Yfirlýsing frá þingmönnum Borgarahreyfingarinnar

Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar í gær 12. september voru samþykkt lög fyrir hreyfinguna sem ganga í berhögg við uppruna, tilgang og stefnu hreyfingarinnar.

Borgarahreyfingin spratt upp sem lýðræðisafl til höfuðs þeim hefðbundnu stjórnmálaflokkum sem fyrir voru og hefur nú tapað sjónum á ábyrgð sinni við kjósendur þessa lands. Með þessum nýju lögum er staðfest ótímabær uppgjöf gagnvart þeim nýju lýðræðislegu starfsháttum og þverpólitíska starfi sem lagt var upp með.  Borgarahreyfingunni hurfu nú verið breytt í miðstýrðan stjórnmálaflokk, þvert á upprunalegar samþykktir og stefnuskrá.

13.499 manns greiddu upprunalegri hugmyndafræði Borgarahreyfingarinnar atkvæði sitt í vor og veittu okkur þar með umboð sitt til að fylgja henni eftir samkvæmt bestu vitund og sannfæringu. Það vefst því eðlilega fyrir okkur að atkvæði einungis 54 manna á landsfundi, innan við tíundi hluti þeirra sem þar hafa atkvæðisrétt, geti snúið á hvolf þeirri stefnu sem okkur var falið að vinna samkvæmt.

Skyldur okkar sem þingmanna eru við kjósendur okkar og með þeim viljum við vinna að þeim knýjandi umbótum og raunverulega viðsnúningi viðhorfa og vinnuaðferða sem nauðsynlegur er á næstu misserum.

Við munum því taka okkur þann tíma sem þarf til að ákveða með yfirveguðum hætti hvort og þá hvernig við sjáum okkur fært að starfa með Borgarahreyfingunni við þessar aðstæður.

Birgitta Jónsdóttir

Margrét Tryggvadóttir

Þór Saari

þingmenn Borgarahreyfingarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband