16.3.2009 | 22:53
Val á stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár
Borgarahreyfingin er samtök fólks sem er fyrst og fremst lýðræðissinnað og krefst þess að Íslandi verði hér eftir stjórnað með hagsmuni almennings í huga. Hreyfingin krefst þess að það fari fram endurskoðun á stjórnarskránni og að sú endurskoðun verði gerð af almenningi og fyrir almenning.
Borgarahreyfingin er óháð stjórnmálaafl og berst fyrir almannahag og lýðræðis- samfélagi sem hafnar forræði og forréttindum núverandi stjórnmálaflokka. Hreyfingin telur augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafi glatað öllum tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu.
Borgarahreyfingin telur endurskoðun stjórnarskrárinnar brýnasta mál samtímans og er sannfærð um að aldrei fyrr hafi verið eins mikil þörf á að endurskoða stjórnarskrána og endurreisa lýðræði á Íslandi, ef landið eigi áfram að teljast til vestrænna lýðræðisríkja.
Borgarahreyfingin telur að frumvarpið um stjórnlagaþing sem lagt hefur verið fram á Alþingi sé algerlega ótækt og beinlínis sniðið að hagsmunum núverandi stjórnmálaflokka með það í huga að þeir nái að sölsa undir sig stjórnlagaþingið.
Til að hagsmuna almennings verði gætt við endurskoðun stjórnarskrárinnar telur Borgarahreyfingin grundvallaratriði að sú vinna fari fram á sérstöku stjórnlagaþingi sem verður án beinnar aðkomu stjórnmálaflokka og verði með eftirfarandi hætti:
- Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis. Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.
- Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.
- Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum. Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
- Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á 3-4 mánuðum, drögin send til umsagnar hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.
- Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.
Það er mat Borgarahreyfingarinnar að ef frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi nær fram að ganga óbreytt muni það gera Ísland að athlægi meðal vestrænna lýðræðisþjóða og mjög líklega skila stjórnarskrá sem verður enn verri en sú sem við nú búum við. Fulltrúar Borgarahreyfingarinnar hafa talað fyrir þessum sjónarmiðum í Silfri Egils 8. mars og Spegli RÚV þann 18. febrúar. Einnig hefur Ragnar Aðalsteinsson hrl. tjáð sig um nauðsyn þess að velja rétt inn á stjórnlagaþingið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Facebook
Athugasemdir
Stjórnlagavinna á ekkert erindi inn í fjórflokkinn. Stjórnarskrá er vinnuplagg handa Alþingi og stendur á bak við lög sem Alþingi setur. Stjórnarskránni er að nokkru ætlað að vera þjóðinni skjól fyrir ofríki stjórnvalda. Henni á ekki að breyta með hagsmuni pólitíkusa að tilgangi.
Það liggja fyrir drög að stjórnarskrárbreytingum frá stjórnarskrárnefndinni sem Jón Kristjánsson stýrði. Þau má nota sem vinnuplagg en það er bara fólk eins og við sem eigum að semja þessi drög að breytingum og þau á svo að leggja fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Svo einfalt er nú það mál.
Árni Gunnarsson, 17.3.2009 kl. 15:56
Sæll Árni.
Það er alveg rétt, þingmenn eiga að vinna eftir stjórnarskránni en ekki öfugt. Það er líka til mjög mikið af gögnum frá tíð stjórnarskrárnefndar og gott aðgengi að gögnum og fólki erlendis til viðmiðunar ef þarf. M.a. þess vegna teljum við í Borgarahreyfingunni - þjóðin á þing, að vinna við nýja stjórnarskrá þyrfti ekki að taka langan tíma.
Val á stjórnlagaþingið er grundvallaratriði og til að alls hlutleysis sé gætt setjum við fram þessa tillögu um 600 manna slembiúrtak þjóðarinnar. Það má svo skoða hvort hægt sé með tölfræðilegum aðgerðum að minnka þennan hóp án þess að hann missi nauðsynlega breidd. T.d. með slembiúrtaki úr slembiúrtakinu, en það er fyrir Gallup að segja til um það.
Þór Saari, 17.3.2009 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.