4.6.2009 | 23:28
Þinghúsbréf 7
Áhugaverður dagur þar sem fjölbreytileikinn var í fyrirrúmi. Byrjuðum á fundi í fjárlaganefnd þar sem fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins komu og kynntu samdráttar- og niðurskurðar aðgerðir sem gripið hefur verið til, en þetta er vand með farinn málaflokkur þar sem hagsmunir landsbyggðarinnar eru sérstaklega viðkvæmir og heilsugæslustöðva hvers byggðalags er gætt vel. Þó eimdi einnig af gamalkunnum hrepparíg en hér er einnig um mikilvæg störf að ræða fyrir hvert byggðalag og blóðtaka fyrir þau ef um miklar sameiningar er að ræða.
Þingfundur byrjaði á umræðum um störf þingsins en þar mega þingmenn spyrja hvern annan eða þingið um hvað eina eða koma með tilkynningar og yfirlýsingar. Ég tók til máls og fjallaði um upplifun mína af verklagi og skipulagi þingsins og var all ómyrkur í máli en undanfarna daga hafa fjölmargir þingmenn kvartað sáran yfir skipulagsleysi á þing- og nefndarstörfum. Í framhaldi af umræðunni átti ég fund með ÁRJ forseta Alþingis og áréttaði málið. Hún tók vel í það að bera málið upp á næsta fundi Forsætisnefndar, en sú nefnd hefur með stjórn þinghaldsins að gera. Það er einnig að fara í gang vinna í hópi sem allir þingflokkar eiga fulltrúa í sem á að athuga með hvaða hætti er hægt að gera þingið að fjölskylduvænni vinnustað, en eins og staðan er í dag er nánast ómögulegt fyrir fjölskyldufólk að eiga sæti á þingi svo vel sé. Vonandi kemur eitthvað út úr þessu því með áframhaldandi skipulagsleysi eykst einfaldlega hættan á brogaðri lagasetningu.
Eftir hádegið var tekin fyrir þingsályktunartillaga frá Framsóknarmönnum um 20% niðurfellingu höfuðstóls skulda einstaklinga og fyrirtækja. Tillagan fór mjög þversum í Samfylkinguna sem m.a. hélt því fram að þýskir kröfuhafar horfðu á sjónvarp frá Alþingi og hver tillaga í þessum dúr seinkaði til muna möguleikunum á samningum við kröfuhafana. Umræðurnar voru all skondnar á köflum en Framsóknarmenn gengu vasklega fram þó hart væri að þeim saumað af SJS og Pétri Blöndal. Fyrir mér virtist þetta allt saman vera byggt á misskilningi, viljandi eða ekki, þar sem alhæfingar forsætisráðherra frá deginum áður sem og skilningur SJS virðist ekki ganga upp. Árni Páll félagsmálaráðherra vakti nokkra undrun með málflutningi sínum og mönnum virtist sem skjólstæðingar Félagsmálaráðuneytisins muni ekki þurfa að kemba hærurnar næstu árin. SDG hafði m.a. á orði að skipan hans í embætti félagsmálaráðherra sýndi svo ekki væri um villst að forsætisráðherra væri mikill húmoristi.
Ég tjáði mig aðeins um málið út frá stefnu Borgarhreyfingarinnar og í lokin var hvatt til meiri þverpólitískrar samstöðu um samræmdar almennar aðgerðir til varnar heimilunum. Ég er að vísu frekar svartsýnn á að það muni verða, því við völd er par með samanlagt nærri 60 ára þingsetu sem er að mér virðist, alla vega Samfylkingarmegin, kyrfilega fast í gömlu hjólfarapólitíkinni sem hafnar öllum rökum annarra fyrirfram vegna þess einfaldlega að þau koma frá einhverjum meintum "andstæðingum". Vissulega höfum við ekki efni á því í dag en svona er veruleikinn (eða firringin) á þessu þingi.
Hér má svo sjá innleg mitt í óreiðuna og í tillögu Framsóknar.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090604T103630&horfa=1
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090604T163937&horfa=1
Góðar stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Facebook
Athugasemdir
Flott hjá þér Þór að leyfa okkur að fylgjast svona vel með. Haltu áfram góðu baráttunni. "Hjólfarapólitík" er orð sem þú skalt halda áfram að nota :)
Guðmundur St Ragnarsson, 4.6.2009 kl. 23:45
Takk fyrir.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.6.2009 kl. 00:25
Takk fyrir mig. Ræðan þín um niðurfærslu vísitölunnar var alveg frábær.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.6.2009 kl. 01:21
Sammála öðrum athugasemdum hér. Ég hlustaði á ræðuna og fannst hún mjög góð. Mæli þó með því að þú notir síður orðið "verðbólgukúfur" um þær hamfarir sem ríða yfir efnahag almennings. Þetta orð var mikið notað af vini vorum Geir Haarde og var eflaust fundið upp til að gera lítið úr vandanum.
Sigurður Hrellir, 5.6.2009 kl. 01:33
Sæll Þór, þú segir „og var all ómyrkur í máli“ en átt líklega við „ekki ómyrkur“ sem er tvöföld neitun „ekki“ og „ó“ sem merkir þá að vera myrkur í máli. Þegr þú hinsvegar segir „all ómyrkur“ merkir það að vera bjartur í máli. Þ.e. ómyrkur er bjartur en „ekki ómyrkur“ er dimmur.
Einhverra hluta vegna erum við Íslendingar í talsverðum mæli að missa tengingun við þetta orðalag og snúm því þá við eins og þú gerir hér en þá breytist það sem merkir að var dimmur í máli þ.e. „ekki ómyrkur“ í að vera bjartur þ.e. bara „ómyrkur„.
HH (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 11:24
Líklega er ég bara að rugla Þór, „ómyrkur“ í þessari merkingu er þá bara hispuslaus eða skýr.
HH (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 11:43
,,Þó eimdi einnig af gamalkunnum hrepparíg en hér er einnig um mikilvæg störf að ræða fyrir hvert byggðalag og blóðtaka fyrir þau ef um miklar sameiningar er að ræða.
Mig langar að koma því á framfæri Þór og aðrir 101 kaffihúsafastagestir, að víðast úti á landi þar sem einhverskonar sameiningar hafa farið Fram hafa stærri sveitafélögin valtað yfir þau minni, svo fólk þarf ekki að vera hissa á því að við reynum að verja "okkar" eins og t.d. heilsugæsluna og skólanna og víða er með "hagræðingu"einungis verið að skerða þjónustuna verulega og ekki síður þá er verið að færa reksturinn yfir á heimilin því að oftar en ekki lengjast vegalengdir neytandanns við "hagræðingu".
Það sem ég er að reyna að segja er að "hagræðing" er ekki endilega einföld aðgerð.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.6.2009 kl. 16:48
Góð frammistaða í kastljósinu áðan Þór. Þetta er með því betra sem hefur heyrst lengi.
Það væri áhugavert að vita afstöðu flokksins sem þú ert í forsvari fyrir, hvort þið ætlið ykkur að ganga þessa ESB göngu með samfylkingunni alla leið, eða hvort þið séuð farin að sjá hvaða verði eigi að kaupa aðildina?
Eru ekki líkur á að þessi aðildartillaga verði felld í þinginu? Væri það ekki hreinlegast? Þá þarf ekkert að eyða meiri tíma í þetta og fólk getur bara farið að einhenda sér í að finna leiðir til að skera niður um þessa 30 milljarða sem þarf að skera niður um næstu mánuðina, og svo þessa auka 50 milljarða á næsta ári? Hvernig og hvort þetta sé hægt.
Annars var þessi hugmynd hjá þér að fá bresku ríkisstjórnina í lið með íslendingum og leita þessa peninga uppi sem "gufuðu" upp í "góðærinu". Það eru mörg dæmi þess að þjóðir hafi leitað á náðir Breta. Pólverjar fengu t.d. M5 leyniþjónustu Breta til liðs við sig þegar mafíustarfsemi var að gera vart við sig í Póllandi. Það er m.a. ástæða þess að Pólverjar eiga ekki í eins miklum vandræðum með mafíustarfsemi og flest öll ríki gömlu A-Evrópu kommunistaríkja Sovét.
Þessir peningar hljóta að liggja einhvers staðar. Líklega verður ekki hægt að endurheimta þetta allt saman, en það hreinlega hlýtur að vera hægt að ná inn meiru en gert hefur verið fram til þessa.
joi (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 20:43
Sammála jóa, en mér líkar ekki þetta pukur með samninginn.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.6.2009 kl. 21:13
Sæll, takk fyrir að færa þetta til okkar...........haltu því endilega áfram ef þú hefur tök á því.
Sigurður Steinþórsson (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 22:37
Sæll Þór.
Takk fyrir fréttabréfin þín frá Alþingi. Þau eru mikil framför frá því sem áður var. Langar samt að biðja þig að gera mér (og kannski fleiri lesendum þínum) þann greiða að nefna samþingmenn þína með nafni en ekki skammstöfun. Ég veit að vísu hver ÁRJ er, en þarf þó stutta umhugsun. Ýmsum öðrum skammstöfunum gæti ég þurft að fletta upp á vef þingsins.
En þetta sýnir kannski hversu fljótlegt er að falla í gryfjuna. Þú byrjar á að nota skammstafanir sem notaðar eru í þinginu. Næst finnst þér svo ekkert sjálfsagðara en að lesa trúnaðarskjöl og lofa að steinhalda kjafti - og þá fer að styttast í að þú verðir samsekur öllum þeim sem þú ætlaðir sko alls ekki að verða samsekur.
Annars óska ég ykkur öllum til hamingju með þingsætin. Haldið áfram að rífa kjaft, en gerið það endilega á skiljanlegu máli. Ekki læra hina óskiljanlegu mállýsku"kammerráðherrakjaftæði."
Jón Daníelsson, 5.6.2009 kl. 22:50
Halldór Jónsson skrifaði um það fyrr í dag að fá hjálp Breta við að finna peningana og það hafði heyrst fyrr.
http://halldorjonsson.blog.is/blog/halldorjonsson/entry/891002/
JJ (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 23:55
Takk kærlega fyrir fróðleg og skemmtileg þingtíðindi. Mér finnst pistlarnir þínir gefa góða innsýn í þingið. Ég verð samt að viðurkenna að varð að hafa mig allan við til að finna út fyrir hvað skammstafnarnar standa og það tekur þig skemmri tíma að slá inn nafninu en fyrir menn eins og mig sem eru seinir að hugsa að átta sig á við hver er átt.
Sigurður Þórðarson, 6.6.2009 kl. 01:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.