Þjóðaratkvæðagreiðslan, Icesave, Partý

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með hversu meðvitaðir þingmenn ríkisstjórnarflokkana eru um að komið er að leiðarlokum fyrir Steingrím og Jóhönnu. Ný ríkisstjórn er skrifuð í skýin. Þau hafa í raun framið pólitískt sjálfsmorð með framgöngu sinni og hroka gagnvart þingi og þjóð í þessu Icesave máli og drögin að því sjálfsmorði voru skráð alveg frá upphafi þess.

Eins og fram kemur í gögnunum í Leynimöppu Fjármálaráðherra sem lekið var til WikiLeaks þá héldu þau því leyndu fyrir Framsóknarflokknum sem studdi minnihlutastjórnina, að nokkuð væri verið að vinna í Icesave (þetta heitir óheilindi).  Svo héldu þau því sama leyndu fyrir kjósendum í aðdraganda kosninganna í apríl. Þó ég sjálfur hafi verið fegin að fá það sem ég hélt yrði vinstri stjórn, þá efast ég um að þau hefðu verið kosin ef kjósendur hefðu verið upplýstir um gang mála, þ.e. þá staðreynd að þau ætluðu að velta skuldum Björgólfsfeðga yfir á almenning í landinu. Þetta heitir að blekkja kjósendur og flokkast sem óheilindi og líklega líka sem lýgi.

Í byrjun júní sagði Steingrímur frá hinni "glæsilegu" niðurstöðu en fékkst ekki til að sýna samningana og einn af yfirþingmönnum Samfylkingar sagði í útvarpi að sennilega væri nú alveg nóg að þingmenn fengju að sjá úrdrátt úr þeim.  Það var ekki fyrr en að Hollendingum blöskraði svo meðferð ríkisstjórnarinnar á málinu (eftir fund með Hreyfingunni) að þeir láku samningnum í fjölmiðla.

Þegar sumum þingmanna VG varð nóg boðið komst loks vit í málið og þverpólistískur hópur allra flokka úr fjárlaganefnd náði mjög merku samkomulagi um fyrirvara sem þyrfti að setja við ríkisábyrgðina. Í þeirri vinnu allri var þó engu líkara en fulltrúum ríkisstjórnarinnar væri meira í mun að gæta hagsmuna breta og hollendinga en íslendinga og reiptogið um hvert smáatriði Íslandi til bóta var ótrúlegt. Það var svo að kröfu ríkisstjórnarflokkana að ákvæðið um að lögin þyrftu líka samþykki frá bretum og hollendingum til að öðlast gildi fór inn í lögin. Til varð Icesave I.

Við atkvæðagreiðslu í þinginu sat Sjálfstæðisflokkurinn hjá, Framsókn sagði nei, tvö okkar úr Hreyfingunni sátum hjá og eitt sagði nei. Merkileg atkvæðagreiðsla um mjög merkilega niðurstöðu sem hefði skilað Íslandi langt ef ríkisstjórnin hefði fylgt málinu eftir af festu. Það var ekki gert.

Í upphafi haustþings kom svo ríkisstjórnin aftur með málið inn í þingið, búin að rústa þeim fyrirvörum sem um hafði náðst samkomulag um sumarið. Við það að taka við málinu aftur setti þingið verulega niður og ekki síst forseta þess. Icesave II var svo keyrt í gegn í mikilli ósátt og afgreitt milli jóla og nýárs gegn öllum atkvæðum stjórnarandstöðunnar.

Dugmikið fólk hóf smölun gegn málinu og það söfnuðust um 60.000 nöfn gegn því, nöfn sem voru afhent forsetanum sem svo neitaði að staðfesta lögin þann 5. janúar.

Það sem mest hefur komið mér á óvart í þessu máli er hversu langt ríkisstjórnin var tilbúin að ganga í óheilindum, ósannindum og hræðsluáróðri. Á öllum stigum þess var varað við hörmungum ef þingmenn gerðu ekki eins og Jóhanna og Steingrímur sögðu, þau höguðu sér ítrekað eins og litlir krakkar eða frústreraðir makar og sögðust bara hætt ef þau fengu ekki sitt fram. Stór hluti embættismannakerfisins og hluti fræðasamfélagsins spilaði með þeim alla leið og valdir fjölmiðlar hafa linnulítið líka unnið gegn hagsmunum almennings í málinu.

Þegar ég lít til baka eins og ég gerði í löngu viðtali í "Spegli" RÚV á fimmtudag þá bregður mér við því sem ég sé. Þvílikt stjórnarfar sem viðgengist hefur í þessu máli af hálfu stjórnarflokkana er ekki siðmenntað heldur keyrir áfram á hræðsluáróðri, óheilindum og blekkingum. Menn geta svo sem kallað þessi vinnubrögð lýðræði og þingræði ef þeir vilja en það sem bjargaði því sem bjargað varð voru nöfn 60.000 manns og svo Forseti Íslands.

Nú stöndum við frammi fyrir því að kjósa um Icesave II í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn á ný reyna Jóhanna og Steingrímur að eyðileggja málið með linnulausum áróðri og blekkingum og kalla atkvæðagreiðsluna marklausa vegna "nýs og betra tilboðs" frá bretum og hollendingum. Þess ber að geta að þetta blessaða tilboð er þó þrælvont og litlu skárra en lögin sjálf og færi aldrei gagnrýnislaust gegnum þingið. Engu að síður nota þau það sem áróðurstæki til að reyna að bjarga sínu pólitíska lífi, sem þau virðast ætíð tilbúin að setja ofar sannleikanum og ofar almannahagsmunum.

Vegna alls þess hér að ofan er ástæða til að kjósa á morgun, og segja NEI! Vegna framgöngu ríkisstjórnarinnar, vegna þess vonda samnings sem gerður var, vegna undirlægjuháttar íslenskra stjórnvalda, vegna þeirra hugrökku VG liða sem björguðu málinu í sumar, vegna þeirrar þrotlausu vinnu sem In Defence hefur lagt fram, vegna þeirra 60.000 sem skráðu sig, vegna þess að hægt er að gera betur, og síðast en ekki síst vegna Forseta Íslands og staðfestu hans og kjarks.

Ég mun kjósa á morgun og segja NEI! Svo mun ég halda niður í bæ og styðja við stofnun Alþingis Götunnar og mæta á mótmælafund á Austurvelli.  Á morgun eru nefnilega ekki nein leikslok þó Icesave verði fellt. Það er hálfleikur og mikið verk er eftir óunnið. Við í Hreyfingunni ætlum þó að njóta augnabliksins og halda kosningavöku á Hótel Reykjavík Centrum í Aðalstræti 16, frá níu til eitt. Allir eru velkomnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Ef ég væri þú Þór, myndi ég fara mjög varlega í það að tala um hroka hjá öðrum.

hilmar jónsson, 5.3.2010 kl. 09:04

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

En nú ert þú ekki Þór Hilmar minn. Þu ert Hilmar og íjjar að hroka hjá Þór, en þú mátt eiga að þú ferð varlega í það.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2010 kl. 09:20

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars er Þór nú bara að súmmera upp sögu liðinna mánaða hér og bjóða þer í partý af mikilli rausn, fyrir svo utan það að orðið hroki kemur aldrei fyrir í þessari grein, né er íjað að slíku. Þú hefur kannski farið bloggvillt með þessa athugasemd?

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2010 kl. 09:24

4 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Það sem mun eyðileggja möguleika okkar á að leysa mál í framtíðinni með þjóðaratkvæðagreiðslu er óumflýjanleg stjórnarskipti, samkvæmt þessari færslu. Þegar ljóst var að þjóðin fengi að kjósa um samningin þá óttaðist stjórnarandstaðan það að menn myndu kjósa eftir flokkslínum af ótta við að fá hrunaflokkana til valda þá lofuðu þeir að þetta væri ekki um framtíð stjórnarinnar.

En að tala um að þetta sé hálfleikur ertu þá að meina að við þurfum að djöflast í þessu máli í 16 mánuði í viðbót.

Rosa partý maður.


Andrés Kristjánsson, 5.3.2010 kl. 09:30

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það er rétt hjá þér Þór, þau frömdu pólitískt sjálfsmorð af svo mikilli einbetni að því varð ekki forðað, þrátt fyrir ítrekaða björgunarleiðangra. 

Hrólfur Þ Hraundal, 5.3.2010 kl. 09:42

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ætlar þú að kjósa með rassinum Hilmar eins og forsætisráðherran sem velur að vera ekki í liði með þjóðinni.

Hrólfur Þ Hraundal, 5.3.2010 kl. 09:48

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála öll sem stendur hér í grein Þórs.  Að tala um hroka er rödd sem hrópar í eyðimörkinni, búinn að átta sig á því að hann er staddur þar í félagsskap Jóhönnu og Steingríms, þetta með að ný ríkisstjórn sé skrifuð í skýin er bæði dálítið óttafullt og samt lausn.  Ég verð að viðurkenna að ég vona að sú skrift segi utanþingsstjórn.  Og að hvergi komi þar nálægt gamlir útjálkaðir pólitíkusar á borð við Svavar Gestson eða Þorstein Pálsson.   Að þar standi einungis nöfn okkar færustu sérfræðinga í því að vara vel með fé, þar þarf líka að standa; virðing, heilindi og réttlæti.  Sérstakur verndari slíkrar stjórnar ætti að vera Eva Joly. 

Takk fyrir þennan góða pistil Þór.  Og ég er þér innilega sammála.  Viltu beita þér fyrir því að hér fáum við næst utanþingsstjórn með þessi atriði innibrennd.   Ég held að þjóðin sætti sig ekki við neitt minna en það. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2010 kl. 09:55

8 identicon

Í grein frá 18. janúar 2010 segir Sigurður Líndal Lagaprófessor emeritus; 

"Ef hins vegar þrátefli verður milli forseta og Alþingis, þannig að Alþingi samþykki þegar í stað lög, sem forseti hefði synjað lítið breytt og þrátefli yrði, vakna spurningar um hvernig eigi að hemja Alþingi. Það yrði bezt gerð með því að koma á fót stjórnlagadómstól. Annars eru ekki önnur úrræði en kjósendur taki í taumana."

Nú er mér spurn, er það virkilega svo að Steingrímur hafi hugsað sér að gera nýja samninga, lítið breytta og keyra þá í gegn, án þjóðaratkvæðagreiðslu?

sandkassi (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 15:26

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

ef Jóhanna og Steingrímur vilja halda einhverri reisn eftir atkvæðagreiðsluna, segja þau af sér.  Ef fólk vill bjarga þessari ríkisstjórn verður að skipa í þeirra sæti, en annars hlýtur að verða skipuð neyðarstjórn með það verkefni að leysa aðsteðjandi vandamál.  Í mínum huga er þeim hvorugum viðreisnarvon.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2010 kl. 16:02

10 identicon

Þetta er prýðileg upprifjun hjá Þór og ég er sammála öllum þeim ályktunum um ríkisstórnina sem hann dregur.

Þetta er ríkisstjórn blekkinga, svika og lyga eins og hann dregur fram, og þetta kemur úr munni manns sem lengi hafði vonast eftir vinstri stjórn í landinu.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 16:53

11 identicon

Lady GAGA & SteinFREÐUR ásamt ýmsum Spunameisturum Samspillingarinnar hafa farið á kostum, í neikvæðri merkingu þess orðs!  Ég tek undir þína gagnrýni á þessa aumu ríkisstjórn "Það sem mest hefur komið mér á óvart í þessu máli er hversu langt ríkisstjórnin var tilbúin að ganga í óheilindum, ósannindum og hræðsluáróðri."  Maður er í raun orðlaus yfir klúðrinu & ótrúlega óvönduðum vinnubrögðum hjá þeim skötuhjúum - nú er mál að linni..lol..!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 17:41

12 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Lyfi lýðræðið.

Sigurður Haraldsson, 5.3.2010 kl. 19:52

13 Smámynd: ragnar bergsson

All rétt og satt Þór, Steingrímur er stjórnmálamaður að verstu sort ég segi hann er lýðskrumari af sömu tegund stjórnmálamanna, sem komu okkur á vonarvöl.

ragnar bergsson, 5.3.2010 kl. 21:14

14 identicon

Góð samantekt Þór.

Það er með ólíkindum að við skulum geta kallað okkur lýðræðisþjóð, þegar okkar eigin Ríkisstjórn kemst upp með svona spuna, lygar og jafnvel landráð gegn eigin þjóð og þjóðarhagsmunum, oft í beinni útsendingu.

Enda stendur nú heimurinn agndofa, yfir því að þjóðin sem þau sömu héldu að væri í fararbroddi lýðræðis hefur leiðtoga sem gefa þessu sama lýðræði puttann. Og ætla að hundsa vilja þjóðarinnar og sniðganga þessa fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu Lýðveldisins.

Skildu allir þessir fréttamenn, sem hafa nú hópast hingað til að fylgjast með "Frumherjum Lýðræðis í heiminum" , vita það sem okkar geldu Íslensku fjölmiðlafulltrúar virðast ekki hafa áhuga á að velta upp. Það að Heilög Jóhanna, þessi lýðræðispáfi okkar í gegnum tíðina. Hefur átt hvorki meira né minna en 10 frumvörp á Alþingi um þjóðaratkvæði. Og svo þegar hún komst loks í þá aðstöðu að fylgja sannfæringu sinni og negla þetta í lög.

Þá sveik hún sig og þjóðina, og tróð í gegn um þingið einnota lögum um Þjóðaratkvæði, eingöngu fyrir Icesave. Það var nú lýðræðisástin og traustið til þjóðarinnar.

Best væri að þessi frábæra athygli sem Ísland fær núna, gegn um þessa stærstu fjölmiðla heimsins, myndi gleyma Gránu og Skallagrími. Því þetta er ódýrari, og gæti verið jákvæðari landkynning en við höfum nokkurn tíma áður séð, sem frumherjar lýðræðis fólksins gegn auðvaldi heims og bankaklíkunni og rotnum pólitíkum þeirra.

Og hvað? Okkar leiðtogar gera alt í sínu veldi til að skemma það.

Og því miður munum við ekki geta gert neitt til að stoppa það. Og taka fyrir þessa ótrúlegu skemmdar og niðurrifsstarfsemi sem þau standa fyrir. 

Því er mér spurn hverra hagsmuna ganga þau? Þjóðin krefst svara. Og er þeim statt að sitja áfram? Eftir þessi SVIK?

Svar mitt er blátt nei, eins og við Icesave kosningunni.

 Burt með þetta vanhæfa svika pakk.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 22:33

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þetta merkilega yfirlit. Yfirlit sem dregur fram aðalatriðin í þeirrar hryllilegu kúgunarsögu sem saga Icesave hefur verið. Það er virkilega niðurdrepandi að rifja hana upp en það er þó nauðsynlegt. Ekki síst fyrir það að það verða allir að átta sig á hlutverki formanna ríkisstjórnarflokkanna og leiðtoga ríkisstjórnarinnar í þessari myrku sögu sem Icesave-klúður þeirra hefur verið frá upphafi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.3.2010 kl. 22:58

16 identicon

Þakka þér Þór fyrir þessa góðu samantekt, hún er bara hrein upprifjun á hlutunum eins og þeir hafa gerst. Ég býð boxhanska í þessa hrokaumræðu sem dæmir sig bara sjálf og er framhald á áróðursherferð sjálfhverfra manna og kvenna sem ég nenni ekki að  útskýra hér. Þú Birgitta og Margrét eruð hetjur!

Hörður Ingvaldsson (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 23:09

17 Smámynd: Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson

'Eg held að fyrir framtíðina þá skuli taka þennan slag.Hann verður langt í frá sársaukalaus og það verður ekkert himnaríki þegar hann vinnst.En fokk við aumingjar höfum gott af því að taka nokkur á kjaftinn.Því enginn okkar er alveg saklaus.Því orð er til alls fyrst en gerðir okkar skilgreina okkur.Hvað munu börnin lesa um okkur í sögubókum eftir hundrað ár.En líka þá þýðir ekki að kvarta þegar skeinipappir gengur til þurrðar eða þið komið ekki öldruðum foreldrum ykkar á heimili þegar þessi erfiði tími kemur.En ég held að það sé timi núna til að sýna að það sé fólk sem vill og getur ráðið í heiminum en ekki bara peningar

Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson, 5.3.2010 kl. 23:46

18 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir, þið þingmenn Hreyfingarinnar eruð að standa ykkur vel. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.3.2010 kl. 02:44

19 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það hlýturað hafa tekið á ykkur,en reynslunni ríkari.

Helga Kristjánsdóttir, 6.3.2010 kl. 03:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband