Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fjárlög, bitlingar, atkvæði, atkvæðagreiðslur

Greidd voru atkvæði um fjárlögin þann 22. des. Við í Hreyfingunni lögðum fram margar breytingartillögur sem miðuðu að því að létta skattbyrði almennings, ná inn auknum tekjum fyrir ríkissjóð í gegnum auðlindagjöld og stunda skynsamari útgjöld með færslum útgjaldaliða úr höndum einstakra fjárlaganefndarmanna og í sjóði sem úthluta á faglegum forsendum.

Skemmst er frá að segja að allar okkar breytingartillögur voru felldar, oftast með 57 atkvæðum fjórflokksins gegn þremur atkvæðum Hreyfingarinnar.  Hér er það sem samtrygging fjórflokksins kemur gleggst í ljós og þeir snúa bökum saman þegar kemur að úthlutun fjármuna, enda úthluta þeir sjálfum sér 334 milljónum á ári í styrki til stjórnmálaflokka. Styrki sem miða að því að halda þeim sjálfum við völd.

Í flestum öðrum löndum heitir þetta spilling en hér er þetta því miður enn á "eðlilega" stiginu og ekki von til að það breytist í bráð, nema almenningur taki málin í sínar hendur og krefjist breytinga.  Síðustu kosningar hafa engu breytt og þrátt fyrir að hafa skilað 27 nýjum þingmönnum inn á þing hafa a.m.k. 24 þeirra gengið beint í björg fjórflokksins.  Undantekningartilvik eru þær hetjur í VG sem hafa hingað til tekið sjálfstæða ákvörðun í Icesave málinu, vonandi ná þau að greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína við lokaafgreiðslu Icesave á þriðjudaginn.

Hvað um það,  atkvæðagreiðslan um fjárlögin  tók tæpa tvo tíma og þar kemur skýrt í ljós hvar línurnar liggja í íslenskri valdapólitík.  Ég held það sé alveg þess virði að fylgjast með þessu og hlusta á skýringarnar og atkvæðatölurnar.

Síðar um daginn var umræða um einkavæðingu bankanna sem var gerð í heimildarleysi og það af VG.  Ég  gagnrýndi það lítillega  og var þetta síðasta ræðan á þinginu fyrir jól og voru þetta góð lokaorð.

Við munum hins vegar aldrei gefast upp.  Lifi róttæk skynsemi.


Rannsóknin á Hruninu

Á laugardag 19. des. var á þinginu tekið til "annarrar" umræðu frumvarpið um meðferð Alþingismanna á skýrslu rannsóknarnefndarinnar um Hrunið.  Hreyfingin hefur gagnrýnt þetta frumvarp harðlega og við teljum að það opni á að öllu því í skýrslu ransóknarnefndarinnar sem snýr að þingmönnum, ráðherrum og Alþingi sjálfu verði sópað undir teppið.  Hreyfingin sendi einnig frá sér fréttatilkynningu um málið í dag enda finnst okkur meðferðin á málinu með ólíkindum.  Fyrir neðan tilkynninguna má svo sjá listann yfir þá gesti sem við óskuðum að Allsherjarnefnd kallaði til umsagnar um málið en því var alfarið hafnað af formanni nefndarinnar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Samfylkingu.

Öll héldum við ræður um málið í dag en umræðan af hálfu stjórnarþingmanna var alveg hreint með ólíkindum.  Ræðan mín,  ræða Margrétar ræða Birgittu.

 Fréttatilkynning frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Efni: Frumvarp forsætisnefndar um breytingu á lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða (mál 286 – þingskjal 330). Um er að ræða skipan svokallaðrar þingmannanefndar sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar af hálfu Alþingis.

Umrætt mál hefur verið til meðferðar hjá Allsherjarnefndar síðustu daga og á dagskrá nefndarinnar á fundum 8., 10., og 18. desember.

Á fundi allsherjarnefndar þriðjudaginn 8. desember kom í ljós að nefndin hafði ákveðið að senda frumvarpið
ekki til skriflegrar umsagnar aðila utan þingsins, líkt og algengt er. Í staðinn var ákveðið að kalla til umsagnaraðila til að veita munnlegt álit. Umræddir umsagnaraðilar voru valdir fyrir nefndina af formanni hennar, Steinnunni Valdísi Óskarsdóttur, Samfylkingu.

Fyrir fundinum þann 10. desember lá tillaga frá Hreyfingunni um að fleiri umsagnaraðilar kæmu fyrir nefndina en formaður hennar lagði til. Tillaga Hreyfingarinnar grundvallaðist á því að hér væri um gríðarlega mikilvægt mál að ræða og eitt erfiðasta mál sem Alþingi hefur þurft að takast á við. Beiðni Hreyfingarinnar um að óska eftir skriflegum umsögnum hafði þá þegar verið hafnað.

Tillögu Hreyfingarinnar um umsagnaraðila (sjá meðfylgjandi lista) var einnig hafnað af formanni nefndarinnar á þeim grundvelli að formlega séð væri fulltrúi Hreyfingarinnar áheyrnarfulltrúi í nefndinni og því þyrfti formaður samkvæmt reglum um þingsköp ekki að verða við ósk hans um gesti (þó vissulega væri það heimilt).

Aðrir nefndarmenn voru þöglir sem gröfin vegna afgreiðslu formanns á málinu og virtust ekki hafa neitt til málanna að leggja. Á áðurnefndum fundi 8. desember voru mætt: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Róbert Marshall og Valgerður Bjarnadóttir frá Samfylkingu, Birgir Ármannson frá Sjálfstæðisflokki og Þráinn Bertelsson sem er utan flokka. Á fundinum 10. desember voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir frá Samfylkingu, Birgir Ármannson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir frá Sjálfstæðisflokki, Arndís Soffía Sigurðardóttir VG (í fjarveru Atla Gíslasonar) og Þráinn Bertelsson sem er utan flokka.

Á fundi nefndarinnar þann 18. desember lagði Hreyfingin fram ítarlegar breytingartillögur við frumvarpið og óskaði eftir því að þær yrðu teknar fyrir í nefndinni. Þeirri ósk var hafnað í atkvæðagreiðslu um málið af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Róberti Marshall, Ásmundi Einari Daðsyni, Ólöfu Nordal og Vigdísi Hauksdóttur gegn atkvæði fulltrúa Hreyfingarinnar, Þórs Saari. Aðrir nefndarmenn, Birgir Ármannsson, Þráinn Bertelsson, Valgerður Bjarnadóttir og Arndís Soffía Sigurðardóttir, voru fjarverandi.

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess.

Það hlýtur að vera öllum ljóst að alþingismenn eru ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára. Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gegnsæi í öllu ferlinu.

Málið verður tekið fyrir í 2. umræðu á Alþingi á laugardag eða eftir helgina þar sem óskað verður eftir atkvæðagreiðslu um breytingartillögur Hreyfingarinnar
sem miða að því að minnka möguleika þingsins til áhrifa á viðtökur og meðferð skýrslunnar. Við hvetjum fjölmiðla og almenning til að fylgjast vel með þeirri atkvæðagreiðslu.

18. desember 2009,

Birgitta Jónsdóttir,  Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari

Gestalitinn.

Sæl Steinunn.

Meðfylgjandi er rökstuðningur fyrir þeim gestum sem óskað var að kæmu fyrir nefndina vegna máls 286 um þingmannanefnd vegna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (Blaðamannafélag Íslands).  Fulltrúi "fjórða valdsins" , þ.e. blaða/fréttamanna hverra álit ég tel mikilvægt vegna þess aðhalds sem þeir eiga að veita stjórnvöldum í lýðræðisríkjum.

Ragnar Aðalsteinsson hrl.  Sennilega sá lögmaður íslenskur sem hvað mest hefur tjáð sig um lýðræði og mannréttindi sem og að hafa mjög virtar skoðanir um stjórnskipan og stjórnarskra Íslands.

Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands.  Sá fræðimaður innan Háskólans sem hvað fyrst varaði við hruninu og hefur skrifað fjölmargar greinar um ástæður þess.

Hörður Torfason, söngvaskáld (Raddir fólksins).  Einhver staðfastasti mannréttindafrömuður Íslands og sá er stóð fyrir og skipulagði "Raddir fólksins", útifundi á Austurvelli s.l. vetur er voru vettvangur tugþúsunda íslendinga sem voru að óska eftir nýjum vinnubrögðum og aðferðum við stjórn landsins.

Egill Helgason, blaðamaður.  Sennilega einn mikilvægasti og virtasti þáttastjórnandi samtímans og er e.t.v. meira með "púlsinn" á þjóðinni en nokkur annar.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.  Einhver virtasti og best menntaði stjórnsýlsufræðingur landsins og með mikla reynslu úr stjórnkerfinu hér á landi sem og erlendis og býr yfir mikilli þekkingu á stjórnsýslum nágrannalanda og þeim aðferðum sem þar er beitt.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. sendiherra og ráðherra.  Með afburða þekkingu og reynslu af innlendum og alþjóðastjórnmálum.

Ólafur Hannibalsson, blaðamaður og rithöfundur (Þjóðarhreyfingin).  Forsvarsmaður Þjóðarhreyfingarinnar sem er hópur fólks sem hefur fundað reglulega undanfarin a.m.k. átta ár um lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur. Þjóðarhryefingin samanstendur af mörgum mjög reynslumiklumog hæfum einstaklingum sem hafa víðtæka þekkingu af íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu.

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri (Borgarafundir),  Forsprakki "Borgarafunda", þeirra funda sem spruttu upp s.l. vetur og voru vettvangur þúsunda sem komu til að hlýða á og eiga samræður við stjórnmálamenn og/eða aðra sem tengdust málefnum þeim er mest brunnu á fólki í kjölfar hrnsins í október s.l.

Eva Jolyhana þarf varla að kynna en ég hef pata af því að hún sé á landinu eða við það að koma. Ef svo er ekki þá væri gott að fá aðstoðarmann hennar Jón Þórisson í hennar stað.

Jón Þórisson, aðstoðarmaður Evu Joly.

Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.  Sérþekking Róberts á íslenskri stjórnskipan og stjórnsýslu gerir álit hans mjög mikilvægt.


Fjárlagagerðin, ræðan

Ræðan sem ég flutti við umræðuna um fjárlögin lenti í bilun og er komin í lag. Ákvað að setja hana hér inn  enda um athyglisvert mál að ræða, s.s. jólasveina, skrímsli og spákonur.  Og þetta er allt satt.  Góðar stundir.

Það er brjálað að gera á þinginu og hver lögin á fætur öðrum verða til. Lög sem fjöldi þingmanna hefur ekkert vit á en greiðir samt atkvæði um eins og ekkert sé.  Sjálfur lendi ég í þessum sporum að hafa ekki haft tíma til að kynna mér löggjöfina sem er til umfjöllunar en sit þá hjá við atkvæðagreiðsluna, það er hins vegar frekar sjaldgæft að menn geri það.

Framundan eru fráleit fjárlög, lög um þingmannanefndina vegna skýrslu rannsóknarnefndarinnar (hin svokallaða hvítþvottanefd þingsins), lög um gríðarlega fyrirgreiðslu skattborgara til Björgólfs Thor Björgólfssonar (Verne Holdings) vegna gagnavers á Keflavíkurflugvelli (já þetta er satt) og svo Icesave sem sennilega verður á mili jóla og nýárs.   

Meira seinna.


Furðuleg fjárlagagerð

Jæja, þá er umræðan um fjárlögin byjuð aftur. Á mánudaginn byrjaði s.k. "önnur umræða" þar sem afrakstur fjárlaganefndar var tekinn til meðferðar. Athyglisverð afgreiðsla þar sem áhugamannfélag um jólaveina í Mývatnssveit, Skrímslaáhugamenn á Bíldudal og spákona á Skagaströnd fengu milljónir. Á sama tíma er skorið niður í heilbrigðis- velferðar og menntamálum. Það er ekki að mörg þesara verkefna séu vond eða óþörf en á tímum þegar þarf að forgangsraða þá á að gera það í réttri röð, þeirri röð þar sem jólasveinar eru ekki ofar niðurskurði á Landspitalanum.  Svo er hér einnig bara um einfalt hagsmunapot þingmanna fjárlaganefndar að ræða, afgreiðsla á fjármunum sem á Íslandi þykir eðilileg pólitík en sem víðast annars staðar í siðuðum lýðæðisríkjum væri skilgreint sem spilling.  Hvað um það, Ræðan sem ég flutti af tilefninu er enn ekki til í mynd en hér fyrir neðan er nefndarálitið sem ég skilaði inn.  Ég mæli sérstaklega með ská- feitletraða hlutanum.

138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 395  —  1. mál.

Nefndarálit

um frv. til fjárlaga fyrir árið 2010.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Annar minni hluti hefur farið vandlega yfir tekju- og útgjaldaáætlun fjárlagafrumvarpsins og þær þjóðhagsforsendur sem liggja henni til grundvallar. Að mati 2. minni hluta eru þær grundvallarbreytingar sem gerðar eru á skattkerfinu að mörgu leyti mjög til bóta og mikilvægur áfangi til leiðréttingar á þeim losarabrag sem verið hefur á skattumhverfi á Íslandi undanfarin ár. Að auki eru þær tímabær leiðrétting á þeim ábyrgðarlausu skattalækkunum sem gerðar voru á hámarki þensluskeiðsins síðasta og virkuðu sem olía á eld þenslunnar.
    Fjölþrepa virðisaukaskattskerfi þar sem markmiðið er að virðisaukaskattur á matvæli sé sem lægstur er æskilegt og þær breytingar sem nú eru gerðar með því að flokka t.d. gosdrykki ekki sem matvæli eru til bóta þótt 2. minni hluti telji að tveggja þrepa kerfi með einu lágu þrepi, um 7%, fyrir matvæli og öðru sem er hærra, eða um 20%, fyrir allt annað væri til bóta vegna mikillar einföldunar.
    Fjölþrepa tekjuskattskerfi er einnig að mörgu leyti æskilegt og leiðir til meiri jöfnuðar þótt alltaf þurfi að varast að ganga of langt í að leggja einhvers konar hátekjuskatt á of lágar tekjur, sem og að hafa skattprósentuna það háa að hvatinn til vinnu dofni um of.
    Fjölmargir hagsmunaaðilar og sérfræðingar komu fyrir nefndina og lýstu áhyggjum af auknu flækjustigi skattkerfisins með fjölgun skattþrepa. Eins vöknuðu upp efasemdir um innheimtu eftiráskatts sem verður til vegna vanáætlunar tekna sem gera þarf upp við álagningu, en fram kom að heimtur eftiráskatts eru oft rýrar. Einnig var varað við hugsanlegum vandræðum vegna þess knappa tíma sem til stefnu er til að breyta þeim kerfum sem notuð eru við útreikning og innheimtu skatta. Þessi tímaþröng er mikið áhyggjuefni og erfitt að sjá annað en að gerð verði mörg mistök um áramót og á fyrstu mánuðum næsta árs vegna þeirra miklu breytinga sem þarf að gera á tölvukerfum. Slík vandræði geta gert það að verkum að tiltrú manna á kerfið veikist og erfitt og tímafrekt er að fá nýtt skattkerfi sem fer af stað á brauðfótum til að standa almennilega í lappirnar. Veik tiltrú manna á skattkerfi eykur einnig til muna vilja til undanskota. Því er að mati 2. minni hluta vel þess virði að gaumgæfa hvort hægt sé að fresta þessum breytingum þannig að meiri tími gefist til undirbúnings. Hins vegar telur 2. minni hluti að aukið flækjustig og eftiráinnheimta þurfi ekki að verða vandamál vegna þess tækniþróaða umhverfis sem efnahagslífið býr við.
    Hvað varðar áhrif skattbreytinganna á efnahagslífið almennt og þjóðarhag telur 2. minni hluti að sá rökstuðningur sem birtist í kaflanum „Áhrif skattheimtu“ í frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins (þskj. 292 – 256. mál) gangi ekki upp við þær aðstæður sem uppi eru í íslenskum efnahagsmálum. Rökstuðningurinn byggist á keynesískum kenningum hagfræðinnar þar sem gengið er út frá því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu hafi örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu (samdrætti) og talið er til misskilnings að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram að aukning á útgjöldum ríkissjóðs muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi eru góð og gild við ákveðnar aðstæður og hafa reynst vel gegnum tíðina sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir og kenningin sem slík gengur upp í reynd þótt ýmislegt beri að varast við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun þeirra og varanleika.
    Undir þeim kringumstæðum sem íslenskt efnahagslíf býr við er þess hins vegar ekki að vænta að um verði að ræða samsvarandi eða meiri aukningu eftirspurnar en sem nemur skattheimtunni vegna bágrar skuldastöðu ríkissjóðs og takmarkaðs svigrúms til útgjalda. Stór hluti ríkisútgjalda fer í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem falla til vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er á sama tíma um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl, þannig að í raun er æpandi þversögn í beitingu þessara aðferða sem í rökstuðningi frumvarpsins eru sagðar auka eftirspurn.
    Því er hætt við að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu, þá er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram og hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.
    Um það er ekki deilt að staða ríkissjóðs er mjög slæm og einhvern veginn þarf að reyna að brúa þann gríðarlega halla sem blasir við. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöld eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 2. minni hluti telur við þessar aðstæður bæði óheppilega og í raun óþarfa.
    Ljóst er að tekjuskattstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög og sumir allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við nú eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir og geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram.
    Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim og að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu sem getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Því telur 2. minni hluti brýnt að leita annarra leiða til að rétta við hag ríkissjóðs en þeirra sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi. 2. minni hluti leggur því til að í stað þeirra tekjuskattshækkana og niðurskurðar útgjalda til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og frumvörpum um tekjuöflun ríkisins skuli leitast við að afla ríkissjóði tekna sem hér segir:
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp gistináttagjald sem leggist á hótel- og gistihúsarekstur. Gjald þetta verði 1.000 kr. (5,5 evrur) á gistinótt. Miðað við gistinætur ársins 2008 (sbr. skýrslur Hagstofu) gæti gjald þetta skilað tekjum upp á um 2,7 milljarða kr. á ári. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhugaðri hækkun tekjuskatts til samræmis við þetta. Gjald þetta skal renna í ríkissjóð árin 2010 og 2011 en eftir það vera eyrnamerkt til uppbyggingar á ferðamannastöðum.
    Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á raforkusölu til stóriðju í stað sérstaks skatts af allri seldri raforku. Gjald þetta verði 1 kr. á kílóvattstund af seldri raforku. Miðað við tölur Orkustofnunar um raforkusölu til stóriðju gæti þetta gjald skilað tekjum upp á u.þ.b. 12,4 milljarða kr. á ári. Þar sem raforkusala til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er meitluð í stein hvað verðbreytingar varðar verði leitast við útfæra auðlindagjaldið sem hlutfall af útflutningsverðmæti verksmiðjunnar þannig að það nemi samsvarandi upphæð og 1 kr. á selda kílóvattstund. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhugaðri hækkun tekjuskatts til samræmis við þetta.
    Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir til fiskveiða. Gjald þetta verði að meðaltali 50 kr. á úthlutað kíló. Miðað við úthlutaðar aflaheimildir ársins 2008 (553.600 tonn) gæti gjaldið skilað tekjum upp á u.þ.b. 27,7 milljarða kr. á ári. Lagt er til á móti að fyrirhuguð hækkun tryggingagjalds falli niður og að því sem eftir stendur af tekjunum verði varið til styrkingar heilbrigðis-, velferðar- og menntamála.
    Slík skattheimta sem að ofan greinir er hlutlaus fyrir heimilin og leggst á þær greinar atvinnulífsins sem standa best allra í dag vegna hruns á gengi krónunnar. Hér er einnig um að ræða réttláta skattlagningu í þeim skilningi að þessar atvinnugreinar nota auðlindir landsins án endurgjalds, auðlindir sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Auk þess er miklu auðveldara að innheimta auðlindagjald með þessum hætti heldur en með einhverjum hugmyndum um tekjuskatt eða veiðileyfagjald sem hlutfall af hagnaði.
    Hvað varðar útgjaldahlið frumvarpsins er augljóst að alvarlegir meinbugir eru á starfsemi Alþingis þegar kemur að útgjaldahlið fjárlaga. Nefndarmenn eru vikum saman með viðtöl við fólk frá alls konar félögum, stofnunum og jafnvel einstaklinga sem koma á fund nefndarinnar til að biðja um peninga. Þetta virðist nefndarmönnum eðlileg framvinda mála og mátti oft heyra á máli þeirra, og þá sérstaklega nefndarmanna stjórnarmeirihlutans, að þeir yrðu að snúa bökum saman fyrir sitt kjördæmi. Þegar gestir komu svo á fund nefndarinnar og sögðust vera spákonur og skrímslasérfræðingar og mývetnskir jólasveinaáhugamenn þá gerði 2. minni hluti sér ekki grein fyrir því að alvara fylgdi máli en reiknaði með að hér væri bara enn eitt dæmið um hina alræmdu íslensku ofurkurteisi að ræða og að hefð væri fyrir því að hlusta á alla.
    Meiri hluti nefndarinnar ákvað hins vegar að taka þetta fólk alvarlega og afhenda þeim milljónir af skattfé landsmanna. Það er með þetta eins og fjölmarga aðra útgjaldaliði í tillögum meiri hlutans að hér er ekki verið að fara skynsamlega með almannafé og í raun er þetta á mörkum hins siðlega. Meiri hlutinn hreinlega mokar fjármunum í alls kyns gæluverkefni heima í héraði á einhverri mestu ögurstund íslenskra ríkisfjármála þegar á hinn bóginn er verið að skera niður fé til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála. 333 millj. kr. til stjórnmálaflokka er svo enn eitt dæmið um hvernig sitjandi þingmenn reyna að tryggja sér áframhaldandi völd.
    Það er mat 2. minni hluta að öllum þessum svokölluðu safnliðum beri að fresta. Flestir rúmast nú þegar innan starfssviða ýmissa sjóða og hinum ætti tafarlaust að koma fyrir annaðhvort innan ráðuneytanna eða nýrra, t.d. svæðisbundinna, sjóða sem gætu lagt faglegt mat á umsóknirnar og fylgt því eftir að fjármununum væri varið í þau verkefni sem ætlast er til.
    Annar minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa við gerð fjárlaga, hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og ber ekki að afgreiða með þeim hætti sem gert er. Þótt erfitt geti verið að bæta úr því sem komið er mundu tillögur 2. minni hluta um nýja skattstofna gefa öllum hlutaðeigandi nægilegt svigrúm til að undirbúa betur breytingar á tekjuskattskerfinu og virka mun jákvæðar á almenning og fyrirtæki í landinu heldur en þær fyrirhuguðu skattahækkanir sem frumvörpin gera ráð fyrir.

Alþingi, 13. des. 2009.

Þór Saari.

Álit á skattabreytingunum

Lauk í gær við formlegt álit mitt úr efnahgas- og skattanefnd um tekjuhlið ríkisstjórnarinnar í fjárlögum.  Álitið er frekar gagnrýnið þó um sé að ræða sumt í breytingunum sem ég er sammála.  Megináherslan er þó á að ríkið reyni frekar að afla tekna með gjaldi á þá sem hingað til hafa fengið ókeypis afnot af auðlindunum, auðlindum sem tilheyra allri þjóðinni hvort eð er.  Álitið er hér fyrir neðan.

138. löggjafarþing 2009–2010.

 

Álit

 

um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2010, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

 

Frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar.

 

    3. minni hluti hefur farið vandlega yfir tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins og þær þjóðhagsforsendur sem liggja henni til grundvallar. Að mati 3. minni hluta eru þær grundvallarbreytingar sem gerðar eru á skattkerfinu að mörgu leyti mjög til bóta og mikilvægur áfangi til leiðréttingar á þeim losarabrag sem verið hefur á skattumhverfi á Íslandi undanfarin ár. Að auki eru þær tímabær leiðrétting á þeim ábyrgðarlausu skattalækkunum sem gerðar voru á hámarki þensluskeiðsins síðasta og virkuðu sem olía á eld þenslunnar.

 

    Fjölþrepa virðisaukaskattkerfi þar sem markmiðið er að virðisaukaskattur á matvæli sé sem lægstur er æskilegt og þær breytingar sem nú eru gerðar með því að flokka t.d. gosdrykki ekki sem matvæli eru til bóta þótt 3. minni hluti telji að tveggja þrepa kerfi með einu lágu þrepi, um 7%, fyrir matvæli og öðru sem er hærra eða um 20% fyrir allt annað væri til bóta vegna mikillar einföldunar.

    Fjölþrepa tekjuskattskerfi er einnig að mörgu leyti æskilegt og leiðir til meiri jöfnuðar þótt alltaf þurfi að varast að ganga of langt í að leggja einhvers konar hátekjuskatt á of lágar tekjur sem og að hafa skattprósentuna það háa að hvatinn til vinnu dofni um of.

 

    Fjölmargir hagsmunaaðilar og sérfræðingar komu fyrir nefndina og lýstu áhyggjum af auknu flækjustigi skattkerfisins með fjölgun skattþrepa. Eins vöknuðu upp efasemdir um innheimtu eftiráskatts sem verður til vegna vanáætlunar tekna sem gera þarf upp við álagningu, en fram kom að heimtur eftiráskatts eru oft rýrar. Einnig var varað við hugsanlegum vandræðum vegna þess knappa tíma sem til stefnu er til að breyta þeim kerfum sem notuð eru við útreikning og innheimtu skatta. Þessi tímaþröng er mikið áhyggjuefni og erfitt að sjá annað en að gerð verði mörg mistök um áramót og á fyrstu mánuðum næsta árs vegna þeirra miklu breytinga sem þarf að gera á tölvukerfum. Slík vandræði geta gert það að verkum að tiltrú manna á kerfið veikist og erfitt og tímafrekt er að fá nýtt skattkerfi sem fer af stað á brauðfótum til að standa almennilega í lappirnar. Veik tiltrú manna á skattkerfi eykur einnig til muna vilja til undanskota. Því er að mati 3. minni hluta vel þess virði að gaumgæfa hvort hægt sé að fresta þessum breytingum þannig að meiri tími gefist til undirbúnings. Hins vegar telur 3. minni hluti að aukið flækjustig og eftiráinnheimta þurfi ekki að verða vandamál vegna þess tækniþróaða umhverfis sem efnahagslífið býr við.

 

    Hvað varðar áhrif skattbreytingana á efnahagslífið alment og þjóðarhag telur 3. minni hluti að sá rökstuðningur sem birtist í kaflanum „Áhrif skattheimtu“ í frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins (þskj. 292 – 256. mál) gangi ekki upp við þær aðstæður sem uppi eru í íslenskum efnahagsmálum. Rökstuðningurinn byggist á keynesískum kenningum hagfræðinnar þar sem gengið er út frá því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu hafi örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu (samdrætti) og talið er til miskilnings að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram að aukning á útgjöldum ríkissjóðs muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi eru góð og gild við ákveðnar aðstæður og hafa reynst vel gegnum tíðina sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir og kenningin sem slík gengur upp í reynd þótt ýmislegt beri að varast við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun þeirra og varanleika.

 

    Undir þeim kringumstæðum sem íslenskt efnahagslíf býr við er þess hins vegar ekki að vænta að um verði að ræða samsvarandi eða meiri aukningu eftirspurnar en sem nemur skattheimtunni vegna bágrar skuldastöðu ríkissjóðs og takmarkaðs svigrúms til útgjalda. Stór hluti ríkisútgjalda fer í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem falla til vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er á sama tíma um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl, þannig að í raun er æpandi þversögn í beitingu þessara aðferða sem í rökstuðningi frumvarpsins eru sagðar auka eftirspurn.

 

    Því er hætt við að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu, þá er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram og hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta í dag hefur hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.

 

    Um það er ekki deilt að staða ríkissjóðs er mjög slæm og einhvern veginn þarf að reyna að brúa þann gríðarlega halla sem blasir við. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöld eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 3. minni hluti telur við þessar aðstæður bæði óheppilega og í raun óþarfa.

 

    Ljóst er að tekjuskattstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög og sumir allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við nú eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir og geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram.

 

    Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim og að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu sem getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Því telur 3. minni hluti brýnt að leita annarra leiða til að rétta við hag ríkissjóðs en þeirra sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi. 3. minni hluti leggur því til að í stað þeirra tekjuskattshækkana og niðurskurðar útgjalda til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og frumvörpum um tekjuöflun ríkisins skuli leitast við að afla ríkissjóði tekna sem hér segir:

 

    Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp gistináttagjald sem leggist á hótel- og gistihúsarekstur. Gjald þetta verði 1.000 kr. (5,5 evrur) á gistinótt. Miðað við gistinætur ársins 2008 (sbr. skýrslur Hagstofu) gæti gjald þetta skilað tekjum upp á um 2,7 milljarða kr. á ári. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhugaðri hækkun tekjuskatts til samræmis við þetta.

    Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á raforkusölu til stóriðju í stað sérstaks skatts af allri seldri raforku. Gjald þetta verði 1 kr. á kílóvattstund af seldri raforku. Miðað við tölur Orkustofnunar um raforkusölu til stóriðju gæti þetta gjald skilað tekjum upp á u.þ.b. 12,4 milljarða kr. á ári. Þar sem raforkusala til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er meitluð í stein hvað verðbreytingar varðar verði leitast við útfæra auðlindagjaldið sem hlutfall af útflutningsverðmæti verksmiðjunnar þannig að það nemi samsvarandi upphæð og 1 kr. á selda kílóvattstund. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhugaðri hækkun tekjuskatts til samræmis við þetta.

    Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir til fiskveiða. Gjald þetta verði að meðaltali 50 kr. á úthlutað kíló. Miðað við úthlutaðar aflaheimildir ársins 2008 (553.600 tonn) gæti gjaldið skilað tekjum upp á u.þ.b. 27,7 milljarða kr. á ári. Lagt er til á móti að fyrirhuguð hækkun tryggingagjalds falli niður og að því sem eftir stendur af tekjunum verði varið til styrkingar heilbrigðis-, velferðar- og menntamála.

    Slík skattheimta sem að ofan greinir er hlutlaus fyrir heimilin og leggst á þær greinar atvinnulífsins sem standa best allra í dag vegna hruns á gengi krónunnar. Hér er einnig um að ræða réttláta skattlagningu í þeim skilningi að þessar atvinnugreinar nota auðlindir landsins án endurgjalds, auðlindir sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Auk þess er miklu auðveldara að innheimta auðlindagjald með þessum hætti heldur en með einhverjum hugmyndum um tekjuskatt eða veiðileyfagjald sem hlutfall af hagnaði.

 

    3. minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa við gerð fjárlaga, hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og ber ekki að afgreiða með þeim hætti sem gert er. Þótt erfitt geti verið að bæta úr því sem komið er mundu tillögur 3. minni hluta um nýja skattstofna gefa öllum hlutaðeigandi nægilegt svigrúm til að undirbúa betur breytingar á tekjuskattskerfinu og virka mun jákvæðar á almenning og fyrirtæki í landinu heldur en þær fyrirhuguðu skattahækkanir sem frumvörpin gera ráð fyrir.

 

Alþingi, 11. desember 2009.

 

Þór Saari.

 


Ævintýraleg fjárlög

Fjárlagafrumvarpið var aftur lagt fram í dag eftir meðferð hjá fjárlaganenfd.  Nefndin hefur lengi verið helsta landsbyggðabitlinganefnd þingsins og nú eru níu af ellefu nefndarmönnum af landsbyggðinni.  Þeir eru:

Ásbjörn Óttarsson, NV, S, Ásmundur Einar Daðason, NV, Vg,Björn Valur Gíslason, NA, Vg, varaformaður, Guðbjartur Hannesson, NV, Sf, formaður, Höskuldur Þórhallsson, NA, F, Kristján Þór Júlíusson, NA, S, Oddný G. Harðardóttir, SU, Sf, Ólöf Nordal, RS, S, Sigmundur Ernir Rúnarsson, NA, Sf, Þór Saari, SV, Hr, Þuríður Backman, NA, Vg

Hér var um ævintýralega yfirferð að ræða þar sem fjöldi fólks, aðallega úr kjördæmum fjárlaganefndarmanna kom á fund nefndarinnar til að ræða miklar fjárvantanir til einstaka verkefna.

Á fund nefndarinnar kom m.a. spákona sem óskaði eftir fimmtán milljóna styrk fyrir spákonuhús á Skagaströnd og skrímslafræðingar sem óskuðu eftir fimm milljónum fyrir skrímslasetur á Bíldudal ásamt fjölda annarra með alls lags furðulegar óskir.

Ég þóttist nú vera farinn aðbúast við ýmsu eftir um hálfs árs setu á Alþingi en vinnan við gerð fjárlaga toppar þó allt.

Eins og sjá má  í þessu skjali  ef farið er niður undir mitt skjali undir "Sérstök yfirlit I" þá fær spákonan 2,8 milljónir af skattfé almennings til spámennsku (flokkur 10 ýmis stofnkostnaðarframlög, liður 22), skrímslasetrið fær 2,1 milljón (flokkur 3,söfn ýmis stofnkostnaður, liður 5). Stjórnmálaflokkar fá svo 333 milljónir og lengi mætti telja.  Eins og sjá má í skjalinu þá kennir hér margra grasa og úthlutunin fór fram milli nefndarmanna meirihlutans án nokkurar efnislegrar umræðu í nefndinni.  Áhugasamir geta svo tengt heimilisföng úthlutananna við kjördæmin og séð hvaða þingmenn berjast fyrir hverju.

Að mínu viti er hér um algerlega óábyrga og í raun spillta meðferð á almannfé að ræða þar sem þingmennirnir koma svo heim í kjördæmið í jólafríinu með peninga í poka og fá þá væntanlega atkvæði í staðinn en á Íslandi þykja þetta þó víst eðlileg stjórnmál.  Til hamingju Samfylking og Vinstri-Græn.  Alþingi og nefndarvinnan sem þar fer fram er í þessu tilviki sem mörgum öðrum eingöngu einhvers konar yfirskin og ekki furða að hér hafi orðið algert hrun ef vinnubrögðin hafa verið með þessum hætti hingað til.

Ég mun halda áfram að upplýsa um fjárlagagerðina eftir því sem tími gefst til en hvet lesendur til að kynna sér gögnin.


Afgreiðsla þingsins á hruninu

Í dag mælti forseti Alþingis Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fyrir frumvarpinu sem við í Hreyfingunni höfum gagnrýnt svo mikið undanfarið.  Þetta er frumvarpið um meðferð Alþingis á skýrslu rannsóknarnefndarinnar þar sem skipa á níu manna þingmannanefnd til að fjalla um skýrsluna, þ.m.t. þau hugsanlegu atriði í skýrslunni er snúa að þingmönnum sjálfum, fyrrverandi þingmönnum, ráðherrum og fyrrverandi ráðherrum, þ.e.a.s. sjálfa sig, vini, samflokksmenn, yfirmenn og fjölskyldumeðlimi.

Hér varð ég vitni að því er Fjórflokkurinn læsti saman krumlunum í skjaldborg um sjálfan sig af þvílíku offorsi að þingmenn og nefndarmenn í forsætisnefnd notuðust nær eingöngu við útúrsnúninga í málflutningi sínum.  Umræðan í dag var einhver ömurlegasta upplifun mín sem þingmaður hingað til og hef þó orðið vitni að mörgum mannlegum niðurlægingum á þinginu.

Ég set hér link á umræðuna í heild sinni og hvet alla til að hlusta vel og dreifa um allt því hér hljómar Fjórflokkurinn í algerum kór, hafi einhver efast um að hann væri til.  Það vefst enn fyrir mér hvers vegna VG kýs að taka þátt í þessum þykjustuleik en þingflokkur þeirra hefur fjallað um málið og samþykkti að styðja framlagningu frumvarpsins eins og það er vitandi vel um alla ágalla þess.

Það verður algert hneyksli ef þetta frumvarp fer óbreytt í gegnum þingið og mun eyðileggja möguleika þingsins og á endanum þjóðarinnar að reka af sér slyðruorðið og endurvekja traust.

Almenningur verður hreinlega að láta í sér heyra um þetta mál.


Rannsóknin á Hruninu

Rannsóknarnefnd Alþingis á að skila skýrslu sinni undir lok janúarmánaðar.  Eins og komið hefur fram þarf Alþingi að taka við skýrslunni (það bað um hana) og fjalla um hana eins og aðrar skýrslur sem gerðar eru fyrir þingið s.s. árlegar skýrslur Ríkisendurskoðunar og Umboðsmanns Alþingis og forsætisnefnd Alþingis hefur nú lagt fram frumvarp um hvernig þingið á að fara með skýrslu Rannsóknarnefndarinnar.  Frumvarpið er hér.

Forsætisnefndin virðist hins vegar ekki alveg átta sig á því að hér er ekki um neina venjubundna skýrslu að ræða heldur væntanlega skýrslu um hrun vestræns lýðræðisríkis sem hafði holað sjálft sig að innan með pólitískum bitlingum, viðskiptatengslum stjórnmálaflokka og -manna við atvinnulífið, alvarlega siðferðisbresti sömu manna og stjórnsýslu og embættismannakerfi sem ráðið var inn í á flokkspólitískum forsendum svo fátt eitt sé nefnt.  Hrun sem vitað er að stafaði að hluta af algeru ábyrgðarleysi ráðamanna, þ.e. stjórnmálamanna.  Frumvarp forsætisnefndar gerir nefnilega ráð fyrir að Alþingi sjálft kjósi níu manna pólitíska nefnd sitjandi þingmanna sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og virðist gera ráð fyrir því án nokkurra efasemda að þingmenn séu hæfir til þess fjalla um hana þrátt fyrir að líklega verði í skýrslunni álitamál sem snúa að þingmönnum sjálfum, ráðherrum, fyrrverandi þingmönnum og/eða fyrrverandi ráðherrum og Alþingi sjálfu sem stofnun.

Þingmannanefndinni er ekki ætlað neitt tiltekið verksvið og ekki er gert ráð fyrir að hún eigi að skila nokkru af sér innan einhvers ákveðins tíma.  Eins er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gögnum rannsóknarnefndarinnar sem liggja að baki skýrslunnar verði komið fyrir í Þjóðskjalasafninum þar sem þau munu hvíla lokuð inni í 40 ár og sumum tilfellum 80 ár, nema í undantekningartilvikum.

Hreyfingin hefur gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og krafist breytinga á því sem eru í stuttu máli þær að valin verði fimm manna nefnd þingmanna, einn úr hverjum flokki sem ekki sat á þingi fyrir október 2008, til að fara yfir skýrsluna og koma með tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar og frekari rannsóknir og athuganir fyrir 1. maí 2010.  Eins verði skipuð nefnd fimm "valinkunnra" manna sem eiga að fjalla um öll þau hugsanlegu álitamál í skýrslunni sem snúa að Alþingi, þingmönnum og ráðherrum og gera tillögur um hvernig verði tekið á þeim. Auk þess verði öll gögn ransóknarnefndarinnar gerð opinber og aðgengileg öllum nema í þeim tilfellum sem krefjast þess vegan ítrustu perónu- verndarsjónarmiða að þau verði dulkóðuð.

Í fyrstu atrennu var öllum tillögum Hreyfingarinnar hafnað af forsætisnefnd og skora ég á lesendur að fara inn á vef Alþingis og finna hverjir nefndarmenn eru og send þeim línu ef þeim finnst þess þurfa.  Allur fjórflokkurinn virðist (enn sem komið er allavega) samstíga í því að koma í veg fyrir að breytingar verði gerðar á þessu frumvarpi en skoðun okkar er sú að hér sé verið að opna fyrir þann möguleika, og í raun setja lög til þess, að niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar verði sópað undir teppið.  Þetta er grafalvarlegt mál og eftir að Árni Páll Árnason fékk frumvarp sitt um niðurfellingu skulda auðmanna samþykkt á forsendum þess að það hjálpaði heimilunum þá gerum við einfaldlega ráð fyrri því að þingmenn fjórflokksins svífist einskis til að verja sig og/eða sína og erum þess vegna full tortryggni í þessu máli.

Við boðuðum blaðamannafund um málið í gær (fimmtudag) en fjölmiðlar utan Rásar 2 og Útvarps Sögu höfðu ekki áhuga á málinu (hvað þýðir það?).  Hér má hins vegar heyra flutning Rásarinnar á málinu og verið er að afla tenginga við viðtalið í Útvarpi Sögu.

Hér er svo bréf sem við sendum Forseta Alþingis vegna málsins.

Reykjavík, 2. desember 2009

Forseti Alþingis Reykjavík, 2. desember 2009

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir                                   

Erindi þessa bréfs varðar Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Frumvarpið kemur frá forsætisnefnd.

Í greinagerð frumvarpsins segir: „Í öðru lagi eru sett inn í lögin fyrirmæli um meðferð Alþingis á skýrslunni en samkomulag hefur orðið milli formanna þingflokkanna og forsætisnefndar um fyrirkomulag þeirrar meðferðar."

Þingmenn Hreyfingarinnar kannast ekki við aðild að ofangreindu samkomulagi og óskaði þingflokksformaður Hreyfingarinnar Birgitta Jónsdóttir reyndar eftir því að andstaða hennar við frumvarpið til yrði færð til bókar á fundi með forseta þingsins og þingflokksformönnum s.l. mánudag. Þingmenn Hreyfingarinnar gerðu ítrekað alvarlegar athugasemdir við frumvarpið á meðan það var í vinnslu og lögðu til þrjár breytingar við það:

1. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu til að þingmannanefndin yrði skipuð fimm þingmönnum í stað níu, einum úr hverjum flokki. Eins yrði sett það skilyrði að nefndarmaður hefði ekki átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 og hefði óumdeilanlega engin tengsl við þá atburði eða gerendur þeirra atburða sem getið er í fyrirsögn frumvarpsins.

2. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu auk þess til að skipuð yrði nefnd fimm valinkunnra manna utan þingsins sem hefði það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Það yrði einnig hlutverk þeirrar nefndar að fjalla um öll atriði sem hugsanlega kæmu fram í skýrslunni og snerta Alþingi sjálft sem stofnun.

3. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu til að gögn málsins yrðu færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber, eins og hægt er. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu áherslu á að höfð yrði í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem höfuðábyrgð bera á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi.

Það var mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt væri við að tengsl og hagsmunaáreskstrar myndu gera trúverðugleika nefndarinnar að engu. Því væri það grundvallaratriði til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem framundan er.

Með skipun nefndar fimm valinkunnra manna utan þings sem hefði það hlutverk sem fram kom í breytingartillögum Hreyfingarinnar yrði auk þess tryggt að Alþingi yrði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fengi stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald. Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að tryggja að þeir geti ekkie ndurtekið sig. Því er mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem til verða við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast sé kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.

Því miður var öllum breytingartillögum Hreyfingarinnar hafnað.

Þar sem hlutverk og skyldur þingmannanefndarinnar eru ekki nægjanlega afmörkuð er hætt við því að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Það kann að hafa þær afleiðingar í för með sér að þeir aðilar sem ábyrgð bera í því máli sem hér er til umfjöllunar verði ekki látnir axla þá ábyrgð. Að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Þar af leiðandi er hætt við því að störf hennar dragist óæskilega. Í því samhengi ber að hafa í huga leyfð tímamörk um málshöfðun skv. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð, en umrædd þingmannanefnd mun ein koma til með að hafa ákvörðunarvald um hvort landsdómur verður kallaður saman vegna mála sem Alþingi kann að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.

Hreyfingin telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.

Virðingarfyllst,

Þingmenn Hreyfingarinnar,

Birgitta Jónsdóttir,

Margrét Tryggvadóttir

Þór Saari

 

 


Óendanlegt Icesave

Þær breytingar sem ríkisstjórnin vill gera á ríkisábyrgðinni frá í sumar eru að lengja ábyrgðina út í hið óendanlega í því tilfelli að skuldin verði ekki að fullu uppgreidd árið 2024 sem getur hæglega gerst og er jafnvel líklegt. Þetta þýðir líka að lokaupphæðin verður hærri og hærri þar sem eftirstöðvarnar bera vexti sem leggjast ofan á afganginn af höfuðstólnum.

Sem sagt, skuldbinding sem er óendanleg í tíma og umfangi. Það er þetta sem vafðist mest fyrir lögspekingagenginu sem kom fyrir fjárlaganenfd í gær, vafðist svo mikið að a.m.k. tvær þeirra tjáðu ekki um þetta sérstaklega og þrjú þeirra höfnuðu að skrifleg greinargerð um málið gæti skýrt það frekar.

Við á þinginu getum tafið þetta mál eitthvað áfram en það þarf að heyrast hærra í almennum borgurum þessa lands, nema þeir vilji bara borga.


mbl.is Segja Icesave-lög geta verið brot á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert fara skattarnir, í Icesave kannski?

Komið hefur í ljós að stór hluti álagðs tekjuskatts fer eingöngu í það að greiða vextirna af Icesave samningum ríkistjórnarinnar.  Samkvæmt upplýsingum úr fjárlaganefnd er reiknað með að um 82,9 milljarðar innheimtist í tekjuskatt árið 2009 af um rétt tæplega 180 þúsund manns.  Þetta gerir tæplega 462 þúsund krónur á mann að meðaltali.

Vextir af Icesave eru um 100 milljónir á dag (sennilega samt nær 110 til 115 ma.) sem gerir 36,5 milljarða á ári. Það þýðir að tekjuskattar frá um 79.000 íslendingum fara í það eitt að borga vextina af Icesave nú í ár, á næsta ári, o.s.frv. o.s.frv. Þ.e. 44% af öllum tekjuskatti fara í Icesave vaxtahítina.  Ríkisskattstjóri er heldur bjartsýnni í skattspám sínum og gerir ráð fyrir hærri upphæð í tekjuskatt (92,8 ma.)sem þýðir að tekjuskattar um 70.000 mans fara í að greiða vexti af Icesave, það er um 39% af öllum innheimtum tekjuskatti og 32% af tekju- og fjármagnstekjuskatti samanlagt.

Þá er þeirri spurningu svarað. Hvert fara skattarnir? Í Icesave vaxtahítina um ókomna tíð því það er engin lokadagsetning á greiðslunum.  Og þegar tekjur minnka og fólki fækkar þá er ekki langt í að tekjuskattar enn fleiri (90 og svo jafnvel 100 þúsund manns) fari sömu leið. Og það bara í vextina af þessu eina láni, sem er þó ekki nema tiltölulega lítill hluti af skuldunum.

Dæmið gengur einfaldlega ekki upp eins og heyra má hér.

Það getur verið að almenningur sé orðinn þreyttur á þessu máli og það má guð vita að ég er sjálfur orðinn dauð þreyttur á því, en þegar menn standa frammi fyrir svona svakalegu dæmi þá er ekki um annað að ræða en að halda áfram og reyna að breyta því.  Þetta þarf nefnilega ekki að vera svona og það má ekki gera almenningi þann grikk að demba þessu öllu yfir á hann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband