Áhugaverður og fjölbreyttur dagur í þinginu í dag. Fyrst var kosning nýs varaforseta þingsins í stað Álfheiðar Ingadóttur sem er orðin ráðherra og svo var kosning í Þingvallanefnd. Síðan var kosið í bankaráð Seðlabankans sem tapaði hundruðum milljarða á síðast ári. Þrátt fyrir að hafa tapað m.a. 95 milljörðum á því að lána bröskurum ríkisverðbréf ætlar fjármálaráðuneytið að láta sem ekkert hafi í skorist og lætur bankann og starfsfólk hans ennþá sýsla með fjármuni ríkisins. 98 milljarðar voru lánaðir út á veð að andvirði 80 milljarða sem "talið er unnt að innheimta" eins og segir í fjárlagafrumvarpinu. Kjörið í bankaráðið er flokkspólitískt og var nú verið að kjósa Framsóknarmann í stað annars sem hafði hrökklast úr stöðunni vegna þess að Morgunblaðið bendlaði hann við meint gjaldeyrisbrask. Já vegir flokkspólitískra stöðuveitinga eru sannarlega órannsakanlegir.
Ég gerði athugsemd við þessa skipan mála og vildi fá að vita hvað viðkomandi ætlaði að gera til að gæta hagsmuna þingsins og hagsmuna almennings í stjórn Seðlabankans. Fékk engin svör nema einhverja þá lengstu þögn sem mælst hefur í þingsalnum fyrr og síðar. Og inn fór Framsóknarmaðurinn. Sjá hér.
Síðan var umræða "utan dagskrár" sem kallað er en þá geta þingmenn óskað eftir að ræða mál beint við ráðherra um einhver málefni líðandi stundar. Þar ræddu Framsóknarmenn við forsætisráðherra um förina til Noregs sem hefur fengið svo mjög svo hraksmánarlega umfjöllun í fjölmiðlum. Ég tók m.a. til máls þar og eins og fleiri velti því upp sem æskilegum valkosti að leita annað en til AGS. Sjá hér.
Svo var tekið til við að ræða tillögu Sjálfstæðisflokksins um úrbætur í efnahagsmálum. Þar hafði ég vonast eftir einhverju bitastæðu en varð fyrir vonbrigðum lífs míns. Tillögurnar eru alger tímaskekkja, byggðar á ímyndunum og ekki í neinum takti við þau vandamál sem við er að glíma í efnahagsmálum á Íslandi í dag. Tillögurnar gera m.a. ráð fyrir einhverri þeirri mestu náttúrueyðingu sem um getur í einu og sama plagginu þar sem hver virkjunin á fætur annarri verður reist með tilheyrandi eyðingu náttúruperla. Þar eru meira að segja tvö stykki tvö hundruð megavatta orkuver sem enginn hefur heyrt um. Hvert starf t.d. í Straumsvík mun kosta um 2.250 milljónir og hvert starf í áliðnaði notar um eitt megavatt af orku. Ef ætlunin er að stuðla að atvinnu uppbyggingu með orkunýtingu þá er nú ekki verið að nýta orkuna sérlega vel eftir þessari forskrift. Hvað skyldi t.d. vera hægt að skaffa mörg störf í öðrum geirum með hverju megavatti af ódýrri orku, eða fyrir hverjar 2.250 milljónir. Tillagan hrikalega er hér.
Ræðan mín féll Sjálfstæðismönnum þungt enda búnir að baða síg í miklum ljóma með þessari tillögu sem að mínu viti er alveg hand ónýt. Það kom til nokkurra orðaskipta sem voru þó á málefnalegum nótum og á þannig þingi er einfaldlega ágætt að starfa. Hvað um það. Ræðan og orðaskiptin í kjölfarið eru hér.
Vek svo athygli á nýjum vefmiðli, Svipunni, sannkölluðum alvöru fréttamiðli sem rapportar í anda þeirrar róttæku skynsemi sem við kennum okkur við. Svipan, það er blaðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Facebook
Athugasemdir
Áhugavert, þetta fyrirtæki sem vill starfa á Kefló, og leigja Sukhoi vélar sem svokallaðar "agressor" í þjálfunarskyni.
Þetta ku geta skapað nokkru fleiri störf, en eitt álver.
Mér líkaði annars stefnan, sem var hér um miðjan 10. áratuginn, þegar spenningurinn var mestur fyrir hátæknifyrirtækjum. Síðan, kom Internetbólan, og áhuginn hefur einhvern veginn ekki vaknað á ný.
Æ síðan, hefur álverstefnan ríkt. En, afrakstur hátæknivæðingarinnar, hefur í reynd verið mikill.
En, helsti galli er að árangur tekur yfirleitt lengri tíma, þ.s. mælt er á einu kjörtímabili.
Það hefur tilnheygingu að höfða til stjórnmála, þ.s. hægt er að gera innan marka eins kjörtímbails. Ein skýring þess, að álver hafa svo öflugan pólit. stuðning.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 15.10.2009 kl. 21:12
Annars þætti mér vænt um, að fá skoðun þína á þessu:
Gott að fá gagnrýni hugsandi manns, eins og þín :)
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 15.10.2009 kl. 21:15
Takk fyrir þessa skýrslu Þór. Ég reyni nú yfirleitt að fylgjast með þingsalnum í beinni en í dag gat ég það ekki. Sammála þér um glóruleysi álversuppbyggingar. Hvaða einfeldningsháttur er þetta hjá Iðnaðarráðherrum Samfylkingar að ætla að gera samstarfssamninga við 2 af þeim Alþjóðlegu fyrirtækjum sem nú þegar fá rafmagni á tilboðsverði. Ef þeir fá að tvöfalda umfangið þá erum við ofurseld þeirra duttlungum um alla okkar framtíð. Það má aldrei verða.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 15.10.2009 kl. 22:50
Sæll Einar.
Ég held þetta sé rétt hjá þér. Blessaður herinn farinn sem gaf nú vel, nú eru það útgerðin, aftur, og álið, álið, álið.
Þór Saari, 15.10.2009 kl. 23:15
Ég verð að spyrja, hvað hafið þið lagt fram til þess að bæta ástandið í landinu????? Hafið þið lagt fram einhverjar bitstæðar tillögur? Get ekki séð að það skili einhverju að grýta þá sem hafa eitthvað til málana að leggja.
Anna (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 23:23
Það þýðir þá, að sú ásökun, að þeir muni líklega umhverfa skoðun sinni á ný, ef þeir komast í stjórn; á sennilega ekki við góð rök að styðjast.
Þeir eru þá, ekki í þeirri tegund af loddaraleik, sem vinsælt er á meðal Samfylkingarfólks, að trúa upp á þá.
Ps: Hef velt því fyrir mér, hvort líkindi séu á, að Samfó skipti VG út fyrir X-D. En, t.d. í stóryðjumálum, standa X-D og X-S miklu mun nær hvorum öðrum.
Best að fylgjast með því, hver viðbrögð Samfó manna verða við tillögum X-D. Gæti gefið vísbendingu um, hvort leynilegar þreifingar eru í gangi.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 15.10.2009 kl. 23:25
Anna - ekki er nóg, að hafa "eitthvað til málanna að leggja".
Það eitthvað, þarf að vera líklegt til árangurs.
Það, að gera bara eitthvað, er ekki lausn.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 15.10.2009 kl. 23:27
Frábær frammistaða hjá þér á þinginu í dag.
Þá á ég sérstaklega við svar þitt við tillögu Flokksins. Brilliant!!
DisaP (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 23:32
Nei nei auðvita þarf það að vera líklegt til árangurs. En X-D lögðu bara fram tillögu og það þurfa að koma fram tillögur svo eitthvað sé hægt að gera! Það er ekki nóg að vera á þingi það þarf að vinna að uppbyggingu og þótt flokkar séu í stjórnarandstöðu þá er ekki nóg að sitja og væla yfir því sem hinir eru að gera það þarf að sýna fram á að allir séu að vinna að sama takmarki. Betra er að leggja fram tillögur sem ræða má og ekki næst samstaða um en að leggja ekkert til.
Anna (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 23:42
Anna - það getur virkilega verið skárra, að hafa mál í pattstöðu. Það fer eftir því þó, hversu skaðlegt vs. gagnlegt, þau plön eru sem andstaðan er að blokkera.
Að sjálfsögðu, eru tafir skaðlegar einnig, en þær geta þó verið skárri, ef þ.s. stendur til, eru mjög verulega slæmar hugmyndir.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 16.10.2009 kl. 01:48
Sæll. Þór heiðarleiki manna og sannleikur og að fara rétt og satt með gerir manni trúverðugan og traustan en þegar menn nota tækifærið að blekkja með málflutningi eins og þú gerir hér í von um að komast upp með það, með því að enginn muni svara þér þegar þú ferð viljandi rangt með lýsir þínum innra manni.
,, Hvert starf t.d. í Straumsvík mun kosta um 2.250 milljónir og hvert starf í áliðnaði notar um eitt megavatt af orku. Ef ætlunin er að stuðla að atvinnu uppbyggingu með orkunýtingu þá er nú ekki verið að nýta orkuna sérlega vel eftir þessari forskrift. Hvað skyldi t.d. vera hægt að skaffa mörg störf í öðrum geirum með hverju megavatti af ódýrri orku, eða fyrir hverjar 2.250 milljónir. "
Að þessari framkvæmd koma 600 ársverk á framkvæmdartíma.
Verið er með þessari framkvæmd að lengja líftíma fyrirtækisins sem er að nálgast tímamörk náist ekki að lenda þessari framkvæmd mun fjara undan líftímanum og lokun gæti átt sér stað 2012 til 2014 öll fyrirtækju eiga að eiga þann réttað þróast og aðlaga sig að markaði en hér ert þú greinilega á annarri skoðun gagnvart þessu fyrir tæki, í raun liggja hér undir um 500 störf til framtíðar verði að framkvæmdinni svo að þessar 2.250 milljónir eru í raun 54 milljónir á hvert framtíðar starf, hvert starf skilar þjóðarbúinu um 70 milljónir af gjaldeyrir á ári.
Sama á við ef útgerð vill breyta skipi sínu lengja það og setja í það nýjar véla og anna búnað það skapar ekki alltaf ný störf en störf sem fyrir eru haldast og líftími skipsins lengist sama á við mörg önnur fyrirtæki sem ráðast í svipaða aðgerðir til að mæta kröfum um að vera samkeppnishæf þetta er sá liður að halda upp atvinnu og byggja upp Íslensk þjóðfélag.
Fordómar ræna manninn viti og greind.
Góðar stundir. Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 16.10.2009 kl. 02:20
Ég kaupi þetta Sigurjón, gott svar hjá þér.
Óskar (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 11:20
Sæll Sigurjón og takk fyrir innlitið.
Það er réttt hjá þér með kostnaðinn ef það stendur til að endurbyggja álverið en ég hef tekið upplýsingarnar úr efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins og sú frétt að til hafi staðið að loka Straumsvík eftir tvö til fjögur á er að mínu viti og margra annarra bara enn eitt innleggið í baráttu fyrirtækisins um að komast sem fyrst yfir ódýra orku og berjast gegn umhverfisráðherra. Ef það er raunverluleg stefna að nota orkuauðlindina til alvöru atvinnuuppbyggingar með það í huga að skapa sem flest störf, þá er orkan ekki nýtt sérlega vel. Það hefur hins vegar farist fyrir hjá ráðamönnum iðnaðarráðuneytisins að benda á þetta og að það má skapa meira en eitt starf fyrir hvert megavatt af orku í flestum, ef ekki öllum öðrum atvinnugreinum.
Hvað varðar sex hundruð ársverk þá þarf einfaldlega að vera meira jafnvægi í framkvæmdum en verið hefur því svona stórar framkvæmdir á skömmum tíma valda of miklum sveiflum. Ein virkjun búin, þá kemur ákall um næstu, og svo næstu og svo næstu, til að finna vinnu fyrir allar gröfurnar. Nei takk.
Þór Saari, 16.10.2009 kl. 13:04
Sæll. Þór.
það er bein fyrra hjá þér að hér sé verið að komast yfir ódýrari orku ódýrari en annarstaðar varðandi þennan iðnað það veistu jafn vel og ég þú veist líka að með tímanum fjarar undan fyrirtækjum sem meinað er að endurnýja sig, hafir þú einhver fyrirtæki sem skapa fleiri störf á raforku eining þá er það vel, þú verður þá að stuðla að því að koma þeim á legg í kjördæmi okkar sem allra fyrst got væri að þú skrifaði grein um þann iðnað sem hér bankar upp á þjóðinni til heilla.
Kv. Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 16.10.2009 kl. 13:32
Keep up the good work.
kveðja.
ThoR-E, 16.10.2009 kl. 14:13
Er þetta sápuópera? Eða er þetta fólkið sem heldur utanum Ríkisféð, á krepputímum?
Fréttablaðið, 17. okt. 2009 03:30
Enginn veit hver á að borga
Daniel Gros er búsettur í Belgíu og þarf að ferðast um langan veg á bankaráðsfundi.
Alþingi kaus hagfræðinginn Daniel Gros í bankaráð Seðlabankans á fimmtudag, en þingflokkur Framsóknarflokksins tilnefndi hann. Daniel er búsettur í Brussel og því ljóst að hann þarf að ferðast um langan veg á bankaráðsfundi. Þá er líklegt að þýða þurfi öll gögn fyrir hann. Fréttablaðið spurðist fyrir um hver greiddi kostnað við ferðir, uppihald og þýðingar en fátt var um svör.
Í Seðlabankanum fengust þær upplýsingar að þar vissu menn ekkert um málið utan það að Alþingi hefði kosið Gros í ráðið. Engin hefð væri fyrir því að bankaráðsmenn byggju erlendis og hvað kostnað varðaði væri réttast að ræða við Alþingi sem kaus Gros.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir hins vegar að afskiptum Alþingis ljúki þegar bankaráðsmaður hefur verið kosinn. „Það er eitt sem við gerum, að kjósa fólk í nefndir og ráð. Þar með er því lokið. Það er Seðlabankans að ráða fram úr kostnaðinum.” Helgi segist gera ráð fyrir að nokkur kostnaður sé við ferðalög, uppihald og þýðingu.
Einar Skúlason, framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarflokksins, segir tilskipun Gros tilraun til að opna stjórnsýsluna. Kannað hefði verið hvort þetta væri ekki löglegt, en kostnaðurinn væri óljós. „Ég vona að kostnaðurinn lendi ekki á okkur.”- kóp
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.