Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hreyfingin - yfirlýsing

Hópur fólks, þar með taldir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar og tveir varaþingmenn, hafa komið sér saman um stofnun nýrrar hreyfingar með það að markmiði að framfylgja upprunalegri stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar og veita grasrótarhreyfingum rödd á Alþingi. Hópurinn mun innan skamms leggja fram samþykktir sem miða að því að lágmarka miðstýringu og opna fleiri en skráðum meðlimum þátttöku, enda verður ekki haldið sérstaklega um félagaskrá.

Með þessu telur hópurinn sátt tryggða í baklandinu, enda ekkert til fyrirstöðu að Borgarahreyfingin í núverandi mynd geti ekki verið hluti af þessari hreyfingu eins og önnur grasrótarsamtök.

Það er trú hópsins að hreyfingin geti ekki verið þverpólitískt bandalag almennings sem vill uppræta flokkseigendaklíkur á sama tíma og hún útiloki samstarf við fólk og hópa vegna strangra inntökuskilyrða. Þá er vænlegra að vinna þverpólitískt innan þings sem utan með áherslu á hin upprunalegu stefnumál. Stefnuskráin er verkefnalisti, og þegar hann er tæmdur mun hreyfingin, eins og lofað var, vera lögð niður.

Það er því hryggðarefni að sú stefnuskrá sem lagt var af stað með í upphafi hefur í undangenginni orrahríð orðið að aukaatriði og gerðar tilraunir til að taka inn fjöldi annarra málefna sem aldrei var sammæli um né ætlunin að sinna. Markmiðin eru þar með orðin óljós, og hugmyndin um skyndiframboð í takmarkaðan tíma með fá málefni er að engu orðin. Skærasta birtingarmynd þess, hin nýsamþykktu lög Borgarahreyfingarinnar, snúast þess í stað um völd, valdheimildir, valdboð, refsingar, brottvikningu, hljóðritanir og það að stofna stjórnmálaflokk með stjórnmálamönnum; enn einn flokkinn.

Það stóð aldrei til að Borgarahreyfingin ílengdist á Alþingi. Í því fólst styrkur hennar ekki síst, enda líta þeir þingmenn hennar sem hér eiga hlut á það sem lýðræðisleg forréttindi að geta starfað á þingi án þess að binda hugi sína og hjörtu við næstu kosningar. Geta fylgt sannfæringu sinni sem fulltrúar kjósenda, óháð sýndarárangri og atkvæðaveiðum.

Hreyfingin ætlar að vera sameiningartákn þeirra sem sjá enga von í flokkakerfinu, og trúir því að saman getum við rutt úr vegi þeim hindrunum sem hafa staðið í vegi fyrir raunverulegu lýðræði á Íslandi.

Hreyfingin - fyrir fólkið í landinu.

Talsmaður Hreyfingarinnar uns ráðin hefur verið framkvæmdarstjóri er:

Daði Ingólfsson, s. 822-9046 - dadi@1984.is

hreyfingin.blog.is


Borgarahreyfingin breytir sér

Þessi grein eftir okkur þrjú, Birgittu, Margréti og mig birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Borgarahreyfingin breytir sér

Á landsfundi Borgaraheyfingarinnar sl. laugardag, tókum við undirrituð, þingmenn hreyfingarinnar, þá ákvörðun í framhaldi af samþykkt fundarins á nýjum lögum, að færa okkur um set. Það gerðum við að vel ígrunduðu máli og í anda þeirrar margradda hugmyndafræði sem hreyfingin sprettur úr; óbundin hvers kyns miðstýringu valds og stöðnuðu fundaformi feðraveldisins. Við fórum fram til að geta rætt við þá sem vildu, án þess að trufla aðra vinnu fundarins.

Við höfðum lagt fram tillögur að samþykktum fyrir hreyfinguna sem voru í anda uppruna hennar og tilgangs til mótvægis við aðrar tillögur að samþykktum sem umturna hreyfingunni, opna á það að gjörbreyta stefnuskránni og beinlínis gera aðild þingmanna að "flokknum" ólöglega. Tillögur okkar voru felldar án rökstuðnings.  All flestar tilraunir okkar baklands til breytinga við hinar nýju samþykktir voru einnig felldar.

Sá hópur sem nú hefur gert Borgarahreyfinguna að sinni, hefur vafalítið ástæður til að efast um störf okkar. Kannski misskildum við hlutverk okkar þegar við ákváðum að sinna stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á þingi í stað þess að einbeita okkur að hugmyndafræði þessara sjálfskipuðu lykilmanna.

Er það hugsanlegt að það séu okkar alvarlegustu mistök að hafa tekið þingstörf fram yfir daglegt samneyti, samræðu og karp við þetta ágæta fólk, sem þoldi bersýnilega ekki við í tómarúminu eftir kosningaslaginn og einhenti sér, svona frekar en ekkert, í uppbyggilegt og stranglýðræðislegt niðurrif á störfum okkar þriggja, þess ógæfufólks hreyfingarinnar sem tekið hafði sæti (þeirra) á Alþingi. Allt er jú betra en aðgerðarleysið.

Við aðstæður sem þessar, þar sem svo herfilega rangt er gefið að sumra mati, skiptir undarlega litlu hvernig spilað er úr stokknum, niðurstaðan verður alltaf vitlaus. Og þess vegna verður allt vitlaust - hvenær sem tilefni gefst eða jafnvel án tilefna.

Þessi afstaða nýrra flokkseigenda, þar sem veruleikinn er jafn skakkur og raun ber vitni, elur iðulega af sér örvæntingarfullar tilraunir til "leiðréttingar", líkt og dæmin sanna. Boðað var til tilefnislauss aukaaðalafundar í kjölfar kosninga svo hægt væri að kjósa rétt fólk í stjórn - úr því svona illa tókst til með þingsætin. Sú stjórn reyndist hins vegar haldin meiri sjálfseyðingarhvöt en svo að áður en varði hafði hún splundrað sjálfri sér með sjálfbærum hætti; þ.e.a.s. án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar.

Sú dapra reynsla kemur þó ekki í veg fyrir að þetta sama fólk hefur nú ákveðið að endurtaka leikinn; boðar til landsfundar með háskalega stuttum fyrirvara og raðar sér með postulegum hætti í enn eina stjórnina sem nú á að hafa þann starfa helstan að leiðrétta ákvarðanir þingmanna og nær 14.000 kjósenda. Og úr því menn voru byrjaðir munaði þá ekki um að breyta eðli og inntaki hreyfingarinnar og stefnuskránni í leiðinni. Þeirri stefnuskrá og þeirri hreyfingu sem kjósendur gáfu atkvæði sitt í vor.

Lýðræði er samræða um val, flokksræði er samráð um vald.

Við tökum undir með þeim lesendum sem telja vandséð hvernig okkur væri stætt á því að halda áfram einhvers konar samstarfi við títtnefndan hóp manna. Í krafti bloggsins blessaða og "umræðunnar" hafa of margir núverandi stjórnarmanna sært með orðum sínum, rofið trúnað og snúið sameiginlegum ákvörðunum á haus, til að geta talist trausts verðir. Í raun sýnt af sér meira ódrenglyndi og ábyrgðarleysi en vænta mætti frá svörnum pólitískum andstæðingi.

Kannski er það þetta sem gerist þegar menn fara að líta á sig sem væntanlega valdhafa í pólitísku valdabrölti fremur en hluta af skammlífri og þverpóltískri grasrótahreyfingu. Þegar þolinmæðina þrýtur gagnvart tímafrekri umræðu og hugmyndir um opna hreyfingu verða skyndilega "fullreyndar" og ekki á vetur setjandi.

Það stóð aldrei til að Borgarahreyfingin ílentist á Alþingi. Í því felst styrkur okkar ekki síst. Við lítum á það sem lýðræðisleg forréttindi að geta starfað á þingi án þess að binda hug okkar og hjarta við næstu kosningar. Geta fylgt sannfæringu okkar sem fulltrúar kjósenda, óháð sýndarárangri skoðanakannanna og atkvæðaveiðum.

Við höfum fram til þessa ekki svarað dylgjum og meiðingum stjórnarmanna Borgarahreyfingarinnar. Þetta er okkar fyrsta og síðasta athugasemd af þessu tagi.

Við hlökkum til að sinna áfram þeim verkefnum sem kjósendur Borgarahreyfingarinnar fólu okkur og komu fram í stefnuskrá hreyfingarinnar fyrir kosningar. Samkvæmt þeirri stefnu munum við vinna hér eftir sem hingað til.

Birgitta Jónsdóttir

Margrét Tryggvadóttir

Þór Saari.


Yfirlýsing frá þingmönnum Borgarahreyfingarinnar

Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar í gær 12. september voru samþykkt lög fyrir hreyfinguna sem ganga í berhögg við uppruna, tilgang og stefnu hreyfingarinnar.

Borgarahreyfingin spratt upp sem lýðræðisafl til höfuðs þeim hefðbundnu stjórnmálaflokkum sem fyrir voru og hefur nú tapað sjónum á ábyrgð sinni við kjósendur þessa lands. Með þessum nýju lögum er staðfest ótímabær uppgjöf gagnvart þeim nýju lýðræðislegu starfsháttum og þverpólitíska starfi sem lagt var upp með.  Borgarahreyfingunni hurfu nú verið breytt í miðstýrðan stjórnmálaflokk, þvert á upprunalegar samþykktir og stefnuskrá.

13.499 manns greiddu upprunalegri hugmyndafræði Borgarahreyfingarinnar atkvæði sitt í vor og veittu okkur þar með umboð sitt til að fylgja henni eftir samkvæmt bestu vitund og sannfæringu. Það vefst því eðlilega fyrir okkur að atkvæði einungis 54 manna á landsfundi, innan við tíundi hluti þeirra sem þar hafa atkvæðisrétt, geti snúið á hvolf þeirri stefnu sem okkur var falið að vinna samkvæmt.

Skyldur okkar sem þingmanna eru við kjósendur okkar og með þeim viljum við vinna að þeim knýjandi umbótum og raunverulega viðsnúningi viðhorfa og vinnuaðferða sem nauðsynlegur er á næstu misserum.

Við munum því taka okkur þann tíma sem þarf til að ákveða með yfirveguðum hætti hvort og þá hvernig við sjáum okkur fært að starfa með Borgarahreyfingunni við þessar aðstæður.

Birgitta Jónsdóttir

Margrét Tryggvadóttir

Þór Saari

þingmenn Borgarahreyfingarinnar


Brú milli þjóðar og þings

Hér er grein sem við þrjú Birgitta, Margrét og ég fengum birta í Morgunblaðinu í gær.

Brú milli þjóðar og þings

Á laugardaginn kemur heldur Borgarahreyfingin sinn fyrsta landsfund og ræður ráðum sínum um næstu skref í starfi í sínu í þágu þjóðarinnar. Hreyfingin vann eftirminnilegan sigur í kosningum sem haldnar voru í kjölfar endurtekinna þjóðfunda á Austurvelli þar sem breiðfylking borgara þessa lands krafðist réttlætis og raunverulegs lýðræðis. Það var einmitt upp úr þessum fundum sem hreyfingin var sprottin og þangað sótti hún hugmyndir sínar og kröfur.

Í aðdgraganda kosninganna er Borgarahreyfingin þess vegna kynnt sem breiðfylking fólks sem á fátt annað sameiginlegt en að vera virkir borgarar í lýðræðissamfélagi. Fólks með fjölbreyttan bakgrunn og ólíkar lífsskoðanir. Stjórnmálaafl sem sinnir hagsmunavörslu fyrir einn hóp - þjóðina - og hefur eina meginreglu að leiðarljósi; að færa völdin frá flokksræði til lýðræðis.

Frá flokksræði til lýðræðis

Það er ástæða til að rifja þessi orð upp hér og halda þeim til haga á komandi landsfundi. Þau eru í okkar huga, sem höfum tekist á hendur sú ábyrgð að vera fulltrúar Borgarhreyfingarinnar á Alþingi íslendinga, sá kjarni sem starf okkar á að snúast um. Í þeim felast sannindi sem ekki mega undir nokkrum kringumstæðum gleymast.

Það hefur sýnt sig í öllum samfélögum á öllum tímum, að það vald sem skapast í krafti miðstýringar og regluverks verður á skömmum tíma uppteknara af viðhaldi sjálfs sín en þeim jarðvegi sem það er upphaflega sprottið úr.

Þess sjást víða merki í fréttaflutningi og á spjallrásum vefsins hversu undurfljótt hugmyndin um miðstýrt flokksapparat sem hafa þarf vit fyrir fólki lætur á sér kræla. Þannig hefur tiltölulega fámennur hópur gert tilkall til eignarhalds á hreyfingunni í kjölfar kosningasigursins og sumir einstaklingar meira að segja tekið að líta á sig sem fulltrúa heillar þjóðar og þá líklegast vegna góðrar mætingar þeirra á félagsfundi.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að einhverjir missi þannig sjónar á upphaflegu erindi lýðræðishreyfingar eins og þessarar því flokksræðið með eignarrétti fárra útvalinna er nokkurn vegin eina fyrirmyndin að stjórnmálaafli sem við höfum í þessu landi og rætur þess liggja dýpra en nokkurn grunar. En það er líka hálfkaldhæðnislegt að þurfa ítrekað að svara kröfum um meint vald sjálfskipaðra flokkseigenda yfir þingmönnum hreyfingarinnar, í ljósi þess að slíkur hráskinnsleikur er einmitt dæmigerð birtring þess múlbundna veruleika stjórnsýslu og miðstýringar sem Borgarahreyfingunni var frá upphafi ætlað að vinda ofan af.

Dýrmæt reynsla

Það er heilmikið til í því sem haldið hefur verið fram að ekki hafi nægilega vel verið hugað að skipulagi starfsins og áframhaldandi þróun mála eftir kosningar. Að menn hafi ekki verið viðbúnir því að ná raunverulegum árangri, hvað því að koma fjórum mönnum á þing. Til þess var tíminn einfaldlega of knappur, reynsluleysi okkar allra of mikið. Engu að síður er fátt sem bendir til  þess að ekki hafi verið unnið vel úr góðum árangri - hvernig fyrirfram ákveðin áætlun eða ákvarðanir um vinnulag hefðu gert störf okkar auðveldari eða markvissari. Til þess hafa aðstæður einfaldlega verið of ófyrirsjáanlegar og í raun súrrealískar.

Hér leynist líklega ein mikilvægasta mótsögn veruleikans og sú sem erfiðast getur verið að sætta sig við, nefnilega sú, að veruleikinn er, líkt og maðurinn sjálfur, ólíkindatól og skreppur alltaf úr höndum skipulagsins - og miðstýringarinnar þá minnst varir.

Í því ljósi má segja að það hafi ekki verið svo galið að vita ekki upp á hár hvernig bregðast skildi við kosningasigri, en bregðast þess í stað við þeim veruleika á eigin forsendum þegar þar að kæmi. Og það er einmitt það sem við höfum verið að gera frá fyrsta degi. Það má kalla það spuna eða flæði, það má líka orða það svo að við höfum lagt meiri áherslu á að vanda okkur á hverju og einu augnabliki en að vinna eftir fyrirfram njörfaðri áætlun. Fyrir vikið höfum við gert alls kyns mistök, yfirsést ýmislegt og ofgert öðru. En þannig höfum við líka lært að nýta enn betur þau tækifæri sem gefist hafa til að vega og meta, endurskoða og tengja, með betri árangri en nokkur flokkslína eða niðurnjörfuð hugmyndafræði leyfir. Þar er mikilvægasta lexían fólgin í því gjöfula samstarfi sem við höfum átt við fjöldan allan af fólki, jafnt kjósendur okkar sem aðra, sem verið hafa í sambandi við okkur á þeim fjölbreytta vettvangi sem í boði er í samtímanum; hvort sem er með samtölum á neti og í síma, á fundum eða á förnum vegi. Við höfum lagt mikla áherslu á að auðvelt sé að nálgast okkur, að við séum ekki atvinnupólitíkusar í þeirri einangrandi merkingu sem í því hefur falist, að við neitum að fylgja flokkslínum en hlustum eftir öllu sem rétt er og gagnlegt og göngumst við því sem aðrir gera betur en við og látum ekki fyrirfram merkt hólf móta hegðun okkar né afstöðu.

Þannig sjáum við hlut Borgarahreyfingarinnar verða mestan; sem vettvang opinnar hugmyndafræði og vakandi, heiðarlegrar endurskoðunar. Sem barnsins sem er alltaf tilbúið að spyrja þess sem venjan er að þegja um, en jafnframt sem manneskjunnar sem tekur út þroska sinn í samspili ólíkra viðhorfa og reynslu og býr yfir æðruleysi þess sem ekkert hefur að fela.

Við erum þess fullviss, að fenginni dýrmætri reynslu, að þinginu væri betur farið og þar með þjóðinni allri, ef hver og einn þingmaður ynni sannanlega samkvæmt eigin sannfæringu og tæki ákvarðanir út frá eigin innsæi, byggðu á opnum huga og einlægum áhuga á framgangi þess sem sannara og  betra reynist. Þannig gæti enginn dulist á bak við flokksmúra þegar hentaði né þurft að beygja sig undir svokallaðan flokksaga þegar flokknum hentaði.

Við höfum vissulega orðið að læra hratt á nýjum vinnustað og ekki átt annars úrkosti en starfa samkvæmt þeim venjum sem þar eru í hávegum hafðar. Þegar við bætist að þingheimi hefur verið haldið í gíslingu tveggja umræðuefna frá fyrsta degi, er óhætt að halda því fram að svigrúm nýs stjórnmálaafls til athafna og áhrifa hafi reynst æði takmarkað. Engu að síður höfum við orðið vitni að breytingum í starfsháttum, viðmóti og hlutverkaskipan innan hins háa Alþingis sem gefa til kynna að tilvist lýðræðishreyfingar eins og þeirrar sem við erum fulltrúar fyrir hafi mun meiri áhrif en nokkur  hefði þorað að vona. Kannski vegna þess að eðli málsins samkvæmt er Borgarahreyfingin ótamið afl sem ætlar sér ekki að læra leikreglurnar allt of vel. Óbundinn fulltrúi mennskunnar sem nýtur þess að geta fylgt eigin sannfæringu eins og hún birtist í hjarta hvers manns. Nokkuð sem  fokksmönnum" innan hreyfingarinnar hefur reynst erfitt að sætta sig við. Eða eins og einn félagi okkar hefur bent á: "Við ætluðum okkur að skapa meðal annars vettvang í samfélaginu fyrir persónukjör, en á sama tíma virðast samt margir ekki aðhyllast það að þingmenn séu persónur."

Að þessu sögðu blasir við:

- að Borgarahreyfingunni er ætlað mun stærra og mikilvægara hlutverk en svo að hún megi verða flokksræði og forsjárhyggju fárra manna að bráð.

- að næsta skref felst í að tryggja enn frekar virkni hreyfingarinnar með jafnræði í skipulagi hennar og uppbyggingu.

- að sem opinn og lýðræðislegur vettvangur hefur Borgarahreyfingin alla burði til að vera sú brú milli þjóðar og þings sem stefnt var að frá upphafi.

Áfram veginn

Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar á laugardaginn verða lagðar fyrir samþykktir um hreyfinguna sem fela í sér skref í átt til enn frekari árangurs á þeim vettvangi sem við störfum á og opna m.a. grasrótahreyfingum og einstaklingum raunhæfa leið til áhrifa innan stjórnkerfisins. Við teljum þjóðina þurfa á slíku tækifæri að halda nú meira en nokkru sinni fyrr og hvetjum því alla sem láta sig málin varða til að kynna sér samþykktirnar á heimasíðu hreyfingarinnar www.xo.is og leggja sitt af mörkum á komandi landsfundi.

Með kæri þökk fyrir gott samstarf hingað til.

Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, þingmenn Borgarahreyfingarinnar

 

 

 

 


Landsfundur Borgarahreyfingarinnar

Framundan er landsfundur Borgarahreyfingarinnar þar sem við komum saman til að leggja línurnar að áframhaldandi starfi, kjósum m.a. nýja stjórn og tökum afstöðu til hvernig við viljum hafa Borgarahreyfinguna.

Þetta eru mikilvæg mál og blikur eru á lofti um hvort hreyfingin komi ósködduð út úr landsfundinum vegna ágreinings sem uppi hefur verið um valdsvið ákveðinna eininga hreyfingarinnar.  Sú orrahríð sem gengið hefur yfir að undanförnu er hins vegar að hluta til tilkomin vegna þess þokukennda skipulags sem hreyfingin hefur starfað eftir og ekki hefur unnist tími til að koma lagi á.

Hópur fólks þ.á.m. þingmenn hreyfingarinnar hafa lagt fram tillögur að samþykktum fyrir hreyfinguna sem að okkar mati gera hana að því virka grasrótarafli sem lagt var af stað með í upphafi (sjá neðst).  Þar eru engin völd handa neinum og fámenn fimm manna stjórn hefur fyrst og fremst það hlutverk að fylgjast með að framkvæmdastjóri starfi eftir nákvæmri starfslýsingu sem miðar að því að samræma krafta allra þeirra sem koma að hreyfingunni.  Markmiðin eru algerlega skýr, að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskrár í framkvæmd og svo leggja sig niður og hætta störfum þegar því takmarki er náð eða sýnt er að það náist ekki.  Hreyfingin verður og algerlega opin og mun virka sem stuðningsapparat fyrir allar grasrótarhreyfingar á Íslandi og aðstoða þær við að koma málum sínum á framfæri.  Þingmennirnir munu vinna stefnumálunum fylgi inni á Alþingi og funda reglulega með grasrótinni á opnum fundum.  Mjög ákveðnir fyrirvarar eru við sumar greinar samþykktana sem gera það að verkum að ekki er hægt að breyta tilgangi hreyfingarinnar né hefta lýðræðislega ákvarðanatöku.  Einnig er ítarlega gerð grein fyrir með hvaða hætti á að verja þeim fjármunum sem hreyfingin fær.

Þessar tillögur að samþykktum, ef þær verða samþykktar, munu búa til hreyfingu sem er í anda þess sem við vildum alla tíð en vegna reynslu- og tímaskorts höfum ekki getað klárað fyrr.  Þær eru líka í anda þess sem fjöldi félagsmanna og grasrótarhópa sem stóðu að hreyfingunni frá upphafi hafa kallað eftir.  Þær eru hins vegar ekki flokkssamþykktir og í augum sumra sem starfað hafa í hefbundnu félagsstarfi lengi virka þær "ómögulegar".  Endimörk þess mögulega eru hins vegar ekki alltaf ljós og þó að flokkakerfi og flokkslög hafi gert fjórflokknum kleift að hanga saman í áratugi þá er ekki þar með sagt að það hafi verið til góðs fyrir lýðræðið, hvorki innan flokkana né í samfélaginu.  

Spurt var: Hva! Valdalaus stjórn, til hvers?  Svörin eru: Til hvers er stjórn?  Þarf að stjórna?  Hverju þarf að stjórna, og af hverju?  Þegar þessum spurningum var svarað urðu þessar tillögur til.

Spurt var: Engin félagaskrá, af hverju?  Svörin eru:  Félagaskrá er stjórntæki. Þarf stjórntæki?  Ef hópur fólks vill taka yfir hreyfinguna þá eru varnaglar við mögulegar athafnir þeirra í samþykktunum.  En ef þeir varnaglar halda ekki?  Þá bara stofnum við nýja hreyfingu á morgun og reynum aftur.

Annar hópur fólks innan hreyfingarinnar hefur einnig unnið að tillögum að lögum fyrir hreyfinguna sem lagðar verða fram á fundinum.  Þessar tillögur eru vandaðar og vel unnar og standa sem slíkar alveg fyrir sínu.  Þær eru hinsvegar í anda fjórflokkana og gera Borgarahreyfinguna að því sem hún átti aldrei að vera, að tiltölulega hefðbundnum stjórnmálaflokki með sterkri stjórn sem STJÓRNAR.  Sú stefnuskrá sem lagt var af stað með í upphafi er orðin aukaatriði og tekinn er inn fjöldi annarra málefna sem aldrei var sammæli um né ætlunin að sinna.  Markmiðin eru þar með orðin það óljós að hugmyndin um skyndiframboð í takmarkaðan tíma með fá málefni er að engu orðin.  Þótt margt sé gott og sumt mjög gott þá er heildin ekki góð.  Þessar tillögur snúast um völd, valdheimildir, valdboð, refsingar, brottvikningu, hljóðritanir og það að stofna stjórnmálaflokk með stjórnmálamönnum, enn einn flokkinn.  Er virkilega þörf á því?  Ég bara spyr.   Mitt svar er alla vega nei.

Við náðum stórkostlegum árangri í kosningunum í vor einmitt vegna þess að við vorum öðruvísi.  Við tókum kjarkmiklar en mikilvægar ákvarðanir í miðri kosningabáráttunni.  Ein sú mikilvægasta var að hætta að nota allt titlatog og "formaður", "varaformaður" og "ritari" hættu að vera til nema til að uppfylla lög um félagaskráningu.  Við það breyttist dýnamíkin í baráttunni, allir réðu og við upplifðum fítonskraft allra sem komst strax í framkvæmd vegna þess að það þurfti ekki lengur að bíða eftir formanni sem þó ötull væri var kannski lasinn, eða ekki kominn, eða á Akureyri, eða að kaupa brauð.

Við gerðum líka mistök, en það fylgir og vonandi höfum við lært af þeim.  Það flokkakerfi og sú leiðtogadýrkun sem við búum við þarf að verða arfur fortíðar því það á ekki heima í alvöru lýðræðisríki.  Hugsið ykkur bara allt tjónið sem botnlaus leiðtogadýrkun á t.d. Davíð Oddsyni, Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur valdið, bæði vegna óskoraðs valds þeirra en einnig vegna þess tómarúms og stjórnleysis sem skapaðist við skyndilegt brotthvarf þeirra.

Þessu höfnum við.  Við höfnum því ákveðið og við höfnum því stolt.  Þetta er úrelt kerfi  sem komið er að fótum fram og verður að breytast.  Flokksagi, flokkshollusta, leiðtogar. NEI TAKK.  Þetta eru afsakanir og skjól.  Skjól fyrir baktjaldamakk.  Skjól fyrir mistök.  Skjól fyrir þá sem hafa ekki þor til að taka persónulega afstöðu og standa með henni.

Róttæk skynsemi þarf að vera leiðarljósið.  Lýðræði, ekkert kjaftæði, þarf að vera reglan.  Hreyfing, ekki flokkur, þarf að vera formið.  Hvernig sem fer á laugardaginn þá megum við samt öll vera stolt.  Við höfum náð langt.  Vaxtarverkirnir verða e.t.v. áfram erfiðir og kannski til skaða.  En það verður þá bara tímabundið.  Við viljum aukið lýðræði og þangað stefnum við.  Hvort það verður öll sem eitt eða undir fleiri en einum hatti skiptir vissulega máli.  Við erum hins vegar komin til að vera, öll.  Og það er málið.

Samþykktir

Borgarahreyfingarinnar 

Félagið heitir Borgarahreyfingin og er starfsvæði þess Ísland. Heimili Borgarahreyfingarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

Borgarahreyfingin skal lúta lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Öll fjármál hreyfingarinnar skulu vera opinber og aðgengileg almenningi.

Markmið

1.  Markmið Borgarahreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskráar sinnar í framkvæmd og hún skal leggja sig niður og hætta störfum þegar markmiðunum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð.  Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

2.  Aukamarkmið hreyfingarinnar er að hjálpa grasrótarhreyfingum á Íslandi að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

3.  Hreyfingin býður fram til alþingiskosninga til að ná fram markmiðum sínum.

Skipulag

Framkvæmdastjóri

1.  Þegar fjárráð leyfa skal hreyfingin ráða framkvæmdastjóra. Verksvið hans verður:

  • að starfa með grasrótarhreyfingum á Íslandi og hjálpa þeim að koma boðskap sínum á framfæri:
    • við þingmenn Borgarahreyfingarinnar.
    • við þingmenn annarra stjórnmálaafla.
    • við aðra grasrótarhópa.
    • við stofnanir og fyrirtæki eftir því sem þurfa þykir.
    • við almenning í gegnum fjölmiðla og rafræna miðla.
  • að auðvelda grasrótarhópum starfsemi sína með því að útvega fundaraðstöðu og annað sem þarf og er á færi hreyfingarinnar auk þess að miðla reynslu annarra hópa
  • að halda utan um hópa sem vilja starfa fyrir hreyfinguna á einn eða annan hátt
  • að sjá um fjármál hreyfingarinnar, bæði uppgjör og áætlanir
  • að skipuleggja atburði sem tengjast stefnumálum hreyfingarinnar s.s:
    • auglýsa eftir framboðum á vegum hreyfingarinnar til nýrra alþingiskosninga ef þurfa þykir.
    • skipuleggja árlegan opinn landsfund hreyfingarinnar.
    • aðrir atburðir.

2.  Framkvæmdastjóri skal ráðinn á faglegum forsendum ofannefndrar verksviðslýsingar af einni af þremur stærstu ráðningarstofum landsins hverju sinni er best býður í verkið. Önnur ráðningastofa eða fagaðili skal meta störf framkvæmdastjóra á hálfs árs fresti eða þegar stjórn hreyfingarinnar óskar sérstaklega eftir því.

3.  Framkvæmdastjóri hefur yfirsýn yfir hópa sem starfa undir nafni hreyfingarinnar og skal halda opnum samskiptaleiðum við þá, þ.m.t. póstlista.

4.  Ekki skal haldið sérstaklega utan um félagaskrá Borgarahreyfingarinnar.

5.  Framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt í neinu máli sem kosið er um á vegum hreyfingarinnar og skal ekki hafa frumkvæði að stofnun hópa innan hennar. Framkvæmdastjóri skal einnig leitast við að vera hlutlaus í öllum málum.

6.  Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegu starfi og fjármálum hreyfingarinnar og er talsmaður hennar.

Stjórn

1.  Stjórn hreyfingarinnar skal mynduð af fjórum aðalmönnum auk fjögurra varamanna. Aðalmenn og varamenn sitja í tvö ár í senn. Tveir nýir aðalmenn og tveir nýir varamenn skulu kosnir í stjórn ár hvert. Stjórnarmenn skiptast á að bera titlana formaður, ritari og gjaldkeri, þrjá mánuði hver.

Á fyrsta kjörtímabili stjórnar skulu fjórir aðalmenn og fjórir varamenn kosnir, en þeir tveir aðalstjórnarmanna með fæst atkvæði á bak við sig skulu víkja að ári liðnu og varamenn taka þeirra stað.

Þingmenn og fyrstu varaþingmenn skulu ekki taka þátt í kjöri til stjórnar.  Nú nær stjórnarmaður kjöri til þingmensku þá skal varamaður taka sæti hans.

Að auki skal stjórnin skipuð einum úr þingmannahópi hreyfingarinnar sem skal skipta inn jafnt innan hvers árs milli þingmanna eftir stafrófsröð.  Þingmaður er alltaf almennur stjórnarmaður en ekki ritari, gjaldkeri eða formaður.

2.  Stjórnin skal hittast minnst einu sinni í mánuði, einungis til að meta störf framkvæmdastjóra og, ef tilefni er til, óska eftir mati á störfum hans af óháðum, faglegum aðila, sem ekki skal vera ráðningarfyrirtækið sem réði hann upphaflega. Ef matsaðilinn metur framkvæmdastjórann óhæfan til að starfa áfram skal honum sagt upp og nýr framkvæmdastjóri ráðinn í hans stað á sama hátt og áður er getið.

3.  Stjórnin skal leitast við eftir fremsta megni að vera sammála í niðurstöðum sínum.  Náist ekki samstaða um mál skal því frestað til næsta stjórnarfundar. Ef ekki næst samstaða á þriðja fundi skal nefndin greiða atkvæði um ágreiningsmálið.

4.  Stjórn skal bera ábyrgð á fjárreiðum Borgarahreyfingarinnar, skuldbindingum hennar og fullnustu þeirra. Ekki skal fela öðrum en framkvæmdastjóra ábyrgð á fjárreiðum eða rekstri hreyfingarinnar.

6.  Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætar skulu að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn. Fundargerðir stjórnarfunda, þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, skal birta á Netinu strax að fundi loknum og athugasemdir við þær skulu vera opinberar.

7.  Stjórnin skal gæta trúnaðar gagnvart hreyfingunni í störfum sínum.

8.  Stjórnarmönnum er heimilt að gegna stjórnarsetu í mesta lagi tvö ár samfellt, með tveggja ára hléi þar á eftir.  Enginn skal sitja í stjórn lengur en samtals fjögur ár.  Stjórnarseta skal vera launalaust sjálfboðastarf án nokkurra fríðinda.  Ferðakostnaður stjórnarmanna utan höfuðborgarsvæðisins skal greiddur af hreyfingunni.

Nefndir

1.  Landsfundarnefnd er eina fasta nefnd hreyfingarinnar. Öllum er heimilt að taka þátt í henni.  Landsfundarnefnd skal vinna með framkvæmdastjóra að skipulagningu landsfundar.

2.  Aðrir sem vilja starfa að þeim málefnum hreyfingarinnar sem koma fram í stefnuskrá eða aðstoða við innra starf eða málefnavinnu geta myndað hópa innan hennar og skulu njóta stuðnings framkvæmdastjóra við störf sín.

3.  Hópar, eða meðlimir hópa tengdir hreyfingunni eru ekki talsmenn hennar, en er það eitt skylt að upplýsa framkvæmdastjóra um framgang hópanna eftir bestu getu og geta óskað eftir aðstoð hans ef með þarf.

Landsfundur

1.  Landsfund skal halda einu sinni á ári. Þar skal kosið um hvort hreyfingin verði lögð niður, og nægja tveir þriðju hlutar atkvæða til þess. Að öðru leyti setur framkvæmdastjóri dagskrána í samstarfi við landsfundarnefnd hreyfingarinnar.

2.  Landsfundur skal haldinn í september ár hvert. Landsfundur er löglegur ef til hans er sannanlega boðað með sex vikna fyrirvara. Í landsfundarboði skal koma fram dagskrá fundar og breytingartillögur á samþykktum þessum sem leggja á fyrir fundinn.  Framkvæmdastjóri skal boða til landsfundar.

Landsfundur hefur æðsta vald í öllum málum Borgarahreyfingarinnar.  Allir kjörgengir Íslendingar hafa á landsfundi Borgarahreyfingarinnar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt.

Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

3.  Landsfund skal boða með tilkynningu á vefsíðu hreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráða netfangalista á vegum hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddum prentmiðli.

4.  Stjórn Borgarhreyfingarinnar er kosin á landsfundi.

5.  Landsfundur samþykkir fundarsköp og skal landsfundi og öðrum fundum Borgararhreyfingarinnar stjórnað í samræmi við þau.

6.  Dagskrá landsfundar skal vera:

1. Kosning fundarstjóra

2. Skýrsla stjórnar

3. Breytingar á samþykktum

4. Stjórnarkjör

5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar

6. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga

7. Önnur mál

7.  Til aukalandsfundar skal boða óski tveir af fimm stjórnarmönnum þess, eða 7% af fjölda þeirra er greiddu hreyfingunni atkvæði í undanfarandi alþingiskosningum. Aukalandsfundur er löglegur ef til hans er sannanlega boðað með tveggja vikna fyrirvara.

Reglur um aukalandsfund eru samhljóða reglum um landsfund nema óheimilt er á aukalandsfundi að breyta lögum þessum. Dagskrá landsfundar tekur breytingum eftir því til hvers hann er boðaður. Sé aukalandsfundur boðaður vegna vantrauststillögu á stjórn skal skipta út liðnum "Stjórnarkjör" fyrir liðinn "Vantrauststillaga á stjórn."

Sé vantrauststillagan samþykkt skal haldinn aukalandsfundur að sex vikum liðnum til að kjósa nýja stjórn.

8.  Á landsfundi skulu kjörnir tveir fulltrúar í stjórn og tveir til vara til tveggja ára í senn.

Hver kjósandi skal skrifa nöfn fjögurra eða færri frambjóðenda til stjórnar á kjörseðil. Atkvæði skulu talin fyrir opnum tjöldum. Þeir tveir sem hljóta flest atkvæði skulu teljast rétt kjörnir í stjórn. Næstu tveir að atkvæðavægi taka sæti í varastjórn. Allir kosningabærir landsmenn geta gefið kost á sér til setu í stjórn.

Þinghópur

1.  Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á Alþingi.

2.  Í öllum málum skulu þingmenn vera í tengslum við þau grasrótaröfl sem hafa með viðkomandi málaflokk að gera.  Þingmenn skulu boða til opins fundar a.m.k. einu sinni í mánuði.  Slíkir fundir skulu einnig haldnir utan höfuðborgarsvæðisins þegar hægt er.

Starfsfólk

1.  Framkvæmdastjóri skal ráðinn til að sjá um daglegan rekstur hreyfingarinnar auk annarra verkefna sbr. starfslýsingu. Framkvæmdastjóri getur ráðið starfsmenn í samráði við stjórn. Allir trúnaðarmenn hreyfingarinnar (stjórn og framkvæmdastjóri) skulu gera grein fyrir tengslum sínum við fólk sem þiggur greiðslu frá hreyfingunni fyrir störf í hennar þágu.

2. Stjórn Borgarahreyfingarinnar skal semja við framkvæmdastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3.  Framkvæmdarstjóri skal semja við annað starfsfólk um laun sem skulu þó eigi vera lægri en eins og hálffaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna og ekki hærri en þrefaldur sami taxti.

Alþingiskosningar

1.  Hlutverk frambjóðenda til alþingiskosninga er að koma stefnumálum hreyfingarinnar á framfæri samkvæmt gildandi lögum um kosningar.

2.  Kosningastjóri skal ráðinn á sama hátt og framkvæmdastjóri og eigi síðar en þremur mánuðum fyrir alþingiskosningar. Stjórnin semur við kosningastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3.  Allir kjörgengir íslendingar geta gefið kost á sér á framboðslista í hvaða kjördæmi sem er. Framboðsfrestur rennur út átta vikum áður en skila þarf framboðslistum til kjörstjórna. Þegar framboðsfrestur rennur út skal kosningastjóri kanna í hvaða kjördæmi og sæti frambjóðendur vilja bjóða sig fram og gera drög að framboðslista eftir þeirra óskum.  Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

Eigi síðar en sjö vikum fyrir kosningar skal kosningastjóri boða til fundar sem ákveður endanlega uppröðun framboðslistana.  Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar og drög að framboðslistum. Á fundinn skal boða alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar og skal hann auglýstur á vef hreyfingarinnar.  Allir kjörgengir Íslendingar hafa þar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt.

Við ákvörðun á uppröðun framboðslista skal fundurinn starfa í anda jafnræðis hvað varðar kyn, aldur og búsetu. Ef alþingiskosningar bera brátt að má kosningastjóri í samráði við stjórn hliðra til tímamörkum eins og nauðsyn krefur.

Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

4.  Dagskrá félagsfundar sem ákveður framboðslista skal vera:

1. Kosning fundarstjóra

2. Kynning á drögum framboðslista

3. Umræður um uppröðun framboðslista

4. Breytingar á framboðslistum

5. Kosning um framboðslista

Fjárreiður

1.  Borgarahreyfinguna má ekki skuldsetja með lántökum.  Þó má taka skammtímalán ef algerlega er tryggt að tekjur hreyfingarinnar geti staðið undir því.

2.  Framkvæmdastjóri Borgarahreyfingarinnar skal gera fjárhagsáætlun um nauðsynleg fjárútlát og fjárskuldbindingar hreyfingarinnar á komandi almanaksári og bera undir stjórn. Tekið skal sérstaklega fram að óheimilt er að nota fé hreyfingarinnar í nokkurs konar munað eða fríðindi.

3.  Bókhald Borgarahreyfingarinnar skal vera opið öllum og sýna hverjir styrkja hreyfinguna. Öllu fé Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar.

4.  Þriðjungur af tekjum hreyfingarinnar á hverju ári skal settur í kosningasjóð.

5.  Þeir sem fara með fjárreiður hreyfingarinnar skulu ávallt leita tilboða sem víðast.  Öll fjárútlát og fjárskuldbindingar, umfram upphæð sem miðast við mánaðalega húsaleigu hreyfingarinnar, þurfa undirskrift framkvæmdastjóra og gjaldkera.

Félagsslit

1.  Þegar tilgangi Borgarahreyfingarinnar er náð eða augljóst er að honum verði ekki náð mun hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður.  Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

2.  Ákvörðun um slit Borgarahreyfingarinnar verður tekin á landsfundi með atkvæðum a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna. Við slit hreyfingarinnar skal skila afgangsfé til þeirra sem lögðu fram fé tólf mánuði fyrir slit hennar í hlutfalli við framlög þeirra.  Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.  Kosningasjóður skal allur fara til ríkissjóðs.

Lagabreytingar

1.  Samþykktum Borgarahreyfingarinnar má aðeins breyta á landsfundi.

Breytingartillaga telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum.

2.  Allar tillögur til breytinga á lögum þessum skulu sendar til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðun landsfundar. Allir kjörgengir Íslendingar geta lagt fram breytingartillögur á samþykktum þessum.  Stjórn skal sannanlega birta breytingartillögurnar á vefsíðu hreyfingarinnar og með skeyti á alla á skráðum netfangalistum á vegum hreyfingarinnar eigi síðar en sex vikum fyrir þann landsfund sem þær skulu teknar fyrir á.

--------------------------------------------------------------------


Bylting fíflanna

Ég má til með að benda sem flestum á þessa frábæru samantekt á uppruna fánans fræga og hugmyndafræðinni á bak við hann.  Hann er víst að fara í fjöldaframleiðslu og ég ætla að fá mér einn.  Georg Hollanders er einn þeirra fjölmörgu sem komu um langan veg til Reykjavíkur síðastliðið haust til að funda með okkur um hvaða leiðir væri hægt að fara til að komast úr þeirri klemmu sem fjórflokkakerfið var búið að njörva lýðræðið niður í.  Á endanum varð til Borgarhreyfingin.  Við verðum að halda áfram.


Sprengisandur

Rykfallin bloggsíða er ekki góð hugmynd.  Setti því inn smá innslag úr þættinum "Á Sprengisandi" þar sem ég var í morgun.  Meira seinna, enda spennandi tímar framundan.

http://www.bylgjan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=47751

 


ICESAVE, að leiðarlokum?

Þá er stóra málið afgreitt.  Fyrir okkur nýliða á þingi var þetta eins og að vera hent beint út í djúpu laugina.  Langir og strangir næturfundir þar sem það besta í mannlegu fari kom fram en einnig það versta í pólitísku fari þingsins þar sem tekist var á með blekkingum, hræðsluáróðri og jafnvel hreinum ósannindum.  Þetta sumarþing hefur verið merkileg lífsreynsla, byrjaði um miðjan maí og átti að ljúka fyrir 17. júní.  Við töldum að vandamál heimilana, fyrirtækjana og efnahagsmál almennt yrðu rædd og leitað lausna á þessum brýnustu vandmálum, en aldeilis ekki.  Evrópusambands umsókn Samfylkingarinnar og ICESAVE samningar fjármálaráðherra  tóku upp nærri allan tímann.

Mér finnst þetta vera ábyrgðarleysi af verstu tegund og merki um forgangsröðun sem er þvílíkt brengluð að vafamál er hvort ríkisstjórninni er lengur stætt.  Þó er þetta ríkisstjórn sem ég sjálfur batt miklar vonir við í upphafi og hef lýst yfir margoft að ég muni verja falli.

Eftir "aðra umræðu" á þinginu, en öll frumvörp fara í þrjár umræður, var ICESAVE aftur tekið inn í fjárlaganefnd en við aðra umræðu höfðu komið fram mikilvægar upplýsingar um að fyrirvarar við frumvarpið héldu ekki og við tók enn ein törnin við að reyna að laga málið.  Vinnunni lauk kl. þrjú aðfaranótt þriðjudagsins 25. ágúst.  Hvað svo sem segja má um málið í heild þá er ég stoltur að eiga hlut í þeirri vinnu sem lögð var í að breyta upprunalegu frumvarpi, vinnu sem var unnin þverpólitískt en ekki flokkspólitískt.

Niðurstaðan var ágæt og ICESAVE mun ekki verða þyngri baggi en svo að lífskjör munu ekki skerðast vegna greiðslna þótt þau batni e.t.v. eitthvað hægar.  Það er þak á greiðslum sem miðast við ákveðið hlutfall af framtíðarhagvexti (6%) og verði hagvöxtur minni en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir (sem er mjög bjartsýn) þá lækka greiðslur af ICESAVE til samræmis við það.  Eins voru settir fleiri fyrirvara við málið sem of langt er að telja upp hér en breytingartillögurnar má finna hér og hér.

Í þessari þverpólitísku vinnu var lagt upp með að ná sem breiðastri sátt um málið og vonast var til að frumvarpið yrði afgreitt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.  Það náðist ekki og þótt breytingartillögur fjárlaganefndar væru samþykktar með miklum meirhluta eða 52 atkvæðum af 63 þá var frumvarpið í heild sinni eingöngu samþykkt með atkvæðum stjórnarflokkana eða 34.  Þess má geta að við lokaafgreiðslu frumvarpa eru yfirleitt greidd atkvæði um einstakar greinar þess (og jafnvel einstaka málsliði) og svo í lokin um frumvarpið í heild sinni.

Við í Borgarahreyfingunni samþykktum allar breytingartillögurnar en við frumvarpið í heild þá sögðu Birgitta og Margrét nei en ég sat hjá.  Þetta vafðist talsvert fyrir mér þar sem ég hafði átt mikinn þátt í þeirri vinnu sem var lögð í breytingarnar og eyddi mörgum löngum nóttum með fjárlaganefnd og þingmönnum úr þverpólitíska hópnum til að ná þeim fram.  Mjög margt (og raunar flest) sem við börðumst fyrir náði fram að ganga og gerði málið allt miklu bærilegra og þegar upp var staðið þá stóð ég frammi fyrir því að annað hvort samþykkja mál sem ég var í prinsippinu algerlega á móti, þ.e. að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning, eða hafna máli sem ég átti þó svo mikinn þátt í að laga og hafði heitið stuðningi við.

Þetta er víst ein af þessum flækjum sem allir þingmenn lenda í fyrr eða síðar og sem gerir það að verkum að manni einfaldlega líður ekki vel með neina af möguleikunum.  Á endanum sat ég hjá við atkvæðagreiðsluna um frumvarpið í heild sinni þar sem ég gat einfaldlega ekki fengið mig til að samþykkja þessa málsmeðferð, þ.e. að velta skuldum Björgólfsfeðga, sem stofnað var til í siðlausu og spilltu viðskiptalífi sem samtvinnaðist siðlausu og spilltu stjórnmálalífi, yfir á almenning sem engann þátt átti í málinu.

Mér þótti þó að vissu leyti leitt að frumvarpið var ekki samþykkt með stærri meirihluta þar sem VG-liðarnir fjórir sem sýndu svo mikinn kjark, þau Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, áttu svo sannarlega skilið meiri stuðning eftir allt erfiðið.

Hvað um það, málið hefur verið afgreitt úr þinginu og ef Bretar og Hollendingar verða alveg brjálaðir þá verður að semja upp á nýtt og það er einfaldlega ekki hægt annað en að gera betur. 

Ríkisstjórninni er nú skylt (samkv. 8. grein sem samþykkt var samhljóða með 60 atkvæðum en 3 voru fjarverandi) að leita aðstoðar allra þar til bærra yfirvalda í í nágrannalöndum í þeim tilgangi að hafa upp á hvert peningarnir sem lagðir voru inn á ICESAVE reikningana fóru og gera áætlun fyrir áramót um hvernig á að nálgast þá ef hægt er.  Einnig er gerð krafa um að eigendur og stjórnendur Landsbankans verði látnir bæta það fjárhagslega tjón sem kann að hljótast af gerðum þeirra.  Glingur Björgólfsfeðga (og fleiri) má fara að vara sig.

Framundan er smá frí og svo verður lagt í vinnu við frumvörp um vanda heimilana, stjórnlagaþing o.fl. sem við útskýrum nánar á landsþingi Borgarahreyfingarinnar sem verður haldið 12. september n.k. á Grand Hótel (sjá www.xo.is).

Hér eru svo ræðurnar sem ég flutti við aðra umræðu (tvær)

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T123800&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T194646&horfa=1

og þriðju umræðu og atkvæðaskýringu.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090827T124243&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?horfa=1&raeda=rad20090828T110548

Birgitta flutti svo alveg frábæra lokaræðu fyrir Borgarahreyfinguna við þriðju umræðu sem er hér. 

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090828T094109&horfa=1


Auðlindirnar og Samfylkingin

Samfylkingin er nú búin að stimpla sig inn sem aðal auðlindasali landsins og krefst þess að náttúruauðlindir þjóðarinnar verði afhentar erlendum bröskurum á silfurfati.  Ekki er gott að segja hvað fólki gengur til sem hugsar svona en það er alla vega víst að hagsmunir lands og þjóðar eru þeim ekki ofarlega í huga.  Eins og sagði í undirtitli Draumalandsins,  "Hvað áttu þegar þú hefur selt allt."
mbl.is Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinghúsbréf 18, meira ICESAVE

Við í Fjárlaganefnd höfum nú haft Icesave til umfjöllunar í nærri átta vikur.  Þetta mál er víst með því þyngra og flóknara sem þingið hefur fengist við og þar sem ég sit einnig í Efnahags- og skattanefnd sem einnig fjallaði um vissa hluti Icesave þá er þetta farið að flæða út um eyrum á mér.  Málið snýst um að ríkisstjórnin veiti ríkisábyrgð á lán frá Bretum og Hollendingum, lán sem verður lánað hinum íslenska "Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta" til þess að greiða innlánstryggingar vegna innlagna á Icesave reikningana.  Þar sem Tryggingasjóðurinn er nánast gjaldþrota þýðir þetta að að frádregnum eignum í þrotabúi Landsbankans muni greiðslan á lánunum lenda á íslenskum almenningi.  Í stuttu máli, velta á skuldum auðmanna yfir á almenning.

Strax varð ljóst að málið færi ekki óbreytt í gegnum þingið þó það hafi verið eindregin ósk Jóhönnu og Steingríms sem raunar ætluðu að koma því upprunalega í gegn sem trúnaðamáli sem mátti ekki upplýsa um.

Mörgum þingmönnum ofbauð og m.a. fjórum VG liðum, þeim Ásmundi Einari Daðasyni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur og Ögmundi Jónassyni, sem spyrntu fast við fótum.   Nokkrir þingmenn úr öllum flokkum náðu að mynda þverpólitískan hóp sem settist niður við að semja fyrirvara við ríkisábyrgðina.  Þessi hópur sem samanstóð af mér, Lilju Mósesdóttur úr VG, Pétri H. Blöndal og Tryggva Þór Herbertssyni úr Sjálfstæðisflokknum, Eygló Harðardóttur og Höskuldi Þórhallssynini úr Framsóknarflokknum og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir úr Samfó leit einnig við og lagði hópurinn fram breytingartillögur um efnahagslega fyrirvara við frumvarpið sem tryggja það að greiðslur af lánunum skerði ekki lífskjör beint heldur komi úr framtíðar hagvexti, þ.e. af aukningu landsframleiðslunnar ef einhver verður.  Ef engin aukning verður á landsframleiðslunni greiðum við ekki neitt.  Fyrirvararnir tryggja einnig gegn gengisáhættu og gegn lélegum endurheimtum á eignum Landsbankans.

Aðrir fyrirvarar eiga m.a. að tryggja að dómstólaleiðinni verði haldið opinni.  Eins komst inn grein nánast beint úr stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar sem lýtur að því að stjórnvöldum er gert að leita aðstoðar hjá yfirvöldum nágrannalanda til að finna út hvað varð um alla peningana sem lagðir voru inn á reikningana og freista þess að ná þeim til baka eða láta stofnendur eða ábyrgðarmenn Icesave skuldbindingana bera það tjón sem upp á vantar.  Sjá breytingartillögurnar hér.  ég skrifaði undir nefndarálitið "með fyrirvara" eins og sagt er en það þýðir að ég get einnig samþykkt hvaða nýjar breytingartillögur sem fram koma og greitt atkvæði samkvæmt því.

Þetta var langur og harður slagur þar sem flestir stjórnarliðar vildu hafa þessa fyrirvara vægt orðaða til að "stuða ekki Breta og Hollendinga" þannig að þeir felli samningana.  Hvað um það, breytingartillögurnar voru ræddar á þinginu í tvö daga í s.k. "annari umræðu" (öll frumvörp fara í gegnum þrjár umræður) og í þeim umræðum kom í ljós að hugsanlega þarf að tryggja þessa fyrirvara betur.  Málinu var því vísað aftur til Fjárlaganefndar milli annarar og þriðju umræðu og funduðum við um það í gær laugardag og tökum svo aftur til við það á mánudaginn.

Við í þingflokknum fluttum okkar ræður og ég tvær, eina á fimmtudaginn og eina á föstudaginn vegna þeirra nýju vafaatriða sem komin voru upp.

Hér er fyrsta ræðan mín og andsvör Eyglóar Harðardóttur og Tryggva Þórs Herbertssonar við henni og andsvör mín við þeim:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T123800&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T130538&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T130654&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T130814&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T131031&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T131254&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T131400&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T131618&horfa=1

Hér er svo seinni ræðan mín og andsvör Unnar Brár Konráðsdóttur við henni:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T194646&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T195642&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T195740&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T195934&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T200058&horfa=1

Hér eru svo ræður Birgittu og Margrétar:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T164500&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T164133&horfa=1


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband