9.4.2009 | 09:23
Skuldir Íslands og íslendinga. Er stjórnvöldum treystandi?
Nýlega fram komnar upplýsingar frá tveimur erlendum hagfræðingum, Michael Hudson og John Perkins benda til þess að íslensk stjórnvöld séu hugsanlega á algerlega rangri leið með þjóðina, leið sem muni hneppa íslendinga í skuldafen um langa framtíð. Báðir halda því hiklaust fram að í slíku skuldafeni munu fyrr eða síðar eignir þjóðarinnar s.s. auðlindirnar, atvinnutækin og stoðkerfi eins og samgöngumannvirki og veitustofnanir, verða seld erlendum fyrirtækjum sem leið út úr vandanum. Þetta segja þeir alþekkt.
Framsaga þeirra beggja í Silfri Egils s.l. sunnudag og á fundum í Háskóla Íslands og á Grand Hóteli á mánudaginn hefur vakið mikla athygli en jafnframt sætt nánast algerri þöggun í stjórnkerfinu og mörgum helstu fréttamiðlunum s.s. RÚV -sjónvarpi og útvarpi og Morgunblaðinu.
Ljóst virðist að Ísland stendur á barmi þjóðargjaldþrots og að skuldir af völdum bankahruns og efnahags óstjórnar eru sennilega meiri en hægt er að ráða við.
Ekki fæst staðfest hversu háar skuldir þjóðarinnar eru, en stjórnvöld halda samt áfram með stöðugar yfirlýsingar um að fær leið sé út úr skuldafeninu með hefðbundum tekjustreymis aðferðum ríkissjóðs, s.s. skattahækkunum og stórfelldum niðurskurði útgjalda.
Kominn er tími til að stjórnvöld geri þjóðinni nákvæmlega grein fyrir hverjar skuldirnar eru, en hegði sér ekki eins og fyrrverandi ríkisstjórn sem hélt mikilvægum upplýsingum um væntanlegt hrun leyndum fyrir þjóðinni.
Hér er á ferðinni mál sem skiptir alla íslendinga gríðarlegu máli, mál sem heggur að grundvallar lífsskilyrðum okkar, barna okkar og jafnvel barna-barna þar sem vegferð stjórnvalda virðist vera sú að skera samfélagsáttmála þjóðarinnar í ræmur sem aldrei verður aftur byggt á.
Bæði Hudson og Perkins hafa bent á að aðferðir AGS, þær sömu og íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, hafa valdið stórkostlegum skaða til áratuga í þeim löndum sem þeim hefur verið beitt. Á hinn bóginn hefur þeim löndum sem hafnað hafi meðulum AGS jafnan vegnað mun betur og þau verið fljótari að rétta úr kútnum eftir áföll.
Hagsmunir almennings hljóta að krefjast þess að samstarfið við AGS verði endurskoðað og að leitað verði annarra leiða út úr skuldafeninu. Gleymum því ekki að það var ekki almenningur sem stofnaði til þessara skulda heldur örfáir fjárglæframenn í samvinnu við vanhæfa ríkisstjórn og stjórnsýslu.
Það er krafa okkar að það verði fjallað ítarlega um þetta mál í fjölmiðlum og á Alþingi.
Við skrifuðum ekki upp á skuldir auðmanna, og við eigum ekki að borga þær.
Borgarahreyfingin - þjóðin á þing, 8. apríl 2009.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Borgarahreifingin á fullt erindi á þing, það eru fleiri og fleiri að sjá.
Frjálslyndiflokkurinn og Borgarahreifingin eru þeir einu sem ég mundi treysta.
ThoR-E, 9.4.2009 kl. 13:05
Já það er verið að þagga þetta niður. Það er ekki eins og að við séum að heyra þessa hluti í fyrsta skipti. Aliber og Lilja Mósesdóttir og margir fleiri hafa fjallað ýtarlega um þessi mál.
Spurningin er eins og þú segir um hvað vakir fyrir stjórnvöldum? Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að setja þunga pressu á stjórnvöld.
Það er mjög þægilegt að skýla sér bakvið samvinnu við AGS þegar kemur að því að útskýra af hverju meiningin er að láta almenning borga vísitölu-kokkaðar upphæðir þegar að þar að lútandi kröfur verða afskrifaðar hjá bönkunum.
Ef að stjórnvöld hafa þetta í hyggju þá er hætta á ferðum. Þetta í ofanálag við það að borga landsmönnum laun sín með Matador peningum og hirða stóran gengisgróða af þeim viðskiptum samsvarar til gríðarlegrar siðblindu ríkisstjórnarinnar.
sandkassi (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 14:07
Rétt svör óskast frá stjórnvöldum - enda treystir maður þessu liði engan veginn, enda ekkert í kortunum sem leiðir ti. þess að maður geti treyst þessu liði. Við sem þjóð erum rúin trausti í víðasta skilningi þess orðs, bæði inna á við & út á við...
kv. Heilbrigð skynsemi
Jakob Þór Haraldsson, 9.4.2009 kl. 15:54
Því miður virðist vera svo að þeir flokkar sem nú bjóða fram virðast ekki skilja vandamálið. Borgarahreyfingin og Framsókn virðast þó eitthvað vera að skilja en sem betur fer þá eru alltaf fleiri og fleiri farnir að skilja.
Offari, 9.4.2009 kl. 16:24
Nei.
Ingi (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 02:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.