Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Meira um ICESAVE

Rakst á þrjú mikilvæg innlegg á netinu um ICESAVE málið sem mér finnst rétt benda gestum á.  Bendi einnig á blogg Baldvins Jónssonar félaga okkar í Borgarhreyfingunni.

 http://hnakkus.blogspot.com/2009/06/af-gungum-og-druslum.html

http://besserwiss.com/blogg/r%c3%a6%c3%b0a-a-austurvelli-20-juni-2009/

http://www.visir.is/article/20090620/SKODANIR/228195908

http://baldvinj.blog.is/blog/baldvinj/

Fundurinn á Austurvelli í gær var frábær og með samstilltu átaki munu Íslendingar vonandi ná að stöðva þá óhæfu sem fellst í því að velta hundruða milljarða króna skuld útrásarvíkinga og einkavina Sjálfstæðisflokksins yfir á saklausan almenning.


Þinghúsbréf 14

Dagurinn í gær hófst hjá okkur með fyrirspurn Birgittu til forsætisráðherra um ICESAVE en eins og vitað er hefur hvílt leynd yfir þessum samningi og stóð ekki til að birta hann.  Honum var hins vegar lekið, sennilega af Hollendingunum sem blöskraði hvernig íslenkt lýðræði virkar og þegar það var skeð gátu stjórnvöld ekki falið hann lengur.  Hins vegar er allt óljóst með hvaða eignir það eru sem standa að baki samningnum og Birgitta gerði tilraun til að fá upplýsingar frá forsætisráðherra í gær hvenær þær yrðu birtar.  Sjá hér:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090618T135247&horfa=1

Skipulag þinhaldsins var svo í tómu tjóni það sem eftir var dagsins, fundir voru boðaðir og afboðaðir og loks varð ljóst að við fengjum kynningu á ICESAVE samningnum kl. 16:30.  Við vorum svo heppin að hafa aðgang að Elviru Mendez Pinedo, sérfræðings í Evrópurétti og dósents við HÍ, sem einnig mætti á fundinn og fór ítarlega yfir samninginn með fulltrúa forsætisráðuneytisins sem hafði verið í samninganefndinni.  Ef eitthvað, þá staðfesti þessi fundur grunsemdir okkar að þessi samningur væri ekki endilega það sem stjórnvöld halda fram og var sérstaklega athyglisvert að samninganefndarmaðurinn sjálfur hafði ekki séð eignasafnið sem á að ganga upp í skuldirnar og sem er eitt aðal atriðið í málinu.

Hvað um það, málið var tekið fyrir "utan dagskrár" á þinginu og var oft hiti í umræðunum.  Fyrir Borgarahreyfinguna tölum við Margrét þar sem ég skammaði þingmenn allnokkuð.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090618T183023&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090618T185213&horfa=1

Fyrir skammirnar fékk ég svo smá tiltal frá forseta, eða hæstvirtum forseta eins og það heitir formlega. 

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090618T185631&horfa=1

Síðar um kvöldið fór fram umræða um Kjararáð, Endurskipulagningu þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja þar sem stofnað verður s.k. eignaumsýslufélag til þess að sjá um öll þau fyrirtæki sem hafnað hafa í höndum ríkisins vegna hrunsins.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090618T213332&horfa=1

Svo var umræða um hvali og loks heilbrigðisstarfsmenn.  Og svo fóru menn heim, Klukkan 23:45.

Dagurinn í dag hófst með umræðu um störf þingsins þar sem ég kvartaði undan vinnulaginu þar sem nefndarfundir eru oft skipulagðir þannig að þingmenn eiga að vera á tveim og jafnvel þrem fundum í einu.  Þingmenn virðast halda að það sé eitthvert náttúrulögmál hvernig þingið starfar og virðast ekki ráða við að lagfæra þetta.  Ég leyfði mér að benda á að landsmenn mættu víst vera þakklátir fyrir að Alþingi framleiddi þó bara lög en ekki pylsur.  Forseti þingsins hefur þó safnað saman vinnuhópi til að skipuleggja starfið betur þannig að vonandi verður bót á:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090619T104409&horfa=1

Síðar um daginn flutti svo fjármálaráðherra frumvarp sitt um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er niðurskurðar- og skattahækkana frumvarpið svo kallaða.  Þetta frumvarp er birtingarmynd afleiðinga hrunsins og bankasvindlsins og aðgerðirnar eru beinlínis tengdar hruninu og koma til að hluta vegna aukinna skulda ríkissjóðs, m.a. 320 millarða taps Seðlabankans, og minnkandi tekna.  Mikið var tekist á um málið og við ákváðum að taka ekki þátt í að þrátta um málið lið fyrir lið heldur setja það í stóra samhengið sem það raunverulega á heima í.  Hér eru innlegg okkar Birgittu og einnig Lilju Mósesdóttir en hún flytur einatt einna skynsömustu innleggin stjórnarmegin frá.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090619T124208&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090619T182357&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090619T173706&horfa=1

Fyrir liggur að frumvarpið okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur er komið á dagskrá næsta mánudags.  Þar sem ég sjálfur er á leið til útlanda vegna vinnunnar sem ég var í þegar ég var kosinn á þing og þarf að klára, mun Birgitta flytja málið í fyrstu umræðu.  Í minn stað kemur svo varamaður minn Valgeir Skagfjörð sem var í öðru sæti í Suð-vestur kjördæmi.  Hann tekur við á mánudag og þar sem reglan er að varamenn þurfi að koma inn í a.m.k. í tvær vikur mun ég verða fjarverandi (launalaust) til mánudagsins 6. júlí.  Ég mun þó að sjálfsögðu blogga og segja einhverjar þingfréttir á meðan.

 


Fyrsta frumvarp Borgarahreyfingarinnar

Eina ljósið í ICESAVE myrkrinu á þinginu í dag var að fyrsta frumvarp Borgarahreyfingarinnar var tekið inn í þingið og "útbýtt" sem kallað er og verður vonandi tekið bráðum til fyrstu umræðu.  Frumvarpið, þingskjal 149, mál 117, er um eitt af grundvallar stefnumálum okkar sem eru auknar þjóðaratkvæðagreiðslur og þó textinn virðist allur útbíaður í alls lags lögfræðipári þá er frumvarpið flott og stenst önnur lög og stjórnarskrá.

Sjá hér: http://www.althingi.is/altext/137/s/0149.html

Dagurinn er annars orðinn of langur fyrir meira blogg en læt samt fylgja með skammir mínar út af ICESAVE samningnum sem var ræddur í dag.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090618T185213&horfa=1

Við erum að vinna eins og við getum til að fá stjórnvöld til að skipta um skoðun og bæði Birgitta og Margrét tjáðu sig líka um málið í dag, en meira um það á morgun.


Þinghúsbréf 13, ICESAVE samningurinn

Þetta er þriðja færsla dagsins, enda þjóðhátíðardagur og vel til þess fallin að hvetja fólk til umhugsunar um framtíðina.  Eitt sem vakir yfir okkur á hverjum degi er hin beitta öxi ICESAVE samningsins sem enn sem komið er lýtur út fyrir að vera mesta klúður Íslands á alþjóðavettvangi, ef undanskilið er þegar okkur var att á foraðið af Bandaríkjamönnum á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna út af stofnun Ísralesríkis.

Hvað um það, samninganefndin var ekki skipuð þeim sérfræðingum sem til þurfti og fékk ekki tilhlýðilega ráðgjöf frá erlendum sérfræðingum heldur.  "Markmiðið var...", eins og einn íslensku samningamanna sagði, "...að ljúka þessu andskotans ICESAVE máli því fyrr myndi ESB aldrei samþykkja aðildarviðræður".  "Að auki var AGS með augun á málinu sem opnun fyrir afgreiðslu á láninu til Íslands".  Þessu tvennu hefur ríkisstjórnin svo neitað.  Enn hafa engin gögn um málið fengist og er nú að verða hálfur mánuður frá undirskriftinni.  Að sögn forsætis- og fjármálaráðherra þarf að fá samþykki Hollendinga og Breta til að mega birta samninginn.  Hvers vegna skyldi það vera.  Haldið ykkur nú fast.

Tvö okkar úr Borgarahreyfingunni (Birgitta og ég) áttum fund í gær með einum samninganefndarmanna Hollendinga í áðurnefndum viðræðum.  Það var ekki alveg á hreinu okkar megin hvers vegna viðkomandi vildi hitta okkur eingöngu en ekki hina flokkana, en hvað um það.  Í samtalinu kom fram að það hefur aldrei verið sett fram skilyrði af hálfu Hollendinga og Breta að ekki mætti birta samninginn.  "Á nú að fara að kenna okkur um það líka, sagði viðkomandi."  Það kom líka skýrt fram að hvorki samninganefnd Hollendinga né Breta vissi hverjar eignirnar væru sem kæmu á móti og viðkomandi efaðist stórlega um að íslenska samninganefndin vissi það heldur.  Gestur okkar sagðist heldur ekki nokkurn tíma hafa heyrt af matinu frá "virtu Bresku matsfyrirtæki" sem hefði lagt mat á eignirnar en sagði hins vegar að það hefði verið AGS sem fékk matið afhent og mat þær "í góðu lagi", eins og hún kallaði það.  Hins vegar kom ekki til greina að Hollendingar og Bretar tækju þessar eignir upp í skuldirnar.  Við vorum hvött til þess að samþykkja "þennan ágæta samning" því "annars myndi Ísland einangrast á alþjóðavettvangi og ekki fá lán neinsstaðar".  Þegar við hins vegar spurðum gest vorn hvort hún, ef hún væri sjálfur þingmaður á Hollenska þinginu myndi samþykkja samning sem skuldbatt þjóðina fyrir upphæð sem næmi um 60% landsframleiðslu Hollands án þess að fá að sjá samninginn, forsendur hans og fylgiskjöl, var svarið "Nei, að sjálfsögðu ekki".

Þetta með einangrunina á alþjóðavettvangi er enn ein Grýlan sem Samfó er að vekja upp.  Staðreyndin er hins vegar sú að þær þjóðir, s.s. Argentína, er hafa þurft að lýsa yfir greiðslufalli (e. sovereign default) hafa fengið yfir sig bunu slíkra hótana og ekki fengið aðgang að fjármálamörkuðum í tvö til þrjú ár nema á afarkjörum. Að þeim tíma loknum hefur allt verið gleymt og fellur í ljúfa löð (kapítalistar þurfa nefnilega alltaf að lána peninga og ríkisvald er yfirleitt tryggasti lántakinn).  Staða Íslands er hins vegar hvort eð er nákæmlega þessi í dag, aðgangur að fjármálamörkuðum er lokaður og verður það í a.m.k. næstu tvö til þrjú árin nema á afarkjörum, nema þá að Ísland stígi fram með trúverðuga efnahagsstefnu og viðurkenni strax að það þarf að semja við nágrannaþjóðir um aðstoð og skuldaniðurfellingu, í stað þess að skrifa þegjandi og hljóðalaust undir óviðráðanalegar skuldaviðurkenningar sem þeir hafa ekki einu sinni fengið að sjá.  Rétt áðan í kvöldfréttum RÚV var svo Þórólfur Matthíasson hagfræðingur Samfylkingarinnar að básúna línuna frá sínum flokki í nafni Háskóla Íslands, án þess að vita forsendur samningsins, mikill fræðimaður þar.  Á Stöð 2 var svo sjálf forsætisráðherra með ömurlegan hræðsluáróður um yfirvofandi einangrun af hálfu allra Evrópuríkja ef við samþykktum ekki ICESAVE.  Það eru greinilega engin takmörk lengur fyrir hversu langt Samfylkingin er tilbúin að ganga í ESB vegferð sinni.  1984 Orwells er nú fyrirmynd Samfylkingarinnar þegar kemur að sannleikanum.  Til hamingju. 

Ríkisstjórnin okkar virðist því miður ganga fram með ósannindi og óheilindi í þessu máli  og leynimakkið og vinnubrögðin eru beint framhald af þeim hugsunarhætti sem einkenndi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í aðdraganda hrunsins, þ.e. að blekkja þingið og þjóðina og reyna að blekkja umheiminn.  Þá voru Steingrímur J. og Vinstri Græn í raun þau einu sem voru með hreinan skjöld og stóðu vaktina fyrir almenning allan tímann.  Nú hafa völdin hins vegar náð heljartökum á blessuðu fólkinu (þó ekki alveg öllum) sem nú slafrar úldið mjöl úr lófa IMF með lúpulegu og flóttalegu augnaráði.  Um Samfylkinguna þarf ekki að fjölyrða, aðild að ESB skal ganga framar öllu, þar með almannahag, þar með þjóðarhag.  Þar á bæ eru meira að segja farnar að heyrast raddir í fyrirlitningartón um Evu Joly, "æ.. má hún nokkuð vera að þessu, er hún ekki bara að fara á Evrópuþingið og vill bara hætta".

Þannig endar þetta kannski bara.  Í einhverju allsherjar óheilinda og ósanninda kjaftaþvaðri Alþingismanna hvers flokkshollusta og valdaþörf var svo sterk að allt annað mátti víkja.

Nei takk, ekki meðan ég er á vaktinni.

Lifi byltingin, lifi Ísland.


Þinghúsbréf 12, dagskrá þingsins

Eins og ég sagði í síðasta bréfi þá virðist mér Alþingi stefna hraðbyri með íslenskt samfélag inn í slíkt öngstræti að ekki verði komist aftur út.  Ríkisstjórnin virðist ekki valda vandanum vegna þess að hún virðist ekki skilja umfang eða eðli hans og með það embættismennakerfi til stuðnings sem beinlínis bjó til þennan vanda, mun ríkisstjórnin aldrei fá nauðsynlegar né raunhæfar ráðleggingar þaðan.

Skipulag starfa á þessu sumarþingi snýst um eitthvað allt annað en að taka á þeim vanda sem íslendingar standa frammi fyrir og það fáa sem gert er einfaldlega eykur þann vanda frekar en hitt.  Hækkunin á bensín- og ólíugjaldinu hækkað skuldir heimilana um 8 milljarða á einu bretti.  Samningurinn um ICESAVE mun að öllum líkindum hækka skuldir íslendinga um a.m.k. 700 milljarða.  Frekari skattahækkanir eru boðaðar sem munu enn frekar þrengja að almenningi og þó fyrirhugaðar hækkanir séu á atriðum eins og hátekjum, sykri o.fl. sem er ekki svo al-slæmt er hækkunin á tryggingargjaldinu til fallin að dýrara verður fyrir fyrirtækin að ráða fólk í vinnu.  Tryggingargjaldinu er ætlað að standa undir Atvinnuleysistryggingarsjóði en í þessu árferði mikils atvinnuleysis vinnur hækkun tryggingargjaldsins gegn markmiðinu um aukna atvinnu.  Nú er beðið og beðið og beðið  eftir ESB málinu og ICESAVE en þangað til þá skemmtir ríkisstjórnin sér við að ræða dagskrá sem skiptir á þessum tíma frekar litlu máli. Sjá hér dagskrána í gær þriðjudaginn 16. júní:

Dagskrá

Alþingis þriðjudaginn 16. júní 2009

kl. 1.30 miðdegis.

---------

Icesave -- einkavæðing bankanna -- Evrópusambandsaðild -- fundir menntamálanefndar (störf þingsins).

    • Til umhverfisráðherra:
  1. Íslenska undanþáguákvæðið, fsp. VigH, 41. mál, þskj. 41.
    • Til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
  2. Undirbúningur að innköllun veiðiheimilda, fsp. RM, 6. mál, þskj. 6.
  3. Hvalveiðar, fsp. GBS, 64. mál, þskj. 72.
  4. Efling þorskeldis, fsp. GBS, 65. mál, þskj. 73.
    • Til samgönguráðherra:
  5. Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, fsp. GBS, 66. mál, þskj. 74.
  6. Verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60, fsp. ÓÞ, 68. mál, þskj. 79.
  7. Malarvegurinn fyrir Melrakkasléttu, fsp. SER, 76. mál, þskj. 88.
  8. Björgunarbúningar og öryggisfræðsla sjómanna, fsp. ÁsbÓ, 84. mál, þskj. 96.
    • Til menntamálaráðherra:
  9. Háskólasetur á Ísafirði, fsp. GBS, 63. mál, þskj. 71.
  10. Miðstýring háskólanáms, fsp. SER, 72. mál, þskj. 84.
  11. Diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun, fsp. SER, 74. mál, þskj. 86.
    • Til iðnaðarráðherra:
  12. Breytingar á raforkulögum, fsp. SER, 75. mál, þskj. 87.
    • Til dómsmálaráðherra:
  13. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, fsp. SF, 77. mál, þskj. 89.
    • Til heilbrigðisráðherra:
  14. Staðgöngumæðrun, fsp. REÁ, 86. mál, þskj. 98.

Liðir utan dagskrár (B-mál):

  1. Tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.
  2. Tilkynning.
  3. Nýting orkulinda og uppbygging stóriðju (umræður utan dagskrár).
  4. Fundur í menntamálanefnd -- viðvera forsætisráðherra (um fundarstjórn).
  5. Fundarstjórn (um fundarstjórn).
  6. Um fundarstjórn (um fundarstjórn).
  7. Um fundarstjórn (um fundarstjórn).
  8. Um fundarstjórn (um fundarstjórn).

Að vísu var umræðan um nýtingu orkulinda og uppbyggingu stóriðju merkileg frá því sjónarmiði að hér var um enn eitt leikrit sjálfstæðismanna að ræða þar sem þeir þykjast bera hag landsmanna fyrir brjósti með digurbarkalegum staðhæfingum um nýtingu auðlinda og þúsundum nýrra starfa.  Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki til næg orka fyrir Helguvík og þaðan af síðu fyrir Bakka en á meðan og vegna samninga sem gerðir hafa verið er ekki hægt að nota orkuna í eitthvað annað enn uppbyggilegra.  Gleymum því ekki að afraksturinn af Kárahnjúkavirkjun, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar er um 630 störf á Reyðarfirði, með afleiddum störfum, það er allt og sumt.  Hvert starf í álverinu kostaði 230 milljónir að búa til og á Egilsstöðum eru til sölu 145 íbúðir og hús og á Reyðarfirði eru 111 eignir til sölu þegar þetta er skrifað.

Álversæðinu verður að linna og það er algerlega ábyrgðarlaust af þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem og sveitarstjórnarmönnum heima í héraði að halda ál-æðinu áfram.  Það er einfaldlega afar ólíklegt að af byggingu nýrra álvera verði og því ber ábyrgum stjórnmálamönnum að hætta þessu leikriti og koma með aðrar raunhæfar lausnir.


Þinghúsbréf 11, blessuð þingmálin

Dagskráin í þinginu það sem af er vikunni hefur verið furðuleg svo ekki sé meira sagt miðað við það ástand og horfur sem Íslendingar standa frammi fyrir í efnahags- og atvinnumálum.  Sofandi að feigðarósi  er nafn á nýrri bók um aðdraganda hrunsins og virðist sá titill einnig ætla að verða að eftirmála íslensks samfélags ef Alþingi fær að ráða.

 Dagskrá mánudagsins samanstóð af tveimur málum að afloknum s.k. óundibúnum fyrirspurnartíma. 

  1. Stjórn fiskveiða, stjfrv., 34. mál, þskj. 34, nál. 107 og 117, brtt. 108. --- 2. umr.
  2. Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum, stjfrv., 35. mál, þskj. 35, nál. 110 og 116. --- 2. umr.

Fyrra málið snýr að s.k. frjálsum handfæraveiðum (strandveiðum) og er í sjálfu sér mjög mikilvægt og skiptir talsverðu máli fyrir atvinnumál á landsbyggðinni. Í þessu máli eins og því sem hér á eftir kemur er þó aðeins verið að klóra í yfirborðið á málaflokki sem þarfnast gagngerrrar endurskoðunar og svona smá-krukk í mál á tíma sem þessum eru óskiljanleg í því efnahagsástandi sem hér ríkir.

Seinna málið er eitt af þessum landbúnaðarmálum sem engin skilur nema þeir sem eru rækilega innvígðir í geirann.  Nú er það svo að íslenskur landbúnaður er að mínu mati einhver mikilvægasta atvinnugrein landsins að frátöldum verksmiðjubúskapnum sem notaður er við kjúklinga- svínakjöts- og eggjaframleiðslu.  Hins vegar fallast mér hendur í hvert skipti sem ég reyni að kynna mér löggjöfina þ.a.l.  Íslenskur landbúnaður er að því er virðist bundin á slíkan klafa laga og reglugerðarverks að við liggur köfnun og miðstýringarvaldið er algert hvort sem um er að ræða úr ráðuneytinu eða frá kaupendum frumframleiðslunnar, þ.e. sláturhúsunum.

Hvers vegna mega bændur ekki framleiða það magn sem þeim sýnist að teknu tilliti til beitarþols landsins og svo slátra og fullvinna vöruna heima í héraði í sínum eigin sláturhúsum.  Ef dæmi er tekið af suð-austurlandi þá var t.d. sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri einfaldlega lokað fyrir nokkrum árum og slátrunin flutt langan veg til mikilla hörmunga fyrir dýrin.  Hvers vegna er ekki hægt að kaupa Skaftfellskt lambakjöt, alið á Skaftfellskum heiðum og unnið og frágengið í Skaftfellsku sláturhúsi og kjötvinnslu af Skaftfellingum.  Nei, heldur skal allt heila klabbið sett undir sama miðstýrða hattinn í sama grisjupokanum í sama sláturhúsinu.  Þetta kerfi er vont fyrri neytendur og vont fyrir bændur og er ein megin ástæðan fyrir því að stór hluti landsmanna krefst innfluttrra landbúnaðarvara.  Það stendur að mínu mati upp á bændur sjálfa að snúa sig út úr þessum köngulóarvef miðstýringar og ég er ekki í neinum vafa um það að þegar verður farið að bjóða upp á innfluttar landbúnaðarvörur þá munu íslendingar ekki hika við að velja sér "Skaftfellskt", Vestfirskt", "Skagfirskt", "Þingeyskt" lamba- nauta- svína- og kjúklingakjöt frekar en Írskt, Danskt, Ný-Sjálenskt eða hvað það nú er, svo fremi sem skilið er á milli í kjötborðinu og gæðin séu góð.

Það hins vegar gefur auga leið að ef íslenskur landbúnaður ætlar að reyna að keppa við innflutning með miðstýrðri grisju- og plastpoka- fjöldaframleiðslu þá er leikurinn tapaður frá upphafi.  Það stendur hins vegar upp á bændur og samtök þeirra að hafa frumkvæðið hér í stað þess að smíða þér sífellt þéttara og dýrara laga og reglugerðaverk og þannig munu þeir einnig fá þorra almennings í lið með sér.  Þetta sama á svo að sjálfsögðu við um garðyrkjubændur.

Hér er svo einnig mikilvægt að þessi atvinnugrein fái aðgang að orku á sem hagkvæmasta verði en þeir verði ekki, eins og almenningur, notaðir til að niðurgreiða orkuverð til stóriðju.  Einnig þurfa skipulagsyfirvöld að tryggja að bújarðir verði notaðar til búskapar en ekki til dundurs fyrri vellauðuga kaupsýslumenn. 

Áfram íslenskir bændur.


Þinghúsbréf 10

Dagurinn hófst með þingfundi og s.k. óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra.  Ég var með eina til utanríkisráðherra um skipan samninganefndar í ESB aðildarviðræðum þar sem að sporin hræða ef maður hugsar til síðustu samninganefndar Íslands á alþjóðavetttvangi sem gerði ICESAVE samninginn.  Þennan dag var nokkuð um áhugaverðar fyrirspurnir og greinargóð svör m.a. skorinort svar forsætisráðherra við fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um Evu Joly en þar sagði forsætisráðherra nánast að Eva Joly fengi hvað sem hún vildi. Hér er fyrirspurn mín og svar Össurar:

 http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090611T105430&horfa=1

og hér er fyrirspurn SVÓ og svar forsætisráðherra:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090611T104339&horfa=1

Að þessu loknu tók við s.k. umræða utan dagskrár sem er fyrirbæri sem stendur í hálftíma en þar fá þingmenn tækifæri til að fá fram umræðu um mál er þeim finnst mikilvæg.  Að þessu sinni voru það Sjálfstæðismenn sem óskuðu eftir umræðu um atvinnumál og að sjálfsögðu voru álverin aðalmálið. Við töluðum hins vegar fyrir öðrum lausnum og lausnum sem gerðu gagn strax fekar en að bíða í einhver ár eftir álveri.  Hér er innlegg okkar:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090611T111648&horfa=1

og hér

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090611T112852&horfa=1

eftir hádegið fengum við símtal frá Bandaríska sendiráðinu sem var með sendinefnd frá s.k. Government Accountability Office sem er n.k. rannsóknar skrifstofa Bandaríkjaþings.  Sendinefndin var send til Íslands og fleiri landa að beiðni Barney Frank öldungardeildarþingmanns til að rannsaka hvernig áætlanir AGS væru og hvernig þær færu í landsmenn.  Bandaríska sendiráðið taldi Borgarahreyfinguna besta talsmann almennings í landinu og var ánægjulegt að heyra það, til hamingju félagar.

Ég átti um hálfs annars tíma fund með þeim og voru þeir mjög áhugasamir um það sem við höfðum fram að færa varðandi AGS, ICESAVE og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.  Þeir voru einnig áhugasamir um stefnu og tilurð Borgarahreyfingarinnar og skrifuðu skilmerkilega niður nánast allt sem ég sagði.  Í haust fáum við svo afrit af skýrlsu þessarar sendinefndar og verður áhugavert að sjá hvað hún leggur til. 

Brá mér nokkrum sinnum út í góða veðrið til að heilsa upp á mómælendurna á Austurvellinum.  Það er greinilega mikill baráttuandi í fólki þó ekki væru mjög margir og stemningin var góð.  Það var eftirtektarvert að af um þrjátíu þúsund nemum í framhalds- og háskólum landsins mættu um 15 til 20 til þáttöku í skipulögðum mótmælum stúdenta.  Ekki veit ég af hverju þetta er, en stúdentar virðast bara almennt ekki hafa nokkurn áhuga á heiminum í kringum sig (sem er kannski alveg eins gott) sem ber saman við upplifun okkar úr háskólunum í kosningabaráttunni.  Hugsjónir, réttlætiskennd, sannfæring, sjálfstraust, hvert fór það?  Ég veit það ekki, kannski bara á Dóminós og Skjá Einn.


Þinghúsbréf 9, fyrsta frumvarpið

Þetta var dagurinn sem Borgarahreyfingin lagði í fyrsta sinn hönd á plóginn í framlagningu frumvarps á Alþingi.  Til hamingju félagar.

Hér er um að ræða frumvarp Lilju Mósesdóttur úr VG og fleiri, þ.á.m. Borgarahreyfingarinnar, sem tekur á því mikla vandamáli sem verður þegar húsnæði fólks lækkar það mikið í verði að það stendur ekki lengur undir veðkröfunni.  Eins og staðan er í dag þá er hægta að ganga á allar aðrar eignir fólks til fullnustu kröfunnar sem og halda því á vanskilaskrá í allt að fimmtán ár. 

Frumvarp Lilju o.fl. "Frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð nr. 75/1997",  tekur á þessu með þeim hætti að ekki verður hægt að ganga að skuldara fyrir hærri upphæð en samningsveðinu og ekki verður hægt að halda úti kröfum á viðkomandi vegna þess sem ekki innheimtist.  Íbúðaeigendur geta einfaldlega skilað lyklunum til lánveitenda og byrjað upp á nýtt án þess að eiga á hættu að verða hundeltir með tölvurnar sínar og aðra heimilismuni og verða jafnvel útilokaðir frá bankakerfinu í fimmtán ár.

Sérstaklega ánægjulegt var þetta fyrir mig þar sem þessi tíðindi bar upp á afmælið mitt og var kærkomin afmælisgjöf að fá þetta á dagskrá í dag.  Svo er bara að vona að Allsherjarnefnd sem fær málið til meðferðar taki á þessu máli af skilningi.  Hér eru svo umræðurnar um málið:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090609T155134&end=20090609T160954&horfa=1

Að öðru leiti var dagurinn stórfurðulegur vegna sameiginlegs nefndarfundar Efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar í morgun þar sem fulltrúar og forstjóri Fjármálaeftirlitsins neituðu að láta Alþingi í té upplýsingar um verðmat eigna gömlu og nýju bankana sem skiptir gríðarlegu máli þar sem það verður ríkið, þ.e. almenningur, sem mun leggja fram peninga (235 milljarða) til að fjármagna bankana upp á nýtt.  Framkvæmdavaldið ætlaðist einfaldlega til þess að Alþingi legði fram þetta fé án þess að fá upplýsingar um málið og er skólarbókardæmi um háttsemi sem ekki er hægt að líða.  Mér og fleirum fannst þessi fundur leiðast út í tómt rugl og við einfaldlega yfirgáfum fundinn.  Það verður svo nefndarformanna og væntanlega Viðskiptaráðherra að finna leið út úr þessu spaghettíi en þetta var einhver sá al vitlausasti fundur sem ég hef verið á.

 Góðar stundir.

 

 


Þinghúsbréf 8

Fyrsti alvöru ICESAVE dagurinn í þinginu þar sem fjármálaráðherra gaf okkur skýrslu um tilurð og gæði hins s.k. ICESAVE samnings.  ÚFF!!  Umræðan í kjölfarið samanstóð að mestu af gamaldags fjórflokkapólitík þar sem hver kenndi öðrum um og var vitnað í bréf, minnisblöð, greinargerðir og álit hinna og þessara út og suður.  Sigmundur Davíð hjá Framsókn stóð upp úr þeirri umræðu enda ekki hluti af þeirri fortíð sem verið var að karpa um.

Það var einkennileg tilfinning sem greip mig þegar ég heyrði í fólkinu úti á Austurvelli.  Órói greip um sig í þingsalnum, þingmenn hópuðust að gluggunum og þingheimur kipptist við þegar peningum rigndi á rúðurnar.  Hér voru þeir sem raunverulega stóð ekki á sama, sem voru tilbúin að leggja þó ekki væri nema tvo klukkutíma af mörkum.  Þakka ykkur fyrir að mæta, við erum aðeins fjögur á þingi og náum þessu ekki ein.  Hér eru ræðurnar sem ég og Birgitta fluttum í dag, við taktfastann slátt almennings á Austurvelli sem barst inn um glugga einn sem Birgitta opnaði.  Þetta var sko flott undirspil við umræðurnar, takk.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090608T161453&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090608T164518&horfa=1

Það er að mörgu leiti dapurlegt að það skuli vera Vinstri Græn sem lenda í óvinsæla liðinu í dag því sannarlega voru það þau sem börðust einarðlega og ein gegn þessu fjármálabrjálæði sem setti svo á endanum þjóðina á hausinn.  Vonandi gleymist það seint hvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði, byggt á vinnuteikningum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.  Foringjadýrkunin sem þessir flokkar sýndu var svo seinasti naglinn í líkistuna þar sem meintir óskeikulir leiðtogar, Davíð Oddson, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og áður Halldór Ásgrímsson höfðu haft sitt fram með hroka og frekju.  Enn búum við að þessari foringjadýrkun í tilfellum nær heilagrar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og það er í raun pínlegt að heyra suma flokksmenn þeirra mæra leiðtogana sína.  Við hjá Borgarhreyfingunni vorum svo lánsöm á ögurstund í kosningabaráttunni að breyta uppbyggingu stjórnarinnar þannig að formaðurinn sem embætti var lagður af og stjórnin tilnefndi sér einfaldlega talsmenn hverju sinni.  Þetta gerbreytti öllum vinnubrögðum og leiddi til mun skilvirkari og dýnamískari funda þar sem allir voru algerlega jafnir þáttakendur.

ICESAVE samningurinn verður borin undir þingið. Hvenær það verður hefur ekki verið ákveðið enn, en sú atkvæðagreiðsla mun verða meitluð í stein til frambúðar og í hjörtu barna okkar og barna-barna kynslóð fram af kynslóð.  Því miður mun Samfylkingarfólkið sennilega allt greiða atkvæði eins og flokkurinn segir til um og við munum því þurfa að skrá nöfn þeirra í Íslandssöguna.  Vinstri Græn eru hollari hjarta sínu og hafa vonandi kjark til þess að fylgja því.  Ef allir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ásamt okkur greiða atkvæði gegn ICESAVE þá þarf ekki nema þrjá til viðbótar úr Samfó eða VG til að bjarga þjóðinni frá þessum skuldaklafa.  Þrír þingmenn, hvar finnast þeir?

Að þessum degi loknum og þessum gjörningi undirskrifuðum er það orðin bjargföst skoðun mín að þessi ríkisstjórn er ekki vandanum vaxin.  Hún mun ekki ná að leiða Ísland farsællega út úr þeim hremmingum sem við erum í.  Því hljótum við að velta fyrir okkur hvort ekki væri vænlegar að hafa þjóðstjórn eða utanþingsstjórn.  Kosningar eru svo líka valkostur, það þarf virkilega að hreinsa út þar sem líkin í lestinni íþyngja fleyinu um of.  Hmmm... áhugavert, hugsum málið.


ICESAVE

Um 635 milljarðar var upphæðin sem jafnaðarmenn Íslands í Samfylkingunni og Vinstri Grænum bættu við skuldaklafa landsmanna í nótt.

Á miðvikudaginn fékk hæstvirtur Vinstri Grænn Steingrímur J. Sigfússon (SJS) þessa fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090603T133450&end=20090603T133710&horfa=1

Í framhaldinu fékk Mogginn pata af málinu og gerði því skil:

http://www.mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/

Í gær morgun (kl.10:53) fékk hæstvirtur forsætisráðherra þjóðarinnar og Samfylkingarkonan Jóhanna Sigurðardóttir þessa fyrirspurn frá mér:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090605T105258&horfa=1

Lesendur geta svo velt því fyrir sér hvort hér sé verið að segja Alþingi satt því klukkan 11:00 var öllum þingflokkum kynnt sú staða að undirskrift stæði fyrir dyrum og að einhverju leiti hvert innihald þeirra samninga væri, að þetta væri algjört trúnaðarmál og mætti alls ekki ræða utan þessa fundar.  Á sama tíma var forsætisráðherrann sjálf í fréttum að segja frá innihaldi samningsins, sem við áttum að þegja yfir, og lýsti honum fjálglega og á algerlega óábyrgan máta.  Ennþá hefur ekki fengist vitneskja um hverjar þessar eignir eru sem eiga að koma á móti þessum 635 milljörðum nema að um sé að ræða "traust lánasöfn" en það veit hver maður sem eitthvað hefur fylgst með fjármálaástandi heimsins  þessi dægrin að fyrirbæri eins og traust lánasafn er ekki til.  Því er það óábyrgt með öllu af hálfu forsætisráðherra að halda þessu fram og er hér í gangi framhald af blekkingarleik fyrri ríkisstjórnar Samfylkingarinnar sem þá var undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Á þingfundi eftir hádegi var mikið reynt til að fálið málið tekið fyrir þannig að þingið gæti tekið afstöðu til málsins og þjóðin fengið að vita hvað væri að fara að gerast en ríkisstjórnin og sendisveinn hennar, í hlutverki forseta Alþingis valtaði yfir þjóðþingið og sagði NEI.  Slíkar eru leikreglur lýðræðisins á Íslandi þegar valdhöfunum liggur mikið við.  Þingmenn, utan þingamanna Samfylkingar og VG sem sáust ekki nema í mýflugu mynd (kjarkmikið fólk þar) reyndi að fá málið tekið upp og notuðu kvörtunarleið sem heitir "fundarstjórn forseta" en þar getur hver þingmaður lagt fram tillögu í tvisvar sinnum eina mínútu.  Hér er hluti af þeim orðaskiptum sem áttu sér stað af hálfu þingmanna Borgarahreyfingarinnar.  Öll umræðan er svo tengd neðst á síðunni.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T133909&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T140449&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T140627&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T141126&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T142126&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T160226&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090605T161911&horfa=1

Í nokkur skipti meðan á þessu stóð fékk ég meldingar, símtöl og SMS að fólk væri á leiðinni niður á Austurvöll til mótmæla og í nokkur skipti leit ég vongóður út um gluggann, en engin kom.

Á endanum hélt forseti þingsins fund með formönnum þingflokkana og SJS þar sem reynt var til hins ítrasta að fá málið tekið inn í þingið á þeim forsendum að forsetinn væri forseti alls þingsins en ekki bara ríkisstjórnarinnar, eins og hún reyndar hét að vera í upphafi starfsins í haust.  En hún brást og kaus að vera þjónn framkvæmdavaldsins.  Þingið hélt áfram andófi fram eftir degi og á endanum boðaði forseti að fundur væri að hefjast í utanríkismálanenfnd, sleit þingfundi og sendi þingið heim.  Í lok dagsins náðum við BB, SDG og ég svo aðeins í fréttir og Kastljósið:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4467256/2009/06/05/1/

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431400/2009/06/05/0/

Nú heitir valdaparið Jóhanna og Steingrímur í stað Ingibjargar og Geirs en meðulin, aðferðirnar og virðingin fyrir sannleikanum er sú sama.  Að segja landsmönnum blákalt að það sé hið besta mál að ekki þurfi að borga af þessu fyrstu sjö árin án þess að minnast á að á þeim tíma mun skuldin safna sennilega 300 milljörðum til viðbótar í vöxtum er einnig partur af sömu sannleiksást Samfylkingar og VG.

Hér hefur ríkisstjórnin rekið rýting í bak þjóðarinnar og bundið hana á skuldaklafa sem hún sjálf á engan þátt í að búa til.  Á sama tíma er ekki verið að gera neitt til að hafa upp á öllu því fé sem ICESAVE hetjurnar komu undan og Eva Joly hefur ekki einu sinni fengið skrifstofu en þarf að sinna öllum sínum verkum úr hótelherbergi.  Aldrei, aldrei hefði ég trúað þessu upp á Vinstri Græna en svo bregðast víst krosstré, og það algjörlega.  Þörfin fyrir völd er vísast til það mikil að framtíðarkynslóðum heillar þjóðar skal fórnað á því altari SJS og JH.  Aðgöngumiðinn að ESB er kominn í höfn og hann er dýr og hér er víst einnig verið að þjóna AGS hverra lán fást víst ekki heldur nema með þessari skuldbindingu.

Það er spurning hvort nokkur þjóð í veraldarsögunni hafi leikið sjálfa sig eins grátt og sú íslenska en sú barnalega trú að JH væri að einhverju leiti heilög og eingöngu til góðra verka er nú heldur betur orðin dýrkeypt.  Það má þó segja þjóðinni (og mér) til varnar að slík athöfn sem þau hafa framið með þessari skudbindingu var fjarri, órafjarri, öllum hugmyndum mínum um þau.

Hér erum við komin með ríkisstjórn sem hefur valdið þjóð og samfélagi ómældum skaða, skaða sem mun segja til sín næstu áratugi þegar samfélagið Ísland molnar í sundur fyrir framan augu okkar.  Þegar er þegar byrjað að höggva í grunnskólana, svo koma framhalds- og háskólarnir í haust og aldraðir og sjúkir mun deyja í auknum mæli.  Vegakerfið mun drabbast niður og auka slysatíðni, orku- og fjarskiptanetin munu einnig gefa sig og mengun og óþrifnaður mun aukast.

Það sem er þó verst, alverst, er að samfélagssáttmálinn, sáttmálinn sem gerir Íslendingum kleift að búa að mestu í sátt og samlyndi í einhverju friðsamasta ríki heims, mun rofna og hér munu glæpir og önnur óöld stóraukast í kjölfar þeirrar fátæktar sem nú stefnir í.

Til hamingju Samfylkingarfólk og Vinstri Græn.

 

Hér eru svo linkar á alla umræðuna um fundarstjórn þingsins:

 http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090605T133053&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090605T154613&horfa=1


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband