Þinghúsbréf 15 - ESB

Þingvikan hefur verið mjög sérstök, fyrstu þrír dagarnir fóru í nefndarfundi í Efnahags- og skattanefnd og Fjárlaganefnd frá morgni og fram á kvöld þar sem ICESAVE málið var á dagskrá.  ICESAVE málið er mjög umfangsmikið og þarfnast sérstakrar bloggfærslu þó í stuttu máli megi segja að nánast allar upplýsingar sem fram hafa komið um það sýna að það er algerlega óásættanlegt.

ESB málið var svo á dagskrá í Utanríkismálanefnd sem lagði mikið kapp á að klára nefndarálitið, svo mikið kapp að ekki náðist samstaða um það og meira að segja fulltrúi VG í nefndinni samþykkti það ekki nema með fyrirvara.  Fulltrúi Borgarahreyfingarinnar hún Birgitta var beðin að vera með á álitinu án þess að hafa fengið tíma til að lesa það.  Hún hafnaði því að sjálfsögðu og samþykkti það með fyrirvara. Mér finnst sjálfum alveg með ólíkindum að nefnd sem hefur fundað í sex vikur um málið og fengið til sín fjölda gesta skuli ekki gefa sér tíma til að setjast niður, þó ekki væri nema hluta úr degi og fara kyrfilega yfir nefndarálitið í sameiningu.  Það eru ekki einungis góð og sjálfsögð vinnubrögð heldur er það sjálfsögð sanngirni og virðing við alla nefndarmenn.  Þess má þó geta að nefndarmenn bera allir formanni Utanríkismálanefndar Árna Þór Sigurðssyni mjög vel söguna og segja að hann hafi leitt starfið af vandvirkni og sanngirni.

Borgarahreyfingin hafði sett fram þrjú skilyrði fyrir stuðningi við málið, öll sem varða lýðræðislega og vandaða afgreiðslu málsins og hlut þau öll framgang í nefndarálitinu.  Þar er mikilvægust afstaða okkar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og þar fengum við nánast orðrétt tekinn inn textann úr frumvarpi okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem er til umfjöllunar í Allsherjarnefnd.  Í þessu sambandi var samstarfið við Samfylkinguna og VG mjög gott þó vissulega hefði það e.t.v. mátt vera með minni gassagangi en raun varð á vegna asa þeirra við að koma álitinu út úr nefndinni fyrir einhvern ákveðin tíma.

ESB málið var svo tekið á dagskrá eftir hádegishlé og var umræða til miðnættis og hélt svo áfram á laugardag.  Gefið var leyfi fyrir tvöföldum ræðutíma þannig að viðbúið er að umræðan haldi áfram á mánudag og jafnvel þriðjudag.  Ég og Birgitta settum okkur á mælendaskrá, Birgitta fyrst vegna stöðu hennar sem formanns þinghópsins en svo skiptum við um slott þannig að ég náði að tala síðdegis í gær, þó nánast óundirbúið væri vegna tímaskorts.  Ég fékk tvö s.k. andsvör frá Björgvini G. Sigurðsyni og Pétri H. Blöndal sem var með all einkennilegan málflutning en afstaða hans til Borgarhreyfingarinnar er oft furðuleg og er eins og hann skilji bara alls ekki hvers vegna við erum á þingi.  En hvað um það, hér er ræðan og andsvörin.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T155655&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T160446&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T160701&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T160902&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T161107&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T161310&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T161526&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T161526&horfa=1

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090710T161621&horfa=1

Athyglisvert verður svo að sjá atganginn við atkvæðagreiðsluna þegar höfð er í huga framganga Ásmundar Einars Daðasonar þingmanns VG og hugrekki hans.  Heill þér Ásmundur Einar aftur.

Á laugardag flutti svo Birgitta sína ræðu sem vakið hefur talsverða athygli þar sem hún er komin í samviskuþröng vegna ESB málsins.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090711T133348&end=20090711T150219&horfa=1 

Vissulega gerir þetta frekar lítið úr samkomulagi Borgarahreyfingarinnar við ríkisstjórnarflokkana um að veita málinu framgang þótt þrjú okkar muni vissulega gera það.  Afstaða Birgittu, eða réttara sagt afstöðuleysi því hún segist enn ekki ákveðin í að segja nei, vekur hins vegar upp þá grundvallar spurningu um að breyta gegn samvisku sinni.  Það má deila um hvort áhyggjur hennar af aðildarumsóknarferlinu séu réttmætar, en engu að síður eru þetta hennar áhyggjur og þær þarf að virða.  Eins og ég minntist á hér í fyrri færslunni þar sem ég vitnaði í Keynes:

"Þegar ég hef rangt fyrir mér þá skipti ég um skoðun.  Hvað gerir þú?"

Hún fer vel yfir þess angist sína á blogg síðunni sinni og ættu áhugasamir að kynna sér henar hlið.

http://birgitta.blog.is/blog/birgitta/entry/912137/

http://birgitta.blog.is/blog/birgitta/entry/912388/

Persónulega tel ég hins vegar að allt tal um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn sé einfaldlega aðferð til að drepa málinu á dreif.  Rifist yrði endalaust um orðalag slíkrar spurningar og hugsanlega skilyrði eða kvaðir sem þyrftu að fylgja umsókninni og málið næði sennilega aldrei á enda.  Eina leiðin til að fá vitræna niðurstöðu í hugsanlega aðild að ESB er fyrir almenning að skoða gerðan aðildar samning og reyna að meta hvort hann sé til góðs fyrir þjóðina.  Ef rétt er á málum haldið þá verður það afgreitt í sátt allrar þjóðarinnar, hvernig sem fer.  Ég mun því styðja þingsályktunar tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þór, aðildarviðræður snúast um það hvernig umsóknarríkið ætlar að taka upp lög og reglur Evrópusambandsins. Ef að þú hefur fylgst með íslenskum stjórnmálum upp á síðkastið gerir þú þér væntanlega grein fyrir að þjóðin hefur ekki áhuga á inngöngu. Samt ætlar þú að greiða atkvæði með þingsályktun um aðildarumsókn og vera þannig valdur að því að stjórnkerfið undirbýr sig að taka upp lög og reglur ESB - en þjóðin vill ekki í félagsskapinn. Hvaða hagsmuni berð þú fyrir brjósti, Þór?

Páll Vilhjálmsson, 13.7.2009 kl. 00:12

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Þór, mikið ROSALEGA ertu með and-þjóðleg viðhorf eins og kratar og kommar og veldur ÍSLENZKRI ÞJÓÐ MIKLUM VONBRIGÐUM!!!!!!!!!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.7.2009 kl. 00:30

3 identicon

Þú ert ekki þjóðin, Guðmundur Jónas. Þór Saari hefur sýnt mér að hann er þess trausts, sem honum var sýnt í kosningum, verður. Ferskur og mikilvægur blær í gamaldags stofnun.

Baldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 00:44

4 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Meiriháttar ferskleikinn að vilja  STÓRSKERÐA VÖLD ALÞINGIS ÍSLENDINGA með því að vilja innlimast í Stórríki Evrópu, ESB, Baldur!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.7.2009 kl. 00:53

5 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Alveg á sama hátt og ég styð Birgittu í hennar afstöðu þá virði ég þína. Þó mér þyki málið vont og illa tímasett.

Kv.

Ólafur Eiríksson, 13.7.2009 kl. 01:39

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þar sem ég er á móti aðild að ESB, styð ég Birgittu.  Ég vil sjá tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, kostnaður við aðildarviðræðurnar er sagður u.þ.b 1 milljarður.  Þjóðaratkvæðagreiðsla gæti sparað okkur nokkur hundruð milljónir, sérstaklega ef kosið yrði rafrænt í gegn um heimabanka eða skattasíðuna.  Flestir hafa aðgang að banka og skatti, hinri gæti kosið á næsta bókasafni með veflykli sem sendur væri í pósti.   Ekki flókið að mínu mati. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2009 kl. 01:40

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

"hinir gætu" kosið á næsta bókasafni átti að standa í siðustu athugasemd. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2009 kl. 01:42

8 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Ég er algjörlega sammála þinni greiningu á þessum þjóðaratvæðagreiðslum. Atkvæðagreiðsla um hvort við eigum að sækja um skilar okkur engu í umræðunni. Umræðan myndi halda áfram, kannske eftir nokkurt hlé, á nákvæmlega sama planinu og hún er nú. Sem sagt endalausar og ósannaðar fullyrðingar á víxl. Það bara gengur ekki.

Mér er hinsvegar ómögulegt að skilja rökfærsluna hennar Birgittu!

Guðl. Gauti Jónsson, 13.7.2009 kl. 01:54

9 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Ég tók saman tvö gröf um fylgi aðildar og umsóknar og velti málinu fyrir mér í bloggfærslu.

Mér sýnist að þjóðin fái einn lýðræðislegan séns til að fjalla um það sem verður þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn og verði hann ásættanlegur má búast við nokkuð jöfnum fylkingum. Þetta mál mun örugglega rista mjög djúpt hér um langt árabil hver sem niðurstaðan verður. 

Ólafur Eiríksson, 13.7.2009 kl. 02:03

10 identicon

Birgitta er dauðhrædd við alla hluti og snýst eins og vingull. Það kallar hún einlægni og hreinskilni, ég kalla það kjarkleysi.

Mér finnst hún vera að misskilja hlutverk sitt í þinginu.

VV (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 10:29

11 identicon

Þarna er ekki alveg farið rétt með það sem Keynes sagði. Hann sagði "Ef staðreyndirnar breytast þá skipti ég um skoðun. Hvað gerir þú?" Hvaða ESB-staðreyndir ætli hafi breyst á nokkrum dögum?

SH (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 16:58

12 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæll Þór.

Því miður náði ég ekki að hitta þig í þinginu í dag, en ég mun halda áfram að reyna að ná tali af ykkur fulltrúum þjóðarinnar.

Mér hefur líka alltaf verið illa við þetta orðalag "aðildarviðræður" því eins og Birgitta komst að, og þjóðin er hægt og rólega að komast að líka, þá er ekkert í þessu ferli sem heitir "aðildarviðræður".  Þetta orðalag fór ekki að sjást fyrr en Samtök Iðnaðarins fóru að láta Capacent-Gallup gera fyrir sig skoðanamyndandi rað-skoðanakannanir.  Upp á enskuna heitir ferlið sem hefst eftir að aðildarumsókn hefur borist til ESB og þeir samþykkt "accession process" eða inngönguferli.  Rétt eins og Alaska gekk inn í B.N.A. (accession of Alaska).

Vonandi sjáumst við næstu daga.

Axel Þór Kolbeinsson, 13.7.2009 kl. 21:40

13 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Sæll Þór.

Ég reyndi að ná á þig á þingi í dag, þú varst upptekinn. Við náðum að ræða við Margréti ofl. Ég er á móti ESB aðild og samþykkt þessa skelfilega Icesave samnings. Ég skil ekki hvernig menn geta verið á móti Icesave en með ESB aðild. Einfaldlega vegna þess að ef Icesave verður felldur þá verður umsókn ekki móttekin, það veit Samfylkingin.

kv.

Sigurbjörn Svavarsson, 13.7.2009 kl. 22:52

14 identicon

"Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Stefna einangrunarsinnana einkennist af hræðslu við umheiminn og hræðslu við að treysta fólkinu í landinu og er í alla staði ólýðræðisleg. Sá fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis." - Þór Saari fyrir kosningar

Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 11:48

15 identicon

Þið komuð inn á þingin eins og ferskur andvari. Þinginu virðist hafa tekist að breyta ykkur. Þið eruð orðin eins og hin. Hrossakaup og þref um einstök og oft smærri atriði. Nýjasta útspil ykkar um að tengja saman tvö mál kórónar vitleysuna.

Reynið nú að fjarlægja ykkur aðeins frá ruglinu og skoða í hvað þið eruð að breytast.

Magnús Waage (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 19:18

16 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Hvernig getur það staðist Þór Saari að hópur fólks sem að kallar sig þingflokk(það er þið fjögur) ætlið að fara að ráða úrslitum um Evrópusambandsaðild? Þið kallið á aukið lýðræði á þingi. Hvaða andskotans lýðræði er í því að úrslitin ráðist á atkvæðum fjögurra manna þingflokks. Snýst ekki lýðræði um að meirihlutinn ráði? Það að fjórar manneskjur á þingi skuli selja sannfæringu sína á svipaðan hátt og kona selur blíðu sína er ekki lýðræði. Ég ræð þér heilt að ef að þú vilt lýðræðislega afgreiðslu á þessu máli þá situr þú sem og aðrir í Borgarahreyfingunni hjá við afgreiðslu málsins á morgun. Gerir þú það ekki mátt þú og aðrir fulltrúar hennar hafa ævarandi skömm fyrir. Það er ekki lýðræði að standa í hrossakaupum, það er ekki lýðræði að selja atkvæðin sín í einu máli til þess að fjögurra manna þingflokkur hafi stórvægilegar breytingar á öðru máli. Það stenst ekki að það sé lýðræði að fjögurra manna þingflokkur geti haft meiri áhrif en stærri þingflokkar bara af því að þau selja atkvæðin sín.

Það að ganga í aðildarviðræður, viðræður sem að eru bindandi, án þess að ráðgast við þjóðina er heldur ekki lýðræði. Mesta lýðræðið væri auðvitað að þjóðin fái að kjósa sem oftast. Að sjálfsögðu á að kjósa um málið, kynna þjóðinni það ýtarlega áður og fá vel ígrundaða og vel kynnta afstöðu þjóðarinnar áður en viðræður eru hafnar. Annað er í algerri andstöðu við það lýðræði sem að þið í fjögurra manna þingflokki eruð að predika um.

Jóhann Pétur Pétursson, 15.7.2009 kl. 22:16

17 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

í dag 16. júlí gerðist sá sorglegi atburður að þingmenn Borgarahreifingar seldu sannfæringu sína í hrossakaupum fyrir annað mál og greiddu atkvæði sitt samkvæmt þeim hrossakaupasamningi í stað samvisku sinnar.

þetta var ekki það sem ég hélt mig vera að kjósa í vor. ég hef viðurstyggð á flokkadráttum. þetta er hreinn flokkadráttur og því lýsi ég yfir að þrátt fyrir atkvæði mitt, er Borgarahreyfingin ekki lengur málsvari  minn á Alþingi.

Mjög sorglegt.

Brjánn Guðjónsson, 16.7.2009 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband