Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stjórnlagaþingið

Eins og fram kom í færslunni hér á undan mætti höfundur á fund Sérnefndar um stjórnarskrármál  á miðvikudaginn. Neðangreint eru athugasemdir við frumvarpið sem settar voru fram á fundinum. Þess má geta að neðangreindar tillögur og athugasemdir eru einnig hluti af stefnu Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing eða XO.is

 

Athugasemdir við

Frumvarp til stjórnskipunarlaga

um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

1. grein.

1. málsgrein hljóði svo:  Allar náttúruauðlindir eru þjóðareign. Þ.e. ákvæði um náttúruauðlindir háðar einkaeignarrétti falli út.  Rökin eru að íslensk ákvæði og íslenskar hugmyndir um einkaeignarétt á auðlindum, hvort sem um er að ræða ár, vötn, land, fiskimið o.s.frv. ganga mjög langt og miklu mun lengra en þekkist víðast hvar í öðrum löndum þar sem mjög víða falla allar náttúruauðlindir undir þjóðareign en eru með e.k. langtíma nýtingarrétti fyrir notanda, t.d. bónda.

3. grein.

1. málsgrein breytist þannig að í stað kröfu 15 af hundraði kjósenda um þjóðaratkvæðagreiðslu verði miðað við 7 af hundraði.  Rökin eru að 15 af hundraði er mjög stór hópur fólks, sennilega á bilinu 25.000 til 30.000 og mjög erfitt að ná saman slíkum fjölda í praxís þótt menn geti gefið sér að slíkur fjöldi væri á sama máli.  Lægri tala myndi ýta undir aðhald að valdinu og einnig gefa þjóðinni meiri möguleika á beinu lýðræði.

4.grein.

1. málsgrein breytist þannig að út falli:

Stjórnlagaþing skal skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu fulltrúa á þingið og skipulag þingsins skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum alþingiskosningum vorið 2009.

Einnig fellur út:

Þingið skal ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011.

Einnig fellur út:

Skal þá 2/3 hluta fulltrúa á stjórnlagaþingi til að samþykkja fumvarpið....

Það er grundvallaratriði við ritun stjórnarskrár að tilstuðan stjórnlagaþings að val á þingið sé lýðræðislegt og endurspegli vilja almennings.  Þessi grein frumvarpsins er meingölluð þar sem fjöldi fulltrúa er eins og dregin upp úr hatti og valið á þeim mun setja í gang kosningasirkus sem gerir út af við alla þá sem ekki hafa aðgang að kosningamaskínum stjórnmálaflokkana, digrum sjóðum, eða eru þekktar fjölmiðlafígúrur.  Samkvæmt frumvarpi til laga í fylgiskjali með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hver frambjóðandi til stjórnlagaþings þurfi a.m.k. 50 meðmælendur sem þurfa tvo votta hver með meðmælum sínum. Það er augljóst að hinn venjulegi Jón Jónsson með fjölskyldu fer ekki út að loknum vinnudegi til að afla slíkra undirskrifta heldur munu aðilar með aðgengi að flokksmaskínum, félagasamtökum eða peningum hafa yfirburðaraðstöðu til að bjóða fram. Við sjáum fram á að gamlir afskifaðir þingmenn, sendiherrar á eftirlaunum, auðmenn og fjölmiðafígúrur muni taka yfir stjórnlagaþingið og á endanum jafnvel búa til verri stjórnarskrá en við búum við í dag. Þetta atriði þarf að fara út og það þarf að fjalla betur um val á stjórnlagaþingið.

Starfstími til tveggja ára allt of langur. Stjórnlagaþing getur hæglega nýtt sér alla þá vinnu sem stjórnarskrárnefnd hefur þegar lagt fram, fengið aðstoð sérfræðinga og lokið ritun stjórnarskrár á fjórum til sex mánuðum í fullu starfi.

Hvað varðar 2/3 hluta samþykki þá á Alþingi að sjálfsögðu að vera umsagnaraðili, en umsagnaraðili eingöngu. Það gengur augljóslega ekki að sitjandi þing (meirihluti þess) segi stjórnarskrárnefnd fyrir verkum. Hér hafa verið höfð endaskipt á hlutverkum og greinilegt að flutningsmenn frumarpsins vilja að þetta verði stjórnlagaþing stjórnmálaflokkana, og þá væntanlega þess meirihluta sem situr þá, en ekki stjórnlagaþing sem semur nýja stjórnarskrá á eðlilegum forsendum með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi.

 

Fylgiskjal, Frumvarp til laga um stjórnlagaþing (drög).

Samtök um lýðræði og almannahag  telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við. Til vara leggja Samtök um lýðræði og almannahag til eftirfarandi:

I. Kafli, 2. grein falli út.

Kaflar II, III, og IV falli allir út.

 

Tillögur Samtaka um lýðræði og almannahag  varðandi val á stjórnlagaþing eru:

Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis.  Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.

Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum.  Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.

Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum.  Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á 4-6 mánuðum, drögin send til umsagnar hjá Alþingi, hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og hjá tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.

Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.

 

Samtök um lýðræði og almannahag, 19. mars, 2009.

Þór Saari


Ríkisstjórnin og lýðræðið

Glöggt virðist vera að koma fram hversu lýðræðistal Samfylkingar og Vinstir Grænna er bara innantómt hjal og jafnvel hræsni. Samstaða - bandalag grasrótarhópa var með borgarafund um persónukjör í Iðnó þann 26. febrúar þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var sá eini í pallborði stjórnmálamanna sem var alfarið á móti persónukjöri. Ekki gat hann fært nein málefnaleg rök fyrir máli sínu en þrástagaðist við það að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki persónukjör. Á þeim fundi kom fram að með nánast óendalegum lagateyginum var hægt að nefna að það þyrfti 2/3 hluta þingsins til að samþykkja persónukjör þó það sé hverjum sæmilega læsum augljóst að það þarf ekki. Þetta var hins vegar hálmstráið sem augljóst var að stjórnarflokkarnir ætluðu að grípa til að stöðva persónukjörið.

Nú segist Jóhanna Sigurðardóttir vera komin með "álit" frá þinginu um að þennan aukna meirihluta þurfi. Hver samdi það álit og hvar er það?

Það þarf 2/3 hluta segir Jóhanna. Ef eitthvað þarf þá er það að sjálfsögðu að það þarf að senda þetta þing heim og að því verði haldið heima. Sitjandi Alþingimenn sem 87% þjóðarinnar bera ekki traust til hefur ekkert að gera inn í Alþingishúsinu, það er einfaldlega vanvirða við þinghúsið og þjóðina.

Nú er það sama komið upp með stjórnlagaþingið. Höfundur mætti á fund Sérnefndar um stjórnarskrármál í gær sem fullrúi Samtaka um lýðræði og almannahag og var það einhver ömurlegasta upplifum sem hugsast getur. Ekki einn einasti nefndarmaður hafði minnsta áhuga á málinu. Þeir sem ekki voru niðursokknir í lestur voru geispandi eða fálmandi eftir einhverjum pappírum í tíma og ótíma. Greinilegt var að sjálf stjórnarskráin var aukaatriði í huga þeirra og breytingar á henni eru þeim ekki hugnanlegar. Fundurinn var greinilega til málamynda, nefndarmönnum til skammar og í "þingræðisríkinu" Íslandi skýrt dæmi um að þingræðið er ónýtt.

Vissar vonir voru bundnar um breytingar þegar Sjálfstæðisflokknum og Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu var skipt út fyrir Vinstri Græna og Jóhönnu. Þær vonir eru nú endanlega brostnar þar sem komið er í ljós að þau ætla sér ekki að sina almannahag frekar en fyrri ríkisstjórn.

Kosningar eru framundan, þetta alræði fjórflokksins verður að enda.


mbl.is Lýðræðismálin verða eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfskuldarábyrgð annarra

Þetta er ánægjulegt framtak. Uppáskriftir sem þessar hafa verið krafa allt of lengi og þekkjast ekki í löndum þar sem eðlileg bankastarfsemi á samkeppnisforsendum hefur verið. Næsta verk hlýtur að vera að afnema kröfu um ábyrgðir á námslánum þar sem fjölda fólks er haldið frá námi á þeim forsendum að það hafi ekki ábyrgðarmenn. Hvernig væri að treysta fólki og skuldasögu þess eins og gert er víðast hvar annars staðar. Breytt fjölskyldumynstur, fleiri stakir foreldrar, nýbúar og margt fleira gerir ábyrgðamannakerfið að klafa á möguleikum fólks til betra lífs og heftir eðlilega fjármálastarfsemi.
mbl.is Afnema ábyrgð þriðja aðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Zetan

Hef fengið nokkur komment á það að viðtalið í Zetunni á mbl.is í dag hafi hjálpað fólki að skilja betur hvað skilur milli Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing og hinna flokkana (fjórflokksins).

Set hér link á viðtalið og á stefnuskrána á xo.is til að auðvelda áhugasömum aðgang.


Raddir fólksins hvílast, um stund

Ef einhver ein persóna getur talist táknmynd mótmælanna sem komu frá verstu ríkisstjórn sögunnar þá er það Hörður Torfason, sem ásamt félögum sínum og með sinni þrjósku og sannfæringu gáfust aldrei upp. Hörður í raun er persónugerfingur þeirra mótmæla sem á endanum gerðu það virðingarvert að vera aðgerðarsinni.

Að sjálfsögðu eiga allir þeir sem mættu frá fyrsta degi og umkringdu Alþingishúsið með mannlegri keðju, og mættu aftur, og aftur, og aftur, ekki síður þakkir skilið. Og þeir sem stöðvuðu Kryddsíldarófétið og síðast en ekki síst þeir sem rufu gulan borða lögreglunnar þann 20. janúar. Þvílíkt fólk, þvílíkir tímar.

Það er ekki liðinn langur tími frá því að fyrstu aðgerðarsinnarnir í Saving Iceland hófust handa við Kárahnjúka, fólk sem í upphafi var fyrirlitið og hundelt af lögreglu. En þau gáfu tóninn. Og mættu aftur, og aftur, og nýir bættust við, og þvílíkt hvað hefur áunnist síðan. Heil ríkisstjórn með einhvern mestan þingmeirihluta nokkru sinni hrökklaðist frá. Forsætisáðherann flúði úr ráðuneytinu er þeir nálguðust. Fjármálaeftirlitð fór, Seðlabankastjórnin fór, Landsbankamaðurinn fór, og nú síðast fór stjórn VR.

Það var gerð bylting á Íslandi með aðferðum sem hafa skapað sér sess í heimssögunni. Allir þeir sem tóku þátt mega vera stoltir. Það tókst. Við unnum. Svo einfalt er það.

Krafan var breytingar og næsta skref í þá átt er að taka virkan þátt í að endurskipuleggja lýðræðið, stjórnmálin, stjórnkerfið og efnahagsmálin. Þessa þætti þarf að endurskipuleggja þannig að þau fúlu spillingaröfl sem keyrðu landið í þrot geti ekki gert það aftur. Þeim þarf að halda frá völdum og það verður einungis gert með því að allir sem vettlingi geta valdið leggist á árarnar í komandi kosningum og tryggi það.

Raddir fólksins hvílast, þær eiga hvíld skilið. Þær munu hinsvegar aldrei hljóðna því þær breytingar sem kallað var eftir hafa breytt Íslandi til frambúðar. Þakka ykkur fyrir.

Lifi Hörður.


mbl.is Hlé á fundum Radda fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsfundur VG

Sú spurning sem hlýtur að brenna á félögum í VG er hvers vegna SJS og forysta flokksins ætlar sér að láta alsaklausan almenning taka á sig gríðarlega skuldabyrði af völdum fjárglæframanna í stað þess að leysa málið með öðrum hætti. Einnig er spurt hversu langt flokkurinn muni ganga í fylgisspekt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Höfundur gerðist boðflenna á landsfundinum og flutti ræðu inn á fundinn utan af götu, sjá á Smugan.is

Hér að neðan eru hugmyndir Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing varðandi nálgun á skuldasúpunni sem íslendingar eru við það að drukkna í.

I. Kafli, liður 6. 

6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar.  Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.


Borgarahreyfingin - þjóðin á þing

Eftirfarandi grein var birt í Morgunblaðinu í gær, í leiðaraopnu, takk Moggi.

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing er nýr flokkur í flóru stjórnmálanna á Íslandi og eini alvöru valkosturinn við "Fjórflokkinn" sem stendur til boða.  Hreyfingin býður fram í öllum kjördæmum í komandi Alþingiskosningum.

Borgarahreyfingin á rætur í þeim fjölmörgu grasrótarhópum sem höfðu sig í frammi frá upphafi bankahrunsins í október.  Grasrótarhóparnir og aðrir tengdir og ótengdir einstaklingar voru fólkið sem hrakti fyrrverandi ríkisstjórn frá völdum og rak flótta Geirs H. Haarde úr stjórnarráðinu á eftirminnilegan hátt.  Samhliða þessum aðgerðum fór fram mikið starf þar sem reynt var að sameina hópa og einstaklinga undir einum fána, starf sem lauk með stofnun Samstöðu - bandalagi grasrótarhópa þann 17. febrúar síðastliðinn. Því má með sanni segja að Borgarahreyfingin sé barn búsáhaldarbyltingarinnar.

Þótt ýmislegt vanti á að Samstaða innihaldi alla þá hópa og einstaklinga sem sóst var eftir er mikilvægt að hafa í huga að félags- og flokkastarf undir einum hatti gengur beinlínis gegn persónulegri hugmyndafræði margra þeirra sem við var rætt en meðlimir Samtöðu eru þó úr nánast öllum þeim grasrótarhópum sem um ræðir.

Samstaða kom sér saman um markmið sem eru fá, einföld og auðskilin og eru þessi:
Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.
Landsmenn semji eigin stjórnarskrá.
Trúverðug rannsókn undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga á efnahagshruninu verði gerð fyrir opnum tjöldum.
Eignir auðmanna frystar á meðan rannsókn stendur.
Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.
Lýðræðisumbætur strax, þ.m.t. stjórnlagaþing í haust, persónukjör, tryggt verði að ný framboð fái stuðning til jafns við starfandi stjórnmálaflokka og að öll framboð fái sama tíma í fjölmiðlum.

Það sem gerir þessa stefnu einstaka er að hún var að stórum hluta samin af öllum sem vildu, fyrir opnum tjöldum á internetinu. Á grunni þessara markmiða var ákveðið að halda áfram með starfið hvar sem hægt væri og meðlimir Samstöðu og tengdir aðilar hafa nú dreift sér inn í alla stjórnmálaflokka, tekið þátt í prófkjörum og sums staðar gengið mjög vel.

Til viðbótar var ákveðið að taka pólitíska slaginn beint við "Fjórflokkakerfið" og bjóða fram hreyfingu sem hefði það að markmiði að ná fram mikilvægum lýðræðisumbótum, nýrri stjórnarskrá, rannsókn erlendra sérfræðinga á hruni hagkerfisins, lögfestingu faglegrar stjórnsýslu auk þess að taka á vanda heimilianna.

Hreyfingin hlaut nafnið Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, og byggja stefnumál hennar í meginatriðum á markmiðum áðurnefndrar Samstöðu og hugmyndum hundruða manna sem við höfum rætt við undanfarna mánuði.

Meginmarkmið hreyfingarinnar eru í stuttu máli að lýðræðisvæða Ísland með nýrri stjórnarskrá sem saminn verður af almenningi, fyrir almenning og á stjórnlagaþingi almennings.  Auk þess vill hreyfingin breytingar á kosningalögum m.a. innleiðingu persónukjörs í kosningum þar sem kjósendur geta sjálfir raðað á lista í kjörklefanum. Borgarahreyfingin telur einnig að seta á þingi eigi að takmarkast við tvö kjörtímabil, að allar ráðningar í stjórnsýslunni og stofnunum ríkisins skuli endurskoðaðar og endurráðið verði eða fært til í efstu stjórnendastöðum.

Borgarahreyfingin  hafnar nálgun stjórnvalda á bankahruninu og telur ekki að um sé að ræða hrun hefðbundinnar bankastarfsemi sem beri að afgreiða eftir venjulegum gjaldþrotaleiðum.  Þannig verður gríðarlegu tapi erlendra innstæðueigenda og töpuðum útlánum Seðlabankans velt yfir á almenning sem enga sök eiga.  Hreyfingin telur að bankastarfsemi sú sem nú er hrunin hafi í eðli sínu verið svikamylla, a.m.k. seinustu tvö árin, þar sem fjármálafyrirtækin hafi skipulega unnið að því að ná til sín fé, vitandi að leikurinn var tapaður.  Þetta gerðist með vitund og þegjandi samþykki síðustu ríkisstjórnar og þeirra stofnana ríkisins sem áttu að gæta hagsmuna almennings og er algerlega forkastanlegt.  Því ber að rannsaka bankahrunið sem svikamyllu með víðtækri samvinnu við erlend stjórnvöld og með aðstoð erlendra sérfræðinga.  Þeir fjármunir sem fjármálafyrirtækin náðu til sín verði sóttir og þeim einfaldlega skilað til réttmætra eigenda.  Afgangurinn sem út af stendur verði svo sóttur beint til eigenda og stjórnenda fyrirtækjanna.

Borgarahreyfingin  telur líka að grípa verði strax til aðgerða í þágu heimilanna og vill að vísitala verðtryggingar verði færð aftur til janúar 2008 með tilsvarandi lækkun á höfuðstól og afborgunum.  Afborgunum af húsnæðislánum verði hægt að fresta í tvö ár og vextir af vertyggðum lánum verði ekki meiri en 2% - 3%.  Gripið verði til samsvarandi aðgerða vegna gengistryggðra húsnæðislána.  Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána, þeim breytt í lán með fasta vexti og verðtygging fjárskuldbindinga afnumin.  Íslendingar hafa nógu lengi búið við hið sér-íslenska kerfi árangurslausra afborgana sem er komið út úr öllu korti og sýnir sig best í því að það skiptir litlu máli fyrir lántakandann hvort peningarnir eru notaðir til að greiða afborgun eða þeim sé einfaldlega hent.

Refsing þeirra sem taka ekki þátt í stjórnmálum er að þeim er stjórnað af verra fólki en því sjálfu, þessi orð Platos kjarna það sem gerst hefur á Íslandi. Við, almenningur, hættum að taka þátt í stjórnmálum. Við sváfum á verðinum og nú verðum við að vakna. Við verðum að gefa öllum flokkum rauða spjaldið, senda þá út af í tvær mínútur á meðan við byggjum upp réttlátt kerfi sem tekur ábyrgð gagnvart borgurunum, þar sem borgararnir geta veitt þingheimi aðhald og þingheimur getur veitt ráðherrum aðhald.

Nú er það er á valdi þjóðarinnar að kjósa réttlæti, lýðræði og hætta þessu kjaftæði.

http://www.borgarahreyfingin.is/

Þór Saari

Höfundur er hagfræðingur og frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar.


Stjórnlagaþing og Sjálfstæðisflokkur

Það er í raun alveg með ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn öllum lýðræðisumbótum og beitir hiklaust fyrir sig stanslausum runum af hálfsannleik og blekkingum. Eftir það sem á undan er gengið finnst mér einfaldlega bíræfið af Sjálfstæðismönnum að láta yfir höfuð sjá sig í Alþingishúsinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur með sinni firrtu hugmyndafræði og blekkingum svikið almenning (og þar með aðra Sjálfstæðismenn), mokað undir spillingu, staðið í vegi fyrir alvöru rannsókn á efnahagshruninu, og nú vilja þeir stöðva framgang endurskoðunar stjórnarskrárinnar, endurskoðunar sem myndi færa völd frá hálf-ónýtu Alþingi, gjörspilltu framkvæmdavaldi og fúnu dómskerfi til fólksins.

Það að Alþingi njóti trausts 13% þjóðarinnar er einmitt vegna veru Sjálfstæðisflokksins þar, flokks sem hélt meirihlutavöldum í 18 ár og var arkítektinn að stórfenglegasta hruni íslensks efnahagslífs í sögunni. Og þeir gera sér enga grein fyrir því.

Samstaða - bandalag grasrótarhópa var með borgarafund um persónukjör í Iðnó þann 26. febrúar þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var sá eini í pallborði stjórnmálamanna sem var alfarið á móti persónukjöri. Ekki gat hann fært nein málefnaleg rök fyrir máli sínu en þrástagaðist við það að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki persónukjör.

Það er náttúrulega í sjálfu sér furðulegt að stjórnmálaflokkur í lýðræðisríki skuli vera alfarið á móti því að aðrir flokkar fái heimild til að leyfa kjósendum að ráða sjálfir uppröðun á lista viðkomandi framboðs, en afstaða Sjálfstæðisflokksins var skýr. "Við viljum ekki að aðrir flokkar megi þetta".

Í spjalli að fundinum loknum raun rann upp fyrir mér eins og mörgum öðrum að á bak við þessa afstöðu er í raun mjög djúptæð fasísk hugsun. Hugsun sem gefur í raun ekkert fyrir það sem öðrum finnst og aðrir vilja. Þessi hugsun endurspeglast svo í framgöngu Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu og er hugsun valdsins sem öllu þarf að ráða, valdsins sem er algerlega yfir aðra hafið, valdsins sem hefur rústað Íslandi, valdsins hvers hugsun er í raun mannfyrirlitning.

Tilhugsunin um að þessi flokkur muni hugsanlega komst aftur í ríkisstjórn veldur því að mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.


mbl.is Tekist á um stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Val á stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár

Borgarahreyfingin hefur sent Alþingi og Sérnefnd um stjórnarskrármál eftirfarandi kröfugerð vegna frumvarps til laga um breytingar á stjórnarnskránni.

Borgarahreyfingin er samtök fólks sem er fyrst og fremst lýðræðissinnað og krefst þess að Íslandi verði hér eftir stjórnað með hagsmuni almennings í huga.  Hreyfingin krefst þess að það fari fram endurskoðun á stjórnarskránni og að sú endurskoðun verði gerð af almenningi og fyrir almenning.

Borgarahreyfingin er óháð stjórnmálaafl og berst fyrir almannahag og lýðræðis- samfélagi sem hafnar forræði og forréttindum núverandi stjórnmálaflokka.  Hreyfingin telur augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafi glatað öllum tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu.

Borgarahreyfingin  telur endurskoðun stjórnarskrárinnar brýnasta mál samtímans og er sannfærð um að aldrei fyrr hafi verið eins mikil þörf á að endurskoða stjórnarskrána og endurreisa lýðræði á Íslandi, ef landið eigi áfram að teljast til vestrænna lýðræðisríkja.

Borgarahreyfingin  telur að frumvarpið um stjórnlagaþing sem lagt hefur verið fram á Alþingi sé algerlega ótækt og beinlínis sniðið að hagsmunum núverandi stjórnmálaflokka með það í huga að þeir nái að sölsa undir sig stjórnlagaþingið.

Til að hagsmuna almennings verði gætt við endurskoðun stjórnarskrárinnar telur Borgarahreyfingin grundvallaratriði að sú vinna fari fram á sérstöku stjórnlagaþingi sem verður án beinnar aðkomu stjórnmálaflokka og verði með eftirfarandi hætti:

  • Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis.  Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.
  • Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum.  Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.
  • Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum.  Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
  • Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á 3-4 mánuðum, drögin send til umsagnar hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.
  • Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.

Það er mat Borgarahreyfingarinnar að ef frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi nær fram að ganga óbreytt muni það gera Ísland að athlægi meðal vestrænna lýðræðisþjóða og mjög líklega skila stjórnarskrá sem verður enn verri en sú sem við nú búum við. Fulltrúar Borgarahreyfingarinnar  hafa talað fyrir þessum sjónarmiðum í Silfri Egils 8. mars og Spegli RÚV þann 18. febrúar. Einnig hefur Ragnar Aðalsteinsson hrl. tjáð sig um nauðsyn þess að velja rétt inn á stjórnlagaþingið.


Framsóknarleiðtogi í málmvinnslu.

Það eru athyglisverð starfsheitin á framsóknarmönnunum í NA-kjördæmi. Tveir efstu eru þingmenn sem leitt hafa þjóðina fram að brún hengiflugs í efnahagsmálum og munu ef fjandinn fær að ráða halda áfram fram af með 20 prósenta fallhlífinni. Í næstu þremur sætum er að því er virðist saklaust fólk sem hefur það eitt til saka unnið að . . . . . . jæja. En hvað er leiðtogi í málmvinnslu? Hugmyndaflugið tekur heldur betur á rás . . . . .  vá hvað slík manneskja gæti ekki gert á þingi innan um alla lögfræðingana og sjallana sem eru steyptir úr sama blýinu. "Fylgið mér, þér blýhólkar . . . .  ég mun gera yður frjálsa". Hugsanleg ríkisstjórn sem samanstendur af þessu einvalaliði, úff, þetta er nú bara alveg geggjað. 
mbl.is Birkir Jón sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband