18.3.2009 | 23:11
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing
Eftirfarandi grein var birt í Morgunblaðinu í gær, í leiðaraopnu, takk Moggi.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing er nýr flokkur í flóru stjórnmálanna á Íslandi og eini alvöru valkosturinn við "Fjórflokkinn" sem stendur til boða. Hreyfingin býður fram í öllum kjördæmum í komandi Alþingiskosningum.
Borgarahreyfingin á rætur í þeim fjölmörgu grasrótarhópum sem höfðu sig í frammi frá upphafi bankahrunsins í október. Grasrótarhóparnir og aðrir tengdir og ótengdir einstaklingar voru fólkið sem hrakti fyrrverandi ríkisstjórn frá völdum og rak flótta Geirs H. Haarde úr stjórnarráðinu á eftirminnilegan hátt. Samhliða þessum aðgerðum fór fram mikið starf þar sem reynt var að sameina hópa og einstaklinga undir einum fána, starf sem lauk með stofnun Samstöðu - bandalagi grasrótarhópa þann 17. febrúar síðastliðinn. Því má með sanni segja að Borgarahreyfingin sé barn búsáhaldarbyltingarinnar.
Þótt ýmislegt vanti á að Samstaða innihaldi alla þá hópa og einstaklinga sem sóst var eftir er mikilvægt að hafa í huga að félags- og flokkastarf undir einum hatti gengur beinlínis gegn persónulegri hugmyndafræði margra þeirra sem við var rætt en meðlimir Samtöðu eru þó úr nánast öllum þeim grasrótarhópum sem um ræðir.
Samstaða kom sér saman um markmið sem eru fá, einföld og auðskilin og eru þessi:
Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.
Landsmenn semji eigin stjórnarskrá.
Trúverðug rannsókn undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga á efnahagshruninu verði gerð fyrir opnum tjöldum.
Eignir auðmanna frystar á meðan rannsókn stendur.
Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.
Lýðræðisumbætur strax, þ.m.t. stjórnlagaþing í haust, persónukjör, tryggt verði að ný framboð fái stuðning til jafns við starfandi stjórnmálaflokka og að öll framboð fái sama tíma í fjölmiðlum.
Það sem gerir þessa stefnu einstaka er að hún var að stórum hluta samin af öllum sem vildu, fyrir opnum tjöldum á internetinu. Á grunni þessara markmiða var ákveðið að halda áfram með starfið hvar sem hægt væri og meðlimir Samstöðu og tengdir aðilar hafa nú dreift sér inn í alla stjórnmálaflokka, tekið þátt í prófkjörum og sums staðar gengið mjög vel.
Til viðbótar var ákveðið að taka pólitíska slaginn beint við "Fjórflokkakerfið" og bjóða fram hreyfingu sem hefði það að markmiði að ná fram mikilvægum lýðræðisumbótum, nýrri stjórnarskrá, rannsókn erlendra sérfræðinga á hruni hagkerfisins, lögfestingu faglegrar stjórnsýslu auk þess að taka á vanda heimilianna.
Hreyfingin hlaut nafnið Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, og byggja stefnumál hennar í meginatriðum á markmiðum áðurnefndrar Samstöðu og hugmyndum hundruða manna sem við höfum rætt við undanfarna mánuði.
Meginmarkmið hreyfingarinnar eru í stuttu máli að lýðræðisvæða Ísland með nýrri stjórnarskrá sem saminn verður af almenningi, fyrir almenning og á stjórnlagaþingi almennings. Auk þess vill hreyfingin breytingar á kosningalögum m.a. innleiðingu persónukjörs í kosningum þar sem kjósendur geta sjálfir raðað á lista í kjörklefanum. Borgarahreyfingin telur einnig að seta á þingi eigi að takmarkast við tvö kjörtímabil, að allar ráðningar í stjórnsýslunni og stofnunum ríkisins skuli endurskoðaðar og endurráðið verði eða fært til í efstu stjórnendastöðum.
Borgarahreyfingin hafnar nálgun stjórnvalda á bankahruninu og telur ekki að um sé að ræða hrun hefðbundinnar bankastarfsemi sem beri að afgreiða eftir venjulegum gjaldþrotaleiðum. Þannig verður gríðarlegu tapi erlendra innstæðueigenda og töpuðum útlánum Seðlabankans velt yfir á almenning sem enga sök eiga. Hreyfingin telur að bankastarfsemi sú sem nú er hrunin hafi í eðli sínu verið svikamylla, a.m.k. seinustu tvö árin, þar sem fjármálafyrirtækin hafi skipulega unnið að því að ná til sín fé, vitandi að leikurinn var tapaður. Þetta gerðist með vitund og þegjandi samþykki síðustu ríkisstjórnar og þeirra stofnana ríkisins sem áttu að gæta hagsmuna almennings og er algerlega forkastanlegt. Því ber að rannsaka bankahrunið sem svikamyllu með víðtækri samvinnu við erlend stjórnvöld og með aðstoð erlendra sérfræðinga. Þeir fjármunir sem fjármálafyrirtækin náðu til sín verði sóttir og þeim einfaldlega skilað til réttmætra eigenda. Afgangurinn sem út af stendur verði svo sóttur beint til eigenda og stjórnenda fyrirtækjanna.
Borgarahreyfingin telur líka að grípa verði strax til aðgerða í þágu heimilanna og vill að vísitala verðtryggingar verði færð aftur til janúar 2008 með tilsvarandi lækkun á höfuðstól og afborgunum. Afborgunum af húsnæðislánum verði hægt að fresta í tvö ár og vextir af vertyggðum lánum verði ekki meiri en 2% - 3%. Gripið verði til samsvarandi aðgerða vegna gengistryggðra húsnæðislána. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána, þeim breytt í lán með fasta vexti og verðtygging fjárskuldbindinga afnumin. Íslendingar hafa nógu lengi búið við hið sér-íslenska kerfi árangurslausra afborgana sem er komið út úr öllu korti og sýnir sig best í því að það skiptir litlu máli fyrir lántakandann hvort peningarnir eru notaðir til að greiða afborgun eða þeim sé einfaldlega hent.
Refsing þeirra sem taka ekki þátt í stjórnmálum er að þeim er stjórnað af verra fólki en því sjálfu, þessi orð Platos kjarna það sem gerst hefur á Íslandi. Við, almenningur, hættum að taka þátt í stjórnmálum. Við sváfum á verðinum og nú verðum við að vakna. Við verðum að gefa öllum flokkum rauða spjaldið, senda þá út af í tvær mínútur á meðan við byggjum upp réttlátt kerfi sem tekur ábyrgð gagnvart borgurunum, þar sem borgararnir geta veitt þingheimi aðhald og þingheimur getur veitt ráðherrum aðhald.
Nú er það er á valdi þjóðarinnar að kjósa réttlæti, lýðræði og hætta þessu kjaftæði.
http://www.borgarahreyfingin.is/
Þór Saari
Höfundur er hagfræðingur og frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvergi orð um framsal aflaheimilda-lénsskipulagið í sjávarútvegi.
Passið nú vel að styggja ekki kóngana hjá LÍÚ ef vera skyldi að þeir sæju sér fært að styrkja framboðið lítillega.
Árni Gunnarsson, 18.3.2009 kl. 23:39
Sæll Árni.
Hvet þig til að lesa stefnuskrána. Liður 10 í II. kafla segir "Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt."
Þar höfum við það.
Þór Saari, 19.3.2009 kl. 08:15
Nákvæmlega eins og í dag. Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar að nafninu til. Og honum er ráðstafað tímabundið. Hinsvegar hefur enginn gert neitt með þetta nú um langt skeið. Aflaheimildum er úthlutað frá ári til árs en þrátt fyrir það veðsettar upp í topp og vel það. Og til þess að kóróna allt þá notum við aflamarkskerfið sem krefst þess í raun að aðeins verðmætasta fiskinum er landað, öllum smáfiski hent. Grásleppukarlar henda spriklandi stórþorski ef þeir eiga ekki kvóta. Þeir eru dauðamenn og misssa leyfið ef þeir koma með fisk í land og eiga ekki kvóta. Allt kerfið og stjórn þess er eitt endemi heimsku og óréttar, auk þess sem aflaheimildir hafa rýrnað um 2/3 frá því við byrjuðum að vernda.
Þrátt fyrir að ég hafi fullan skilning á þörf fyrir nýtt stjórnmálaafl hef litla trú á að það ágæta fólk sem að þessu framboði stendur nái til kjósenda á svo skömmum tíma sem er til stefnu. En fyrst og fremst þurfið þið sterkt fólk í framlínuna. Þið þurfið flugmælska vígamenn og konur með glóandi eldtengur.
Gangi ykkur vel.
Árni Gunnarsson, 19.3.2009 kl. 10:07
ÞJÓÐINN Á ÞING!!!Baráttukveðja!
Konráð Ragnarsson, 19.3.2009 kl. 13:25
"eini alvöru valkosturinn við "Fjórflokkinn""???
Hvað um Lýðræðishreyfinguna. Ertu ekki að gleyma henni?
Sjá nánar um Lýðræðishreyfinguna á www.lydveldi.is
Ástþór Magnússon Wium, 19.3.2009 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.