24.10.2009 | 01:57
Skuldaniðurfelling Alþingis, fyrir hverja?
Alþingi samþykkti í dag lög um skuldaniðurfellingu, sennilega stórfelldustu og stórskrýtnustu skuldaniðurfellingu lýðveldistímans þar sem niðurstaðan verður sennilega sú að þeir sem tóku lán eða fengu kúlulán til hlutabréfakaupa fá þau felld niður en þeir sem tóku lán og notuðu þau til kaupa á íbúðarhúsnæði, heimili fyrir sig og fjölskyldur, sínar skulu greiða þau að fullu og öllu og sennilega meira en það ef eitthvað er.
Löggjöf þessi heitir "Frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins" og er merkt sem þingskjal 69 - 69. mál og má sjá hér, nefndarálitið er hér og breytingartillögur eru hér. Frumvarpið er samið að tilstuðlan félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar.
Frumvarpið kom seint fram var tekið til umræðu s.l. mánudag og var keyrt á miklum hraða í gegnum þingið og var félags- og tryggingamálanefnd skipað að afgreiða það fyrir helgi. Nefndin fundaði kvöld og nætur og lá mikið á. Það var fyrst í gær að ég hafði pata af öllum þessum asa og eftir nokkrar fyrirspurnir um frumvarpið og að áeggjan utanþingfólks úr bankakerfinu sem hafði komið fyrir nefndina ákvað ég að senda inn athugasemdir til nefndarinnar um það. Sendi ég inn athguasemdir í tíu liðum fyrir fund nefndarinnar sem hófst klukkan níu í gærkvöldi. Í morgun tjáði formaður nefndarinnar mér að vegna asans á málinu hefðu athugasemdirnar ekki verið skoðaðar af nefndinni. Þessar athugasemdir má sjá hér neðst. Asinn var að sögn vegna þess að annars myndi lækkunin ekki ná til greiðslna um næstu mánaðamót. Það hefði hins vegar verið unnt að leysa með einfaldri reglugerð ef vilji hefði verið til.
Frumvarpið vakti upp margar spurningar hjá mér því þótt því væri hampað sem frumvarpi félagsmálaráðherra til hjálpar heimilunum var ekki annað að sjá en það innibæri einnig heimildir til stórfelldrar og jafnvel algerrar skuldaniðurfellingar vegna hlutabréfakaupa. Eða eins og segir í lögunum. "Hugtakið lánasamningur í lögunum skal skilgreint rúmt þannig að það taki til allra samninga sem leiða af sér fjárskuldbindingu, þ.m.t. skuldbindingar vegna útgáfu verðbréfa og afleiðusamninga." Þetta er nú kannski ekki alveg það sem reiknað er með þegar aðgerðir í þágu heimilana eins og það er kallað, eru í umræðunni, þótt vissulega geti heimili átt hlutabréf og gert afleiðusamninga.
Eftir að hafa lagst yfir málið og séð umsagnir fjármálaráðuneytisins og Hagsmunasamtaka heimilanna fékk ég hálfgerðan hroll. Í fyrsta lagi er hér um að ræða mál sem fellir niður skuldir vegna hlutabréfakaupa. Eða eins og segir í umsögn hagsmunasamtak heimiliana: "Frumvarpið mun augljóslega bjarga hinum fjölmörgu óráðsíu fjárfestum sem ekki eiga eignir fyrir hlutabréfaskuldum sínum. Þær afskriftir verða sýnilega mun meiri en hjá húsnæðiseigendum. Fjárskuldbindinguna vegna kaupa á hlutabréfum upp á hundruð milljóna, ef ekki milljarða, verður nú hægt að færa niður til raunvirðis bréfanna, þ.e. núll." Eða eins og það heitir í frumvarpinu ""að færa skuldir að eignastöðu".
Hagsmunasamtök heimilana bæta við: "Þetta er ekkert smá atriði. Hér er verið að afskrifa öll hlutabréfalánin. Hvort sem menn skulda milljón eða milljarð umfram eignastöðu, þá verður allt afskrifað. Allir þeir sem tóku mesta áhættu, fá syndaaflausn. Ekki hjá presti, nei hjá félagsmálaráðherra! en enn og aftur eiga þeir sem fóru varlega að bera tjón sitt vegna þess að eiginfjárstaða þeirra fór ekki upp fyrir eignastöðu. Sá sem tók mesta áhættu og hefði getað grætt mest og er hugsanlega búin að græða mest, hann á að fá mestan afslátt skulda."
Ekkert, ég endurtek, ekkert þak er á niðurfellingum skulda.
Með lögunum er líka verið að taka öll verðtryggð lán einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi í hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum og færa þau yfir í greiðslujöfnunarkerfið að lántakendunum forspurðum og lánþegi þarf sérstaklega að óska þess að það verði ekki gert.
Þess má geta að greiðslujöfnunarvístalan er í raun alls ekkert betri fyrir lántakendur heldur en vísitala neysluverðs en ég lýsi henni í þeim athugasemdum (#4) sem eru hér fyrir neðan. Um greiðslujöfnunarvísitöluna segja hagsmunasamtök heimilana eftirfarandi: "Upptaka greiðslujöfnunarvístölu er í flestum tilvikum bjarnargreiði. Notkun greiðslujöfnunar mun líklegast ekki leiða til lengingar lánstíma nema þróun launa og atvinnustigs verði óhagstæð til langs tíma. Í flestum tilfellum sem ég hef skoðað, þá mun lánstíminn lengjast mjög óverulega eða styttast! Það getur varla verið ætlun Alþingis að stytta lánstíma lánanna! Það hefur verið ein meginkrafa Hagsmunasamtaka heimilanna að hinn stökkbreytti höfuðstóll húsnæðislána verði leiðréttur. Greiðslujöfnun leiðir ekki til slíks nema sem fullkomlega óraunhæfs möguleika í lok lánstíma. Hér er því fyrst og fremst verið að veita tímabundið skjól en síðan á að venja landsmenn smátt og smátt við storminn svo mönnum finnist að lokum ekkert hvasst þó bál sé úti. Notkun greiðslujöfnunarvístölu mun skerða ráðstöfunartekjur lántakenda til langs tíma. Þetta þýðir frystingu kaupmáttar meðan verið er að greiða af láninu. Þegar lántakendur ættu að vera farnir að sjá greiðslubyrðina lækka, þá mun það ekki gerast.
Meira um greiðslujöfnunarvístöluna frá hagsmunasamtökum heimilana: "Veit einhver hvernig hún verður til? Notað er orðalagið að greiðslujöfnunarvísitalan sé "launavísitala vegin með atvinnustigi". En hvernig er þetta gert? Hvernig er atvinnustig mælt? Þessi vístala er gjörsamlega óskiljanleg. Síðan tekur mánaðarleg greiðsla breytingum eftir greiðslujöfnunarvísitölu en höfuðstóllin eftir vístölu neysluverðs. Á fólk að geta skilið þetta?
Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir m.a: "Ljóst er að með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakendans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri." Og um þess umsögn segja hagsmunasamtök heimilana: "Þetta sýnir að greiðslujöfnunarvístalan er bara blekking svo greiðsluvilji einstaklinga og heimila aukist."
Þess ber að geta að umrædd greiðslujöfnunarvístala verður héðan í frá sennilega grundvöllur allra afborgana af öllum húsnæðislánum almennings og að ekki er gerð minnsta tilraun til að velta upp áhrifum af notkun hennar né er nokkur tilraun gerð til greiningar á því hvað hún í raun inniber, hvorki í frumvarpinu né í nefndarálitinu. Jahá!! segi ég nú bara.
Að sjálfsögðu tók ég til máls um þetta á þinginu í dag. Orðfærið var að vísu full sterkt þar sem ég ýjaði að því að nefndarmenn í félags- og tryggingamálanefnd hefðu látið stjórnast af eigin fjárhagslegum hagsmunum í málinu og hefði ég átt að orða gagnrýni mína með öðrum hætti þar. Burtséð frá orðfæri mínu sem var óviðurkvæmilegt eins og það var sett fram, þá eru atriði í þessu frumvarpi sem hrópa á það að upplýst verði með hvaða hætti, ef einhverjum, þingmenn munu njóta góðs af. Hér er hvorki meira né minna en verið að gefa grænt ljós á stórfelldar og jafvel algerar afskriftir af hlutabréfalánum, aðgerð sem er vafin inn í frumvarp um aðgerðir í þágu heimila. Þess ber að geta að þingmenn eru aldrei vanhæfir í neinum málum nema í fjárveitingum til sjálfs sín. Eða eins og segir orðrétt í 64. grein þingskapa, 3. mgr. "Engin þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín." Það má svo deila um það hvort þessi grein á við um þessa lagasetningu en ef þingmenn fá afskriftir vegna þessara laga tel ég að svo sé.Vissulega eru þingmenn að öllu jöfnu ekkert annað en þverskurður af samfélaginu og skulda eins og aðrir og ekkert athugavert við það. En með þessu frumvarpi vakna einfaldlega spurningar sem hefði átt að gera ráð fyrir að væri búið að svara fyrirfram. Alla vega hefði mér sjálfum aldrei dottið í hug að leggja fram eða samþykkja frumvarp um skuldaniðurfellingu nema að tryggt væri frá upphafi að upplýst væri hver minn hagur hugsanlega yrði af því, svo einfalt er það.
Ég bað um að málið yrði skoðað rækilegar og krafðist fundar í félags- og tryggingamálanefnd milli annrar og þriðju umræðu en þinginu er skylt að verða við slíkri bón. Þingforseti boðaði hálftíma fundarhlé til að nefndin gæti afgreitt kverúlantinn mig en þá steig einn nefndarmanna fram (varaformaður nefndarinnar að ég held) og sagði að það tæki þau nú ekki nema fimm mínútur að afgreiða svona mál. Fundi var því frestað í tíu mínútur meðan félags- og tryggingamálanefnd fundaði um málið. Fundurinn var haldinn í smá kompu undir stiganum í norð-vestur horni hússins á sömu hæð og þingsalurinn og eftir stutt samtal við þingflokksformann Samfylkingarinnar var ég boðaður á fundinn þar sem ellefu manns hírðust sem hænur á prikum. Þvílík vinnubrögð. Hvað um það. Á fundinum okkar góða undir stiganum var því einfaldlega hafnað að skoða málið frekar og eins fór fyrir athugasemdum mínum, á þeim forsendum að þetta hefði þegar verið komið fram hjá öðrum sem komu á fund nefndarinnar. Þó er ekki minnst einu orði á neitt viðlíka þessu í nefndarálitinu.
Það er einfaldlega óþolandi fyrir almenning eins og ástandið hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið ár að upp geti komið svona mál og það er að mínu mati grundvallaratriði að þingmenn í framhaldinu upplýsi hvort og þá hve mikils þeir munu njóta góðs af þessari lagasetningu.
Ræðuna mína um málið má svo sjá hér og hér en umræðan fór fram á tveimur fundum 14. og 15. Öll umræðan er í raun áhugaverð því alveg frá upphafi fannst mér flutningsmaður málsins eiga í vandræðum með að svara einföldum spurningum sem ég spurði í andsvari. Eins kom í ljós að nefndarfundirnir voru fjörugir og þykir mér leitt að hafa truflað fjörið svona í endann.
Hér eru svo athugsemdir mínar til félags- og tryggingamálanenfdar:
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:00 | Facebook
Athugasemdir
Hugsa meira. Tala minna.
Sverrir (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 03:23
Af hverju hefur þetta mál ekki verið í umræðu opinberlega svo almenningur sjái hvað verið er að bjóða? Af hverju sinna fjölmiðlar þessu ekki? Er þetta skjaldborgin loksins? Fyrir kúlulánþega?
Rósa (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 08:28
Þór, takk fyrir frábæra frammistöði í kring um þetta mál !
Nokkrar spurningar:
Er vitað hvað þessi aðgerð muni kosta ríkissjóð ?
Hér með er hlutabréfaelítunni sleppt úr snörunni ?
Er til önnur leið út úr þessu rugli en BYLTING ?
Axel Pétur Axelsson, 24.10.2009 kl. 09:50
mig hryllir við þessa lesningu, nett ógeðslegt verð ég að segja...
þórir karl celin (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 09:58
Þór, takk fyrir að nota álitið okkar. Það var gott að ég sendi þér það.
Ég vil þó benda á eina villu í eftirfarandi tilvitnun:
"Frumvarpið mun augljóslega bjarga hinum fjölmörgu óráðsíu fjárfestum sem ekki eiga eignir fyrir hlutabréfaskuldum sínum. Þær afskriftir verða sýnilega mun meiri en hjá húsnæðiseigendum. Fjárskuldbindinguna vegna kaupa á hlutabréfum upp á hundruð milljóna, ef ekki milljarða, verður nú hægt að færa niður til raunvirðis bréfanna, þ.e. núll." Eða eins og það heitir í frumvarpinu ""að færa skuldir að eignastöðu"
Orðið óráðsía er innan gæsalappa í upprunalega textanum, þar sem verið er að vitna í það sem amma hans Davíðs kenndi honum, þ.e. að þeir sem ekki geta borgað skuldir sínar séu óráðsíumenn. Það er ekki skoðun HH að slíkt fók sé óráðsíufólk, heldur hefur margt af því lent í aðstöðu sem það tók engan þátt í að skapa. Það væri gott, ef þú tryggðir að þetta rataði í þingskjöl með gæsalöppunum.
Marinó G. Njálsson, 24.10.2009 kl. 12:31
Hugsun samsærissjáenda eins og mín er einföld: Nú á að afskrifa lán N1 (14 milljarðar (lánabók Kaupþings)) og svo verður spennandi að sjá hvort eitthvað verði gert fyrir Sigmund Davíð....icelandair??
Nú hætta þeir að þvælast fyrir og öll dýrin í skóginum verða vinir.
Villi (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 12:41
Skuldir N1 eru 65 miljarðar, þetta á lýðurinn að greiða ofan á allar aðrir afskriftir.
Þið eruð að standa ykkur frábærlega vel þarna á þinginu, viðtalið við þig í Vikulokunum í morgun var mjög gott!
Ég held að það stefni í aðra byltingu .........
Sigurlaug (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 13:32
ég var einmitt að spá í hversvegna þú kysir einn manna á móti frumvapi með svo fallegt nafn ! en VÁ nú er ég farinn að skilja og þetta virkar á mig eins og enginn á þingi hafi skoðað eða velt fyrir sér frumvarpinu, og ef rétt reynist þá er allveg ótrúlegt að svona "aðför" hafi verið stimplað með öllum nema einu athvæði.
það er greinilegt allavegna að efla verður eftirlit og naflaskoðun á öllu sem Samfylkinginn setur fram, þetta er svaðalegt og en ein misnotkun á nafngift til að "líta betur út" samborið við hið fræga "persónukjörs" frumvarp ! þar sem ekkert er í anda raunverulegs persónukjörs heldur einföld Lögbinding á Prófkjöri í átta efstu sæti innan flokks.
þetta er óhugnarlegt og spurninng hvort fluttnings maður sjálfur hafi lesið frumvarp sitt eða hafi þá minsta skilninng ef lesið hefur, þetta frumvarp hefur allavegna ekkert á borð Félagsmálaráðherra að gera, þetta er meira eins og áliktun innan SA.
Gretar Eir (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 13:39
Ég ítreka bara þá skoðun mína sem ég hef set fram síðustu 12 mánuði eða svo, þessi ríkisstjórn er "bæði gagnlaus & stórhættuleg land & þjóð...!" Samspillingin fær mig alltaf til að brosa, maður spyr: "Hvað detur þeim næst í hug?" Þetta lið er svo SIÐBLINT að það hálfa væri nóg....lol...!
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 24.10.2009 kl. 13:45
Maður situr orðlaus og agndofa yfir þessum hamförum sem eiga sér stað í málefnum skuldara í þessu volaða landi. Að almenningur skuli eiga að bera þessa stökkbreytingu lána hvort sem eru verðtryggð eða gengistryggð lán er út fyrir allt velsæmi. Hvað eru menn að gera inná hinu háa Alþingi. Er þetta lið að megninu til veruleikafyrrt. Er virkilega ætlast til þess að við kingjum þessum skrípaleik sem þetta frumvarp er. Það er ekki nema ein leið fær í þessu máli og það er bylting. Ég trúi því ekki að landinn sé svo vitlaus að kingja þessum blekkingum, það hlýtur að vera komið yfir þolmörk, ef ekki þá er fólk alment vitlausara en ég hefi haldið. Flykkjum okkur að baki Hagsmunasamtökum Heimilana og sínum þessari bankaelítu á alþingi hvað réttlæti er.
Gísli Erlingsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 14:59
Athugið hverja ríkisstjórnin hefur valið sér til fulltingis:
Með svo marga bankamenn í farteskinu, og einnig hafandi í huga að fyrir kosningar kom í ljós að Samfó var sá flokkur sem hafði fengið næstmest í gjafafé frá bönkunum og eigendum þeirra; er ekki þá einfaldlega ljóst hverra hagsmuna stjórnendur Samfó, eru að leitast til með að vera?
Áhugavert einnig, að allir þessir aðstoðarmenn, eru fyrrum starfsmenn Björgólfsfeðga.
Áhugavert, ekki satt?
Samspilling, er kannski rétt-nefni eftir allt saman.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 24.10.2009 kl. 17:34
Það getur alls ekki verið að það eigi að afskrifa eitthvað af skuldum N1, hvaðan hafið þið það? N1 var að skila yfir milljarði í hagnað á stuttum tíma eða eitthvað álíka, var í fréttum! Einnig er forstjóri N1 oft í útvarpinu að segja hvað hægt sé að gera með góðar hugmyndir.
Agnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 17:54
Þór færir góð rök fyrir því afhverju hann greiddi ekki atkvæði með frumvarpinu í þættinum "Í vikulokin" í morgun.
Hann nefnir þar skattfrjálsar afskriftir kúlulána með veð í lánunum sjálfum sem fylgja frumvarpinu en sá pakki verður almenningi miklu dýrari heldur en það sem niðurfellingin gagnvart heimilunum. Þá er ekkert þak er á niðurfellingum skulda þannig að almenniingur verður látinn greiða allan kúlusukkpakkann eins og hann leggur sig. Hagsmunasamtök heimilanna hafa einnig lýst frati á frumvarpið sem er ekkert annað en úlfur í sauðagæru.
Ég leyfi mér að stórefast um að þingmennirnir hafa allir lesið eins vel ofan í frumvarpið líkt og Þór gerir enda vantaði rúman helming þingmannana þegar að atkvæðagreiðslunni kom, eitthvað sem ætti að vekja meiri furðu heldur athugasemdir Þórs gagnvart frumvarpinu.
Minnir mann á Icesavesamninginn og allt klúðrið í kringum það skelfilega mál þegar að nánast ekki nokkur maður hafði lesið samninginn, hvað þá þýtt hann almennilega.
Frumvarpinu má helst líkja við tóman jólapakka.
Sigurlaug (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 18:26
það er nú afar athyglisvert að aðeins 5 þingmenn sjálfstæðisflokksins og 3 framsóknarmenn nenntu að hafa fyrir því að mæta í þingsal til að greiða atkvæði um þetta mál. Svo heldur fólk að þessir flokkar beri hag almennings fyrir brjósti!
Óskar (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 19:00
Þór, þú verður að lesa lagafrumvörp áður en þú ferð að æsa þig yfir þeim.
Þessi lög fella ekki niður skuldir neins. En þau setja ramma utan um þau tilvik, þar sem kröfuhafar ákveða (sjálfviljugir) að fella niður skuldir lántakenda að hluta eða öllu leyti. Það sem er aðallega mikilvægt í því sambandi er að eftirgjöf skulda, sem uppfyllir skilyrði, myndar ekki tekjuskattstofn hjá lántakandanum. Auðvitað þarf það að vera á hreinu því annars væri ókleift að framkvæma skuldaniðurfellingu - lántakendur eru vitaskuld ekki borgunarmenn fyrir tekjuskatti af niðurfellingu skulda.
Í lögunum er leitast við að samræma vinnubrögð og reglur við niðurfellingu, þannig að hlutlægni sé gætt eins og kostur er.
Það hefur áður komið fram í umræðu að niðurfelling skulda sem til eru komnar vegna launþegasambands teljist eftir sem áður mynda tekjuskattstofn. Ég er nú reyndar ekkert yfir mig sannfærður um að það sé sanngjarnt, en vissulega umdeilanlegt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.10.2009 kl. 22:21
Höfum þetta einfalt. Ef það á að fella niður skuldir kúlulánadrottninga- og kónga innan og utan þings skal það sama gilda um íbúðarskuldir.
Á grundvelli jafnræðisreglunnar á annað ekki að koma til greina.
Hlutabréfin sem voru andlag veðsins vegna kúlulánanna eru verðlaus í dag. Þar með eru engar eignir til upp í kúlulánin og þau þar með 100% töpuð.
Þetta er það sem snillingarnir að baki þessu frumvarpi kalla að laga skuldir að eignastöðu.
Allt gott og blessað en þá ættum við sem skuldum íbúðarlán að krefjast þess sama fyrir okkar lán:
Höfuðstóll lána (endurgreiðsluvirði lánsins) að viðbættum vöxtum og verðbótum verði aldrei hærri en áætlað markaðsvirði fasteignarinnar á hverjum tímapunkti sem er andlag veðs lánsins.
Ég fyrir mitt leyti mun ekki sætta mig við neitt minna.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 00:03
Vilhjálmur Þorsteinsson; þú ert hugrakkur Samspillingapési að vilja hér upp á dekk og gusa yfir okkur einum skammti af lömunarveiki, takk en ég er búinn að fá skammtinn minn.
Gísli Erlingsson; Sammála þér, eina ráðið núna er að fara á www.heimilin.is og skrá sig STRAX !
Stjórnkerfi Íslands er hrunið og ofurselt spillingu. Þeir sem ekki sjá það eru annað hvort ekki búnir að ná 2ja ára aldri eða eru helsjúkir af spillingu sjálfir.
Alþingi Íslendinga hefur sennilega hér með gefið út stríðyfirlýsingu á heimili landsins, og það má bóka að þau rísa upp til að ná fram réttlæti að hætti víkinga.
Axel Pétur Axelsson, 25.10.2009 kl. 01:42
Góður Axel Pétur. 100% sammála.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 10:09
Jæja Axel, en þú vilt ekki láta svo lítið að benda á hvað er rangt í þessu hjá mér og af hverju? Gamaldags málefnaleg rökræða, er það kannski ekki nýja Ísland?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.10.2009 kl. 12:28
Vilhjálmur Þorsteinsson; ég reiknaði bara með því að þú hefðir lesið lögin og áttað þig á þvi hvað er í gangi. Tökum þetta þá eftir gamla skólanum þínum, í nýja skólanum þá er umræðan tekin áður en lögum er nauðgað í gegnum Alþingi Íslendinga. Svon eins og nemendum er kennt námsefnið FYRIR próf. En þetta er sennilega of flókið fyrir þig.
"Þessi lög fella ekki niður skuldir neins. En þau setja ramma utan um þau tilvik, þar sem kröfuhafar ákveða (sjálfviljugir) að fella niður skuldir lántakenda að hluta eða öllu leyti" (þessi er óklippt).
Í fyrstu málsgrein (eftir skot á Þór) ertu einfaldlega í þversögn við sjálfan þig, núna ætla ég að beita copy paste tækni ykkar Samspillinga;
"Þessi lög fella ekki niður skuldir neins, kröfuhafar ákveða (sjálfviljugir) að fella niður skuldir lántakenda að hluta eða öllu leyti. Annars væri ókleift að framkvæma skuldaniðurfellingu"
"Í lögunum er leitast við að samræma vinnubrögð og reglur við niðurfellingu, þannig að hlutlægni sé gætt eins og kostur er.";
Það hefur verið upplýst að verklagsreglur voru til í bönkunum áður en lögin komu fyrir Alþingi. Það vita allir sem vilja (þessi brandari er í boði Guðmundar ASÍ) að þessi lög voru skrifuð af hagsmunasamtökum bankabrallara. Við góðir Íslendingar eigum semsagt að treysta bankaböllurum aftur það vita allir sem villja (aftur) að þetta er uppskrift að spillingu.
Síðasta málsgrein hjá þér; Viltu veðja að þetta skatta atriði fljúgi í gegnum Alþingi bankabrallara líka ?
Axel Pétur Axelsson, 25.10.2009 kl. 14:26
Þór Saari hefur rétt fyrir sér - Dæmigert fyrir Fjórflokkinn að lauma þessari galopnun í gegn fyrir bankana.
Sigurjón Þórðarson, 25.10.2009 kl. 20:52
Takk fyrir svarið, Axel. Ég hef einmitt lesið lögin (þ.e. nýjasta textann sem fáanlegur er af vef Alþingis) og þess vegna varð ég að spyrja sjálfan mig hvort Þór Saari hefði lesið þau.
Ég skil reyndar ekki hvað þú ert að reyna að segja. Ég held að þú sért vonsvikinn yfir því að lögin kveði ekki á um flata afskrift höfðustóls. Þau kveða á um lækkun greiðslubyrði niður í það sem hún var í janúar 2008 og síðan mun greiðslubyrðin þróast eftir greiðslujöfnunarvísitölu, sem hækkar eftir því sem laun (og atvinnustig) í landinu hækka.
Og það er rétt, ólíkt því sem Þór virðist halda, að lögin fyrirskipa ekki afskrift skulda á neinn, hvorki einstaklinga né fyrirtæki. En þau greiða leiðina fyrir kröfuhafa að taka ákvörðun um að fella niður skuldir sem fyrirsjáanlega fást ekki greiddar ("aðlögun að eignastöðu og greiðslugetu"). Það gerist eftir að eignir hafa verið teknar upp í skuldir, og í tilviki fyrirtækja, þá er hlutafé yfirleitt afskrifað einnig (nema bankinn sjái sér hag í öðru). Ef skuldir eru afskrifaðar, myndar slíkt ekki tekjuskattstofn, enda augljóst að eignalaus lántakandi greiðir ekki tekjuskatt.
Það eru fjölmörg fyrirtæki út um allt land, t.d. í sjávarútvegi, sem skulda peninga vegna afleiðusamninga. Orðalag laganna leyfir að slíkar skuldir séu afskrifaðar en þá hjá fyrirtækjum sem hafa rekstrargrundvöll eftir slíka niðurfærslu. Eignarhaldsfélög o.þ.h. falla ekki undir þetta. Varla vilja menn kála öllum fyrirtækjum á landinu, þessar ráðstafanir eru einmitt til þess að koma efnahag fyrirtækja aftur í það horf að þau eigi rekstrarmöguleika.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.10.2009 kl. 21:46
Varla vilja menn kála öllum heimilum á landinu? Ég vil ráðstafanir sem eru einmitt til þess að koma efnahag heimila aftur í það horf að þau eigi afkomumöguleika.
Þessi (ó)lög gera það alls ekki.
Án heimila í landinu verða engin fyrirtæki, nema Tortóla-búllur.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 22:47
Vilhjálmur; Ertu með menntun í útúrsnúningaumræðu, ég bara spyr í sakleysi mínu. Þú hefur sennilega gegnið í sama Samspillinga-skóla og ÁrniP.
Hvað þýðir svona setning til dæmis; "við ætlum að leiðrétta afborganir aftur til 1. jan 2008". Afborgun er einfaldlega hlutfall af höfuðstóli þannig að þessi fullyrðin er bara bull. Það þarf að leiðrétta höfuðstól fram fyrir hrun, þ.e. 1. janúar 2008. Síðan reiknast afborgun af því. Svar þitt er allt morandi í svona sniðugum orðaleikjum.
Ég hef aldrei minnst á flatan niðurskur höfuðstól. Þetta er sennilega framhaldsnámið hjá ykkur í Samspillingunni að leggja orð í munn viðmælanda sem eru alveg út úr kú, og halda viðkomandi við efnið þar.
Þessi rugl fræði ykkar sem fundin voru upp í þriðja ríkinu og dugðu þá til að leiða heila þjóð á villugötur, virka vonandi ekki hér á Íslandi 2009, það er búið að mennta þjóðina allt of mikið, hún er farin að sjá í gegnum þessi trikk Samspillingarinnar.
T.d. má geta þess að mjög fyrirsjáanlegum aðferðum var beitt í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld, þetta er uppskriftin; fréttin byrjar sem stórfrétt með auka fréttaþuli á hliðarborði, talað við "andstæðing" sem hentar best á þeirri stundu, helst ekki tala við neinn ef hægt er að komast upp með það (t.d. hefur enginn rætt við Hagsmunasamtök heimilanna alla vikuna frá SamspillingarFjölmiðlaSamSteypunni, sem eru sennilega allir helstu fjölmiðlar landsins)síðan þylur fréttaFíflið möntruna sem samspillingin er búinn að senda, svo í lokin er dreginn upp eitt eða allt af eftirtöldu; prófessor við einhvern háskóla, hagfræðingur SA eða ASÍ eða samspilltur þingmaður/kona sem endurtekur möntruna sem á að lama landsmenn endanlega meðan ódæðisverkin eru unnin. Takið eftir næsta máli IceSlave, þar verður þessi PR uppskrift notuð óspart.
Síðan má nefna það að heimilin hljóta að ganga fyrir hjá flestu heilbrigðu fólki, sem segir allt sem segja þarf um þessi ARFAVITLAUSU lög og þá sem studdu þau eða földu sig meðan ógeðið var sett í gegnum Alþingi.
Axel Pétur Axelsson, 25.10.2009 kl. 23:37
En hvað um heimilin, á að kála þeim?? Höfuðstól lána verður einfaldlega að leiðrétta svo fólk öðlist trú á kerfið og missi ekki löngun til að standa við skuldbindingar sínar. Það er sama hvað Árni Páll og co rembast við að telja okkur í trú um að nú sé verið að hugsa um hag heimilanna, það mun bara enginn trúa þeim nema réttlæti nái fram að ganga. Hækkun verðtryggðra og gengistryggðra lána síðustu misseri er ekkert annað en óréttlát og óviðunandi eignaupptaka. Réttlæti næst ekki fram nema með leiðréttingu og þar með lækkun á höfuðstól lánanna. Ekki kannske, einhverntíman heldur núna.
Sif Grjetarsdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 00:27
Þetta er ekki flókið. Ef aðilar í rekstri (hvort sem er alvörurekstri eða hlutabréfabraski) fá skuldastöðuna lagaða að eignastöðu og greiðslugetu skal það sama gilda um heimilin. Annað er brot á jafnræðisreglu og sáttarrof í þjóðfélaginu.
Annars hef ég ekki mikla trú á að afskriftir hjá rekstraraðilum verði aðeins eftir að eignir hafa verið teknar upp í skuldir. Það sést best á þeim afskriftum sem reynt hefur verið að lauma inn í skjóli myrkurs, t.d. hjá Magga í Toyota, hann átti að fá að halda kvótanum (sem var stolið frá þjóðinni upphaflega og á að gefa aftur bröskurunum í gegnum skuldhreinsun og áframhaldandi eignarhald kvótans.)
En mig langar að spyrja Vilhjálm (og hvern sem getur svarað) er önnur leið til að laga skuldastöðu heimilanna að eignastöðu og greiðslugetu önnur en þessi:
Höfuðstóll láns verði leiðréttur þannig að hann verði aldrei hærri en áætlað markaðsvirði eignarinnar á bak við lánið?
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 01:59
Þessi lög eru stórt skref í rétta átt, eins og sést t.d. á því að allir flokkar samþykktu þau og aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði á móti - Þór Saari. En það var af því að hann heldur að þau gangi út á eitthvað allt annað en þau gera.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.10.2009 kl. 17:25
Sæll Vilhjálmur. Hér eru allir velkomnir, Samfylkingarsinnar eins og þú sem og aðrir, en vinsamlegast farðu með rétt mál og ekki bera upp ósannindi á fólk. Samfó og liðsmenn eru algerlega rökþrota í þessu máli og hafa í stað þess beitt "strámanns" tækninni og "hann skilur ekki" tækninni óspart til að reyna að gera mig ótrúverðugan. Ég byggi málflutning minn einfaldlega á því sem stendur og stendur ekki í fumvarpinu og umsögnum um það fyrir félags- og tryggingamálanefnd og engu öðru.
Þór Saari, 26.10.2009 kl. 19:51
Það er alveg makalaust að fjölmiðill Samspillingarinnar. Fréttastofa Stöðvar 2. Hefur ekki nefnt þetta mál einu orði síðan það kom upp. Ekki eitt orð. Loksins þegar þessi vinstri stjórn, vinir litlamannsins, eftir heilt ár koma með tillögur til hjálpar heimilunum. Er það ekki stór frétt????????
Flestir aðrir fjölmiðlar segja sem minnst. Ásamt öllum þeim sérfræðingum 4flokkanna um þessi mál. Enda hverjir voru í þessari nefnd, jú fulltrúar 4flokkana. Án samstarfs við Hreyfinguna. Og loksins þegar grínið sér dagsins ljós, liggur þessi ósköp á að hraða því í gegn um þing, þegar einungis helmingur þingmanna er viðstaddur. Og það furðulegasta í málinu er að Félagsmálaráðherra og hans lið, er alt í einu ekki bara að leggja til frumvarp fyrir skjólstæðinga sína, fjölskyldurnar heldur tekur ómakið af félaga sinum(ópólitískum) Viðskiptaráðherra við að redda fyrirtækjum landsins.
Þetta mál sannar óvefengjanlega að samspilling 4flokka klíkubandalagsins, þeirra sem komu okkur á vonarvöl. Er enn hér við völd og ætlar að láta kúlulánaskuldir "vina sinna" falla niður, almenningi til viðbótar við Iceslave og alt annað sem kreppan ber með sér.
Komið þið kæru lesendur til með að treysta bönkunum sem enn starfa undir nýjum kennitölum en að megninu til með sama starfsfólkinu. Til með að treysta þeim til að hlutlaust ákveða hver fær niðurfellingu á kúlulánum sem þeir veittu félögum sínum algjörlega ábyrgðarlaust, og hver fær ekki niðurfellingu á sínum heimilislánum?
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 20:26
Svo þetta er ákvæðið, sem vakið er athygli á?
http://www.althingi.is/altext/138/s/0121.html
Breytingar á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.
6. gr.
Lög þessi taka til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki hér á landi. Skal greiðslujöfnun beitt á öll slík lán nema lánþegi hafi sérstaklega óskað þess að vera undanþeginn greiðslujöfnun. Skilmálabreyting á lánasamningi vegna greiðslujöfnunar skal vera lánþega að kostnaðarlausu.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 5. gr. laganna skal endurgreiðsla skuldar einstaklinga á jöfnunarreikningi, eftir að upprunalegum lánstíma lýkur, aldrei standa lengur en þrjú ár vegna lánasamninga sem gerðir voru fyrir gildistöku laga þessara. Skuld sem stendur eftir á jöfnunarreikningi í lok þriggja ára frá lokum upprunalegs lánstíma skal gefin lánþega eftir og afmáð úr veðmálabókum.
------------------------------------------------
En, fjallar þetta ákvæði, ekki einungis um verðtryggð lán? Ekki mynnist ég þess, að kúlulán hafi verið verðtryggð. Einnig, voru þau - eftir því sem ég man helst - einungis með veð í sjálfum bréfunum, er keypt voru fyrir kúlulánið.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 26.10.2009 kl. 21:57
Sæll.
Það er verið að opna á niðurfellingu allra lána með þessu frumvarpi, ekki bara verðtryggðra lána, nægilegt að sýna fram á að menn geti ekki borgað. Íbúðalánaskuldendur fá aftur á móti greiðslujöfnun og þar með lengt í hengingarólinni með lækkun afborgana um hríð þannig að þeir verða alltaf (flestir alla vega) greiðslufærir og þar með þeir einu sem ekki fá niðurfellingu. Snjallt, ekki satt.
Þór Saari, 26.10.2009 kl. 22:33
Það eru kröfuhafar sjálfir sem ákveða hvort þeir afskrifa lán, og það gera þeir ekki fyrr en í fulla hnefana, þ.e. þegar þeir telja sig vera búna að fá eins mikið út úr lántakandanum og mögulegt er - í tilfelli fyrirtækja oftast hlutaféð einnig. En þessi lög gera ferlið skýrara, setja það undir samræmt eftirlit, krefjast ekki formlegra gjaldþrotaskipta og taka á skattamálunum.
Varðandi verðtryggðu húsnæðisskuldirnar, þá er mjög mikilvægt að aftengja lánin frá vísitölu neysluverðs, og færa gengistryggð lán yfir í krónur með höfuðstólsniðurfærslu (sem er það sem bankarnir eru að bjóða). Það þýðir að unnt er að taka nokkra áhættu með fleytingu krónunnar án þess að lánin hækki, þótt krónan veikist tímabundið. Lánin hækka þá aðeins ef laun (og atvinnustig) hækka.
Vitaskuld standa svo vonir til þess að þegar frá líður lækki verðbólga, jafnvægi komist á krónuna og að fasteignaverð hækki eitthvað upp úr því lágmarki sem það er í nú og eflaust eitthvað fram á 2010.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.10.2009 kl. 23:13
Er ekki rétt, að nú verði birtur kúlulána listi allra þeirra sem fengu þau. Auk upphæða. Þar sem augljóslega vanhæfir bankastarfsmenn úthlutuðu hver öðrum þau auk vina og flokksbræðra. Án vanalegra veða. Og ekki nefna bankaleynd einu nafni við mig því að svona umfangsmikið svindl fellur ekki undir hana.
Hér verður alt að vera á yfirborðinu. Það gengur ekki að þetta mál verði þaggað niður eins og styrkjamál flokkana og styrkir til einstakra framboða.
4flokknum getur ekki verið alvara að ætla bönkunum með nánast sama starfsfólkinu og lánaði kúlulánin, vinum sínum, að geta afskrifað þau, án þess að almenningur sem fær sannarlega að borga bullið og á bankana í dag. Fái nokkra sannfærandi leið til að gæta hagsmuna sinna og sjá til þess að eignum verði ekki skotið undan.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 00:18
Öldur munu ekki lægja, það verður ekki sátt fyrr en augljóst réttlæti nær fram að ganga! Almenningur getur ekki unað þeirri óréttlátu og óverðskulduðu eignaupptöku sem átt hefur sér stað á heimilum þessa lands. Þjóðin öll þarf að snúa saman bökum og vinna sem einn maður að uppbyggingu Íslands - til að það megi verða þarf fólk að upplifa sanngirni og umhyggju yfirvalda í sinn garð. Nú virðist aftur á móti sem einungis sum fyrirtæki og fjármagnseigendur njóti þess, alþýðu manna á að blóðmjólka. Þetta gengur ekki og leiðir ekki til góðs. Fólk hvorki getur né vill láta koma svona fram við sig.
ÞAÐ VERÐUR AÐ LEIÐRÉTTA BÆÐI GENGIS OG VERÐTRYGGÐ LÁN HJÁ ALMENNINGI OG LÆKKA HÖFUÐSTÓL ÞEIRRA STRAX!
Sif Grjetarsdóttir (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 09:30
Sæll, rétt hjá þér - að öllu jafnaði er það rökrétt útkoma.
Á hinn bóginn, er vantraust á fjármálalífinu, í algeru hámarki, og þar fyrir innan, virðist hafa ríkt sérkennilegur andi, nokkurs konar klúbbs stemming, þ.s. þeir er voru í klúbbnum gátu gengið að feykilegum fjármunum, nánast hvenær sem þeir vildu.
Svo, þ.e. við þetta sem ég set spurningu,,,,þ.e., getum við raunverulega treyst fjármálalífinu, til að taka á málum, með svo rökréttum hætti - - eða, er ef til vill, kúbbstemmingin þ.s. ég geri allt fyrir vini mína, ef til vill, enn til staðar?
Mér finnst reyndar, margt þarna óljóst og óskýrt, þ.e. ákvæði almennt orðuð, krafist að aðrir setji reglur, og einungis gefnir mjög ójlósir punktar til viðmiðunar, um hvað löggjafinn hefur í huga.
Ég sannarlega sé ekki, að sú nefnd sem á að stofna, geti mögulega sinn því eftirlitshlutverki, er hún á að sinna, þ.s. þetta sé einfaldlega og stórt verkefni, fyrir svo fáa einstaklinga.
Þurfum að losna við Krónubréfin, og ein leið til að gera það, er nákvæmlega að opna flóðgáttirnar, og á sama tíma að verja ekki krónuna falli. En, þá er einmitt nauðsynlegt að taka vísitöluna úr sambandi tímabundið.
Ég reikna ekki með að tjón, þeirra sem skulda í erlendri minnt eða eiga sparifé í krónum myndi í reynd, verða verulegt. Þ.s. ég tel, að rétt gengi krónu sé sennilega ekki íkja fjarri núverandi gengi, þ.e. ekki þá meira en að einhverju litlu leiti minna en gengið í dag.
Þannig, að gengið myndi undirskjóta markaðsgengi um tíma, en rétta svo við sér, upp í gengi sem eins og ég sagði, væri ekki fjarri núverandi gengi.
Með því að verja ekki gengið, myndum við spara allnokkra milljarða í gjaldeyri, þ.s. Krónubréfaeigendur fengu minna af gjaldeyri fyrir þau bréf. Ef til vill, jafnvel 100 milljarða af gjaldeyri miðað við þ.s. annars myndi fara.
Mörg ár í að fasteignaverð fari að hækka. Hagvöxtur hefst sennilega árið 2011, en ekki 2010. Atvinnuleysi nær þá hámarki 2011 og lækkun þess hefst 2012. Húsnæðismarkaður, þarf einhver ár í hagvexti, þar til að verulegur bati myndi fara af stað.
Þetta verður í heild 10 ára kreppa, svo fremi sem við klúðrum ekki meir.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 27.10.2009 kl. 15:03
Einar, þessi tilvitnun þín fjallar um breytingu á lögum um greiðslujöfnun. Lagafrumvarpið sem við erum að tala um á hinsvegar að fjalla um ÖLL lán einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Síðan eru taldar upp fullt af breytingum á öðrum lögum.
Svona skil ég þetta, vonandi er ég ekki að misskilja.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 18:53
Tilvitnunin, var í hluta af því sem samþykkt var sem lög frá Alþingi um daginn.
Tékkaðu á því sem er á bak-við þennan hlekk, hvort þ.e. ekki þ.s. þú átt við!
http://www.althingi.is/altext/138/s/0121.html
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 27.10.2009 kl. 22:28
Ég var búinn að skoða þennan tengil. Tilvitnunin er svona (í styttri útgáfu:)
Breytingar á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.
6. gr.
1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
Lög þessi taka til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum...
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 5. gr. laganna skal endurgreiðsla skuldar einstaklinga á jöfnunarreikningi, eftir að upprunalegum lánstíma lýkur, aldrei standa lengur en þrjú ár..........
...
Lögin í heild heita Lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækjavegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Í þessum lögum um aðgerðir...er verið að breyta tveimur öðrum lögum:
1) Lögum um greiðslujöfnun og 2) lögum um húsnæðismál.
Þegar segir í 6. gr.: Lög þessi taka til... er verið að tala um lög um greiðslujöfnun. EKKI lög um aðgerðir í þágu einstakl., heimila og fyrirtækja. Þessi kafli (III kafli) fjallar aðeins um breytingar á lögum um greiðslujöfnun.Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 00:30
Já, það er um að gera að lesa lögin, þá eru menn mun betur í stakk búnir að taka þátt í umræðu um þau. Tekur sirka korter.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.10.2009 kl. 00:45
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila
og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.
,,Í frumvarpinu eru í öðru lagi lagðar til sértækar aðgerðir um skuldaaðlögun einstaklinga, heimila og fyrirtækja sem hægt er að grípa til ef almenn greiðslujöfnun dugir ekki. Gert er ráð fyrir að Samtök fjármálafyrirtækja, fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna, Íbúðalánasjóður og Landssamtök lífeyrissjóða, fyrir hönd aðildarsjóða sinna, geri með sér samkomulag um verklagsreglur um slíka sértæka skuldaaðlögun. Með þessum aðgerðum er ætlunin að færa skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi aðila en þær ná til allra lánasamninga sem leiða af sér fjárskuldbindingu (t.d. íbúðalán, verð- og gengistryggð lán, bifreiðalán, verðbréfa- og afleiðusamningar)."
http://www.althingi.is/altext/138/s/0069.html
Þórður Björn Sigurðsson, 28.10.2009 kl. 01:22
Vilhjálmur skrifar:
,,Varðandi verðtryggðu húsnæðisskuldirnar, þá er mjög mikilvægt að aftengja lánin frá vísitölu neysluverðs, og færa gengistryggð lán yfir í krónur með höfuðstólsniðurfærslu (sem er það sem bankarnir eru að bjóða). Það þýðir að unnt er að taka nokkra áhættu með fleytingu krónunnar án þess að lánin hækki, þótt krónan veikist tímabundið. Lánin hækka þá aðeins ef laun (og atvinnustig) hækka."
Höfuðstóll verðtryggðra lána verður ekki aftengdur vísitölu neysluverðs. Aftur á móti mun afborgunin koma til með að stjórnast af greiðslujöfnunarvísitölu en á bakvið stendur upphaflega lánið óbreytt. Mismunurinn færist svo á jöfnunarreikning sem verður afskrifaður ef einhver verður þegar lánstíminn er liðinn +3 ár.
Um þetta segir í umsögn fjármálaráðuneytisins:
,,Ljóst er að með því að takmarka greiðslu skuldar á jöfnunarreikningi við 3 ár umfram upphaflegan lánstíma er verið að færa áhættu frá einstaklingum og heimilum yfir á lánveitendur. Helsti áhættuþátturinn er kaupmáttur en þróun hans þarf að vera umtalsvert lakari en eðlilegt getur talist næstu 30–40 árin svo að afskriftir lánveitenda hafi áhrif á efnahag þeirra. Ólíklegt er að sú verði raunin þar sem kaupmáttur hefur þegar rýrnað umtalsvert síðustu missirin. Áhættan er þó fyrir hendi og liggur fjárhagsleg ábyrgð þeirra aðgerða sem boðaðar eru í frumvarpinu hjá lánveitendum. Á móti kemur að með aðgerðunum mun greiðsluvilji einstaklinga og heimila aukast en það mun væntanlega leiða til minni afskrifta en ella. Ljóst er að með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri. "
Þórður Björn Sigurðsson, 28.10.2009 kl. 01:35
Rétt, það er greiðslubyrðin sem stjórnast af greiðslujöfnunarvísitölu, ekki höfuðstóllinn. En það er auðvitað greiðslubyrðin sem ræður daglegri afkomu fólks og hefur áhrif á veltu í hagkerfinu. Að sama skapi er mjög mikilvægt, eins og ég benti á, að tímabundin veiking krónu búi ekki til margfeldisáhrif - í núverandi stöðu væri frekar veiking krónunnar mjög slæm fyrir heimili og fyrirtæki.
Til lengdar hækka laun meira en neysluverð (það heitir kaupmáttaraukning) og því er, til lengri tíma, hagstæðara (fyrir skuldara) að tengja lán við neysluverðsvísitölu en launavísitölu. En í þeirri stöðu sem nú er uppi er tvímælalaust skynsamlegt að fara þá leið sem lögð er upp í þessum lögum. Mér er ekki kunnugt um hvernig möguleikar verða á að skipta til baka yfir í upprunalegu lánakjörin, en það má vel vera að það yrði hagstætt eftir einhver ár.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.10.2009 kl. 09:25
Vilhjálmur; þú segir;
"Það eru kröfuhafar sjálfir sem ákveða hvort þeir afskrifa lán, og það gera þeir ekki fyrr en í fulla hnefana, þ.e. þegar þeir telja sig vera búna að fá eins mikið út úr lántakandanum og mögulegt er"
Íslendingar eru að segja við ykkur Samspillingafól4fokkana;
"Kröfuhafar munu ekki ná fram þessum stökkbreyttu okurlánum fyrr en í fulla hnefana, þ.e. við Íslendingar sættum ekki við þessi skipulögðu eignaupptökur og glæpastarfsemi og munum ná út þeim leiðréttingum sem nauðsynlegar eru".
Kæri Íslendingur, ekki gera ekki neitt, skráðu þig strax í Hagsmunasamtök heimilanna www.heimilin.is
Axel Pétur Axelsson, 28.10.2009 kl. 12:45
Vilhjálmur; þú segir;
"Varðandi verðtryggðu húsnæðisskuldirnar, þá er mjög mikilvægt að aftengja lánin frá vísitölu neysluverðs, og færa gengistryggð lán yfir í krónur með höfuðstólsniðurfærslu (sem er það sem bankarnir eru að bjóða)."
Tökum raunverulegt dæmi; fjölskylda kaupir íbúð, fyrir 2 árum, á 43millj, greiðir út 20milj og tekur lán í banka fyrir 23milljónir. Í dag er bankinn að krefjast greiðslu uppá 65millj.
Aðgerðir stjórnvalda fyrir þessa fjölskyldu líta svona út; Þið komið til okkar og við færum lánið ykkar niður í 43millj og breytum því jafnframt í verðtryggt lán í Íslenskum krónum.
Kæri Íslendingur, eigum við að láta bjóða okkur þetta, ekki gera ekki neitt, skráðu þig strax í Hagsmunasamtök heimilanna www.heimilin.is
Axel Pétur Axelsson, 28.10.2009 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.