8.3.2010 | 22:06
Sáttatónn og Þríflokkurinn.
Ræddum í dag úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eftir munnlega skýrslu forsætisráðherra um hana. Menn voru ekki alveg jafn herskáir og venjulega þó ég geri mér litlar vonir um að þverpólitísk samstaða náist um eitt eða neitt á þessu þingi. Að vísu má vel færa fyrir því rök að fækkað hafi í röðum Fjórflokksins illræmda og að þeir séu nú ekki lengur nema þrír. Það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur tekið miklum stakka- og sinnaskiptum og þó þeir dragist með ál-líkið ennþá í lestinni er greinilegt að sú mikla endurnýjun sem hefur átt sér stað þar á bæ er raunveruleg og til fyrirmyndar. Mér virðast þeir til dæmis hafa mjög skýra og ákveðna sýn í lýðræðismálum og sanna og sterka réttlætissýn varðandi Hrunið og aðdraganda þess og hvað þarf til að gera það almennilega upp. Þeim er að vísu velt upp úr fortíðinni vegna Halldórs Ásgrímssonar og samstarfs hans við Sjálfstæðisflokkinn og vissulega er draugur Halldórs og félaga frá þeim tíma stór en mér finnst samt sem "Nýja" Framsókn sé raunveruleg.
Þríflokkurinn virðist hins vegar alveg fastur í sömu hjólförunum og keyrðu okkur fram af brúninni einu sinni og er það dapurlegt því samskonar pólitík mun bara endurtaka þá framafkeyrslu. Eftir að hafa fylgst með umræðuni eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Silfrinu og eins á þingfundinum í dag komst ég að þeirri niðurstöðu að til að náist betri þverpólitísk sátt um nokkurn skapaðann hlut í þinginu þurfi að eiga sér stað kynslóðaskipti í ríkisstjórninni. Sjá hér. Ég lagði til að formenn ríkisstjórnarflokkana vikju til hliðar og við tækju varaformenn flokkana. Margrét talaði á sömu nótum og Birkjir Jón Frammari var líka í sáttahug. Þau eru bæði (Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. Eggertsson) með rætur í allt öðruvísi stjórnmálahefðum en SJS og JS og eru ekki með neinn þann farangur af plotti, óheilindum og brostnum vonum eins og núverandi formenn. Það má svo velta fyrir sér ýmsum sætaskipunum í ríkisstjórn eftir það, en það er aukaatriði.
Ef þetta fengist í gegn tel ég verulegar líkur á því að hægt væri að ná góðri þverpólitískri sátt um þau brýnu mál sem svo aðkallandi er að leysa þó vissulega hafi ég efasemdir um að Sjálfstæðisflokkurinn gæti verið með í slíku stafi. Þar er enn að finna sama gamla öfga-frjálshyggjutóninn og sérhagsmunagæsluna sem leiddi til Hrunsins og ekki gott að segja hvernig þau geta unnið sig framhjá því.
Hver ferð hefst hinsvegar á einu skrefi og hver máltíð á einum bita. Ef menn geta kyngt þessum hugmyndum á þess að kafna eða svelgjast mjög mikið á, þá er vel farið af stað. Það er nefnilega nóg komið af gamla skólanum og það er skylda þingsins að gera betur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Get verið sammála þér um að það blása greinilega ferskir vindar um Framsókn þó ég hafi efasemdir um hversu djúpt þeir blása, ákveðnir aðilar eiga ennþá flokkinn og það hentar þeim að leyfa ferska loftinu að virðast hreinsa til.
En ertu virkilega að segja að Sigmundur Davíð sé fulltrúi þessara nýju viðhorfa? Þegar ég sé hann og heyri þá sé ég bara framlenginu af gamla pakkinu, Halldóri, Finni og þeirra líkum.
Ég myndi fara mjög varlega í að treysta Framsóknarflokknum þó vissulega megi heldur ekki loka á alla möguleika á því að hann geti skánað. Hans sérkenni hefur alltaf verið kameljónið, hann aðlagar sig alltaf ríkjandi aðstæðum með aðeins eitt markmið: Komast til valda til að geta hyglað fólkinu sem sér síðan á móti til þess að flokkurinn haldist á lífi.
Gunnar, 8.3.2010 kl. 22:36
Sammála þér um að Framsókn hafi tekið stakkaskiptum og hef trú á Sigmundi Davíð sem framtíðarmanni í pólitík.
Hugmyndin um að varaformenn flokkanna taki við leiðtogataumum er óvænt og djörf og gæti einmitt fengið menn upp úr gömlu skotgröfunum.
Hrímfaxi (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 23:04
Fyrirgefðu en með fullri virðingu þá missti ég endanlega allt álit á dómgreind þinni þegar las eftirfarandi "sú mikla endurnýjun sem hefur átt sér stað þar á bæ er raunveruleg og til fyrirmyndar". Ég ætla að leyfa mér að efast um að "sagan" taki undir með þér þegar upp verður staðið, en aðeins tíminn getur leitt í ljós hvort okkar hefur rétt fyrir sér.
ASE (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 23:34
ASE, ég vinn með þessu fólki á hverjum degi og stend við orðin. Það má samt ekki gleyma því að í pólitík getur allt gerst. En er á meðan er og nú er þörf á samstöðu.
Þór Saari, 8.3.2010 kl. 23:39
SDG gengur enn um með pólitíska bleiu. BB ætti að vera orðinn kassavanur, en eitthvað virðist ganga erfiðlega fyrir hann að losna við bleiuna. Þið þremenningarnir virðist hafa komist á koppinn eftir aðeins tæpt ár. Joðhanna virðast þó bæði vera komin í fullorðinsbleiuna.
Brjánn Guðjónsson, 9.3.2010 kl. 00:22
"Og þetta kalla ég landsbyggðarstefnu!" kallaði Birkir varaformaður fram í sal úr ræðustól Alþingis þegar: Ákveðið hafði verið að gera friðsælt sjávarþorp að Klondike Íslands, böðlast á ótrúlega stórbrotnu og sérstæðu hálendissvæði og breyta því í stöðuvatn þar sem öll næringarefni sem Jökulsá hefur borið til sjávar í Héraðsflóa mynda nú set í Hálslón og fyllir það á x mörgum áratugum.
Langar þig í uppbyggingu þessa lands með úreltu stóriðjuhugarfari Framsóknarflokks og heiladauðu íhaldi eða samfylkingarþokuslæðingi?
Eina leiðin til að byggja hér upp manneskjulegt umhverfi er að stofna nýjan og framsækinn stjórnmálaflokk sem hefur kjark og þor til að leysa þessa þjóð úr fjötrum galins kerfisofbeldis sem náttúrulausir kontóristar prenta út úr exelskjölum til að sýna fólki fram á að allt sé bannað nema það standi skýrum stöfum í tilskipunum EES að það sé góðfúslega leyft að uppfylltum ströngum skilyrðum.
ÞAÐ KEMUR EKKI KÁLFUR ÚR MYNDASTYTTU AF KÚ.
Það sem þessa þjóð vantar er skilningur stjórnvalda á því að þau eiga ekki að koma neinum andskotans "hjólum atvinnulífsins í gang" Það á þjóðin sjálf að gera og hún á að fá leyfi til að gera það....punktur basta!
Stjórnvöld sem friða fiskimiðin sem eru svo full af fiski að hann er orðinn til vandræða í umferðinni nærri sjó, en gefur bönkunum óskorað veiðileyfi á fólkið er ónýtt og úrelt drasl og einu má gilda þótt skipt sé út formönnum fyrir varaformenn á meðan hugmyndafræðin er geld.
Örþjóð sem veiðir 1,5% af öllum fiski sem veiddur er í heiminum er ekki á flæðskeri stödd þó ekki bættust við aðrar mikilvægar gjaldeyristekjur.
Þau rísa hárin á tíkinni minni henni Tinnu greyinu þegar ég skýri henni frá daglegum afurðum vitsmunalegra afganga þessarar þjóðar inni á Alþingi.
Hversu marga milljarða afskrifa þessa dagana skilanefndirnar svonefndar á svona mátulegum vinnudegi?
Athugaðu nú við tækifæri hvort allir fulltrúar okkar á Alþingi kunna að nota hníf og gaffal. Ég bíð spenntur eftir niðurstöðunni.
Árni Gunnarsson, 9.3.2010 kl. 00:27
Árni mælir þarna allann minn hug.
Hann enda gerir það enda zwo vel...
Steingrímur Helgason, 9.3.2010 kl. 01:08
Sæll þór.
Frumleg og góð tillaga til að höggva á þennan hnút og standpínu þá sem þessi Ríkisstjórn hefur komið sér í.
Að mæla með varaformönnum í stað JS og SJS er sáttaleið sem flestir ættu að geta sæst á, nema kannski þau sjálf.
Allavega er nýtt blóð, þeirra sem ekki voru félagar Finns, Halldórs og Dabba og samráðherrar, líklegra til að taka til í þessu samfélagi en gömlu vinnufélagar þeirra á Alþingi. Það er það sem þjóðin vill og bíður eftir. Ásamt skjaldborginni. Um heimilin það er að segja, þó ekki útrásarvíkinga og fjárglæframanna.
Og einnig skyldi nota hvert tækifæri til þess að minna þjóðina og Alþingismenn hennar á, fyrir hverja þeir vinna.
Ekki flokkinn.
Ekki þá sjálfa.
Heldur þjóðina.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 04:26
Ég vil biðja þig að velta því vel og vandlega fyrir þér áður en þú mærir Framsóknarflokkinn, þessa gömlu og tryggu hækju íhaldsins í gegnum árin. Baklandið er það sama, í felum handan við hornið vegna kastljóssins á hrunið og afleiðingarnar.Hirðin sem studdi Halldór, Finn og fleiri glæpamenn er enn til staðar!!Ég hvet þig frekar að berjast áfram gegn fjórflokknum en að tala um eitthvað skrípi sem þú kallar þríflokk því í því fellst einhversskonar syndaaflausn til Framsóknar sem þeir eiga ekki innistæðu fyrir.
Hörður Ingvaldsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 09:06
það þarf að koma á persónu kjöri
og síðan fara til kosninga
þú færð mittt atkvæði Þór einnig Birgitta hún va sú eina sem talaði af viti í silfrinu
kv
Magnús
Magnús (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 09:49
Mér finnst nú gott að heyra þetta Þór, hef viljað trúa þessu líka og þykja mér þingmenn Framsóknar vera ferskir og lausir við klafann. Ekki verra að heyra það frá þér.
sandkassi (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 12:08
Það væri vissulega gott ef hægt væri að fá nýja og öfluga flokka inn í Íslensk stjórnmál. Það hefur hinsvegar reynst erfitt fyrir nýja flokka að hasla sér völl, jafn vel þó málflutningur og stefna þeirra hafi oft verið fersk og góð. Því má ekki gera lítið úr því þegar gömlu flokkarnir endurnýja sig. Það er ekki endalaust hægt að kenna flokka við misgjörðir fyrrum formanna eða flokksfélaga. Það er margt slæmt hægt að draga fram um störf allra flokka, það er ekki þar með sagt að þeir geti ekki batnað. Þetta ætti ekki að bitna á nýjum flokkum eða stjórnmálafélögum. Ef fólk er rökvisst og málefnalegt á það að geta komið sér að. Það reynir reyndar á þessa fullyrðingu mína í næstu kosningum, Hreifingin sem kom ný inn í stjórnmál fyrir síðustu kosningar fékk ekki allt of mikið fylgi, nú hefur þetta fólk sýnt það og sannað að það stendur fyllilega fyrir sínu. Það verður því gaman að sjá hvernig því reiðir af við næstu kosningar.
Gunnar Heiðarsson, 9.3.2010 kl. 15:54
Ég óska Sigmundi glópaláni til hamingju með nýjan flokksfélaga. Vonandi verður Þór glópalánsmanninum til einhverra nota
Ragnar L Benediktsson, 9.3.2010 kl. 16:26
Já, ég hef unnið á sama stað og Sigmundur Davíð og var hann hinn prúðasti maður sem mark var takandi á. Hann er óheflaður á þingi og á eftir að slípast - ég er viss um að hann eigi eftir að spjara sig í framtíðinni (ja, svo framalega sem vald spillir honum ekki).
Þessi tillaga er mjög góð og líklega myndi hún leiða til sátta. Ég held hins vegar að Steingrímur geti eki stigið til hliðar. Hann gæti örugglega ekki tekið því ef Katrín leiddi málið til farsælla lykta. Samt reynandi!
Birgitta stóð sig frábærlega í Silfrinu. Því miður var stanslaust gripið fram í fyrir henni en hún var eina manneskjan sem setti sjálfa sig til hliðar og málefnið í forgang.
Baráttukveðjur
Eva Sól (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 17:22
Af þeim sem á alþingi sitja í dag ert þú einn af fáum sem hefur lag og samvisku til að tala eins og hugurinn býr í brjósti hverju sinni enda hefur þú ekki vönd flokkseigenda og hagsmunagæslumanna á bakinu hvert sinn sem þú stígur í ræðustól.
Ég vil samt ekki mæra þig of mikið, ég er ekki alltaf sammála málflutningi þínum en held að þú sért ærlegur og trúr sannfæringu þinni.
Þetta hól kemur þó með þeim fyrirvara að svipað þótti mér um Steingrím meðan hann var í stjórnarandstöðu.
Þessi hugmynd er ekki verri en hver önnur en ég held þó að mat þitt á Framsókn og aðstöðu varaformanna flokkanna sé ekki fyllilega raunhæft.
Einstaklingar eru til þess að gera áhrifalausir innan flokkskerfisins nema þeir haldi sig á línu flokkseigenda. Fyrr en við sjáum þessar línur breytast til raunverulegs lýðræðis er ég smeykur um að lítið verði okkur til bjargar.
Hjalti Tómasson, 9.3.2010 kl. 21:59
Bíðum nú við! Er í alvöru verið að ræða um telpukornið hana Katrínu sem flokksleiðtoga?
Árni Gunnarsson, 9.3.2010 kl. 22:38
Góð greining Þór. Mjög sammála. Ég held að það sé þjóðinni til heilla að losna við gamla þrashunda af þingi og ríkisstjórn.
Jón Á Grétarsson, 11.3.2010 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.