28.8.2009 | 23:29
ICESAVE, að leiðarlokum?
Þá er stóra málið afgreitt. Fyrir okkur nýliða á þingi var þetta eins og að vera hent beint út í djúpu laugina. Langir og strangir næturfundir þar sem það besta í mannlegu fari kom fram en einnig það versta í pólitísku fari þingsins þar sem tekist var á með blekkingum, hræðsluáróðri og jafnvel hreinum ósannindum. Þetta sumarþing hefur verið merkileg lífsreynsla, byrjaði um miðjan maí og átti að ljúka fyrir 17. júní. Við töldum að vandamál heimilana, fyrirtækjana og efnahagsmál almennt yrðu rædd og leitað lausna á þessum brýnustu vandmálum, en aldeilis ekki. Evrópusambands umsókn Samfylkingarinnar og ICESAVE samningar fjármálaráðherra tóku upp nærri allan tímann.
Mér finnst þetta vera ábyrgðarleysi af verstu tegund og merki um forgangsröðun sem er þvílíkt brengluð að vafamál er hvort ríkisstjórninni er lengur stætt. Þó er þetta ríkisstjórn sem ég sjálfur batt miklar vonir við í upphafi og hef lýst yfir margoft að ég muni verja falli.
Eftir "aðra umræðu" á þinginu, en öll frumvörp fara í þrjár umræður, var ICESAVE aftur tekið inn í fjárlaganefnd en við aðra umræðu höfðu komið fram mikilvægar upplýsingar um að fyrirvarar við frumvarpið héldu ekki og við tók enn ein törnin við að reyna að laga málið. Vinnunni lauk kl. þrjú aðfaranótt þriðjudagsins 25. ágúst. Hvað svo sem segja má um málið í heild þá er ég stoltur að eiga hlut í þeirri vinnu sem lögð var í að breyta upprunalegu frumvarpi, vinnu sem var unnin þverpólitískt en ekki flokkspólitískt.
Niðurstaðan var ágæt og ICESAVE mun ekki verða þyngri baggi en svo að lífskjör munu ekki skerðast vegna greiðslna þótt þau batni e.t.v. eitthvað hægar. Það er þak á greiðslum sem miðast við ákveðið hlutfall af framtíðarhagvexti (6%) og verði hagvöxtur minni en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir (sem er mjög bjartsýn) þá lækka greiðslur af ICESAVE til samræmis við það. Eins voru settir fleiri fyrirvara við málið sem of langt er að telja upp hér en breytingartillögurnar má finna hér og hér.
Í þessari þverpólitísku vinnu var lagt upp með að ná sem breiðastri sátt um málið og vonast var til að frumvarpið yrði afgreitt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Það náðist ekki og þótt breytingartillögur fjárlaganefndar væru samþykktar með miklum meirhluta eða 52 atkvæðum af 63 þá var frumvarpið í heild sinni eingöngu samþykkt með atkvæðum stjórnarflokkana eða 34. Þess má geta að við lokaafgreiðslu frumvarpa eru yfirleitt greidd atkvæði um einstakar greinar þess (og jafnvel einstaka málsliði) og svo í lokin um frumvarpið í heild sinni.
Við í Borgarahreyfingunni samþykktum allar breytingartillögurnar en við frumvarpið í heild þá sögðu Birgitta og Margrét nei en ég sat hjá. Þetta vafðist talsvert fyrir mér þar sem ég hafði átt mikinn þátt í þeirri vinnu sem var lögð í breytingarnar og eyddi mörgum löngum nóttum með fjárlaganefnd og þingmönnum úr þverpólitíska hópnum til að ná þeim fram. Mjög margt (og raunar flest) sem við börðumst fyrir náði fram að ganga og gerði málið allt miklu bærilegra og þegar upp var staðið þá stóð ég frammi fyrir því að annað hvort samþykkja mál sem ég var í prinsippinu algerlega á móti, þ.e. að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning, eða hafna máli sem ég átti þó svo mikinn þátt í að laga og hafði heitið stuðningi við.
Þetta er víst ein af þessum flækjum sem allir þingmenn lenda í fyrr eða síðar og sem gerir það að verkum að manni einfaldlega líður ekki vel með neina af möguleikunum. Á endanum sat ég hjá við atkvæðagreiðsluna um frumvarpið í heild sinni þar sem ég gat einfaldlega ekki fengið mig til að samþykkja þessa málsmeðferð, þ.e. að velta skuldum Björgólfsfeðga, sem stofnað var til í siðlausu og spilltu viðskiptalífi sem samtvinnaðist siðlausu og spilltu stjórnmálalífi, yfir á almenning sem engann þátt átti í málinu.
Mér þótti þó að vissu leyti leitt að frumvarpið var ekki samþykkt með stærri meirihluta þar sem VG-liðarnir fjórir sem sýndu svo mikinn kjark, þau Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, áttu svo sannarlega skilið meiri stuðning eftir allt erfiðið.
Hvað um það, málið hefur verið afgreitt úr þinginu og ef Bretar og Hollendingar verða alveg brjálaðir þá verður að semja upp á nýtt og það er einfaldlega ekki hægt annað en að gera betur.
Ríkisstjórninni er nú skylt (samkv. 8. grein sem samþykkt var samhljóða með 60 atkvæðum en 3 voru fjarverandi) að leita aðstoðar allra þar til bærra yfirvalda í í nágrannalöndum í þeim tilgangi að hafa upp á hvert peningarnir sem lagðir voru inn á ICESAVE reikningana fóru og gera áætlun fyrir áramót um hvernig á að nálgast þá ef hægt er. Einnig er gerð krafa um að eigendur og stjórnendur Landsbankans verði látnir bæta það fjárhagslega tjón sem kann að hljótast af gerðum þeirra. Glingur Björgólfsfeðga (og fleiri) má fara að vara sig.
Framundan er smá frí og svo verður lagt í vinnu við frumvörp um vanda heimilana, stjórnlagaþing o.fl. sem við útskýrum nánar á landsþingi Borgarahreyfingarinnar sem verður haldið 12. september n.k. á Grand Hótel (sjá www.xo.is).
Hér eru svo ræðurnar sem ég flutti við aðra umræðu (tvær)
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090820T123800&horfa=1
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090821T194646&horfa=1
og þriðju umræðu og atkvæðaskýringu.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090827T124243&horfa=1
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?horfa=1&raeda=rad20090828T110548
Birgitta flutti svo alveg frábæra lokaræðu fyrir Borgarahreyfinguna við þriðju umræðu sem er hér.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090828T094109&horfa=1
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Getur þú ekki birt minnisblaðið sem Geir Harde og Árni Matthísen skrifuðu undir varðandi ICESAVE ?
JR (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 23:44
Sæll Þór og þakka þér vel unnin störf á sumarþinginu. Ég held að stjórnin vinni bara eftir prógrammi AGS, þessvegna er brýnt að þingið fjalli um samninginn sem gerður var við AGS á sama hátt og Icesave samninginn. Er möguleiki að það gerist?
kveðjur
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.8.2009 kl. 23:56
Hvíldu þig nú vel karlinn! Við þurfum þig aftur sprækan og ferskan í slaginn í haust.
TH (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 23:59
Ræðan hennar Birgittu var mjög góð. Samt er þetta sorgardagur, þegar skuldir óreiðumanna voru þjóðnýttar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.8.2009 kl. 00:07
Takk fyrir vel unnin störf á þinginu og að leyfa okkur almenning að fylgjast með lífinu þarna inni. Hlýtur að vera "hell" oft á tíðum. Vonandi vaknar stjórnin um þörf heimilanna á úrlausnum eftir pásuna.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 29.8.2009 kl. 00:44
Þetta var sannkallað afrek og áttu þakkir fyrir það. Hafðu það gott í fríinu
sandkassi (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 01:45
Takk fyrir að standa vaktina - þú stendur þig vægast sagt vel í störfum...!
kv. Heilbrigð skynsemi
Jakob Þór Haraldsson, 29.8.2009 kl. 10:22
Þór, ég skil engan veginn málflutning þinn. Ef þér finnst "að vissu leyti leitt að frumvarpið var ekki samþykkt með stærri meirihluta" - af hverju samþykktirðu það þá ekki? Ef þér finnst "þá verður að semja upp á nýtt og það er einfaldlega ekki hægt annað en að gera betur" - af hverju hafnaðir þú þá samningnum ekki?
Að sitja hjá - hvaða afstaða er það eiginlega??? Fyrir miklum vonbrigðum með alla þá sem sátu hjá. Gjörsamlega ósammála málflutningi og hegðun Framsóknarmanna í þessu máli öllu saman, og efast fullkomlega um ástæðu þess að höfnuðu samningnum (trúi ekki undir neinum kringumstæðum að gerðu það af því voru með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi). En þeir þó tóku skýra afstöðu. Það er meira en þú og flestir Sjálfstæðismenn höfðu manndóm til að gera.
Hvernig dettur annars nokkrum manni í hug að það sé fullkomlega öruggt að fáum betri samning ef Hollendingar og Bretar hafna fyrirvörunum. Hvað ef þeir neita að semja upp á nýtt, hvað gerist þá? Hvað ef samþykktu dómstólaleiðina og færu fram á alla upphæðina og nytu við það stuðning alþjóðasamfélagsins? Hvað ef drægu lánið til baka (ekki eins og getum fengið lánað fyrir þessu á betri kjörum annars staðar, eða yfirhöfuð fengið lánað)? Hefurðu engar áhyggjur af hvað gæti gerst?
ASE (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 10:48
ASE, ertu gunga eða heytirðu ASE, myndirðu láta taka þig í skraufaþurra görnina án átaka bara af því að þú værir ekkert endilega viss um að nauðgarinn fengist til að nota neina feyti.
Hvað ef þeir semja upp á nýtt og eða í ljós kæmi í dómstólaleiðinni að þeir eiga stærri hlut að máli en þeir vilja kannast við, vegna galla í regluverki EES? Hvað ef við fyrir vikið þyrftum minna lán og fengjum það hjá seðlabanka ESB vegna aðkomu ESB að gallanum og aðstæðna vegna lægri og vexti og lengri greiðslufrest.
Hvað ef ASE, allt færi á betri veg, kítlar það ekki soldið, þá sem þora?
Högni Jóhann Sigurjónsson, 29.8.2009 kl. 12:19
ASE ég persónulega hef engar áhyggjur af því hvað gæti gerst. Verra gæti það ekki verið en þessi viðbjóður. Bjöggarnir og félagar búnir að hirða gróðann og við fáum skuldirnar. Svei.
Besta skýringin sem ég hef heyrt fékk ég í gær, að rússneska mafían væri í raun á bakvið þá feðga, icesave og allan þann þjófnað. Það er reyndar ekki verri skýring en hver önnur.
Baldvin Björgvinsson, 29.8.2009 kl. 18:50
Ekki er sopið kálið, þó í ausuna sé komið.
Viðbrögð stjórnvalda í Hollandi og Bretlandi, eru ekki enn komin fram.
Fyrstu viðbrögð einstakra ráðherra, og stjórnmálamanna, eru sannarlega blendin, og gefa enga skýra vísbendingu.
50/50 líkur á að þetta verði samþykkt/hafnað, ef til vill!
Þannig, að umtalsverðar líkur verða teljast á því, að þetta sé einungis upphaf nýs og langs kafla, í Icesave deilunni.
Það má vera, að deilan sé einfaldlega rétt, að byrja.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 29.8.2009 kl. 19:22
ASE, þetta er meiri dómsdags spádómurinn hjá þér.
Eini hugsanlegi grundvöllur fyrir að dæma okkur í óhag, eru neyðarlögin.
Þ.e. engin lagalegur grundvöllur annar, á grundvelli ESB laga.
Þannig séð, er hægt einfaldlega að afnema þann gerning, sem framkvæmdur var með neyðarlögunum. Dálítið harkaleg aðgerð, en hún myndi einnig binda enda á fjölmörg einkamál í býgerð gegn ísl. stj.v.
Vandinn, er að sjálfsögðu sá, að þá þarf að stofna um leið, nýja(n) banka frá grunni, og einnig, allar innistæður í núverandi bönkum, yrðu verðlausar.
En, slíka hrossalækningu, er samt hægt að framkvæma, í algerri neyð.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 29.8.2009 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.