Við líka?

Ljóst er að Ísland stendur á barmi gjaldþrots sem þjóðríki og að skuldirnar af völdum bankahruns og efnahagsóstjórnar eru meiri en hægt er að ráða við. Kominn er tími til að stjórnvöld geri þjóðinni grein fyrir þessu en hegði sér ekki eins og fyrrverandi ríkisstjórn sem hélt mikilvægum upplýsingum um væntanlegt hrun leyndum fyrir þjóðinni.

Þó ekki fáist staðfest með neinni nákvæmni hversu háar skuldir þjóðarinnar eru þá erum við komin að þeim punkti að ekki verður haldið áfram með þennan blekkingarleik um að fær leið sé út úr skuldafeninu með hefðbundum tekjustreymisaðferðum ríkissjóðs, s.s. skattahækkunum og niðurskurði útgjalda. Tillögum AGS um hallalaus fjárlög eftir þrjú ár þarf að hafna, sem og kröfum nágrannalanda um uppgjör skulda. Rannsaka þarf bankahrunið sem svikamyllu og sækja eigendur og stjórnendur til saka og sækja allt það fé sem hægt er til þeirra, með aðstoð lögreglu og eftirlitsstofnana í nágrannalöndum ef með þarf.

Að loknu því uppgjöri þurfa stjórnvöld að tilkynna nágrannalöndunum um möguleikana á endurgreiðslu þess sem eftir er, endurgreiðslu sem má ekki skerða möguleika Íslands á skjótum efnahagsbata. Að öðrum kosti verður lýst yfir greiðslufalli þjóðarbúsins (e. sovereign default) og kröfuhöfum boðið upp á afarkosti.

Slíkt greiðslufall mun koma Íslandi illa og takmarka aðgang að lánsfé erlendis í um tvö til þrjú ár en að þeim tíma liðnum mun það verða gleymt og grafið, því þó upphæðirnar séu háar á okkar mælikvarða eru þetta smámunir fyrir lánadrottnana.

Hinn kosturinn er að skera hér samfélagsáttmálann í ræmur sem aldrei verður aftur byggt á með niðurskurði ríkisútgjalda og skattahækkunum sem fólkið mun ekki standa undir. Auðlindirnar, atvinnutækin og stoðkerfið, s.s. samgöngumannvirki og veitustofnanir, verða fljótlega seld erlendum fyrirtækjum og landsmenn verða leiguliðar í efnahagsnýlendu erlendra fyrirtækja og auðhringja.

Þetta er þegar hafið og þetta verður að stöðva áður en það er um seinan.

Borgarhreyfingin - þjóðin á þing er eina pólitíska aflið sem hafnar leið núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna og býður upp á róttæka skynsemi í efnhagsmálum þar sem hagur almennings en ekki hagur sérhagsmuna, ræður ferðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk fyrir góða grein. Hér er orðin raunveruleg spurning hvort kerfishrun mun eiga sér stað.

Hafið þið skoðað Þór þessa greiðsluaðlögun og fyrir hverja hún er í raun og hverja EKKI. Það er mjög fróðlegt að skoða lögin og greinargerðina. Þetta úrræði virkar ekkert fyrir atvinnurekendur og t.d. verktaka. Verktakar á Íslandi í dag eru fjölmargir, t.d. þeir sem hafa orðið gjaldþrota og eru settir í skuldafangelsi. Sú afplánun tekur lengri tími en hjá þeim ógæfumanni sem tekur annars manns líf. Það er enginn sem talar fyrir þetta fólk og ekki ber að sjálft hönd fyrir höfuð sér. Um er að ræða þúsundir manna. Það er aldrei umræða um þetta fólk og virðist vera um að ræða eitthvert tabú.

Guðmundur St Ragnarsson, 18.4.2009 kl. 02:43

2 identicon

Vildi gjarnan sjá raunverulegar tölur um skuldir ríkisins til að átta mig á verkefninu??

Þá meina ég skuldir : 0000000000

Eignir                         0000000000

Ísland er ekki neinn pharia meðal þjóðanna.  Það hefur allt fuðrað upp í raun allstaðar.

itg (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 15:18

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

1) Skattborgarar eru ekki að borga skuldir bankanna.

2) Greiðslufall þjóðarbúsins (sovereign default) er stóralvarlegt mál með afdrifaríkum afleiðingum fyrir aðgang ríkisins, banka og íslenskra fyrirtækja að erlendum fjármagnsmörkuðum, um langa framtíð.  Það er verulegur munur á ríki sem hefur alltaf staðið við skuldbindingar sínar, og ríki sem hefur skotið sér undan þeim.  Þessi munur kemur fram bæði í kjörum og aðgengi að fjármagni yfirleitt.  Menn fara ekki út í svoleiðis aðgerð nema í ítrustu neyð og að mjög vandlega athuguðu máli.  Íslenska ríkið mun, þrátt fyrir hremmingarnar, ekki vera skuldsettara en mörg önnur ríki, en þar að auki erum við með fullfjármagnað lífeyriskerfi með verulegar erlendar eignir.  Það er því engin ástæða fyrir okkur að fara þessa örlagaríku leið, sem einhverjir örfáir eru að halda fram í miklum taugaæsingi, svartsýni og að mínu mati misskilningi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 16:56

4 Smámynd: Þór Saari

Sæll Vilhjálmur.Greiðslufall er ekki alvarlegra mál en það að Argentína sem í fimmta sinn lenti í greiðslufalli var komið á sama stig fjármögnunarkosntaðar innan þriggja ára. Aðgangur íslendinga að erlendu fjármagni við núverandi aðstæður mun ekki lagast um langa framtíð hvort eð er og það er ekki verið að tala um að fara út í svoleiðis aðgerð, heldur að leiða hugann að því. Hræðsluáróður þinn gagnast ekki mikið í svoleiðis hugleiðingum. Það er einnig rangt að íslendingar séu með fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi, það bendir margt til þess að íslenska lífeyrissjóðakerfið hafi tapað um a.m.k. helmingi eigna sinna og sé e.t.v. við dauðans dyr sem nothæft kerfi. Sjóðauppbyggingakerfi sem þessi hafa um allan heim tapað gríðarlega og mörg jafnvel langt yfir 50% eigna. Það er að sjálfsögðu algjörlega óásættanlegt að hirða 12% af launum fólks í áratugi og tapa svo helmingi þess svona af því bara. Verulegar erlendar eignir eru engar þar sem ekki er til nothæft verðmat á þeim og því ekki hægt með neinum raunhæfum hætti að halda þessu fram.

Íslendingar standa einfaldlega frammi fyrir gríðarlegum vanda sem ekki er hægt að leysa með hefðbundnum leiðum og þaðan af síður með einhverri óskhyggju. Ég væri fyrsti maður til að óska annarra leiða en því miður er bara margt sem bendir til að við séum ekki borgunarmenn nema að ganga hér með slátrarahnífinn um mennta- heilbirgðis- og velferðarkerfið sem mun hafa varanlegar og alverlegar afleiðingar fyrir framtíðina, afleiðingar sem vafamál er að nokkurn tíma verði hægt að ná sér upp úr. Þar er um nægar reynslusögur að ræða hjá þjóðum sem hafa staðið í nákvæmlega sömu sporum og farið nákvæmlega sömu leið og núverandi íslensk stjórnvöld vilja fara.

Við getum svo sem selt auðlindirnar, veitufyrirtækin, atvinnutækin og einkavætt heilbrigðis- og menntamálin, en eins og segir í undirtitli Draumalandsins, "Hvað áttu þegar þú hefur selt allt." 

Það er þörf á róttækri skynsemi og hún felst ekki í því að stinga höfðinu í sandinn.

Þór Saari, 18.4.2009 kl. 18:07

5 identicon

Sæll Þór,

Fyrr en skuldastaðan liggur fyrir, veit engin neitt,. Aðgangur að fjármagni er lokaður að mestu leiti allstaðar í heiminum.

Er ekki kominn tími til að vinna í rauntölum og lýta lítillega í kringum sig.  Þá munum við sjá að aðrar þjóðir eru á sama róli þó vandamálin séu ekki endilega í sama litrófi.

Enn allir eiga það sameiginlegt að hafa eytt um efni fram eins og við.

itg (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:35

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þór, ef við færðum ríkisútgjöld 2003 yfir á verðlag dagsins þá væru þau um 140 milljörðum lægri en á fjárlögum 2009, sem væru þá næstum hallalaus.  (Ég er ekki að segja að það sé rétta niðurskurðarleiðin en sýnir samt hversu ríkisútgjöld hafa blásið út síðustu 5 árin.)  Við höfðum það alveg ágætt 2003.

Lífeyrissjóðir hafa rýrnað um rúm 40% og fjárfestingarstefna þeirra var ekki góð.  En þeir þurfa samt flestir hverjir ekki að skerða lífeyrisréttindi nema lítillega skv. tryggingastærðfræðilegu mati.  Erlendar eignir þeirra eru að langmestu leyti í skráðum bréfum, þannig að ég skil ekki hvað þú ert að fara með að ekki sé til nothæft verðmat á þeim.

Ég er einmitt ekki með hræðsluáróður, held að þú ættir frekar að líta í eigin barm með það.  En að lýsa yfir sovereign default væri að mínu mati óðs manns æði (það orðalag á reyndar sérlega vel við hér, ég fæ ekki varist þeirri tilhugsun að menn stjórnist of mikið af æsingi en ekki köldu og hlutlausu stöðumati).  Bara það að tala með þessum hætti dregur úr fólki kjark og deyfir von, sem er ekki gott í stöðunni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 21:42

7 Smámynd: Þór Saari

Sæll aftur.

Ég átta mig ekki alveg á þessum áhuga margra að velta öllum þessum skuldum yfir á almenning. Bankarnir voru nánast með opinn reikning í Seðlabankanum sem tapaði að því er virðist öllu sem var lánað og það voru engir smámunir. Það þarf að endurfjármagna bankana upp á hundruð milljarða. Það voru settir a.m.k. tvö hundurð milljarðar í að rétta af peningamarkaðssjóðina. Svo er það ICESAVE og einnig afskriftir skilanefnda upp á hundruð milljarða til eignarhaldsfélaga skráðra á m.a. Tortola. Það er hægt að halda lengi áfram. Það segir sig einnig sjálft að tryggingarstærðfræðilegt mat sem haggast ekki við 40 til 50% eignarýrnun er ekki trúverðugt, við höfum s.s. heyrt um álagspróf bankana áður. Mat á skráðum bréfum getur einfaldlega verið rangt margra hluta vegna og þá sértaklega ef það t.d. kemur til þess að selja þau. 

Við búum einfaldlega við þá stöðu Vilhjálmur að hvorki lífeyrissjóðum, bönkum né stjórnvöldum er treystandi og það verður ekki hægt fyrr en búið er að gera upp hrunið og skipta um stjórnvöld. Ég leyfi mér að minna þig á að það var Samfylkingin, sú sem nú er í ríkisstjórn, sem einnig hélt öllum upplýsingum um væntanlegt hrun leyndum fyrir almenningi í níu mánuði eða þangað til allt hrundi, á sama tíma og fulltrúar hennar, vitandi betur, voru á ferð um allar koppagrundir til að blekkja almenning hér á landi sem í nágrannalöndum.

Af ávöxtunum skulum vér þekkja þá og það er því miður óheilindafýla af íslenskum stjórnvöldum og stofnunum sem stendur og þó VG sé með hreinan skjöld fram að stjórnarskiptum þá hafa þeir síðan dregið AGS vagnin af fullum krafti og sá vagn er aldeilis ekki fullur af góðum fyrirheitum.

Þór Saari, 19.4.2009 kl. 00:40

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Afskriftir skilanefnda "upp á hundruð milljarða til eignarhaldsfélaga skráðra m.a. á Tortola" eru skattgreiðendum óviðkomandi og lenda á kröfuhöfum bankanna.

Tryggingastærðfræðilegt mat er unnið af tryggingastærðfræðingum og á að vera þokkalega treystandi.  Ég er alveg sammála þér um að álagspróf FME voru greinilega grín, þau virðast t.d. ekki hafa prófað lausafjárstöðu í erlendri mynt (evru) sérstaklega, en augljóst var að í krísu yrði krónan tregseljanleg.  Krónan á sinn stóra þátt í erfiðleikum okkar, sem ekki má gleyma.

Varðandi AGS og VG þá má nota rakhníf Occams og segja að einfaldasta skýringin sé sú að Steingrímur J. hafi áttað sig á að AGS væri eina færa og rétta leiðin, þegar hann var búinn að kynna sér málin í þaula inni í Fjármálaráðuneyti.  Ég ítreka að niðurskurður var því miður óumflýjanlegur, með AGS eða án.  Skatttekjur eftir hrun standa ekki undir ríkisrekstri eins og hann var orðinn eftir gróðærið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.4.2009 kl. 01:09

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Annars var aðalpunkturinn hjá mér varðandi lífeyrissjóðina að við munum skulda svipað og ýmsar aðrar þjóðir, en þær eru síðan flestar með gegnumstreymiskerfi og öfugan aldurspýramída, andstætt okkur.  Að þessu leyti stöndum við sem sagt betur í samanburði en einföld skuldaprósenta af VLF segir til um.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.4.2009 kl. 01:17

10 Smámynd: Þór Saari

Sæll enn aftur.

Það að afskriftir lendi á kröfuhöfum bankanna breytir því ekki að Ísland sem þjóðríki (vegna samvinnu ríkistjórnar og stofnana ríkisins með fjármálafyrirtækjum) er ábyrgt fyrir þeirri svikamyllu sem sú bankastarfsemi var. Þ.a.l. skiptir það meginmáli fyrir okkur til að öðlast tiltrú annara þjóða og fá aðstoð þeirra að geta gert upp bankahrunið á sannfærandi máta gagnvart öllum, íslenskum almenningi, erlendum kröfuhöfum, og stjórnvöldum í nágrannaríkjum. Það að ætla sér ekki einu sinni að reyna að sækja peningana sem hurfu í hítina er ömurleg afstaða og setur stórt spurningmarki við skilanefndirnar og tengls þeirra við kröfuhafa.

Hvað varðar niðurskurðinn þá hefur ríkið aldrei þanist meira út en undir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins og hafandi sjálfur starfað innan stjórnsýslunnar í áratug þá er sennileg hægt að spara þar í rekstrarkostnaði um 25% með endurskipulagningu og endurráðningum og ætti að gera burtséð frá e.k. nauðsynlegum niðurskurði vegna skulda. Það er hins vegar ekki á dagskrá hjá neinum nema Boragrahreyfingunni að gera slíkt. Sparnaðartillögur VG og Samfó snúa að miklu meira en bara tekjufalli og útgjöldum vegna hrunsins og þessi glýja í augum sem margir íslendingar og þá sérstaklega kollegar mínir í hagfræðinni hafa gagnvart AGS má ekki blinda mönnum sýn á að það eru almannahagsmunir sem verða að ráða ferðinni, ekki hagsmunir fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja. Almannahagsmuna gæti mjög hugsanlega verið betur gætt með annarri nálgun en þeirrri sem núverandi ríkisstjórn fylgir og þá leið ætti þess vegna að sjálfsögðu að skoða.

Þór Saari, 19.4.2009 kl. 09:20

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll, og þakka málefnaleg svör.

Við erum sammála um að bankahrunið skemmir orðstír Íslendinga í heild, þótt meginhluti tjónsins lendi á kröfuhöfum bankanna en ekki skattborgurum.  Reyndar var kröfuhöfum það alltaf ljóst að þeir voru að lána hlutafélögum sem höfðu ekki ríkisábyrgð, þannig að þeir geta sjálfum sér um kennt hvað það varðar.  En vitaskuld brugðust FME og Seðlabanki einnig í eftirlitshlutverkinu.

Þeir sem ættu að "sækja peningana sem hurfu í hítina" eru einmitt helst kröfuhafarnir og skilanefndirnar fyrir þeirra hönd.  Þar eru hinir einkaréttarlegu hagsmunir og þangað myndu peningarnir fara að lögum (ekki til skattborgara nóta bene).  Refsiréttur kann svo að eiga við einnig, en þar liggja fyrst og fremst réttlætissjónarmið en ekki miklar vonir til að sækja mikla peninga í ríkissjóð - þar er væntanlega verið að tala um fangelsisdóma og einhverjar sektir, en skaðabætur hljóta fyrst og fremst að renna til kröfuhafa.

Liggur landið ekki einhvern veginn svona - hvort sem mönnum líkar betur eða verr?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.4.2009 kl. 14:20

12 Smámynd: kop

Búinn að kjósa þig félagi og atkvæðið farið í póst.

Takk fyrir síðast, þó það séu 30 ár síðan, ekki datt mér í hug að ég ætti eftir að kjósa þig á þing.

Ég stóla á að þú hristir upp í þessu liði við Austurvöllinn.

kop, 21.4.2009 kl. 06:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband