Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.2.2010 | 17:14
SilfurEgilsSpeki
Fékk boð í Silfrið í dag. Gott spjall og ekkert pólitískt argaþras eins og stundum vill verða. Ræddum Icesave (að sjálfsögðu), AGS og framgöngu hans gagnvart Íslandi og einnig bankaránið stóra sem nú fer fram í boði ríkisstjórnarinnar og nýja frjálshyggjuflokksins sem eftir yfirlýsingu Jóhönnu Sigurðardóttir í síðustu viku á þingi Viðskiptaráðs heitir Samfylkingin. Vinstri Grænir horfa á með forundran, opinmynnt og með stór augu, alveg eins og þegar dóttir mín sá könguló í fyrsta sinn.
Einnig kom fram Finnbogi Vikar sem er fulltrúi Hreyfingarinnar í stóru Sjávarútvegssáttanefndinni með langa nafninu. Hann er sjómaður og nemi á Bifröst og einn af þeim sem útgerðarmenn hafa tilkynnt að fái aldrei aftur pláss á sjó, en hann gefst ekki upp og er með fínar tillögur í aflaheimildadeilunni. Áfram Finnbogi Vikar.
Þátturinn er hér, góðar stundir.
20.2.2010 | 17:14
Smá viðtal
Mér var boðið í viðtal á þeirri smáskrítnu sjónvarpsstöð INNTV sem Ingvi Hrafn á og rekur. Þar á bæ næst að halda úti ýmis konar viðtalsþáttum sem margir hverjir, að forminu til allavega, ættu frekar heima á RÚV. Hvað um það ég ræddi við Tryggva Þór Herbertsson í þætti hans Tryggvi Þór á Alþingi, en TÞH er sem kunnugt er þingmaður og yfirpönkari Sjálfsæðisflokksins, fyrrum prófessor og fjármálabraskari á heimsmælikvarða og fyrrum einkaráðgjafi ríkisstjórnar Geirs Haarde, þess sem bað guð að hjálpa sér en þó ekki fyrr en eftir að Tryggvi Þór var farinn.
Viðtalið er tæpur halftími og er hér.
10.2.2010 | 15:18
Lifi heimavarnarliðið!
Hvers vegna í ósköpunum er "velferðarstjórninn" að gangast fyrir því að heimili fólks séu seld ofan af því? Hvað er eiginlega að þessu fólki sem er þingmenn Samfylkingar og VG?
Áfram heimavarnarlið!
Trufluðu nauðungaruppboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2010 | 18:38
Áhugaleysi Alþingis og fjölmiðla á RÚV
Fyrsta verk Alþingis eftir jólahlé var að kjósa nýja stjórn Ríkisútvarpsins. Hér var að venju kosið um pólitíska meirhlutastjórn og sem tiltölulega nýjum þingmanni fannst mér mjög undarlegt að ekki fór fram nein umræða um stöðu og hlutverk þessar annarar af tveimur mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Ekki orð um hugmyndir og stefnu nýrrar stjórnar eða yfirhöfuð um hvers vegna stjórnin þarf að vera pólitísk. Þetta er að vísu launaður bitlingur og það fréttist síðar að framsóknarmanninn hefði vantað vinnu, um hina veit ég ekki.
Mér fannst þetta óásættanlegt og mótmælti því og uppskar alveg dauðaþögn í salnum. Enginn annar þingmaður hafi áhuga á málinu. Enn ein sönnun þess að núverandi þing mun ekki breyta neinu. Við sendum tilkynningu á fjölmiðla um málið en þar var alveg sama dauðaþögnin. Er kirkjugarðurinn Ísland staðreynd?
Athugasemd mína má svo sjá hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2010 | 16:27
Óstjórn á Álftanesi
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í gær miðvikudag en Álftanesið er mér kært því þar á ég heima.
Óstjórn á Álftanesi
Staðan sem komin er upp í sveitarfélaginu Álftanesi á sér mun lengri sögu en starfstími Álftaneshreyfingarinnar við stjórnvölin. Mestu handvömmina má þó skrifa á óstjórn undanfarinna fjögurra ára.
Stjórnsýslan á Álftanesi hefur að því mér sýnist verið keimlík stjórnsýslu marga annarra sveitarfélaga. Klíkuskapur, kunningjapólitík og flokkshygli hefur oft verið tekin fram yfir heildarhagsmuni íbúana og lóðaúthlutanir, landakaup og verkkaup sveitarstjórnar oft virst undarlegar. Fimmtíu ára samfelldum valdatíma Sjálfstæðisflokksins lauk í síðustu sveitarstjórnarkosningum þar sem stjórnsýslugjörningar flokksins gengu gjörsamlega fram af fjölda Álftnesinga og kom kærkomið hlé í þá gerð stjórnmála og stjórnsýslu.
Sú staða sem er uppi núna er vissulega slæm og mikið högg á sveitarfélagið en á sér aðrar rætur. Sem kjósanda finnst mér valið nú standa á milli spillingar- og klíkustjórnar Sjálfstæðisflokks annars vegar og algerrar fjármála- og skipulagsóstjórnar Álftaneshreyfingarinnar hins vegar. Fyrir íbúana er þetta óbærileg staða og fráleitir valkostir í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Álftaneshreyfingin fékk meirhluta í síðustu kosningum út á tvennt. Mikla valdaþreytu Sjálfstæðisflokks og áherslu þeirra á nýjan miðbæ sem þeir sögðu brýnt verkefni, miðbæ sem var herfilegt skipulagsslys og í raun forljótt steypu og bílastæðakraðak. Samfara nýrri sveitarstjórn var haldið áfram með miðbæjaráformin á öðrum nótum með arkitektasamkeppni. Útkoman var glæsileg og virtust allir geta við unað.
Það sem öllu þessu sveitarstjórnarfólki var þó sameiginlegt, sama hvar það var í flokki, var sú afstaða að bráðnauðsynlegt væri að fjölga íbúum á Álftanesi. Ný hverfi voru skipulögð, golfvöllur og höfn undir fyrri stjórn, miðbær og höfn undir nýrri stjórn. Golfvöllur sem hefði eyðilagt gríðarstór útivistar- og varpsvæði og höfn sem hefði eyðilagt aðra af tveimur skeljasandsfjörum sem eftir eru á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var kallað "framfarir" og að byggja upp "öflugt sveitarfélag". Þegar sömu fulltrúar úr báðum flokkum voru svo spurðir hvað væri "öflugt sveitarfélag" varð fátt um svör. Þó var stundum vísað í að "öflugt sveitarfélag" hefði fleiri íbúa og væri því hagkvæmara.
Hér komum við að megin villunni í röksemdum sveitarstjórnarmanna á Álftanesi og margra annarra sveitarfélaga, en það er sú staðhæfing að til sé stærðarhagkvæmni í rekstri þeirra og nóg sé að fjölga bara fólki. Þetta er rangt og nægir að vísa til þess að með sömu röksemdarfærslu væru útsvar og fasteignagjöld margfalt lægri í Reykajvík en annars staðar á landinu. Fleira fólki fylgir einfaldlega meiri þjónusta, stærri og dýrari skólabyggingar, íþróttamannvirki og fleira.
Í stað þess að hlúa að því sem fyrir er fer mest af tíma sveitarstjórnarmanna í að spá í og skipuleggja ný hverfi, byggingar og vegi. Í stað þess að vera sjálfir með púlsinn á rekstri og þjónustu er ráðið inn fólk til að sjá um þá þætti, milliliðir milli sveitarstjórnar og stofnana sveitarfélagsins. Grunnþjónustan s.s. skólinn verður aukatriði og jafnvel vandamál í augum sveitarstjórnar, hvað þá tónlistarnám, leiklist, listnám og öflugt félagsstarf, einmitt þeir þættir sem mikilvægastir eru og kjörnir fulltrúar almennings ættu sérstaklega að sinna og fylgjast grannt með. Þess utan er öll skipulagsvinna, undirbúningstími og framkvæmdir gríðarlega dýr. Hér er Álftanesið ekki eitt á báti og má búast við að a.m.k. tíu önnur sveitarfélög lendi í svipaðri stöðu á næstu mánuðum. Sum hafa getað selt stórar eignir og bjargað sér fyrir horn, s.s. Reykjanesbær sem seldi Hitaveituna. En eins og segir í Draumalandi Andra Snæs, "Hvað áttu þegar þú hefur selt allt?"
Það er óneitanlega dapurlegt að horfa á sömu andlitin og ollu hruninu á Álftanesi vera nú í framboði í prófkjörum flokka sinna vegna n.k. sveitarstjórnar-kosninganna og er sem blaut tuska í andlit íbúanna. Þessum fulltrúum öllum hefur einfaldlega mistekist og þeim ber að stíga til hliðar og lýsa því yfir að þeir muni vera nýjum sveitarstjórnarmönnum til ráðgjafar en að öðru leiti haldi þeir sig fjarri stjórn sveitarfélagsins.
Árið 2008 mitt í öllu æðinu um nýjan miðbæ og aðrar gerræðislegar stórframkvæmdir voru ræddar hugmyndir um stofnun nýs afls til mótvægis við rembing sveitarstjórnar Álftaness, þverpólitísk hreyfing sem legði áherslu á umhverfismál í víðu samhengi, ekki síst félagslegt umhverfi almennings og barna m.t.t. til skólans, útivistar, opinna svæða og takmörkunum á íbúafjölgun. Af fenginni reynslu á Alþingi er nýir þingmenn ganga strax í björg flokksmaskínunnar, að nýtt vín á gömlum belgjum verður fljótt súrt, þá er það e.t.v. vænlegri leið til breytinga á áherslum að fá nýtt fólk undir nýjum merkjum til að taka þátt í mótun samfélagsins á Álftanesi.
Ef Álftnesingar taka ekki af skarið sjálfir gerir það enginn fyrir þá, ekki Garðbæingar heldur. Sameining þýðir lokun skólans fyrr eða síðar, lóðaúthlutanir til garðbæinga á fegurstu útivistasvæðum höfuðborgarsvæðisins og algert framsal allra möguleika til áhrifa á gang mála.
Þór Saari
Höfundur er þingmaður SV-kjördæmis og íbúi á Álftanesi.
25.1.2010 | 19:36
Meira um Samfylkingu, Icesave og blekkingar.
Fyrri færsla mín um þessi mál hefur vakið mikla athygli og farið víða. Helsta gagnrýnin hefur snúið að því að ég svari ekki upplýsingum Vilhjálms málefnalega og að ég sé með dylgjur í hans garð og annarra. Ég mun því reyna að gera grein fyrir þessu tvennu.
Hvað varðar merkingarleysi upplýsinga Vilhjálms þá skiptir hlutfall Iceasve skuldbindinganna afskaplega litlu (í raun engu) máli þar sem það eru heildarskuldirnar sem þarf að greiða og þær hafa þegar (án Icesave) náð óviðráðanlegum hæðum. Eingöngu vaxtakostnaður af skuldum ríkissjóðs nemur um 32% af öllum tekjum og mér er ekki kunnugt um að nokkur ríkisstjórn nokkurs staðar hafi látið sig dreyma um að standa undir svoleiðis stöðu. Afborganirnar er að öllu jöfnu hægt að endurfjármagna en ef tekin eru lán fyrir vöxtum líka þá blasir við s.k. skuldagildra (e. debt trap) sem er staða sem yfirleitt ekki vinnst úr. Þannig að Icesave sem viðbót við aðrar skuldir er kornið sem fyllir mælinn, sem að mínu mati og margar annarra er þó yfirfullur fyrir. Það að skuldir Íslands séu orðnar óviðráðanlegar er ekkert nýtt og búið að fjalla um það víða m.a. í skýrslum AGS og í nefndum og ræðum á Alþingi og allar spár um hugsanlegan hagvöxt og afgang af viðskiptajöfnuði til að standa undir þeim eru ævintýralega óraunhæfar. Icesave fylgja gríðarlega vaxtagreiðslur (yfir 100 milljónir kr. á dag, eða um 40 milljarðar á ári) og öll óvissan í kringum endurgreiðslur, bæði í tíma og umfangi, úr þrotabúi Landsbankans gerir það að verkum að mjög erfitt er að halda því fram að skuldbindingin sé ákveðin uphæð. M.a. þess vegna var unnið svo hart í því að fá inn fyrirvara um greiðslubyrðina í lögunum frá í sumar. Umræðurnar á þingi varpa svo gríðarlega góðu ljósi á málið þar sem þær voru ekki ómálefnalegt þingmannakarp nema í undantekningartilvikum.
Hvað dylgjurnar varðar þá stendur allt það sem ég sagði um tengsl Heimis Más við Samfylkinguna sem og þær fréttastofur sem tilheyra sömu samsteypu. Erfitt er að dylgja um Björgólf Thor en hvað varðar viðskiptatengsl hans og Vilhjálms sem og Vilhjálms sjálfs þá læt ég fylgja með neðangreindar upplýsingar úr gagnagrunni Jóns Jósefs. Þar fyrir neðan er svo Facebook færsla frá Sigurlaugu Ragnarsdóttur um frekari tengsl Vilhjálms, Samfylkingarinnar og framlög stórfyrirtækja til Samfylkingarinnar. Hvað varðar framlög til einstakra þingmanna má benda á ný útkomnar upplýsingar frá ríkisendurskoðenda þar sem m.a. kemur fram að formaður Allsherjarnefndar Alþingis, þeirrar nefndar sem m.a. hefur að gera með lýðræðisumbætur (valddreifingu) og frumvarp Lilju Móses. um samningsveð (sem fjármálafyrirtæki eru á móti) hefur þegið milljónir á milljónir ofan frá stórfyrirtækjum, þ.á.m. Landsbankanum en frumvarp Lilju er fast í þeirri nefnd.
Hér eru svo viðskiptatengsl gagnaverseigandanna (Verne), Björgólfs Thor, Vilhjálms og fleiri (14 tenglar). Að öllu jöfnu er ekkert athugavert við að eiga í fyrirtæki, einu eða fleiri en það sem kemur fram hér að neðan er óneitanlega forvitnilegt.
http://it-cons.com/mt/e_2009346_65439.png
http://it-cons.com/mt/e_2009346_65490.png
http://it-cons.com/mt/e_2009346_65525.png
http://it-cons.com/mt/e_2009346_65549.png
http://it-cons.com/mt/e_2009346_79287.png
http://it-cons.com/mt/e_2009346_79453.png
http://it-cons.com/mt/e_20093461_65490.png
http://it-cons.com/mt/e_20093462_65490.png
http://it-cons.com/mt/e_20093463_65549.png
http://it-cons.com/mt/e_20093464_65525.png
http://it-cons.com/mt/e_20093465_65439.png
http://it-cons.com/mt/f_2009346_65371.png
http://it-cons.com/mt/h_10911131112.png
http://it-cons.com/mt/files_6206070960.png
Hér fyrir neðan er svo færsla Sigurlaugar um tengsl Vilhjálms sjálfs við ýmis fyrirtæki:
Hluthafar Verne Holding er Björgólfur Thor Björgólfsson, sem áður var einn aðaleigandi Landsbankans og Straums Burðarás. Minna hefur farið fyrir því að náinn viðskiptafélagi, Björgólfs Thors, Vilhjálmur Þorsteinsson er einn af forvígismönnum fyrirtækisins og er Vilhjálmur áhrifamaður innan Samfylkingarinnar.
Þá er hægt að rekja tengsl Vilhjálms inn í öll þau fyrirtæki sem styrktu Samfylkinguna árið 2007
Sjá;
Tengsl Vilhjálms og Verne Holdings og Milestone: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/65/
Tengsl Vilhjálms, FL - Group og Novator / Novator Credit Luxemburg: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/299/
Vilhjálmur og Excista: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/29/
Vilhjálmur og Straumur Burðarás:http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/22/
Vilhjálmur og Björgólfur Thor: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/2/
Tengsl Vilhjálms, Jón Ásgeirs, Ocrahópsins og Verne Holdings http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/247/
Vilhjálmur, Glitnir, Verner Holdings og Geysir Green: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/36/
Vilhjálmur og Kaupþing: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/25/
Vilhjálmur og Teymi: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/77/
Vilhjálmur og Eimskip: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/57/
Vilhjálmur og Ker hf: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/48/
Vilhjálmur og Landsbanki Íslands: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/19/
Vilhjálmur og Samvinnutryggingar:http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/110/
Vilhjálmur og Samfylkingin: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/18/
Heimir Már er fjölmiðlamaður á vegum 365 miðla:
Vilhjálmur og 365 miðlar: http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/37/
Styrkir til Samfylkingarinnar 2007:
* Actavis hf. 3.000.000
* Baugur Group hf. 3.000.000
* Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga 1.000.000
* Eimskipafélag Íslands 1.000.000
* Exista ehf. 3.000.000
* Eykt ehf. 1.000.000
* FL-Group hf. 3.000.000
* Glitnir 3.500.000
* Kaupþing 5.000.000
* Ker hf. 3.000.000
* Landsbanki Íslands 4.000.000
* Milestone 1.500.000
* Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis 1.000.000
* Straumur Burðarás fjárfestingabanki 1.500.000
* Teymi ehf. 1.500.000
Athugið svo hverja ríkisstjórnin hefur valið sér til fulltingis:
Ingvi Örn Kristinsson var aðstoðarmaður félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar, en hann var framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs Landsbankans. Einnig starfar hann sem ráðgjafi Forsætisráðherra.
Benedikt Stefánsson var í Greiningardeild Landsbankans og er núna aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar Efnahags- og Viðskiptaráðherra.
Björn Rúnar er skrifstofustjóri í Viðskiptaráðuneytinu. Hann var forstöðumaður í Greiningardeild Landsbankans
Edda Rós er núna fulltrúi Íslands í AGS í gegnum Samfylkinguna. Hún var forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans
Arnar Guðmundsson var í Greiningardeild Landsbankans. Hann er núna aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur Iðnaðarráðherra.
Með svo marga bankamenn í farteskinu, og einnig hafandi í huga að fyrir kosningar kom í ljós að Samfó var sá flokkur sem hafði fengið næstmest í gjafafé frá bönkunum og eigendum þeirra; er ekki þá einfaldlega ljóst hverra hagsmuna stjórnendur Samfó, eru að leitast til með að vera?
Áhugavert einnig, að allir þessir aðstoðarmenn, eru fyrrum starfsmenn Björgólfsfeðga.
Er ormagryfjan kannski að opnast?
Svo mörg voru þau orð, takk fyrir þetta Sigurlaug Ragnarsdóttir.
Það er e.t.v. til marks um hvað fjölmiðlar á Íslandi hafa sofnað fast að ég sem þingmaður þarf að standa í e.k. rannsóknarblaðamennsku til að upplýsa almenning. Ég veit til þess að ofangreindum upplýsingum hefur þegar verið að einhverju leiti komið á framfæri við fjölmiðla og hvet alla lesendur til að miðla þessu sem víðast og krefjast umræðu um þessi mál.
Svo ég endurtaki lokaorð mín frá í gær: "Það sorglega er þó að mitt í þessu eru svo vesalings Vinstri Grænir sem halda að þau séu í vinstri og grænni stjórn."
25.1.2010 | 00:22
Samfylkingin og Icesave og blekkingar
Alveg er með ólíkindum hvernig komið er fyrir sumum íslenskum fjölmiðlum. Dæmi er Heimir Már Pétursson titlaður fréttamaður á Stöð 2. Nú liggur á Vísi.is "frétt" frá Heimi (sem niður á Alþingi er aldrei titlaður annað en fréttamaður Samfylkingarinnar) um framsetningu manns á upplýsingum um Icesave, manns sem Heimir Már kallar forritara og bloggara og heitir Vilhjálmur Þorsteinsson.
Það má örugglega segja ýmislegt um Heimi Má en titlaður fréttamaður sem fer út í rifrildi við viðmælendur sína ef þeir eru ósammála stefnu Samfylkingarinnar (en það gerir hann oft) er náttúrulega ekki titilsins virði. Það hversu langt hann er tilbúinn að ganga í þágu blekkingarleiks Samfylkingarinnar hefur nú farið yfir ný mörk með þessari frétt hans á Vísi.is og í kvöldfréttum Stöðvar 2. Í frétt Heimis Más er vísað til bloggfærslu Vilhjálms sem hefur lagt sig fram um það í Icesave umræðunni undanfarna mánuði að setja fram algerlega marklausar og jafnvel villandi upplýsingar um málið. Nýjasta bloggfærsla hans um skuldastöðuna er enn eitt dæmið um það. Hann er því að styðja orðræðu Samfylkingarinnar með ráðum og dáð, en hvers vegna skyldi það nú vera.
Téður Vilhjálmur Þorsteinsson, og þetta veit Heimir Már, er ekki einhver venjulegur borgari og "bloggari og forritari" eins og Heimir Már kallar hann heldur stórfjárfestir og innsti koppur í búri Samfylkingarinnar og einn helsti ráðgjafi hennar í iðnaðar- og nýsköpunarmálum. Téður Vilhjálmur þykir fær og hefur náð hylli margra, ekki síst sumra þingmanna Samfylkingarinnar sem eftir fundi með honum tala ekki lengur um fjárfesta heldur um "viðskiptaengla sem sáldra fjármunum í nýsköpun" og "ömmur sem vilja verja sparifé sínu í uppbygginguna." Slík er firringin orðin að þingmennirnir virðast raunverulega trúa þessu og tókst meira að segja (í þágu þessar sömu engla) að vekja upp óskapnaðinn sjálfann, drauginn sem áður hét "skattaafsláttur af hlutabréfakaupum", og var lagður af fyrir nokkrum árum enda einsdæmi í hagsögu heimsins. Í nýjum lögum um nýsköpunarfyrirtæki sem samþykkt voru á þinginu fyrir jól er þessi óskapnaður aftur kominn inn, fyrir tilstuðlan Samfylkingarinnar. Þannig að nú fær fjárfestirinn (þ.e. engillinn) Vilhjálmur líka skattaafslátt fyrir að fjárfesta. Til hamingju kjósendur Samfó, skjaldborgin er staðreynd.
Téður Vilhjálmur er einnig einn af eigendum fyrirtækisins (eða fyrirtækjanna því þau eru mörg og eignarhaldið loðið) sem segist vilja reisa gagnaver á fyrrum herstöðvarsvæðinu á Miðnesheiði. Þar er hann í vinskap með Björgólfi Thor Björgólfssyni, en ef einhverjir íslendingar muna ekki eftir honum þá er hann einn af þeim sem ber höfuð ábyrgð á Icesave. Fyrirtækja ævintýri Vilhjálms og annarra aðstandenda gagnaversins eru svo sér kapítuli út af fyrir sig en gagnagrunnur Jóns Jósefs sýnir þvílík krosseignatengsl, kennitöluflakk, "makaflakk" og spaghettí af hagsmunatengslum að leitun er að öðru eins. Gjaldþrotin sáldrast svo inn á milli eins og krydd. Samfylkingin hefur nú lagt fram frumvarp um miklar ívilnanir til handa þessu fyrirtæki Björgólfs og Vilhjálms og vill í raun borga þeim fyrir að koma hingað. Einnig er verið að ganga frá samningi um orkukaup til þeirra á leynilegu "álversverði", orkukaup sem bent hefur verið á að séu miklu meiri en þarf til að reka gagnaverið.
Hér er því ekki um neina venjulega "frétt" fréttastofu Stöðvar 2 frá "fréttamanninum" Heimi Má um "bloggarann og forritarann" Vilhjálm Þorsteinsson og "upplýsingar" hans um Icesave. Hér er um að ræða margþætt samkrull viðskiptalífs, stjórnmálaflokks og fjölmiðils sem leggjast á eitt við að blekkja almenning til að stjórnmálaflokkurinn geti haldið völdum, "viðskiptaenglarnir" geti grætt, og fjölmiðillinn og "fréttamaðurinn" verið áfram með. Þetta er gamalgróin íslensk hefð þar sem braskarar nota, og jafnvel eiga stjórnmálaflokka til að komast að kjötkötlunum sjálfir, í tilviki Vilhjálms þorsteinssonar til að komast að orkuauðlindinni með Björgólfi Thor án þess að greiða fyrir hana. Sjálfstæði- og framsóknarmenn einka(vina)væddu bankana og kvótann með nákvæmlega sömu aðferðum og það eina sem hefur breyst að nú er það Samfylkingin sem einkavinavæðir orkuauðlindina til sinna manna.
Svo þykist ríkisstjórnin vera að endursemja um Icesave með þetta allt í farteskinu og lætur eins og útlönd hafi ekki hugmynd um hvað fer hér fram. Það er einmitt hluti af starfsemi allra þeirra erlendu sendiráða sem eru hér á landi að fylgjast með svona löguðu og að sjálfsögðu eru stjórnvöld nágrannaríkja agndofa á þessum fíflagangi. Ég leyfi mér að minna á að danir hafa verið hér í mörg hundruð ár og þekkja Ísland og íslendinga ákaflega vel.
Samfylkinginn með aðstoð Vilhjálms reynir aukinheldur eins og hún getur að velta Icesave glæp Björgólfs Thor yfir á almenning, sem er í raun illskiljanlegt (nema þá að hann hafi einhvers konar hreðjatak á háttsettu fólki þar á bæ) því í þessu samhengi verður ESB áhuginn hálf hjáróma. Vert er þó að minna á að sumt samfylkingarfólk hefur persónulega þegið milljónir á milljónir ofan frá eigendum Landsbankans og Samfylkingin sjálf fengið tugi ef ekki hundruði milljóna gegnum tíðina frá þeim og að greiði gegn greiða er ekki óalgengt fyrribæri.
Svona gerðust kaupin á eyrinni hér áður fyrr og svona gerast þau enn. Það sorglega er þó að mitt í þessu eru svo vesalings Vinstri Grænir sem halda að þau séu í vinstri stjórn.
16.1.2010 | 17:28
Samgöngumiðstöð = Héðinsfjarðargöng = kjördæmapot
Enn einu sinni stendur til að fámennur hópur landbyggðarinnar sem hefur óheyrilegt vald gegnum ólýðræðislegt kosningakerfi nái að þröngva áhugamáli sínu upp á alla skattgreiðendur landsins og íbúa höfuðborgarsvæðisins sérstaklega.
Gera má ráð fyrir að ef hér ríkti eðlilegt jafnt vægi atkvæða væru landsbyggðarþingmenn a.m.k. sex færri og líkur á að ævintýramennska eins og Héðinsfjarðargöng og væntanleg Vaðlaheiðargöng nytu ekki forgangs umfram aðrar enn brýnni framkvæmdir s.s. tvöföldun Suðurlandsvegar að Selfossi, Vesturlandsvegar í Borgarnes og verklok Suðurstrandarvegar. Á öllum þessum vegum er umferð margfalt margfalt meiri og slysahætta einnig en vegna hlægilegrar kjördæmaskiptingar og ólýðræðislegs atkvæðavægis ná hagsmunir höfuðborgarinar ekki í gegn á Alþingi.
Nú á að fara af stað með enn eina framkvæmdina sem er ætlað að tryggja framhald flugvallarins í Vatnsmýrinni, þ.e. byggingu "samgöngumiðstöðvar" sem verður að sjálfsögðu flugstöð. Reykvíkingar hafa þegar greitt atkvæði í almennri atkvæðagreiðslu um brottflutning flugvallarins og allar skýrslur sem unnar hafa verið um flugvöllinn sýna að hann er allt of dýr og óhagkvæmur. Þess utan, sem skiptir auðvitað meginmáli er að flugvöllurinn hamlar allri eðlilegri þróun höfuðborgarinnar og þrýstir henni áfram út á endimörk flatneskjunnar með sundurslitnum hverfum og hraðbrautartenginugum þar sem almenningssamgöngur ná ekki að festa sig í sessi.
Á Miðnesheiði er fullkominn flugvöllur í um hálf-tíma fjarlægð rá Reykjavík sem og fullbúin flugstöð sem bandaríski herinn notaði og hélt við fram á síðasta dag. Það eina sem þarf að gera er að taka úr lás. En nei, borgarfulltrúar Reykjavíkur og þingmenn þeirra þriggja kjördæma sem málið skiptir mestu, þ.e. Reykjavíkurkjördæmanna og SV-kjördæmis virðast ætla að láta málið sig litlu skipta.
Hér er hins vegar um grafalvarlegt mál að ræða þar sem einungis um 300.000 manns á ári fara um Reykjavíkurflugvöll, svæði sem þekur að flatarmáli jafn mikið svæði og öll Reykjavík vestan Snorrabrautar. Þetta eru um 1.000 manns á dag og einungis þessi 1.000 manns eiga að réttlæta það að stöðva þróun miðborgarinnar. Á sama tíma keyra tugþúsundir til og frá vinnu á hverjum einasta degi á höfðuðborgarsvæðinu úr Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ og jafnvel frá Akranesi og Suðurnesjum.
Eitt þúsund manns á dag er ekki mikið og alls ekki nægilegt til að réttlæta slíkt mannvirki sem nýja flugstöð, hvað þá heldur heilan flugvöll. Til samanburðar má geta þess að daglegur gestagangur á meðalstóru kaffihúsi svo sem Kaffi París er meiri en þessar nokkrar hræður sem fara um Reykjavíkurflugvöll daglega.
Svona kjördæmapoti verður að linna, þetta er alvarleg og óþörf sóun á almannafé og samgönguráðherra, sem til að toppa geggjunina í kjördæmskiptingunni er þingmaður Siglufjarðar og Djúpavogs, verður að fara að sýna ábyrgð og taka tillit til hagsmuna og skattfjár fjöldans.
Flugstöð sem annar færri á hverjum degi en venjulegt kaffihús er bara bruðl og ekkert annað.
4.1.2010 | 21:37
Björn Valur farinn á taugum
Segir sáttatón stjórnarandstöðunnar falskan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2009 | 20:35
Icesave, Lokaræðan?
Í gær hófst lokaumræðan um Icesave. Ég flutti s.k. framhaldsnefndarálit sem var einhvers konar upprifjun á mörgum þáttum málsins. Þetta mál hefur nú þvælst fyrir þinginu frá 5. júní og þó það hafi verið afgreitt sem lög 28. ágúst. Hins vegar kom fjármálaráðherra með nýtt Icesave frumvarp inn í þingið í upphafi þess í október eftir að embættismönnum mistókst að kynna lögin fyrir bretum og hollendingum. Meðferð málsins í þinginu núna hefur verið alveg með ólíkindum og allar þær upplýsingar sem komið hafa fram benda til að Ísland sé komið upp að vegg með skuldir sínar og geti ekki axlað meiri skuldabyrði. Það virðist hins vegar ekki skipta ríkisstjórnarflokkana máli og það á einfaldlega að keyra málið í gegn. Ræður um málið héldu áfram í dag en á morgun, miðvikudag, á að greiða atkvæði um það. Atkvæðagreiðslan hefst með lokaræðum klukkan 10 sem var í um 1 - 1/2 tíma og atkvæðagreiðalsan sjálf ætti að hvejast um hálf-tólf og taka um klukkutíma. Vonandi mæta margir gestir á pallana og fyrir utan. Hér er svo ræðan.
Ég set spurningarmerki í fyrirsögnina því svo sannarlega vona ég að annaðhvort þingið vísi málinu frá, setji það í þjóðaratkvæðagreiðslu eða þá að forseti Íslands hafni því að samþykkja málið.