Þinghúsbréf 21

Vegna anna hefur ekki gefist tími til að skrá neitt um þingstörfin fyrr en nú, en vikan í þinginu var merkileg og Hreyfingin flutti sitt fyrsta frumvarp,  frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur.  Frumvarpið var fyrst flutt á sumarþinginu þar sem það dagaði uppi en frumvörp sem næst ekki að klára falla niður við nýtt þing og þarf að flytja þau aftur.

Hvað um það, þingvikan byrjaði á fyrirspurn minni til Gylfa Magnússonar Efnahags- og viðskiptaráðherra og sneri að eftitliti hans og ráðuneytis hans með Fjármálaeftirlitinu í kjölfar hrunsins en eins og kunnugt er þá er það sennilega Fjármálaeftirlitið sem í aðdraganda hrunsins brást öðrum stofnunum stjórnsýslunnar fremur.  Gagnrýni minni á starfsemi Fjármáleftirlitsins og samskipti ráðuneytisins við það var svarað af ráðherranum á þann veg að ég væri með persónulegar árásir á starfsmenn og ætti að biðja afsökunar.  Svör ráðherrans gefa ekki vonir um að ríkisstjórnin ætli að taka á vanda stjórnsýslunnar og stjórnkerfisins og er enn ein vísbendingin að hrunið verði ekki gert upp heldur muni allt vaða hér áfram óbreytt.  Hér má sjá umræðuna.

Á þriðjudeginum var frumvarp um persónukjör tekið til umræðu en persónukjör til sveitarstjórna og til Alþingis er á stefnuskrá hreyfingarinnar og var ein af meginkröfum almenning fyrir kosningarnar síðastliðið vor.  Persónukjör er einnig á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og því var einkennilegt að sjá hversu fáir stjórnarliða voru í þingsalnum og tóku þátt í umræðunni.  Ekki var heldur mikið um afgerandi stuðning stjórnarliða við þessi frumvörp sjálfs forsætisráðherra en um er að ræða frumvörp um persónukjör til bæði sveitarstjórna og til Alþingis.  Ekki náðist samstaða í starfshóp forsætisráðuneytisins um að persónukjör yrði leyft þvert á stjórnmálaflokka sem má flokka sem raunverulegt persónukjör en það skref sem náðist samstaða um er þó mjög mikilvægt og verður að komast í gegn.  Það má svo nota tímann fram að næstu Alþingiskosningum til að skoða persónukjör þvert á flokka en það er meira mál og í raun gjörbreytir kosningaumhverfinu sem ekki er vanþörf á en verður erfiðari biti að kyngja fyrir stjórnmálaflokkana.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera einhuga á móti þessu þó þeir segi það ekki beint heldur beita orðunum "ekki núna,  "liggur ekkert á", þarfnast betri skoðunar", önnur mál brýnni".  Bara það eitt að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti þessu ætti að vera næg ástæða fyrir alla aðra til að styðja það, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið á móti öllum breytingum sem færa meira vald til fólksins.

Hvað um það, hér er mitt innlegg í umræðuna en umræðan öll er áhugaverð því þar kemur skýrt fram andstaða Sjálfstæðismanna.  Við í Hreyfingunni tókum virkan þátt og vorum með andsvör víða og Birgitta var einnig með stutta ræðu um málið.  Vonandi heykjast ríksstjórnarflokkarnir ekki á þessu mikilvæga máli.

Á þriðjudeginum var líka fundur hjá mér í Efnahags- og skattanefnd þar sem rætt var um niðurfellinga skatta vegna þeirra niðurfellinga skulda sem frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir en sem kunnugt er leiðir það til stórfelldrar niðurfellingar á nánast öllum skuldum hvort sem um er að ræða skludir heimila eða skuldir útrásar- kúlulána- og afleiðuvíkinga.

Á fundinum kom greinilega fram að skattaleg meðferð þessara niðurfellinga skulda er sú að niðurfellingin er talin til tekna og skal skattlögð.  Hins vegar er margt óljóst í þessu máli og greinilegt að niðurfelling skatta vegna niðurfellinga skulda t.d. fjárglæframanna fer ansi þversum í suma, bæði í fjármálaráðuneytinu og hjá ríksskattstjóra.  Var á gestum nefndarinnar að heyra að þessi blekkingarvefur sem félagsmálaráðherra og félagsmálanefnd Alþingis hefur spunnið um skuldir "heimilana" er þvílíkur hrærigrautur að það virðist ómögulegt að leysa úr skattalegum afleiðingum frumvarpsins sem nú er orðið að lögum.  Þó taldi ríkisskattstjóri að hægt væri í skattskýrslum að skilja milli skulda vegna íbúðakaupa og annarra skulda þannig að ekki þyrfti að koma til stórfelldra skattaívilnana vegna skuldaniðurfellinga út af fjármálabraski.  Það er hins vega pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þingmanna Samfylkingar og VG hvort það verður gert.  Það var einnig mjög áhugavert að heyra frá fulltrúa Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) sem upplýsti nefndina að SFF "hefði lagt mikla vinnu í þetta frumvarp þegar það var í vinnslu í félagsmálaráðuneytinu", sérstaklega þegar haft er í huga hvaða skuldir það fellir niður og hvaða skuldir ekki og hversu lítið var talað við Hagsmunasamtök heimilana við vinnu við frumvarpið.

Á fimmtudaginn var frumvarp Hreyfingarinnar um Þjóðaratkvæðagreiðslur tekið til umræðu.  Ég mælti fyrir frumvarpinu eins og það er kallað en eins og fram hefur komið er það endurflutt frá sumarþingi og því ekki mjög mikla umræður um það í þetta sinn.  Umræðan var þó vinsamleg og vonandi næst þetta gríðarlega mikilvæga mál í gegn.

Þennan dag var einnig utandagskrárumræða um álver við Bakka á Húsavík en álverskórinn hefur haft hátt undanfarið og alveg makalaust hversu hátt heyrist í fólki með ekki málefnalegri lausnir í atvinnuuppbyggingu en eins og fram hefur komið er sennilega ekki til meiri orkusóun en að sú að nota raforku úr jarðvarma til álbræðslu.  Ég var með innlegg í umræðuna og fékk bágt fyrir í mörgum símtölum frá Húsvíkingum og einnig í bréfum frá bæjarstjóranum þeirra sem og frá formanni stærsta verkalýðsfélagsins á staðnum þar sem þær kunnuglegu staðhæfingar voru hafðar uppi að ég vissi ekkert um málið og að við "fyrir sunnan" ættum ekki að skipta okkur af þessu.  Þetta er hins vegar ekkert einkamál Húsvíkinga og þeir eru alls ekki allir sammála um að álbræðsla sé heppileg leið í atvinnumálum.  Þess utan er hér verið að afhenda verðmæta auðlind nánast án endurgjalds til erlendra auðhringja.  Við hljótum einfaldlega að geta gert betur en það.

Síðar þann dag var svo tekið fyrir frumvarp frá Framsóknarflokknum flutt af Eygló Harðardóttur um takmarkanir á verðtryggingu og í framhaldi að því niðurfellingu hennar.  Þetta er mjög þarft og mikilvægt mál og studdum við það með innleggi okkar.  Öll umræðan var góð þó eftirtektar vert væri að enginn þingmaður Samfylkingar var til staðar í þingsalnum og hefur Samfylkingin að því er virðist enga skoðun á málinu.  Af hálfu Sjálfstæðisflokksins reifaði illugi Gunnarsson málið mjög vel og ítarlega og Lilja Mósesdóttir styður það líka.  Virðist því hafa skapast þverpólitísk samstaða um þetta mál og vonandi að Samfylkingin kynni sér málið og styðji það.

Föstudagurinn hófst svo með fjárlaganefndarvinnu þar sem nefndarmenn skipust í þrjá hópa og voru með fjölda fólks í viðtölum um peningabeiðnir þeirra.  Öll erindin sem komu til okkar hóps voru virðingarverð og þörf en aðferðin að annars vegar stilla upp þingmönnum til ákvarðana í einstaka fjárlagaliðum og hins vegar þeir stilli sér sjálfir upp sem handhafa fjárveitingavaldsins sem komi svo heim í hérað með peninga í töskum til kjósenda sinna er algerlega fráleit og ósiðleg.  Það vakti athygli mína að hóparnir skiptust nokkuð jafnt upp þannig að gestirnir lentu á "sínum" þingmönnum og heilsuðust gestir og þingmenn með virktum enda oft um vinskap að ræða.  Þarna er einfaldlega um að ræða óásættanleg hagsmunatengsl þar sem peningar skipta um hendur á pólitískum vettvangi og fjárlaganefndarmenn verða sem jólaveinar með gott í skóin heim í kjördæmin sín fyrir jólin.

Vissulega er hér um mörg mjög þörf verkefni að ræða en það á ekki að vera á valdsviði einstakra fjárlaganefndar manna að ákveða um þau.  Það eru til ótal sjóðir (húsafriðun, bókmenntir, listir, íþróttir) sem úthluta fé þar sem forsendurnar eru faglegar og tryggð er eftirfylgni með framgangi verkefnanna sem fá fé.  Þó svo þingmenn telji sig e.t.v. best til þess fallna að meta þörf á skrímslasetri á Bildudal annars vegar (svo eitt dæmi sé tekið) og þörf á hjartaþræðingum hins vegar og fórna þá hjartaþræðingunum, þá er þetta fyrirkomulag fráleitt ekki síst þegar haft er í huga að þetta eru mörg hundruð liðir þar sem ekkert samræmi er í úthlutuninni og hver þekkir hvern skiptir kannski mestu máli.

Fjárlaganefndarvinnan er komin á fullan skrið og mun ég svo sannarlega upplýsa meira um hana er fram líður enda stundum um mjög sérkennilegt ferli að ræða.

Síðar um daginn fór fram umræða um afskriftir skulda og samkeppnistöðu fyrirtækja en svo virðist sem stórfelldar afskriftir skulda séu að eiga sér stað í bankakerfinu með algerlega ógagnsæjum og óskipulegum hætti og sama gamla sagan að endurtaka sig, að íslendingar ætli að klúðra málum áfram og að þetta fyrsta og mikilvæga skref í enduruppbyggingu eftir hrunið verði klúður.  Ég var sjálfur með smá innlegg í umræðuna en öll umræðan var ágæt þó ég telji of seint að lagfæra klúðrið og voru hugmyndir Péturs H. Blöndal mjög áhugaverðar.  Svar Efnahags- og viðskiptaráðherra var hins vegar klassískt, að skipa nenfd um eitthvað sem er of seint að taka á.

Á eftir fór svo fram umræða um efnahgasmál og tóku Margrét og Birgitta þátt í henni og þar kom margt áhugavert fram.

Þetta var annasöm vika en vonandi tekst að koma þingstörfunum örar á framfæri á næstunni.

Það er hins vegar uggvænlegt að það virðist vera að eftir því sem fram líður ætli stjórnvöld ekkert að læra af hruninu og að haldið verði áfram alveg eins og fyrr.  Frumvarp til hjálpar heimilunum hjálpar fjárglæframönnum enn meir.  Icesave, AGS og ESB hafa forgang fyrir hagsmunum almennings.  Mannabreytingar í stjórnsýslunni eru ekki í bígerð.  Lýðræðismálin fá ekki sannfærandi stuðning.  Úffff!!!!

Fyrir liggur að Alþingi þarf að taka á skýrslu rannsóknarnefndarinnar um hrunið sem kemur í lok janúar.  Þar verður skipuð nefnd sem á að ákveða hvað verður gert með skýrsluna.  Ef sú nefnd og starfssvið hennar verður ekki trúverðugt þá erum við í vondum málum.  Þar mun Hreyfingin að sjálfsögðu koma fram með ákveðnar tillögur enda um framtíðar trúverðugleika þingsins og stjórnmálanna á Íslandi að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þór, ég vil benda þér á ræðu Más Guðmundssonar, þá sem var gagnrínd um daginn, ef þú hefur ekki haft tíma til að lesa handa:

Ræða Más Guðmundssonar seðlabankastjóra

  "En hvað með inngrip á gjaldeyrismarkaði? Það er vandmeðfarið tæki og röng beiting þess skilar í besta falli engu en í versta falli getur falið í sér gífurlegt tap á fjármagni. Það er hins vegar allt of langt gengið að hafna notkun þess alfarið. Það er einn af lærdómum fjármálakreppunnar að rétt beiting gjaldeyrisforða getur skipt sköpum varðandi það að varðveita peningalegan og fjármálalegan stöðugleika við erfiðar aðstæður. Þar er hægt að nefna ótal dæmi, allt frá Brasilíu til Kóreu. Það hefur ekkert upp á sig að hlaða upp gjaldeyrisforða þegar vel árar ef fólk heykist á að nota hann á úrslitastundu. Hið opinbera getur haft lengri sjóndeildarhring en einkageirinn og því getur hann tekið lengritíma stöðu með eða á móti eigin gjaldmiðli, jafnað sveiflur og grætt á öllu saman. Ástralir og fleiri hafa leikið þennan leik með miklum árangri, þrátt fyrir verðbólgumarkmið. En það má ekki reyna að verja gengi í gegnum þykkt og þunnt sem ekki fær staðist og það borgar sig ekki að grafa línu í sandinn gagnvart markaðnum. Þá er betra að beita herkænsku Genghis Khan sem tók sinn tíma, byrjaði t.d. oft á því að hörfa og lokkaði þannig andstæðingana úr vígjum sínum og gjöreyddi þeim síðan á sléttunum."

Skammt stórra högga á milli í þeirri ræðu. Hann líkir sér við einn af mestu herkonungum heimssögunnar, sér ekkert athugavert að láta sem að Seðlabanki Íslands hafi sambærilegt afl við margfalt - margfalt fjársterkari seðlabanka Brasilíu, Kóreu og Ástralíu; þegar andstæðingarnir eru alþjóðlegir fagfjárfestar sennilega vogunarsjóðir.

Maður hristir hausinn, í forundran yfir því, að þessi maður, skuli nú stjórna peningamálum Íslands.

--------------------------------------

Skoðaðu eftirfarandi færslur, ef þú hefur tíma:

Snillingarnir í Seðló

Er seðlabankastjóri hættulegur maður?

Ekki styrkist krónan!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.11.2009 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband