Ævintýraleg fjárlög

Fjárlagafrumvarpið var aftur lagt fram í dag eftir meðferð hjá fjárlaganenfd.  Nefndin hefur lengi verið helsta landsbyggðabitlinganefnd þingsins og nú eru níu af ellefu nefndarmönnum af landsbyggðinni.  Þeir eru:

Ásbjörn Óttarsson, NV, S, Ásmundur Einar Daðason, NV, Vg,Björn Valur Gíslason, NA, Vg, varaformaður, Guðbjartur Hannesson, NV, Sf, formaður, Höskuldur Þórhallsson, NA, F, Kristján Þór Júlíusson, NA, S, Oddný G. Harðardóttir, SU, Sf, Ólöf Nordal, RS, S, Sigmundur Ernir Rúnarsson, NA, Sf, Þór Saari, SV, Hr, Þuríður Backman, NA, Vg

Hér var um ævintýralega yfirferð að ræða þar sem fjöldi fólks, aðallega úr kjördæmum fjárlaganefndarmanna kom á fund nefndarinnar til að ræða miklar fjárvantanir til einstaka verkefna.

Á fund nefndarinnar kom m.a. spákona sem óskaði eftir fimmtán milljóna styrk fyrir spákonuhús á Skagaströnd og skrímslafræðingar sem óskuðu eftir fimm milljónum fyrir skrímslasetur á Bíldudal ásamt fjölda annarra með alls lags furðulegar óskir.

Ég þóttist nú vera farinn aðbúast við ýmsu eftir um hálfs árs setu á Alþingi en vinnan við gerð fjárlaga toppar þó allt.

Eins og sjá má  í þessu skjali  ef farið er niður undir mitt skjali undir "Sérstök yfirlit I" þá fær spákonan 2,8 milljónir af skattfé almennings til spámennsku (flokkur 10 ýmis stofnkostnaðarframlög, liður 22), skrímslasetrið fær 2,1 milljón (flokkur 3,söfn ýmis stofnkostnaður, liður 5). Stjórnmálaflokkar fá svo 333 milljónir og lengi mætti telja.  Eins og sjá má í skjalinu þá kennir hér margra grasa og úthlutunin fór fram milli nefndarmanna meirihlutans án nokkurar efnislegrar umræðu í nefndinni.  Áhugasamir geta svo tengt heimilisföng úthlutananna við kjördæmin og séð hvaða þingmenn berjast fyrir hverju.

Að mínu viti er hér um algerlega óábyrga og í raun spillta meðferð á almannfé að ræða þar sem þingmennirnir koma svo heim í kjördæmið í jólafríinu með peninga í poka og fá þá væntanlega atkvæði í staðinn en á Íslandi þykja þetta þó víst eðlileg stjórnmál.  Til hamingju Samfylking og Vinstri-Græn.  Alþingi og nefndarvinnan sem þar fer fram er í þessu tilviki sem mörgum öðrum eingöngu einhvers konar yfirskin og ekki furða að hér hafi orðið algert hrun ef vinnubrögðin hafa verið með þessum hætti hingað til.

Ég mun halda áfram að upplýsa um fjárlagagerðina eftir því sem tími gefst til en hvet lesendur til að kynna sér gögnin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þór af hverju gengur þú ekki bara í Sjálfstæðisflokkinn?

P.s. hef aldrei orðið jafn svektur með einn mann um ævina og ég hef orðið með þig. Skammast mín fyrir að hafa staðið við hlið þér í Búsáhaldabyltingunni.

fyrrum Sjalli (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 23:21

2 Smámynd: Þór Saari

Aldrei, aldrei, aldrei.  Nafnlausir Samfylkingarpésar eru samt velkomnir meðan þeir eru kurteisir.

Þór Saari, 12.12.2009 kl. 23:47

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Að gagnrýna heimskuleg vinnubrögð og lélega stjórnsýslu er aðdáunarvert af sitjandi þingmanni.  Í stað þess að fara alltaf í þessar gamalkunnu stellingar eins og fyrrum sjalli gerir ættum við að styðja Þór í gagnrýni hans.

Takk fyrir Þór

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.12.2009 kl. 00:12

4 Smámynd: Dante

Það mun sárafátt breytast á þessu skeri fyrr en kosningalöggjöfinni verður breytt!

Sorglegt og einfalt.

Kosningalöggjöfinni verður ekki breytt á þessu þingi, núverandi þingmenn munu aldrei samþykkja það að valdahlutföllum verði breytt.

Hvernig er hægt að breyta kosningalöggjöfinni án þess að núverandi þingmenn afbaki þingsályktunartillöguna með skítugum klónum, í þágu flokks síns?

Allar tillögur eru vel þegnar .

Dante, 13.12.2009 kl. 00:26

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sammála þér og þínum dæmum, Þór, um "spillta meðferð á almannfé". Haltu endilega áfram að upplýsa um þessi mál á okkar slóðum; það er aðhald í því fólgið og nauðsynleg uppfræðsla, því að ekki auglýsa sukkmeistararnir þessar gloríur sínar (jafnve á versta tíma) nema í þröngum hópi kjósenda. En það er alltaf auðvelt að vera 'do-gooder' sem gefur af því sem hann á ekki.

Jón Valur Jensson, 13.12.2009 kl. 03:27

6 identicon

Sæll nafni

Ég held að það standi til að reisa hús eða skála á Spákonufelli sem hefur þekkta sögu óviðkomandi spádómum að ég best veit en ég bjó á Skagaströnd í 18 ár.Þar er mikið listalíf eftir að verbúð var breytt í listavinnustofur og hafa erlendir listamenn þar vetursetu og er allt fullt núna.

Hvað varðar störf fjárlaganefndar sl.40 ár þá hefur hún starfað sem góðgerðarstofnun við bitlingagerð en ætti ekki að taka á móti gestum öðrum en ráðuneytis þar sem mig hefur alltaf undrað að ráðherrar lýði það að forstöðumenn stofnanna sem undir þá heyra séu á fundi nefndarinnar að ota sínum tota.  Það er ekki furða að nefndin geti unnið þau verk sem henni ber að gera svo sem fjárlög og eftirfylgni með rekstri stofnanna ríkisins og mér segist svo hugur að nefndin hafi ekki enn fengið aðgang að TBR kerfi Fjármálaráðuneytisins og sjá hlutina á rauntíma??

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 08:50

7 Smámynd: Daði Ingólfsson

Vil sérstaklega undirstrika lið 134 a. Framlög til stjórnmálasamtaka. Þar er framlag til stjórnmálasamtaka lækkað um skitin 10% á meðan afleiðingar gerða þessara sömu flokka setja heimili eftir heimili á hausinn, fyrirtæki eftir fyrirtæki í greiðsluþrot og hefur sólundað orðspori Íslands á alþjóðavettvangi svo stórfenglega að það dettur engri heilvita þjóð í hug að hjálpa okkur í neyð. Þetta, og dæmi Þórs um kjördæmapot sannar að það er bara einn hópur sem ekkert hefur lært af hruninu: stjórnmálamenn. Ég held svei mér þá að fjárglæframenn hafi lært sína lexíu, en þjóðkjörnir leiðtogar halda áfram sinni makalausu vegferð og vísa barasta á bug öllu sem ekki kemur þeim og þeirra flokkum beinlínis til góða.

Daði Ingólfsson, 13.12.2009 kl. 11:48

8 identicon

Veistu eitthvað um skrímslasetrið og spákonuverkefnið? Þetta eru verkefni sem skipta miklu máli í ferðaþjónustu á viðkomandi stöðum og skila sér margfalt til baka!!!

Landsbyggðarmaður (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 13:23

9 identicon

Kemur ekki á óvart að öfgamaðurinn Jón Valur sé hjartanlega sammála þér Þór enda virðast skoðanir ykkar falla saman eins og flís við rass.

fyrrum Sjalli (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 13:40

10 identicon

   Mín spurning til þín er sú. Er rétt að laxveiðileyfi og uppihald í veiðihúsum landsins séu undanskyld greiðslu á virðisaukaskatti.?  og ef svo er hver eru rökin fyrir slíkri undanþágu??

Hallur (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 15:35

11 identicon

   Þór eg geri það að tillögu fyrir fjárlaganefnd að hæstu eftirlaun opinberra starfsmanna nemi ekki hærri upphæð, en hámarksupphæð er þið ákvarðið í fæðingarorlofi eða ca. kr. 300.000,oo

bolli (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 16:27

12 identicon

Sæll Þór og takk fyrir þetta.

Maður hefði haldið að "Alt upp á borðið meirihlutinn" myndi vera heiðarlegur í niðurskurði sínum og sniðganga svona bruðl. Og atkvæðaveiðar.

Og reyna að beita sér  fyrir því að forgangsraða. Þannig að liðir þarna inni myndu stuðla að atvinnu sem flestra, svo færri væru á kerfinu. Og svo því, að þjónustustig grunnþjónustunnar í landinu, svo sem heilsugæslan, menntakerfið, lög og landhelgisgæsla. Myndi skerðast sem minnst. 

En aftur á móti hlutir eins og uppbygging safna og setra (ég hef aldrei gert mér grein fyrir öllum þessum fræðasetrum um alt land, asskoti erum við að verða fróð þjóð) sitji á hakanum, þótt mörg eigi kannski rétt á sér. Og hvaða rugl liðir eru þetta aftur og aftur: Ráðstöfunarfé Til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun ráðherra. Hvað er þetta annað en mútufé?

Tek að lokum heilshugar undir með  Dante, 13.12.2009 kl. 00:26 hér ofar.

Burt með samspillingu 4flokksinns, og stjórnlagaþing fólksins strax.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 17:10

13 identicon

Það er greinilegt að þú lítill karl Þór með svona skítkast í garð góðra verkefna á landsbyggðinni. Skammastu þín. Berðu saman bullið sem ríkið leggur til í fjármögnun verkefni í borginni miðað við aurana sem fara í ný tækifæri á landsbyggðinni. Skrímslasetrið er t.d. mjög athyglisvert verkefni sem þú ættir frekar að kynna þér frekar en að vera með skítkast.  Kondu frekar með hugmyndir um hvernig eigi að leggja góðum verkefnum lið frekar en að pissa upp í vindinn.

Elias Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 18:23

14 Smámynd: Haukur Nikulásson

Takk fyrir þetta Þór.

Gefðu mér það í jólagjöf að koma eftirfarandi út úr fjárlögunum: Rekstri Þjóðkirkjunnar, rekstri RÚV, rekstri Þjóðleikhússins og Sinfóníunnar. Landbúnaðarstyrkjum, rekstri Varnarmálastofnunar, rekstri óþarfa sendiráða, óhóflegum eftirlaunum stjórnmála- og embættismanna, ríkisábyrgðinni á Icesave með tilheyrandi vaxtagreiðslum, styrkjum til stjórnmálaflokka og kostnaði við aðildarumsókn að ESB.

Síðan máttu afnema kvóta útgerðarmanna og bjóða hann út að mestu, nema því sem þarf að ráðstafa til strandveiða.

Þegar þú hefur lokið við þetta geturðu örugglega með góðri samvisku haldið gleðileg jól!

Haukur Nikulásson, 13.12.2009 kl. 22:18

15 identicon

Þór Saari var kosinn á þing, af fólki sem hélt að hann gerði, það sem hann sagðist ætla að gera !

En því miður, þá hefur Þór Saari bara gert eins og allir aðrir hafa gert áður, þegar þeir fengu launin frá alþingi !

Fyrst verið er að að minnast á kjördæmapotið sem viðgengst við peningaúthlutun frá alþingi, er þá ekki bara gott að minnast á vitlausasta dæmið um peningaúthlutun frá alþingi ?

Jú, það er rétt Héðinsfjarðargöng ! 

Hvers vegna er Kristján Möller enn þá samgönguráðherra ?

Hvernig væri að landið væri bara eitt kjördæmi ?

JR (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 22:19

16 identicon

Heill og sæll Þór,

Sá þetta haft eftir þéri á RÚV rétt í þessu

"Í venjulegum löndum heitir þetta spilling, en hér heitir þetta kjördæmapot, stjórnmál, hrepparígur og þessháttar. Þetta er ósiðlegt og þetta á að leggja af."

Hélt þig vera af bandarískubergi brotinn, jafnvel með bandarískan ríkisborgararétt um tíma og hlaust framhaldsmenntun í hagfræði í Guðseiginlandi. Augljóst að þú hefur ekki fylgst vel með. Auðvitað kann að vera að Bandaríkin falli ekki undir flokkunina venjulegt land. Hér er stundaður hreppapólitiskur sóðaskapur í slíkum mæli að smáupphæðir þingmanna á Íslandi þættu að höfðatölu jöfnun tæplega skiptimynt. Hér þykir sjálfsagt að þingmaður kjördæmis komi og afhennti með eigin hendi ávísunina frá alríksstjórninni og getur þá látið taka af sér myndir og fær umfjöllun svæðisfjölmiðla um hve vel þeim gangi að ná heim kjöttunnunum.

Á Íslandi sér fjármálaráðuneytið um að færa upphæðina inn á reikning. Þingmenn verða að upphefja sig sjálfir. Ekki að aðferðinni sé til fyrirmyndar, en nefndu okkur nú venjulegt land til viðmiðunnar þannig að eftir verði tekið og lært af.

Aðvenntu kveðjur frá Sléttunum miklu

Emil

Emil (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 23:21

17 identicon

Það er nú líka margt bruðlað á SV horninu.  Fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni eru þetta  afar mikilvægar krónur, sem hlúa að margvislegri atvinnusköpun.

Svo er það nú alveg spurning hvað sé Landsbyggðarþingmaður? Er Sigmundur Ernir virkilega landsbyggðarþingmaður? Eða Grafarvogsþingmaður?  Vona hann sinni bæði sinni heimabyggð í Foldunum og kjördæminum þar sem hann var kjörin vel.

Asta (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 16:32

18 identicon

Sæll Þór,

Um leið og vert er að draga fram í hversu miklum smámunum okkar þingmenn eru að bítast þegar þjóðarskútan er að sökkva þá bjóst ég við meiri fagmennsku af þér en það að ætla að dæma um svona verkefni án þess að þekkja þau til hlítar.

Lítil söfn og setur á landsbyggðinni eru oft á tíðum mjög mikilvægur hlekkur og stundum nánast eina undirstaða ferðaþjónustu á stórum svæðum, en ferðaþjónustan er jú sú grein sem vex örast og gefur okkur ört vaxandi hluta teknar ríkissjóðs!

Að sjálfssögðu þarf að leggja niður þessa bitlinga á fjárlögum og leggja þessar úthlutanir í hendur sérfræðinga sem myndu meta verkefnin og mikilvægi þeirra og lífvænleika á faglegum grundvelli. Að setja uppbyggingar og nýsköpunarverkefni í stabílli og traustari farveg en kjördæmapot þingmanna.

kv,

Björk

Björk Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 20:55

19 identicon

Ekki hrapa að ályktunum. Hér er um að ræða sögulegt safn tengt fyrsta landnámsmanni Skagastrandar, Þórdísi spákonu, og er liður í uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu sem er það atvinnusvið sem hvað mestar vonir eru bundnar við í uppbyggingu efnahags Íslands. Ýmis kennileiti á Skagaströnd eru tengd henni, Spákonufellshöfði, Spákonufellseyja... "Þórdís var uppi á síðari hluta 10. aldar. Nafn hennar kemur víða við í frásögnum fyrri tíma, bæði lof og last. Hún var þekkt fyrir að vera kvenskörungur mikill og standa jafnfætis helstu höfðingjum. Einnig var hún forspá og fjölkunnug. Þá fóstraði hún Þorvald víðförla fyrsta kristniboðann á Íslandi."

Soffía Auður Birgisdóttir (IP-tala skráð) 15.12.2009 kl. 09:38

20 identicon

Þór. Ég tel afar mikilvægt að styrkja spákonusetrið á Skagaströnd rausnarlega og get rökstutt það m.a. með því að við höfum Veðurstofu Íslands sem er í raun hliðstæð stofnun en miklu dýrari í rekstri. Hafrannróknarstofnun er einnig hliðstæð stofnun, en ekki nándar nærri eins mikilvæg og spákonusetrið. Einu sinni höfðum við Þjóðhgsstofnun en hún var lögð niður sem hafði að mínu mati slæmar afleiðingar. Það eru óvissutímar framundan og þess vegna er nauðsynlegt að loka ekki á allar þær upplýsingaveitur sem við höfum yfir að ráða, til þess að styðja við uppbygginguna. Spákonusetrið er hlekkur í þessari keðju upplýsingaveitna. Þangað geta t.d. þingmenn snúið sér til þess að láta spá fyrir þem málum sem þeir hyggjast taka upp á hinu háa Alþingi. Spákonusetrið getur síðan dafnað og sett upp útibú vítt og breytt um landið til hagsbóta fyrir landsmenn.

Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband