7.10.2009 | 09:56
Haustþingið
Jæja, þá er þetta að fara í gang aftur eftir nokkurt hlé. Af mánaðar þinghlé fóru um 3 vikur í síðasta kaflan í Borgarahreyfingunni og í að stofna Hreyfinguna sem verður formlegt bakland okkar þriggja sem eftir vorum í þingmannahópnum. Fór svo í viku í einangrun austur á Síðu og las bækur, hlustaði á tónlist og reyndi við sjóbirtingsveiði. Kærkomin pása eftir einhverja undarlegustu og annasömustu mánuði lífs míns sem tók algerum stakkaskiptum eftir kosningarnar í apríl. Hvað um það.
Undir lok september var haldin heils dags fundur í Forsætisnefnd þar sem ég er áheyrnarfulltrúi. Forsætisnefnd er sú nefnd sem fer með yfirstjórn þingsins og ákveður dagskrá þess bæði til árs í senn og svo einnig áætlun hverrar þingviku. Í Forsætisnefnd eiga sæti forseti þingsins Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og átta s.k. varaforsetar sem eru fólkið, þetta kjörtímabil eingöngu konur, sem tróna fyrir aftan ræðupúltið og stjórna þingfundunum. Á fundinum var farið yfir dagskrán fyrir næsta ár og fyrir nýliða eins og mig var áhugavert að fá loks að kynnast starfsáætlun e.k. hefðbundins þings, en sumarþingið sem lauk um daginn er víst einsdæmi í þingsögunni.
Mikilvægasta málið á komandi þingi verður sennilega skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið sem birt verður fyrripart nóvember mánaðar. Fjárlögin eru svo hitt stóra málið á komandi þingi en meira um það síðar.
Á þessum fundi var farið yfir dagskrá þingsetningarinnar sem var 1. október sem að venju gerði ráð fyrir guðsþjónustu í upphafi þingsetningar-athafnarinnar. Ég lagði til, og þá sérstaklega m.t.t. þess að bón Geirs H. Haarde um guðsblessun fyrir Ísland var ekki sinnt, að við þingsetninguna þetta árið yrði guðsþjónustunni einfaldlega sleppt. Þessi tillaga féll ekki í góðan jarðveg hjá sumum í nefndinni og var vísað m.a. til hefðar. Ekki fékkst þó fram nein alvöru umræða um málið heldur var því einfaldlega hafnað að breyta þessu.
Rétt er að komi fram að hér er ekki um að ræða neina andstöðu mína við kristna trú sem slíka heldur fyrst og fremst sannfæringu um nauðsyn þess að koma á aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkiskirkjan íslenska hefur eins og annars staðar verið notuð sem eitt af valdatækjum ráðandi afla með alveg nákvæmlega sama hætti og út um allan heim þar sem trúarbrögð hafa verið samtvinnuð veraldlegu valdi. Sú hugmynd að erindrekar trúarbragða eigi heimtingu á því að vera á fullum launum sjá skattgreiðendum er einnig eitthvað sem ekki gengur almennilega upp, enda verður ekki annað séð en að trúarlíf og kirkjurækni íslendinga sé með einkennilegasta móti. Prestar og sálgæslu hlutverk þeirra er aftur á móti mikilvægt og því þarf að leita leiða til framhalds á því, en utan við ríkisreksturinn. Það að sjá svo biskupinn og prestinn ganga fyrir þingmönnum til þinghússins er einfaldlega óvirðing við þingmenn og þingið.
Heppilegra og skemmtilegra væri náttúrulega að fá fulltrúa allra trúarbragða í halarófu á eftir prósesíu þingmanna og fyrirmenna. Þeir gætu svo haldið einhvers konar sameiginlega allraheilags messu á Austurvelli til blessunar á mönnum, dýrum, Gaiu eða Kárahnjúkavirkjun eða hverju því sem blessa þarf á meðan á þingsetningunni stendur. Það myndi einnig slá "vopnin" úr höndum þeirra sem ætluðu sér þetta árið að maka prósesíuna dýrablóði og skyri og gera þingsetninguna alla og umgjörð hennar miklu skemmtilegri og áhrifameiri.
Annar nefndarfundur sem var nýlega var í Efnahags- og skattanefnd þar sem komu seðlabanakstjórar og svo síðar fosrsvarsmenn Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. Verðtryggingin var umræðuefnið og er skemmst frá því að segja að ástin á verðtryggingunni er mikil og greinilegt að þessir aðilar eru ófærir um að reka peningamálastefnu, húsnæðislánastefnu eða ávaxta lífeyrir landsmanna með eðlilegum og sambærilegum hætti og gert er í öllum nágrannalöndum. Verðtryggingin hefur nú í annað sinn á 25 árum komið þúsundum fjölskyldna í greiðsluþrot og splundrað heimilum og fjölskyldum en þrátt fyrri það voru gestir nefndarinnar algerlega ófáanlegir til að viðurkenna að verðtryggingin væri skaðvaldur.
Hér verður Alþingi að grípa í taumana og það munum við gera enda með frumvarp í smíðum um afnám verðtryggingar. Fjármagnseigendur og varðhundar fjármagnseigenda í embættimannakerfinu hafa farið of illa með almenning of lengi. Verðtryggingin var sett á á sínum tíma vegna vanhæfni stjórnvalda í efnahagsmálum en ekki vanhæfni almennings í sparifjármálum og verðtryggingin er enn til staðar af nákvæmlega sömu ástæðum. Hún gefur fjármagnseigendum belti og axlabönd hvað áhættu varðar og tekur alla almennilega virkni úr jöfnunni sem þarf að vera til staðar í langtímafjárfestingum. Þrátt fyrir það hafa t.d. lífeyrissjóðirnir misst niður um sig brækurnar og tapað sennilega hátt í um helmingi eigna, já segi og skrifa 50%, sjóðfélaga í hruninu. Málið er hins vegar svo risavaxið og svo gegnsýrt að samspillingu atvinnulífs, stéttarfélaga og stjórnmála að það hefur ekki verið rannsakað.
Nú er mál að linni og ríkisstjórninni ber skilyrðislaus skylda til að hafna öllu samstarfi við lífeyrissjóði þar til farið hefur fram uppgjör, hrunuppgjör, og allt sett upp á borðið hvað varðar fjárfestingar þeirra og tap. Í því sambandi gætu svo farþegalistar einkaþota undanfarin ár verið áhugaverðir.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill.
Slæmt að þið hafið sagt ykkur úr lögum við Borgarahreyfinguna.
Billi bilaði, 7.10.2009 kl. 11:57
Hvernig tilfinning heldurðu að verði að fara á haustþing fylgislaus og rúinn trausti Þór ?
hilmar jónsson, 7.10.2009 kl. 13:16
Hilmar!
Þór er ekki fylgislaus.
Eva S. (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 13:18
Drottinn blessi þig Þór...
Helgi G (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 14:39
Hilmar Jónsson
Skelfilega var þetta málefnalaus athugasemd. Þú ert greinilega haldin ESB flensunni.
Þór -og reyndar allir fyrrverandi þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa unnið gott starf á þingi og munu uppskera samkvæmt þvi þegar upp verður staðið.
Gunnar Snæland (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 18:35
Ágaetis pistill hjá thér. Sammála ad adskilja thurfi ríkid og kirkjuna. Hvernig er thad med thig Thór...aetlar thú ekki ad berjast gegn kvótakerfinu?
Hér skapast aldrei alvöru thjódfélag á medan thetta sidspillandi kvótakerfi er látid vidgangast.
Helvítis aumingjar eru íslendingar...fullordnir íslendingar sem láta kúga sig...láta raena sig..horfa á spillta stjórnmálamenn afhenda útvöldum sameigninlega audlind landsmanna án thess ad gera nokkud.
Íslendingar hafa sannad med thessu ad their eru aular. AULAR
Orri (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 19:44
Sæll Hilmar.
Það er ekki um það að ræða að fara fylgislaus og rúin trausti inn á þing. Við höfum mjög öflugt og gott bakland sem hefur unnið nánast kraftaverk á undanförnum vikum við að byggja upp Hreyfinguna og málefnin tengd henni. Við vorum með opinn fund með fjölda grasrótarhópa á Kaffi Rót þann 30. september þar sem sjónarmið þeirra voru viðruð og mögulegt samstarf við að koma þeim á framfæri. Sjá hér. Undirbúningur að starfinu og starfseminni hefur gengið vel en það er mikil vinna að stofna samtök sem þessi. Í undirbúningi er málþing um lýðræði sem og fundarferðir út á land. Einnig hefur hópur úr baklandinu hafið útgáfu á flottu pólitísku vefriti, Svipan.is, eitthvað sem alltaf stóð til að gera en ekki vannst tóm til.
Við finnum fyrri miklum meðbyr og höfum í raun fengið meiri stuðning frá baklandinu á þremur vikum en nokkru sinni fyrr og einnig frá alveg ótrúlegum fjölda fólks sem hefur fylgst með okkur gegnum mánuðina eftir kosningarnar og sá hvert stefndi. Auðvitað tekur tíma að byggja upp traust eftir allt sem á undan er gengið en við höldum okkar striki sem aldrei fyrr og erum brattari en nokkru sinni.
Hreyfingin hefur komið sér upp bloggsíðu til bráðabirgða en verið er að vinna í heimasíðu. Ég vildi svo bjóða þér að skrá þig á lista hjá talsmanni okkar svo þú getir fylgst enn betur með, hafðu samband við dadi@1984.is. Verið er að setja saman póstlista fyrir alla áhugasama. Það eru erfiðir tímar fyrir höndum, stjórnmálin eru alveg jafn firrt og þau voru fyrir hrun og því brýnna en nokkru sinni að fimmta röddin heyrist inn á þingi.
Þór Saari, 7.10.2009 kl. 20:28
Sæll Þór,
Leitt að þú skulir tala um "síðasta kaflann í Borgarahreyfingunni". Fólk kemur og fer eins og gengur og gerist og lífið gengur sinn vanagang. Ég hef tekið þátt í að stofna fleiri félög en BH og gengið úr sumum þeirra án þess þó að senda út dánartilkynningu í leiðinni. Síðast þegar ég vissi (í lok september) voru um 600 manns skráðir í Borgarahreyfinguna, hluti þjóðarinnar sem kaus ykkur Birgittu, Margréti og Þráin á þing. Sumir lögðu meira að segja töluvert mikið á sig til að koma nýju fólki og nýjum hugmyndum inn á þing.
Það er umhugsunarefni að þið skulið hafa fundið ykkur nýtt bakland og meiri stuðning en nokkru sinni fyrr - meira að segja frá fólki sem kaus ykkur alls ekki sl. vor! Sem betur fer er ég þess fullviss að stefnuskráin okkar verði áfram leiðarvísir ykkar fjögurra, sama hvort þið kennið ykkur við Borgarahreyfinguna, Hreyfinguna eða hreint ekki neitt.
Svo ætla ég að nota tækifærið til að hrósa ykkur fyrir margt gott á þinginu hingað til og að hafa lagt svo hart að ykkur meðan flestir Íslendingar sleiktu sólina og nutu einstakrar sumarblíðu. Gangi ykkur allt í haginn.
Sigurður Hrellir, 7.10.2009 kl. 23:43
Takk fyrir greinagóða skrýrslu, ég vona að þið standið ykkur jafn vel í vetur. Eins og þið gerðuð í vor og sumar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.10.2009 kl. 01:07
Takk fyrir skýrsluna af þingstörfum. Það er mikil þjónusta við almenning, jafnt þá sem ykkur kusu sem aðra.
Héðinn Björnsson, 8.10.2009 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.