9.4.2009 | 00:46
Draumaland og martröð
Varð þess heiðurs aðnjótandi að fá boð á sýningu á Draumalandinu, kvikmyndinni sem gerð hefur verið eftir hinni stórgóðu bók Andra Snæs Magnasonar.
Skemmst er frá að segja að áhrifameiri mynd hef ég varla séð. Þetta var í raun eins og að horfa á jarðaför í tvo tíma. Annars vegar jarðaför lands þar sem ómetanlegt dýralíf og náttúra varð græðgi mannanna að bráð og hins vegar jarðaför þjóðar sem brjálaðist í firrtum eltingaleik við einfeldningslegar lausnir á vanda sem var í raun aldrei til.
Að sjá ráðamenn þjóðarinnar og embættismenn ganga fram með þessum hætti, oftar en ekki með samanbitnar varir, var sorglegt svo ekki sé meira sagt. Enn dapurlegra var að sjá suma þeirra og þá sérstaklega fyrrum bæjarstjóra Fjarðarbyggðar smell passa inn í hlutverkið samið af útsendara stórfyrirtækisins (economic hit man). Þessi þrautreynda aðferða að leggjast á og blekkja og múta embættismönnum brást auðhringnum sannarlega ekki á Austfjörðum, ekki frekar en fyrri daginn. Perlurnar sem frumbyggjar Ameríku voru blekktir með hér áður fyrr heita nú íþróttahallir en tilgangurinn og aðferðin er sú sama. Og svo eiga íslendingar að heita menntuð þjóð, iss!
Nú, eftir allt ævintýrið eru til sölu 159 eignir á Egilsstöðum, þ.a. 145 íbúðir/íbúðahús og á Reyðarfirði er talan 122 eignir þ.a.110 íbúðir/íbúðahús. Og enn er kallað á meira af því sama. Verði ykkur að góðu.
Þið sem hafið framið þetta hryðjuverk gegn landinu og gegn náttúrunni, við munum halda nöfnum ykkar allra á lofti, um aldur og ævi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Þór
Gott að heyra að þú skemmtir þér vel í bíói!
Mér finnst þú tala af mikilli ókunnáttu og fyrirlitningu þegar þú tekur upp hvernig forsvarsmenn og konur fyrir austan hafa staðið að atvinnuuppbyggingu þar. Ég veit af eigin raun að á Reyðarfirði, þaðan sem ég kem, hafa menn reynt að renna stoðum undir atvinnulifið um árabil til þess að draga úr þeirri áhættu sem fólgin er í því að reiða sig á sjávarútveginn eingöngu. Þótt að engum finnist það neitt augnayndi að hafa álver rétt við þorpið/bæinn þá held ég að menn hafi hreinlega séð þetta sem eina ráðið til að koma í veg fyrir að það yrði algjört hrun og fólksflótti frá þessum byggðum.
Þú tekur upp að einhverjar eignir séu óseldar! En hvað um allar þær byggingar som seldust og þann kraft sem nú finnst á svæðinu sem ekki fannst þar áður? Það að menn hafa byggt of mikið má ekki síst rekja til þess að byggingarfyrirtæki (m.a. stóru fyrirtækin fyrir sunnan) vildu græða á þessu og byggðu of mikið, ekki fólkinu fyrir austan!
Það má margt hafa farið betur á Íslandi í gegnum árin en það fólk sem unnið hefur að atvinnuuppbyggingu fyrir austan hefur gert það með hag fólksins fyrir brjósti og þessi niðurlægjandi orð þín um fyrrum bæjarstjórann í Fjarðarbyggð eru þér til háborinnar skammar!
Kveðja
Þórir Harðarson, Gautaborg, Svíþjóð
Þórir Harðarson (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 07:54
Sorglegur póstur, sem sagt með öðrum orðum ertu að segja að atvinnuskapandi stjórnmálaflokkar eru einhverjir glæpamenn og græðgissinnar, þeir sem stuðluðu að fleirum verkum eins og t.d. fyrir austan eru ekkert annað en ómerkismenni, alveg makalaust, ertu ekki að fatta þetta, okkur ber að virkja náttúruauðlindirnar sem við eigum, viltu kannski bara standa upp á Vatnajökli og horfa yfir ísland okkar fagra land og gera ekki neitt.
Okkur ber að nota orku þessa lands til atvinnu sköpunar, og að sjálfsögðu að reyna gera þetta með því móti að við íslendingar fáum sem mest upp úr krafsinu, ekki einhverjir útlendingar, við eigum að byggja upp okkar Íslensku framleiðslu og hlúa að henni um ókomna framtíð.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 9.4.2009 kl. 09:24
Mæli með að þið sem tjáið ykkur um færslu mína hér að ofan og Draumalandið gerið það þegar þið eruð búin að fara og sjá myndina. Afstaða mín til álvera, Kárahnjúka, og Austfjarða byggist á því að hafa kynnt mér málið mjög vandlega. Flutti út ál á fraktskipum frá Straumsvík í 4 ár, skrifaði ítarlega umsögn um umhverfismats skýrslu Kárahnjúkavirkjunar, fór tvær ferðir að Kárahjúkavirkjun og á Reyðarfjörð og eyddi hluta úr tveimur sumrum á Austurland þegar verið var að byggja virkjunina og álverið.
Þór Saari, 9.4.2009 kl. 10:20
Hvernig stendur á að Íslendingum dettur aldrei neitt annað í hug en skyndilausnir? Hingað koma ríkir útlendingar með vasa fulla af peningum, lofandi öllu fögru og við eltum þá eins og betlandi rakkar. Það er vitað mál að við TÖPUM stórfé á þessum álverum, það þarf ekki annað en að skoða reikninga Landsvirkjunar til að sjá það. Almenningur fjármagnar raforkuna undir rassinn á álverunum - af hverju er söluverð raforkunnar til álveranna leyndarmál? Að við skulum sætta okkur við svona þriðjaheimslausnir - að stórfyrirtæki komi hingað og kaupi hráefni okkar á tombóluprís án þess að skilja neitt eftir sig - á atvinnumálum þjóðarinnar er til háborinnar skammar. Svo er fólk eins og Þór, sem talar á móti þessu, niðurnítt. Svei attan. En það er svo sem ekki við öðru að búast af þjóð, sem eftir að hafa verið svikin og rænd, dettur ekkert betra í hug en að ráða refi til að gæta gæsakofans.
elín erlings (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.