22.4.2009 | 13:02
ESB á morgun, hinn, eftir tvö ár, eða Ísland í dag.
Þá þurfa menn að spyrja sig hvað annað sé hægt að gera í millitíðinni. Svar Samfylkingar sem að svo komnu virðist munu leiða næstu ríkisstjórn, er að ekkert sem að gagni kemur verði gert í millitíðinni.
Áfram verður haldið með ónýta krónu sem hefur rústað atvinnulífinu og mun hald því knésettu. Áfram með verðtryggingu sem hefur knésett heimilin og mun halda þeim á vonarvöl. Áfram með stjórnsýslu sem er að stærstum hluta uppbyggð og rekin af erindrekum stjórnmálaflokka og í þágu stjórnmálaflokka en ekki af almenningi og fyrir almenning. Áfram með ríkisstofnanir sem eru ekki bara óviljugar heldur nánast ófærar um að sinna hagsmunum almennings. Áfram með bankaleynd og málamyndarannsókn á bankahruni í stað þess að taka af skarið og rannsaka bankahrunið sem svikamyllu og samkrull fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og ríkisstofnana. Rústað orðspor Íslands erlendis mun heldur ekki lagast fyrr en íslensk stjórnvöld nálgast nágrannalöndin af auðmýkt og viðurkenna stórkostleg mistök íslenskra stjórnvalda og óska jafnframt aðstoðar nágrannalanda við rannsókn bankahrunsins sem sakamáls. Rústað orðspor íslenskra stjórnmálaflokka mun ekki heldur lagast innanlands fyrr en þeir sem valdir voru að hruninu sem og þeir sem sváfu á verðinum í stofnunum ríkisins verði dregnir til ábyrgðar og þar verða menn að viðurkenna að Davíð Oddson bar ekki einn ábyrgð á allri ákvarðanatöku í opinberum stofnunum. Rústað orðspor íslenskra stjórnmálaflokka mun heldur ekki lagast meðan þeir sem voru í síðustu og þar-síðustu ríkisstjórn leita endurkjörs og verða endurkjörnir.
Það er einnig einföld staðreynd að áframhaldandi óbreytt stjórn landsins mun rústa orðspori allra íslendinga, því heimurinn hrofir á, ef þeir í komandi kosningum afsala sér völdum til næstu fjögurra ára til þess fólks sem ber beinlínis sjálft ábyrgð á hvernig fór. Hvernig dettur fólki í hug að endurkjör á þessu fólki og hugmyndafræði þessara flokka, og hér á ég við Framsóknarflokk, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, muni leiða til einhvers annars en áframhaldandi spilltra stjórnmála og hagsmunapots fyrirtækja með aðgang að stjórnmálaflokkunum sem og áframhaldandi hagsmunapots einstaklinga innan þessara flokka.
Ástæða þess að Ísland fékk ekki lánafyrirgreiðslu frá nágrannalöndum á ögurstund var ekki vegna íslendinga, mín, þín eða almennings. Ástæðan var sú að stjórnvöldum, þ.e. síðustu ríkisstjórn, var ekki treyst. Þegar vinaþjóð treystir sér ekki til að lána annarri vinaþjóð fé er ekki hægt að finna meiri vantraustsyfirlýsingu. Ef einhver skyldi nú ekki muna þá voru það Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem mynduðu þá ríkisstjórn og í núverandi ríkisstjórn er Samfylkingin stærst og hún er studd af Framsóknaflokknum. Kerfið sem hrundi var hinsvegar hugmyndasmíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem Samfylkingin svo tók við og fylgdi og studdi í skiptum fyrir völd með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna var það gert að skilyrði af hálfu nágrannaþjóða að AGS fengi völd yfir íslenskum efnahagsmálum. Stjórnvöldum okkar var ekki treyst. Að megninu til er svo sama fólkið í þessum flokkum að sækjast eftir endurkjöri og undir merkjum sömu hugmyndafræði þar sem almannahagur verður enn einu sinni fyrir borð borinn.
Eini flokkurinn sem kemst frá þessu eru Vinstri-Græn. Þótt þau hafi staðið vaktina vel fyrir hrun og í núverandi ríkisstjórn eru þau eru hins vegar undir ægivaldi Samfylkingar og hafa látið Samfylkinguna binda sig á klafa AGS sem vill velta öllum skuldum sem til komu vegna hrunsins yfir á almenning. Mesta hagsmunamál almennings er hins vegar að skuldum þjóðarbúsins verði ekki velt yfir á launafólk því það þýðir mestu kjaraskerðingu í sögu þjóðarinnar.
Það verður því að ná fram nýrri lendingu í skuldamálinu, með eða án AGS. Hvorki núverandi ríkisstjórn né aðrir fjórflokkana hafa þó stefnu þ.a.l. Því er það mjög mikilvægt að í komandi kosningum verði til mótvægi sem skiptir máli, mótvægi sem getur komist upp á milli væntanlegrar ríkisstjórnar Samfylkingar og VG og jafnvel verið hluti af henni, mótvægi sem af alvöru tekur hag almennings fram fyrir hag AGS, mótvægi almennings sem byggir á þeirri róttæku skynsemi sem til þarf til að gera Ísland betra.
Slíkt mótvægi er eingöngu að finna hjá Borgarahreyfingunni, XO.is.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Las þennan pistil þinn og er að mestu leiti sammála þér. Er það ekki staðreynd að við verðum að fara að byggja upp traust meðal okkar helstu viðskiptaþjóða. Er einhver betri lausn á því ímyndarvandamáli sem við stríðum við en aðildarviðræður.
Við sem stöndum í rekstri fyrirtækja og tala nú ekki um innflutningi getum ekki beðið endalaust eftir einhverjum skammtímalækningum á krónunni. Það hefur verið ljóst frá því síðasta vor að krónan væri gallaður gjaldmiðill og ég bendi á að FÍS skoraði á stjórnvöld í júlí á síðasta ári að taka upp viðræður við Evrópubandalagið um aðild og upptöku Evru.
Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 13:20
Á hvaða gengi yrði skipt yfir í annan gjaldmiðil?
Margar athyglisverðar staðreyndir eru reifaðar hér, takk fyrir. Sá vandi sem meðal annarra er við að glíma í stjórnmálaumræðunni er að blindir sjá ekki og þeir sem vilja ekki sjá eru jafn blindir, jafnvel blindari - og á margt fleira, er að sannleika lýtur. Þess vegna geta hrópendur í eyðimörk "sjónleysis og heyrnarleysis" því miður átt erfiða daga. En málið er að halda samt áfram af hugrekki og dug. Takk fyrir það.
Spyrja vil ég um eitt, sem ég hef ekk séð neinn ræða um, en það er mat eða skoðun á því HVERNIG skipti yfir í aðra mynt á Íslandi, Evru eða aðra, myndu eiga sér stað. Á hvaða gengi, miðað við gengi dagsins í dag til dæmis? Yrðu skiptin á mjög mikið veikara gengi en er í dag, og þá hversu miklu veikara?: t.d. 10%, 30% eða enn veikara gengi? Á hvaða forsendum, eða með hvaða rökum?
Það sem meira er: Hvernig mun gengið þróast héðan í frá og þar til hugsanlega yrði skipt um mynt síðar, ef ekki "núna", þ.e. mun það t.d. bara halda áfram að versna? (Þetta er náttúrulega spurning sem allir gjaldeyrisspákaupmenn pæla í).
Það gengur ekki að raunverulegar eignir hérlendis, svo sem fasteignir og náttúruauðlindir, verði verðlagðar á einhverju fáránlegu "tilbúnu" gengi, heldur þarf að grunni til að meta hvers virði slíkar eignir eru mælt í hinni erlendu mynt sem miðað yrði við, þ.e. á verðgildi slíkra eigna í þeim löndum sem nota þá mynt. Auðvitað koma önnur sjónarmið þar inn í líka til hækkunar eða lækkunar á verðmatinu, svo sem fjarlægðir, gæði, félagsleg atriði og fleira.
Einnig væntanlegt verðmæti eignanna þegar fram í sækir, ekki síst - eða hver vill ekki eiga heima í landi með ofgnótt hreins og ómengaðs drykkjarvatns og matvæla, orku, og landrými, þar sem er gott að vera?
Kristinn Snævar Jónsson, 22.4.2009 kl. 14:12
Ég verð að taka í sama streng og Sigurður Sigurðsson.
Ég verð einnig að viðurkenna að mér sýnist það vera fásinna að kjósa um aðildarviðræður við ESB, þar sem það er of mikið af ýkjusögum um snilld/illsku ESB í gangi. Þorri fólks er ekki með réttar upplýsingar til að taka ákvörðun. Og á meðan við sættum okkur við að menn komi fram með sínar tilfinningar varðandi ESB (sbr. fauskinn í Kastljósinu í gær) getum við ekki ætlast til að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar geti myndað sér skoðun á réttum forsendum.
Því held ég að það þurfi að fá svart á hvítu fram hvað aðild að ESB þýðir - og ég hef sterklega á tilfinningunni að aðildarviðræður geti skilað einhverju sem enginn geti fegrað eða skemmt, sbr. rök sjalla og annarra.
Því finnst mér að XO ætti að taka undir að farið verði af stað í aðildarumræður ASAP (t.d. á mánudeginum 27. apríl).
Öddi
öddi (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 14:20
Við stríðum ekki við ímyndarvanda heldur erum við að óbreyttu gjaldþrota í alvörunni.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 14:23
Þú segir: "...Ísland uppfyllir ekki skilyrði ESB um inngöngu og/eða upptöku Evru." Ekki má rugla saman skilyrðum fyrir inngöngu í ESB og upptöku evru. Það er rétt að Ísland uppfyllir ekki Maastricht-skilyrðin í dag, en gæti gert það eftir fjögur ár, en að þeim tíma liðnum gæti okkur boðist upptaka evru ef við sækjum um ESB-aðild strax. Ísland uppfyllir hins vegar öll skilyrði fyrir inngöngu í ESB og er komið miklu lengra á veg með að taka upp regluverk sambandsins en aðrar þjóðir sem sótt hafa um, vegna þátttöku okkar í EES-samstarfinu.
Sveinbjörn (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 14:26
Góður pistill hjá þér Þór og er ég sammála í öllum meginatriðum. X-O!
Sigurjón, 22.4.2009 kl. 14:58
Við erum ekki að fara að taka upp Evru á morgun né á næstu mánuðum eða árum ef því er að skipta. Þannig að ég held að allar áhyggjur af skiptigengi séu ótímabærar. En hugsanlega býðst okkur tenging við Evru og meiri stöðugleiki krónunar í framhaldi.
Það sem skiptir mestu máli núna er að fá stöðugleika í gjaldmiðilinn óháð því hvert gengi hans er skráð og ekki verði um að ræða mismun á opinberri skráningu Seðlabanka og á þeim litla markaði sem er fyrir krónur.
Aðildarviðræður gætu einnig haft góð áhrif á eigendur jöklabréfa sem þrá ekkert heitar en koma fjármagninu í hvelli burt.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 14:59
Hvernig "býðst" okkur tenging við annan gjaldmiðil? Ætlar Evrópski seðlabankinn þá að fjármagna þau inngrip á gjaldeyrismarkaði sem þarf til að viðhalda fastgenginu? Hefur einhver spurt ECB efnis á því hvort að þeir séu til í að gera það þó að þeir hafi aldrei gert það fyrir aðra? Af því að við erum svo fríkuð og spes og trúum á álfa?
Það kemur til greina að festa gengið en við skulum átta okkur strax á því að enginn kemur til með að bera kostnaðinn af því annar en íslenski skattgreiðandinn og ef lagt er af stað með óraunhæft of hátt skráð upphafsgengi þá tæmast hirslur seðlabankans á nokkrum dögum.
BS (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 15:19
Afhverju einblína menn alltaf á evru?? er sambó kannski búin að lofa uppí ermina á sér með múturpeningum frá ESB einsog þeir eru þekktir fyrir að nota til að nauðga þjóðum inní ESB.Við búum á besta stað í heimi og ég vill ekki að einhver Brussel ketlingur segi mér í framtíðinni um það hvenær ég megi fara á klósettið af því að hann bjó til reglu um það!! nei takk.Það eru miklir möguleikar að opnast fyrir okkur kannski í olíu og kannski líka þegar siglingaleiðin norðurfyrir Grænland opnast og ekki vill ég að einhverjir spilltir ánskotar í Brussel hirði það af okkur.Það virðist vera voða viðkvæmt að ræða um aðra möguleika tildæmis að ath með Dollar sem væri mun heppilegra fyrir okkur einsog er og tæki ekki eins langan tíma að koma í gagnið og evru.Er ekki aðalmálið í dag að koma stöðugleika á okkar gjaldmiðil svo að við getum haldið áfram?og ég held að það gerist ekki í sambandi með ESB þar sem allt er á niðurleið og hver hugsar um sjálfansig..
Marteinn Unnar Heiðarsson, 22.4.2009 kl. 22:15
Ég er sammála þér Marteinn, þó ég hefði kannske orðað það öðruvísi...
Hafðu þökk fyrir þetta innlegg!
Sigurjón, 23.4.2009 kl. 01:47
Það er greinilegt að Marteinn hefur ekki áhyggjur af framtíðinni því ég tek undir með honum Hans hérna fyrir ofan að við (íslendingar) erum í raun gjaldþrota að óbreyttu.
Það allra alvarlegasta og það sem pólitíkusar segja okkur lítið af er að lánshæfismat Íslands er afar slæmt. Sem aftur þýðir að ef Landsvirkjun eða sveitarfélög ætla að endurfjármagna sig í framtíðinni þá geta þau það ekki vegna þess að lánin eru með ofurvaxtaálagi sem enginn getur staðið undir.
Ef þetta verður að veruleika þá er Ísland raunverulega farið á hausinn, þá munum við ekki hafa efni á neinu þ.e. ekki lágmarks almannatryggingum, heilbrigðiskerfi eða skólakerfi. Við verður í raun búin að vera og stöndum uppi með enga vini.
Að einhver bjúrókrati sé að semja einhverjar reglur í Brussel virðist fljótt verða ansi lítið vandamál miðað við þau sem við stæðum frammi fyrir þá.
Kannski þarf fólk að upplifa kreppuna í svona 2 ár til viðbótar þar sem ekkert breytist nema til hins verra og þá sér fólk hugsanlega að ESB er ekki svo slæmt og það ímyndar sér.
Jón Magnús, 23.4.2009 kl. 02:18
Jón Magnús: Heldur þú að ESB sé tilbúið að reka hér skóla eða almannatryggingakerfi eða eitthvað annað, jafnvel þó við værum í ESB? Evrópusambandið og seðlabanki Evrópu lánaði t.d. Ungverjalandi (í ESB) ekki eina Evru, þrátt fyrir massíva erfiðleika. Við höfum ekkert úr þessu sambandi að gera...
Sigurjón, 23.4.2009 kl. 02:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.