Félagsfundurinn

Rétt er að árétta það að svo það sé á hreinu að þá óskuðum við þrír þingmenn hreyfingarinnar eftir að félagsfundinum yrði frestað um viku þar sem vitað væri að ekkert okkar gæti mætt en öll höfðum áhuga á að koma. Samkvæmt póstum sem ég fékk í gærkvöld virtist það verða niðurstaðan en svo í morgun hafði einhver skipt um skoðun og það upp hófust átök innan stjórnarinnar hvort ætti að halda fundinn eður ei. Hann var svo greinilega haldinn og hefur vonandi verið einhverjum til gagns, en málefninu og hreyfingunni gagnaðist hann ekki.

Ég leyfi mér svo að birta bréf Margrétar til félagsfundarins en ég tek undir hvert orð sem hún segir. 

„Kæru félagar,

Í hádeginu í dag vorum við sem skipum þinghóp Borgarahreyfingarinnar boðuð á félagsfund nú í kvöld til að ræða klofning þinghópsins. Ég hef reynt að hafa það sem forgangsatriði að sækja félagsfundi Borgarahreyfingarinnar þótt ég hafi ekki komist á þá alla.

Það sem hér á hins vegar að ræða eru yfirlýsingar Þráins Bertelssonar í fjölmiðlum um að hann vilji ekki tala við okkur hin sem skipum þinghópinn með honum. Ég get engan veginn tekið að mér að svara fyrir hann og hans yfirlýsingar, hann verður að sjá um það sjálfur. Því tók ég þá ákvörðun að koma ekki á fundinn í kvöld, auk þess sem ég er ósátt við þann stutta fyrirvara sem ég fékk.

Ég get hins vegar greint frá minni hlið málsins. Forsöguna þekkja flestir en Þráinn var og er ósáttur við gjörning okkar við ESB atkvæðagreiðsluna. Það er hins vegar ekki rétt að við höfum ráðist í þá aðgerð án samráðs við hann. Við ræddum við hann áður en við létum til skarar skríða og hann gerði okkur ljóst að hann vildi ekki taka þátt í þessu og hélt ég að hann skyldi fullkomnlega á hverju afstaða okkar byggðist og virti ákvörðun okkar.

Samskiptin við hann þá daga sem hasarinn stóð yfir og fram yfir atkvæðagreiðsluna voru öll eins og best verður á kosið. Þráinn fór svo í útvarpsviðtal eftir atkvæðagreiðsluna þar sem hann sagðist ekki vita hvort hann hyggðist starfa með hinum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar áfram en ætlaði að taka sér frest fram yfir helgi til að melta það.

Mér fannst meira en sjálfsagt að gefa honum þann tíma. Sá tími hefur dregist á langinn.

Þráinn Bertelsson hefur verið boðaður á alla þinghópsfundi okkar síðan atkvæðagreiðslan fór fram en ekki mætt á einn einasta. Hann svaraði fundarboði á þann fyrsta, á mánudaginn 20. júlí, að hann myndi ekki mæta á þinghópsfundi en önnur svör hafa alla vega ekki borist mér. Við höfum ítrekað beðið um fundi með honum, sum okkar hafa hringt en aðrir sent bréf. Hann hefur aðeins einu sinni talað við okkur öll þrjú saman síðan þetta var en það var í matsal þar sem við báðum hann að ræða við okkur þingmáls sem kemur til kasta allsherjarnefndar en þar neitaði hann að ræða málið við okkur og var stuttur í spuna.

Mér þykir afar vænt um Þráinn og þætti miður ef hann sæi sér ekki fært að starfa með okkur. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfa mig en að mínu mati er Þráinn meira en velkominn í samstarfið á nýjan leik. Þá þykir mér miður að lesa umræðuna og þá útreið sem hann fær t.d. á Eyjunni í dag og ég vona að félagar í hreyfingunni hafi ekki tekið þátt í þeim ærumeiðingum.

Verst þykir mér þó að þetta ósætti skuli taka frá okkur tíma og orku þegar svo margt annað skiptir svo miklu meira máli. Nú vofir Icesave yfir okkur og öllu máli skiptir að koma því máli í einhvern farveg sem við getum lifað við sem þjóð. Þótt málið sé enn ekki til lykta leitt þá held ég að það dyljist engum að þar hafi Borgarahreyfingin, þingmenn sem grasrót, þegar unnið þrekvirki þótt deila megi um sumar aðferðirnar.

Við skulum ekki gleyma því að þessum “glæsilega” samningi átti að lauma í gegnum þingið án þess að þingmenn fengju færi á að kynna sér hann og meiri hluti þingheims var sáttur við það vinnulag á þeim tíma.“

Margrét Tryggvadóttir

Með baráttu kveðju.
Þór Saari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég tek fram, að ég er ekki meðlimur - en ég hvet meðlimi, til að jafna ágreining með einhvers konar málamiðlun.

Sögulega séð, hefur það gerst að ný hreyfing klofni á miðju kjörtímabili. 

Þ.s. hver þingmaður, hefur að flestum líkindum sína fylgismenn í dag, eru í ljósi sögunnar verulegar líkur þess, að þeir fylgismenn fylgi með sínum þingmanni ef sá klýfur sig frá flokknum. 

Augljóst ætti því vera, að ef einhver af 4 þingmönnum fer, fækkar í hreyfingunni og ég tala ekki um, ef 3/4 fara; en í því tilviki gæti það verið undanfari þess að hún hreinlega legði upp laupana.

Það gerir engum gagn, að gefast með slíkum hætti upp. Ástæður/forsendur þess, að hreyfingin var stofnuð, eru allar enn fyrir hendi; og hafa síst veikst.

Ég hvet því ykkur, til að jafna ágreiningin, og hætta að koma fram með miður hjálplegar yfirlísingar í fjölmiðlum.

Ég er hérna, ekki að koma fram með neinn dóm, um hverjum er um að kenna.

En, enginn græðir á sjálfstortímingu Borgarahreyfingarinnar, en þau öfl sem hún var mynduð til að berjast gegn.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.8.2009 kl. 00:38

2 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Ætlaðir þú ekki að bjarga þjóðfélaginu Þór Sari ásamt félögum þínum í Borgarahreyfingunni? Farðu nú heim og leggðu þig, þú og þið hin hafið gjörsamlega fallið á prófinu. Ég sendi ykkur mínar kveðjur á mínu bloggi <siggigretar,blog.is> vertu velkominn þangað, þar færðu mitt álit ómengað.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 7.8.2009 kl. 00:43

3 identicon

eg kaus þennan flokk og i gudana bæmun reinid tid ad vera SAMSTIGA

kjosandi (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 00:45

4 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Valdabarátta?

S. Lúther Gestsson, 7.8.2009 kl. 01:00

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Hagsmuni almennings uber alles takk fyrir Þór.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 7.8.2009 kl. 01:08

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég þekki persónulega dágóðan hóp sem kaus ykkur og ég hef ekki heyrt það fólk kvarta undan vinnubrögðum þínum eða ykkar þremenninganna. Á bloggsíðum hafa tjáð sig  samfylkingarmenn sem þykjast hafa bundið vonir við ykkur en hafi nú orðið fyrir vonbrigðum.  En er það kannski þannig að meirihluti Íslendinga vilji í ESB eða fá að borga Æsseif? Í síðustu kosningum var ekki síst kosið um efnahagsmál og mikill fjöldi fyrrum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins kaus ykkur vegna þess að þeim fannst réttilega að forystan hefði sýnt aulahátt og vildi ekki gefa henni áframhaldandi umboð, sama má raunar segja um fleiri flokka.  Annars væri fróðlegt að sjá um þetta könnun.

Ég hef lítillega fylgst með störfum ykkar á þingi og vil sem borgari þakka þér í fyllstu einlægni fyrir  þau.

Sigurður Þórðarson, 7.8.2009 kl. 01:24

7 identicon

Ég kaus Borgarahreyfinguna, Birgitta er í mínu kjördæmi. Ég hef einmitt verið mjög ánægður með ykkur þrjú og finnst Þráinn vera í tómu tjóni. Þegar ég ákvað að kjósa ykkur fékk ég ekki þá tilfinningu að stefna hreyfingarinnar væri að ganga í ESB. Reyndar kíkti ég hér núna http://www.borgarahreyfingin.is/stefnan/  og fór í "Edit > Find" möguleikann í Firefox. Þar prófaði ég að setja inn leitarorð eins og "ESB", "evrópusamband" , "viðræður" og jafnvel bara "samband". Það er ekkert slíkt þarna.

Ég stend áfram með ykkur þremenningunum. Vil ekki ESB og ekki þennan Icesave samning.

Björn Helgason (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 01:28

8 identicon

Björn Helgason (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 01:29

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Þór.

Sú er þetta ritar tók þátt í síðustu kosningbaráttu að hluta til eftir að framboð Lýðræðishreyfingar hafði loks fengið leyfi til þess hins arna, og ég verð að taka undir orð Björns Helgasonar síðasta ræðumanns þess efnis að áhersla á inngöngu í Esb sérstaklega af hálfu þeirra sem þar tóku þátt fór alveg framhjá mér.

Sjálf er ég ánægð með þig, Birgittu og Margréti og tel ykkur verðuga fulltrúa almennngs á þjóðþingi Íslendinga.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.8.2009 kl. 01:34

10 identicon

Tid vorud framanlega i motmælum i haust og vildud ekki lata kuga ykkur en hvad hefur KOMID fyrir ykkur i tessari vegferd. Tessi flokkur er ONITUR eg kem ekki til med ad kjosa tennan flokk AFTUR heldur skila eg audu

kjosandi (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 01:36

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mér fannst fundurinn gagnlegur Þór. Skoðanir voru vissulega talsvert skiptar um frammistöðu bæði þinghópsins (beggja "arma") og stjórnarinnar. En umræðurnar voru mjög góðar og einar 7 eða 8 tillögur og ályktanir samþykktar, allar nema ein samhljóða. Meðal annars var mynduð sáttanefnd sem fólk í ágreiningi tekur vonandi vel á móti. Og um tilteknar verklagsreglur fram að því að nýtt og virkt skipulag (sem nú er í smíðum í sérstökum vinnuhópi) verður samþykkt á aðalfundinum í september.

Það er ekki eins og fundurinn snérist um að "dissa" ykkur þremenningana umfram aðra. Þráinn fékk líka sínar sneiðar og stjórnin fékk líka sitt. En umfram allt var leitað leiða til úrbóta og sátta. Fundurinn var hljóðritaður svo þú getur sannreynt það! Í öllu falli vona ég að fólki takist að slíðra sverðin hið fyrsta.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.8.2009 kl. 01:45

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Gott að heyra þetta Friðrik

Sigurður Þórðarson, 7.8.2009 kl. 01:48

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er sammála Friðriki, ég vona að sverðin verði slíðruð í Borgarahreyfingunni.  Svona nýtt framboð hlýtur alltaf að eiga við erfiðleika að etja, sérstaklega þegar svona mikið hefur gengið á. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.8.2009 kl. 02:11

14 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Friðrik.  Ég tek undir með þessari athugasemd þinni (nr. 11) og þakka fyrir gagnlegan fund.  Eitt vil ég þó benda á.  Allar samþykktar tillögur voru samþykktar samhljóða.  Ein tillaga var felld.  Enginn tillaga var sem sé samþykkt með mótatkvæðum og því einhugur um allar þær tillögur sem samþykktar voru á þessum fundi.

Jón Kristófer Arnarson, 7.8.2009 kl. 08:53

15 identicon

Ég ber fullt traust til þín, Birgittu og Margrétar!

Ég tel að þið hafið unnið af heilindum fyrir Borgarahreyfinguna og hef enga ástæðu til að ætla en að svo verði áfram.

Þráin Bertelssen þykirmér aftur á móti lélegur pappír og kem til með að láta hann heyra það í persónu næst þegar ég hitti á hann.
Þið bökkuðuð hann upp í sambandi við listamannalaunin en hefðuð betur látið það ógert.
Hann er í grunninn ekkert annað en gjörspilltur framsóknarmaður og átti með réttu aldrei að vera í framboði fyrir Borgarahreyfinguna. Ég man eftir smá ræðu sem hann hélt á Laugaveginum þar sem hann ætlaði aldeilis að láta taka til sín á alþingi ef hann næði kjöri. Maðurinn er froðusnakkur og það hefur ekkert komið frá honum enn sem komið er.

En ég hvet ykkur hin áfram til góðra verka.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 10:01

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Rétt hjá þér Jón Kr., smá ónákvæmni í orðalagi hjá mér!

Vona að Þór bregði sér hingað fljótlega að tjá sig. Grasrótin hefur sett stjórn og þinghópi verklagsreglur og kosið sáttanefnd til að fara á fund beggja apparata. Óska eftir því að þingmenn og stjórnarmenn hlýði kallinu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.8.2009 kl. 10:03

17 identicon

Sæll Þór,

Ég kaus þig og Borgarahreyfinguna vegna þess að þið virtust ætla að koma með ferska vinda inn á þing. 

Þú, Margrét og Birgitta virðast hinsvegar við nánari skoðun ekki hafa nokkra burði til að valda þingstörfum.

Þið lofuðuð okkur að þjóðin fengi að kjósa um ESB, að það málefni yrði ekki heft af einstrengingslegum stjórnmálamönnum. 

Mæli með að þið skundið upp í Valhöll og skráið ykkur þar í flokk, það virðist eiga betur við ykkur.



Daði (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 10:12

18 Smámynd: Sigurður Hrellir

Í sumar hafa almennir félagsfundir verið haldnir hjá Borgarahreyfingunni á föstum tímum, kl. 20 á 1. og 3. fimmtudagskvöldi í hverjum mánuði. Þingmenn hafa mætt mjög illa á þessa fundi nema helst Margrét Tr. en fólk hefur sýnt því skilning sökum þess hve miklar annir hafa verið á Alþingi í sumar.
  
Það er rétt sem Þór segir að hann bað um að umræddum fundi yrði frestað sökum þess að hann átti erfitt með að mæta og það var vel tekið í það af hálfu stjórnarinnar. Hins vegar breyttist staðan augljóslega í gærmorgun eftir umfjöllun Fréttablaðsins og því var hætt við að fresta fundinum. (Að tala um átök innan stjórnarinnar í því sambandi eru ýkjur.) Tilkynning um það var send öllum þingmönnunum samstundis og hefði það verið hægðarleikur fyrir þau flest að mæta ef þau hefðu talið það forgangsmál. Birgitta bar fyrir sig að hafa ekki barnapössun, Margrét kaus sjálf að senda tilkynningu fremur en að mæta og Þráinn gaf enga skýringu. Fundurinn var ágætlega sóttur (37 manns) og mjög gagnlegur fyrir þá sem létu sjá sig hvað svo sem fjarstöddum kann að finnast.
  
Nú þurfa þingmenn Borgarahreyfingarinnar einfaldlega að setja persónulegt egó og prímadonnustæla til hliðar og vinna samtaka að stefnumálum hreyfingarinnar eins og segir nánar í ályktun fundarins. Til þess voru þeir kosnir. Stjórnin einbeitir sér að því að skipuleggja landsfund (Borgaraþing) sem haldið verður helgina 12. og 13. september. Þingmenn, stjórnarmenn og allir félagar ættu strax að taka frá þá daga og finna sér barnapössun ef þörf er á.

Sigurður Hrellir, 7.8.2009 kl. 11:16

19 identicon

Það er erfitt að vera Framsóknarmaður.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 11:28

20 Smámynd: Héðinn Björnsson

Gangi ykkur öllum vel að jafna ágreining ykkar. Þjóðin þarf á ykkur að halda af fullum styrk.

Héðinn Björnsson, 7.8.2009 kl. 11:44

21 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er ekki í Borgarahreyfingunni en vil þeim vel og vil gjarnan ráðleggja heilt:

Ég þekki það vel að langvarandi  eitrað pólitískt samband er miklu mun verra en skilnaður. Snyrtilegur skilnaður getur jafnvel styrkt hreyfinguna en langvinn deila, einkum ef hún verður persónuleg og dregst fram að kosningum er vatn á myllu andstæðinga og eyðileggur innra starf, kemur í veg fyrir að hægt sé að koma málum í umræðu og allan trúverðugleika.

Sigurður Þórðarson, 7.8.2009 kl. 12:40

22 Smámynd: Hrannar Baldursson

Frá því fyrir kosningar hef ég stutt Borgarahreyfinguna í riti, og geri það enn. Mér fannst taktíkin um atkvæðagreiðsluna í Evrópusambandið vafasöm og er viss um að með þeim mistökum hafi fylgi skaðast, en allir gera hins vegar mistök einhvern tíma og þau verða ekki að vandamáli nema þau séu sífellt endurtekin á einn eða annan hátt.

Frá upphafi setti ég aðeins eitt spurningarmerki við flokkinn, og það var þátttaka Þráins Bertelssonar, sem mér finnst einfaldlega ekki trúverðugur talsmaður hreyfingarinnar, þar sem að egóið hans virðist vera stærri en flokkurinn.

Annars eruð þið að standa ykkur vel og bráðnauðsynlegt að berjast gegn þessu ICESAVE rugli.

Mæli annars með að allir kynni sér afar góða grein Marinós G. Njálssonar: Sterkustu rökin gegn Icesave

Hrannar Baldursson, 7.8.2009 kl. 20:40

23 identicon

held að hinn almenni kjósandi standi með ykkur þremur, vonandi eyðileggur Þráinn ekki þennan ágætis flokk, hann er bara samfylkingarmaður

haukur kristinsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 21:16

24 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Eggert - ég get fullvissað þig um, að þeir sem ráða í Framsókn í dag, hafa engann áhuga á honum. 

Eins og sagt er, þ.s. ekki drepur mann, gerir mann sterkari. 

Það sama getur átt við Borgarahreyfinguna. Ég óska ykkur heilla, og sem lengst líftíma.

Ég, endurtek þ.s. ég sagði í upphafi, ég er ekki meðlimu, til að koma í veg fyrir misskilning. En, mín pólitíska framtíðarsýn, gerir ráð fyrir Borgarahreyfingunni.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.8.2009 kl. 02:41

25 Smámynd: Billi bilaði

Sigurður Hrellir, hvað hefur Birgitta gert þér til að þú gerir lítið úr því að barnapössun sé nauðsynleg? Er þetta rétti andinn til að bæta ástandið?

Er líka mikilvægara að halda fund af því að einhver útrásarvíkingasnepill birti um það frétt, heldur en að virða það að það sé fundur í einni mikilvægustu nefnd alþingis sem nú starfar vegna IceSave málsins? Málið á að taka út úr nefndinni innan ör-skamms, og setja fyrir þingið. Eiga þingmenn Borgarahreyfingarinnar að hunsa það?

Þór, haltu þínu striki! Ég er stoltur kjósandi Borgarahreyfingarinnar.

Billi bilaði, 8.8.2009 kl. 03:18

26 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er mjög sáttur kjósandi Borgarahreyfingarinnar. Ég horfi, les og hlusta á það sem þingmennirnir: Birgitta, Margrét og Þór hafa sett fram í ræðu og riti bæði á Alþingi og fjölmiðlum. Ég verð að segja að ég skil ekki um hvað meintur ágreiningur snýst. Mér virðist hann hafa byrjað sem stormur í vantsglasi en greini engan veginn upptök eða átt hans. Sannast sagna finnst mér stormviðrið svo tilefnislaust að ég get ekki annað en komist að sömu niðurstöðu og Lúther í nr. 4 hér að ofan.

Svo langar mig til að taka undir með því sem Sigurður Þórðarson hefur lagt til hér og á blogginu hennar Heiðu. Það er greinilegt á því sem hann hefur lagt fram í þessa umræðu bæði hér og þar að hann sér þetta mál sömu augum og ég þannig að ég sé enga ástæðu til að endurtaka það hér sem hann hefur lagt til þessarar umræðu nú þegar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 03:34

27 identicon

Þór, Þráinn var efsti maður í mínu kjördæmi. En ég var sannarlega ekki að kjósa hann, heldur ykkur hin. Og málefni flokksins. Haldið ótrauð áfram á sömu braut.

Spurning vaknar hvort Samspillingin hafi ekki einfaldlega plantað honum í Borgarahreyfinguna?

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 23:19

28 Smámynd: Þór Saari

Takk fyrri innlitið öll.

Ég þurfti að eyða út tveimur óviðeigandi athugasemdum og vil endurtaka að ég er sá eini sem er til svara hér þannig að árasir á aðra verða ekki liðnar.  Hvað varðar athugasmed 27 þá er hún skrifuð undir fullu nafni og ég veit fyrir víst að Þráinn er ekki planta Samfylkingar eða annarra enda átti ég sjálfur ásamt öðrum þátt í að fá hann til liðs við okkur.  Ég verða að lýsa undrun minni með að fundurinn hafi verið góður þrátt fyrir að ekkert fundarefnanna hafi mætt.  Jæja, nægjusemi er dyggð.  Einnig er ég undrandi á þessum endalausu kommentum að við ættum að mæta eða hefðum getað mætt.  Ég kom í bæinn frá Akureyri klukkan níu um kvöldið og fór þá beint á fund hjá þingmannahópi úr fjárlaganefnd og síðan á annan fund með öðrum hópi þingmanna sem entist til langt gengin í tólf.  Iceasve er eitthvert alvarlegast mál sem Alþingi hefur nokkru sinni fengist við og er forgangsmál.  Sem þingmaður ber ég ábyrgð á því að gæta hagsmuna almennings frekar en að tjá mig á fundi um einhvern meintan klofning í Borgarahreyfingunni sem ég tel í raun að sé ekki annað en ímyndun ein, félagi Sigurður Hrellir o.fl. verða að sætta sig við það og það hefur ekkert að gera með persónuleg egó eða prímadonnustæla.  Og svo öðru sé haldið til haga, þá var og er ESB ekki á stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar þó yfirlýstur vilji flestra ef ekki allra félaganna, þar á meðal mín, væri að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem væri ekki hægt fyrr en að loknum aðildarviðræðum.  Ég er jafn hlynntur aðildarviðræðum í dag og ég hef alla tíð verið og viðsnúningurinn í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar var einfaldlega tilraun til að koma miklu alvarlegra máli (Icesave) á hættuminna svæði.  Það tókst næstum því, atkvæðagreiðslunni varð að fresta um einn dag en stjórnin fékk að endingu sínu framgengt.  Með miklu átaki er okkur hins vegar að takast að ná inn fyrirvörum í Icesave skuldbindingarnar, m.a. vegna vinnu sem fór fram kvöldið sem ofangreindur fundur var.

Þór Saari, 10.8.2009 kl. 23:58

29 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég tek ofan hattinn fyrir þingmönnum BH sem leggja svo hart að sér eins og félagi Þór lýsir enda hefur gagnrýni á störf þeirra ekki snúist um skort á dugnaði eða eljusemi. Ég óska þess eindregið að eldmóður þeirra fari síst minnkandi eftir afgreiðslu Icesave en minni á að svo fámennur þinghópur VERÐUR að vera í góðum tengslum bæði innan þings sem utan til að koma góðum hlutum í verk. Svo vonast ég til að sjá sem flesta á stjórnarfundi í kvöld kl. 20 þar sem öllum félögum BH er heimilt að mæta.

Sigurður Hrellir, 11.8.2009 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband