Fjárlögin 2010

Fyrsta umræða um fjárlög ríkisins fyrir næsta ár fór fram s.l. fimmtudag.  Fjárlagagerðin hvert ár er mikið spaghettí og einstakir liðir í fjárlögum teygja sig víða og óskirnar eru margar.  Fimm milljónir til rannsókna á frjósemi hrognkelsa í Húnaflóa var bara ein af skrýtnu beiðnunum. Frumvarpið sjálft er yfir fimm hundruð blaðsíður.

Fjárlögin eru nú samin að fyrirmælum AGS og þeir krefjast þess að jafnvægi í ríkisfjármálum verði náð á þremur árum sem kallar á gríðarlegan niðurskurð ríkisútgjalda, niðurskurð sem mun bitna illa á veikum og þeim sem minna mega sín sem og á menntun barnanna okkar.  Ísland er sér á báti hvað þetta varðar en nágrannaþjóðirnar sem lentu í kreppu eins og við eru að vinna sig út úr henni með auknum ríkisútgjöldum, s.k. Keynesískum aðferðum.

Við í Hreyfingunni erum alfarið mótfallin því að skuldir sem braskararnir stofnuðu til lendi á almenningi með þessum hætti og viljum einfaldlega að skuldir Íslands verði frystar þar til betur árar, s.k. debt moratorium  á ensku, eða jafnvel felldar niður.  Skuldastaðan er þannig að við munum ekki ráða við hana og því fyrr sem það er viðukennt því betra.  Greiðslufall eða s.k. soveriegn debt default á ensku er einnig valkostur en það er þekkt fyrirbrigði og hefur verið notað um allan heim af þjóðum sem eru komnar í skuldastöðu sem er þeim ofviða, oftast nær þó í mun skárri stöðu en er á Íslandi er í dag.  Lánveitendur verða oftast frekar fúlir og hóta öllu illu og þjóðir eiga erfitt uppdráttar á alþjóðlegum lánamörkuðum í um tvö ár (sem er nákvæmlega staða okkar í dag hvort eð er) en svo er málið gleymt og grafið og lán fást að nýju.  Fjármálamarkaðir hugsa nefnilega fram á við og það eru einfaldlega meiri líkur á að þjóð geti borgað skuldir í framtíðinni ef hún skuldar minna í dag heldur en ef hún er að sligast undan skuldabyrði.

Við neyðumst hins vegar til að taka þátt í því að greiða úr þessu spaghettíi og reyna að beina þeim fjármunum sem til eru í rétta farvegi.  Þar er af mörgu að taka en vegna þeirra hefðbundnu vinnubragða við fjárlagagerð þar sem merihlutinn ræður og þar sem landsbyggðar þingmenn vilja fá að koma með peningana heim í kjördæmin, verður við ramman reip að draga.

Ég mun hins vegar upplýsa almenning rækilega um alla þá þætti við fjárlagagerðina sem mér finnst einkennilegir, vitlausir eða góðir, því væntanlega verður þetta ekki allt saman glórulaust.

Mikilvægt er að Alþingi sjálft fái áfram þær fjárveitingar sem nauðsynlegar eru til að þingmenn geti sinnt vel sínu hlutverki og veitt framkvæmdavaldinu viðnám eins og tókst í sumar í Icesave málinu.  Einnig munum við verja heilbrigðis- og velferðarmálin og menntamálin með kjafti og klóm.

Hér er slóðin á ræðuna sem ég flutti við fyrstu umræðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.e. auðvitað mikilvægt atriði, að lækka eins og hægt er, skuldarhliðameginn.

  • Vaxtagjöld lækka, miðað við gerða áætlun.
  • Þá minnkar þörf fyrir niðurskurð, eða viðbótar-tekjur.

Þurfum að snúa vörn í sókn, með því að skapa "positive feedback" í stað "negative feedback".

Aðgerðir sem draga úr:

  • Háir vextir og vaxtahækkanir.
  • Skattahækkanir.
  • Niðurskurður ríkisútgjalda.
  • Verðhjöðnun.
  • Aukning bindisskyldu banka.
  • Auka kröfu til banka um eiginfjárhlutfall.

Að auki mætti bæta við, í tengslum við AGS prógrammið, að þörf er á að dreifa niðurskurði yfir lengra tímabil.

Með minni skuldum, en gert er ráð fyrir, má vera að halli verði viðráðanlegur yfir lengra tímabil, án þess að skapa of mikla hættu á hruni ríkissjóðs vegna skulda.

Aðalpunkturinn, er að ef tekst að framkalla hagvöxt fyrr, en nú er útlit fyrir - en ef dregið er úr planlögðum samdráttaraukandi aðgerðum, ætti það að skila viðsnúningi til hagvaxtar, í fyrra frekar en seinna falllinu - en eins og útlit er fyrir í dag, gætum við verið að tala um samdrátt á næsta ári upp á 5 - 6%.

Með viðsnúningi í fyrra fallinu, kemur "positive feedback", þ.e. veltan í hagkerfinu eykst og þá einnig veltutengdir skattar, þ.e. tekjur ríkisins aukast sjálfkrafa. Einnig, byrjar viðsnúningur á samdrætti tekna, hjá einstaklingum, og að sjálfsögðu einnig hjá fyrirtækjum. 

Halli ríkissjóðs, hverfur smám saman.

Aðalatriðið, er framkalla viðsnúning til hagvaxtar eins fljótt og auðið er.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 13.10.2009 kl. 22:03

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Er ekki tímabært að segja stjórnendum Íslands að taka peningana sína sem liggja í banka í Ameríku og láta okkur sjálf stjórna landinu okkar? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2009 kl. 01:05

3 Smámynd: Billi bilaði

Rannsóknir á frjósemi fiska sem við veiðum til gjaldeyrisöflunar finnst mér ekki svo skrítnar.

Billi bilaði, 14.10.2009 kl. 03:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband