Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

ICESAVE, enn og aftur.

Ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefur nú komið með Icesave málið aftur inn í þingið eftir að hafa tekið löggjöf Alþingis og spurt Breta og Hollendinga auðmjúklega hvort þeir væru sammála.  Þar sem svo var ekki voru þeir spurðir hvernig íslensk löggjöf ætti að vera og svarið kom til umræðu á Alþingi í dag.

Ríkisstjórnin upphóf mikinn blekkingarleik um hvað þessi nýji samningur væri í raun góður og að Bretar og Hollendingar hefðu nú betrumbætt íslenska löggjöf svo um munaði.  Staðreyndin er hins vegar sú að efnahagslegu fyrirvararnir sem áttu að tryggja öryggi í afkomu íslendinga kæmi til niðursveiflu í hagkerfinu eru farnir út.  Nú skulu íslendingar borga alla upphæðina þar sem samningurinn er framlengdur út í hið óendanlega og ekkert þak er á vaxtagreiðslum, sama hvernig árar í íslensku efnahagslífi.  Íslendingar hafa verið seldir á uppboði til stuðnings ESB og AGS með stuðningi sinnar eigin ríkisstjórnar.

Þetta er skammarlegur dagur og fordæmalaus í lýðveldissögunni.  Skyldu þingmenn ríkisstjórnarflokkana virkilega halda að þeir hafi verið kosnir til að gera þetta.  En það skiptir þá kannski ekki máli.  Velferð þjóðarinnar er bara skiptimynt fyrir völd og þann hégóma sem valdinu fylgir.

Dagurinn hófst hins vegar á s.k. "óundirbúnum fyrirspurnartíma" til ráðherra þar sem Birgitta spurði dóms- og mannréttindamálaráðherra (sem reyndar er rangnefni í tilfelli núverandi ráðherra) um með hvaða hætti hún hefði beitt sér vegna þeirra fjögurra hælisleitenda sem henni var svo annt um að reka úr landi.  Svarið var alveg ömurlegt og í takt við gjörninginn þar sem fyrirbærið "löglegt" var óspart notað sem skjól.  Það er nákvæmlega svona sem dauðarefsingarsinnar í U.S.A. tala og nákvæmlega svona sem margir frægustu mannhatarar sögunnar hafa talað.  "Ég var bara að fylgja lögum."  Oj barasta.  En hér eru samskipti Birgittu og Rögnu dómsmálaráðherra sem hefur á þremur vikum eyðilagt það sem ný endurskírt ráðuneyti hennar á að standa fyrir.

Svo kom Icesave umræðan og sá farsi sem þinghaldið er í raun orðið þegar augljóst er að umræðan er bara til málamynda vegna þess að blind fylgisspekt stjórnarliða við leiðtoga sína hefur gelt Alþingi sem alvöru löggjafarvald.  Ég, Margrét og Birgitta töluðum um þetta mál á svolítið annan máta en fjórflokkurinn, eða í dag má kannski tala um þríflokkinn því Framsóknarmenn voru líka háfleygir og raunsæir í málflutningi sínum.  Hvað um það hér eru ræðurnar:

Ræðan mín.

Ræða Margrétar.

Ræða Birgittu.

Við eigum sennilega eftir að rekast á Icesave drauginn aftur og aftur næstu vikurnar og mun ég dyggilega skýra frá gangi mála og afstöðu þingmanna til málsins.

 


Sérfræðiálit þingmanns

Þingflokkur VG býr vel að hafa innan sinna raða slíkan sérfræðing sem Lilju Mósesdóttir. Á hana er hins vegar ekki hlustað og meirihluti þingflokksins er tilbúin að selja samvisku sína og sannleikann fyrir völd til handa Samfylkingunni.  Leiðtogadýrkunin er blind og er alls staðar.

Voru þau kosin á þing til þesssa?


mbl.is Gera þarf róttæka breytingu á efnahagsáætlun AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afskriftir húsnæðislána o.fl.

Tilraun ríkisstjórnarinnar til að koma Icesave hneisunni á dagskrá þingsins í dag mistókst og var málinu ýtt til baka og fær það sem kallað er eðlilega málsmeðferð, ef það er þá yfir höfuð eðlilegt að láta sér detta í hug að óska samþykktar Breta og Hollendinga á lagasetningu Alþingis.  En það eru nýir tímar á Íslandi og menn eru tilbúnir að leggjast lægra en nokkru sinni vegna ESB og ásóknar í völd.  Vesalings Íslands.

En hvað með það, í staðinn fengum við að ræða þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins um 20% niðurfellingu á skuldum heimila og fyrirtækja.  Gott mál.  Þetta er að hluta til í samræmi við stefnu Hreyfingarinnar um að færa vísitölu verðtryggðra lána aftur til janúar 2008 sem er u.þ.b. 24% m.v. september.  Verðtryggingin er ein mesta meinsemd efnahagslífsins og er við það að setja þúsundir fjölskyldna í greiðsluþrot sem skottulækningar ríkisstjórnarinnar munu ekki laga.  Skuldir fyrirtækja finnst mér hins vegar vera annað mál og ætti ekki að blanda þessu tvennu saman enda um nánast harmleik að ræða þegar fjölskylda missir heimili sitt og þarf nauðug viljug að flytja.

Það er ekkert eðlilegt við það að skuldir fólks skuli fólk skuli þurfa að greiða hærri afborganir af húsnæðislánum vegna verðhækkana á tómatsósu eða ljósperum eins og nú er þegar vertryggingin er miðuð við vísitölu neysluverðs.  Greiðslujöfnunarvísitala ríkisstjórnarinnar er sama marki brennd en hún byggir á launaþróun og atvinnustigi. Það er ekkert eðlilegt við það að skuldir og afborganir fólks skuli hækka almennt vegna þess að Jón í næsta húsi fær launahækkun eða vegna þess að Siggi í þar næsta húsi fær vinnu.  Þetta er bara áframhald á sömu vitleysunni og það er verið að blekkja fólk.

Það þarf að afskrifa húsnæðislán heimila umtalsvert og ef mönnum er svona umhugað um stóru hundrað milljón króna hallirnar þá má vera eitthvað hámark á niðurfellingunni, en aðgerðin þarf að vera almenn og ná alla leið, þ.e. ekki lenda á Íbúðalánasjóði eða ríkinu heldur á skuldareigendunum þ.e. þeim sem eiga útgefin skuldabréf Íbúðalánasjóðs.  Það er bara eðlilegt og sanngjarnt að fjármagnseigendur taki þátt í þeim skelli sem heimilin hafa orðið fyrir.  Vitað er að það er AGS sem stendur hér í veginum og ríkisstjórnin þorir ekki að stadda í lappirnar gegn þeim.  Skyldu þingmenn VG nokkru sinni hafa reiknað með því að söðla svona algjörlega um og að þeir myndu styðja stefnu AGS gegn almenningi í landinu.  Isss.... erðanú. VG hvar er nú baráttuandinn, hugsjónirnar og samviskan?

Jæja, tók smá þátt í umræðunni, hér er það.


"Niðurstaða" um Icesave

Fjölmiðlar eru enn einu sinni algerlega að bregðast almenningi en þessi fyrirsögni blasir nú við á öllum vefmiðlum.  Niðurstaða er löngu fengin í Icesave þar sem staðreyndin er sú að málið kláraðist með lagasetningu Alþingis í ágúst síðastliðinn.  Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar kosið að leyfa Bretum og Hollendingum að hafa umsagnarrétt um íslenska lagasetningu og hafa nú ákveðið að breyta henni að kröfu þeirra.

Aldrei hefur þetta gerst áður í lýðveldissögunni að löggjöf þingsins er borin undir ríkisstjórnir erlendra ríkja til samþykkis.

Á mannamáli heitir þetta einfaldlega afsal á sjálfstæði þjóðar.  Það er að vísu gert hiklaust og fyrir opnum tjöldum og því e.t.v. ekki glæpsamlegt en það stendur þó hvergi í stefnuskrám Samfylkingar og VG að þau muni afsala sjálfstæði Íslands né stendur neitt um slíkt í stjórnarsáttmálanum.  Þetta eru því alger svik við kjósendur þessara flokka og almenning á Íslandi sem fyrst nú veit að ríkisstjórnin var tilbúin að afsala sjálfstæðinu.

Fjölmiðlar ættu náttúrulega einfaldlega að hætta að birta "spin" ríkisstjórnarinnar um málið og segja sannleikann en hafa kosið að gera það ekki heldur gengið í lið með ríkisstjórninni.

Hvað gerir þjóðin nú?

 


mbl.is Ríkisstjórnarfundur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinghúsbréf 20, Seðlabankinn, Framsókn og "efnahagsstefna" Sjálfstæðisflokksins

Áhugaverður og fjölbreyttur dagur í þinginu í dag.  Fyrst var kosning nýs varaforseta þingsins í stað Álfheiðar Ingadóttur sem er orðin ráðherra og svo var kosning í Þingvallanefnd. Síðan var kosið í bankaráð Seðlabankans sem tapaði hundruðum milljarða á síðast ári.  Þrátt fyrir að hafa tapað m.a. 95 milljörðum á því að lána bröskurum ríkisverðbréf ætlar fjármálaráðuneytið að láta sem ekkert hafi í skorist og lætur bankann og starfsfólk hans ennþá sýsla með fjármuni ríkisins.  98 milljarðar voru lánaðir út á veð að andvirði 80 milljarða sem "talið er unnt að innheimta" eins og segir í fjárlagafrumvarpinu. Kjörið í bankaráðið er flokkspólitískt og var nú verið að kjósa Framsóknarmann í stað annars sem hafði hrökklast úr stöðunni vegna þess að Morgunblaðið bendlaði hann við meint gjaldeyrisbrask.  Já vegir flokkspólitískra stöðuveitinga eru sannarlega órannsakanlegir.

Ég gerði athugsemd við þessa skipan mála og vildi fá að vita hvað viðkomandi ætlaði að gera til að gæta hagsmuna þingsins og hagsmuna almennings í stjórn Seðlabankans.  Fékk engin svör nema einhverja þá lengstu þögn sem mælst hefur í þingsalnum fyrr og síðar.  Og inn fór Framsóknarmaðurinn.  Sjá hér.

Síðan var umræða "utan dagskrár" sem kallað er en þá geta þingmenn óskað eftir að ræða mál beint við ráðherra um einhver málefni líðandi stundar.  Þar ræddu Framsóknarmenn við forsætisráðherra um förina til Noregs sem hefur fengið svo mjög svo hraksmánarlega umfjöllun í fjölmiðlum.  Ég tók m.a. til máls þar og eins og fleiri velti því upp sem æskilegum valkosti að leita annað en til AGS.  Sjá hér

Svo var tekið til við að ræða tillögu Sjálfstæðisflokksins um úrbætur í efnahagsmálum.  Þar hafði ég vonast eftir einhverju bitastæðu en varð fyrir vonbrigðum lífs míns.  Tillögurnar eru alger tímaskekkja, byggðar á ímyndunum og ekki í neinum takti við þau vandamál sem við er að glíma í efnahagsmálum á Íslandi í dag.  Tillögurnar gera m.a. ráð fyrir einhverri þeirri mestu náttúrueyðingu sem um getur í einu og sama plagginu þar sem hver virkjunin á fætur annarri verður reist með tilheyrandi eyðingu náttúruperla.  Þar eru meira að segja tvö stykki tvö hundruð megavatta orkuver sem enginn hefur heyrt um.  Hvert starf t.d. í Straumsvík mun kosta um 2.250 milljónir og hvert starf í áliðnaði notar um eitt megavatt af orku.  Ef ætlunin er að stuðla að atvinnu uppbyggingu með orkunýtingu þá er nú ekki verið að nýta orkuna sérlega vel eftir þessari forskrift.  Hvað skyldi t.d. vera hægt að skaffa mörg störf í öðrum geirum með hverju megavatti af ódýrri orku, eða fyrir hverjar 2.250 milljónir.  Tillagan hrikalega er hér.

Ræðan mín féll Sjálfstæðismönnum þungt enda búnir að baða síg í miklum ljóma með þessari tillögu sem að mínu viti er alveg hand ónýt.  Það kom til nokkurra orðaskipta sem voru þó á málefnalegum nótum og á þannig þingi er einfaldlega ágætt að starfa.  Hvað um það.  Ræðan og orðaskiptin í kjölfarið eru hér.

Vek svo athygli á nýjum vefmiðli, Svipunni, sannkölluðum alvöru fréttamiðli sem rapportar í anda þeirrar róttæku skynsemi sem við kennum okkur við.  Svipan, það er blaðið.


Fjárlögin 2010

Fyrsta umræða um fjárlög ríkisins fyrir næsta ár fór fram s.l. fimmtudag.  Fjárlagagerðin hvert ár er mikið spaghettí og einstakir liðir í fjárlögum teygja sig víða og óskirnar eru margar.  Fimm milljónir til rannsókna á frjósemi hrognkelsa í Húnaflóa var bara ein af skrýtnu beiðnunum. Frumvarpið sjálft er yfir fimm hundruð blaðsíður.

Fjárlögin eru nú samin að fyrirmælum AGS og þeir krefjast þess að jafnvægi í ríkisfjármálum verði náð á þremur árum sem kallar á gríðarlegan niðurskurð ríkisútgjalda, niðurskurð sem mun bitna illa á veikum og þeim sem minna mega sín sem og á menntun barnanna okkar.  Ísland er sér á báti hvað þetta varðar en nágrannaþjóðirnar sem lentu í kreppu eins og við eru að vinna sig út úr henni með auknum ríkisútgjöldum, s.k. Keynesískum aðferðum.

Við í Hreyfingunni erum alfarið mótfallin því að skuldir sem braskararnir stofnuðu til lendi á almenningi með þessum hætti og viljum einfaldlega að skuldir Íslands verði frystar þar til betur árar, s.k. debt moratorium  á ensku, eða jafnvel felldar niður.  Skuldastaðan er þannig að við munum ekki ráða við hana og því fyrr sem það er viðukennt því betra.  Greiðslufall eða s.k. soveriegn debt default á ensku er einnig valkostur en það er þekkt fyrirbrigði og hefur verið notað um allan heim af þjóðum sem eru komnar í skuldastöðu sem er þeim ofviða, oftast nær þó í mun skárri stöðu en er á Íslandi er í dag.  Lánveitendur verða oftast frekar fúlir og hóta öllu illu og þjóðir eiga erfitt uppdráttar á alþjóðlegum lánamörkuðum í um tvö ár (sem er nákvæmlega staða okkar í dag hvort eð er) en svo er málið gleymt og grafið og lán fást að nýju.  Fjármálamarkaðir hugsa nefnilega fram á við og það eru einfaldlega meiri líkur á að þjóð geti borgað skuldir í framtíðinni ef hún skuldar minna í dag heldur en ef hún er að sligast undan skuldabyrði.

Við neyðumst hins vegar til að taka þátt í því að greiða úr þessu spaghettíi og reyna að beina þeim fjármunum sem til eru í rétta farvegi.  Þar er af mörgu að taka en vegna þeirra hefðbundnu vinnubragða við fjárlagagerð þar sem merihlutinn ræður og þar sem landsbyggðar þingmenn vilja fá að koma með peningana heim í kjördæmin, verður við ramman reip að draga.

Ég mun hins vegar upplýsa almenning rækilega um alla þá þætti við fjárlagagerðina sem mér finnst einkennilegir, vitlausir eða góðir, því væntanlega verður þetta ekki allt saman glórulaust.

Mikilvægt er að Alþingi sjálft fái áfram þær fjárveitingar sem nauðsynlegar eru til að þingmenn geti sinnt vel sínu hlutverki og veitt framkvæmdavaldinu viðnám eins og tókst í sumar í Icesave málinu.  Einnig munum við verja heilbrigðis- og velferðarmálin og menntamálin með kjafti og klóm.

Hér er slóðin á ræðuna sem ég flutti við fyrstu umræðu.


Þinghúsbréf 19

Síðast liðinn þriðjudag, þann fræga dag 6. október og ár frá hruni, var flutt munnleg skýrsla forsætisráðherra um "Efnahgshrunið og endurreisnina" eins og það hét.  Þarft framtak af þinginu og forsætisráðherra og mjög ánægjulegt að heyra málflutning hennar og hversu ákveðin hún virðist í að það fari hér fram alvöru uppgjör við hrunið og sökuldólga þess.  Þessa dags þarf að minnast á þinginu á hverju ári.

Fljótlega sá undir iljarnar á flestum þingmönnum enda margir af þeim á einhvern hátt ábyrgir, annað hvort sem aðilar að þeirri ríkisstjórn sem blekkti okkur öll síðustu mánuðina fyrir hrunið eða aðilar að fyrri ríkisstjórnum sem báru ábyrgð á aðdragandanum.  Hér er það Sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð og hefur valdið þjóðinni meira tjóni en nokkur annar stjórnmálaflokkur í Íslandssögunni.  Framsóknarflokkurinn undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar er undir sömu sök seldur og Sjálfstæðisflokkur en þeir í sameiningu bjuggu til Ísland sem var ógeðfellt af græðgi og í raun hálf brjálað.

Fjórflokkurinn reyndi að krafsa í bakkann og kenna hver öðrum um hrunið en niðurstaða mín að loknum umræðum dagsins var að hrunið og ástæður þess hafi einfaldlega farið fram hjá flestum þingmönnum.  Söguskoðun þingmanna Samfylkingarinnar var einnig áhugaverð en þar reið Björgvin G. Sigurðsson á vaðið en hann var viðskiptaráðherra og þar með ráðherra bankamála allt frá árinu 2007 og var svo gerður að formanni þingflokks Samfylkingarinnar að loknum síðustu kosningum.  Staða sem hjá hinum hefðbundna fjórflokki er ráðherra ígildi.

Endurreisnar umræðan var áhugaverð þó dapurleg væri og athyglisvert var að sjá hvað áliðnaðurinn hefur náð miklum tökum á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og sumum þingmönnum Samfylkingar og Framsóknarflokks.  Hér ekki fyrir alls löngu voru það fjármálafyrirtækin og útrásarvíkingar sem stýrðu ræðum þeirra en nú virðast álfyrirtækin vera orðin æðsti prestur.

Það er ekki næg orka fyrir Helguvík á suð-vestur horninu en samt á að byggja álver.  Auka á framleiðsluna í Straumsvík um 40.000 tonn á ári með heilli virkjun, Búðarhálsvirkjun, og talið er að aukningin kalli á fjölgun starfsmanna um tólf, segi og skrifa tólf.  Ekki er heldur næg orka við Þeistareyki fyrir álveri á Bakka en samt á að byggja það.  Þessi umræða er einfaldlega orðin svo fáranleg að það hálfa væri nóg.  Nægir hér að benda á hina frábæru grein Sigmundar Einarssonar í Smugunni 1. október sem allir ættu að lesa.

Óskandi væri að þingmenn þessara flokka bæru meiri virðingu fyrir framtíð almennings og hættu þessu rausi og hugsuðu málið upp á nýtt.  En það er víst þeirra hjartans mál að gefa auðlindirnar.  Mig langar hins vegar að vita hvers vegna.

Hvað um það, ég sagði mína skoðun á málinu og hún er hér.

Lilja Mósesdóttir flutti líka skilmerkilega ræðu um AGS, kjörkuð kona þar á ferð.

Vek svo athygli á nýjum vefmiðli, Svipunni, sannkölluðum alvöru fréttamiðli sem rapportar í anda þeirrar róttæku skynsemi sem við kennum okkur við.  Svipan, það er blaðið.


Lýðræði og sveitarstjórnir

Hreyfingin hefur lagt fram fumvarp til breytingu á sveitarstjórnarlögum sem fjallar um fjölgun í sveitarstjórnum.  Miðað við öll nágrannalönd sem upplýsingar fundust um er fjöldi sveitarstjórnarmanna hér á landi miklu mun færri og í raun algert einsdæmi.  Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem snýr beint að lýðræðisvæðingu stjórnkerfisins þar sem valdinu er dreift á fleiri hendur og að menn geti t.d. ekki selt, eða gefið, dýrmætustu eignir almennings heima hjá sér að kvöldi til yfir viskíglasi.  Hér fyrir neðan birti ég textann úr greinargerð frumvarpsins en frumvarpið í heild má sjá á þessum link

Frumvarp til laga

um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.
 
Greinargerð.

    Markmið frumvarps þessa er að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Ákvæði 12. gr. sveitarstjórnarlaga um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum (sjá fylgiskjal). Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu (sjá vef Evrópuráðsins: www.coe.int).
    Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. Hundrað og einu ári síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld. Frá 1908 hefur landsframleiðsla á hvern íbúa einnig fimmtánfaldast og því má fullyrða að efnahagsleg umsvif í Reykjavík hafi a.m.k. 225-faldast á einni öld.
    Frambjóðandi til borgarstjórnar í Reykjavík nú til dags þarf að fá um 7% atkvæða til að ná kjöri og eru engin fordæmi um jafnfáa kjörna fulltrúa og jafnháan lýðræðisþröskuld í ámóta fjölmennu sveitarfélagi í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt lögum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar ættu borgarfulltrúar í Reykjavík því að vera 43–61 hið minnsta.
    Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálans um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga fram á 21. öldina í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka. Þessi skerðing er alvarlegt mannréttindabrot. Hún er andstæð viðhorfum og venjum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar þar sem lýðræði er í hávegum haft, þar sem meginmarkmiðið er ekki að torvelda heldur auðvelda þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um eigin mál og mótun samfélagsins til framtíðar.
    Nærri útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnunarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).
    Í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum fámennum íslenskum sveitarstjórnum er fáveldið auk þess undirstrikað enn frekar með ranghugmyndinni um þörf á „starfhæfum meiri hluta“, sem veldur því að 8–9 borgarfulltrúar hlaða á sig völdum og vegtyllum á meðan minni hlutinn situr hjá verklítill.
    Fjöldi aðalmanna í þessari tillögu er fenginn með því að miða við helmingsmun á ákvæðum í sænskum (hærri gildi) og norskum sveitarstjórnarlögum.

Greinilegt er að miðað við nágrannalöndin er mikill lýðræðishalli hér á landi hvað varðar þátttöku og möguleika almennings til áhrifa í sveitarstjórnum og slíkar fámennisstjórnir sem hér hafa tíðkast eru einsdæmi. Vissulega má gefa sér að þetta fyrirkomulag sé einfaldlega barn síns tíma en með gjörbreyttu og stórlega auknu hlutverki sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs verður að gera þá kröfu að almenningur og smærri samtök fái að hafa meiri áhrif á framgang mála.
    Með fjölgun sveitarstjórnarmanna má einnig gera ráð fyrir að nefndir og ráð sveitarstjórna yrðu skipuð kjörnum fulltrúum en ekki varamönnum eða öðrum liðsmönnum þeirra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórninni. Slíkt mundi gera allt ferlið við ákvarðanatöku markvissara og ábyrgð kjörinna fulltrúa yrði einnig skýrari. Eins má gera ráð fyrir að krafa um stærri og öflugri sveitarstjórnir mundi enn frekar ýta undir sjálfviljuga sameiningu sveitarfélaga sem nú eru 77 talsins þrátt fyrir umtalsverða fækkun á liðnum árum. Sveitarfélögin hafa öll sömu stöðu og sömu skyldum að gegna samkvæmt lögum þrátt fyrir að vera ólík og misjöfn að landfræðilegri stærð og íbúafjölda. Hlutverk sveitarfélaga hefur tekið breytingum síðustu ár og verkefnin aukist umtalsvert og þörfin fyrir öflugar sveitarstjórnir og aðkomu fleiri að þeim hefur því farið vaxandi.

Fyrsta grein frumvarpsins hljóðar að hluta til svona. 
                Í sveitarstjórn skal fjöldi sveitarstjórnarmanna standa á oddatölu og vera að lágmarki sá sem hér greinir:


a.      þar sem íbúar eru innan við 1.000: 7 aðalmenn,
b.      þar sem íbúar eru 1.000–4.999: 11 aðalmenn, 
c.      þar sem íbúar eru 5.000–24.999: 17 aðalmenn, 
d.      þar sem íbúar eru 25.000–49.999: 31 aðalmaður, 
e.      þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 47 aðalmenn, 
f.       þar sem íbúar eru 100.000–199.999: 61 aðalmaður, 
g.      þar sem íbúar eru 200.000–399.999: 71 aðalmaður.

Hér er svo eitt dæmi um "sérstöðu" Íslands hvað varðar fjölda í sveitarstjórnum. Fleiri dæmi eru í frumvarpinu.

 ÍbúarSveitarfélögSveitarstjórnarmenn Meðaltal
Ísland 300 þús. 98 648 6 ,6
Finnland 5,2 millj. 431 12.157 28 ,2
Danmörk 5,4 millj. 98 2.520 25 ,7
Noregur 4,6 millj. 431 13.000 30
Svíþjóð 8,9 millj. 290 12.762 44


Þingsetningin

Þingið var sett á hefðbundinn hátt á fimmtudag í síðustu viku.  Við í Hreyfingunni kusum að fara út á Austurvöll í stað messu hjá ríkiskirkjunni og enduðum á smá fyrirlestri um gagnrýna hugsun hjá Siðmennt á Hótel Borg með Guðfríði Lilju úr VG.  Við vissum að Lilja Mósesdóttir hefði verið með okkur líka en hún var erlendis þannig að okkur jarðbundnum hefur fjölgað um einn.  Eins höfðum við pata af einum jarðbundunum Samfylkingarmanni sem ætlaði með okkur en hann kom ekki í þingsetninguna þannig að okkur fer fjölgandi.

Á þingfundinum síðar um daginn var hlutað um sæti, en þingmenn og ráðherrar draga um nýja sætaskipan í upphafi hvers þings og hef ég þá Árna Johnsen og Birki Jón Jónson mér til sitt hvorrar handar.

Á mánudaginn flutti svo forsætisráðherra stefnuræðuna og svo var umræða um hana í þrem umferðum, þ.e. hver flokkur fær að flytja þrjár ræður sem skiptast í 12, 6 og 5 mínútur.  Í þetta sinn talaði ég síðast, en ég talaði fyrstur við stefnuræðuna á vorþinginu.  Leiðtogastjórnmálin í hinum flokkunum stilla hins vegar alltaf upp foringjunum sínum í lengsta ræðutímann.

Ræðurnar hjá hinum voru mjög hefðbundnar og ekki að sjá að neitt væri öðruvísi en áður og hrunið og sá pólitíski skandall sem það er virðist nánast hafa gleymst.  Eitthvað fór það fyrir brjóstið á þingflokkum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að ég skyldi rifja upp sannleikann því kvartað var yfir ræðunni minni við Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta þingsins.

Hvað um það, hér eru ræðurnar okkar í stafrófsröð:  BirgittaMargrét, og ég,

Góða skemmtun.


Haustþingið

Jæja, þá er þetta að fara í gang aftur eftir nokkurt hlé.  Af mánaðar þinghlé fóru um 3 vikur í síðasta kaflan í Borgarahreyfingunni og í að stofna Hreyfinguna sem verður formlegt bakland okkar þriggja sem eftir vorum í þingmannahópnum.  Fór svo í viku í einangrun austur á Síðu og las bækur, hlustaði á tónlist og reyndi við sjóbirtingsveiði.  Kærkomin pása eftir einhverja undarlegustu og annasömustu mánuði lífs míns sem tók algerum stakkaskiptum eftir kosningarnar í apríl. Hvað um það.

Undir lok september var haldin heils dags fundur í Forsætisnefnd þar sem ég er áheyrnarfulltrúi.  Forsætisnefnd er sú nefnd sem fer með yfirstjórn þingsins og ákveður dagskrá þess bæði til árs í senn og svo einnig áætlun hverrar þingviku.  Í Forsætisnefnd eiga sæti forseti þingsins Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og átta s.k. varaforsetar sem eru fólkið, þetta kjörtímabil eingöngu konur, sem tróna fyrir aftan ræðupúltið og stjórna þingfundunum.  Á fundinum var farið yfir dagskrán fyrir næsta ár og fyrir nýliða eins og mig var áhugavert að fá loks að kynnast starfsáætlun e.k. hefðbundins þings, en sumarþingið sem lauk um daginn er víst einsdæmi í þingsögunni.

Mikilvægasta málið á komandi þingi verður sennilega skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið sem birt verður fyrripart nóvember mánaðar.  Fjárlögin eru svo hitt stóra málið á komandi þingi en meira um það síðar.

Á þessum fundi var farið yfir dagskrá þingsetningarinnar sem var 1. október sem að venju gerði ráð fyrir guðsþjónustu í upphafi þingsetningar-athafnarinnar.  Ég lagði til, og þá sérstaklega m.t.t. þess að bón Geirs H. Haarde um guðsblessun fyrir Ísland var ekki sinnt, að við þingsetninguna þetta árið yrði guðsþjónustunni einfaldlega sleppt.  Þessi tillaga féll ekki í góðan jarðveg hjá sumum í nefndinni og var vísað m.a. til hefðar.  Ekki fékkst þó fram nein alvöru umræða um málið heldur var því einfaldlega hafnað að breyta þessu.

Rétt er að komi fram að hér er ekki um að ræða neina andstöðu mína við kristna trú sem slíka heldur fyrst og fremst sannfæringu um nauðsyn þess að koma á aðskilnaði  ríkis og kirkju.  Ríkiskirkjan íslenska hefur eins og annars staðar verið notuð sem eitt af valdatækjum ráðandi afla með alveg nákvæmlega sama hætti og út um allan heim þar sem trúarbrögð hafa verið samtvinnuð veraldlegu valdi.  Sú hugmynd að erindrekar trúarbragða eigi heimtingu á því að vera á fullum launum sjá skattgreiðendum er einnig eitthvað sem ekki gengur almennilega upp, enda verður ekki annað séð en að trúarlíf og kirkjurækni íslendinga sé með einkennilegasta móti.  Prestar og sálgæslu hlutverk þeirra er aftur á móti mikilvægt og því þarf að leita leiða til framhalds á því, en utan við ríkisreksturinn.  Það að sjá svo biskupinn og prestinn ganga fyrir þingmönnum til þinghússins er einfaldlega óvirðing við þingmenn og þingið.

Heppilegra og skemmtilegra væri náttúrulega að fá fulltrúa allra trúarbragða í halarófu á eftir prósesíu þingmanna og fyrirmenna.  Þeir gætu svo haldið einhvers konar sameiginlega allraheilags messu á Austurvelli til blessunar á mönnum, dýrum, Gaiu eða Kárahnjúkavirkjun eða hverju því sem blessa þarf á meðan á þingsetningunni stendur.  Það myndi einnig slá "vopnin" úr höndum þeirra sem ætluðu sér þetta árið að maka prósesíuna dýrablóði og skyri og gera þingsetninguna alla og umgjörð hennar miklu skemmtilegri og áhrifameiri.

Annar nefndarfundur sem var nýlega var í Efnahags- og skattanefnd þar sem komu seðlabanakstjórar og svo síðar fosrsvarsmenn Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna.  Verðtryggingin var umræðuefnið og er skemmst frá því að segja að ástin á verðtryggingunni er mikil og greinilegt að þessir aðilar eru ófærir um að reka peningamálastefnu, húsnæðislánastefnu eða ávaxta lífeyrir landsmanna með eðlilegum og sambærilegum hætti og gert er í öllum nágrannalöndum.  Verðtryggingin hefur nú í annað sinn á 25 árum komið þúsundum fjölskyldna í greiðsluþrot og splundrað heimilum og fjölskyldum en þrátt fyrri það voru gestir nefndarinnar algerlega ófáanlegir til að viðurkenna að verðtryggingin væri skaðvaldur.

Hér verður Alþingi að grípa í taumana og það munum við gera enda með frumvarp í smíðum um afnám verðtryggingar.  Fjármagnseigendur og varðhundar fjármagnseigenda í embættimannakerfinu hafa farið of illa með almenning of lengi.  Verðtryggingin var sett á á sínum tíma vegna vanhæfni stjórnvalda í efnahagsmálum en ekki vanhæfni almennings í sparifjármálum og verðtryggingin er enn til staðar af nákvæmlega sömu ástæðum.  Hún gefur fjármagnseigendum belti og axlabönd hvað áhættu varðar og tekur alla almennilega virkni úr jöfnunni sem þarf að vera til staðar í langtímafjárfestingum.  Þrátt fyrir það hafa t.d. lífeyrissjóðirnir misst niður um sig brækurnar og tapað sennilega hátt í um helmingi eigna, já segi og skrifa 50%, sjóðfélaga í hruninu.  Málið er hins vegar svo risavaxið og svo gegnsýrt að samspillingu atvinnulífs, stéttarfélaga og stjórnmála að það hefur ekki verið rannsakað.

Nú er mál að linni og ríkisstjórninni ber skilyrðislaus skylda til að hafna öllu samstarfi við lífeyrissjóði þar til farið hefur fram uppgjör, hrunuppgjör, og allt sett upp á borðið hvað varðar fjárfestingar þeirra og tap.  Í því sambandi gætu svo farþegalistar einkaþota undanfarin ár verið áhugaverðir.

Meira seinna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband