28.6.2010 | 02:38
Gengistryggð lán, er til lausn?
Í framhaldi af dómum Hæstaréttar þann 16. júní s.l. sem dæmdi gengistryggingu lána ólögmæta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um þá gjaldmiðla sem raunverulega skiptu um hendur, er brýnt að sú staða sem komin er upp leiði ekki til einhvers konar allsherjar upplausnar fjármálageirans og fjármála almennings með tilheyrandi flóði málshöfðana sem myndi kæfa dómstólana um árabil.
Því miður hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að ekkert verði aðhafst og eini ráðherrann sem virðist hafa einvherjar áætlanir í takinu er Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra sem vill velta öllum vandanum yfir á almenning, eina ferðina enn.
Augljóslega er ekki til nein ein og einföld lausn á þessari flækju sem þýðir í raun nýja gullöld fyrir lögfræðinga. Það er hins vegar skylda okkar að reyna að finna lausn og því einfaldari því betri, þar sem áframhald að óbreyttu þýðir ansi hreint mikla uppstokkun á öllu fjármálakerfinu hér á landi. Í fljótu bragði séð, og samkvæmt flestum lögspekingum sem hafa tjáð sig, þá eru þessir dómar mjög skýrir og í raun ekki auð-flækjanlegir. Fjármálafyrirtækjum ber að endurreikna höfuðstól og afborganir gengistryggðra lána m.v. upprunalegan höfuðstól og samningsvexti og ber að endurgreiða ofgreiðslur ef einhverjar eru. Lögspekingar virðast einnig nokkuð sammála um að þær ofgreiðslur eigi að bera s.k. "lægstu vexti Seðlabanka Íslands" samkvæmt 18. grein vaxtlaganna. Einnig virðist nokkuð öruggt að öll gengistryggð íbúðalán falli undir þessa dóma sem og fjölmörg lán til fyrirtækja.
Það er því vandi á höndum þar sem ekki er líklegt að fjármögnunarfyrirtækin og bankarnir (sumir alla vega) standi slíkt af sér nema með auknu eiginfjárframlagi frá eigendum en verði að öðrum kosti gjaldþrota. Það þýðir að vandkvæði verða við innheimtu ofgreiddra afborgana og líklegt að margir sem eru með ofangreind lán fái ofgreiðslur sínar ekki endurgreiddar og endi sem e.k. kröfuhafar í fjármálafyrirtækin. Þótt ekki sé rétt að blanda því saman við þetta mál þá eru engu að síður áfram óleyst mál þeirra fjölmörgu sem tóku verðtryggð lán og búa við samskonar forsendubrest vegna verðbólgu (af völdum gengishrunsins) og þeir sem eru með gengistryggð lán.
Ef menn gefa sér að óbreytt ástand og sú óvissa sem því fylgir vegna endalausra biðleikja dómstóla og lögfræðinga langt inn í framtíðina sé óæskileg þá er leit að leið út úr þessum vanda nauðsynleg, þó flókin virðist.
Vegna þess hversu skýrir dómar Hæstaréttar virðast vera má hugsa sér að ríkisstjórnin móti ákveðna stefnu fyrir fjármálageirann um lausn á þessu máli og taki þar með allan almenning með í þá vegferð, með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Í fyrsta lagi þurfa stjórnvöld að lýsa því yfir að niðurstaða Hæstaréttar frá 16. júní gildi um öll samsvarandi lán til íbúðakaupa og til fyrirtækja og að öllum fjármálafyrirtækjum beri að endurreikna upphæðir og afborganir samkvæmt því. Endurgreiða beri ofteknar greiðslur með viðhlítandi vöxtum eða láta þær koma til lækkunar höfuðstóls. Allir samningar sem þetta tekur til verða í staðinn teknir upp frá og með 16. júní 2010 og samið um sanngjörn kjör á því sem eftir stendur, miðað við einhvers konar eðlilega samningsstöðu þar sem fyllsta jafnræðis er gætt milli beggja samningsaðila. Hér mætti koma til gerðardómur sem leggði línurnar fyrir þá vinnu.
Sú niðurfærsla skulda sem lánþegar gengistryggðu lánanna fá þýðir að margir hverjir hafa fengið ofreiknaðar vaxtabætur sem þarf að endurgreiða og að þörfin fyrir vaxtabótagreiðslur úr ríkissjóði minnkar einnig í kjölfarið. Þá peninga mætti svo nota til að auka vaxtabótagreiðslur til þeirra sem eru með vertryggð lán þannig að staða manna yrði að einhverju leiti jöfnuð. Allt er þetta að vísu útreikningum háð en jafna mætti leikinn enn frekar ef þörf er með því að niðurfæra verðbótaþátt verðtryggðu lánanna aftur til janúar 2008 og láta verðbótaþáttinn framreiknast að hámarki m.v. verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Framangreind lausn er ekki einföld en eins og staðan er og eftir því sem henni er velt meira upp virðist þessi lausn e.t.v. vera sú einfaldasta sem til er í stöðunni, m.v. að æskilegt sé að einhvers konar sanngirni sé gætt. Fjármálakerfið yrði fyrir áfalli og myndi minnka (er hvort eð er um 35 til 40% of stórt fyrir hagkerfið) en áfallið myndi ekki ríða því að fullu þar sem fjármálafyrrtækin fengju áfram sanngjarnar framtíðartekjur af gengistryggðum lánum. Lántakendur fengju uppreisn æru og virkilega sanngjarna niðurstöðu mála sem að einhverju leiti dreifist á alla og hefðu einnig strax meira fé á milli handanna sem myndi leiða til fljótvirkrar örvunar fyrir efnahagslífið. Áhrifin á ríkissjóð eru óljós en virðast í fljótu bragði ekki vera umtalsverð og jafnvel engin.
Hugmyndir þessar virðast nokkuð afgerandi og jafnvel róttækar en við skulum ekki gleyma því að m.v. dóma Hæstaréttar erum við enn í miðju bankahruni og afgerandi og róttækra aðgerða er þörf. Annars mun þjóðarbúið hökta áfram á hálf-stoppi um langa framtíð með áframhaldandi óvissu, upphlaupum, og óstöðugleika á öllum sviðum.
Þór Saari
Höfundur er hagfræðingur
og þingmaður Hreyfingarinnar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert að leggja til ný neyðarlög sem fela í sér flóknar eignatilfærslur um allt þjóðfélagið. Alþingi hefur ekki heimildir til að breyta samningum fólks nema með tilvísun í neyðarrétt. Ætli það sé ekki farsælla að leyfa réttarríkinu að mala sitt korn í sínum hæga takti. Þið þingmenn getið síðan einbeitt ykkur að því að verja auðlindir Íslands og hagsmuni gegn útlendingum. Kannski er það ærið verk.
Ég held að "endurreisn" bankakerfisins hafi verið misráðin og sé stýrt af AGS (einsog allt annað). Það þarf að ræða á Alþingi hvernig menn vilja að bankakerfið sé skipulagt.
Björn Jónasson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 03:03
Gleymdu þessu Þór. Nú beitir fólkið í þessu landi sömu aðferðum og bankarnir beittu gegn því. Þeim verður gefin ákveðin en naumur frestur til að borga skuldir sínar við almenning og geti þeir ekki greitt verður öll skuldin gjaldfeld með fullum kostnaði á heildarupphæðina lögtaks verður krafist og þeir miskunnarlaust reknir í gjaldþrot eigi þeir ekki fyrir skuldum. Hvern fjandann kemur okkur við þó þetta bankadrasl verði gjaldþrota. Tökum af þeim allt sem þeir eiga lausafé og eignir og eltum eigendur þeirra út yfir gröf og dauða standi eitthvað útaf með að þeir hafi átt fyrir skuld sinni við okkur.
Við sullumst svo áfram með nett sparisjóðskerfi sem nægir íbúafjölda við breiðstræti stórborar, íbúðalánasjóður sér um fasteignafárið og erlendum viðskipabanka verður velkomið að opna hér útibú ef hann vill. Álrisarnir hlaupa ekkert héðan, fiskurinn syndir áfram í hafinu þar til við veiðum hann og landið sem á það dýrmætasta af því dýrmætasta nær óþrjótandi byrgðir af hreinu drykkjarvatni getur ekki verið í neinum vanda.
Dingli, 28.6.2010 kl. 04:40
Skynsamleg grein. Það er skylda stjórnvalda að gæta hagsmuna almennings. Þar með talið að sjá til þess að hér sé starfhæft fjármálakerfi. Það er þó óvíst að hægt sé að taka mikið af þessum peningum sem Hæstiréttur gaf og dreifa til annarra með verðtryggð lán.
Það er þó ekki enn komið að því að fjármálafyrirtækin fari að hrynja. Hversu mikið stjórnvöld þurfa að beita sér án þess þó að bæta þeim tjónið af eigin trassaskap við samningagerð er enn ekki ljóst. Þangað til öll þau kurl eru komin til grafar borgar sig hins vegar ekki fyrir ríkisstjórnina að vera með neinar yfirlýsingar eða loforð. Hún verður að þola köpuryrði og eggjanir á meðan. Ég geri hins vegar ráð fyrir að þingmenn munu setja hag almennings í öndvegi þegar kemur að því að setja neyðarlögin.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 07:52
Eins og fram kemur hjá Dingla eru margir á því að bankarnir eigi að fá að dingla í þeirri snöru sem þeir hafa sjálfir smeygt um hálsinn á sér, með þvermóðsku sinni og óbilgirni gagnvart lántakendum.
Ég efast um að margir þurfi að endurgreiða vaxtabætur miðað við að þurfa aðeins að greiða samningsvexti af hinum ólöglegu lánum. Hámark vaxtagjalda til útreiknings er rúmar 900 þús. kr. samkvæmt vefsíðu Ríkisskattstjóra.
Það þarf ekki nema 30 milljón króna lán til að ná þessu hámarki, ef við gefum okkur að meðalvextir af gengistryggðu lánunum sé 3%. Held reyndar að þeir hafi yfirleitt verið hærri með álagi bankanna og þá reiknast fullar vaxtabætur af enn lægri lánsfjárhæð.
Theódór Norðkvist, 28.6.2010 kl. 08:29
Ómar: Hvað er starfhæft fjármálakerfi? Er það e. t.v. kerfi sem gerir bönkum og fjármálafyrirtækjum þeirra kleift að arðræna almenning og fyrirtæki sem aldrei fyrr? Hvernig setja svo þingmenn hag almennings í öndvegi? Verður það best gert með því að ganga gegn vilja fólksins, setja lög sem tryggja bönkum þá vexti sem þeir telja sig þurfa að fá af gjaldeyrislánunum ólöglegu svo byggja megi sem hraðast upp starfhæft fjármálakerfi öllum til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið? En yrðu slík lög öllum til hagsbóta? Væri hægt að gera e-h annað betra?
Veistu að fyrri ath. mín var ekki bara grín. Má þetta f-kerfi ekki fara í neðra og við verðum hér með netta inn- útlánabanka en Seðlabankinn sér um gjaldeyrismálin.Þeir sem vilja svo braska geta gert það á netinu í erlendum kauphöllum.
Dingli, 28.6.2010 kl. 09:44
Þetta eru ágætar vangaveltur Þór og punkturinn um vaxtabæturnar sérstaklega þó svo að ljóst sé að nánast enginn getur endurgreitt vaxtabætur nema á löngum tíma.
En, ein spurning, af hverju þegar talað er um endurgreiðslur "oftekinna vaxta" eru menn að tala um að lántakendur fái peninga til baka?
Er sammála þér um að hið oftekna megi einfaldlega draga frá til lækkunar á höfuðstóli.
Ef engir fjármunir fara úr bankanum þá einungis lækkar framtíðarvirði lánasamninga.
Efnahagsreikningur banka er eitthvað sem stöðugt er til endurskoðunar ekki satt?
Er því líklegt að endurfjármögnunar sé strax þörf vegna þessa?
Húsnæðislán eru jú flest til 30-40 ára og margt getur breyst á svo löngum tíma.
Þetta er auðvitað erfiðara viðfangs varðandi bílalán eða skammtímalán til fyrirtækja en hitt ætti að hafa lítil áhrif.
Jóhann F. Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 09:51
Það vill nú svo til að laga ákvæðin eru skýr þó svo að einhverjir séu að reyna að blekkja almenning með þvi að segja að svo sé ekki.
þú ferð rétt með endurgreíðslu ákvæðið þarna,og það hvernig bankarnir eiga að standa að endurgreiðslu til lántakenda, sem er ákvæði sem Gylfi Magnússon ætlar sér að reyna að nota gegn skuldurunum og setja það þannig upp að skuldarar eigi að greiða skv þessu. Eb sé klausan lesin er það ekki rétt.
Samningarnir eiga að standa að öðru leiti en þvi að gjaldeyristrygging er fallin úr gildi. Já það kann að vera að bankarnir eða lánafyrirtækin rúlli á hausinn í kjölfarið en so what, aldrei á æviminni áður hef ég heyrt að glæpamönnum skuli bjargað svona fyrir horn á kostnað almennings eins og Gylfi fer fram á, þessi fyrirtæki vissu af þessu 2001 og er það nú sannað og því um ásetningsbrot að ræða og ætti að svipta þau leyfi til fjármálafyrirtækjarekstur í kjölfarið.
Frysta eigur þessara fyrirtækja undir eins og fangelsa þá sem ákváðu að halda þessu til streitu þvi hér er um þjófnað uppá 100 til 200 milljarða að ræða að minnsta kosti, a.m.k er það sú upphæð sem Gylfi þykist tapa á þessu, en það á alls ekki verðlauna lánafyrirtækin fyrir þessa framkomu.
Steinar Immanúel Sörensson, 28.6.2010 kl. 12:27
Það er alltaf hægt að stofna nýjan Banka !
Steinar Immanúel Sörensson, 28.6.2010 kl. 12:28
Að mínu mati þá er lausnin í rauninni mjög einföld. Öll þessi lán verði endurreiknuð frá upphafi og reiknað eftir þeirri vaxtatölu sem upp er gefin í lánasamningi.
Byrjað verði við fyrsta afborgunardag og vextirnir endurreiknaðir eftir vaxtaprósentunni og sú krónutala dregin frá þeirri heildarupphæð sem lántakandinn greiddi þann dag. Mismunurinn af þeirri greiðslu - (það er þegar vaxtatalan hefur verið dregin frá fyrstu greiðslunni) - verði þá dreginn frá upphaflegum höfuðstóli lánsins. Útkoman er þá höfuðstóllinn sem eftir stendur og sem kemur til útreiknings við næstu afborgun. Verði sú afborgun reiknuð á sama hátt og síðan hver afborgun eftir aðra, - koll af kolli -til dagsins í dag.
Ef svo reynist við endurútreikninginn að lánsupphæðin sé að fullu greidd, þá verði allt sem umfram er endurgreitt.
Svo er það auðvitað stór spurning til viðbótar, hvort að rétt sé, - til þess að auðvelda sættir í málunum, - að kröfum um frekari greiðslur eða bætur verði sleppt, af hálfu beggja aðila.
Tryggvi Helgason, 28.6.2010 kl. 15:15
Framkoma þessara fyrirtækja gagnvart lántakendum hefur verið með þeim ósköpum að það að þau egi
enhvern "rétt á sanngjarnri lausn" er ekki til staðar.Það ólöglega á auðvitað að hverfa úr samningunum , en það sem eftir er stendur óbreitt. Nema hvað? "Hagræðing " í bankakerfinu er tímabær.
Snorri Hansson, 28.6.2010 kl. 20:59
Það eru mikil ólíkindi að endalaust koma upp klúðurmál þar sem stjórnvöld eru í aðalhlutverki. Það er greinilega langt norðan við skilning ráðherra og löggjafarings að nú sé kominn tími til að klúðurmeistarar þessarar þjóðar axli sín skinn og rölti heim til sín.
Og fari fjöruleiðina.
Fulltrúar fjármálafyrirtækja komu á fund viðskiptanefndar Alþingis og mótmæltu sig hása þegar lögin um bann við gengistryggðum lánum voru í undirbúningi.
Á þessum tíma var núverandi viðskiptaráðherra í stjórn Félags fjárfesta!! !!
Lánastofnanir létu sig engu skipta nýfest lög og lánuðu með gengistryggingu eins og enginn kæmi morgundagurinn.
Hæstiréttur úrskurðaði umrædd lán ólögmæt 9 árum eftir að þau höfðu verið sett og lánin mallað í rólegheitum allan þann tíma.
Og nú koma viðskiptaráðherra og alþingismenn með spekingssvip og þykjast tala eins og ábyrgar vitsmunaverur um viðbrögð gegn/við þessum dómi!
Kann ekkert mannkvikindi þarna inni á Alþingi að skammast sín?
Árni Gunnarsson, 28.6.2010 kl. 21:45
....ráðherra og löggjafarþings.........
Árni Gunnarsson, 28.6.2010 kl. 21:46
Viðskiptaráðherra sagði um daginn að það væri svo ósanngjarnt gagnvart lánveitendum ef samningsvextir ættu að gilda. Talaði um að það hefði orðið forsendubrestur og að þess vegna yrðu lánþegi og lánveitandi að skipta með sér tapinu. MIKIÐ ROSALEGA ER ÉG SAMMÁLA HONUM, nema það að þetta er nákvæmlega það sem Hagsmunasamtök Heimilanna hafa verið að halda fram og ég veit ekki betur en að viðskiptaráðherra hafi aldrei tekið undir þetta fyrr en nú þegar hallar á fjármagnseigendur.
Ég er vongóð um það að núna sé hann vaknaður og geti betur sett sig í spor lánþeganna sem hafa einmitt verið að kalla eftir þessari sanngirni sem hann sjálfur básúnar út um allt þessa dagana
Margrét Guðrún Jónsdóttir, 29.6.2010 kl. 00:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.