Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þinghúsbréf 7

Áhugaverður dagur þar sem fjölbreytileikinn var í fyrirrúmi.  Byrjuðum á fundi í fjárlaganefnd þar sem fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins komu og kynntu samdráttar- og niðurskurðar aðgerðir sem gripið hefur verið til, en þetta er vand með farinn málaflokkur þar sem hagsmunir landsbyggðarinnar eru sérstaklega viðkvæmir og heilsugæslustöðva hvers byggðalags er gætt vel.  Þó eimdi einnig af gamalkunnum hrepparíg en hér er einnig um mikilvæg störf að ræða fyrir hvert byggðalag og blóðtaka fyrir þau ef um miklar sameiningar er að ræða.

Þingfundur byrjaði á umræðum um störf þingsins en þar mega þingmenn spyrja hvern annan eða þingið um hvað eina eða koma með tilkynningar og yfirlýsingar.  Ég tók til máls og fjallaði um upplifun mína af verklagi og skipulagi þingsins og var all ómyrkur í máli en undanfarna daga hafa fjölmargir þingmenn kvartað sáran yfir skipulagsleysi á þing- og nefndarstörfum.  Í framhaldi af umræðunni átti ég fund með ÁRJ forseta Alþingis og áréttaði málið.  Hún tók vel í það að bera málið upp á næsta fundi Forsætisnefndar, en sú nefnd hefur með stjórn þinghaldsins að gera.  Það er einnig að fara í gang vinna í hópi sem allir þingflokkar eiga fulltrúa í sem á að athuga með hvaða hætti er hægt að gera þingið að fjölskylduvænni vinnustað, en eins og staðan er í dag er nánast ómögulegt fyrir fjölskyldufólk að eiga sæti á þingi svo vel sé.  Vonandi kemur eitthvað út úr þessu því með áframhaldandi skipulagsleysi eykst einfaldlega hættan á brogaðri lagasetningu.

Eftir hádegið var tekin fyrir þingsályktunartillaga frá Framsóknarmönnum um 20% niðurfellingu höfuðstóls skulda einstaklinga og fyrirtækja.  Tillagan fór mjög þversum í Samfylkinguna sem m.a. hélt því fram að þýskir kröfuhafar horfðu á sjónvarp frá Alþingi og hver tillaga í þessum dúr seinkaði til muna möguleikunum á samningum við kröfuhafana.  Umræðurnar voru all skondnar á köflum en Framsóknarmenn gengu vasklega fram þó hart væri að þeim saumað af SJS og Pétri Blöndal.  Fyrir mér virtist þetta allt saman vera byggt á misskilningi, viljandi eða ekki, þar sem alhæfingar forsætisráðherra frá deginum áður sem og skilningur SJS virðist ekki ganga upp.  Árni Páll félagsmálaráðherra vakti nokkra undrun með málflutningi sínum og mönnum virtist sem skjólstæðingar Félagsmálaráðuneytisins muni ekki þurfa að kemba hærurnar næstu árin.  SDG hafði m.a. á orði að skipan hans í embætti félagsmálaráðherra sýndi svo ekki væri um villst að forsætisráðherra væri mikill húmoristi.

Ég tjáði mig aðeins um málið út frá stefnu Borgarhreyfingarinnar og í lokin var hvatt til meiri þverpólitískrar samstöðu um samræmdar almennar aðgerðir til varnar heimilunum.  Ég er að vísu frekar svartsýnn á að það muni verða, því við völd er par með samanlagt nærri 60 ára þingsetu sem er að mér virðist, alla vega Samfylkingarmegin, kyrfilega fast í gömlu hjólfarapólitíkinni sem hafnar öllum rökum annarra fyrirfram vegna þess einfaldlega að þau koma frá einhverjum meintum "andstæðingum".  Vissulega höfum við ekki efni á því í dag en svona er veruleikinn (eða firringin) á þessu þingi.

Hér má svo sjá innleg mitt í óreiðuna og í tillögu Framsóknar.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090604T103630&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090604T163937&horfa=1

Góðar stundir.

 


Þinghúsbréf 6

Létum aðeins heyra í okkur í dag. Fyrst vegna ICESAVE en til stóð að skrifa undir á morgun 4. júní en það verður varla gert "allra næstu daga" eins og ráðherran sagði í dag.  Heildardæmi upp á sennilega 700 milljarða.  Þetta eru skuldir óreiðumanna sem munu hugsanlega lenda á almenningi þar sem alger óvissa ríkir með hvers virði "eignirnar" á móti eru.  Mbl kom og forvitnaðist um málið:

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/03/motmaela_icesave_samningi/?ref=fphelst

Í þinginu var svo umræða um stöðu heimilanna sem Framsóknarmenn hófu af stakri prýði en með heldur skuggalegum tölum. SDG hóf máls á þessum mikilvæga málaflokki og af okkar hálfu töluðu Þráinn og Margrét.  Lilja Mósesdóttir frá VG lét og í sér heyra og benti meðal annars á að leið ríkisstjórnarinnar í málum heimilanna væri algerlega á skjön við allar hugmyndir og hefðir um norræn velferðarríki og bæri frekar keim af fátæktargildrum engilsaxneskra menningaheima.  Fyrir þá sem vilja heyra frekar dapurleg móttrök forsætisráðherra og fótgönguliða hennar þá bendi ég þeim á vef þingsins.

Hér eru upphafsorð SDG:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090603T150749&horfa=1

og ræða Þráins:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090603T153439&horfa=1

og ræða Margrétar:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090603T155526&horfa=1

og ræða Lilju Mósesdóttur:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090603T155048&horfa=1

Á morgun verður svo nýr dagur í þessum einkennilega heimi sem heitir Alþingi.

Góðar stundir.


Þinghúsbréf 5

Enn einn einkennilegur dagur hér á hinu háa Alþingi.  Þetta er skrifað eftir kvöldfund sem lauk ekki fyrr en um 23:30 og það með miklum harmkvælum.  Dagurinn hófst með fundi í Fjárlaganefnd kl. 8:30 og þar með missti ég af fundi í Efnahags- og skattanefnd sem var haldinn á sama tíma.  Það er svona að vera bara fjögur í flokki þá geta nefndarfundir skarast þegar dagskrá þingsins byrjar að riðlast eins og hún er farin að gera út af ESB málinu.

Hvað um það, eftir áhugaverða kynningu á framtíðarhorfum þjóðarbúskaparins af hálfu Fjármálaráðuneytisins var haldið yfir í þinghúsið þar sem mál málanna, tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður að ESB var á dagskrá.  Rétt áður fréttum við af nokkurs konar upphlaupi sem hafðir orðið á fundi Efnahags- og skattanefndar þar sem allt í einu var krafist trúnaðar af þingmönnum, þ.e. þess að þeir upplýstu ekki almenning um fundinn.  Tryggvi Þór Herbertsson sætti sig ekki við slíka leynd og gekk út af fundi.  Hrós til hans.  Svona lagað er mjög vafasamt svo ekki sé meira sagt og að nefndarfundir Alþingis skuli geta verið leynilegir er að mínu mati algerlega ótækt.  Það hlýtur að vera prinsipp mál að öll störf Alþingis séu uppi á borðinu nema í algerum undantekningartilvikum þegar sannanlega er um öryggi ríkisins að ræða.

Jæja svo hófst ESB umræðan og eins og okkur grunaði þá fór hún strax í gömlu fjórflokka hjólförin.  Þráinn tjáði sig fyrir hönd Borgarhreyfingarinnar:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T121700&horfa=1

og átti svo í samskiptum við Pétur H. Blöndal sem varð fyrir vonbrigðum með Borgarahreyfinguna.  Þeir áttu alveg óborganlegt samtal, sjá hér sem byrjar með s.k. "andsvari" PHB:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122223&horfa=1

hér svarar Þráinn

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122429&horfa=1

og Pétur aftur

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122601&horfa=1

og svo Þráinn

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T122728&horfa=1

Að loknu þessi innslagi okkar var rætt afturábak og áfram um ESB aðild fram að kvöldmat en þá var tekið inn í dagskrána hið há leynilega mál um hækkun á sköttum á bensíni, sígarettum og sprútti.  Mál sem hafði verið kynnt fyrr um daginn sem trúnaðarmál svo alþýðan færi nú ekki að ná sér í sígarettupakka eða fullan bensíntank á gamla verðinu.  Það átti að keyra málið í gegna á mettíma og gumuðu flutnings- og stuðningsmenn af því að ætla að reyna að slá 80 mínútna met sem var skemmsti tími sem farið hefur í að gera mál að lögum.  Skattahækkanir þessar eiga að ná inn tæplega 2.700 milljónum í ríkiskassan á þessu ári.

Þegar nokkrir þingmanna höfðu rýnt í framkomið frumvarp og þá sérstaklega þá klausu sem sagði að þessar hækkanir myndu valda 0.5% hækkun á vísitölu neysluverðs þá fórum við að reikna.  Þetta þýddi hækkun á húsnæðisskuldum heimilana um 8.000 miljónir á einu bretti sem er einfaldlega alveg ferlega ömurlega óréttlátt.  En bíðum við, vegna verðtryggingarákvæða þýddi þetta líka að því að talið var um 5.000 milljóna hækkun á persónuafslættinum sem er tap fyrir ríkissjóð, um 400 milljóna hækkun á bótum úr almannatryggingakerfinu og um 1.500 milljóna hækkun á verðtryggðum skuldum ríkissjóðs sjálfs og þá er nú ekki mikið eftir af skatttekjunum.

Boðaður var nefndarfundur í Efnahags- og skattanefnd og yfir pizzum ræddum við við fulltrúa ASÍ, SA  og Fjármálaráðuneytis.  Meirihluti nefndarinnar sendi málið aftur inn í þingið til s.k. annarar umræðu en þegar átti að vísa því til þriðju umræðu var farið fram á annan nefndarfund og fulltrúi Fjármálaráðuneytisns ræstur út (kl. 21:30) til að koma fyrir nefndina og reyna að skýra þessa óáran.  Fljótlega kom í ljós að í gagnrýninni hafði verið ofreiknað um eitt núll og hækkunin á persónuafslættinum myndi kosta ríkissjóð tæplega 500 milljónir, ekki 5.000. En hvað um það, öll þessi fyrirhöfn og 8.000 milljóna aukakostnaður fyrir heimilin fyrir u.þ.b. 600 milljóna auknar tekjur fyrir ríkissjóð á þessu ári.

Allt starf og dagskrá þingsins riðlaðist en að loknu miklu þvargi náði meirihlutinn að koma þessu í gegn.Ekki veit ég hvort 8.000 milljóna skuldaaukning heimilana sé í stefnuskrá VG eða hvort hún hafi verið áveðin á landsfundinum en greinilegt var að sum þeirra greiddu þessu atkvæði þvert um geð og Lilja Mósesdóttir sat hjá við nokkrar atkvæðagreiðslur.  Tóní Blair hefði hins vegar verið stoltur af sósíaldemókrötunum í Samfylkingunni sem kokgleyptu frumvarpið.

Sem sagt undarlegur dagur og enn undarlegra kvöld.  Hér þarf virkilega að taka til hendinni hvað varðar vinnubrögð.

Innlegg mitt í umræðuna má svo sjá hér:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T185802&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T205215&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T211733&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090528T232148&horfa=1

Góðar stundir.


Þinghúsbréf 4

Nýja vinnan er smám saman að lærast.  Föstudagurinn þegar almennt eru ekki haldnir þingfundir fór í ríflega fimm tíma fund í Efnahags- og skattanefnd þar sem verið var að ræða frumvarp fjármálaráðherra um eignaumsýslufélag ríkisins sem á að sjá um að ráða fram úr þeim vanda sem skapast þegar ríkið er orðið eigandi að fjölda fyrirtækja gegnum eign sína á bönkunum.

Um tuttugu manns komu fyrir nefndina og gáfu álit sitt á frumvarpinu, menn og konur úr bankageiranum, stjórnsýslunni, hagsmunasamtökum og einstaklingar með sérþekkingu á viðfangsefninu.  Ekki var að heyra á þeim að hér hefði orðið algert efnahagshrun og að stjórnsýslan sem í hlut átti hafði brugðist heldur vildu flestir halda áfram á sömu braut eins og ekkert hefði í skorist og efuðust ekki mínútu um eigið ágæti og hæfileika til að koma málunum í lag aftur. Þeir einu sem virtust með fæturnar á jörðinni voru forstjóri FME, fulltrúi Seðlabankans og svo Mats Josefsson og annar einstaklingur sem var þar á eigin vegum.

Athyglisvert var hins vegar að sjá að nálgun nefndarinnar var ekki á flokkspólitískum línum heldur algerlega faglegum (enda fjórir hagfræðingar í nefndinni) og var nefndarmönnum mikið í mun að fá faglega rétta niðurstöðu í málið.  Eftir rúmlega fimm tíma fund var ákveðið að vinna úr niðurstöðunum fram að næsta fundi.

Í dag hófst vinnudagurinn í vinnuhópi forsætisráðuneytisins um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing.  Þetta eru allt saman mál sem liggja nærri hjarta Borgarahreyfingarinnar þar sem það má segja að fæðing hennar hafi verið í kröfum um meira og betra lýðræði.  Það er því ánægjulegt að geta komið beint að vinnunni við að búa til ný lög um þessi mikilvægu mál.

Í persónukjörsmálinu er Þorkell Helgason kosningaspesíalist par excellence yfirsmiður og hefur leitt okkur í alla króka og kima um mismunandi tegundir persónukjöra.  Eftir tvo fundi hefur enn ekki skapast sammæli um aðferð þó að í dag hafi menn meira hneigst í þá átt að það þyrfti að vera sama kerfið fyrir alla flokka, þ.e.a.s. flokkunum yrði ekki í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir vilja bjóða fram kjörseðilinn, raðaðan eða óraðaðan.  Þetta er einkennileg afstaða þar sem hér er einfaldlega verið að færa prófkjörin til alls almennings og ég veit ekki betur en það sé flokkunum algerlega í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir í dag haga sínu vali á framboðslistana.

Þjóðaratkvæðagreiðslumálið og stjórnlagaþingið eiga langt í langt til að geta talist alvöru lýðræðisumbætur, en vonandi tekst að koma að þeim sjónarmiðum sem þarf til að hér verði gerðar umbætur sem raunverulega gagnast og færa þjóðfélagið í lýðræðisátt þar sem almenningur hefur raunverulegt vald í fleiri ákvarðanatökum en nú er.

Síðan tók við fundur í forsætisnefnd, alvörugefin nefnd þar sem sjálf stjórn Alþingis er fundarefnið hverju sinni.  Setan þar, en hér hefur Borgarhreyfingin áheyrnarfulltrúa með tillögurétt, gefur góða innsýn í hefðir og venjur þingsins þar sem m.a. skipulag þingsins, titlatog, klæðaburður og vinnutími er ákveðinn.

Eftir hádegið var þinghópsfundur þar sem fyrirspurn Birgittu til forsætisráðherra sem og viðbrögð og athugasemdir fyrir þingfundinn síðdegis voru skipulagðar en þá átti forsætisráðherra að flytja munnlega skýrslu um horfur í efnahagsmálum.  Hér talaði ég í tíu mínútur, en Þráinn sem flutti hér sína jómfrúarræðu í fimm sem og Margrét.  Einnig flutti Lilja Mósesdóttir sína jómfrúarræðu en hún er félagi okkar úr grasótarstarfinu í s.k. Akademíuhóp sem í vetur sem leið hafði aðsetur í ReykjavíkurAkademíunni.  Lilja var ein þeirra sem reiða á vaðið og flutti skelegga ræðu á Austurvelli í vetur og braut ísinn fyrir marga fræðimenn sem á eftir komu, m.a. Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra.

Athyglisvert var að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem bað um skýrsluna en fljótlega hurfu þeir úr salnum og um tíma var enginn sjálfstæðismaður í salnum til að hlusta á umræður um skýrslu sem þeir höfðu sjálfir beðið um. Þingfundi var svo slitið um sjöleytið.

Hér eru svo framlög Borgarahreyfingarinnar til lýðræðisins í dag:

Athugasemdir mínar við störf ríkisstjórnarinnar

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T162543&horfa=1

jómfrúarræða Þráins

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T165646&horfa=1

framlag Margrétar

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T172016&horfa=1

fyrirspurn Birgittu

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090525T150827&horfa=1 

og ræða Lilju

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T164557&horfa=1

svo tekur við annar dagur á morgun sem hefst með fundi í Efnahags- og viðskiptanefnd kl. 10:00, fundi í Fjárlaganefnd kl. 12 og svo þingfundi kl. 13:30.  Ég er að verða þreyttur í kjálkaliðunum.

 

 


Heimilin

Eins og flestir íslendingar nema kannski ríkisstjórnin vita þá er vandi heimilanna meiri en svo að við verði ráðið með smáskammtalækningum.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa boðað til samstöðufundar á Austurvelli á laugardaginn klukkan 15:00.  Sjá meðfylgjandi fréttatilkynningu.

SAMSTÖÐUFUNDUR HAGSMUNASAMTAKA HEIMILANNA

Í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á Íslandi boða Hagsmunasamtök heimilanna til samstöðufundar á Austurvelli laugardaginn 23.5.2009 kl. 15.00

Við teljum að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ákveðið að grípa til séu því miður hvergi nærri fullnægjandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins munu 28.500 fjölskyldur á Íslandi (um 30%), skulda meira en þær eiga í árslok 2009. Árið 2007 var um að ræða 7.500 fjölskyldur. Þetta er 380% aukning.

Umrædd neikvæð eiginfjárstaða er fyrst og fremst til komin vegna höfuðstólshækkana gengis- og verðtryggðra lána. Lánin hafa rokið upp úr öllu valdi í kjölfar verðbólguskotsins sem orsakaðist af gengishruni krónunnar. Við höfnum því alfarið að almenningur verði látinn sæta ábyrgð á efnahagshruninu með þessum hætti.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja:

* Að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum

* Að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð

* Afnema verðtryggingu

* Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði

* Samfélagslega ábyrgð lánveitenda

Ræðumenn:

Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R.; Guðrún Dadda Ásmundardóttir, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna; Ólafur Garðarsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi

Hljómsveitin EGÓ kemur fram

TÖKUM STÖÐU MEÐ HEIMILUNUM

www.heimilin.is


Þinghúsbréf 3

Fyrsti "alvöru" vinnudagurinn í þinginu var í dag, þ.e.a.s. það var haldinn hefðbundinn þingfundur sem hófst með s.k. óundirbúnum fyrirspurnartíma (30 mín.) en þar mega þingmenn spyrja ráðherra um hvað sem er (held ég).  Spurningin má taka tvær mínútur og svar ráðherra tvær.  Þá má þingmaðurinn koma með andsvar við svari ráðherra sem má taka eina mínútu og ráðherra má svo svar því með einnar mínútu svari.

Ég tók að mér að spyrja fjármálaráðherra um eigendur Jöklabréfanna og svarið var nú frekar klassískt þ.e.a.s. eignarhald á Jöklabréfum fæst ekki gefið upp, en þessi samskipti má heyra hér.

 http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090519T134657&horfa=1

Eins tók ég til máls vegna frumvarps fjármálaráðherra um hið s.k. eignaumsýslufélag en þar hafði umræðan þróast út í vægast sagt undarlegan farveg yfir nánast tómum þingsal.  Mjög einkennileg umræða um mál sem er mjög mikilvægt en umræðan endaði úti á túni.  Hægt er að sjá alla umræðuna á vef Alþingis fyrir þá sem eru í sjálfsmorðshugleiðingum en hér er linkurinn á mitt innlegg.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090519T164124&horfa=1

Svona líða nú dagarnir.


Jómfrúarræðan

Jæja gott fólk.  Þá er það búið, eitthvað sem maður gerir víst bara einu sinni á ævinni.  Geriði svo vel.  Hér eru bæði útsendingin og texti ræðu minnar.

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4468474/2009/05/18/

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing

Þór Saari

Svar við stefnuræðu forsætiráðherra 18. maí 2009

Virðulegi forseti, ráðherrar, þingmenn, ágætu landsmenn.

Hér í kvöld höfum við nú heyrt stefnuræðu forsætisráðherra og fyrstu viðbrögð við henni.  Ríkisstjórnin hefur talað.  Fjórflokkurinn hefur talað.  Það hefur fátt breyst í íslenskum stjórnmálum.

Ef svo fer sem horfir þá má landsmönnum nú verða ljóst að heimilum landsins mun blæða út.  Athafnamönnum má nú verða ljóst að fyrirtækjunum mun blæða út.  Foreldrum má nú verða ljóst að skólaganga barna þeirra muni skerðast.  Vinnandi fólki má nú verða ljóst að kaupmáttur tekna þeirra mun skerðast enn meir.

Góðir landsmenn.

Það voru kosningar í apríl og í þeim kosningum kom Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, fjórum þingmönnum að á Alþingi íslendinga.  Við erum fimmti flokkurinn á þessu þingi.

Hér er á ferðinni heiðarleg tilraun fólks í þverpólitískri hreyfingu.  Fólks sem hefur það að markmiði að koma á raunverulegum lýðræðisumbótum á Íslandi, að grípa til aðgerða sem raunverulega gagnast heimilum og fyrirtækjum í landinu, og að rannsaka hvað raunverulega gerðist og varð til þess að nú upplifum við mestu efnahagsþrengingar sögunnar.

Sú tilhugsun að eftir allt sem á undan var gengið yrði hér enginn valkostur í boði í verðandi kosningum annar en fjórflokkurinn var óbærileg.  Því tókum við þátt.

Og nú höfum við heyrt, að loknum einum kosningunum enn, hvað þeir hafa fram að færa.

Í október síðastliðnum varð hér varð algert efnhagshrun, algert pólitískt hrun og algert siðferðishrun ráðandi afla.  Hér var við völd pólitísk yfirstétt sem hafði tapað öllum raunveruleikatengslum og hvers úrræði á fyrsta degi var að ákalla guð.  Guð blessi Ísland sagði þáverandi forsætisráðherra, hagfræðingurinn og einn af arkitektum þeirrar spilaborgar sem þá hrundi til grunna.

Amen sagði samstarfsflokkurinn sem þótt að mestu væri saklaus af byggingu spilaborgarinnar, hafði ákafur tekið að sér verktöku við lokafráganginn.

Amen sögðu líka flokkssystkin ráðamanna sem og stjórnsýslan sem flokkarnir höfðu ráðið sér og átti ekki síður stóran þátt í hruninu.  Það átti síðan að halda áfram eins og ekkert hafði í skorist.

Þeir valdhafar sem í upphafi árs 2008 vissu nákvæmlega hvert stefndi, blekktu þjóðina.  Þeir blekktu þjóðina fram á síðasta dag og gerðu sitt besta til að blekkja umheiminn líka.

Nágrannaþjóðir okkar mótmæltu og Ísland glataði trúverðugleika sínum með slíkum glæsibrag að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar var tekið af henni og fært undir yfirþjóðlega stofnun.

Þjóðin mótmælti líka, fyrst með semingi, en á endanum svo kröftuglega að svikastjórnin hrökklaðist frá.  Í allan vetur sem leið kom fólk saman hér fyrir utan þinghúsið og lýsti óánægju sinni með stefnu þáverandi forsætisráðherra og þáverandi ríkisstjórnar.  Kallað var eftir breytingum.  En þingheimur fór bara í frí.

Virðulegi forseti.

20. janúar síðastliðinn er nú skráður á spjöld Íslandssögunnar.  Þann dag varð hádegisverðarhlé þúsunda Íslendinga að mestu mótmælum í sögu þjóðarinnar.  Alþingi var umkringt af þeim "Skríl" og þeirri "Ekki-þjóð" sem valdhafar höfðu hrakyrt mánuðum saman og í hroka sínum reiknað með að léti hvað sem væri yfir sig ganga.

Valdhafarnir sem höfðu kollsteypt þjóðarskútunni ætluðu sér að fara sínu fram þegjandi og hljóðalaust án þess að almenningur skipti sér af.  Og hvað gerðu þeir svo valdhafarnir á þessum degi, þingmennirinir sem voru hér innan dyra, þeir ræddu fram og aftur sprúttsalafrumvarp Sjálfstæðisflokksins.  Af því það var á dagskrá eins og sagt er.

Hafi einhver efast um fjarlægð þingsins frá fólkinu og firringu þingmanna þá var þeim efa eytt þann dag.

Það vorum við sem tókum sprúttsalafrumvarpið af dagskrá þennan dag og settum almenning á dagskrá.  Í framhaldi af hótunum þáverandi dómsmálaráðherra um nánast stríð við almenning tókst svo kjarkmiklum félögum annars stjórnarflokksins að knýja fram stjórnarslit.

Við mótmæltum, og við unnum, til hamingju með það.

Ríkisstjórnin féll, það var boðið upp á kosningar og til varð Borgarahreyfingin.

Við áttum á brattan að sækja allan tímann og ráðandi öfl reyndu með lagaklækjum að koma í veg fyrir framboðið.  En við komumst alla leið og rödd okkar heyrist hér í kvöld.  Og sem betur fer.

Sem betur fer segi ég því sú stefnuræða sem hæstvirtur forsætisráðherra flutti okkur er því miður stefnulaus.  Þau úrræði sem almenningi er boðið upp á eru því miður gagnslaus.  Og hæstvirt ríkisstjórnin eins og hún leggur sig virðist því miður ráðalaus.

Ágætu landsmenn.

Hvað er hér í boði.  Förum yfir það.

Í kjölfar mesta efnhagshruns sögunnar þar sem nærri tuttugu þúsund manns eru atvinnulaus og þúsundir heimila eru á barmi gjaldþrots er heimilunum boðið upp á s.k. úrræði eins og það heitir í dag.

Eitt þessara úrræða er s.k. greiðslujöfnun.

Á mannamáli heitir greiðslujöfnun einfaldlega teygjulán með árangurslausum afborgunum, takið nú eftir, teygjulán með árangurslausum afborgunum þar sem skuldugum fjölskyldum býðst að greiða af lánum fram á elli árin og nota til þess eftirlaunin eða réttara sagt ellilífeyrinn því eftirlaunasjóðirninr eru víst að stórum hluta til farnir líka.  Jahá.

Annað úrræði er s.k. greiðsluaðlögun.  Þar fær skuldug fjölskyldan tilsjónarmann inn á heimilið sem fylgist með heimilisbókhaldinu í nokkur ár.  Í kjölfarið og að loknum afskriftum skulda er fjölskyldunni svo boðið að lenda á vanskilaskrá, í jafnvel áratugi.  Skuldirnar mega hins vegar aldrei fara undir 110% af matsvirði fasteignar fjölskyldunnar.  Jahá.

Og svo eru það vaxtabæturnar.

Hinar stórauknu vaxtabætur verða að meðaltali um 25 þúsund krónur á ári á hvert heimili, eða ríflega tvö þúsund krónur á mánuði.  Jahá.

Þetta, er einfaldlega gagnslaust.

Hér þarf meira að koma til.  Hér þarf róttæka skynsemi sem viðurkennir það að vísitölu- og gengishækkanirnar á íbúðalánum fólks eru óréttlátar og ósanngjarnar.

Þessar hækkanir þarf að leiðrétta og færa aftur til ársbyrjunar 2008 en þá var stjórnvöldum ljóst hvert stefndi og hefðu átt að láta almenning vita.  Þessar leiðréttingar myndu lækka höfuðstól íbúðalána um 20% sem er þó í raun ekki annað en leiðrétting á hækkun sem hefði hvort eð er ekki komið til ef stjórnvöld hefðu ekki brugðist við efnahagsstjórnina.

Í þessu máli mun Borgarahreyfingin leita eftir samstarfi við alla flokka á þingi um frumvarp sem leiðréttir þetta mál og sem að auki endanlega afnemur verðtryggingu fjárskuldbindinga.  Ekkert hefur farið ver með íslensk heimili og launafólk en verðtryggingin og allur pempíuháttur í kringum afnám hennar er fyrir löngu óþarfur.  Hér þarf einfaldlega að reyna að ná samningum við skuldareigendur um málið og ef það er ekki hægt þá verður að afnema þennan gallagrip einhliða.

Virðulegi forseti.

Annað meginmál efnahagsstjórnarinar sem ekki er tekið á með almannahag í huga er halli ríkissjóðs.  Hér ræður ferðinni stefna AGS hvers aðkoma að málum fjölmargra landa hefur ekki verið farsæl svo vægt sé til orða tekið.

Aðkoma AGS hér á landi byggist á því að nágrannalöndin neituðu að lána íslenskum stjórnvöldum fé.  Þau stjórnvöld eru sem betur fer ekki lengur til staðar nema að litlu leiti, þó að enn sé eftir að taka til í stjórnsýslunni.  Því er tímabært að leita aftur til nágrannaþjóða um aðstoð, með því loforði að hér verði gerð ærleg bót og betrun á öllum sviðum.

Þar ber í fyrsta lagi að rannsaka bankahrunið sem þá svikamyllu sem bankastarfsemin sannarlega sýnist hafa verið.  Sækja þarf til saka eigendur og stjórnendur fjármálastofnana og frysta eigur þeirra.

Rannsaka verður hvert allir þessir peningar fóru og fá þar til aðstoðar þar til bærar eftirlitsstofnanir í nágrannalöndum með því fororði að þeim peningum sem nást til baka verði skilað til réttmætra eigenda.

Það sem upp á vantar verði svo sótt beint til þeirra sem sök eiga á.  Hér er um að ræða hundruð milljarða sem m.a. runnu út úr Seðlabanka Íslands skömmu fyrir hrunið og hvers tap lendir beint á skattgreiðendum þessa lands.  Ætla stjórnvöld virkilega ekki að sækja þetta fé?

Ef hér er haldið rétt á spilunum má afþakka s.k. aðstoð AGS og færa hagstjórnina aftur til íslenskra stjórnvalda.

Og þar má sannarlega gera betur því sú ætlan ríkisstjórnarinnar sem stefnir að 170 milljarða niðurskurði á þremur árum gengur einfaldlega ekki upp.  Almenningur mun sligast undan lána- og skattbyrðinni, mennta- og heilbrigðiskerfið mun leggjast á hliðina og hér verður alvarlegur landflótti.

Í fáum orðum sagt, þetta er einfaldlega ekki hægt.

Virðulegi forseti.

Hvað varðar önnur mál í stefnuskrá og stefnuræðu þessarar ríkisstjórnar þá ber að sjálfsögðu að fagna því að ríkisstjórnin brýtur blað með framlagningu þingsályktunartillögu fyrir Alþingi um aðildar viðræður að ESB án þess að til staðar sé eindregin stuðningur allra stjórnarþingmanna við málið.  Hér er sannarlega verið að færa mál til betri vegar og efla bæði þingræðið og lýðræðið með þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem mun fara fram um samninginn.  Hér eru þrjú skilyrði Borgarahreyfingarinnar fyrir stuðningi öll í anda lýðræðis og upplýsingar og í anda þeirrar sannfæringar okkar að almenningi sé að sjálfsögðu fyllilega treystandi til að leggja mat á hvort ganga eigi í ESB.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokki og Framsókn líkar ekki þessi vinnubrögð og vilja því ekki vinna að framgangi málsins er fyrst og fremst til merkis um þeirra eigið skilningsleysi sem og langvarandi vantrú þeirra á almenningi í landinu. Hér eru hinir einu sönnu forsjárhyggjuflokkar á ferð.

Eins eru hér í skrá um fyrirhuguð þingmál aðrar brýnar lýðræðisumbætur sem við í Borgarahreyfingunni fögnum mjög.  Þó verðum við að setja fyrirvara við frumvarp um stjórnlagaþing sem samkvæmt þessu á að vera ráðgefandi.  Hér er mál þar sem brýnt er að þjóðin sjálf fái að ráða ferðinni og semji sér sína eigin stjórnarkrá.  Borgarahreyfingin á sínar sterkustu rætur í kröfunni um nýja stjórnarskrá sem samin er af fólkinu, og fyrir fólkið en ekki sem samin er af Alþingi og fyrir Alþingi.

Sérstakt fagnaðarefni er þingmál um afnám ábyrgðarmanna fyrir lánum frá LÍN, sem og þingmál um frjálsar handfæraveiðar.  Einnig eru hér nokkur nauðsynleg mál eins og fyrirhuguð frumvörp fjármálaráðherra.

Önnur þingmál á þessari dagskrá sýnast okkur hins vegar mega bíða, ekki síst þar sem við teljum brýnast að takast á við vanda heimilanna, fyrirtækjanna og skuldir ríkissjóðs.  Í þessi verkefni ber að nota vinnutíma sumarþingsins.

Vil ég ítreka það að í þessum þremur verkefnum duga hvorki vettlingatök né hefðbundnar aðferðir heldur verður að grípa til kjörorða Borgarhreyfingarinnar sem eru róttæk skynsemi.

Virðulegi forseti.

Vonir fólks um réttlæti, sanngirni og virðingu mega ekki hverfa.  Þessi ríkisstjórn og þetta þing ber ábyrgð á því.

Við þingmenn Borgarahreyfingarinnar erum ekki mörg en við erum hér í umboði 13.519 manna og kvenna, sum hver er stóðu með okkur hér á Austurvelli mánuðum saman.  Við munum tala máli þeirra hér úr þessum stól.  Ætíð.  Svo einfalt er það.

Við fórum út í október næðinginn og við gerðum byltingu, utandyra í íslenskum vetri.

Nú er komið vor og við erum komin inn á þing.

Hver hefði nokkurn tíma trúað því að þetta væri hægt.

 

---------------------------------------------------------------------


Þinghúsbréf 2

Síðustu tveir dagar hafa verið viðburðarríkir og ánægjulegir.  Gærdagurinn fór allur í e.k. þingmannaskóla þar sem okkur voru kynntar starfsreglur og hefðir þingsins ásamt þeirri þjónustu og starfsaðstöðu sem er til staðar á svæðinu og það kemur á óvart hvað starfsfólk Alþingis skiptir miklu máli fyrir starf þingsins.  Þetta er fólkið sem vinnur bak við tjöldin, oft langt fram á kvöld og undir miklu álagi við að sjá til þess að þinghaldið sjálft gangi snurðulaust fyrir sig.  Við berum sennilega ábyrgð á einhverjum svefnlitlum nóttum fyrr á árinu.  Þetta er hluti Alþingis sem við sem erum nýkomin inn af götunni vissum í raun ekki um nema að litlu leiti en höfum haft ánægjuleg kynni af.  Við Borgarahreyfingarfólkið erum ennþá hálf týnd í öllum þessum reglum og hefðum, skráðum sem óskráðum og fyrir okkur sem höfum enga "mentora" á þingi er starfsfólkið ómetanleg aðstoð.

Það voru gleðifréttir að forneskjulegum reglum um klæðaburð hefur verið breytt og að þingmönnum sé treystandi til þess sjálfum að klæða sig.  Nýju þingmennirnir eru 27, aldrei verið fleiri og greinilegt að ferskir vindar munu blása um þingsalina.  Framsóknarmennirnir bera sig vel fyrir utan fremur hallærisleg viðbrögð við flutningi milli þingherbergja, en svo virðist sem ákveðnir flokkar telji sig hreinlega eiga hluta Alþingis.  Slímsetur við völd fara greinilega ekki vel með fólk.  Sjálfstæðismennirnir eru hins vegar fáleitari nema þeir nýju, hrun þeirra úr valdastólum er mikið og fyrir okkur er það sérstakelga sætur biti að fá skrifstofur brottfallinna þingamanna Sjálfstæðiflokkssins á fimmtu hæðinni í s.k. "Skandalhúsi" við Austurstæti 8-10.

Dagurinn í dag átti að fara í þinghópsfund og svo fund með fulltrúum frá Hagsmunasamtökum heimilana en leystist upp í endalausa símafundi, hlaup og viðræður.  Ríkisstjórnar plaggið frá í gær um Þingsályktunartillöguna var tímabundið trúnaðarmál meðan verið var að ræða við stjórnarandstöðuna um afstöðuna til þess og síminn stoppaði ekki frá fjölmiðlamönnum sem voru að leita að leka.  Þetta var nú ekki beinlínis sú pólitík sem við sóttumst eftir en þar sem einungis var um vinnuplagg að ræða var þetta ekki stórmál.  Sjálfur fór ég á fund Össurar til að ræða innihaldið og afstöðu Borgarahreyfingarinnar til þess og fór vel á með okkur um þetta mál.  Skilyrði okkar eru öll í anda aukins lýðræðis og gegnsæis og ekki annað að merkja en að ríkisstjórnin sé samstíga okkur í þeim efnum.  Allt fjölmiðlafárið í kringum leyndina tók svo enda um leið og Össur hafði lokið viðræðunum og plaggið var birt.

Hagsmunasamtök heimilana komu máli sínu vel til skila og það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hversu vönduð vinnubrögð þau sýna og hve málefnalegur og æsingalaus þeirra málflutningur er.  Niðurstaðan er kannski sú sem við höfðum grun um, þ.e. að "aðgerðir" ríkisstjórnarinnar munu ekki gagnast skuldsettum heimilum landins nema að mjög litlu leiti.  Niðurstaða okkar var að við vorum í raun furðu lostin að ríkisstjórninni, eða yfir höfuð nokkrum, skyldi detta þetta allt saman í hug, því ekki er mikið gagn af því.  Ef eitthvað er þá erum við enn sannfærðari en áður að það verður að koma til almenn niðurfærsla á höfuðstól húsnæðisskulda.

Hluti dagsins fór svo í að skipuleggja hvaða nefndir við ættum að leggja áherslu á að komast í með hliðsjón af stefnuskránni.  Fastanefndirnar eru tólf og við ekki nema fjögur þannig að eitthvað gengur víst af.  Við höfum verið í viðræðum við stjórnarflokkana um nefndarkosninguna sem fór illa í Illuga, en hvorki hann né Sigmundur höfðu samband við okkur hvort eð er þannig að við reiknuðum ekki með neinum áhuga þeim megin.

Morgundagurinn verður svo áhugaverður, sparidagur með prjáli, húrrahrópum og fínimennum, dregið um sæti og kosning í nefndirnar.


Tafl dauðans

Því mun ekki verða tekið þegjandi og hljóðalaust á þinginu ef Útlendingastofnun og Dómsmálaráðuneytið gefa þessum manni ekki vonina á ný, sérstaklega þegar haft er í huga að í glænýjum stjórnarsáttmála er klausa um að lög um hælisleitendur verði endurskoðuð.

Það er svo spurning, eða í raun ekki spurning, um að endurskoða lögin um Útlendingastofnun.


mbl.is Ætla allir í hungurverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tannheilsa barna

Þetta er enn eitt dæmið um það að markaðsaðferðir gagnast ekki þegar kemur að heilbrigðismálum.  Þessi mál eru einfaldlega þess eðlis að venjuleg líkön hagfræðinnar ná ekki utan um þau nema að mjög takmörkuðu leiti og alls ekki þegar kemur að einhverjum raunhæfum lausnum.

Gott dæmi um það öngstræti sem þessi blessaða fræðigrein mín í er komin er í nýjasta tölublaði Læknablaðsins þar sem er ritstjórnargrein eftir "heilsuhagfræðing" við Háskóla Íslands.  Sú grein er nánast óskiljanlegt þvaður og alveg ótrúlegt af virtu riti eins og Læknablaðinu að birta slíkt, nema um einhvers konar síðbúið apríl gabb sé að ræða.  Ótrúleg lesning sem ritstjórar Læknablaðsins ættu nú að svara fyrir.

 


mbl.is Sofna ekki án verkjalyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband