Þinghúsbréf 11, blessuð þingmálin

Dagskráin í þinginu það sem af er vikunni hefur verið furðuleg svo ekki sé meira sagt miðað við það ástand og horfur sem Íslendingar standa frammi fyrir í efnahags- og atvinnumálum.  Sofandi að feigðarósi  er nafn á nýrri bók um aðdraganda hrunsins og virðist sá titill einnig ætla að verða að eftirmála íslensks samfélags ef Alþingi fær að ráða.

 Dagskrá mánudagsins samanstóð af tveimur málum að afloknum s.k. óundibúnum fyrirspurnartíma. 

  1. Stjórn fiskveiða, stjfrv., 34. mál, þskj. 34, nál. 107 og 117, brtt. 108. --- 2. umr.
  2. Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum, stjfrv., 35. mál, þskj. 35, nál. 110 og 116. --- 2. umr.

Fyrra málið snýr að s.k. frjálsum handfæraveiðum (strandveiðum) og er í sjálfu sér mjög mikilvægt og skiptir talsverðu máli fyrir atvinnumál á landsbyggðinni. Í þessu máli eins og því sem hér á eftir kemur er þó aðeins verið að klóra í yfirborðið á málaflokki sem þarfnast gagngerrrar endurskoðunar og svona smá-krukk í mál á tíma sem þessum eru óskiljanleg í því efnahagsástandi sem hér ríkir.

Seinna málið er eitt af þessum landbúnaðarmálum sem engin skilur nema þeir sem eru rækilega innvígðir í geirann.  Nú er það svo að íslenskur landbúnaður er að mínu mati einhver mikilvægasta atvinnugrein landsins að frátöldum verksmiðjubúskapnum sem notaður er við kjúklinga- svínakjöts- og eggjaframleiðslu.  Hins vegar fallast mér hendur í hvert skipti sem ég reyni að kynna mér löggjöfina þ.a.l.  Íslenskur landbúnaður er að því er virðist bundin á slíkan klafa laga og reglugerðarverks að við liggur köfnun og miðstýringarvaldið er algert hvort sem um er að ræða úr ráðuneytinu eða frá kaupendum frumframleiðslunnar, þ.e. sláturhúsunum.

Hvers vegna mega bændur ekki framleiða það magn sem þeim sýnist að teknu tilliti til beitarþols landsins og svo slátra og fullvinna vöruna heima í héraði í sínum eigin sláturhúsum.  Ef dæmi er tekið af suð-austurlandi þá var t.d. sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri einfaldlega lokað fyrir nokkrum árum og slátrunin flutt langan veg til mikilla hörmunga fyrir dýrin.  Hvers vegna er ekki hægt að kaupa Skaftfellskt lambakjöt, alið á Skaftfellskum heiðum og unnið og frágengið í Skaftfellsku sláturhúsi og kjötvinnslu af Skaftfellingum.  Nei, heldur skal allt heila klabbið sett undir sama miðstýrða hattinn í sama grisjupokanum í sama sláturhúsinu.  Þetta kerfi er vont fyrri neytendur og vont fyrir bændur og er ein megin ástæðan fyrir því að stór hluti landsmanna krefst innfluttrra landbúnaðarvara.  Það stendur að mínu mati upp á bændur sjálfa að snúa sig út úr þessum köngulóarvef miðstýringar og ég er ekki í neinum vafa um það að þegar verður farið að bjóða upp á innfluttar landbúnaðarvörur þá munu íslendingar ekki hika við að velja sér "Skaftfellskt", Vestfirskt", "Skagfirskt", "Þingeyskt" lamba- nauta- svína- og kjúklingakjöt frekar en Írskt, Danskt, Ný-Sjálenskt eða hvað það nú er, svo fremi sem skilið er á milli í kjötborðinu og gæðin séu góð.

Það hins vegar gefur auga leið að ef íslenskur landbúnaður ætlar að reyna að keppa við innflutning með miðstýrðri grisju- og plastpoka- fjöldaframleiðslu þá er leikurinn tapaður frá upphafi.  Það stendur hins vegar upp á bændur og samtök þeirra að hafa frumkvæðið hér í stað þess að smíða þér sífellt þéttara og dýrara laga og reglugerðaverk og þannig munu þeir einnig fá þorra almennings í lið með sér.  Þetta sama á svo að sjálfsögðu við um garðyrkjubændur.

Hér er svo einnig mikilvægt að þessi atvinnugrein fái aðgang að orku á sem hagkvæmasta verði en þeir verði ekki, eins og almenningur, notaðir til að niðurgreiða orkuverð til stóriðju.  Einnig þurfa skipulagsyfirvöld að tryggja að bújarðir verði notaðar til búskapar en ekki til dundurs fyrri vellauðuga kaupsýslumenn. 

Áfram íslenskir bændur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ertu að tala um landbúnaðarkerfið sem bændur óttast svo mjög að ESB spilli fyrir þeim?

Sigurður Hrellir, 17.6.2009 kl. 13:46

2 Smámynd: Þór Saari

Hehe. Já Siggi, þótt ótrúlegt megi virðast.

Þór Saari, 17.6.2009 kl. 13:55

3 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Ég var að lesa pistilinn hjá Birgittu og kvitta fyrir hann og þennan hér líka!  Ég er mjög ánægður með ykkur þið opnið smá glugga inn í steinvirkið við Austurvöll og er alveg hjartanlega sammála ykkar skoðunum varðandi icesave málið.

Ánægður með ykkur, takk.

Ólafur Eiríksson, 17.6.2009 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband