Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þinghúsbréf 1

Við félagar í þinghópnum höfum nú hist reglulega í rúma viku í s.k. þingflokksherbergi Borgarahreyfingarinnar í Alþingishúsinu og rötum nú á klóið og í mötuneytið.  Miðað við þær upplýsingar sem höfum fengið um framgang mála má það víst teljast afrek að ná þó þessu tvennu á einni viku.  Samkvæmt upplýsingum valinkunns og hógværs reynslubolta erum við nú á vinnustað þar sem "við getum eiginlega ekki treyst neinum og allir eru að reyna að plata okkur".  Annar reyndur fyrrum þingmaður og ráðherra kom á okkar fund og hræddi úr okkur líftóruna á innan við tíu mínútum.  Við erum ekki sérlega róttæk enn sem komið er enda maturinn góður en við neitum þó að kalla okkur þingflokk og köllum okkur þess í stað þinghóp.  Jæja, mjór er mikils vísir.

Að öðru leiti líst okkur vel á verkefnið framundan sem er einfaldlega að láta rödd almennings heyrast í sölum Alþingis og gæta þess að þeir hagsmunir verði ekki fyrir borð bornir í væntanlegum niðurskurði og skattahækkunum tilvonandi ríkisstjórnar.  Þingflokkurinn hefur nú sent frá sér þrjár tilkynningar og í morgun tókum við afstöðu til þess hverjar þær lágmarksforsendur eru sem við setjum fyrir stuðningi við væntanlega þingsályktunartillögu nýrrar ríkisstjórnar um aðildarviðræður að ESB.  Þær eru eftirfarandi:

  1. Að tryggð verði gagnsæ og hlutlaus miðlun fræðslu frá sérstakri upplýsingastofu á vegum Alþingis. Stofan skal skipuð fagfólki og taka mið af reynslu nágrannaþjóða við þjóðaratkvæðagreiðslur. Endanlegur samningur skal vera almenningi aðgengilegur.
  2. Að samninganefndin verði skipuð fagfólki og a.m.k. tveimur óháðum erlendum sérfræðingum.
  3. Að tryggt verði jafnt vægi atkvæði allra landsmanna við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

Það er svo kapítuli út af fyrir sig að í dag, rúmlega þremur mánuðum eftir hinn eftirminnilega 20. janúar fékk ég kjörbréf upp á að ég væri orðinn þingmaður og í dag skensaði einn þingvörðurinn okkur í gamni og sagði að það væri bannað að berja á gluggana innan frá.  Svona er nú lífið skrýtið.  Sáum líka Sigmund Erni fyrrum Kryddsíldarstjóra í dag.  Skyldi hann vita hver togaði í snúrurnar dýru?


Kjördagur og sigur

Þá er langur dagur að kvöldi kominn.  Dagur sem kom á óvart og dagur þar sem draumar rættust. Borgarahreyfingin kom fjórum að á Alþingi Íslands.

"Skríllinn" og "Ekki-þjóðin" sem barði á gluggana, sem barði pottana, sem togaði í kaplana, sem pirraði Sigmund Erni og Geir Haarde og Björn Bjarna og Ingibjörgu Sólrúnu og allt hitt afturhaldsyfirstéttarliðið sem taldi að það gæti farið sínu fram og kollsteypt þjóðarskútunni þegjandi og hljóðalaust án þess þess almenningur skipti sér af.  "Skríllinn" og "Ekki-þjóðin" sem kom á endanum verstu ríksstjórn Íslandssögunnar frá, hefur nú fengið fullrúa innan þessara sömu veggja og valdafirrtir stjórnmálamenn reyndu að fela sig á bak við.

Við mótmæltum og við unnum.  Geir flúði úr forsætisráðuneytinu og stjórninni var slitið þegar þau vissu að við mundum ekki gefast upp.  Þau buðu upp á kosningar.  Það var á brattann að sækja allan tímann en við komumst alla leið.  Og við börðumst aftur, og unnum aftur.

Við áttum við ofurefli að etja, risaeðlur sem skammta sér fimm hundruð milljónir á ári af skattfé okkar til þess eins að halda sjálf völdum.  Risaeðlur sem neituðu Borgarahreyfingunni um hefðbundna ókeypis kynningu í sjónvarpinu á þeim forsendum að þau sjálf hefðu ekki áhuga.  Risaeðlur sem endalaust reyndu að sveigja umræðuna að "atvinnuuppbyggingu" og ESB með sínum algerlega inihaldslausu kosningaloforðum.  En almenningur lét ekki blekkjast og meðbyrinn síðustu dagana fyrri kosningarnar var svakalegur.

Það var stanslaus straumur fólks inn á Laugaveginn og verslunareigendur gáfu af slíku örlæti að stundum var ekki hægt að komast inn í eldhúsið.  Kaffi í tugkílóavis, kex í kassa vís, volg vínarbrauð frá Sandholt í metravís, húsgögnin, skjáirnir, tölvurnar, sófarnir, prentararnir, allt lánað eða gefið.  Ljósmyndararnir, kvikmyndagerðarmennirnir, sjálfboðaliðar svo tugum skipti, uppvaskið, þrifin, knúsin, kossarnir og samstaðan seinustu metrana.  Margrét Tyggva. sem vann kraftaverk á Suðurlandi og safnaði á fjórða hundrað meðmælendum og kláraði fullbúinn framboðslista á innan við tveim vikum.  Jóhann kosningstjóri sem hæglátlega náði að halda utan um þetta allt.  Jón Þór og Siggi Hrellir, framkvæmdastjórar sem framkvæmdu hið ómögulega.  Og allir þeir sem þeyttust út um koppagrundir að dreifa bæklingum og breiða út boðskapinn á vinnustöðum og fyrir utan Laugaveginn, Palli var örugglega í hundrað tíma á gangstéttinni, oft krókloppinn.  Þetta var ævintýralegt, eitt mesta ævintýri lífs míns.

Við fengum 13,519 atkvæði, við sem fyrir níu vikum vorum ekki til og áttum ekki krónu.  Við "Skríllinn" og "Ekki-þjóðin".

Og nú hef ég hef fengið vinnu við að tala máli alls þessa fólks.  Það er heiður og ég heiti því að frá fyrsta degi munu gluggar þinghússins og dyr verða opnar út á Austurvöll og Raddir fólksins munu heyrast þar inn eins lengi og þörf er á til að búa til betra Ísland.

Þakka þér Hörður Torfason, þakka ykkur skjaldborg, þakka þér Gunnar Sig. og co. með Borgarafundina, þakka ykkur ræðumenn í næðingi allann veturinn, þakka ykkur Kryddsíldaryfirstéttarstjórnmálamenn og fjölmiðlamenn fyrir að sýna ykkar rétta fúla andlit, þakka ykkur snúru slítarar og Grímar anarkistar, þakka ykkur félagar í Samtöðu - bandalagi grasrótarhópa, þakka ykkur félagar og vinir í Borgarahreyfingunni.  Þetta er ykkur að þakka, það eru þið sem eruð á þingi.

Við fórum út í októbernæðinginn og gerðum byltingu utandyra í íslenskum vetri.  Nú er komið vor og við erum komin inn á þing.  Hver hefði nokkurn tíma trúað því að það væri hægt!

TIL  HAMINGJU


Kjördagur

Það verður kosið í dag. Eftir hrunið, eftir byltinguna sem við unnum. Nú er að vinna næsta sigur. Því þurfum við að spyrja.  Hvers vegna er verið að kjósa.

Það er vegna kröfu almennings sem reis upp þegar stjórnvöld landsins brugðust algerlega og íslenskt efnahagslíf hrundi til grunna.  Kosningar eru aðferð okkar við að skipta um stjórnvöld og leyfa fólkinu að velja sér nýja stjórn.

En þau eru hér enn, stjórnvöld, fulltrúar hrunsins, sum hver með 25 ára setu á þingi og ætla að láta kjósa sig aftur.

Við vitum hvað gerðist og hvernig og hver ber ábyrgðina, það eru þau, ekki ég, og ekki þú.

En aðal ástæðan er þó samt sú að við, almenningur, við hættum að skipta okkur af stjórnmálum og sofnuðum á verðinum.  Það má ekki gerast aftur og alls ekki í dag.

Í dag þegar við kjósum skulum við öll spyrja nýrra spurninga, spurninga sem eru ekki um hver gerði hverjum hvað og hvenær.  Það vitum við og við gleymum því aldrei.

Við skulum þess í stað spyrja þessara spurninga.  Hvað er það sem ÉG get gert, og hvað er það sem mér BER að gera.  Tökum ábyrgð, KJÓSUM!


Fjögur atriði er varða þig í komandi kosningum

Skuldir Heimilanna - Margrét Tryggvadóttir 1. sæti Suðurkjördæmis:
http://www.youtube.com/watch?v=xC0iUb7AK04

Skuldsetning þjóðarinnar - Þór Saari 1. sæti Suðvesturskjördæmis:
http://www.youtube.com/watch?v=sCe9qrm_aII

AGS fái ekki að ráða ferðinni - Birgitta Jónsdóttir 1. sæti Reykjavíkurkjördæmi Suður:
http://www.youtube.com/watch?v=8fmrgb7FDwo

Leyndina Burt - Katrín Snæhólm 2. sæti Reykjavíkurkjördæmi Norður:
http://www.youtube.com/watch?v=-U_L2ipqTgU

AUTT atkvæði er DAUTT - KJÓSUM!
Borgarahreyfingin þjóðin á þing!


Kosningar og Kraginn

Niðurstaða skoðanakönnunar Stöðvar 2  um 10,2% prósenta fylgi Borgarahreyfingarinnar í SV kjördæmi eða Kraganum svo kallaða, kom nokkuð á óvart en samt bendir hærra hlutfall svarenda en áður (72%) til þess að kannanir séu að verða marktækari.

Þetta eru ánægjulegar fréttir fyrir okkur í Borgarahreyfingunni og vonandi verður niðurstaðan sú að í þessum kosningum verði Sjálfstæðisflokknum hafnað.

Það hefur verið skoðun mín að vegna hrunsins sem er að mestu á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og vegna meintra spillingartengsla þess flokks sé sjálfsagt mál að hann fái frí frá landsstjórninni og hefði í raun yfirhöfuð ekki átta að bjóða fram.

Það er og sjálfsögð krafa að öllum þeim sem hafa verið í forystu flokksins undanfarin ár, þ.m.t. ÞKG, verði skipt út. Prófkjörin voru ekki fær um það, Landsfundur var ekki fær um það, en kjósendur á laugardaginn munu vonandi gera það.

Það er og verður þörf fyrir stjórnmálaflokk sem stendur fyrir þau borgaralegu gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sig út fyrir að standa fyrir. Hann hefur hins vegar borið langt af leið og mun ekki rétta af kúrsinn með núverandi frambjóðendum.

Þess vegna er um að gera að gefa Sjálfstæðisflokknum kost á að taka rækilega til í sínum ranni með því að senda þeim ótvíræð skilaboð í kosningunum.

Ísland mun ekki hrynja þótt Sjálfstæðisflokkurinn verði utan ríkisstjórnar um hríð, þvert á móti sendir það jákvæð skilaboð til alls almennings og til umheimsins að íslendingum líki ekki það sem gerst hefur og að þeim sé alvara með það að hér á landi verði gerðar þær grunvallarbreytingar sem svo mikil þörf er á.

Atkvæði greitt öðrum mun því hjálpa Íslandi.

Með bestu kveðju og óskum um gleðilegt sumar.

Þór Saari


mbl.is Stjórnin heldur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB, kjarkleysi og þröngsýni

Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum.  Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.  Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.

Þetta er skynsöm leið og í raun eina færa leiðin ef menn yfirhöfuð hafa áhuga á að velta fyrir sér framtíðarkostum Íslands og taka raunhæfa afstöðu til þeirra.

Sú stefna einangrunarsinnana í Heimsýn og fjölmargara annarra svo sem Sjálfstæðisflokksins einkennist af hræðslu við umheiminn og hræðslu við að treysta fólkinu í landinu og er í alla staði ólýðræðisleg.  Sá fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.

Sú stefna Samfylkingar að hér muni allt lagast við ESB aðild er hins vegar einhvers konar óskhyggja og sú ofuráhersla sem Samfó leggur á ESB er varasöm því í ákafanum er auðvelt að sjást ekki fyrir og fórna um og hagsmunum Íslands.

Þröngsýni, hroki, hræðsla og óskhyggja eru ekki vænleg tól í þeirri mikilvægu umræðu sem framundan er um framtíð Íslands.

Þar eru varfærni, róttæk skynsemi og kjarkur, þar sem öllum steinum er velt við, nauðsynleg ef íslendingum á einhvern tíma takast að byggja hér upp mannvænt og upplýst samfélag þar sem önnur gildi en græðgi, feluleikur, og valdhroki ráða ríkjum.

Með því að kjósa Borgarahreyfinguna á morgun er hægt að leggja eitthvað af mörkum til þess að framtíð okkar og barna okkar verði ekki leiksoppar stjórnmálafla, þ.e. þingmanna, sem alla tíð frá lýðveldisstofnun hafa gróflega misnotað það vald sem almenningur hefur framselt til þeirra í kosningum í þeirri góðu trú að þeir bæru almannahag fyrir brjósti.

Höfum eftirfarandi í huga:

"Til er sú afstaða sem virðir allan fróðleik að vettugi, hunsar öll rök og festir manninn ætíð í kviksyndi fáviskunnar ævina á enda.  Þetta er sú afstaða að vera á móti einhverju án þess að hafa kynnt sér það."

-HERBERT SPENCER


Sjálfstæðisflokkurinn í Kraganum (SV kjördæmi)

Niðurstaða skoðanakönnunar Stöðvar 2 í gær um 10,2% prósenta fylgi Borgarahreyfingarinnar í SV kjördæmi eða Kraganum svo kallaða, kom nokkuð á óvart en samt bendir hærra hlutfall svarenda en áður (72%) til þess að kannanir séu að verða marktækari.  Þetta eru ánægjulegar fréttir fyrir okkur í Borgarahreyfingunni og vonandi verður niðurstaðan sú að í þessum kosningum verði Sjálfstæðisflokknum hafnað.

Það hefur verið skoðun mín að vegna hrunsins sem er að lang mestu á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og vegna meintra spillingartengsla þess flokks sé sjálfsagt mál að hann fái frí frá landsstjórninni og hefði í raun yfirhöfuð ekki átta að bjóða fram í komandi kosningum.

Það er og sjálfsögð krafa að öllum þeim sem hafa verið í forystu flokksins undanfarin ár, þ.m.t. varaformanninum ÞKG verði skipt út.  Prófkjörin voru ekki fær um það, Landsfundur var ekki fær um það, en kjósendur á laugardaginn munu vonandi gera það.

Það er og verður þörf fyrir stjórnmálaflokk sem stendur fyrir þau borgaralegu gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sig út fyrir að standa fyrir.  Hann hefur hins vegar borið langt af leið og mun ekki rétta af kúrsinn með núverandi frambjóðendum.  Þess vegna er um að gera að gefa Sjálfstæðisflokknum kost á að taka rækilega til í sínum ranni með því að senda þeim ótvíræð skilaboð í kosningunum.

Ísland mun ekki hrynja þótt Sjálfstæðisflokkurinn verði utan ríkisstjórnar um hríð, þvert á móti sendir það þau jákvæðu skilaboð til alls almennings og til umheimsins, að íslendingum líki ekki það sem gerst hefur og að þeim sé alvara með það að hér á landi verði gerðar þær grunvallarbreytingar sem svo mikil þörf er á.

Atkvæði greitt öðrum í þessum kosningum mun því hjálpa Íslandi.

Með bestu kveðju og óskum um gleðilegt sumar.


ESB á morgun, hinn, eftir tvö ár, eða Ísland í dag.

Sá ESB kór sem nú heyrist í enn eina ferðina er að aðild að ESB muni lækna öll mein samfélagsins. Það er þó einföld staðreynd að aðildarviðræður, umsókn og aðgangur er ferli sem mun taka að algeru lágmarki tvö ár og sennilega lengur. Hvort sem er vegna einfaldra praktrískra skrifræðis atriða sem þarf að vanda til og eins vegna þess að Ísland uppfyllir ekki skilyrði ESB um inngöngu og/eða upptöku Evru. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing vill að skorið verði úr um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum en við vitum sem flestir aðrir að það mun ekki gerast í bráð. Þetta þurfa aðrir að viðurkenna því bráðavandinn er mikill.

Þá þurfa menn að spyrja sig hvað annað sé hægt að gera í millitíðinni. Svar Samfylkingar sem að svo komnu virðist munu leiða næstu ríkisstjórn, er að ekkert sem að gagni kemur verði gert í millitíðinni.

Áfram verður haldið með ónýta krónu sem hefur rústað atvinnulífinu og mun hald því knésettu. Áfram með verðtryggingu sem hefur knésett heimilin og mun halda þeim á vonarvöl. Áfram með stjórnsýslu sem er að stærstum hluta uppbyggð og rekin af erindrekum stjórnmálaflokka og í þágu stjórnmálaflokka en ekki af almenningi og fyrir almenning. Áfram með ríkisstofnanir sem eru ekki bara óviljugar heldur nánast ófærar um að sinna hagsmunum almennings. Áfram með bankaleynd og málamyndarannsókn á bankahruni í stað þess að taka af skarið og rannsaka bankahrunið sem svikamyllu og samkrull fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og ríkisstofnana. Rústað orðspor Íslands erlendis mun heldur ekki lagast fyrr en íslensk stjórnvöld nálgast nágrannalöndin af auðmýkt og viðurkenna stórkostleg mistök íslenskra stjórnvalda og óska jafnframt aðstoðar nágrannalanda við rannsókn bankahrunsins sem sakamáls. Rústað orðspor íslenskra stjórnmálaflokka mun ekki heldur lagast innanlands fyrr en þeir sem valdir voru að hruninu sem og þeir sem sváfu á verðinum í stofnunum ríkisins verði dregnir til ábyrgðar og þar verða menn að viðurkenna að Davíð Oddson bar ekki einn ábyrgð á allri ákvarðanatöku í opinberum stofnunum. Rústað orðspor íslenskra stjórnmálaflokka mun heldur ekki lagast meðan þeir sem voru í síðustu og þar-síðustu ríkisstjórn leita endurkjörs og verða endurkjörnir.

Það er einnig einföld staðreynd að áframhaldandi óbreytt stjórn landsins mun rústa orðspori allra íslendinga, því heimurinn hrofir á, ef þeir í komandi kosningum afsala sér völdum til næstu fjögurra ára til þess fólks sem ber beinlínis sjálft ábyrgð á hvernig fór. Hvernig dettur fólki í hug að endurkjör á þessu fólki og hugmyndafræði þessara flokka, og hér á ég við Framsóknarflokk, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, muni leiða til einhvers annars en áframhaldandi spilltra stjórnmála og hagsmunapots fyrirtækja með aðgang að stjórnmálaflokkunum sem og áframhaldandi hagsmunapots einstaklinga innan þessara flokka.

Ástæða þess að Ísland fékk ekki lánafyrirgreiðslu frá nágrannalöndum á ögurstund var ekki vegna íslendinga, mín, þín eða almennings. Ástæðan var sú að stjórnvöldum, þ.e. síðustu ríkisstjórn, var ekki treyst. Þegar vinaþjóð treystir sér ekki til að lána annarri vinaþjóð fé er ekki hægt að finna meiri vantraustsyfirlýsingu. Ef einhver skyldi nú ekki muna þá voru það Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem mynduðu þá ríkisstjórn og í núverandi ríkisstjórn er Samfylkingin stærst og hún er studd af Framsóknaflokknum. Kerfið sem hrundi var hinsvegar hugmyndasmíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem Samfylkingin svo tók við og fylgdi og studdi í skiptum fyrir völd með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna var það gert að skilyrði af hálfu nágrannaþjóða að AGS fengi völd yfir íslenskum efnahagsmálum. Stjórnvöldum okkar var ekki treyst. Að megninu til er svo sama fólkið í þessum flokkum að sækjast eftir endurkjöri og undir merkjum sömu hugmyndafræði þar sem almannahagur verður enn einu sinni fyrir borð borinn.

Eini flokkurinn sem kemst frá þessu eru Vinstri-Græn. Þótt þau hafi staðið vaktina vel fyrir hrun og í núverandi ríkisstjórn eru þau eru hins vegar undir ægivaldi Samfylkingar og hafa látið Samfylkinguna binda sig á klafa AGS sem vill velta öllum skuldum sem til komu vegna hrunsins yfir á almenning. Mesta hagsmunamál almennings er hins vegar að skuldum þjóðarbúsins verði ekki velt yfir á launafólk því það þýðir mestu kjaraskerðingu í sögu þjóðarinnar.

Það verður því að ná fram nýrri lendingu í skuldamálinu, með eða án AGS. Hvorki núverandi ríkisstjórn né aðrir fjórflokkana hafa þó stefnu þ.a.l. Því er það mjög mikilvægt að í komandi kosningum verði til mótvægi sem skiptir máli, mótvægi sem getur komist upp á milli væntanlegrar ríkisstjórnar Samfylkingar og VG og jafnvel verið hluti af henni, mótvægi sem af alvöru tekur hag almennings fram fyrir hag AGS, mótvægi almennings sem byggir á þeirri róttæku skynsemi sem til þarf til að gera Ísland betra.

Slíkt mótvægi er eingöngu að finna hjá Borgarahreyfingunni, XO.is.


Við líka?

Ljóst er að Ísland stendur á barmi gjaldþrots sem þjóðríki og að skuldirnar af völdum bankahruns og efnahagsóstjórnar eru meiri en hægt er að ráða við. Kominn er tími til að stjórnvöld geri þjóðinni grein fyrir þessu en hegði sér ekki eins og fyrrverandi ríkisstjórn sem hélt mikilvægum upplýsingum um væntanlegt hrun leyndum fyrir þjóðinni.

Þó ekki fáist staðfest með neinni nákvæmni hversu háar skuldir þjóðarinnar eru þá erum við komin að þeim punkti að ekki verður haldið áfram með þennan blekkingarleik um að fær leið sé út úr skuldafeninu með hefðbundum tekjustreymisaðferðum ríkissjóðs, s.s. skattahækkunum og niðurskurði útgjalda. Tillögum AGS um hallalaus fjárlög eftir þrjú ár þarf að hafna, sem og kröfum nágrannalanda um uppgjör skulda. Rannsaka þarf bankahrunið sem svikamyllu og sækja eigendur og stjórnendur til saka og sækja allt það fé sem hægt er til þeirra, með aðstoð lögreglu og eftirlitsstofnana í nágrannalöndum ef með þarf.

Að loknu því uppgjöri þurfa stjórnvöld að tilkynna nágrannalöndunum um möguleikana á endurgreiðslu þess sem eftir er, endurgreiðslu sem má ekki skerða möguleika Íslands á skjótum efnahagsbata. Að öðrum kosti verður lýst yfir greiðslufalli þjóðarbúsins (e. sovereign default) og kröfuhöfum boðið upp á afarkosti.

Slíkt greiðslufall mun koma Íslandi illa og takmarka aðgang að lánsfé erlendis í um tvö til þrjú ár en að þeim tíma liðnum mun það verða gleymt og grafið, því þó upphæðirnar séu háar á okkar mælikvarða eru þetta smámunir fyrir lánadrottnana.

Hinn kosturinn er að skera hér samfélagsáttmálann í ræmur sem aldrei verður aftur byggt á með niðurskurði ríkisútgjalda og skattahækkunum sem fólkið mun ekki standa undir. Auðlindirnar, atvinnutækin og stoðkerfið, s.s. samgöngumannvirki og veitustofnanir, verða fljótlega seld erlendum fyrirtækjum og landsmenn verða leiguliðar í efnahagsnýlendu erlendra fyrirtækja og auðhringja.

Þetta er þegar hafið og þetta verður að stöðva áður en það er um seinan.

Borgarhreyfingin - þjóðin á þing er eina pólitíska aflið sem hafnar leið núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna og býður upp á róttæka skynsemi í efnhagsmálum þar sem hagur almennings en ekki hagur sérhagsmuna, ræður ferðinni.


Framboð í SV kjördæmi og lýðræðið

Það var einkennileg glíma sem við í Borgarahreyfingunni þurftum að taka þátt í með framboðslistana til yfirkjörstjórnanna þar sem túlkun á kosningalögum er yfirskjörstjórnum í sjálfsvald sett. Strax í upphafi settu tvær kjörstjórnir, kjörstjórnir suðvestur kjördæmis og Reykjavíkur suður sig upp á móti listunum vegna formsatriðis sem byggðist alfarið á "túlkun" þeirra á kosningalögum, en atriðið sem um var að ræða er ekki tiltekið í kosningalögum og skipti engu máli samkvæmt yfirkjörstjórnum hinna fjögurra kjördæmanna né heldur samkvæmt dómsmálaráðuneytinu. Þessu var að sjálfsögðu mótmælt af okkar hálfu en til einskis. Yfirkjörstjórnir túlka lýðræðið hver með sínu nefi. Þegar okkur varð ljóst að yfirkjörstjórnir eru kosnar af Alþingi, þ.e. þeim stjórnmálaflokkum sem nú sitja á þingi, varð okkur dagljóst hvað hékk á spýtunni, ný framboð voru ekki vel séð við vorum boðflennur í partíi sem fjórflokkurinn ætlaði að hafa fyrir sjálfan sig, þessi róður yrði þungur. Við tók ganga milli yfirkjörstjórna, dómsmálaráðuneytis og landskjörstjórnar þar sem berlega kom í ljós hversu lýðræðið er í einkennilegum farvegi á Íslandi þar sem þessir aðilar voru algerlega ófærir um að leysa málið.

Til vara og með gríðarlegu átaki tókst okkur að ná saman undirskriftum allra frambjóðenda á ný á tilteknu eyðublaði sem var blessað af dómsmálaráðuneytinu og náðum að leggja fram listana aftur og það tímanlega.

Freakri samskipti við yfirkjörstjórnir varðand þetta mál og hvort þeir sem framverðir lýðræðisins myndu hugsanlega beita sér fyrir því að t.d. Dómsmálaráðuneytið lagfærði þessi einföldu atriði mættu hinsvegar algerri andstöðu. "Þetta er ekki í okkar verkahring" sögðu þau og æstust heilmikið upp. "Þið getið breytt þessu ef þið komist til valda" sögðu þau líka.

Það var óþægilegt svo ekki sé meira sagt, að verða vitni að hinni hrollköldu valdapólitík þar sem meira að segja seta í yfirkjörstjórn er beinlínis notuð með því hugarfari að lýðræðisleg framganga kosninga snúist fyrst og fremst um þá sem þegar hafa völdin.

Allar flækjur í þessum málum gagnast að sjálfsögðu fjórflokknum sem þegar hefur völdin og ef þeir geta lagt stein í götu nýrra framboða með eigin afkáralegum túlkunum þá er því miður einfaldlega farið að halla ansi mikið á lýðræðið á Íslandi.

Hér er svo listinn okkar í SV kjördæmi, frábært fólk með mjög fjölbreyttan bakgrunn, og ekki vafamál að við förum langt með að slá út kúlulánadrottninguna og hennar fjármálaflæktu félaga, með sín bellibrögð.

 

1

Þór Saari

Hagfræðingur

Álftanesi

2

Valgeir Skagfjörð

Leikari

Kópavogi

3

Ingifríður R. Skúladóttir

Vörustjóri

Garðabæ

4

Ragnheiður Fossdal

Líffræðingur

Seltjarnarnesi

5

Sigríður Hermannsdóttir

Líffræðingur

Reykjavík

6

Rúnar Freyr Þorsteinsson

Bílstjóri

Hafnarfirði

7

Bjarki Þórir Kjartansson

Atvinnurekandi

Hafnarfirði

8

Guðmunda Birgisdóttir

Kennari

Reykjavík

9

Jónína Sólborg Þórisdóttir

Fulltrúi

Kópavogi

10

Margrét Rósa Sigurðardóttir

Kennari

Kópavogi

11

Sigurður Karl Jóhannesson

Verslunarstjóri

Kópavogi

12

Helga Dís Sigurðardóttir

Matsfræðingur

Mosfellsbæ

13

Friðrik Tryggvason

Ljósmyndari

Reykjavík

14

Baldur Már Guðmundsson

Nemandi

Reykjavík

15

Ásthildur Jónsdóttir

 

Hafnarfirði

16

Rannveig Konráðsdóttir

Þroskaþjálfi

Kópavogi

17

Konráð Ragnarsson

Rafverktaki

Reykjavík

18

Magnús Símonarson

Vefhönnuður

Mosfellsbæ

19

Ingvi Hraunfjörð Ingvason

Ellilífeyrisþegi

Hafnarfirði

20

Sólveig Jóhannesdóttir

Hjúkrunarfræðingur

Álftanesi

21

Magnús Líndal Sigurgeirsson

 

Hafnarfirði

22

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

 

Mosfellsbæ

23

Sigurður Ingi Kjartansson

Kerfisstjóri

Reykjavík

24

Hörður Ingvaldsson

Verslunarmaður

Reykjavík


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband