Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Atvinnumálin

Í dag fór fram umræða "utan dagskrár" sem kallað er en það er fyrirbæri þar sem þingmenn geta rætt við ráðherra um tiltekin mál.  Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokki hóf umræðuna og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra var til svara.  Jón tilheyrir áliðjuvirkjana-armi Sjálfstæðisflokksins sem, þó eigi sér ákveðinn stuðning innan Samfylkingar, er þó á undanhaldi.  Rökin gegn virkjunum fyrir álver eru einfaldlega sterkari en svo að framhald geti orðið á.  Það eru margar aðrar leiðir til að virkja vinnuaflið sem er laust í dag eins og ég bendi á í þessum tveimur innleggjum mínum í umræðunni. Stuttur tími gaf ekki svigrúm fyrir frekari umræðu en mikilvægt er að hafa í huga að við höfum alla burði til að vinna bug á atvinnuleysinu sjálf og þurfum ekki "erlent fjármagn" og "erlenda fjárfesta" til.

Hvað um það, hér eru innlegg eitt og tvö.


Sáttatónn og Þríflokkurinn.

Ræddum í dag úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eftir munnlega skýrslu forsætisráðherra um hana.  Menn voru ekki alveg jafn herskáir og venjulega þó ég geri mér litlar vonir um að þverpólitísk samstaða náist um eitt eða neitt á þessu þingi.  Að vísu má vel færa fyrir því rök að fækkað hafi í röðum Fjórflokksins illræmda og að þeir séu nú ekki lengur nema þrír. Það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur tekið miklum stakka- og sinnaskiptum og þó þeir dragist með ál-líkið ennþá í lestinni er greinilegt að sú mikla endurnýjun sem hefur átt sér stað þar á bæ er raunveruleg og til fyrirmyndar. Mér virðast þeir til dæmis hafa mjög skýra og ákveðna sýn í lýðræðismálum og sanna og sterka réttlætissýn varðandi Hrunið og aðdraganda þess og hvað þarf til að gera það almennilega upp.  Þeim er að vísu velt upp úr fortíðinni vegna Halldórs Ásgrímssonar og samstarfs hans við Sjálfstæðisflokkinn og vissulega er draugur Halldórs og félaga frá þeim tíma stór en mér finnst samt sem "Nýja" Framsókn sé raunveruleg.

Þríflokkurinn virðist hins vegar alveg fastur í sömu hjólförunum og keyrðu okkur fram af brúninni einu sinni og er það dapurlegt því samskonar pólitík mun bara endurtaka þá framafkeyrslu. Eftir að hafa fylgst með umræðuni eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Silfrinu og eins á þingfundinum í dag komst ég að þeirri niðurstöðu að til að náist betri þverpólitísk sátt um nokkurn skapaðann hlut í þinginu þurfi að eiga sér stað kynslóðaskipti í ríkisstjórninni.  Sjá hér. Ég lagði til að formenn ríkisstjórnarflokkana vikju til hliðar og við tækju varaformenn flokkana.    Margrét talaði á sömu nótum og Birkjir Jón Frammari var líka í sáttahug.  Þau eru bæði (Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. Eggertsson) með rætur í allt öðruvísi stjórnmálahefðum en SJS og JS og eru ekki með neinn þann farangur af plotti, óheilindum og brostnum vonum eins og núverandi formenn. Það má svo velta fyrir sér ýmsum sætaskipunum í ríkisstjórn eftir það, en það er aukaatriði.

Ef þetta fengist í gegn tel ég verulegar líkur á því að hægt væri að ná góðri þverpólitískri sátt um þau brýnu mál sem svo aðkallandi er að leysa þó vissulega hafi ég efasemdir um að Sjálfstæðisflokkurinn gæti verið með í slíku stafi.  Þar er enn að finna sama gamla öfga-frjálshyggjutóninn og sérhagsmunagæsluna sem leiddi til Hrunsins og ekki gott að segja hvernig þau geta unnið sig framhjá því.

Hver ferð hefst hinsvegar á einu skrefi og hver máltíð á einum bita. Ef menn geta kyngt þessum hugmyndum á þess að kafna eða svelgjast mjög mikið á, þá er vel farið af stað. Það er nefnilega nóg komið af gamla skólanum og það er skylda þingsins að gera betur.


Kosningarnar og ríkisstjórnin

X - Nei var það. Að sjálfsögðu.

Nú hefst seinni hálfleikur og þarf hann að vera undir stjórn annarra en Jóhönnu og Steingríms ef ekki á að fara áfram illa. Þörf er á kynslóðaskiptum í ríkisstjórninni, samanlagður þingaldur Jóhönnu og Steingríms er um eða yfir 60 ár. Það mætti og bæta í stuðningsmannaliðið og láta af þessum gamaldags fjórflokkahroka og þessu einfalda meirihlutaræði sem leitt hefur til átakastjórnmála alveg frá upphafi.  Vonandi hafa þingmenn meirihlutans þroska til að endurmeta stöðuna nú, en það verða að vera þeir, því forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar munu ekki geta það.

Breytt stjórnarmynstur og breyttar áherslur er það sem þörf er á, ekki framhald af því sama.

Til hamingju Ísland með fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna í sögu lýðveldisins.


Þjóðaratkvæðagreiðslan, Icesave, Partý

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með hversu meðvitaðir þingmenn ríkisstjórnarflokkana eru um að komið er að leiðarlokum fyrir Steingrím og Jóhönnu. Ný ríkisstjórn er skrifuð í skýin. Þau hafa í raun framið pólitískt sjálfsmorð með framgöngu sinni og hroka gagnvart þingi og þjóð í þessu Icesave máli og drögin að því sjálfsmorði voru skráð alveg frá upphafi þess.

Eins og fram kemur í gögnunum í Leynimöppu Fjármálaráðherra sem lekið var til WikiLeaks þá héldu þau því leyndu fyrir Framsóknarflokknum sem studdi minnihlutastjórnina, að nokkuð væri verið að vinna í Icesave (þetta heitir óheilindi).  Svo héldu þau því sama leyndu fyrir kjósendum í aðdraganda kosninganna í apríl. Þó ég sjálfur hafi verið fegin að fá það sem ég hélt yrði vinstri stjórn, þá efast ég um að þau hefðu verið kosin ef kjósendur hefðu verið upplýstir um gang mála, þ.e. þá staðreynd að þau ætluðu að velta skuldum Björgólfsfeðga yfir á almenning í landinu. Þetta heitir að blekkja kjósendur og flokkast sem óheilindi og líklega líka sem lýgi.

Í byrjun júní sagði Steingrímur frá hinni "glæsilegu" niðurstöðu en fékkst ekki til að sýna samningana og einn af yfirþingmönnum Samfylkingar sagði í útvarpi að sennilega væri nú alveg nóg að þingmenn fengju að sjá úrdrátt úr þeim.  Það var ekki fyrr en að Hollendingum blöskraði svo meðferð ríkisstjórnarinnar á málinu (eftir fund með Hreyfingunni) að þeir láku samningnum í fjölmiðla.

Þegar sumum þingmanna VG varð nóg boðið komst loks vit í málið og þverpólistískur hópur allra flokka úr fjárlaganefnd náði mjög merku samkomulagi um fyrirvara sem þyrfti að setja við ríkisábyrgðina. Í þeirri vinnu allri var þó engu líkara en fulltrúum ríkisstjórnarinnar væri meira í mun að gæta hagsmuna breta og hollendinga en íslendinga og reiptogið um hvert smáatriði Íslandi til bóta var ótrúlegt. Það var svo að kröfu ríkisstjórnarflokkana að ákvæðið um að lögin þyrftu líka samþykki frá bretum og hollendingum til að öðlast gildi fór inn í lögin. Til varð Icesave I.

Við atkvæðagreiðslu í þinginu sat Sjálfstæðisflokkurinn hjá, Framsókn sagði nei, tvö okkar úr Hreyfingunni sátum hjá og eitt sagði nei. Merkileg atkvæðagreiðsla um mjög merkilega niðurstöðu sem hefði skilað Íslandi langt ef ríkisstjórnin hefði fylgt málinu eftir af festu. Það var ekki gert.

Í upphafi haustþings kom svo ríkisstjórnin aftur með málið inn í þingið, búin að rústa þeim fyrirvörum sem um hafði náðst samkomulag um sumarið. Við það að taka við málinu aftur setti þingið verulega niður og ekki síst forseta þess. Icesave II var svo keyrt í gegn í mikilli ósátt og afgreitt milli jóla og nýárs gegn öllum atkvæðum stjórnarandstöðunnar.

Dugmikið fólk hóf smölun gegn málinu og það söfnuðust um 60.000 nöfn gegn því, nöfn sem voru afhent forsetanum sem svo neitaði að staðfesta lögin þann 5. janúar.

Það sem mest hefur komið mér á óvart í þessu máli er hversu langt ríkisstjórnin var tilbúin að ganga í óheilindum, ósannindum og hræðsluáróðri. Á öllum stigum þess var varað við hörmungum ef þingmenn gerðu ekki eins og Jóhanna og Steingrímur sögðu, þau höguðu sér ítrekað eins og litlir krakkar eða frústreraðir makar og sögðust bara hætt ef þau fengu ekki sitt fram. Stór hluti embættismannakerfisins og hluti fræðasamfélagsins spilaði með þeim alla leið og valdir fjölmiðlar hafa linnulítið líka unnið gegn hagsmunum almennings í málinu.

Þegar ég lít til baka eins og ég gerði í löngu viðtali í "Spegli" RÚV á fimmtudag þá bregður mér við því sem ég sé. Þvílikt stjórnarfar sem viðgengist hefur í þessu máli af hálfu stjórnarflokkana er ekki siðmenntað heldur keyrir áfram á hræðsluáróðri, óheilindum og blekkingum. Menn geta svo sem kallað þessi vinnubrögð lýðræði og þingræði ef þeir vilja en það sem bjargaði því sem bjargað varð voru nöfn 60.000 manns og svo Forseti Íslands.

Nú stöndum við frammi fyrir því að kjósa um Icesave II í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn á ný reyna Jóhanna og Steingrímur að eyðileggja málið með linnulausum áróðri og blekkingum og kalla atkvæðagreiðsluna marklausa vegna "nýs og betra tilboðs" frá bretum og hollendingum. Þess ber að geta að þetta blessaða tilboð er þó þrælvont og litlu skárra en lögin sjálf og færi aldrei gagnrýnislaust gegnum þingið. Engu að síður nota þau það sem áróðurstæki til að reyna að bjarga sínu pólitíska lífi, sem þau virðast ætíð tilbúin að setja ofar sannleikanum og ofar almannahagsmunum.

Vegna alls þess hér að ofan er ástæða til að kjósa á morgun, og segja NEI! Vegna framgöngu ríkisstjórnarinnar, vegna þess vonda samnings sem gerður var, vegna undirlægjuháttar íslenskra stjórnvalda, vegna þeirra hugrökku VG liða sem björguðu málinu í sumar, vegna þeirrar þrotlausu vinnu sem In Defence hefur lagt fram, vegna þeirra 60.000 sem skráðu sig, vegna þess að hægt er að gera betur, og síðast en ekki síst vegna Forseta Íslands og staðfestu hans og kjarks.

Ég mun kjósa á morgun og segja NEI! Svo mun ég halda niður í bæ og styðja við stofnun Alþingis Götunnar og mæta á mótmælafund á Austurvelli.  Á morgun eru nefnilega ekki nein leikslok þó Icesave verði fellt. Það er hálfleikur og mikið verk er eftir óunnið. Við í Hreyfingunni ætlum þó að njóta augnabliksins og halda kosningavöku á Hótel Reykjavík Centrum í Aðalstræti 16, frá níu til eitt. Allir eru velkomnir.


Ísland, Norðurskautsleiðin og Kína

Á Vísi.is í dag er vitnað í lesendabréf Dr. Robert Wade við London School og Economics um Norðurskautsleiðina og hvernig opnun hennar gæti gagnast Íslandi sem umskipunarhöfn, sjá greinina hér

Þetta er merk athugun hjá Robert Wade sem ég tel einhvern merkasta hagfræðing heimsins um þessar mundir. Athugun hans byggir á því að kínverskum varningi verði umpakkað á Íslandi til flutnings til Evrópu vegna EES samningsins. Sama aðferð og viðgekkst með Hong Kong og viðskipti vesturvelda við þá nýlendu á sínum tíma (kalda stríðið) þegar vegna viðskiptabanns á Kína mátti ekki flytja inn vörur þaðan. Þetta gengur hins vegar ekki upp ef Ísland gengur í ESB eða ef ESB gerir fríverslunarsamninga við Kína.

Vörum verður nefnilega ekki umskipað á Íslandi "af því bara". Vegna mikils kostnaðar við umskipun og stærðar og hagkvæmni stóru hafnanna í Evrópu, Hamborgar, Rotterdam, Antwerpen o.fl. er slík að ólíklegt er að Ísland geti nokkurn tíma keppt við þær, nema sem viðskipaleg skiptistöð vegna EES.

Eins og staða er í dag er þó alveg eins líklegt að spá Roberts rætist.


Stjórnskipunarlög

Siv Friðleifsdóttir mælti fyrir frumvarpi 25. febrúar um breytingu á stjórnskipunarlögum þar sem gert er ráð fyrir að þingmenn sem verða ráðherrar þurfi að segja af sér þingsæti á meðan þeir gegna ráðherradómi.  Hér er um mjög brýnt mál að ræða vegna óheyrilegs "ráðherraræðis" á kostnað þingræðisins, að því marki að þingræðið er ekki nema að nafninu til. Ég sé fyrri mér þann dag að ráðherrum sé boðið til þinghússins af forseta þingsins að flytja mál eða boðaðir af þinginu til að svara fyrirspurnum. Alþingi mun þá standa undir nafni sem sjálfstætt löggjafarvald en ekki sem stimpilpúði fyrir framkvæmdavaldið eins og það er allt og oft, og nánast alltaf.

Hvað um það, frumvarpið er hér og umræðan um það er hér.


AGS (IMF) og Plan B fyrir Ísland

Fluttum í dag þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin hefjist þegar handa við að undirbúa aðgerðaráætlun í efnahagsmálum sem verði án aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (Plan B).

AGS hefur farið mjög illa með mörg lönd og er á leiðinni með Ísland sömu leið. Krafist er gríðarlegs niðurskurðar í ríkisútgjöldum, skattahækkana á almenning og hás vaxtastigs.  Almenningur er kreistur inn að beini, það heitir að "færa skuldir að greiðslugetu" samkvæmt félagsmálaráðherranum Árna Páli Árnasyni og samflokksmönnum hans í Samfylkingunni, en þýðir einfaldlega að fólk neyðist til að ganga á lífeyrissparnaðinn sinn (sem ríkið fær um 40% af) til að komast yfir afborganir og matarinnkaup.

Ekki má heldur ráðast í neinar framkvæmdir af hálfu ríkisins en það má selja auðlindir til útlanda ("erlend fjárfesting" heitir það) eins og ekkert sé.

Það var áhugaverð umræða í þinginu um málið og athyglivert hvað enginn, ekki einn einasti, þingmaður frá ríkisstjórnarflokkunum var í salnum alla umræðuna.

Hvað um það, sagan mun dæma þá.  Tillagan er hins vegar hér og umræðan sjálf hér.


Tjáningar- og upplýsingafrelsi

Þingsályktunartillaga Hreyfingarinnar um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis sem myndi gera Ísland að fyrirmyndarríki heimsins í þessum málum var til umræðu á þinginu í dag, 25. febrúar. Birgitta hefur lagt mikla vinnu í málið og við fengum meðflutningsmenn úr öllum flokkum.  Eins komu að því sérfræðingar í tilheyrandi löggjöf allsstaðar að úr heiminum og málið hefur vakið mjög mikla athygli erlendis og Birgitta hefur farið í viðtöl við á fimmta tug fjölmiðla vegna málsins.  Málið á ensku heitir Icelandic Modern Media Initiative og er kallað IMMI.

Tillagan sjálf er hér, og umræðan sem var á þinginu er hér.  Málið fer til Allsherjarnefndar þar sem það fær vonandi skjóta meðferð.


Skipun dómara í réttarríkinu Íslandi

Hingað til hefur skipan dómara verið alfarið á valdi dómsmálaráðherra sem hefur leitt til þess að ALLIR hæstaréttardómarar og ALLIR héraðsdómarar eru skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.  ÚFF!

Þetta er eitt þeirra atriða sem framkvæmdastjórn ESB fjallar mikið um í nýútkominni skýrslu sinni um m.a. stöðu íslensku stjórnsýslunnar. Landsmenn hafa horft upp á það að dómarar hafa verið skipaðir á vægast sagt mjög undarlegum forsendum og vantrú manna á Ísland sem réttarríki hefur aukist til muna undanfarin ár.

Nú hefur dómsmálaráðherra komið fram með frumvarp um að breyting verði hér á og að ferlið verði opnað og vægi ráðaherrans í skipaninni sjálfri takmarkað. Í umræðunum á þinginu var áhugavert að sjá að það er þverpólitísk sátt um að í þeim tilvikum sem málið kemur til kasta Alþingis þá þurfi aukinn meirihluta Alþingis.  Margir nefndu einnig að hæfisnefndin yrði stækkuð. Ég lagði mitt til málanna og tel m.a. að heppilegt væri að hafa lögin afturvirk um svona 15 ár þannig að skipa mætti í sem flestar dómarastöður á ný.

Þar sem um merkilegt mál og merkilega umræðu (fágætur sáttatónn) var að ræða læt ég alla umræðuna fylgja með.  Það skondna við málið er að það er nánast orðrétt í samræmi við hugmyndir Hreyfingarinnar um skipan dómara eins og fjallað er um málið í stefnuskránni.

Hvað um það, umræðan er hér.

 


Hreyfingin í New York Times

Meðfylgjandi grein um þingsályktunartillögu Hreyfingarinnar o.fl. birtist í gær í NYT, einu stærsta og mest lesna dagblaði í U.S.A.

Sjá hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband