Þinghúsbréf 4

Nýja vinnan er smám saman að lærast.  Föstudagurinn þegar almennt eru ekki haldnir þingfundir fór í ríflega fimm tíma fund í Efnahags- og skattanefnd þar sem verið var að ræða frumvarp fjármálaráðherra um eignaumsýslufélag ríkisins sem á að sjá um að ráða fram úr þeim vanda sem skapast þegar ríkið er orðið eigandi að fjölda fyrirtækja gegnum eign sína á bönkunum.

Um tuttugu manns komu fyrir nefndina og gáfu álit sitt á frumvarpinu, menn og konur úr bankageiranum, stjórnsýslunni, hagsmunasamtökum og einstaklingar með sérþekkingu á viðfangsefninu.  Ekki var að heyra á þeim að hér hefði orðið algert efnahagshrun og að stjórnsýslan sem í hlut átti hafði brugðist heldur vildu flestir halda áfram á sömu braut eins og ekkert hefði í skorist og efuðust ekki mínútu um eigið ágæti og hæfileika til að koma málunum í lag aftur. Þeir einu sem virtust með fæturnar á jörðinni voru forstjóri FME, fulltrúi Seðlabankans og svo Mats Josefsson og annar einstaklingur sem var þar á eigin vegum.

Athyglisvert var hins vegar að sjá að nálgun nefndarinnar var ekki á flokkspólitískum línum heldur algerlega faglegum (enda fjórir hagfræðingar í nefndinni) og var nefndarmönnum mikið í mun að fá faglega rétta niðurstöðu í málið.  Eftir rúmlega fimm tíma fund var ákveðið að vinna úr niðurstöðunum fram að næsta fundi.

Í dag hófst vinnudagurinn í vinnuhópi forsætisráðuneytisins um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing.  Þetta eru allt saman mál sem liggja nærri hjarta Borgarahreyfingarinnar þar sem það má segja að fæðing hennar hafi verið í kröfum um meira og betra lýðræði.  Það er því ánægjulegt að geta komið beint að vinnunni við að búa til ný lög um þessi mikilvægu mál.

Í persónukjörsmálinu er Þorkell Helgason kosningaspesíalist par excellence yfirsmiður og hefur leitt okkur í alla króka og kima um mismunandi tegundir persónukjöra.  Eftir tvo fundi hefur enn ekki skapast sammæli um aðferð þó að í dag hafi menn meira hneigst í þá átt að það þyrfti að vera sama kerfið fyrir alla flokka, þ.e.a.s. flokkunum yrði ekki í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir vilja bjóða fram kjörseðilinn, raðaðan eða óraðaðan.  Þetta er einkennileg afstaða þar sem hér er einfaldlega verið að færa prófkjörin til alls almennings og ég veit ekki betur en það sé flokkunum algerlega í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir í dag haga sínu vali á framboðslistana.

Þjóðaratkvæðagreiðslumálið og stjórnlagaþingið eiga langt í langt til að geta talist alvöru lýðræðisumbætur, en vonandi tekst að koma að þeim sjónarmiðum sem þarf til að hér verði gerðar umbætur sem raunverulega gagnast og færa þjóðfélagið í lýðræðisátt þar sem almenningur hefur raunverulegt vald í fleiri ákvarðanatökum en nú er.

Síðan tók við fundur í forsætisnefnd, alvörugefin nefnd þar sem sjálf stjórn Alþingis er fundarefnið hverju sinni.  Setan þar, en hér hefur Borgarhreyfingin áheyrnarfulltrúa með tillögurétt, gefur góða innsýn í hefðir og venjur þingsins þar sem m.a. skipulag þingsins, titlatog, klæðaburður og vinnutími er ákveðinn.

Eftir hádegið var þinghópsfundur þar sem fyrirspurn Birgittu til forsætisráðherra sem og viðbrögð og athugasemdir fyrir þingfundinn síðdegis voru skipulagðar en þá átti forsætisráðherra að flytja munnlega skýrslu um horfur í efnahagsmálum.  Hér talaði ég í tíu mínútur, en Þráinn sem flutti hér sína jómfrúarræðu í fimm sem og Margrét.  Einnig flutti Lilja Mósesdóttir sína jómfrúarræðu en hún er félagi okkar úr grasótarstarfinu í s.k. Akademíuhóp sem í vetur sem leið hafði aðsetur í ReykjavíkurAkademíunni.  Lilja var ein þeirra sem reiða á vaðið og flutti skelegga ræðu á Austurvelli í vetur og braut ísinn fyrir marga fræðimenn sem á eftir komu, m.a. Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra.

Athyglisvert var að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem bað um skýrsluna en fljótlega hurfu þeir úr salnum og um tíma var enginn sjálfstæðismaður í salnum til að hlusta á umræður um skýrslu sem þeir höfðu sjálfir beðið um. Þingfundi var svo slitið um sjöleytið.

Hér eru svo framlög Borgarahreyfingarinnar til lýðræðisins í dag:

Athugasemdir mínar við störf ríkisstjórnarinnar

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T162543&horfa=1

jómfrúarræða Þráins

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T165646&horfa=1

framlag Margrétar

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T172016&horfa=1

fyrirspurn Birgittu

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090525T150827&horfa=1 

og ræða Lilju

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T164557&horfa=1

svo tekur við annar dagur á morgun sem hefst með fundi í Efnahags- og viðskiptanefnd kl. 10:00, fundi í Fjárlaganefnd kl. 12 og svo þingfundi kl. 13:30.  Ég er að verða þreyttur í kjálkaliðunum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég gerði mitt besta til að hlusta og skilja en mér heyrist Jóhanna bara tala annað tungumál...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.5.2009 kl. 22:31

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

... hina skildi ég bara mjög vel! Er það eitthvað í hausnum á mér sem veldur eða ... ?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.5.2009 kl. 22:47

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóhanna er ekki að vinna fyrir fólkið sem kaus hana á þing, það eitt er víst.  Hún er að gæta annarra hagsmuna.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.5.2009 kl. 23:36

4 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Hafa menn skoðað persónukjör eins og það er í Færeyjum, þeir tóku það víst upp fyrir nokkrum árum og hef ekki heyrt mikið kvartað undan því.

Jóhannes Birgir Jensson, 25.5.2009 kl. 23:43

5 Smámynd: Bogi Jónsson

Áfram Þór

Ég hef miklar væntingar til ykkar félaganna í Borgarahreyfingunni.

Þegar talað er nú um persónukjör þá lætur það sem falskur tónn í mín eyru. Persónukjör hefur verið í mínum huga aðgerð þar sem hægt er að kjósa persónur til alþingis eða sveitastjórnar óháð stjórnmálaflokks innlimun, í dag er búið að eigna orðinu "persónukjör" þeirri aðgerð sem hugsanlega verður notuð við innanflokks listaröðun.

ég óska ykkur Borgarahreyfingarhóps farsældar.

Bogi Jónsson, 25.5.2009 kl. 23:44

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk Þór að halda okkur upplýstum um störf hins leyndarhjúpaða og furðulega alþingi. Haltu áfram.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 26.5.2009 kl. 01:35

7 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

"Hef aldrei heyrt að það sé skilyrði" -- svaraði loksins forsætisráðherra fyrirspurninni hvort icesafe-greiðslur Íslendinga séu skilyrði fyrir aðild í Evrópusambandið. Þetta var snubbótt svar og gæti þýtt að hæstvirt hefði ekki heyrt það, bara lesið!

Margrét Sigurðardóttir, 26.5.2009 kl. 06:53

8 identicon

Þakka þér fyrir Þór að setja þetta hér inn, það er vel metið af þeim sem staddir eru erlendis með mjög takmarkaða samskiptamöguleika.

Ræða þín var beitt og skýr, sett fram á mannamáli sem allir ættu að skilja, vona að sem flestir geri sér grein fyrir meiningunni sem krefst talsverðrar íhugunar. Fyrirspurn Birgittu var þörf en svörin voru nánast engin, eitthvað loðið um icesave og nákvæmlega ekkert um Landsvirkjun. Þessi ríkisstjórn þarf á miklu aðhaldi að halda. Efasemdir mínar um JS og hennar ríkisstjórn aukast dag frá degi.

Þið eruð á réttri leið en mér sýnist að við stuðningsfólkið þurfum að sýna hóf í kröfugerðinni, þið ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

sigurvin (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 08:04

9 identicon

Sæll Þór og takk fyrir!

Mér finnst þinghópurinn standa sig vel í pontu!

Það er auðvitað óþolandi að forsætisráðherra svari ekki skýrt fyrirspurnum sem eru mjög skýrar.Eins er það augljóst að jöklabréfaruglið þarfnast meiri umfjöllunar.

Hörður Ingvaldsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 09:29

10 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þið standið ykkur vel og eruð góð í að láta okkur vita hvað þið eruð að gera sem skiptir miklu. 

Smá leiðrétting: Ræða Lilju er góð og margir vildu hana kveðið hafa en Lilja er nú samt í VG og ekki Borgarahreyfingunni :-P

Héðinn Björnsson, 26.5.2009 kl. 10:34

11 identicon

Frábært að sjá hvað þið vinnið vel. Þvílíkur munur að fá að fylgjast almennilega með hvað er um að vera hér á blogginu þínu :o)

Maríanna (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 10:37

12 identicon

Bravó! Frábært að fá svona góða innsýn í þingstörfin.

Hugi (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 13:57

13 identicon

Þurfið þið í flokknum ekki eitthvað að endurskoða afstöðu ykkar til ESB?

Óskar (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 17:16

14 identicon

Getið þið ekki lagt fram frumvörp á alþinigi, sem snúast um að afnema verðtrygginguna, og kvótakerfin, bæði í landbúnaði og fiskveiðum? Þ.e.a.s. þegar þið eruð búin að læra hvernig það gengur fyrir sig

Óskar (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 17:19

15 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Forza Borgarahreyfingin - við TREYSTUM ykkur til GÓÐRA verka..!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 26.5.2009 kl. 19:13

16 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Jóhanna svaraði aldrei spurningu Birgittu um Landsvirkjun. skyldi það tákna eitthvað?

þakka þér og ykkur í Borgó enn og aftur fyrir að halda úti upplýstri umræðu um dagleg störf innan þingsins.

Brjánn Guðjónsson, 26.5.2009 kl. 20:09

17 Smámynd: Þór Saari

Þakka öllum fyrir stuðninginn. Hvað varðar spurningar Óskars þá settum við fram þrjý skilyrði fyrir stuðningi okkar við ESB tillöguna og er ekki að sjá á þessu stigi að þeim hafi verið mætt. Hvað varðar frumvörp þá erum við meðflutningsmenn með frumvarpi Lilju Mósesdóttur um breytingar á lögum um samningsveð. Þær breytingar koma í veg fyrir að lánveitandi geti krafist meira af lántaka en sem nemur veðinu sem lagt er til tryggingar, þ.e. ef eiginfjárstaðan er orðin neikvæð og íbúðin dugir ekki fyrri skuldunum þá má krafan frá kröfuhafa ekki vera hærri en sem nemur veðinu sem þýðir að það er ekki hægt að gera kröfu í aðrar eignir skuldara. Að auki mun krafan falla niður ef andvirði veðsins næst ekki, þ.e.a.s. fólk lendir ekki á vanskilaskrá með afganginn.

Hvað varðar frumvarp um afnám verðtryggingar þá er það svo að við upphaf nýs þings þann 1. okt. næstkomandi þá falla öll óafgreidd þingmál niður og verður að byrja með þau upp á nýtt. Við höfum metið það svo að frumvarp um afnám verðtryggingar næði ekki afgreiðslu á sumarþinginu þar sem vinna við slíkt frumvarp tekur langan tíma og erum því að safna liði í öðrum flokkum sem og þekkingu til að geta lagt til atlögu við verðtryggingarskrímslið í haust.

Þór Saari, 26.5.2009 kl. 20:18

18 identicon

Voandi hefur Þorkell farið yfir kerfið sem notað er á Írlandi.

Þá má einnig benda á að óhlutbundin kosning er hið ítrasta sem hægt er að komast í persónukjöri - og viti menn - jú það þarf ekki að breyta kosningalögum fyrir sveitarstjórnarkosningar til þess.  Aðalvandamálið við óhlutbundna kosningu fyrir flokkana er sú að þeir koma þar hvergi nærri.  ...eehhmmmm freistandi ekki satt??

TM (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 20:39

19 identicon

Það er hreint óborganlegt að sjá Jóhönnu flokka pappírana sína undir ræðu Þráins.

Enda var sú ræða ekki rismikil, hann bað um stórkostlegar lausnir...veit þingmaðurinn ekki að þær eru ekki til?

AM (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 21:10

20 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir þennan pistil, Þór. Hann er mjög góður.

Billi bilaði, 26.5.2009 kl. 22:17

21 identicon

Þór, ég er alltaf að bíða eftir þessari virku stjórnarandstöðu sem að þið boðuðuð fyrir kosningar. Ég er einnig að bíða eftir að þið farið aftur að tala um ESB eins og þið gerðuð fyrir kosningar. Ég skil vel að þú skulir vera orðinn þreyttur í kjálkaliðunum, en þá er bara um að gera, að fara að láta hendur standa fram úr höndum og hætta þessu blaðri. En úr því að aðaláhyggjumálið þitt skuli hafa verið Sjálfstæðisflokkurinn skyldi ekki hafa verið á staðnum, þá skýrir það ýmislegt.

Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 22:25

22 identicon

Sæll Þór

Mér lýst vel á þig sem þingmann og treysti á að þú dettir í sama farið og aðrir. Vertu gagnrýninn og það var forvitnilegt að heyra af þessum fundi í dag. Ég hef einmitt sömu tilfinningu að ekki hafi allir áttað sig á hinu nýja umhverfi.

Örn (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 23:53

23 identicon

sæll vertu þór gamli félagi það er frábært að sjá og heira frá þér og til hamingju með að vera orðinn þingmaður og takk fyrir þessa innsýn inná alþingi baráttukveðjur frá suðurnesjum.

Gestur þorláksson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 02:05

24 identicon

Sæll Þór,

mig langar til að spyrja þig hver afstaða Borgahreyfingarinnar er til Icesave.

Ég lít svo á, að vegna þess að Landsbankinn var einkafyrirtæki, sé það bókstaflega út úr kú að íslenskur almenningur sé gerður ábyrgur fyrir skuldum bankans - þótt þær séu gígantískar og raunar líka einmitt þess vegna. Við,  þessir örfáu landsmenn, höfum víst hvort sem er ekki bolmagn til að standa skil á þeim (til viðbótar öllum öðrum skuldum þjóðarbúsins); nema stjórnvöld hneppi okkur hreinlega í ánauð. Það virðist samt vera blákaldur raunveruleikinn. Getur þetta staðist stjórnaskrá - eða hvar segir, að ef einstaklingur/fyrirtæki fer á hausinn, eigi allir hinir að greiða upp skuldir hans/þess?

Fyrir kosningar, þ.e.a.s. á meðan Vinstri grænir voru í stjórnarandstöðu, lýsti Steingrímur J. Sigfússon yfir fullkominni andstöðu við lán frá IMF eins og menn muna. Út á þetta viðhorf fékk flokkurinn atkvæði mitt í síðustu kosningum. Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn og látið að því liggja að þetta sé búið og gert og ekkert við því að gera. Þetta er þvílíkt dugleysi og tragedía fyrir þjóðina að mann setur hljóðan. Eiga börnin okkar semsé að erfa skuldir auðmannanna og vinna uppí þær um aldur og ævi?

Hver er afstaða Borgarahreyfingarinnar til IMF lánsins?

Mig langar til að leggja það til við þig, Þór, sem talsmanns lýðræðisumbóta á Íslandi, að þú beinir þeim tilmælum til stjórnarinnar, - sem hefur tekið þann pól í hæðina og sammælst um að leggja stór mál í dóm þjóðarinnar, m.a. um aðildarviðræður við ESB - að þetta STÓRMÁL, skuldirnar vegna Icesave, verði bornar undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Vilja Íslendingar taka á sig að borga fyrir sukkið sem nokkrir bankaeigendur ástunduðu (og gera víst enn) eða álítur fólk að þeim beri sjálfum að standa skil gjörða sinna.

Þetta má ALDREI vera með þessum níðingshætti  -  valdboð að ofan, sem skikkar alþýðuna og afkomendur hennar í skuldafangelsi. Eðlilegra væri að spyrja landsmenn sjálfa.

Mig langar til að spyrja þig um þina skoðun, Þór: Hvað finnst þér?

Bestu kv.

Guðrún Th.

Guðrún Th. (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 04:05

25 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Sæll Þór ,þetta er nú í fyrsta skipti í langan,langan tíma sem ég fæ greinagóðar upplýsingar um hvað er raunverulega að gerast í alþingishúsinu, núna frá ykkur Birgittu. Lifi bloggið og þið!

María Kristjánsdóttir, 27.5.2009 kl. 07:36

26 identicon

Gilitrutt (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 03:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband