Kjördagur og sigur

Þá er langur dagur að kvöldi kominn.  Dagur sem kom á óvart og dagur þar sem draumar rættust. Borgarahreyfingin kom fjórum að á Alþingi Íslands.

"Skríllinn" og "Ekki-þjóðin" sem barði á gluggana, sem barði pottana, sem togaði í kaplana, sem pirraði Sigmund Erni og Geir Haarde og Björn Bjarna og Ingibjörgu Sólrúnu og allt hitt afturhaldsyfirstéttarliðið sem taldi að það gæti farið sínu fram og kollsteypt þjóðarskútunni þegjandi og hljóðalaust án þess þess almenningur skipti sér af.  "Skríllinn" og "Ekki-þjóðin" sem kom á endanum verstu ríksstjórn Íslandssögunnar frá, hefur nú fengið fullrúa innan þessara sömu veggja og valdafirrtir stjórnmálamenn reyndu að fela sig á bak við.

Við mótmæltum og við unnum.  Geir flúði úr forsætisráðuneytinu og stjórninni var slitið þegar þau vissu að við mundum ekki gefast upp.  Þau buðu upp á kosningar.  Það var á brattann að sækja allan tímann en við komumst alla leið.  Og við börðumst aftur, og unnum aftur.

Við áttum við ofurefli að etja, risaeðlur sem skammta sér fimm hundruð milljónir á ári af skattfé okkar til þess eins að halda sjálf völdum.  Risaeðlur sem neituðu Borgarahreyfingunni um hefðbundna ókeypis kynningu í sjónvarpinu á þeim forsendum að þau sjálf hefðu ekki áhuga.  Risaeðlur sem endalaust reyndu að sveigja umræðuna að "atvinnuuppbyggingu" og ESB með sínum algerlega inihaldslausu kosningaloforðum.  En almenningur lét ekki blekkjast og meðbyrinn síðustu dagana fyrri kosningarnar var svakalegur.

Það var stanslaus straumur fólks inn á Laugaveginn og verslunareigendur gáfu af slíku örlæti að stundum var ekki hægt að komast inn í eldhúsið.  Kaffi í tugkílóavis, kex í kassa vís, volg vínarbrauð frá Sandholt í metravís, húsgögnin, skjáirnir, tölvurnar, sófarnir, prentararnir, allt lánað eða gefið.  Ljósmyndararnir, kvikmyndagerðarmennirnir, sjálfboðaliðar svo tugum skipti, uppvaskið, þrifin, knúsin, kossarnir og samstaðan seinustu metrana.  Margrét Tyggva. sem vann kraftaverk á Suðurlandi og safnaði á fjórða hundrað meðmælendum og kláraði fullbúinn framboðslista á innan við tveim vikum.  Jóhann kosningstjóri sem hæglátlega náði að halda utan um þetta allt.  Jón Þór og Siggi Hrellir, framkvæmdastjórar sem framkvæmdu hið ómögulega.  Og allir þeir sem þeyttust út um koppagrundir að dreifa bæklingum og breiða út boðskapinn á vinnustöðum og fyrir utan Laugaveginn, Palli var örugglega í hundrað tíma á gangstéttinni, oft krókloppinn.  Þetta var ævintýralegt, eitt mesta ævintýri lífs míns.

Við fengum 13,519 atkvæði, við sem fyrir níu vikum vorum ekki til og áttum ekki krónu.  Við "Skríllinn" og "Ekki-þjóðin".

Og nú hef ég hef fengið vinnu við að tala máli alls þessa fólks.  Það er heiður og ég heiti því að frá fyrsta degi munu gluggar þinghússins og dyr verða opnar út á Austurvöll og Raddir fólksins munu heyrast þar inn eins lengi og þörf er á til að búa til betra Ísland.

Þakka þér Hörður Torfason, þakka ykkur skjaldborg, þakka þér Gunnar Sig. og co. með Borgarafundina, þakka ykkur ræðumenn í næðingi allann veturinn, þakka ykkur Kryddsíldaryfirstéttarstjórnmálamenn og fjölmiðlamenn fyrir að sýna ykkar rétta fúla andlit, þakka ykkur snúru slítarar og Grímar anarkistar, þakka ykkur félagar í Samtöðu - bandalagi grasrótarhópa, þakka ykkur félagar og vinir í Borgarahreyfingunni.  Þetta er ykkur að þakka, það eru þið sem eruð á þingi.

Við fórum út í októbernæðinginn og gerðum byltingu utandyra í íslenskum vetri.  Nú er komið vor og við erum komin inn á þing.  Hver hefði nokkurn tíma trúað því að það væri hægt!

TIL  HAMINGJU


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Hjartanlega til hamingju með frábæran árangur!

En ekki byrjar þetta vel hjá ykkur varðandi lýðræðisumbætur...

Er það virkilega stefna XO að það sé "bjánaskapur" að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland sæki um aðild að ESB? - mál þar sem um það bil helmingur þjóðarinnar er á með og hinn á móti og þar sem meirihluti í skoðanakönnum til margra ára er á móti aðildinni sjálfri...  Hvað varð um "þjóðin á þing"?

Ég fékk sting í hjartað af vonbrigðum þegar ég heyrði Þráinn segja þetta í dag á RUV.

Mér lýst mjög vel á hugmynd Birgittu í kvöld um að sett verði á stofn óháð stofnun sem kynnir ESB fyrir þjóðinni, síðan, að mínu mati, ætti að hafa upplýstar umræður um samningsmarkmið og þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt er um aðild. Þetta væri leið sem gæti komið á sátt í þjóðfélaginu um þetta eldfima mál sem er um það bil að kljúfa þjóðina í herðar niður...

Og svo það sé á hreinu mundi ég líklega greiða atkvæði með aðildarumsókn svo lengi sem skýr samningsmarkmið væru til staðar.

Róbert Viðar Bjarnason, 27.4.2009 kl. 00:11

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Til hamingju Þór. Nú er að muna fyrir hvað búsáhaldabyltingin stóð, standa fast í báðar fætur og halda sig á jörðinni.

hilmar jónsson, 27.4.2009 kl. 00:33

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

... og þakka ykkur landsmenn sem stóðu fyrir mótmælum á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Selfossi og í Mývatnssveit. Þakka ykkur fyrir borgarafundarnefnd á Akureyri sem boðuðu til funda um brýn málefni samfélagsins. Þakka þér fyrir Þór að hafa boðið þig fram til þings og til hamingju að hafa fengið kosningu!

Es: Mátti til að bæta við listann þinn vegna þess að landsbyggðin má ekki gleymast þó við séum samanlagt færri en íbúar kjördæmanna þriggja  sem náðu mestu fylginu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.4.2009 kl. 00:50

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hjartanlega til hamingju

Helgi Jóhann Hauksson, 27.4.2009 kl. 00:59

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Tja, ef marka má Jón G. Jónsson, og fyrir það hann Sigmund Davíð, er skv. endurskoðuðu mati á eignum bankanna, u.þ.b. 75% lána til fyrirtækja hérlendis, þ.s. kallað er á fræðimáli 'junk' eða verðlaus.

Mjög alvarleg staða. Alveg sammála því, að líkur seinna hruns séu yfirgnæfandi.

Okkar lýðræðisfyrirkomulag, er almennt séð, ekki slæmt. Vandinn við það, er fyrst og fremst ófullkomleiki mannskepnunnar sjálfrar. Leiðin til að bregðast við þeim ófullkomleika, er aðhald. Svo einfalt er það.

Allt og sumt sem þarf, eru bætt og nákvæmari viðmið, um t.d. greiðslur, fríðindi - sem sagt, hvað má og ekki má.

Síðan, aukið lýðræðislegt aðhald, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulag, sbr. Sviss. Það virðist í dag, stuðningur, til þess að koma því á.

Ég treysti því, að Borgarahreyfinging, muni vinna með okkur Framsóknarmönnum, nánar tiltekið þeim Framsóknarflokki sem risinn er upp að nýju sem endurskapaður Fönix, í því að koma þessum lýðræðisumbótum á.

Annars, til hamingju með kjörið, til nýbakaðra þingmanna hreyfingarinnar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 27.4.2009 kl. 02:42

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Megið þið "pirra" sem flesta, sem lengst.   Einmitt ekki missa fókus núna.

Til hamingju,

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.4.2009 kl. 03:09

7 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Til hamingju með frábæran árangur!

Ólafur Ingólfsson, 27.4.2009 kl. 09:03

8 identicon

Ánaegjulegt ad thid uppskárud eitthvad fyrir erfidid og réttmaetar kröfur fólksins.  Ég held ad thid eigid studning flestra íslendinga thótt their hafa kosid adra flokka fyrir utan thá sem kusu spillingarflokkinn.

Thad sem er mjög mikilvaegt núna er ad varanleg einangrun spillingarflokksins á öllum mögulegum svidum haldi áfram.

Áfram med smérid....thjódin stendur á bak vid ykkur í ykkar naudsynlega hreinsunarstarfi.

reidhjólamadur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 09:18

9 identicon

Hjartanlega til hamingju með frábæran árangur!

Alda Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 10:22

10 identicon

Munið að vera þið sjálf áfram,ekki láta ofmetnað rugla ykkur í ríminu.Látið ekki fagurgala ESB sinna blekkja ykkur.Borgarahreyfingin var að berjast fyrir opnari lýðræði eða er ekki svo? ESB er ekkert annað en fjötrar og helsi.Höldum fast um okkar LÝÐRÆÐI,látum ekki ljúga okkur inní ESB..............................................

Númi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 10:37

11 identicon

Til hamingju Þór Saari. Ykkar árangur var að mínu mati það jákvæðasta við kosninguna. Nýtt fólk með nýjar hugmyndir. Og vonandi fólk, sem setur hagsmuni þjóðarinnar ofar eiginhagsmunum og stundargróða. Haldið strikinu og verið sjálfum ykkur samkvæm. En verið samt jákvæð gagnvart EBS, skoðið málið vandlega.

Kveðja frá Sviss, HK.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 11:42

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég óska þér og þínum samherjum til hamingju með árangurinn. Ég ætti að vita hvað liggur að baki flokksstofnun og framboði og það segir mér að þið unnuð mikið afrek.

Gleymið þið þó ekki að þið áttuð marga samherja í Búsáhaldabyltingunni sem ákváðu að berjast áfram á öðrum vettvangi fyrir sameiginlegum hugsjónum okkar og munu halda því áfram.

Sumir í minni hreyfingu ákváðu að fara með ykkur, aðrir fóru inn í Samfylkingu og tókst með grænum samhejrum á landsfundi hennar að samræma stefnu hennar í umhverfismálum við stefnu VG. Það getur orðið ómetanlegt í komandi stjórnarmyndunarviðræðum og stjórnarsamstarfi.

Ég veit um einlægt hugsjónafólk sem fór inn í Framsóknarflokk og Frjálslynda til að reyna að hafa áhrif þar.

Louise Crossley, heimsfræg baráttukona, sem kom hingað til lands fyrir nokkrum árum, ráðlagði umbótafólki að láta til sín taka á hverjum þeim vettvangi sem byðist, stofna eigin hreyfingar og félög, halda fundi, skrifa greinar, standa að mótmælaaðgerðum og fara í framboð hvar sem því yrði við komið, jafnvel í forsetaframboð.

Ég óska þér persónulega sérstaklega til hamingju með að vera kominn á þing. Ég hrópaði hvað eftir annað upp yfir mig af ánægju þegar ég heyrði hvað þú sagðir um stóriðju- og virkjanamál í sjónvarpsumræðum, því að ég veit að þau mál eru ekki meðal hinna fáu en sterku áherslumála ykkar. Þú þorðir samt að taka persónulega afstöðu og það virði ég.

Nú ertu kominn þangað sem þú átt erindi og þótt fyrr hefði verið. Bestu kveðjur og árnaðaróskir til ykkar allra. Þið eigið erfitt verk fyrir höndum og vonandi tekst ykkur vel til.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2009 kl. 11:53

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ef þið takið alltaf stöðu með þjóðinni og vinnið eindregið að því að gefa henni meira vald mun ykkur ganga vel. Til hamingju með sigurinn.

P.S. Væruð þið til í að halda opinn borgarafund um ESB aðildarumsókn áður en þið takið afstöðu á þingi? 

Héðinn Björnsson, 27.4.2009 kl. 12:05

14 Smámynd: ThoR-E

Til hamingju háttvirtur þingmaður :)

Nú er bara að hrista uppí þessu ... standið föst fyrir!

Hef fulla trú á ykkur!

ThoR-E, 27.4.2009 kl. 13:36

15 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Innilega til hamingju, ég benti mörgum, sem ekki gátu hugsað sér að kjósa sér að kjósa fjórflokkin, á ykkar framboð. Áhersla ykkar á að gæta varúðar gagnvart þeim sem vilja skuldsetja ríkið til þess að leysa skuldakrísu landsins, var mér mjög að skapi. 

Nú er ég hræddur um að ég hafi gert mistök. Framboðið ykkar virðist vera orðið skiptimynd í þrátefli flokkanna um ESB. Vill þessi lýðræðishreyfing ekki leyfa kosningar um hvort ESB umræðan eigi að tröllríða samfélaginu hér næstu tvö árin og starfskröftum ríkisins verði nær alfarið eytt í karp um ESB? Vill þessi lýðræðishreyfing ganga inn í bandalag þar sem lýðræðishallinn ógnar félagslegri samstöðu ótal samfélaga í Evrópu. Telur þú sem hagfræðingur lausnin á efnahagsvandanum liggja í ESB? 

Kristján Torfi Einarsson, 27.4.2009 kl. 13:39

16 identicon

Hjartanlegar hamingjuóskir til YKKAR ALLRA!

Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 16:49

17 identicon

Til hamingju og bestu þakkir fyrir að tala máli mínu og margra annarra. Nú byrjar víst vinnan fyrir alvöru, gangi ykkur sem best.

Solveig (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 23:20

18 Smámynd: Halldór Halldórsson

Ég er einn þeirra sem kallaði skrílinn og rumpulýðinn sem réðst með ofbeldi og skemmdarverkum að fólki og eignum annarra, aldrei annað en réttum nöfnum!  Það er svo alltaf forvitnilegt að sjá þegar fólk gengst við því að vera skríll og rumpulýður eins og þingmaðurinn nýkjörni.  Yfirleitt voru þetta nefnilega lyddur og raggeitur sem huldu andlit sín til að forðast að verða hugsanlega dregnar til ábyrgðar á afleiðingum gerða sinna.  Ég er þess fullviss að skríllinn hefði ekki stöðvað fyrr en eftir stórfelld eignatjón og jafnvel manntjón, ef minnsta tækifæri hefði verið til.  Ég er þess líka fullviss að Þór Saari með "sitt fúla andlit" hefði verið alveg nákvæmlega sama!

Halldór Halldórsson, 28.4.2009 kl. 08:20

19 Smámynd: ThoR-E

Halldór: Af þeim tugþúsundum mótmælanda sem þátt tóku í mótmælunum á dögunum voru nú ekkert margir með hulin andlit. Það voru svokallaðir anarkistar sem blönduðu sér í mótmælin.. og fagnaði ég þáttöku þeirra eins og aðrir.

Meirihluti þeirra sem mótmæltu voru venjulegt fólk og úr öllum þjóðfélagsstéttum.

Þór Saari með "sitt fúla andlit"

Hvað meinaru með þessu Halldór ???

ThoR-E, 28.4.2009 kl. 09:31

20 Smámynd: Halldór Halldórsson

Lesa upprunabloggið Acer! Lesa!  Ég var bara að "stela" stílbragði frá hinum "snjalla" höfundi bloggsins, alþingismanninum Þór Saari.

Svo hef ég aldrei kallað skríl og rumpulýð aðra en ofbeldishundana og -tíkurnar í hópi mótmælenda.  En þið hin sem "fagnið þátttöku þeirra", verðið bara að taka ábyrgð á þessu pakki líka!

Halldór Halldórsson, 28.4.2009 kl. 09:39

21 Smámynd: ThoR-E

Allt í lagi.

Ég ber þó aðeins ábyrgð á mínum gjörðum. Ekki gjörðum annara, þótt ég tali með mótmælunum .. að þá tók ég reyndar ekki þátt í þeim sjálfur, enda bý ég úti á landi ... þannig að það er erfitt fyrir mig að taka ábyrgð á einhverju þar.

En það sem þessi mótmæli höfðu í för með sér.. er að þáverandi ríkisstjórn hrökklaðist frá .. Sjálfstæðisflokkurinn var settur í stjórnarandstöðu .. það eitt og sér var sigur í sjálfu sér ... seðlabankastjórninni var komið frá (Davíð Oddsson) sem var líka ágætt þótt ekki nema bara vegna þess uppá trúverðugleika okkar erlendis.

Það hafði enginn tekið ábyrgð á neinu eftir hrunið og það var nánast hlegið af okkur vegna þess út í heimi. Erlendis tekur sá maður poka sinn sem er á vakt þegar eitthvað svona stórt gerist eða fer úrskeiðis. Það er bara þannig og hefur verið ... síðan las maður hverja hæðnis, níð og gagnrýnisgreinina á fætur annari á erlendum fréttasíðum og/eða bloggum.

Hinsvegar hvað varðar gengi Seðlabankans eftir að stjórnin var rekin og ný/norsk tók við.. að það er annað mál.

Það sem ég á við Halldór .. er að mótmælin voru ekki alslæm .. því geturu ekki neitað.

ThoR-E, 28.4.2009 kl. 10:09

22 identicon

Og Halldór, ég sagðist aldrei fagna þáttöku þeirra sem voru með ofbeldi í mótmælunum. Langt í frá.

Og mest voru einhverjir unglingar og ungmenni sem blönduðu sér í mótmælin ... margir bara til að "slást við lögreglu" og "skemta sér" ... tengdist ekki mótmælum á neinn hátt ... oft.

Það voru svartir sauðir meðal mótmælenda .. en einnig meðal lögreglu.

Þannig að ... ættum kannski ekkert að fara meira út í það ... lögregla varð uppvís oft tilefnislausu og grófu ofbeldi ítrekað. Það eru til myndbönd og myndir af því.

AceR (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 10:13

23 identicon

Þór Saari,

hjartanlega til hamingju með glæsilegan sigur sem þú og aðrir leiddu til lykta fyrir okkur - "skrílinn" -  sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni sælla minninga.  Munum bara að baráttan er þó rétt að byrja ... 

Bestu kveðjur frá Hallfríði Ingimundardóttur - í FG

Hallfríður Ingimundardóttir (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 12:29

24 identicon

Ég vorkenni Baldvini Jónssyni.   Burtu Bertilsson.  Inn Jónsson.

Naglalakk (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 13:31

25 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Til hamingju þó seint sé frá mér en ég hef ekki verið í almennilegu netsambandi undanfarið. Umfram allt megum við í X-O ekki gleyma því að það er þjóðin og hennar hagur sem stendur framar öllu öðru. Við fótgönguliðarnir munum halda okkar nýju þingmönnum við efnið.

Arinbjörn Kúld, 2.5.2009 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband