Óstjórn á Álftanesi

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í gær miðvikudag en Álftanesið er mér kært því þar á ég heima.

 

Óstjórn á Álftanesi

Staðan sem komin er upp í sveitarfélaginu Álftanesi á sér mun lengri sögu en starfstími Álftaneshreyfingarinnar við stjórnvölin. Mestu handvömmina má þó skrifa á óstjórn undanfarinna fjögurra ára.

Stjórnsýslan á Álftanesi hefur að því mér sýnist verið keimlík stjórnsýslu marga annarra sveitarfélaga. Klíkuskapur, kunningjapólitík og flokkshygli hefur oft verið tekin fram yfir heildarhagsmuni íbúana og lóðaúthlutanir, landakaup og verkkaup sveitarstjórnar oft virst undarlegar. Fimmtíu ára samfelldum valdatíma Sjálfstæðisflokksins lauk í síðustu sveitarstjórnarkosningum þar sem stjórnsýslugjörningar flokksins gengu gjörsamlega fram af fjölda Álftnesinga og kom kærkomið hlé í þá gerð stjórnmála og stjórnsýslu.

Sú staða sem er uppi núna er vissulega slæm og mikið högg á sveitarfélagið en á sér aðrar rætur. Sem kjósanda finnst mér valið nú standa á milli spillingar- og klíkustjórnar Sjálfstæðisflokks annars vegar og algerrar fjármála- og skipulagsóstjórnar Álftaneshreyfingarinnar hins vegar. Fyrir íbúana er þetta óbærileg staða og fráleitir valkostir í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Álftaneshreyfingin fékk meirhluta í síðustu kosningum út á tvennt. Mikla valdaþreytu Sjálfstæðisflokks og áherslu þeirra á nýjan miðbæ sem þeir sögðu brýnt verkefni, miðbæ sem var herfilegt skipulagsslys og í raun forljótt steypu og bílastæðakraðak. Samfara nýrri sveitarstjórn var haldið áfram með miðbæjaráformin á öðrum nótum með arkitektasamkeppni. Útkoman var glæsileg og virtust allir geta við unað.

Það sem öllu þessu sveitarstjórnarfólki var þó sameiginlegt, sama hvar það var í flokki, var sú afstaða að bráðnauðsynlegt væri að fjölga íbúum á Álftanesi. Ný hverfi voru skipulögð, golfvöllur og höfn undir fyrri stjórn, miðbær og höfn undir nýrri stjórn. Golfvöllur sem hefði eyðilagt gríðarstór útivistar- og varpsvæði og höfn sem hefði eyðilagt aðra af tveimur skeljasandsfjörum sem eftir eru á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var kallað "framfarir" og að byggja upp "öflugt sveitarfélag". Þegar sömu fulltrúar úr báðum flokkum voru svo spurðir hvað væri "öflugt sveitarfélag" varð fátt um svör. Þó var stundum vísað í að "öflugt sveitarfélag" hefði fleiri íbúa og væri því hagkvæmara.

Hér komum við að megin villunni í röksemdum sveitarstjórnarmanna á Álftanesi og margra annarra sveitarfélaga, en það er sú staðhæfing að til sé stærðarhagkvæmni í rekstri þeirra og nóg sé að fjölga bara fólki. Þetta er rangt og nægir að vísa til þess að með sömu röksemdarfærslu væru útsvar og fasteignagjöld margfalt lægri í Reykajvík en annars staðar á landinu. Fleira fólki fylgir einfaldlega meiri þjónusta, stærri og dýrari skólabyggingar, íþróttamannvirki og fleira.

Í stað þess að hlúa að því sem fyrir er fer mest af tíma sveitarstjórnarmanna í að spá í og skipuleggja ný hverfi, byggingar og vegi. Í stað þess að vera sjálfir með púlsinn á rekstri og þjónustu er ráðið inn fólk til að sjá um þá þætti, milliliðir milli sveitarstjórnar og stofnana sveitarfélagsins. Grunnþjónustan s.s. skólinn verður aukatriði og jafnvel vandamál í augum sveitarstjórnar, hvað þá tónlistarnám, leiklist, listnám og öflugt félagsstarf, einmitt þeir þættir sem mikilvægastir eru og kjörnir fulltrúar almennings ættu sérstaklega að sinna og fylgjast grannt með. Þess utan er öll skipulagsvinna, undirbúningstími og framkvæmdir gríðarlega dýr. Hér er Álftanesið ekki eitt á báti og má búast við að a.m.k. tíu önnur sveitarfélög lendi í svipaðri stöðu á næstu mánuðum. Sum hafa getað selt stórar eignir og bjargað sér fyrir horn, s.s. Reykjanesbær sem seldi Hitaveituna. En eins og segir í Draumalandi Andra Snæs, "Hvað áttu þegar þú hefur selt allt?"

Það er óneitanlega dapurlegt að horfa á sömu andlitin og ollu hruninu á Álftanesi vera nú í framboði í prófkjörum flokka sinna vegna n.k. sveitarstjórnar-kosninganna og er sem blaut tuska í andlit íbúanna. Þessum fulltrúum öllum hefur einfaldlega mistekist og þeim ber að stíga til hliðar og lýsa því yfir að þeir muni vera nýjum sveitarstjórnarmönnum til ráðgjafar en að öðru leiti haldi þeir sig fjarri stjórn sveitarfélagsins.

Árið 2008 mitt í öllu æðinu um nýjan miðbæ og aðrar gerræðislegar stórframkvæmdir voru ræddar hugmyndir um stofnun nýs afls til mótvægis við rembing sveitarstjórnar Álftaness, þverpólitísk hreyfing sem legði áherslu á umhverfismál í víðu samhengi, ekki síst félagslegt umhverfi almennings og barna m.t.t. til skólans, útivistar, opinna svæða og takmörkunum á íbúafjölgun. Af fenginni reynslu á Alþingi er nýir þingmenn ganga strax í björg flokksmaskínunnar, að nýtt vín á gömlum belgjum verður fljótt súrt, þá er það e.t.v. vænlegri leið til breytinga á áherslum að fá nýtt fólk undir nýjum merkjum til að taka þátt í mótun samfélagsins á Álftanesi.

Ef Álftnesingar taka ekki af skarið sjálfir gerir það enginn fyrir þá, ekki Garðbæingar heldur. Sameining þýðir lokun skólans fyrr eða síðar, lóðaúthlutanir til garðbæinga á fegurstu útivistasvæðum höfuðborgarsvæðisins og algert framsal allra möguleika til áhrifa á gang mála.

Þór Saari

Höfundur er þingmaður SV-kjördæmis og íbúi á Álftanesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þór !

Nefndu dæmi um eitthvað sem gengur upp þar sem þið pólitíkusarnir komið við sögu ?

Allt tóm mistök, ef það eru ekki mistök þá er það spilling í eigin þágu !

JR (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 20:02

2 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Þór.

Staðan á Álftanesi er sorglegaog þykir mér hún leið og hvernig er komið fyrir vinum mínum Álftanesingum nú sýnist mér að nokkur önnur bæjar og sveitarfélög séu að sigla í sama kjölfarið þó svo að þitt sveitarfélag sé fyrst í röðunin nú er bara að vona að það nái góðri höfn, ég bý í Hafnarfirði þar sem staðan er að verða alvarlegri með hverjum mánuði sem líður og óttinn er sá að sömu örlög bíði þessara  vinar granna, en skuldir okkar og skuldbindingar voru í árslok 2009 voru yfir 30 milljarðar króna.

Hvenær kemur sviði klásúla fyrir Hafnfirðinga eins og þessi en með öðrum tölum?

 Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga  hefur lagt til við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að Sveitarfélaginu Álftanesi verði skipuð fjárhaldsstjórn sem hafi forystu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins. Með vísan til 76. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Skuldir og skuldbindingar í árslok 2009 eru áætlaðar rúmlega 7,2 milljarðar króna.
Í skýrslu bæjarstjórnar kemur fram að þrátt fyrir tillögur um hagræðingu í rekstri, skuldbreytingu lána og niðurfellingu skuldbindinga í nokkrum mæli getur sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar. Ljóst er því að grípa þurfi til margvíslegra ráðstafana til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Telur EFS að sveitarfélagið þoli vart skuldir og skuldbindingar umfram 2-2,5 milljarða króna. Fram hefur komið að sveitarfélagið er komið í greiðsluþrot og hefur þegar fengið fyrirframgreiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að greiða brýnustu útgjöld og skammt er í næstu bráðagreiðslur.

 Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 4.2.2010 kl. 20:09

3 Smámynd: Sigrún Óskars

Þór, vildi bara minna þig á að það munaði 3 atkvæðum á Sjálfstæðisfélaginu og Á - listanum. 

Ég get ekki séð að það hafi verið minna um kunningjapólitík s.l. 4 ár (einn nett dæmi sem tengist að vísu ekki peningum: íþróttamaður ársins eitt árið var í bæjarstjórn fyrir Á-listann).

Það sem mest hefur farið í taugarnar á mér er þessi "sandkassaleikur" sem leikinn hefur verið - og eins og þú segir þá hafa hagsmunir íbúanna ekki verið hafðir að leiðarljósi. Versti leikurinn er "þú mátt ekki koma nálægt minni lóð" leikurinn, sem hefur kostað okkur Álftnesinga "helling".

Annars margir mjög góðir punktar hjá þér Þór.

Sigrún Óskars, 4.2.2010 kl. 22:17

4 Smámynd: Huckabee

Er þetta ekki allt sami dýrgarðurinn rétt eins og skerið í samfélagi landana.Getur verið að þjóðin sé ein vitlausasta á byggðu bóli ? Landnemar eyddu gróðri ,fiskimið ryksuguð,náttúru lands fórnað fyrir ódýra raforku til erlendrar notenda  loks er kom smá lánstraust þá var tekinn snerra og allt þurrkað upp í hvelli  og gáfu fáir eftir .Eina framtak þjóðarinnar er að fara á svig við gjaldeyris reglur og er engin maður með mönnum á landinu án þess að hann er að taka heim í töskum íslensk seðlabúnt eftirlit lítur í aðra átt.

Hvort er verra að klíkukóngar í Garðabæ eða Álftanesi  að útdeila gæðingum lóðir. Þór Álftanes er engin paradís,sjálfur gafst ég upp á óþverraskapnum í samfélaginu fyrir meira en áratug  og fann mér nýtt land til vistar þar sem þjóðgarðar er háfriðaðir og ekki vistheimili fyrir aflóga póltítukusa.

Gangi þér og hreyfingunni sem allra best í siðbótinni afrek Vilmundar kom ekki fram fyrr en löngu eftir ótímabært andlát hans reynið að standa saman rétt sona í virðingarskyni fyrir kjósendur flokksins hann hefði verið eina úrræðið  fyrir mig að kjósa ef ég væri í færi til  en passaðu að Birgitta sé ekki að eyða tíma í heimskuleg viðtöl við erlenda miðla skilaboðin eru óskýr og fáir í útlandinu sem hafa áhuga á innansveitarkrónikum smálanda  

Huckabee, 5.2.2010 kl. 02:34

5 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Mér er málið pínulítið skylt að því leiti að systir mín hefur lengi búið þarna og nú afkomendur hennar ásamt fjölskyldum.

Fyrst var þetta dálítið fyndið fyrir nokkrum árum þegar hún var að lýsa þessu fyrir mér að það væri varla hægt að kjósa því báðir listarnir sem í framboði voru, voru bara engan vegin frambærilegir. Sumir sögðu samansafn af hálfvitum. Ég veit ekki hvað hún systir mín kaus. Nú er þetta bara orðið sorglegt.

Á kjörtímabilinu kom fljótlega í ljós hver undarlegheitin á fætur öðru. Fáránlega dýr öldusundlaug, misbeiting valds í lóðamálum, og annað sem ekki er ástæða til að telja upp hér.

Það sorglega og undarlega er að álftnesingum hefur alls ekki borið gæfa til þess að losa sig við þá einstaklinga sem greinilega hafa reynst óhæfir til að stýra sveitarfélagi.

Sömu einstaklingar birtast og bjóða sig fram til áframhaldandi vitleysu þó þeir hafi frammi fyrir alþjóð orðið sér til ævarandi skammar um alla tíð fyrir einstaka vanhæfni í stjórnun sveitarfélags. Enginn þessarra einstaklinga ættu að bjóða sig fram en sökum einhvers sem virðist vera annað hvort siðblinda eða bara heimska þá bjóða þessir vanhæfu einstaklingar sig fram aftur.

Á Álftanesi þurfa kjósendur að hafa vit til að hafna báðum þeim kosningabandalögum sem búin eru að koma sveitarfélaginu í gjaldþrot.

Númer eitt er að hafna einstaklingunum í prófkjkörum, númer tvö er að hafna þeim í kosningum.

Þarna þarf að bjóða fram þriðja kostinn, hæfa einstaklinga til að stjórna sveitarfélagi.

Aðalatriðið er að nota kosningaréttinn af ábyrgð og réttsýni en ekki flokkshollustu og heimsku.

Baldvin Björgvinsson, 5.2.2010 kl. 08:48

6 Smámynd: Sigrún Óskars

Vil koma leiðréttingu á framfæri v/ kosningu á íþróttamanni ársins "eitt árið" - hann var tilnefndur - ekki kosinn! Bið svo afsökunar á þessum misskilingi hjá mér. (Þessi umræða teygði sig inná einkapóstinn minn og svara ég honum hérna.)

Sigrún Óskars, 5.2.2010 kl. 17:41

7 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Sammála þessu: "Hér komum við að megin villunni í röksemdum sveitarstjórnarmanna á Álftanesi og margra annarra sveitarfélaga, en það er sú staðhæfing að til sé stærðarhagkvæmni í rekstri þeirra og nóg sé að fjölga bara fólki."

Hér í Kópavogi var keyrt á þessa stefnu. Helst átti að klára allt framtíðarbyggingarland Kópavogs á kjörtímabilinu. Svo þegar þessi stefna var gagnrýnd af Samfylkingunni þá svaraði Gunnar Birgisson:

"Samfylkingin er á móti uppbyggingu í Kópavogi"

Nú er Kópavogur líka í fjármálalegri gjörgæslu líkt og Álftanes.

Sigurður Haukur Gíslason, 6.2.2010 kl. 10:53

8 Smámynd: Álftaneshreyfingin

Óstjórn á Álftanesi, fullyrðir Þór Saari þingmaður

Mér er málið skylt og þar sem ég er þingmanninum ósammála vil ég svara honum. Ég lagði af heilum hug hönd á plóg með Álftaneshreyfingunni í tilraun til að snúa samfélaginu úr þröngri stöðu til betri vegar. Strax í upphafi, 2006, var ljóst að reglubundnar tekjur sveitarsjóðs dugðu vart fyrir kostnaði af þjónustu við íbúana. Svigrúm til framkvæmda var aðeins fengið með því að selja eignir eða taka lán og flestar eigur sveitafélagsins höfðu þá þegar verið seldar. Þar sem íbúafjöldi á Álftanesi hafði vaxið dæmalaust hratt árin á undan og enn var framundan fyrirsjáanleg fjölgun, þá þurfti að stækka grunnskólann og bæta við rekstur leikskóla, koma upp aðstöðu fyrir íþróttaiðkun, byggja þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara og almenna félagsstarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Sumar af þessum framkvæmdum voru reyndar þegar í undirbúningi eða að ljúka. Án þess að eyða púðri í deilur um hver ákvað hvað og hvenær, þá er flestum ljóst að vandi sveitarfélagsins helltist ekki yfir sveitarfélagið á einu kjörtímabili. En skellurinn kom með bankahruninu þegar lánin bólgnuðu og forsendur góðra áforma brustu. Þá dró úr líkum á að stefna Álftaneslistans næði að uppfylla væntingar um betri tíð með blóm í haga.

Steininn tók úr er kvarnaðist úr liði meirihlutans og þegar oddviti nýs meirihluta lýsti því yfir að sveitarfélagið væri “tæknilega gjaldþrota” voru skuldir sveitarfélagsins nánast samstundis gjaldfelldar og tekjur afskrifaðar. Með því var nánast séð til þess að viðsnúningurinn sem Álftaneslistinn stóð fyrir og róðurinn móti straumnum undanfarin ár yrði til lítils. Nýr meirihluti, sem hefur ákveðið að leggja árar í bát um leið og hann tók við, virðist ætla að gera endanlega út um að framtíðardraumar Álftnesinga verði hljómur einn. En framtíðarsýnin, sem Álftnesingar völdu árið 2006, er engu að síður þess virði að verja hana og styðja með ráði og dáð. Í megindráttum gengur hún út að leggja rækt við það góða samfélag sem fyrir er og nýta þá sérstöðu sem Álftanes hefur upp á að bjóða á höfuðborgarsvæðinu til atvinnu í byggðarlaginu. Það tryggir verndun þeirrar fjölbreyttu og spennandi náttúru, sem helst í hendur við víðáttumikil opin svæði sem henta til útivistar og er viðeigandi umhverfi fjölda minna um sögu Íslendinga frá þjóðveldi til lýðveldis og forsetasetrinu á Bessastöðum. Við í Álftaneslista höfum ekki lagt okkar síðasta orð inn í baráttuna um þessa framtíðarsýn.

Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er vissulega slæm, en ekki má gleyma að mestu máli skiptir að hverju verður stefnt. Hvaða póstnúmer verður á bréfunum sem er dreift í húsin er annað mál. Í fyrsta umgangi er rétt að fara í saumana á reiknireglum Jöfnunarsjóðs og lögboðnar skyldur ríkisins. Öðruvísi verður Álftnesingum ekki tryggð sanngjörn meðferð sinna mála. Síðan má skoða möguleika til að hagræða rekstur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim efnum er augljóslega margt aðkallandi og því væri fásinna að mæla gegn gagngerri endurskoðun, en það á ekki að rugla þessum málum saman.

Þór Saari er ekki sómi af að slá um sig, eins og hann gerir í grein sinni í Mbl 3. febrúar. Þar með tekur hann sér stöðu með fölmörgum öðrum sem mála skrattann á vegg. Vissulega er af hinu góða að benda á galla hjá forystumönnum, en það þarf að vera vel rökstutt og gert af sanngirni í stað þess að ala á misskilningi með sleggjudómum og rangfærslum. Það er heldur ekki vænlegt að rífa bara niður án þess að koma með álitlegar lausnir. Skrif Þórs bera annað hvort vitni um að hann er illa upplýstur um viðkomandi málefni Sveitarfélagsins Álftaness, eða að hann bregður fyrir sig lýðskrumi á kostnað sveitunga sinna. Ef hann og aðrir kjósendur á Álftanesi eru óánægðir með alla þá sem bjóða fram krafta sína í sveitarstjórn þá eru þeir kostir í stöðunni að annað hvort finna aðra hæfari einstaklinga sem vilja annast verkin eða beita sér fyrir breytingu á því sem fyrir er. Innantómar fullyrðingar um að Álftaneslistinn hafi brugðist kjósendum sínum er jafn vitrænt og að berja tóma tunnu. Ég fullyrði að unnið var af heilindum að þeim markmiðum sem kynnt voru fyrir kosningarnar, enda hefur ekki verður sýnt fram á annað. Áformin voru upp á borði og ekki reynt að fela að þau kostuðu þá fjárhagslegu áhættu sem fylgir lántökum. Á móti lánum var gert ráð fyrir tekjum í því sem talið var fyrirsjáanleg framtíð. Þjóðin veit hvernig það fór og því miður er að koma í ljós að fleiri hafa bitið í það súra epli og eiga nú í vök að verjast. Einustu svik Álftaneslista við kjósendur eru þau að tveir bæjarfulltrúar sem Álftaneshreyfingin treysti til að taka sæti á framboðslista sínum ákváðu að fara aðra leið. En landslög leyfa slíkt og því fæst ekki við það ráðið, sama þótt um augljósa brotalöm sé að ræða í þeirri blöndu af lýðræði og flokksræði sem við búum við. Þór og bloggvinir hans eru greinilega í hópi með þeim sem eru óánægðir. Ef þessir einstaklingar eru jafn yfirburðagreindir og látið er í veðri vaka í bloggskrifunum (jafnvel í skjóli nafnleyndar), þá hefði fyrir löngu átt að vera kominn fram valmöguleiki sem dygði til úrbóta.

Það var ekki óstjórn sem hrjáði samfélagið á Álftanesi, en samfélagið hefur á yfirstandandi kjörtímabili liðið fyrir ómálefnaleg átök milli fylkinga sem deila eftir línum stjórnmálaflokka líkt og á Alþingi. Í því er Þór enginn aukvisi heldur. Þór væri meiri sómi af að beita sér á þingi fyrir málstað Álftnesinga og stuðla að því að þeir fái sanngjarna meðferð sinna mála af hálfu ríkisins. Ekki væri verra að hann fjallaði um það í fjölmiðlum líka. Sjá má á vefsíðunni www.alftanes.net hvaða stefnumál Álftaneslistinn setti fram og forvitnilegt er að skoða samhljóminn í þeirri framtíðarsýn og Aðalskipulagi Álftaness 2005 – 2024.

Álftaneshreyfingin hefur ávallt hvatt íbúana til þátttöku í samfélagslegum viðfangsefnum. Þá sýn eigum við sameiginlega með Þór. Sama má segja um stefnu í náttúruvernd. En, kjósendur völdu Álftaneshreyfinguna til forystu m.a. til að endurvinna deiliskipulag fyrir miðsvæðið og höfnuðu því sem þá var nýbúið að samþykkja af fyrri meirihluta. En með fyrra skipulaginu erfðust miklar kvaðir um byggingamagn auk þess sem þurfti að sjá til þess að með lóðarsölu fengist fé til að greiða niður lán sem tekin voru þegar landspildan var keypt af fyrri eigendum. Við bankahrunið varð svo alger forsendubrestur hvað áform í fjárhagsmálum varðar, ekki ósvipað því sem margt ungt fólk upplifði eftir að hafa keypt húsnæði fyrir nýstofnaða fjölskyldu sína, fjárfestingar sem því var sagt að það myndi ráða vel við að borga niður miðað við launatekjur og framtíðarspár lánastofnanna. Kallast það fyrirhyggjuleysi og óstjórn?

Ef valkostur hefði verið í boði árið 2006, með sannfærandi áformum um eitthvað svipað og Álftaneshreyfingin setti fram, utan þess sem kalla má útþenslu, þá er aldrei að vita nema ég hefði hrifist og gefið mitt atkvæði. En hverjum gagnast að tala aðeins um glötuðu tækifærin og hvað allt er ömurlegt og leggja til óskilgreinda endurmönnun í brúnni. Þá vel ég fremur að standa áfram fyrir góðri framtíðarsýn og vinna að settu marki. Álftaneshreyfingin er óháð samtök og öllum frjálst að vinna innan þeirra til að marka framtíð Álftaness með lýðræðislegum umræðum og ákvörðunum. Ég hvet því alla til að kynna sér Álftaneshreyfinguna sem vettvang bæjarmála og afla sér upplýsinga um hvað þau hafa staðið fyrir áður en rokið er til að stofna ný samtök sem yrðu líklega afar svipuð.

Fundur Álftaneshreyfingarinnar 1. febrúar ákvað að bjóða á ný fram fulltrúa á Á-lista við sveitarstjórnakosningarnar í maí. Undirbúningur er hafinn, en hreyfingin hvetur alla sem vilja leggja sitt af mörkum fyrir gott samfélag og varðveislu sérkenna Álftaness á höfuðborgarsvæðinu til að gefa sig fram og taka þátt í mótun framboðslistans og baráttumála á stefnuskrá hans. Netfang Álftaneshreyfingarinnar er alftaneshreyfingin@gmail.com og öllum viðeigandi tölvupósti mun verða svarað.

Álftaneshreyfingin, 6.2.2010 kl. 16:28

9 Smámynd: Þór Saari

Hér skrifar Álftensingur og ég fagna því.  Ég studdi og kaus Álftaneshreyfinguna einmitt vegna þess sem hún boðaði og er sammála Álftensing að hún hefur gert margt gott.  Hana bar hins vegar illilega af leið og gerði mikil mistök sem hafa gert það að verkum að sveitarfélagið er komið í greiðsluþrot og verður því sennilega sett utanaðkomandi fjárhaldsstjórn. Hjá því hefði mátt komast ef seglin hefðu verið rifuð fyrr en hér réði blind framkvæmdagleði af sama meiði og hjá um tíu öðrum sveitarfélögum sem munu fylgja í kjölfarið. Botnlaus útþensla var einfaldlega stefnan og komið hefur í ljós að hún gekk ekki upp.Það hvílir ábyrgð á Álftaneshreyfingunni að koma með nýjar lausnir og af samtölum mínum við fólk þar á bær er þess ekki að vænta. Menn benda fingri hver á annan í báðum fylkingum og bjóða svo sjálfa sig fram aftur, í stað þess að benda fram á við. Það er einfaldlega þörf á nýju fólki undir nýjum merkjum ef á að rætast hér úr.Hvað varðar ósk Álftnesings um lausnir frá mér þá hefur Álftaneshreyfingin hingað til einfaldlega ekki verið til viðræðu um þær, enda snúast þær um vernd náttúrunnar og umhverfisins en það virðist vera meira gaman að byggja, og það ekkert smá, heilan miðbæ, og það á Álftanesinu, og höfn líka. Við höfum einfaldlega ekkert, ég endurtek ekkert við miðbæ eða höfn að gera. Tilbúnir gervimiðbæir hafa alls staðar brugðist, sjáið bara Seltjarnarnes, Garðabæ, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ og Kópavog.

Álftanesið hefur algera sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu vegna einstæðs umhverfis og nú hefur komið í ljós að báðar fylkingar í pólitíkinni vilja gera Álftanesið að enn einu hefðbundnu úthverfi Reykjavíkur í stað þess að vernda sérstöðuna. Að mínu mati er það röng stefna og vonandi eru nægilega margir Álftensingar sammála mér í því til að hér verði breyting á.

Þór Saari, 6.2.2010 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband