Jómfrúarræðan

Jæja gott fólk.  Þá er það búið, eitthvað sem maður gerir víst bara einu sinni á ævinni.  Geriði svo vel.  Hér eru bæði útsendingin og texti ræðu minnar.

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4468474/2009/05/18/

Borgarahreyfingin - þjóðin á þing

Þór Saari

Svar við stefnuræðu forsætiráðherra 18. maí 2009

Virðulegi forseti, ráðherrar, þingmenn, ágætu landsmenn.

Hér í kvöld höfum við nú heyrt stefnuræðu forsætisráðherra og fyrstu viðbrögð við henni.  Ríkisstjórnin hefur talað.  Fjórflokkurinn hefur talað.  Það hefur fátt breyst í íslenskum stjórnmálum.

Ef svo fer sem horfir þá má landsmönnum nú verða ljóst að heimilum landsins mun blæða út.  Athafnamönnum má nú verða ljóst að fyrirtækjunum mun blæða út.  Foreldrum má nú verða ljóst að skólaganga barna þeirra muni skerðast.  Vinnandi fólki má nú verða ljóst að kaupmáttur tekna þeirra mun skerðast enn meir.

Góðir landsmenn.

Það voru kosningar í apríl og í þeim kosningum kom Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, fjórum þingmönnum að á Alþingi íslendinga.  Við erum fimmti flokkurinn á þessu þingi.

Hér er á ferðinni heiðarleg tilraun fólks í þverpólitískri hreyfingu.  Fólks sem hefur það að markmiði að koma á raunverulegum lýðræðisumbótum á Íslandi, að grípa til aðgerða sem raunverulega gagnast heimilum og fyrirtækjum í landinu, og að rannsaka hvað raunverulega gerðist og varð til þess að nú upplifum við mestu efnahagsþrengingar sögunnar.

Sú tilhugsun að eftir allt sem á undan var gengið yrði hér enginn valkostur í boði í verðandi kosningum annar en fjórflokkurinn var óbærileg.  Því tókum við þátt.

Og nú höfum við heyrt, að loknum einum kosningunum enn, hvað þeir hafa fram að færa.

Í október síðastliðnum varð hér varð algert efnhagshrun, algert pólitískt hrun og algert siðferðishrun ráðandi afla.  Hér var við völd pólitísk yfirstétt sem hafði tapað öllum raunveruleikatengslum og hvers úrræði á fyrsta degi var að ákalla guð.  Guð blessi Ísland sagði þáverandi forsætisráðherra, hagfræðingurinn og einn af arkitektum þeirrar spilaborgar sem þá hrundi til grunna.

Amen sagði samstarfsflokkurinn sem þótt að mestu væri saklaus af byggingu spilaborgarinnar, hafði ákafur tekið að sér verktöku við lokafráganginn.

Amen sögðu líka flokkssystkin ráðamanna sem og stjórnsýslan sem flokkarnir höfðu ráðið sér og átti ekki síður stóran þátt í hruninu.  Það átti síðan að halda áfram eins og ekkert hafði í skorist.

Þeir valdhafar sem í upphafi árs 2008 vissu nákvæmlega hvert stefndi, blekktu þjóðina.  Þeir blekktu þjóðina fram á síðasta dag og gerðu sitt besta til að blekkja umheiminn líka.

Nágrannaþjóðir okkar mótmæltu og Ísland glataði trúverðugleika sínum með slíkum glæsibrag að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar var tekið af henni og fært undir yfirþjóðlega stofnun.

Þjóðin mótmælti líka, fyrst með semingi, en á endanum svo kröftuglega að svikastjórnin hrökklaðist frá.  Í allan vetur sem leið kom fólk saman hér fyrir utan þinghúsið og lýsti óánægju sinni með stefnu þáverandi forsætisráðherra og þáverandi ríkisstjórnar.  Kallað var eftir breytingum.  En þingheimur fór bara í frí.

Virðulegi forseti.

20. janúar síðastliðinn er nú skráður á spjöld Íslandssögunnar.  Þann dag varð hádegisverðarhlé þúsunda Íslendinga að mestu mótmælum í sögu þjóðarinnar.  Alþingi var umkringt af þeim "Skríl" og þeirri "Ekki-þjóð" sem valdhafar höfðu hrakyrt mánuðum saman og í hroka sínum reiknað með að léti hvað sem væri yfir sig ganga.

Valdhafarnir sem höfðu kollsteypt þjóðarskútunni ætluðu sér að fara sínu fram þegjandi og hljóðalaust án þess að almenningur skipti sér af.  Og hvað gerðu þeir svo valdhafarnir á þessum degi, þingmennirinir sem voru hér innan dyra, þeir ræddu fram og aftur sprúttsalafrumvarp Sjálfstæðisflokksins.  Af því það var á dagskrá eins og sagt er.

Hafi einhver efast um fjarlægð þingsins frá fólkinu og firringu þingmanna þá var þeim efa eytt þann dag.

Það vorum við sem tókum sprúttsalafrumvarpið af dagskrá þennan dag og settum almenning á dagskrá.  Í framhaldi af hótunum þáverandi dómsmálaráðherra um nánast stríð við almenning tókst svo kjarkmiklum félögum annars stjórnarflokksins að knýja fram stjórnarslit.

Við mótmæltum, og við unnum, til hamingju með það.

Ríkisstjórnin féll, það var boðið upp á kosningar og til varð Borgarahreyfingin.

Við áttum á brattan að sækja allan tímann og ráðandi öfl reyndu með lagaklækjum að koma í veg fyrir framboðið.  En við komumst alla leið og rödd okkar heyrist hér í kvöld.  Og sem betur fer.

Sem betur fer segi ég því sú stefnuræða sem hæstvirtur forsætisráðherra flutti okkur er því miður stefnulaus.  Þau úrræði sem almenningi er boðið upp á eru því miður gagnslaus.  Og hæstvirt ríkisstjórnin eins og hún leggur sig virðist því miður ráðalaus.

Ágætu landsmenn.

Hvað er hér í boði.  Förum yfir það.

Í kjölfar mesta efnhagshruns sögunnar þar sem nærri tuttugu þúsund manns eru atvinnulaus og þúsundir heimila eru á barmi gjaldþrots er heimilunum boðið upp á s.k. úrræði eins og það heitir í dag.

Eitt þessara úrræða er s.k. greiðslujöfnun.

Á mannamáli heitir greiðslujöfnun einfaldlega teygjulán með árangurslausum afborgunum, takið nú eftir, teygjulán með árangurslausum afborgunum þar sem skuldugum fjölskyldum býðst að greiða af lánum fram á elli árin og nota til þess eftirlaunin eða réttara sagt ellilífeyrinn því eftirlaunasjóðirninr eru víst að stórum hluta til farnir líka.  Jahá.

Annað úrræði er s.k. greiðsluaðlögun.  Þar fær skuldug fjölskyldan tilsjónarmann inn á heimilið sem fylgist með heimilisbókhaldinu í nokkur ár.  Í kjölfarið og að loknum afskriftum skulda er fjölskyldunni svo boðið að lenda á vanskilaskrá, í jafnvel áratugi.  Skuldirnar mega hins vegar aldrei fara undir 110% af matsvirði fasteignar fjölskyldunnar.  Jahá.

Og svo eru það vaxtabæturnar.

Hinar stórauknu vaxtabætur verða að meðaltali um 25 þúsund krónur á ári á hvert heimili, eða ríflega tvö þúsund krónur á mánuði.  Jahá.

Þetta, er einfaldlega gagnslaust.

Hér þarf meira að koma til.  Hér þarf róttæka skynsemi sem viðurkennir það að vísitölu- og gengishækkanirnar á íbúðalánum fólks eru óréttlátar og ósanngjarnar.

Þessar hækkanir þarf að leiðrétta og færa aftur til ársbyrjunar 2008 en þá var stjórnvöldum ljóst hvert stefndi og hefðu átt að láta almenning vita.  Þessar leiðréttingar myndu lækka höfuðstól íbúðalána um 20% sem er þó í raun ekki annað en leiðrétting á hækkun sem hefði hvort eð er ekki komið til ef stjórnvöld hefðu ekki brugðist við efnahagsstjórnina.

Í þessu máli mun Borgarahreyfingin leita eftir samstarfi við alla flokka á þingi um frumvarp sem leiðréttir þetta mál og sem að auki endanlega afnemur verðtryggingu fjárskuldbindinga.  Ekkert hefur farið ver með íslensk heimili og launafólk en verðtryggingin og allur pempíuháttur í kringum afnám hennar er fyrir löngu óþarfur.  Hér þarf einfaldlega að reyna að ná samningum við skuldareigendur um málið og ef það er ekki hægt þá verður að afnema þennan gallagrip einhliða.

Virðulegi forseti.

Annað meginmál efnahagsstjórnarinar sem ekki er tekið á með almannahag í huga er halli ríkissjóðs.  Hér ræður ferðinni stefna AGS hvers aðkoma að málum fjölmargra landa hefur ekki verið farsæl svo vægt sé til orða tekið.

Aðkoma AGS hér á landi byggist á því að nágrannalöndin neituðu að lána íslenskum stjórnvöldum fé.  Þau stjórnvöld eru sem betur fer ekki lengur til staðar nema að litlu leiti, þó að enn sé eftir að taka til í stjórnsýslunni.  Því er tímabært að leita aftur til nágrannaþjóða um aðstoð, með því loforði að hér verði gerð ærleg bót og betrun á öllum sviðum.

Þar ber í fyrsta lagi að rannsaka bankahrunið sem þá svikamyllu sem bankastarfsemin sannarlega sýnist hafa verið.  Sækja þarf til saka eigendur og stjórnendur fjármálastofnana og frysta eigur þeirra.

Rannsaka verður hvert allir þessir peningar fóru og fá þar til aðstoðar þar til bærar eftirlitsstofnanir í nágrannalöndum með því fororði að þeim peningum sem nást til baka verði skilað til réttmætra eigenda.

Það sem upp á vantar verði svo sótt beint til þeirra sem sök eiga á.  Hér er um að ræða hundruð milljarða sem m.a. runnu út úr Seðlabanka Íslands skömmu fyrir hrunið og hvers tap lendir beint á skattgreiðendum þessa lands.  Ætla stjórnvöld virkilega ekki að sækja þetta fé?

Ef hér er haldið rétt á spilunum má afþakka s.k. aðstoð AGS og færa hagstjórnina aftur til íslenskra stjórnvalda.

Og þar má sannarlega gera betur því sú ætlan ríkisstjórnarinnar sem stefnir að 170 milljarða niðurskurði á þremur árum gengur einfaldlega ekki upp.  Almenningur mun sligast undan lána- og skattbyrðinni, mennta- og heilbrigðiskerfið mun leggjast á hliðina og hér verður alvarlegur landflótti.

Í fáum orðum sagt, þetta er einfaldlega ekki hægt.

Virðulegi forseti.

Hvað varðar önnur mál í stefnuskrá og stefnuræðu þessarar ríkisstjórnar þá ber að sjálfsögðu að fagna því að ríkisstjórnin brýtur blað með framlagningu þingsályktunartillögu fyrir Alþingi um aðildar viðræður að ESB án þess að til staðar sé eindregin stuðningur allra stjórnarþingmanna við málið.  Hér er sannarlega verið að færa mál til betri vegar og efla bæði þingræðið og lýðræðið með þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem mun fara fram um samninginn.  Hér eru þrjú skilyrði Borgarahreyfingarinnar fyrir stuðningi öll í anda lýðræðis og upplýsingar og í anda þeirrar sannfæringar okkar að almenningi sé að sjálfsögðu fyllilega treystandi til að leggja mat á hvort ganga eigi í ESB.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokki og Framsókn líkar ekki þessi vinnubrögð og vilja því ekki vinna að framgangi málsins er fyrst og fremst til merkis um þeirra eigið skilningsleysi sem og langvarandi vantrú þeirra á almenningi í landinu. Hér eru hinir einu sönnu forsjárhyggjuflokkar á ferð.

Eins eru hér í skrá um fyrirhuguð þingmál aðrar brýnar lýðræðisumbætur sem við í Borgarahreyfingunni fögnum mjög.  Þó verðum við að setja fyrirvara við frumvarp um stjórnlagaþing sem samkvæmt þessu á að vera ráðgefandi.  Hér er mál þar sem brýnt er að þjóðin sjálf fái að ráða ferðinni og semji sér sína eigin stjórnarkrá.  Borgarahreyfingin á sínar sterkustu rætur í kröfunni um nýja stjórnarskrá sem samin er af fólkinu, og fyrir fólkið en ekki sem samin er af Alþingi og fyrir Alþingi.

Sérstakt fagnaðarefni er þingmál um afnám ábyrgðarmanna fyrir lánum frá LÍN, sem og þingmál um frjálsar handfæraveiðar.  Einnig eru hér nokkur nauðsynleg mál eins og fyrirhuguð frumvörp fjármálaráðherra.

Önnur þingmál á þessari dagskrá sýnast okkur hins vegar mega bíða, ekki síst þar sem við teljum brýnast að takast á við vanda heimilanna, fyrirtækjanna og skuldir ríkissjóðs.  Í þessi verkefni ber að nota vinnutíma sumarþingsins.

Vil ég ítreka það að í þessum þremur verkefnum duga hvorki vettlingatök né hefðbundnar aðferðir heldur verður að grípa til kjörorða Borgarhreyfingarinnar sem eru róttæk skynsemi.

Virðulegi forseti.

Vonir fólks um réttlæti, sanngirni og virðingu mega ekki hverfa.  Þessi ríkisstjórn og þetta þing ber ábyrgð á því.

Við þingmenn Borgarahreyfingarinnar erum ekki mörg en við erum hér í umboði 13.519 manna og kvenna, sum hver er stóðu með okkur hér á Austurvelli mánuðum saman.  Við munum tala máli þeirra hér úr þessum stól.  Ætíð.  Svo einfalt er það.

Við fórum út í október næðinginn og við gerðum byltingu, utandyra í íslenskum vetri.

Nú er komið vor og við erum komin inn á þing.

Hver hefði nokkurn tíma trúað því að þetta væri hægt.

 

---------------------------------------------------------------------


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ræða þín var skelegg og góð. eins og voru ræður þeirra Birgittu og Margrétar.

mjög gott start í umræðurnar á hinu nýkjörna þingi. nú bíð ég bara eftir Þráni og þá hef ég heyrt ykkur öll. efast samt ekki eitt augnablik um hans orðræðu fremur en ykkar sem talað hafið.

góð byrjun.

lifi Ísland!

Brjánn Guðjónsson, 18.5.2009 kl. 23:43

2 identicon

Þetta var glæsileg ræða hjá þér. Mjög góð og jarðbundin og laus við allt "morfísfets". Fannst líka ræða Sigmundar og Guðfríðar mjög góðar.

Nú er að fá svo aðgerðir fyrir heimilinn, senda IMF heim og opinbera hverjir eiga Jöklabréfin og leggja hald á þau með lögum um "að öryggi þjóðar er ógnað"  Það verður að fara að gera hluti hérna af alvöru. VIð þurfum kjark og áræðni inn í þingið og fá aftur sjálfstæði okkar.

Björg F (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 23:47

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Til hamingju með jómfrúarræðuna, mér sýnist hún vera alveg ágæt.  Ég nennti ekki að horfa á Eldhúsdagsþingfundinn. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.5.2009 kl. 23:55

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þér mæltizt vel & skörúngzlega...

Steingrímur Helgason, 19.5.2009 kl. 00:01

5 identicon

Virkilega fín ræða - til hamingju með þetta, ánægjulegt að fylgjast með þér og byrjunin hjá ykkur lofar góðu, þykir mér.

Pétur G (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 00:13

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Til hamingju með þína fyrstu ræðu á þingi! Tek að öðru leyti undir orð Bjargar F. hér að ofan.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.5.2009 kl. 00:13

7 identicon

Flott ræða hjá þér og þið stóðuð ykkur vel. Eitt veldur mér hugarangri. Selduð þið stjórnarflokkunum stuðning við ESB málið og fenguð bitlinga í staðinn. Ef svo er er spillingin búinn að klófesata ykkur á mettíma, og til einskis hefur verið barist.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 04:19

8 Smámynd: Einar Indriðason

Takk fyrir að fá að lesa jómfrúarræðuna hérna.  Ég er orðinn svo langþreyttur á pólitíkusum, að ég sleppti því að fylgjast með eldhúsdagsumræðunum.  Mér heyrist þó að þið hafið staðið ykkur vel, og það er gott.  Nú er að sjá hvort og hversu mikið þetta nær að hafa áhrif.

Gott mál.

Einar Indriðason, 19.5.2009 kl. 04:39

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Gllæsilegt Þór. Ég hef litlu við  ræðu þína að bæta. Þú veist að við erum mörg með þér, Birgittu, Margréti og Þránni þarna inni.

Baráttukveðjur að norðan, þar sem kreppan bítur einnig. 

Arinbjörn Kúld, 19.5.2009 kl. 07:50

10 identicon

Þór frábær ræða, gaman að hlusta á fólk sem talar frá hjartanu en ekki aðeins í ofnotuðum geldum frösum.

takk fyrir þetta, nú þarf tafarlausar lögfestar aðgerðir handa heimilum í landinu.

Steinar Immanúel Sörensson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 08:37

11 Smámynd: Hlynur Hallsson

Flott ræða. Til hamingju með þetta og bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 19.5.2009 kl. 09:48

12 identicon

Til hamingju með að vera komin á þing. Góð ræða hjá þér og ég treysti á þig að halda uppi málstað heimilanna, ekki veitir af miðað  við síðustu fréttir, svo sem Árna Pál ráðherra á Bylgjunni í morgun. Hann telur að það sé búið að gera nóg fyrir heimilin og allt sé í gúddí. Flestir geti vel staðið í skilum með sín lán!!!!!

Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 10:23

13 identicon

Fín ræða hjá þér Þór, en það hefði mátt sleppa þessum endalausu endurtekningum að nú væruð þið loksins komin á þing, unnið sigur, bla bla.  Það er búið að hrósa ykkur fyrir þann árangur og nú er að láta verkin tala.  Ræða Sigmundar var t.d. mjög beinskeytt og góð þótt ég sé nú ekki framsóknarmaður. 

Annað mál.  Þetta með trúleysingjaafstöðuna (eða þannig birtist hún nú bara flestum), er ekki sniðugt move.  Þið græðið ekki atvkæði á því!  Sýnið nú að þið eruð betri flokkur en S og VG fyrir fólkið í landinu og vinnið í hlutum sem skipta máli - bindi á Alþingi eða messa fyrir fund er ekki málið.  Málið er fólkið!  Ef þið haldið áfram að velta ykkur upp úr titlingaskít, þá eruð þið bara að gera það sama og núverandi stjórn.

Freyr (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 11:52

14 identicon

Orð í tíma töluð.  Ég mun aldrei geta kosið fjórflokkinn aftur.  Aldrei.  Ef róðurinn verður erfiður þarna innan um atvinnupólitíkusana í þinghúsinu, þá er bara að kalla á potta- og pönnuliðið niður á Austurvöll aftur.  Svo einfalt er það.

Árni H. Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 12:20

15 identicon

Góð ræða!

Áfram Þór!

Er til í að mæta aftur niður á Austurvöll ef á þarf að halda.

HF (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 13:14

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Tek undir orð Sigurbjargar, þið stóðuð ykkur vel og komuð með ferskan andblæ þarna inn!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.5.2009 kl. 13:37

17 Smámynd: Baldvin Jónsson

Glæsilegt Þór, glæsilegt.

Var að horfa á þetta núna og var mjög hrifinn, er kannski ekki alveg hlutlaus, en mjög hrifinn engu að síður

Baldvin Jónsson, 19.5.2009 kl. 20:54

18 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Ég var stolt af ykkur í gær. Þór þú varst framúrskarandi beinskeyttur.

Nú er bara að halda áfram og ekki linna látum fyrr en við erum búin að fá svör við spurningum landsmanna og einnig aðgerðir til að bjarga heimilum þeirra sem eru komnir í þrot eða á leið þangað.

Lilja Skaftadóttir, 19.5.2009 kl. 21:17

19 identicon

Mjög gott.

 Ekki gefa eftir þumlung. Þjarmaðu að spillingaöflunum.

Siggi (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 00:23

20 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ágæt ræða Þór og góð byrjun hjá ykkur 3/4 Borgarahreyfingar á þingi.  Ég geri samt dálitla athugasemd við klausu þína um vaxtabætur, mér þykir villandi nota meðaltal þar.

Matthías Ásgeirsson, 20.5.2009 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband