Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.4.2009 | 16:18
Talað við kjósendur
Nokkur smá en mikilvæg skilaboð til allra landsmanna.
12.4.2009 | 20:54
Framboð á landsvísu, lifi X-O
Það hafðist þó ekki séu nema sjö vikur liðnar frá stofnun hreyfingarinnar. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing mun bjóða fram í öllum kjördæmum. Ótrúleg eljusemi og dugnaður ásamt kjarkmiklu fólki sem þorði að stíga fram og vera með. Það voru ófá símtölin við væntanlega frambjóðendur sem hættu við vegna ótta við atvinnumissi þar af voru a.m.k. þrír sem vinna í banka. En nógu margir voru til í að fara alla leið. Þakka ykkur fyrir. Þetta er frábær hópur.
Það sem við í Borgarahreyfingunni munum gera er að breyta þessu samfélagi ótta, þöggunar, spillingar og leyndar í heilbrigðara, opnara, heiðarlegra og lýðræðislegra samfélag. Ef við fáum til þess stuðning. Fylgist með og takið þátt, það vantar alltaf sjálfboðaliða. Heiðarlega fólkið sem núverandi stjórnvöld vilja láta borga skuldir auðmanna hefur sagt nei og ætlar að ná fram raunverulegum breytingum. Kynnið ykkur stefnumálin á XO.is. Þjóðin á þing. X-O.
Reykjavík Norður
1. Þráinn Bertelsson, rithöfundur.
2. Katrín S. Baldursdóttir, listakona.
3. Jóhann Kristjánsson, rekstrarhagfræðingur.
4. Anna B. Saari, kennari.
5. Sigurður Hr. Sigurðsson, hljóðmaður.
Reykjavík Suður
1. Birgitta Jónsdóttir, skáld.
2. Baldvin Jónsson, námsmaður.
3. Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur.
4. Hannes I. Guðmundsson, lögfræðingur.
5. Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur.
Suðvestur (Kraginn)
1. Þór Saari, hagfræðingur.
2. Valgeir Skagfjörð, leikari.
3. Ingifríður R. Skúladóttir, vörustjóri.
4. Ragnheiður Fossdal, líffræðingur.
5. Sigríður Hermannsdóttir, líffræðingur.
Norðvestur (NV)
1. Gunnar Sigurðsson, leikstjóri.
2. Lilja Skaftadóttir, framkvæmdastjóri.
3. Guðmundur A. Skúlason, rekstrarfræðingur.
4. Ingibjörg S. Hagalín, húsmóðir.
5. Þeyr Guðmundsson, verkamaður.
Norðaustur (NA)
1. Herbert Sveinbjörnsson, kvikm.g.maður.
2. Björk Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastjóri.
3. Hjálmar Hjálmarsson, leikari.
4. Ragnhildur A. Hjartardóttir, námsmaður.
5. Rakel Sigurgeirsdóttir, kennari.
Suður
1. Margrét Tryggvadóttir, ritstj./rithöfundur.
2. Jón Kr. Arnarson, verkefnastjóri.
3. Hildur Harðardóttir, leiðsögumaður.
4. Ragnar Þór Ingólfsson, verslunarmaður.
5. Þórhildur Rúnarsdóttir, sérfræðingur.
9.4.2009 | 09:23
Skuldir Íslands og íslendinga. Er stjórnvöldum treystandi?
Nýlega fram komnar upplýsingar frá tveimur erlendum hagfræðingum, Michael Hudson og John Perkins benda til þess að íslensk stjórnvöld séu hugsanlega á algerlega rangri leið með þjóðina, leið sem muni hneppa íslendinga í skuldafen um langa framtíð. Báðir halda því hiklaust fram að í slíku skuldafeni munu fyrr eða síðar eignir þjóðarinnar s.s. auðlindirnar, atvinnutækin og stoðkerfi eins og samgöngumannvirki og veitustofnanir, verða seld erlendum fyrirtækjum sem leið út úr vandanum. Þetta segja þeir alþekkt.
Framsaga þeirra beggja í Silfri Egils s.l. sunnudag og á fundum í Háskóla Íslands og á Grand Hóteli á mánudaginn hefur vakið mikla athygli en jafnframt sætt nánast algerri þöggun í stjórnkerfinu og mörgum helstu fréttamiðlunum s.s. RÚV -sjónvarpi og útvarpi og Morgunblaðinu.
Ljóst virðist að Ísland stendur á barmi þjóðargjaldþrots og að skuldir af völdum bankahruns og efnahags óstjórnar eru sennilega meiri en hægt er að ráða við.
Ekki fæst staðfest hversu háar skuldir þjóðarinnar eru, en stjórnvöld halda samt áfram með stöðugar yfirlýsingar um að fær leið sé út úr skuldafeninu með hefðbundum tekjustreymis aðferðum ríkissjóðs, s.s. skattahækkunum og stórfelldum niðurskurði útgjalda.
Kominn er tími til að stjórnvöld geri þjóðinni nákvæmlega grein fyrir hverjar skuldirnar eru, en hegði sér ekki eins og fyrrverandi ríkisstjórn sem hélt mikilvægum upplýsingum um væntanlegt hrun leyndum fyrir þjóðinni.
Hér er á ferðinni mál sem skiptir alla íslendinga gríðarlegu máli, mál sem heggur að grundvallar lífsskilyrðum okkar, barna okkar og jafnvel barna-barna þar sem vegferð stjórnvalda virðist vera sú að skera samfélagsáttmála þjóðarinnar í ræmur sem aldrei verður aftur byggt á.
Bæði Hudson og Perkins hafa bent á að aðferðir AGS, þær sömu og íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, hafa valdið stórkostlegum skaða til áratuga í þeim löndum sem þeim hefur verið beitt. Á hinn bóginn hefur þeim löndum sem hafnað hafi meðulum AGS jafnan vegnað mun betur og þau verið fljótari að rétta úr kútnum eftir áföll.
Hagsmunir almennings hljóta að krefjast þess að samstarfið við AGS verði endurskoðað og að leitað verði annarra leiða út úr skuldafeninu. Gleymum því ekki að það var ekki almenningur sem stofnaði til þessara skulda heldur örfáir fjárglæframenn í samvinnu við vanhæfa ríkisstjórn og stjórnsýslu.
Það er krafa okkar að það verði fjallað ítarlega um þetta mál í fjölmiðlum og á Alþingi.
Við skrifuðum ekki upp á skuldir auðmanna, og við eigum ekki að borga þær.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, 8. apríl 2009.
9.4.2009 | 00:46
Draumaland og martröð
Varð þess heiðurs aðnjótandi að fá boð á sýningu á Draumalandinu, kvikmyndinni sem gerð hefur verið eftir hinni stórgóðu bók Andra Snæs Magnasonar.
Skemmst er frá að segja að áhrifameiri mynd hef ég varla séð. Þetta var í raun eins og að horfa á jarðaför í tvo tíma. Annars vegar jarðaför lands þar sem ómetanlegt dýralíf og náttúra varð græðgi mannanna að bráð og hins vegar jarðaför þjóðar sem brjálaðist í firrtum eltingaleik við einfeldningslegar lausnir á vanda sem var í raun aldrei til.
Að sjá ráðamenn þjóðarinnar og embættismenn ganga fram með þessum hætti, oftar en ekki með samanbitnar varir, var sorglegt svo ekki sé meira sagt. Enn dapurlegra var að sjá suma þeirra og þá sérstaklega fyrrum bæjarstjóra Fjarðarbyggðar smell passa inn í hlutverkið samið af útsendara stórfyrirtækisins (economic hit man). Þessi þrautreynda aðferða að leggjast á og blekkja og múta embættismönnum brást auðhringnum sannarlega ekki á Austfjörðum, ekki frekar en fyrri daginn. Perlurnar sem frumbyggjar Ameríku voru blekktir með hér áður fyrr heita nú íþróttahallir en tilgangurinn og aðferðin er sú sama. Og svo eiga íslendingar að heita menntuð þjóð, iss!
Nú, eftir allt ævintýrið eru til sölu 159 eignir á Egilsstöðum, þ.a. 145 íbúðir/íbúðahús og á Reyðarfirði er talan 122 eignir þ.a.110 íbúðir/íbúðahús. Og enn er kallað á meira af því sama. Verði ykkur að góðu.
Þið sem hafið framið þetta hryðjuverk gegn landinu og gegn náttúrunni, við munum halda nöfnum ykkar allra á lofti, um aldur og ævi.
7.4.2009 | 11:13
Hvalveiðar í sátt
Hvernig væri nú að sjávarútvegsráðherra SJS sýndi smá hugmyndaflug og byði hvalveiðileyfin til sölu á E-Bay. Þannig fengist hagkvæmasta niðurstaða sem væri einnig gegnsæ og fyllsta jafnræðis væri gætt.
Kristján Loftsson gæti keypt leyfi og drepið hvali, náttúrverndarsinnar gætu keypt leyfi og verndað hvali. Allir sætu við sama borð og arðurinn af auðlindinni rynni til allrar þjóðarinnar.
Lifi hagfræðin!
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, boðar róttæka skynsemi, XO.is
Leggja til veiðigjald fyrir hvalveiðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2009 | 20:48
Rannsókn bankahrunsins
Það er algert grundvallaratriði að bankahrunið verði rannsakað ofan í kjölin undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga. Það er ekki nóg að Eva Joly aðstoði við rannsóknina, hún þarf að stjórna henni.
ICESAVE reikningarnir, Kaupthing Edge reikningarnir og lántökur bankanna í Seðlabankanum bera greinilega keim af stórfelldu fjársvikamáli. Það má vel reikna með að starfsemi fjármálafyrirtækjanna allavega tvö síðust árin fyrir hrunið hafi verið drifin áfram sem svikamylla en ekki sem eðlileg bankastarfsemi.
Það þarf að rannaska hvað varð um alla fjármunina sem voru lagðir inn á þessa reikninga og hvað varð um lánin sem fengin voru í Seðlabankanum, Það þarf að sækja þessa fjármuni og skila þeim til réttmætra eigenda og svo þarf að gera eigendur og stjórnendur bankanna persónulega ábyrga fyrir því sem upp á vantar. Að því loknu þarf að semja um það sem útaf stendur m.t.t. neyðarástands og reyna að fá þær skuldir felldar niður.
Þessi nálgun er auk þess nauðsynleg ef Ísland og íslendingar ætla sér einhvern tímann að endurheimta orðspor sitt á alþjóðavettvangi og verða aftur þjóð meðal þjóða í Evrópu, en ekki það afskrifaða og ótrúverðuga vandræðaríki sem það er í dag.
Ef þetta verður ekki gert verður öllum þessum kostnaði velt yfir á almenning í landinu og það er skuld sem við stöndum ekki undir, ekki sem einstaklingar og ekki sem þjóð, nema að skera hér niður samfélagssáttmálann í ræmur sem sennilega verður aldrei hægt að byggja á aftur. Börn okkar og barnabörn munu ekki fá viðeigandi menntun eða heilbrigðisþjónustu, stoðkerfi samfélagsins munu smátt og smátt skemmast og Ísland verður enn eitt "vandræðahagkerfið" á pari við önnur þróunarríki.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, er eina stjórnmálaaflið sem tekur stöðu með almenningi í þessu máli. Merkið því X við O í komandi kosningum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.4.2009 | 22:46
Kosningasjónvarpið
Flestir sem ég hef hitt eru sammála um að kosningasjónvarpið í gær hafi verið frekar slappt og dapurlegt að sjá hvernig fjórflokkurinn getur hreinlega ekki komið sér upp úr sínum gömlu hjólförum og lofað almenningi því að takast á við vandann.
Valkostirnir sem þeir buðu upp á voru áframhaldandi moðsuða sem er opin í báða enda með það fyrir augum að styggja ekki hugsanlegan samstarfsflokk eftir komandi kosningar eða sérhagsmunahóp fyrir kosningar. Meira að segja verðtryggingin er orðin að skiptimynt í pólitískum hráskinnaleik og almannahagsmunir fara fyrir róða sem aldrei fyrr.
Orðræða VG var um margt ótrúleg og alhæfingar SJS um stöðugleika og krónu eru fjarri öllum raunveruleika. Bjarni Benediktsson var að því er virtist algerlega úti að aka lofaði tugþúsundum starfa með tilheyrandi handasveiflum og svipaður var Framsóknarmaðurinn, algerlega uppiskroppa með hugmyndir og gekk algerlega í takt við Sjálfstæðisflokkinn varðandi náttúrueyðingu og mengandi iðnað. Hvers vegna er það svo að þetta fólk getur ekki skilið að mestu verðmæti Íslands eru einmitt þau sem þeir vilja eyðileggja.
Jóhanna potaði og otaði sínum fingri að Bjarna en því miður er ESB aðildin að verða að einhverjum trúarbrögðum þar sem öllu virðist til fórnandi til að fá að vera með. Ástþór var með hressilega spretti en hefur fengið full mikið að láni úr smiðju Borgarahreyfingarinnar. Hann hefur þó eins og við rétt fyrir sér að því leiti að stjórnskipan Íslands er að miklu leiti hrunin og það þarf að ráðast í gagngerar og róttækar lýðræðisumbætur.
Sjálfur varð ég fljótt hissa hvað umræðan féll strax í sinn gamla staðnaða farveg. Tæknimennirnir sem glitti í í myrkrinu voru farnir að geispa eftir þrjár mínútur og ég sjálfur gat ekki annað en skellt upp úr á stundum þegar ég heyrði í þeim vösku varðsveinum fjórflokkakerfisins tipla á tánum í kringum hvert umræðuefnið á fætur öðru. Fjórflokkurinn mun ekki breyta neinu að gagni fyrir almenning og vonandi koma kjósendur auga á það. Annars munu þeir enn einu sinni framselja vald sitt til fjögurra ára til manna sem munu gróflega misnota það.
Það mun Borgarhreyfingin ekki gera, við erum heimilin, við erum almenningur, Borgarhreyfingin - þjóðin á þing, XO.is
31.3.2009 | 09:07
Leiðtogastjórnmál
Leiðtogastjórnmál og leiðtogadýrkun hafa verið að mörgu leiti einkennandi fyrir íslensk stjórnmál allt frá 1918. Slík er ákefðin að nánast engu skiptir þó allt annað í samfélaginu fari til fjandans, leiðtogaumræðan og "íþróttaleg" umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Ef eitthvað er þá eru það þessir svokölluðu "leiðtogar" sem hafa gert hvað mest ógagn í íslenskum stjórnmálum. Kom þetta bersýnilega í ljós á ný yfirstöðnum landsfundum allra fjórflokkana sem og á algeru gjaldþroti stjórnskipunar landsins í kjölfar bankahrunsins í október og brottvikningu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar af almenningi í janúar síðastliðnum.
Það hefur verið athyglisvert að taka þátt í starfi Borgarhreyfingarinnar og sjá með berum augum hvernig leiðtogadýrkun ræður för hjá öllum hinum flokkunum. Þessu leiðtoga þvaðri er svo haldið á lofti af fjölmiðlum sem virðast einfaldlega illa færir um að ræða um stjórnmál sem e.k. lýðræðislega aðferð almennings við að ráða málum sínum sjálf.
Borgarahreyfinguni barst í síðustu viku skeyti frá kosningasjónvarpi RÚV þar sem hreyfingin var beðin að tilnefna þáttakendur í útsendingum RÚV vegna kosninganna. Í skeytinu sem er um tuttugu línur af texta kemur orðið leiðtogi fyrir átta sinnum. Það var í kjölfar þessa sem Borgarahreyfingin endanlega tók af skarið s.l. laugardag og gaf út eftirfarandi yfirlýsingu gegn "leiðtoga" stjórnmálum.
Fréttatilkynning
Borgarahreyfingin hafnar leiðtogadýrkun
Nýlega efld stjórn Borgarahreyfingarinnar hefur tekið til starfa og í kjölfarið sent frá sér eftirfarandi tilkynningu.
Borgarahreyfingin hafnar leiðtogastjórnmálum eins og þau hafa birtst hér á landi hvort sem um er að ræða undanfarna mánuði eða áratugi. Þess vegna hefur Borgarahreyfingin ákveðið að skipta ekki með sér verkum skv. hefðbundnum aðferðum í hlutverk formanns, varaformanns og ritara og nota ekki þá titla í starfi sínu.
Um yfirstandandi helgi eru haldnir landsfundir tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. Almenningur þarf að sæta því að horfa upp á nánast stanslausa umfjöllun á starfsemi þessara flokka í öllum fjölmiðlum þar sem fyrirferð flokksleiðtoga og leiðtogakjörs varpar stórum skugga á þá málefnalega umræðu sem annars ætti að vera í landinu.
Landsfundir sem þessir og sú skefjalausa leiðtogadýrkun sem þeir upphefja er lýðræðinu ekki til framdráttar. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing bendir á að það er einmitt leiðtogadýrkun af þessu tagi sem leiddi til þeirrar ömurlegu niðurstöðu að Alþingi varð óstarfhæft. Ríkisstjórn landsins hrökklaðist svo frá þegar vanhæfni þeirra "leiðtoga" sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu á að skipa kom berlega í ljós.
Stjórn Borgarahreyfingarinnar mun koma fram sem heild og meta það í hverju tilviki hver kemur fram sem talsmaður hennar, eftir því hvert tilefnið er. Þess vegna mun Borgarahreyfingin sýna mörg andlit í aðdraganda kosninganna. Í því skyni hefur Borgarhreyfingin skipað sér talsmenn sem munu skipta með sér hinu s.k. "leiðtoga" hlutverki sem gamaldags stjórnmál og fjölmiðlaumfjöllun kallar svo sterkt eftir.
Nánari upplýsingar veitir:Jóhann Kristjánsson, Kosningastjóri
Símar: 5111944 og/eða 897 7099
Reykjavík, 28. mars 2009
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2009 | 23:13
Landsfundarógeð
Það er erfitt að viðhafa önnur orð um þennan blessaða landsfund Sjálfstæðisflokksins en segir í fyrirsögn þessarar greinar.
Þótt fjöldi manna hafi að því er virðist unnið mikið starf í aðdraganda fundarins og margt af því sjálfsagt býsna gott, samanber gagnrýnina frá Geitaskarðskappanum í Endurreisnarnefndinni, þá virðist það samt sem þessir landsfundir endi alltaf í einhverskonar eðlislægum hroka og jafnvel mannfyrirlitningu eða þá slepjulegri sjálfsvorkunn.
Orðfæri margra forsvarsmanna flokksins í gær um Evrópumálin og hvernig t.d. Kristján Þór Júlíusson talaði um að "gefa þjóðinni tækifæri" til að kjósa um ESB aðild lýsir manni og flokki sem telja sig hátt hafinn yfir almenning og greinilegt að þarna fer mjög takmarkaður skilningur á hverjir eiga að ráða í lýðræðisríki.
Eins var fádæma ræða Davíðs Oddsonar í dag og allt að því sjúklegar lýsingar hans á sjálfum sér og öðru samferðarfólki og verkum þess skýr vísbending um að þar fer maður sem er ekki alveg með sjálfan sig á hreinu. Viðbrögð fundargesta eru svo náttúrulega kapítuli út af fyrir sig og þó erfitt sé að alhæfa má gera ráð fyrir að fjölda þeirra finnist ekkert athugavert við framgöngu Davíðs. Og flestir hlógu dátt.
Fyrir mér er þetta sem einhverskonar samkoma firringar. Laugardagssíðdegi í Gaukshreiðrinu í boði þess spillta forarpytts sem áratuga samkrull peninga og stjórnmála hefur getið af sér og gert þjóðina nær gjaldþrota.
Við hljótum að frábiðja okkur þetta. Við þurfum ekki né viljum stefnu þessa fólks, né hugarfar þess.
Við þurfum ekki að fá nein tækifæri gefins frá KÞJ eða Sjálfstæðisflokknum. Við búum til okkar tækifæri sjálf. Við einfaldlega tökum af honum, og skrýtnum félögum hans, völdin í næstu kosningum.
Við erum Borgarahreyfingin - þjóðin á þing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.3.2009 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
27.3.2009 | 22:21
Persónukjörið sem hvarf
Yfirlýsing vegna persónukjörs
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing átelur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna harðlega fyrir að ætla að ganga á bak orða sinna um persónukjör í komandi alþingiskosningum.
Boðað undanhald ríkisstjórnarinnar í málinu byggir á einni ósannfærandi álitsgerð um að 2/3 hluta atkvæða þurfi til að samþykkja frumvarpið um persónukjör. Það bendir til þess að hugur fylgi ekki máli. Frumvarpið um persónukjör felur í sér eitt varfærnislegt en mikilvægt skref í átt til aukinna áhrifa almennra kjósenda á Íslandi. Auknu lýðræði. Rök sem tínd hafa verið til gegn frumvarpinu - fyrst af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en síðan af þingmönnum stjórnarflokkanna eftir að þeir höfðu sjálfir tryggt sér örugg þingsæti í lokuðum prófkjörum - eiga það sameiginlegt að vera veikburða. Íslensk stjórnvöld brugðust þjóðinni og í kjölfar efnahagshruns er brýnt að verða við kröfunni um aukin áhrif kjósenda.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing krefst þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og Framsóknarflokkurinn, efni sín heit við kjósendur, standi við orð sín og afgreiði frumvarpið um persónukjör með einföldum meirihluta á Alþingi eins og lög gera ráð fyrir. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing mun láta almennum kjósendum eftir að raða frambjóðendum á sínum framboðslistum 25. apríl. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni taki höndum saman við Sjálfstæðisflokkinn og svíki þar með kjósendur um þann valkost sem persónukjör er.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing.
27. mars 2009