Rannsóknin á Hruninu

Rannsóknarnefnd Alþingis á að skila skýrslu sinni undir lok janúarmánaðar.  Eins og komið hefur fram þarf Alþingi að taka við skýrslunni (það bað um hana) og fjalla um hana eins og aðrar skýrslur sem gerðar eru fyrir þingið s.s. árlegar skýrslur Ríkisendurskoðunar og Umboðsmanns Alþingis og forsætisnefnd Alþingis hefur nú lagt fram frumvarp um hvernig þingið á að fara með skýrslu Rannsóknarnefndarinnar.  Frumvarpið er hér.

Forsætisnefndin virðist hins vegar ekki alveg átta sig á því að hér er ekki um neina venjubundna skýrslu að ræða heldur væntanlega skýrslu um hrun vestræns lýðræðisríkis sem hafði holað sjálft sig að innan með pólitískum bitlingum, viðskiptatengslum stjórnmálaflokka og -manna við atvinnulífið, alvarlega siðferðisbresti sömu manna og stjórnsýslu og embættismannakerfi sem ráðið var inn í á flokkspólitískum forsendum svo fátt eitt sé nefnt.  Hrun sem vitað er að stafaði að hluta af algeru ábyrgðarleysi ráðamanna, þ.e. stjórnmálamanna.  Frumvarp forsætisnefndar gerir nefnilega ráð fyrir að Alþingi sjálft kjósi níu manna pólitíska nefnd sitjandi þingmanna sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og virðist gera ráð fyrir því án nokkurra efasemda að þingmenn séu hæfir til þess fjalla um hana þrátt fyrir að líklega verði í skýrslunni álitamál sem snúa að þingmönnum sjálfum, ráðherrum, fyrrverandi þingmönnum og/eða fyrrverandi ráðherrum og Alþingi sjálfu sem stofnun.

Þingmannanefndinni er ekki ætlað neitt tiltekið verksvið og ekki er gert ráð fyrir að hún eigi að skila nokkru af sér innan einhvers ákveðins tíma.  Eins er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gögnum rannsóknarnefndarinnar sem liggja að baki skýrslunnar verði komið fyrir í Þjóðskjalasafninum þar sem þau munu hvíla lokuð inni í 40 ár og sumum tilfellum 80 ár, nema í undantekningartilvikum.

Hreyfingin hefur gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og krafist breytinga á því sem eru í stuttu máli þær að valin verði fimm manna nefnd þingmanna, einn úr hverjum flokki sem ekki sat á þingi fyrir október 2008, til að fara yfir skýrsluna og koma með tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar og frekari rannsóknir og athuganir fyrir 1. maí 2010.  Eins verði skipuð nefnd fimm "valinkunnra" manna sem eiga að fjalla um öll þau hugsanlegu álitamál í skýrslunni sem snúa að Alþingi, þingmönnum og ráðherrum og gera tillögur um hvernig verði tekið á þeim. Auk þess verði öll gögn ransóknarnefndarinnar gerð opinber og aðgengileg öllum nema í þeim tilfellum sem krefjast þess vegan ítrustu perónu- verndarsjónarmiða að þau verði dulkóðuð.

Í fyrstu atrennu var öllum tillögum Hreyfingarinnar hafnað af forsætisnefnd og skora ég á lesendur að fara inn á vef Alþingis og finna hverjir nefndarmenn eru og send þeim línu ef þeim finnst þess þurfa.  Allur fjórflokkurinn virðist (enn sem komið er allavega) samstíga í því að koma í veg fyrir að breytingar verði gerðar á þessu frumvarpi en skoðun okkar er sú að hér sé verið að opna fyrir þann möguleika, og í raun setja lög til þess, að niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar verði sópað undir teppið.  Þetta er grafalvarlegt mál og eftir að Árni Páll Árnason fékk frumvarp sitt um niðurfellingu skulda auðmanna samþykkt á forsendum þess að það hjálpaði heimilunum þá gerum við einfaldlega ráð fyrri því að þingmenn fjórflokksins svífist einskis til að verja sig og/eða sína og erum þess vegna full tortryggni í þessu máli.

Við boðuðum blaðamannafund um málið í gær (fimmtudag) en fjölmiðlar utan Rásar 2 og Útvarps Sögu höfðu ekki áhuga á málinu (hvað þýðir það?).  Hér má hins vegar heyra flutning Rásarinnar á málinu og verið er að afla tenginga við viðtalið í Útvarpi Sögu.

Hér er svo bréf sem við sendum Forseta Alþingis vegna málsins.

Reykjavík, 2. desember 2009

Forseti Alþingis Reykjavík, 2. desember 2009

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir                                   

Erindi þessa bréfs varðar Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Frumvarpið kemur frá forsætisnefnd.

Í greinagerð frumvarpsins segir: „Í öðru lagi eru sett inn í lögin fyrirmæli um meðferð Alþingis á skýrslunni en samkomulag hefur orðið milli formanna þingflokkanna og forsætisnefndar um fyrirkomulag þeirrar meðferðar."

Þingmenn Hreyfingarinnar kannast ekki við aðild að ofangreindu samkomulagi og óskaði þingflokksformaður Hreyfingarinnar Birgitta Jónsdóttir reyndar eftir því að andstaða hennar við frumvarpið til yrði færð til bókar á fundi með forseta þingsins og þingflokksformönnum s.l. mánudag. Þingmenn Hreyfingarinnar gerðu ítrekað alvarlegar athugasemdir við frumvarpið á meðan það var í vinnslu og lögðu til þrjár breytingar við það:

1. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu til að þingmannanefndin yrði skipuð fimm þingmönnum í stað níu, einum úr hverjum flokki. Eins yrði sett það skilyrði að nefndarmaður hefði ekki átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 og hefði óumdeilanlega engin tengsl við þá atburði eða gerendur þeirra atburða sem getið er í fyrirsögn frumvarpsins.

2. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu auk þess til að skipuð yrði nefnd fimm valinkunnra manna utan þingsins sem hefði það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Það yrði einnig hlutverk þeirrar nefndar að fjalla um öll atriði sem hugsanlega kæmu fram í skýrslunni og snerta Alþingi sjálft sem stofnun.

3. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu til að gögn málsins yrðu færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber, eins og hægt er. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu áherslu á að höfð yrði í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem höfuðábyrgð bera á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi.

Það var mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt væri við að tengsl og hagsmunaáreskstrar myndu gera trúverðugleika nefndarinnar að engu. Því væri það grundvallaratriði til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem framundan er.

Með skipun nefndar fimm valinkunnra manna utan þings sem hefði það hlutverk sem fram kom í breytingartillögum Hreyfingarinnar yrði auk þess tryggt að Alþingi yrði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fengi stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald. Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að tryggja að þeir geti ekkie ndurtekið sig. Því er mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem til verða við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast sé kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.

Því miður var öllum breytingartillögum Hreyfingarinnar hafnað.

Þar sem hlutverk og skyldur þingmannanefndarinnar eru ekki nægjanlega afmörkuð er hætt við því að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Það kann að hafa þær afleiðingar í för með sér að þeir aðilar sem ábyrgð bera í því máli sem hér er til umfjöllunar verði ekki látnir axla þá ábyrgð. Að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Þar af leiðandi er hætt við því að störf hennar dragist óæskilega. Í því samhengi ber að hafa í huga leyfð tímamörk um málshöfðun skv. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð, en umrædd þingmannanefnd mun ein koma til með að hafa ákvörðunarvald um hvort landsdómur verður kallaður saman vegna mála sem Alþingi kann að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.

Hreyfingin telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.

Virðingarfyllst,

Þingmenn Hreyfingarinnar,

Birgitta Jónsdóttir,

Margrét Tryggvadóttir

Þór Saari

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta frumvarp er að minu áliti tómt prump. Að mínu áliti er 9 manna nefnd alþingismanna síður fær um að fjalla um þes skýrslu en t.d. hópur eins og þjóðfundur. Þú segir að fjalla eigi um hana eins og aðrar skýrslur, að mínu áliti er það ekki rétt þessi skýrsla hlýtur að vera einstök og að eitthvað þingmanna þras á ekki að eiga sé stað um hana.

Það þarf að ögra fréttamiðlum, lögmönnum, háskólaelítunni, dómurum, rannsóknarlögreglu hafsmunasamtökum og almenningi til að taka á því sem þarna verður opinberað og ekki láta Alþingi drepa þetta á dróma eins og allt annað!!!!

Stefán Ingólfsson (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 00:27

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk fyrir þetta Þór. Það er gott til þess að vita að Hreyfingin skuli hafa 3 þingmenn til að tryggja að rétt verði sagt frá í það minnsta.  Ef fjórflokkurinn hefði verið einn um þetta þá hefði öllu verið stungið undir stól. Eftir því sem meiri skítur vellur upp þeim mun hlynntari verð ég aðild að ESB.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.12.2009 kl. 07:46

3 identicon

Sæll Þór. Þetta dæmi um Samspillingu 4flokksins og svo áhugaleysi fjölmiðla á málinu (reyndar ekkert nýtt að Baugsmiðlarnir reyni að þegja svona mál í hel, sem koma spillingaröflunum ylla), segja mér sorglega mikið hvernig komið er fyrir þjóðinni.

Getur verið að hún sé svo dofin að hana þyrsti ekki í lýðræði lengur? Er hún orðin svo bæld og samgróin spillingunni að henni er sama um svona grundvallar réttlæti? Höfum við, Íslenska þjóðin hreinlega gefist upp fyrir ofríki spillingar?  Ætlar þessi þjóð að láta troða loforðum þeim um nýtt og betra Ísland, og það að þjóðin fái að móta hér alvöru lýðræði. Beint aftur niður í kok sér? Samanber Steingrímur í gær :" Sum mál er ekki hægt að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu"

Er það ekki alvarlegt mál þegar Ríkisstjórn vor, treystir betur spillingarliðinu sem setið hefur , lúbarið á Alþingi okkar, undir framkvæmdavaldinu.  Til að taka stærstu ákvarðanir Íslandssögunnar, betur heldur en fólkinu í landinu? Jafn vel til að setjast í dómarasætið yfir sjálfum sér? Ætlar ekki þjóðin að fara að vakna og þefa í það minnsta af lýðræðinu?

Lýðræðinu sem getur ekki batnað hér fyrr en að við skerum á einræði það sem hér hefur viðgengist, í nafni forystumanna viðkomandi 4 flokks sem við völd hefur verið.  Og aðskiljum í eitt skipti fyrir öll Framkvæmdavaldið frá Löggjafavaldinu og Dómsvaldinu. Framkvæmdavaldinu sem gengur svo langt jafnvel að hindra almenning, í þeim lagalega rétti sínum að fylgjast með Löggjafanum að störfum. Og loka sölum Alþingis fyrir eðlilegri áheyrn.

Þið Hreyfingin, Þór. Hafið sett upp mjög eðlilegar athugasemdir og tillögur við þetta mál. 

Og ef það er vilji restarinnar á Alþingi að sulla þessu í gegn óbreyttu. Þá er illt í efni.    Og ef það er vilji fjölmiðla að þegja þetta mál í hel.  Þá er illt í efni.                                Og ef það er vilji þjóðarinnar, ja þá er ekkert eftir nema "Guð blessi Ísland". 

Fólk hefur áhyggjur af lánshæfimati Íslendinga um þessar mundir. Það er ekki til sá undirflokkur sem við dettum í þegar Alþjóðasamfélagið les um þessi vinnubrögð sjálftökuliðsins. Að maður tali nú ekki um álitið á þjóðinni almennt, ef hún ekki mótmælir þessu harðlega.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband