Brú milli þjóðar og þings

Hér er grein sem við þrjú Birgitta, Margrét og ég fengum birta í Morgunblaðinu í gær.

Brú milli þjóðar og þings

Á laugardaginn kemur heldur Borgarahreyfingin sinn fyrsta landsfund og ræður ráðum sínum um næstu skref í starfi í sínu í þágu þjóðarinnar. Hreyfingin vann eftirminnilegan sigur í kosningum sem haldnar voru í kjölfar endurtekinna þjóðfunda á Austurvelli þar sem breiðfylking borgara þessa lands krafðist réttlætis og raunverulegs lýðræðis. Það var einmitt upp úr þessum fundum sem hreyfingin var sprottin og þangað sótti hún hugmyndir sínar og kröfur.

Í aðdgraganda kosninganna er Borgarahreyfingin þess vegna kynnt sem breiðfylking fólks sem á fátt annað sameiginlegt en að vera virkir borgarar í lýðræðissamfélagi. Fólks með fjölbreyttan bakgrunn og ólíkar lífsskoðanir. Stjórnmálaafl sem sinnir hagsmunavörslu fyrir einn hóp - þjóðina - og hefur eina meginreglu að leiðarljósi; að færa völdin frá flokksræði til lýðræðis.

Frá flokksræði til lýðræðis

Það er ástæða til að rifja þessi orð upp hér og halda þeim til haga á komandi landsfundi. Þau eru í okkar huga, sem höfum tekist á hendur sú ábyrgð að vera fulltrúar Borgarhreyfingarinnar á Alþingi íslendinga, sá kjarni sem starf okkar á að snúast um. Í þeim felast sannindi sem ekki mega undir nokkrum kringumstæðum gleymast.

Það hefur sýnt sig í öllum samfélögum á öllum tímum, að það vald sem skapast í krafti miðstýringar og regluverks verður á skömmum tíma uppteknara af viðhaldi sjálfs sín en þeim jarðvegi sem það er upphaflega sprottið úr.

Þess sjást víða merki í fréttaflutningi og á spjallrásum vefsins hversu undurfljótt hugmyndin um miðstýrt flokksapparat sem hafa þarf vit fyrir fólki lætur á sér kræla. Þannig hefur tiltölulega fámennur hópur gert tilkall til eignarhalds á hreyfingunni í kjölfar kosningasigursins og sumir einstaklingar meira að segja tekið að líta á sig sem fulltrúa heillar þjóðar og þá líklegast vegna góðrar mætingar þeirra á félagsfundi.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að einhverjir missi þannig sjónar á upphaflegu erindi lýðræðishreyfingar eins og þessarar því flokksræðið með eignarrétti fárra útvalinna er nokkurn vegin eina fyrirmyndin að stjórnmálaafli sem við höfum í þessu landi og rætur þess liggja dýpra en nokkurn grunar. En það er líka hálfkaldhæðnislegt að þurfa ítrekað að svara kröfum um meint vald sjálfskipaðra flokkseigenda yfir þingmönnum hreyfingarinnar, í ljósi þess að slíkur hráskinnsleikur er einmitt dæmigerð birtring þess múlbundna veruleika stjórnsýslu og miðstýringar sem Borgarahreyfingunni var frá upphafi ætlað að vinda ofan af.

Dýrmæt reynsla

Það er heilmikið til í því sem haldið hefur verið fram að ekki hafi nægilega vel verið hugað að skipulagi starfsins og áframhaldandi þróun mála eftir kosningar. Að menn hafi ekki verið viðbúnir því að ná raunverulegum árangri, hvað því að koma fjórum mönnum á þing. Til þess var tíminn einfaldlega of knappur, reynsluleysi okkar allra of mikið. Engu að síður er fátt sem bendir til  þess að ekki hafi verið unnið vel úr góðum árangri - hvernig fyrirfram ákveðin áætlun eða ákvarðanir um vinnulag hefðu gert störf okkar auðveldari eða markvissari. Til þess hafa aðstæður einfaldlega verið of ófyrirsjáanlegar og í raun súrrealískar.

Hér leynist líklega ein mikilvægasta mótsögn veruleikans og sú sem erfiðast getur verið að sætta sig við, nefnilega sú, að veruleikinn er, líkt og maðurinn sjálfur, ólíkindatól og skreppur alltaf úr höndum skipulagsins - og miðstýringarinnar þá minnst varir.

Í því ljósi má segja að það hafi ekki verið svo galið að vita ekki upp á hár hvernig bregðast skildi við kosningasigri, en bregðast þess í stað við þeim veruleika á eigin forsendum þegar þar að kæmi. Og það er einmitt það sem við höfum verið að gera frá fyrsta degi. Það má kalla það spuna eða flæði, það má líka orða það svo að við höfum lagt meiri áherslu á að vanda okkur á hverju og einu augnabliki en að vinna eftir fyrirfram njörfaðri áætlun. Fyrir vikið höfum við gert alls kyns mistök, yfirsést ýmislegt og ofgert öðru. En þannig höfum við líka lært að nýta enn betur þau tækifæri sem gefist hafa til að vega og meta, endurskoða og tengja, með betri árangri en nokkur flokkslína eða niðurnjörfuð hugmyndafræði leyfir. Þar er mikilvægasta lexían fólgin í því gjöfula samstarfi sem við höfum átt við fjöldan allan af fólki, jafnt kjósendur okkar sem aðra, sem verið hafa í sambandi við okkur á þeim fjölbreytta vettvangi sem í boði er í samtímanum; hvort sem er með samtölum á neti og í síma, á fundum eða á förnum vegi. Við höfum lagt mikla áherslu á að auðvelt sé að nálgast okkur, að við séum ekki atvinnupólitíkusar í þeirri einangrandi merkingu sem í því hefur falist, að við neitum að fylgja flokkslínum en hlustum eftir öllu sem rétt er og gagnlegt og göngumst við því sem aðrir gera betur en við og látum ekki fyrirfram merkt hólf móta hegðun okkar né afstöðu.

Þannig sjáum við hlut Borgarahreyfingarinnar verða mestan; sem vettvang opinnar hugmyndafræði og vakandi, heiðarlegrar endurskoðunar. Sem barnsins sem er alltaf tilbúið að spyrja þess sem venjan er að þegja um, en jafnframt sem manneskjunnar sem tekur út þroska sinn í samspili ólíkra viðhorfa og reynslu og býr yfir æðruleysi þess sem ekkert hefur að fela.

Við erum þess fullviss, að fenginni dýrmætri reynslu, að þinginu væri betur farið og þar með þjóðinni allri, ef hver og einn þingmaður ynni sannanlega samkvæmt eigin sannfæringu og tæki ákvarðanir út frá eigin innsæi, byggðu á opnum huga og einlægum áhuga á framgangi þess sem sannara og  betra reynist. Þannig gæti enginn dulist á bak við flokksmúra þegar hentaði né þurft að beygja sig undir svokallaðan flokksaga þegar flokknum hentaði.

Við höfum vissulega orðið að læra hratt á nýjum vinnustað og ekki átt annars úrkosti en starfa samkvæmt þeim venjum sem þar eru í hávegum hafðar. Þegar við bætist að þingheimi hefur verið haldið í gíslingu tveggja umræðuefna frá fyrsta degi, er óhætt að halda því fram að svigrúm nýs stjórnmálaafls til athafna og áhrifa hafi reynst æði takmarkað. Engu að síður höfum við orðið vitni að breytingum í starfsháttum, viðmóti og hlutverkaskipan innan hins háa Alþingis sem gefa til kynna að tilvist lýðræðishreyfingar eins og þeirrar sem við erum fulltrúar fyrir hafi mun meiri áhrif en nokkur  hefði þorað að vona. Kannski vegna þess að eðli málsins samkvæmt er Borgarahreyfingin ótamið afl sem ætlar sér ekki að læra leikreglurnar allt of vel. Óbundinn fulltrúi mennskunnar sem nýtur þess að geta fylgt eigin sannfæringu eins og hún birtist í hjarta hvers manns. Nokkuð sem  fokksmönnum" innan hreyfingarinnar hefur reynst erfitt að sætta sig við. Eða eins og einn félagi okkar hefur bent á: "Við ætluðum okkur að skapa meðal annars vettvang í samfélaginu fyrir persónukjör, en á sama tíma virðast samt margir ekki aðhyllast það að þingmenn séu persónur."

Að þessu sögðu blasir við:

- að Borgarahreyfingunni er ætlað mun stærra og mikilvægara hlutverk en svo að hún megi verða flokksræði og forsjárhyggju fárra manna að bráð.

- að næsta skref felst í að tryggja enn frekar virkni hreyfingarinnar með jafnræði í skipulagi hennar og uppbyggingu.

- að sem opinn og lýðræðislegur vettvangur hefur Borgarahreyfingin alla burði til að vera sú brú milli þjóðar og þings sem stefnt var að frá upphafi.

Áfram veginn

Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar á laugardaginn verða lagðar fyrir samþykktir um hreyfinguna sem fela í sér skref í átt til enn frekari árangurs á þeim vettvangi sem við störfum á og opna m.a. grasrótahreyfingum og einstaklingum raunhæfa leið til áhrifa innan stjórnkerfisins. Við teljum þjóðina þurfa á slíku tækifæri að halda nú meira en nokkru sinni fyrr og hvetjum því alla sem láta sig málin varða til að kynna sér samþykktirnar á heimasíðu hreyfingarinnar www.xo.is og leggja sitt af mörkum á komandi landsfundi.

Með kæri þökk fyrir gott samstarf hingað til.

Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, þingmenn Borgarahreyfingarinnar

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnleysi er bara fyrir unglinga Þór, þú ættir að vera vaxin upp úr þessu. Kyngdu nú egóinu og reyndu að láta þetta ganga. Borgarahreyfingin átti aldrei að vera Anarkista hreyfing, það er til svoleiðis fyrir, með fullri virðingu. Annars er þetta subbuleg grein og ykkur ekki til sóma, fólkið sem barðist við hlið ykkar í vetur á skilið að þið takið hrokann úr eyrunum og hlustið, annað var það ekki. Gangi ykkur vel á morgun.

Herbert Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 20:36

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

"Þess sjást víða merki í fréttaflutningi og á spjallrásum vefsins hversu undurfljótt hugmyndin um miðstýrt flokksapparat sem hafa þarf vit fyrir fólki lætur á sér kræla. Þannig hefur tiltölulega fámennur hópur gert tilkall til eignarhalds á hreyfingunni í kjölfar kosningasigursins og sumir einstaklingar meira að segja tekið að líta á sig sem fulltrúa heillar þjóðar og þá líklegast vegna góðrar mætingar þeirra á félagsfundi"

Þið gerið ykkur væntanlega grein fyrir því að þið eruð að tala til fólks í hreyfingunni!?

Vá þvílíkur hroki og yfirlæti

Heiða B. Heiðars, 11.9.2009 kl. 20:50

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er orðlaus.

Vá, það er afrek út af fyrir sig hjá BH.  Kannski eitt af fáum.

Hroki og yfirlæti er vansögn. 

Þetta oflæti tekur á sig stærri víddir en nokkurn hefði getað órað fyrir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.9.2009 kl. 22:13

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég hef aldrei gert tilkall til BH sem "eigandi", ég hins vegar krefst þess að þingmenn BH fari eftir stefnuskrá BH í þeim málum sem við tókum ákvörðun um. Ég sem einn af þjóðinni og sem einn af þeim sem unnu BH mikið gagn á Norðurlandi að þingmenn BH hafi hag þjóðarinnar að leiðarljósi og setji hann ofar eigin hag.

kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 11.9.2009 kl. 22:35

5 Smámynd: Ásthildur Jónsdóttir

Við þekkjum dæmi um þingmann sem sat Borgarafund og sagði fullum fetum að fólkið sem stóð upp úr sófanum til að mótmæla úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar væru ekki þjóðin.  Manstu eftir því Þór? 

Núna fáum við það sama yfir okkur, frá þeim þingmönnum sem við stóðum saman í að koma á þing.  Grasrótin sem stóð upp úr sófanum til að vinna tillögur í sjálfboðavinnu í sumar í því skyni að búa til starfhæfa hreyfingu fá yfir sig sama hrokann og Ingibjörg Sólrún sýndi á Borgarafundi í vetur. 

Ef þið þingmenn eruð svona ósáttir við afraksturinn frá þessum hópi, gátuð þið ekki sent inn breytingatillögur?  Eða voruð þið bara svona eldsnögg að læra viðhorfið sem við þekkjum svo vel úr hinum flokkunum - að þingmenn séu betur til þess fallnir en almenningur að semja nothæfar vinnureglur fyrir okkur sjálf? 

Mér sýnist einmitt á þessari grein að þið hafið lært atvinnustjórnmálamennsku á mettíma og hafið verið miklu betri nemendur á Alþingi en kennarar.  Það er miður.

Ásthildur Jónsdóttir, 11.9.2009 kl. 23:42

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Kæra Ásthildur, það er að hluta til sömu einstaklingar og "stóðu upp úr sófanum" í sumar og unnu að fyrri samþykktartillögunum sem koma að þessum.

Til dæmis ég og Jón Þór, þori ekki að segja til um hverjir fleiri hafi mætt á fundi samþykktavinnuhópsins í sumar þar sem að ég komst sjálfur ekki á nærri því alla.

Ástæða þess að við fundum okkur knúna til þess að koma fram með aðra tillögu er að við teljum að hreyfingin þurfi að taka til þess afstöðu með skýrum hætti hvert hún vill þróast. Hvort að hún vilji þróast frá því að vera hit and run framboð með einfalda stefnuskrá, í það að vera með opna og sveigjanlega stefnuskrá og þá verða meira í átt við hina flokkana, sem að ég tel að hafi einmitt verið eitt af okkar meginmarkmiðum að verða ekki.

Ég á afar erfitt með að skilja þessa kergju yfir því að fram komi fleiri en ein tillaga að breytingum fyrir landsfundinn. Eðlilegast er að treysta honum fyrir því að velja hvert skal halda.

Ég tók þátt í gerð þessara tillagna B (eins og þær eru nú kallaðar) til þess að berjast fyrir því að halda okkur við það sem við lögðum upp með. Núna skulum við bara leyfa æðsta valdi hreyfingarinnar, landsfundinum, að taka afstöðu til framtíðarinnar.

Baldvin Jónsson, 12.9.2009 kl. 01:59

7 identicon

Ég er sammála ATHUGASEMD: 1, 2, 3, 4 og 5. 

Graggó (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 13:08

8 identicon

"Þess sjást víða merki í fréttaflutningi og á spjallrásum vefsins hversu undurfljótt hugmyndin um miðstýrt flokksapparat sem hafa þarf vit fyrir fólki lætur á sér kræla. Þannig hefur tiltölulega fámennur hópur gert tilkall til eignarhalds á hreyfingunni í kjölfar kosningasigursins og sumir einstaklingar meira að segja tekið að líta á sig sem fulltrúa heillar þjóðar og þá líklegast vegna góðrar mætingar þeirra á félagsfundi."

!!!!?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 14:57

9 identicon

 "Brú milli þjóðar og þings" .....hljómar jafn hrokafullt og "CONTRACT WITH AMERICA"  sem Newt Gingrich stód ad med ödrum haegribrjálaedingum í USA.

Enga helvítis brú.  Thjódina á thing.

Graggó (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 15:48

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hmm, búinn að lesa ný samþykkt lög , og ákvæðið um hollustueið eða annars, er - ehem - áhugavert.

En, vart er hægt að skilja það á annann hátt, en að neitun um að taka þann eið jafngildi úrsögn þess þingmanns úr hreyfingunni.

Framhaldið verður áhugavert.

Hver er skoðuna fólks annars hérna?

Samrímist ákvæði um hollustueið, þeirri hugsun, að ætla sér að vinna gegn miðstýringaráráttu og flokksræði?

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.9.2009 kl. 17:29

11 identicon

Mér finnst þið þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafið staðið ykkur frábærlega !

 Og ég dáist að þeim kjarki sem þið hafið sýnt á alþingi Íslendinga í sumar, þrátt fyrir gífurlega erfiða þingsetu og andsöðu frá til og með ykkar eigin fólki. Geri mér grein fyrir að þetta er mjög fórnfúst starf en ó almáttugur hvað það er rotið. Það verða og eru fáir sem fá jafn mikið skítkast á sig og þingmenn... útrásarvíkingar þurfa ekkert að þola miðað við ykkur.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég persónulega mun aldrei getað hugsað mér að setjast inn á alþingi Íslendinga og reyna eftir minni bestu sannfæringu að gera þjóðinni gagn.

Hafið þið því mikla þökk fyrir. Takk fyrir að hafa minnkað höggið við Icesavesamkomulagið þrátt fyrir að höggið verður nú samt.

Gangi ykkur vel áfram... vonandi fer ljósið að skína á ykkur brátt. Ekki missa móðinn. kveðja

Björg F (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 18:33

12 identicon

a tessum landsfundi ykkar kemur tad i ljos að tið raðið ekki vid ad koma ISLANDI a rettan kjol

kjosandi (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 01:01

13 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Högni, ákvæði um hollustueið var fellt út, skv breytingartillögu. Og merkilegt nokk, allt það sem þingmennirnir okkar eru að gagnrýna að sé í lögunum var fellt út á fundinum.  Ef þið hefðuð bara dokað við, þá hefðuð Þið séð það, auk þess sem að þið hefðuð getað breytt enn fleiru, ef þið hefðuð ekki bara labbað út og gefist upp á lýðræðinu. 

 Lýðræðið tekur tíma, og það er ekki "effectivt" að fara bara í fýlu og "nenna" ekki að vera með, ef maður tapar fyrstu orustunni.  Ég get amk frætt þig um það, að ef tillögur B hefðu orðið ofan á þá hefðum við ekki labbað út, við vorum með bunka af breytingartillögum við þær og hefðum barist í allan dag ef þess hefði verið þörf. 

Við nefnilega gengum ekki út frá því að við "ættum allan stuðninng" á fundinum.  Við vorum tilbúin til þess að berjast fyrir okkar hugsjónum fram í rauðan dauðan!

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 13.9.2009 kl. 03:13

14 identicon

Ekki alveg rétt hjá þér Ingifríður. Hollustu eiðurinn fór út, en kom inn í breittri mynd.

Alveg jafn tilgangslaus og barnalegur. 

Þú segir: "allt það sem þingmennirnir okkar eru að gagnrýna að sé í lögunum var fellt út''

Als ekki sammála, allar breitingar tillögur um að hafa "Flokkinn" opna hreifingu. Voru felldar.

En nú skulum við bara bíða og sjá nýju lögin birt hér og þá geta allir borið þau saman við tillögur B.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 14:37

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband