9.10.2009 | 16:20
Lýðræði og sveitarstjórnir
Hreyfingin hefur lagt fram fumvarp til breytingu á sveitarstjórnarlögum sem fjallar um fjölgun í sveitarstjórnum. Miðað við öll nágrannalönd sem upplýsingar fundust um er fjöldi sveitarstjórnarmanna hér á landi miklu mun færri og í raun algert einsdæmi. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem snýr beint að lýðræðisvæðingu stjórnkerfisins þar sem valdinu er dreift á fleiri hendur og að menn geti t.d. ekki selt, eða gefið, dýrmætustu eignir almennings heima hjá sér að kvöldi til yfir viskíglasi. Hér fyrir neðan birti ég textann úr greinargerð frumvarpsins en frumvarpið í heild má sjá á þessum link.
um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.
Markmið frumvarps þessa er að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Ákvæði 12. gr. sveitarstjórnarlaga um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum (sjá fylgiskjal). Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu (sjá vef Evrópuráðsins: www.coe.int).
Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. Hundrað og einu ári síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld. Frá 1908 hefur landsframleiðsla á hvern íbúa einnig fimmtánfaldast og því má fullyrða að efnahagsleg umsvif í Reykjavík hafi a.m.k. 225-faldast á einni öld.
Frambjóðandi til borgarstjórnar í Reykjavík nú til dags þarf að fá um 7% atkvæða til að ná kjöri og eru engin fordæmi um jafnfáa kjörna fulltrúa og jafnháan lýðræðisþröskuld í ámóta fjölmennu sveitarfélagi í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt lögum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar ættu borgarfulltrúar í Reykjavík því að vera 4361 hið minnsta.
Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálans um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga fram á 21. öldina í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka. Þessi skerðing er alvarlegt mannréttindabrot. Hún er andstæð viðhorfum og venjum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar þar sem lýðræði er í hávegum haft, þar sem meginmarkmiðið er ekki að torvelda heldur auðvelda þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um eigin mál og mótun samfélagsins til framtíðar.
Nærri útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnunarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).
Í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum fámennum íslenskum sveitarstjórnum er fáveldið auk þess undirstrikað enn frekar með ranghugmyndinni um þörf á starfhæfum meiri hluta, sem veldur því að 89 borgarfulltrúar hlaða á sig völdum og vegtyllum á meðan minni hlutinn situr hjá verklítill.
Fjöldi aðalmanna í þessari tillögu er fenginn með því að miða við helmingsmun á ákvæðum í sænskum (hærri gildi) og norskum sveitarstjórnarlögum.
Greinilegt er að miðað við nágrannalöndin er mikill lýðræðishalli hér á landi hvað varðar þátttöku og möguleika almennings til áhrifa í sveitarstjórnum og slíkar fámennisstjórnir sem hér hafa tíðkast eru einsdæmi. Vissulega má gefa sér að þetta fyrirkomulag sé einfaldlega barn síns tíma en með gjörbreyttu og stórlega auknu hlutverki sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs verður að gera þá kröfu að almenningur og smærri samtök fái að hafa meiri áhrif á framgang mála.
Með fjölgun sveitarstjórnarmanna má einnig gera ráð fyrir að nefndir og ráð sveitarstjórna yrðu skipuð kjörnum fulltrúum en ekki varamönnum eða öðrum liðsmönnum þeirra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórninni. Slíkt mundi gera allt ferlið við ákvarðanatöku markvissara og ábyrgð kjörinna fulltrúa yrði einnig skýrari. Eins má gera ráð fyrir að krafa um stærri og öflugri sveitarstjórnir mundi enn frekar ýta undir sjálfviljuga sameiningu sveitarfélaga sem nú eru 77 talsins þrátt fyrir umtalsverða fækkun á liðnum árum. Sveitarfélögin hafa öll sömu stöðu og sömu skyldum að gegna samkvæmt lögum þrátt fyrir að vera ólík og misjöfn að landfræðilegri stærð og íbúafjölda. Hlutverk sveitarfélaga hefur tekið breytingum síðustu ár og verkefnin aukist umtalsvert og þörfin fyrir öflugar sveitarstjórnir og aðkomu fleiri að þeim hefur því farið vaxandi.
Fyrsta grein frumvarpsins hljóðar að hluta til svona.
Í sveitarstjórn skal fjöldi sveitarstjórnarmanna standa á oddatölu og vera að lágmarki sá sem hér greinir:
a. þar sem íbúar eru innan við 1.000: 7 aðalmenn,
b. þar sem íbúar eru 1.0004.999: 11 aðalmenn,
c. þar sem íbúar eru 5.00024.999: 17 aðalmenn,
d. þar sem íbúar eru 25.00049.999: 31 aðalmaður,
e. þar sem íbúar eru 50.00099.999: 47 aðalmenn,
f. þar sem íbúar eru 100.000199.999: 61 aðalmaður,
g. þar sem íbúar eru 200.000399.999: 71 aðalmaður.
Hér er svo eitt dæmi um "sérstöðu" Íslands hvað varðar fjölda í sveitarstjórnum. Fleiri dæmi eru í frumvarpinu.
Íbúar | Sveitarfélög | Sveitarstjórnarmenn | Meðaltal | |
Ísland | 300 þús. | 98 | 648 | 6 ,6 |
Finnland | 5,2 millj. | 431 | 12.157 | 28 ,2 |
Danmörk | 5,4 millj. | 98 | 2.520 | 25 ,7 |
Noregur | 4,6 millj. | 431 | 13.000 | 30 |
Svíþjóð | 8,9 millj. | 290 | 12.762 | 44 |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:28 | Facebook
Athugasemdir
er ekki nóg af "bírókrötum" nú þegar - get mér þess til að þær "hallir" sem í dag hýsir þessa "fáu" sem hafa stól séu þá orðnar of litlar - svo þetta kallar þá kanski líka á ný störf í byggingariðnaði ?
Jón Snæbjörnsson, 9.10.2009 kl. 16:42
Sæll Þór,
ég er sammála fjölgun á sveitarstjórnarfulltrúum en það að 61 borgarfulltrúi verði í Rvk er of mikið. Mér hefur alltaf fundist talan 31 vera mjög góð.
61 er hérum bil sama talan og 63, en svo margir eru þingmenn.
Þór (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 17:11
Eftir að hafa fylgst með ykkur Hreyfingarmönnum síðustu mánuði er ég nú eiginlega á því, að landið þurfi síst á fleiri stjórnmálamönnum að halda.
Villi G. (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 17:23
Takk fyri þetta.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 17:52
Hvaða þvæla er nú í gangi?
Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 17:58
Ótrúleg vitleysa í gangi hjá ykkur. Nær væri að einfalda kerfið og fækka sveitarstjórnum og færa þeim aukin verkefni. Mörk sveitarfélaga eru í sumum tilfellum enn miðuð við að menn ferðist á hestum innansveitar. Markmiðin ættu að miðast við að á Vesturlandi yrðu sveitarfélögin 2-3, á Vestfjörðum 1, á Norðurlandi vestra 1-2, á Norðurlandi eystra 2, á Austurlandi 1-2, á Suðurlandi 3-4, á Reykjanesi 1 og á höfðuðborgarsvæðinu 1-3. Jafnframt væri nærþjónustan færð til sveitarfélagana, samhliða því að tekjustofnar sveitarfélaga yrðu styrktir. Ég byði ekki í það ef vitleysan sem viðgengst hefur innan ykkar hreyfingar yrði upphafin á landsvísu, þ.m.t. innan sveitarstjórna. Stjórnkerfið yrði lamað, því að er nú oft þannig að það þarf að taka óvinsælar ákvarðanir, þótt þær séu nauðsynlegar. Ef 10-15 smáframboð sem ættu sæti í borgarstjórn, hvernig gengi þá ákvarðanataka? Ef popúlsistar væru í meirhluta væri allar líkur á því að teknar yrðu ákvarðanir, sem mæltust vel fyrir hjá ákveðnum hóp, þótt sú ákvörðun gæti verið hörmuleg fyrir afkomu sveitarfélagsins. Ég held að því miður að þekking ykkar á sveitarstjórnarmálum sé ákaflega takmörkuð, eins og tillaga ykkur ber með sér.
ET (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 21:11
Sæll ET.
Nú er það svo að Ísland er alveg sér á parti hvað þetta varðar miðað við nágrannalöndin og ekki höfum við fengið neinar upplýsingar um að sveitarfélög þar séu óstarfhæf og stjórnkerfi lamað. Eins og segir í niðurlagi greinargerðarinnar þá er einmitt verið að tæpa á því sem þú ert að tala um, þ.e. að sveitarfélögin sjá hag í frekari sameiningu og það sjálfviljug. Það að margir komi að ákvarðanatöku í lýðræðisríki er ekki vont, þvert á móti er það gott.
Með bestu kveðju.
Þór Saari, 9.10.2009 kl. 21:58
Mér finnst þetta gott mál hjá ykkur en tek undir það að talan 61 er sláandi há fyrir borgarfulltrúa í Reykavík. En það er mikilvægt til þess að styrkja lýðræði í landinu að skýra skilin milli svæða kjörinna fulltrúa og embættismanna. Í því skyni þarf að efla kjörna fulltrúa til þess að gera þá myndugri og sjálfstæðari í sínum störfum. En ég hefði talið að um 30 væri nægilegur "lágmarksfjöldi" í stærstu sveitarfélögunum. En það er smáónákvæmni í greinargerðinni. Þótt borgarfulltrúar séu nú 15 líkt og var 1908 hefur það ekki verið svo alla tíð. Þegar vinstri meirihlutinn komst til valda árið 1978 fjölgaði hann borgarfullrúum í 21, sá var fjöldinn í kosningunum 1982 en Davíð Oddsson lét það verða sitt fyrsta verk eftir að íhaldið náði völdum á ný að fækka borgarfulltrúum aftur niður í 15. Hvers vegna skyldi hann hafa gert það? M.a. vegna þess að þá var auðveldara fyrir íhaldið að halda hreinum meirihluta með allt niður í um 45% atkvæða. Yfirskinið var sparnaður en í raun var verið að stuðla að fámennisstjórn, auðvelda flokknum að hafa kontról á liðinu.
Pétur (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 22:21
Það má bæta því við að fyrir 1955 var alveg rakið að sameina Reykjavík og Kópavog en vegna þess að Sjálfstæðismenn í Reykjavík töldu að það ógnaði meirhluta þeirra, sem fram að því hafði alltaf fengist með innan við 50% atkvæða, máttu þeir ekki til þess hugsa.
Vinstri menn í Kópavogi hafa líklega heldur ekki viljað missa þann meirihluta sem þeir höfðu þar.
Þegar litið er á mörk Reykjavíkur og Kópavogs sést hve fráleitt það er að þetta séu aðskilin bæjarfélög. Nær væri að efla sjálfræði einstakra borgarhluta þannig að til dæmis Breiðholt og Grafarvogshverfið yrðu með svipaða stöðu og Kópavogur innan borgarmarka Reykjavíkur.
Ómar Ragnarsson, 9.10.2009 kl. 22:37
Ekki atriði sem ég hef velt fyrir mér. en þó - 7% atkvæðahlutfall, til að ná manni inn, er mjög strembið.
Varðandi regluna, er þið setjið upp, mætti einnig einfaldlega miða fjölda fulltrúa við rekniformúlu, sem tryggði t.d. að 3% magn atkvæða dygði til að ná manni inn.
Þannig, að í stað þess að setja upp þrepaskiptingu, væri til staðar ein reikniformúla.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 9.10.2009 kl. 23:09
Ég hygg að tillögur í þessa átt séu til bóta.
Því má hins vegar halda til haga að virkir þátttakendur í stjórn bæjarfélaga eru ekki aðeins kjörnir bæjarfulltrúar, heldur og allir þeir varafulltrúar og aðrir sem sitja í einstökum nefndum og stjórnum stofnana á vegum sveitarfélaganna. Tillögur Þórs og félaga mundu í raun ekki gera annað en að gera slíka að kjörnum sveitarstjórnarmönnum og -konum. Þannig geri ég ráð fyrir að í reynd myndi þeim sem starfa á pólitíska vettvanginum í Reykjavíkurborg ekki fjölga mikið ef nokkuð.
Það gæti svo verið, þótt á það sé ekki minnst í greinargerð frumvarpsins, að með slíkri formbreytingu þyrfti líka að endurskoða alla stjórnarhætti í íslenskum sveitarfélögum. Með stórum bæjarstjórnum gæti t.d. þurft að breyta hlutverkum bæjarráðanna.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 13:34
Þór Saari, nota tækifærið til að bjóða þér að koma á bloggið mitt: siggigretar.blog.is. Þar segi ág mína skoðun umbúalaust á stjórnarandstöðunni á Alþingi sem fékk hraklega útreið í skoðanakönnun "capacent"
Sigurður Grétar Guðmundsson, 10.10.2009 kl. 14:11
Til Ómars Ragnarssonar vegna atburða í Kópavogi árið 1955.
Ég flutti í Kópavog 1947 og bjó þar til 2002 er ég flutti til Þorlákshafnar og man því gjörla atburðina þegar Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi. Allt frá því Framfarafélag Kópavogs náði meirihluta í Seltjarnarneshreppi undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar reyndu þríflokkarnir, Sjálfstæðis- Framsóknar- og Alþýðuflokkur að bola honum og hans fylgismönnum frá völdum. Það varð til þess að Seltjarnarneshrepp var skipt og til varð Kópavogshreppur. Frumvarpið, sem þessir þrír flokkar fluttu á Alþingi 1955 um að Kópavogur yrði kaupstaður var beinlínis liður í þeirri baráttu. Finnbogi Rútur og hans fylgismenna höfðu þá stefnu að Kópavogur ætti að sameinast Reykjavík og ég man ekki til þess að Gunnar Thoroddsen borgarstjóri væri því mótfallinn enda var ætíð mjög gott samband á milli Finnboga Rúts og Gunnars. Frumvarpið á alþingi var samþykkt með atkvæðum þríflokkanna gegn atkvæðum Sósíalistaflokksins (Alþýðubandalagsins) og Þjóðvarnarflokksins og gegn vilja meirihluta hreppsnefndar Kópavogs.
Drifið var í því að kjósa fyrstu bæjarstjórn Kópavogs og allt kom fyrir ekki hjá þríflokkunum. Finnbogi Rútur og hans breiðfylking fékk hreinan meirihluta og Finnbogi Rútur varð fyrsti bæjarstjóri Kópavogskaupstaðar.
Ég set þetta hér fram því sögutúlkun þín Ómar er ekki rétt.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 10.10.2009 kl. 14:26
skil samt ekki þessi skrif hjá þér Þór - eruð þið ekki kosinn af fólkinu og eigið að starfa í "okkar" þágu ? því þarf að kjósa fleiri eins og ykkur ?
Jón Snæbjörnsson, 12.10.2009 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.