð, en meira, nauðsynlegt.

Flokkarnir eru einnig sammála um, að 100 aðgerða plan ríkisstjórnarinnar, sé langt frá því að ganga nægilega langt, í því að bregðast gegn kreppunni í atvinnuífinu og gagnvart almenningi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 16.5.2009 kl. 14:13

17 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flott að fá frá þér, Þór svona yfirlit um það sem þið eruð að gera. Styrkir mann í þeirri trú að Borgarahreyfingin sé það sem koma skal - þangað til hún leggur sig niður! Gott mál.

Arinbjörn Kúld, 16.5.2009 kl. 15:04

18 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Arinbjörn; minn ágæti spjallvinur !

Þar; ferð þú, vegvillur einar, í ályktunum öllum, ágæti drengur.

Þór; hver hefir sannað sig í, hinni vondu villu fylgisspektar sinnar, við ESB heimsvalda sinnana - og svarið sig, til samfélags ills, við Samfylkingu Djöfulsins maktar allrar, þar með, ætti að snúa frá sinni vondu villu - hvern ég hvatti svo sem til; gærdags, og sína iðran nokkra - sem yfirbót góða - og snúa þegar, frá þessarri andskotans foragt, aldeilis.

Með; enn þunglegri kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband