18.9.2009 | 07:23
Borgarahreyfingin breytir sér
Þessi grein eftir okkur þrjú, Birgittu, Margréti og mig birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Borgarahreyfingin breytir sér
Á landsfundi Borgaraheyfingarinnar sl. laugardag, tókum við undirrituð, þingmenn hreyfingarinnar, þá ákvörðun í framhaldi af samþykkt fundarins á nýjum lögum, að færa okkur um set. Það gerðum við að vel ígrunduðu máli og í anda þeirrar margradda hugmyndafræði sem hreyfingin sprettur úr; óbundin hvers kyns miðstýringu valds og stöðnuðu fundaformi feðraveldisins. Við fórum fram til að geta rætt við þá sem vildu, án þess að trufla aðra vinnu fundarins.
Við höfðum lagt fram tillögur að samþykktum fyrir hreyfinguna sem voru í anda uppruna hennar og tilgangs til mótvægis við aðrar tillögur að samþykktum sem umturna hreyfingunni, opna á það að gjörbreyta stefnuskránni og beinlínis gera aðild þingmanna að "flokknum" ólöglega. Tillögur okkar voru felldar án rökstuðnings. All flestar tilraunir okkar baklands til breytinga við hinar nýju samþykktir voru einnig felldar.
Sá hópur sem nú hefur gert Borgarahreyfinguna að sinni, hefur vafalítið ástæður til að efast um störf okkar. Kannski misskildum við hlutverk okkar þegar við ákváðum að sinna stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á þingi í stað þess að einbeita okkur að hugmyndafræði þessara sjálfskipuðu lykilmanna.
Er það hugsanlegt að það séu okkar alvarlegustu mistök að hafa tekið þingstörf fram yfir daglegt samneyti, samræðu og karp við þetta ágæta fólk, sem þoldi bersýnilega ekki við í tómarúminu eftir kosningaslaginn og einhenti sér, svona frekar en ekkert, í uppbyggilegt og stranglýðræðislegt niðurrif á störfum okkar þriggja, þess ógæfufólks hreyfingarinnar sem tekið hafði sæti (þeirra) á Alþingi. Allt er jú betra en aðgerðarleysið.
Við aðstæður sem þessar, þar sem svo herfilega rangt er gefið að sumra mati, skiptir undarlega litlu hvernig spilað er úr stokknum, niðurstaðan verður alltaf vitlaus. Og þess vegna verður allt vitlaust - hvenær sem tilefni gefst eða jafnvel án tilefna.
Þessi afstaða nýrra flokkseigenda, þar sem veruleikinn er jafn skakkur og raun ber vitni, elur iðulega af sér örvæntingarfullar tilraunir til "leiðréttingar", líkt og dæmin sanna. Boðað var til tilefnislauss aukaaðalafundar í kjölfar kosninga svo hægt væri að kjósa rétt fólk í stjórn - úr því svona illa tókst til með þingsætin. Sú stjórn reyndist hins vegar haldin meiri sjálfseyðingarhvöt en svo að áður en varði hafði hún splundrað sjálfri sér með sjálfbærum hætti; þ.e.a.s. án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar.
Sú dapra reynsla kemur þó ekki í veg fyrir að þetta sama fólk hefur nú ákveðið að endurtaka leikinn; boðar til landsfundar með háskalega stuttum fyrirvara og raðar sér með postulegum hætti í enn eina stjórnina sem nú á að hafa þann starfa helstan að leiðrétta ákvarðanir þingmanna og nær 14.000 kjósenda. Og úr því menn voru byrjaðir munaði þá ekki um að breyta eðli og inntaki hreyfingarinnar og stefnuskránni í leiðinni. Þeirri stefnuskrá og þeirri hreyfingu sem kjósendur gáfu atkvæði sitt í vor.
Lýðræði er samræða um val, flokksræði er samráð um vald.
Við tökum undir með þeim lesendum sem telja vandséð hvernig okkur væri stætt á því að halda áfram einhvers konar samstarfi við títtnefndan hóp manna. Í krafti bloggsins blessaða og "umræðunnar" hafa of margir núverandi stjórnarmanna sært með orðum sínum, rofið trúnað og snúið sameiginlegum ákvörðunum á haus, til að geta talist trausts verðir. Í raun sýnt af sér meira ódrenglyndi og ábyrgðarleysi en vænta mætti frá svörnum pólitískum andstæðingi.
Kannski er það þetta sem gerist þegar menn fara að líta á sig sem væntanlega valdhafa í pólitísku valdabrölti fremur en hluta af skammlífri og þverpóltískri grasrótahreyfingu. Þegar þolinmæðina þrýtur gagnvart tímafrekri umræðu og hugmyndir um opna hreyfingu verða skyndilega "fullreyndar" og ekki á vetur setjandi.
Það stóð aldrei til að Borgarahreyfingin ílentist á Alþingi. Í því felst styrkur okkar ekki síst. Við lítum á það sem lýðræðisleg forréttindi að geta starfað á þingi án þess að binda hug okkar og hjarta við næstu kosningar. Geta fylgt sannfæringu okkar sem fulltrúar kjósenda, óháð sýndarárangri skoðanakannanna og atkvæðaveiðum.
Við höfum fram til þessa ekki svarað dylgjum og meiðingum stjórnarmanna Borgarahreyfingarinnar. Þetta er okkar fyrsta og síðasta athugasemd af þessu tagi.
Við hlökkum til að sinna áfram þeim verkefnum sem kjósendur Borgarahreyfingarinnar fólu okkur og komu fram í stefnuskrá hreyfingarinnar fyrir kosningar. Samkvæmt þeirri stefnu munum við vinna hér eftir sem hingað til.
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook